Hæstiréttur íslands
Mál nr. 520/2002
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Varanleg örorka
- Almannatryggingar
- Stjórnarskrá
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 18. september 2003. |
|
Nr. 520/2002. |
Grazyna Katarzyna Wolczynska(Björn L. Bergsson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Varanleg örorka. Almannatryggingar. Stjórnarskrá. Gjafsókn.
G varð fyrir vinnuslysi 9. júlí 1999. Ekki var ágreiningur í málinu um bótaskyldu og hafði T greitt bætur vegna slyssins sem G taldi ekki fullnægjandi. Í málinu var deilt um túlkun á 1. málslið 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eftir að greininni var breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999. Féllst Hæstiréttur á það að ákvæðið fæli í sér að draga skyldi frá bótagreiðslu uppreiknað eingreiðsluverðmæti bóta af félagslegum toga og yrði það ekki gert með öðrum hætti en að taka mið af því hvernig mál tjónþola standi á þeim tíma sem hann gæti ekki vænst frekari bata. Reglan þótti sett með stjórnskipulega réttum hætti, með jafnræði tjónþola í huga og með það að markmiði að fjárhagsskaði tjónþola yrði að fullu bættur. Því væri reglan hvorki andstæð 65. gr. né 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 21. nóvember 2002. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 7.386.884 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 9. júlí 2000 til 12. janúar 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 874.418 krónum sem stefndi greiddi 25. febrúar 2002 og 185.263 krónum sem hann greiddi 10. september 2002. Til vara krefst hann þess að skaðabætur verði ákveðnar 5.445.732 krónur með vöxtum og frádrætti svo sem greinir í aðalkröfu og loks til þrautavara að þær ákveðist 2.399.165 krónur með sömu vöxtum og frádrætti. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Áfrýjandi hefur gjafsókn fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn falla niður.
Málsatvik eru rakin í héraðsdómi. Áfrýjandi varð fyrir slysi við vinnu sína hjá Skelfiski hf. á Flateyri 9. júlí 1999. Atvik að slysinu eru óumdeild og hefur stefndi viðurkennt skaðabótaskyldu fyrir hönd vinnuveitandans og gert upp við áfrýjanda á grundvelli útreiknings tryggingafræðings, sem hann telur réttan. Áfrýjandi sættir sig hins vegar ekki við uppgjörið og deila aðilar um það hvernig fara skuli með frádrátt frá skaðabótakröfu samkvæmt 1. málslið 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eftir breytingu sem gerð var með 4. gr. laga nr. 37/1999. Ákvæðið varðar frádrátt vegna framtíðargreiðslna úr almannatryggingum. Deilt er um hvernig skýra skuli ákvæðið og jafnframt telur áfrýjandi að það standist ekki 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Í 6. gr. skaðabótalaga, eins og henni var breytt með 5. gr. laga nr. 37/1999, er mælt fyrir um hvernig meta skuli varanlega örorku til fjárhæðar á grundvelli örorkustigs tjónþola, árslauna hans og margfeldisstuðuls sem þar er ákveðinn. Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 37/1999 er því lýst, svo sem í héraðsdómi greinir, að stuðull þessi sé annars eðlis en áður gilti samkvæmt skaðabótalögum og sé við það miðaður að tjónþoli fái að fullu bætt tekjutap sitt vegna varanlegrar örorku. Vegna þessa sé miðað við að til frádráttar komi greiðslur af félagslegum toga.
Með greindum ákvæðum skaðabótalaganna er leitast við að bæta áætlað framtíðartjón tjónþola. Útreikningurinn er reistur á örorkustigi hans á þeim tíma sem upphaf örorkunnar miðast við og tekjum fyrir slysdag, en staðlaður að öðru leyti. Samkvæmt orðalagi ákvæðis 4. mgr. 5. gr. laganna og greindum lögskýringargögnum verða lögin ekki öðruvísi skýrð en að miða beri framtíðarfrádrátt vegna greiðslna af félagslegum toga við þann tíma sem tjónþoli geti ekki vænst frekari bata. Verður það ekki gert nema mið sé tekið af því hvernig mál tjónþola standa á þeim tíma og ætla út frá því hvernig mál þróist í framtíðinni samkvæmt meðaltalslíkindareglu. Lögin eru sett með stjórnskipulegum hætti með það í huga að fjárhagsskaði tjónþola verði fullbættur og samkvæmt þeim er farið eins með alla tjónþola, sem eins háttar til um að þessu leyti.
Að þessu athuguðu en að öðru leyti með skírskotun til röksemda héraðsdóms ber að staðfesta hann.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Grazynu Katarzynu Wolczynsku, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2002.
Mál þetta var höfðað 20. desember 2001 og dómtekið 24. f.m.
Stefnandi er Grazyna Katarzyna Wolczynska, [...] Aðalstræti 6-8, Reykjavík.
Stefndi er Tryggingamiðstöðin hf.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur aðallega að upphæð 7.386.884 krónur, til vara að upphæð 5.445.732 krónur og til þrautavara að upphæð 2.399.165 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 9. júlí 2000 til 12. janúar 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí s.á. og samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Allt að frádregnum 1.059.681 krónu. Stefnanda var veitt gjafsóknarleyfi 5. nóvember 2001.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara að þær verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
- - - - -
Stefnandi, sem er pólskur ríkisborgari, kom til Íslands í október 1998 og hóf þá störf hjá Skelfiski hf. á Flateyri við fiskvinnslustörf. Stefnandi varð fyrir vinnuslysi 9. júlí 1999 við störf sín hjá fyrirtækinu. Henni skrikaði fótur er hún var að þrífa hakkavél að afloknum vinnudegi þannig að hægri handleggur hennar fór í snigil vélarinnar með þeim afleiðingum að hún missti framan af handleggnum rétt ofan við olnboga. Vinnueftirlit ríkisins var kallað á vettvang þegar eftir slysið og komst að þeirri niðurstöðu að það hefði að verulegu leyti orðið vegna vanbúnaðar hakkavélarinnar og ófullnægjandi aðstæðna þannig að varðaði við lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem og reglugerðir sem settar hafa verið með heimild í lögunum, t.d. reglugerð um öryggisbúnað véla nr. 492/1987.
Óskað var álits örorkunefndar á afleiðingum slyssins fyrir stefnanda í samræmi við ákvæði 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Niðurstaða nefndarinnar samkvæmt álitsgerð 7. nóvember 2000 var sú að stefnandi hefði orðið fyrir 70% varanlegum miska, sbr. 4. gr. laga nr. 50/1993, og 70% varanlegri örorku, sbr. 5. gr. sömu laga. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins 28. mars 2001 var staðfest að stefnandi hefði verið metinn með 75% varanlega örorku frá 20. janúar s.á. og yrði framvegis greiddur slysaörorkulífeyrir í stað endurhæfingarlífeyris.
Skelfiskur hf. hafði keypt ábyrgðartryggingu hjá stefnda. Með hliðsjón af niðurstöðu örorkunefndar var krafist greiðslu skaðabóta í samræmi við lög nr. 50/1993 þann 12. desember 2000. Stefndi viðurkenndi bótaskyldu fyrir hönd atvinnurekandans, Skelfisks hf. Auk örorkubóta úr slysatryggingu launþega að upphæð 3.602.880 krónur greiddi stefndi stefnanda 21. desember 2000 eftirfarandi skaðabætur vegna slyssins: 1) Þjáningabætur 493.600 krónur. 2) Miskabætur 3.404.100 krónur. 3) Vextir (frá slysdegi til 21. desember 2000) 257.758 krónur. Auk þess greiddi stefndi stefnanda 886.708 krónur í bætur fyrir tímabundið atvinnutjón frá slysdegi til 31. júlí 2000 (og höfðu þá dagpeningagreiðslur frá stefnda og Tryggingastofnun ríkisins verið dregnar frá). Auk framangreindra fjárhæða hafði stefndi greitt stefnanda 420.000 krónur vegna slyssins fram að 15. mars 2001.
Ágreiningslaust er með aðilum að miða eigi við 140.000 króna mánaðarlaun sem tekjuviðmið fyrir stefnanda og var sú fjárhæð lögð til grundvallar við útreikning og greiðslu á tímabundnu tjóni stefnanda.
Í bréfi stefnda 22. ágúst 2001 til lögmanns stefnanda er vísað til ágreinings aðila um greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu vátryggingartakans Skelfisks hf. vegna varanlegrar fjárhagslegrar örorku tjónþola, stefnanda máls þessa. Stefndi sé á þeirri skoðun að tjónþoli eigi ekki rétt á frekari skaðabótum úr ábyrgðartryggingu vegna varanlegrar örorku og hafi í raun fengið hærri bætur en henni hafi borið samkvæmt skaðabótalögum. Fullnaðaruppgjör hafi hins vegar farið fram hvað aðra bótaliði áhrærir. Þar sem bú vátryggingartaka sé undir gjaldþrotaskiptum (samkvæmt úrskurði 6. október 2000) samþykki stefndi beina aðild að hugsanlegu bótamáli sem höfðað yrði vegna ágreinings um bætur til tjónþola vegna varanlegrar fjárhagslegrar örorku.
Málsóknin er á því byggð að stefnandi geti ekki unað við þá niðurstöðu að hún eigi ekki rétt á greiðslu skaðabóta úr hendi stefnda þrátt fyrir 70% örorku vegna frádráttarsjónarmiða, sem reist séu á því að skerða eigi réttmætar bætur vegna réttinda til lágmarksframfærslueyris úr almannatryggingum, og eigi hún ekki annars úrkosti en að leita fulltingis dómstóla til að leita réttar síns.
Fjárkrafa stefnanda grundvallast á skaðabótalögum nr. 50/1993 ásamt síðari breytingum, einkum 5. 7. gr. Þá byggist málatilbúnaður stefnanda á því að frádráttur stefnda á varanlegum örorkubótum stefnanda eigi sér ekki lagastoð. Frádrátturinn fái ekki staðist almennar lögskýringarreglur. Þá feli hann hann í sér brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, ólögmæta skerðingu á aflahæfi stefnanda sem njóti verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar og takmörkun á stjórnarskrárvörðum rétti stefnanda til aðstoðar frá ríkinu samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar. Þá er það málsástæða stefnanda að verði skilningur stefnda lagður til grundvallar njóti hann í raun tvisvar reiknaðs eingreiðsluhagræðis til lækkunar á bótakröfu stefnanda. Við útreikning varanlegra skaðabóta stefnanda hafi verið tekið tillit til eingreiðsluhagræðis þar sem margfeldisstuðull 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga taki mið af eingreiðslu og feli í sér lækkun um þriðjung frá því sem ella væri. Með því síðan að leggja til grundvallar frádrátt eingreiðsluverðmætis lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun sé fundin fjárhæð sem eigi sér litla stoð í veruleikanum enda séu þær inntar af hendi yfir langt árabil. Þegar tjón stefnanda hafi verið metið hafi atvinnutekjur hennar verið áætlaðar 140.000 krónur á mánuði. Eftir slysið sé henni ætlað að draga fram lífið á bótum sem nemi 63.921 krónu á mánuði. Augljóst sé að sú greiðsla geri stefnanda ekki jafn setta eins og slysið hafi ekki borið að höndum en sú niðurstaða stríði gegn þeirri grundvallarreglu skaðabótaréttar að stefnandi eigi rétt á að fá “fullar bætur” fyrir tjón sitt.
Í málinu liggur frammi útreikningur tryggingafræðings frá 28. febrúar 2001 á eingreiðsluverðmæti fulls örorkulífeyris og tekjutryggingar Tryggingastofnunar ríkisins vegna vinnuslyss stefnanda. Af hálfu hvorugs aðila er byggt á þeirri niðurstöðu.
Aðila greinir ekki á um að skaðabótakrafa stefnanda vegna umrædds slyss sé á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996 og lög nr. 37/1999, réttilega fram sett af hálfu hennar sem hér segir:
12 x 140.000 kr. + 6% x 9.153 x 70% = 11.409.764 krónur. Margfeldisstuðullinn 9.153, sbr. 6. gr. skaðabótalaga, miðast við að stöðugleikatímapunktur hafi verið 9. júlí 2000, þ.e. að þá hafi heilsufar stefnanda verið orðið stöðugt, sbr. 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Stefnandi átti rétt á 58.044 krónum mánaðarlega í örorkulífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót á stöðugleikatímapunkti 9. júlí 2000. Slysaörorkulífeyrir var 17.592 krónur, óháður tekjum. Tekjutrygging var 27.610 krónur en meðaltal óskertrar tekjutryggingar ársins 2000 var 32.391 króna á mánuði. Heimilisuppbót var 12.842 krónur en meðaltal óskertrar tekjutryggingar ársins 2000 var 15.066 krónur á mánuði. (Þann 1. júlí 2001 tók gildi breyting á reglum almannatrygginga sem leiddi til betri réttar stefnanda til greiðslu tekjutryggingar og heimilisuppbótar þannig að 42.000 króna tekjur á mánuði hafa ekki áhrif til lækkunar).
Þann 25. febrúar 2002 greiddi stefndi stefnanda 813.775 krónur ásamt 4,5% vöxtum frá 9. júlí 2000 til 25. febrúar 2002 eða samtals 874.418 krónur. Greiðslan grundvallaðist á útreikningi Ragnars Þ. Ragnarssonar tryggingarstærðfræðings 22. febrúar 2002 á eingreiðsluverðmæti ætlaðra bótagreiðslna til handa stefnanda í formi örorkulífeyris, tekjutryggingar og heimilisuppbótar. Reiknað var frá 9. júlí 2000 til 28. janúar 2022, og miðað við 4,05% ársvexti, þ.e. 4,5% fyrir fjármagnstekjuskatt, og vaxtavexti og 33,3% frádrátt að teknu tilliti til skattgreiðslna. Eingreiðsluverðmætið nam samtals 6.573.109 krónum. Við aðalmeðferð málsins var lagt fram bréf stefnda til lögmanns stefnanda frá 10. september 2001 þar sem gerð er grein fyrir viðbótargreiðslu þann dag að upphæð 168.367 krónur vegna varanlegrar fjárhagslegrar örorku auk vaxta eða samtals 185.263 krónur. Með bréfinu fylgdi nýr útreikningur Ragnars Þ. Ragnarssonar þar sem fram kemur eingreiðsluverðmætið 6.404.742 krónur sem sundurliðast þannig: Örorkulífeyrir 1.941.152 krónur, tekjutrygging 3.046.567 krónur og heimilisuppbót 1.417.023 krónur. Sú skýring var gefin á breyttri niðurstöðu að í ljós hefðu komið þau mistök við fyrri útreikning að í stað þess að reikna rétt tjónþola frá stöðugleikatímapunkti til þess dags er hún verði 67 ára hafi einnig verið tekið með næsta ár þar á eftir. Greiðslur stefnda til stefnanda eftir höfðun málsins nema þannig samtals 1.059.681 krónu.
Endanleg kröfugerð stefnanda er þannig sundurliðuð:
Samkvæmt aðalkröfu er sett fram skaðabótakrafan 11.409.764 krónur, sbr. það sem áður segir, og dregnar frá örorkubætur vegna slysatryggingar launþega, 3.602.880 krónur, og innágreiðslur stefnda fyrir höfðun málsins, 420.000 krónur. Varakrafa og þrautavarakrafa byggjast á sömu forsendu og aðalkrafa að því undanskildu að samkvæmt varakröfu kemur einnig til frádráttar eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris almannatrygginga samkvæmt útreikningi Ragnars Þ. Ragnarssonar, 1.941.152 krónur, og samkvæmt þrautavarakröfu kemur einnig til frádráttar, auk síðastgreindrar fjárhæðar, eingreiðsluverðmæti tekjutryggingar almannatrygginga samkvæmt útreikningi nefnds tryggingastærðfræðings, 3.046.567 krónur.
Stefndi kveður tjón stefnanda vegna fjárhagslegrar örorku, 11.409.764 krónur, vera að fullu bætt með örorkubótum úr slysatryggingu launþega, 3.602.880 krónum, greiðslum frá almannatryggingum til 67 ára aldurs, 6.404.742 krónum, og skaðabótagreiðslum stefnda, samtals 1.402.142 krónum. Af þessu leiði að sýkna beri stefnda. Á það er bent að í þeirri breytingu, sem gerð hafi verið á margfeldisstuðli skaðabótalaga með lögum nr. 37/1999, felist, ólíkt því sem var í upphafi í skaðabótalögum frá 1993, að útreikningur á skaðabótakröfu sé miðaður við að tjónþoli fái að fullu bætt það tekjutap sem hann verði fyrir vegna varanlegrar örorku. Vegna þess beri að draga frá þær greiðslur af félagslegum toga sem séu greiddar af þriðja aðila vegna slyssins, t.d. greiðslur frá almannatryggingum. Önnur niðurstaða mundi leiða til þess að tjónþoli fengi tjón sitt ofbætt en það stríði gegn þeirri meginreglu skaðabótaréttar að tjónþoli eigi ekki rétt á hærri bótum en svari raunverulegu fjártjóni hans.
- - - - -
Ágreiningur aðila lýtur að skýringu og gildi þess ákvæðis 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eftir breytingu sem gerð var með 4. gr. laga nr. 37/1999, að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragist greiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum. Til samanburðar er sú breyting, sem jafnframt var gerð, að frá skaðabótakröfu skuli draga 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skuli við útreikninginn miðað við 4,5% ársafvöxtun.
Um margföldunarstuðul skaðabótalaga, eins og hann var upphaflega ákveðinn í skaðabótalögum nr. 50/1993 segir í greinargerð með 5. gr. þeirra: “Bætur skal meta til fjárhæðar sem reikna skal þannig að árslaun tjónþola eru margfölduð með 7,5 og síðan margfölduð með örorkustigi. . . Ástæða þess að lagt er til að margföldunarstuðullinn verði ekki hærri en 7,5 er m.a. sú að í frumvarpinu eru engin ákvæði um að greiðslur frá þriðja manni, t.d. bætur almannatrygginga, vátryggingarfé o.fl., séu dregnar frá skaðabótakröfu sem tjónþoli á gagnvart hinum bótaskylda . . .” Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 37/1999, segir: “Samkvæmt gildandi lögum dragast bætur frá almannatryggingum og lífeyrissjóði ekki frá bótum fyrir varanlega örorku. . . Margföldunarstuðull 5. gr. frumvarpsins er annars eðlis en í gildandi lögum og við það miðaður að tjónþoli fái að fullu bætt það tekjutap sem hann verður fyrir vegna varanlegrar örorku. Vegna þessa er lagt til að til frádráttar bótum komi greiðslur af félagslegum toga sem koma í hlut tjónþola vegna örorkunnar. Við frádráttinn þarf að huga að því að greiðslur séu sambærilegar með því að taka tillit til skattskyldu og greiðsluforms, áður en dregið er frá skattfrjálsum og afvöxtuðum bótum fyrir varanlega örorku. . . Annars vegar skal samkvæmt frumvarpinu draga frá greiðslur frá almannatryggingum. Hins vegar er gerð tillaga um að frá bótum dragist 40% af verðmæti örorkulífeyris.” Í athugasemdum með 4. gr. framangreinds lagafrumvarps, þ.e. varðandi breytingu á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, segir m.a.: “Breytingar á frádrætti eru tvenns konar. Annars vegar skal samkvæmt frumvarpinu draga frá greiðslur frá almannatryggingum. Hins vegar er gerð tillaga um að frá bótum dragist 40% af verðmæti örorkulífeyris. Áður en skaðabótalögin tóku gildi árið 1993 höfðu dómstólar haft verðmæti örorkulífeyris til hliðsjónar við ákvörðun bóta, án þess þó að verðmætið væri dregið frá að fullu við ákvörðunina. Tekið skal fram að almennt öðlast tjónþoli ekki rétt til örorkulífeyris frá lífeyrissjóði nema varanleg örorka hans sé a.m.k. 40% . . .Hér er lagt til að 60% verðmætis örorkulífeyris komi til frádráttar bótum. Er það í samræmi við það hlutfall sem algengast er að vinnuveitandi greiði af iðgjaldi til lífeyrissjóðs. Örorkulífeyrir er skattskyldur eins og aðrar tekjur. Tekjur, sem stofn fyrir útreikning skaðabóta, eru skertar um þriðjung vegna skattfrelsis. . . Því þarf að skerða örorkulífeyrinn, sem kemur til frádráttar, með sama hætti. Frádrátturinn verður því 40%, þ.e. 2/3 af 60%. Nauðsynlegt er við uppgjör bóta að reikna verðmæti örorkulífeyris til eingreiðslu og er eðlilegt að sú fjárhæð sé fundin með sömu afvöxtunarprósentu og notuð er til ákvörðunar á stuðlinum í 5. gr."
Á grundvelli framangreindra lögskýringargagna er ekki annar skýringarkostur tækur en sá, sem sýknukrafa stefnda er reist á, að bætur frá almannatryggingum, sem stefnandi átti rétt til á viðmiðunartímapunkti, skuli reiknast til eingreiðsluverðmætis og dragast frá framtíðartekjutjóni sem reiknað er til eingreiðsluverðmætis á sama tímamarki. Engin rök verða fundin fyrir því að bætur í formi tekjutryggingar og heimilisuppbótar, sbr. varakröfu og þrautavarkröfu stefnanda, verði ekki dregnar frá skaðabótakröfu stefnanda á sama hátt og slysaörorkulífeyrir. Lagt verður til grundvallar að heimilisuppbót falli undir greiðslur frá almannatryggingum í því samhengi sem hér um ræðir þótt kveðið sé á um hana í lögum nr. 118/1993 um félagslega aðstoð en ekki lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar.
Í útreikningum Ragnars Þ. Ragnarssonar tryggingarstærðfræðings, sem lagðir eru til grundvallar vara- og þrautavarakröfu stefnanda, er réttilega miðað við metna 30% vinnugetu stefnanda til frambúðar og að meðalmánaðarlaunatekjur hennar verði 42.000 krónur, þ.e. 30% af 140.000 krónum. Samkvæmt því verður ekki fallist á að framangreind niðurstaða um frádrátt bóta almannatrygginga brjóti gegn 76. gr. stjórnarskrárinnar sem af hálfu stefnanda er rökstutt með því að lífeyrir hennar skerðist um leið og hún hafi tekjur að einhverju leyti en markmið bótanna sé að tryggja stefnanda, eins og öðrum bótaþegum almannatryggingakerfisins, lágmarkslífeyri til framfærslu í samræmi við stjórnarskrárbundna skyldu íslenska ríkisins samkvæmt nefndri stjórnarskrárgrein. Meðal framlagðra útreikninga Ragnars Þ. Ragnarssonar er samanburður á grundvelli forsendna, sem telja verður óumdeildar og taka m.a. mið af skattlagningu, á ráðstöfunartekjum stefnanda, annars vegar fyrir slys sem reiknast hafa numið 106.743 krónur á mánuði, og hins vegar eftir slys sem reiknast nema 108.852 krónum á mánuði. Með vísun til þess, auk annars þess sem fram er komið um niðurstöður, er ekki fallist á að það með stefnanda að framangreind túlkun á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga feli í sér skerðingu aflahæfis í andstöðu við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þar sem niðurstaða dómsins er sú að tjón stefnanda sé að fullu bætt á grundvelli reglna skaðabótalaga er ekki fallist á að þær feli í sér brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Eigi er fallist á það með stefnanda að stefndi njóti hagræðis af því að bætur samkvæmt framansögðu séu reiknaðar til eingreiðslu þar sem afvöxtun bótanna, sem felst í útreikningi til eingreiðsluverðmætis, leiðir til lækkunar þeirrar fjárhæðar sem dregin er frá skaðabótakröfu stefnanda.
Samkvæmt framangreindu er niðurstaða dómsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar, Björns L. Bergssonar hrl., 400.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Grazyna Katarazyna Wolcynska.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar, Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.