Hæstiréttur íslands
Mál nr. 565/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 30. október 2006. |
|
Nr. 565/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til föstudagsins 8. desember 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skilja verður kröfugerð varnaraðila svo að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að X, [kt.], óstaðsettur í hús í Kópavogi, verði á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi frá lokum þess gæsluvarðhalds sem hann nú sætir, sem lýkur í dag kl. 16:00, uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 8. desember 2006 kl. 16:00
Í greinargerð lögreglunnar segir að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi úrskurðað X í gæsluvarðhald að kröfu lögreglunnar þann 15. september 2006 á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 (oml). Kærði hafi kært úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar sem hafi staðfest hann með vísan til forsendna með dómi 499/2006.
Kærði hafi nú þegar sætt gæsluvarðhaldi í 6 vikur. Á meðan á gæsluvarðhaldstíma hafi staðið hafi lögregla unnið að því að ljúka rannsókn mála, safna saman málum frá öðrum lögregluembættum og gefa út ákæru. Héraðsdómur Reykjavíkur hafi í dag móttekið ákæru lögreglustjórans í Reykjavík þar sem X sé ákærður fyrir 2 nytjastuldi, 5 þjófnaðarbrot, 4 tilvik skjalafals, 2 tilvik fjársvika, fjölda umferðarlagabrots og fíkniefnalagabrota.
Þess sé nú beðið að ákæra þessi verði þingfest fyrir héraðsdómi og hafi lögreglustjóraembættið óskað eftir því við dómstólinn að málinu verði flýtt svo sem unnt sé.
Kærði hafi skv. sakavottorði langan sakarferil. Hann hafi margsinnis verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og sérrefsilögum og hlotið marga óskilorðsbundna refsidóma. Hann hafi síðast hlotið dóm fyrir héraðsdómi Reykjaness þann 10. apríl 2006 þar sem hann hafi verið dæmdur til greiðslu sektar fyrir ölvunarakstur. Þá hafi hann hlotið dóm þann 29. nóvember 2001 fyrir Hæstarétti þar sem hann hafi verið dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir líkamsárás (2. mgr. 218. grl hgl.) og tilraun til þjófnaðar og jafnframt dóm þann 26. október 2000 fyrir Hæstarétti þar sem hann hafi verið dæmdur í 4 ára fangelsi fyrir þjófnaðarbrot. Kærða hafi verið veitt skilorðsbundin reynslulausn á 900 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar þann 18. október 2005. Öll þau brot sem kærði sé ákærður fyrir í ákæru lögreglustjóra dags. í dag séu framin eftir 18. október 2005 og myndu vera dæmd sem skilorðsrof.
Héraðsdómur og Hæstiréttur hafi þegar fallist á að skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. oml séu fyrir hendi og því verði að telja að enn séu lagaskilyrði til áframhaldandi gæsluvarðhalds. Að mati lögreglu sé mikilvægt að orðið verði við kröfu hennar svo að unnt verði að ljúka meðferð mála hans fyrir dómi og jafnframt að koma í veg fyrir frekari afbrot hans.
Kærði sé grunaður um fjölda brota gegn 155. gr., 244. gr., 248. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og brota gegn umferðarlögum nr. 50, 1987 og lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974.
Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19, 1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé fram sett.
Fyrir liggur að kærði á að baki langan sakarferil. Ákæra hefur verið gefin út á hendur honum fyrir nytjastuld í tveimur tilvikum, 5 þjófnaðarbrot, skjalafals í 4 tilvikum, fjársvika í tveimur tilvikum, fjölda umferðarlagabrota og fíkniefnalagabrota. Verður mál á hendur honum þingfest nú í dag. Brot þau sem hann er ákærður fyrir geta varðað hann fangelsisrefsingu. Honum var veitt reynslulausn á 900 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar 18. október 2005 en brot þau sem hann hefur verið ákærður fyrir eru framin eftir þann tíma. Sakarferill kærða er slíkur að ætla má að hann muni halda áfram brotum á meðan málum hans er ekki lokið, fari hann frjáls ferða sinna. Með vísan til þessa verður krafa lögreglustjóra tekin til greina eins og hún er fram sett sbr. c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
X, [kt.], sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 8. desember 2006 kl. 16:00