Hæstiréttur íslands

Mál nr. 580/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                     

Föstudaginn 28. október 2011

Nr. 580/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stæði var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. október 2011 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. nóvember 2011 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 26. október 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. nóvember nk. kl. 16:00. Þá er þess einnig krafist að tilhögun gæsluvarðhaldsins verði samkvæmt b- til e- lið 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að þann 20. október sl. hafi kærða í málinu, X, ásamt meðkærðu sem jafnframt sé dóttur hennar, Y, verið staðin að þjófnaði í verslun [...] í Smáralind í Kópavogi. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi fljótlega komið í ljós að þær mæðgur hafi einnig verið með í vörslum sínum fatnað úr tveimur öðrum verslunum sem grunur hafi verið á að væri þýfi. Heildarverðmæti þess fatnaðar sem kærðu höfðu meðferðis hafi verið 204.539 krónur.

Við frumrannsókn málsins hafi vakið sérstaka athygli lögreglu að hið ætlaða þýfi hafi verið geymt í poka sem hafði verið sérstaklega útbúinn til að koma í veg fyrir að þjófavarnarkerfi verslana myndu nema innihald hans. Hafi pokinn verið úr pappír en búið hafi verið að fóðra hann að innan og líma með álpappír í umræddum tilgangi. Aðferðir kærðu við þjófnaðinn, auk verðmæti ætlaðs þýfis, hafi því strax gefið lögreglu vísbendingar um að skipulagða glæpastarfsemi gæti verið um að ræða. Í ljósi þessa og að kærðu hafi áður komið við sögu hjá lögreglu vegna þjófnaðarbrota hafi lögregla talið að ástæða væri til að leita á heimili kærðu og hafi því verið óskað eftir úrskurði þess efnis hjá héraðsdómi Reykjavíkur þann 21. október sl. og hafi dómurinn fallist á kröfu lögreglu. Við leit samdægurs í húsnæði kærðu við [...]  hafi lögregla lagt hald á mikið magn fatnaðar sem sterkur grunur sé á að hafi verið stolið úr verslunum, en flíkur á vettvangi hafi flestar ennþá verið með merkimiða áfasta eða í svo góðu ástandi að líklega hafi verið að um nýjar flíkur að ræða. Í íbúðinni hafi einnig fundist 21 kannabisplanta í sérútbúnu herbergi ætluðu til ræktunar. Síðar sama dag hafi verið farið í húsleit á heimili meðkærðu, Y og A, við [...]. Hafi þar einnig fundist talsvert magn af fatnaði sem lögreglu gruni af sömu ástæðum að sé þýfi.

Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði viðurkennt þjófnað hennar og meðkærðu á fatnaði í verslunum í Smáralind, auk þess sem hún hafi viðurkennt að hafa staðið að ræktun kannabisplantna á heimili sínu. Að yfirheyrslum loknum hafi báðar kærðu verið frjálsar ferða sinna.

Í gær, 25. október, hafi kærða verið boðuð aftur í skýrslutöku. Að henni lokinni ákvað lögregla að leita aftur í húsnæði hennar að [...] í þeim tilgangi að leggja hald á tölvur sem hafi verið í hennar eigu. Við leitina hafi aftur fundist mikið magn fatnaðar sem ekki hafi verið í íbúðinni þegar lögregla leitaði fyrst fjórum dögum áður, en sami grunur hafi komið upp að hér væri um þýfi að ræða, enda mikið af fatnaðinum enn með merkimiða áfasta. Haldlagðar vörur hafi fyllt 30 svarta ruslapoka og þrátt fyrir að erfitt sé að meta heildarverðmæti þeirra telur lögregla að áætlað verðmæti sé á milli 10-15 milljónir króna, enda um dýrar merkjavörur að ræða. Í íbúðinni hafi einnig fundist talsvert magn reiðufjár eða sem nemi 477.995 krónum. Í gær hafi einnig verið leitað aftur í húsnæði meðkærðu við [...] og þar hafi aðstæður verið með sama hætti, þ.e. við leitina hafi fundist mikið magn (10 pokar fylltir) af nýjum fatnaði sem ekki hafi verið í íbúðinni við fyrri leit lögreglu.

Með tilliti til þessa telji lögregla líklegast að annað hvort séu umræddar íbúðir notaðar sem tímabundið geymslupláss fyrir afrakstur skipulagðrar þjófnaðarstarfsemi eða að kærðu hafi haldið þjófnaðariðju sinni áfram yfir helgina með þeim árangri sem síðari húsleitir lögreglu leiddu í ljós. Hvað sem því líði bendi umfang málsins til að fleiri aðilar en kærðu í málinu séu viðriðnir málið og hafi lögregla sterkan grun um að svo sé.

Rannsókn málsins sé á frumstigi og ljóst af umfangi þess að töluverð vinna sé framundan hjá lögreglu við það eitt að rekja slóð þýfisins. Þá telji lögregla að þessir þrír aðilar kunni að hafa átt sér samverkamenn í þessum þjófnuðum þar sem magn þýfisins sé það mikið. Eftir sé að rannsaka þátt hvers og eins í þessum þjófnuðum og með hvaða hætti hann hafi verið skipulagður. Auk þess gruni lögreglu að meira þýfi kunni að leynast í öðrum húsakynnum sem kærðu kunni að hafa haft aðgang að og loks þurfi að yfirheyra sakborninga frekar eftir því sem rannsókn málsins miði áfram og það skýrist frekar.

Þar sem málið sé enn á viðkvæmu stigi og hætta á að kærða muni torvelda rannsókn málsins gangi hún laus, telur lögreglan nauðsynlegt að hún fái nokkurra daga svigrúm til að rannsaka málið frekar.

Að dómi lögreglu liggur fyrir rökstuddur grunur um að kærða hafi framið verknað sem varðar allt að 6 ára fangelsisrefsingu. Er í því efni vísað til 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um sakamála nr. 88/2008, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Eins og rakið er í greinargerð lögreglu og framlögð gögn bera með sér er fram kominn rökstuddur grunur um að kærða hafi gerst sek um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Kærða hefur þegar játað sök. Engu að síður má taka undir það með lögreglu að rannsókn málsins sé á frumstigi og að kærða geti torveldað rannsókn málsins, gangi hún laus, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Er því fullnægt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, til þess að kærða sæti gæsluvarðhaldi, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Með sömu rökum er fallist á að kærða sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. b- liður 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.  

Úrskurður:

Kærða, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. nóvember nk. kl. 16:00. Kærða sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.