Hæstiréttur íslands
Mál nr. 123/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Fimmtudaginn 5. apríl 2001. |
|
Nr. 123/2001. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Magnús Björn Brynjólfsson hdl.) |
Kærumál. Farbann.
X kærði þá ákvörðun héraðsdóms að banna honum för frá Íslandi allt til 2. júlí 2001. X var sakaður um að hafa ráðist á karlmann og veitt honum tvö stungusár með hnífi. X, sem var af erlendu bergi brotinn, var atvinnulaus og átti ekki fjölskyldu hér á landi. Þá báru gögn með sér að hann hefði um nokkurn tíma haft hug á að halda af landi brott. Fallist var á að nauðsynlegt væri að tryggja nærveru hans til að ljúka mætti rannsókn málsins og taka ákvörðun um hvort af saksókn yrði. Ekki var ráðið af gögnum málsins að óþarfa tafir hefðu orðið á rannsókn þess. Voru því talin fyrir hendi skilyrði til að neyta heimildar í 110. gr. laga nr. 19/1991 til að banna X för úr landi. Var hin kærða ákvörðun því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. apríl 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2001, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi allt til mánudagsins 2. júlí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun héraðsdómara verði staðfest.
Varnaraðili var handtekinn 5. janúar 2001, grunaður um að hafa fyrr þann dag ráðist á Redouane Adam Anbari fyrir utan veitingastaðinn Hróa Hött í Faxafeni í Reykjavík og veitt honum tvö stungusár með hnífi. Varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi af þessum sökum til 9. febrúar 2001, en með ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 12. sama mánaðar var honum að kröfu sóknaraðila bönnuð för úr landi allt til 2. apríl sl. Sú ákvörðun var staðfest með dómi Hæstaréttar 16. febrúar 2001. Sóknaraðili krafðist þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 2. apríl sl. að varnaraðila yrði bönnuð för úr landi allt til 2. júlí 2001. Var sú krafa tekin til greina með hinni kærðu ákvörðun.
Varnaraðili er af erlendu bergi brotinn og hefur hvorki atvinnu né fjölskyldu hér á landi. Í málinu liggja fyrir gögn, sem hníga að því að hann hafi um nokkurn tíma haft hug á að halda af landi brott. Verður að fallast á með sóknaraðila að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru varnaraðila til að ljúka megi rannsókn málsins og taka ákvörðun um hvort af saksókn verði. Þótt málið hafi nú verið til rannsóknar um þriggja mánaða skeið verður ekki ráðið af gögnum þess að á henni hafi orðið óþarfa tafir. Samkvæmt þessu eru fyrir hendi skilyrði til að neyta heimildar í 110. gr. laga nr. 19/1991 til að banna varnaraðila för úr landi. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.
Dómsorð:
Hin kærða ákvörðun er staðfest.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2001.
Ár 2001, mánudaginn 2. apríl, er dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur háð í Dómhúsinu við Lækjartorg af Arngrími Ísberg héraðsdómara.
Tekið er fyrir: Mál nr. R-147/2001. Krafa lögreglunnar í Reykjavík um að X verði gerð að sæta áfram farbanni.
Kl. 11.30 kemur í dóminn Elín Vigdís Hallvarðadóttir, fulltrúi lögreglustjóra, og leggur fram kröfu þess efnis, að X, [...], verði gert að sæta áfram farbanni, allt til 2. júlí 2001.
Lagt er fram:
Nr. 1 Krafa um farbann.
Rannsóknargögn málsins liggja frammi.
Kl. 11.30 mætir í dóminn kærði, X, [...]. Með honum mætir Magnús Brynjólfsson hrl., skipaður verjandi kærða.
Einnig er mættur í dóminn sem túlkur Omar Samir sem þýða mun fyrir kærða það sem fram fer í þinghaldinu.
Kærða er bent á að honum sé óskylt að svara spurningum sem varða brot það sem honum er gefið að sök, sbr. 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991 og er kærði ennfremur áminntur um sannsögli, sbr. 1. mgr. 33. gr. sömu laga. Honum er jafnframt bent á að honum sé heimilt að ráðfæra sig við skipaðan verjanda á meðan á þinghaldi stendur, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 19/1991.
Kærða er kynnt krafan á dskj. nr. 1. Kærði mótmælir kröfu um áframhaldandi farbann.
Kærði kveðst neita sök í málinu og vísar í fyrri framburð sinn hjá lögreglu og fyrir dómi.
Upplesið og þýtt, staðfest.
Fulltrúi lögreglustjóra ítrekar kröfu um farbann, vísar í gögn málsins og rökstyður kröfu sína. Hann upplýsir að kærði muni sæta geðrannsókn en hún sé ekki hafin.
Verjandinn ítrekar mótmæli kærða við kröfunni en krefst þess til vara að farbanni verði markaður mun skemmri tími en krafist er. Hann upplýsir að kærði sé nú til meðferðar hjá læknum og hann hafi engan hug á því að fara úr landi enda hafi hann ekki að neinu að hverfa erlendis.
Krafan er lögð í úrskurð eða ákvörðun dómara
Upplesið og þýtt, staðfest. rétt bókað.
Í dóminum er nú skv. 110. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 tekin svohljóðandi
ákvörðun
Kærða, X, er bönnuð för frá Íslandi. Bann þetta stendur allt til 2. júlí 2001, nema öðru vísi verði ákveðið.