Hæstiréttur íslands

Mál nr. 402/2016

A hf. (Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl.)
gegn
B (Tómas Hrafn Sveinsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Stefna
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli A gegn B var vísað frá dómi. Talið var að fjárkröfur A væru vanreifaðri en svo að B gæti tekið til eðlilegra varna. Þá var ekki talið að breytingar sem A freistaði síðar að gera á kröfum sínum breyttu niðurstöðu um frávísun málsins, enda þyrfti stefna að vera skýr um þær kröfur sem gerðar væru.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. maí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. apríl 2016, þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að greiða sér 107.031.085 krónur með nánar greindum dráttarvöxtum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

A ses., sem var sóknaraðili málsins í héraði, sameinaðist A hf. 15. október 2015 og hefur aðild málsins breyst samkvæmt því.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, A hf., greiði varnaraðila, B, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. apríl 2016

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda föstudaginn 4. marz, er höfðað 16. október 2015 með réttarstefnu útgefinni af dómstjóra héraðsdóms Norðurlands eystra 5. október 2015. Stefnandi er A, [...], [...] en stefndi er B, [...], [...].

 

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að staðfest verði kyrrsetningargerð sem framkvæmd hafi verið hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra hinn 5. október 2015 í fasteignunum [...], [...], [...] og eignarhluta stefnda í [...], [...], fnr. [...], ökutækjunum [...], fnr. [...], [...], fnr. [...], [...], fnr. [...], [...], fnr. [...], [...], fnr. [...] og [...], fnr. [...], hestakerru, fnr. [...], 6% eignarhluta stefnda í fyrirtækinu [...] ehf., kt. [...] og eignarhluta stefnda í fyrirtækinu [...] ehf., kt. [...], ásamt innstæðum bankareikninga stefnda [...], nr. [...], nr. [...], nr. [...], nr. [...] og nr. [...], nr. [...]. Þá krefst stefnandi þess nú að stefnda verði gert að greiða stefnanda 107.031.085 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. október 2015 til greiðsludags. Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins en til vara sýknu af kröfum stefnanda. Stefndi krefst í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað.

 

Málavextir

Stefndi var starfsmaður stefnanda og mun hafa starfað þar í um aldarfjórðung þar til hann lét af störfum í lok júní 2015 og gerður var við hann samningur um starfslok.

Eftir starfslokin mun grunur hafa vaknað hjá stefnanda um misferli af hálfu stefnda í starfinu og kærði stefnandi stefnda til embættis sérstaks saksóknara samkvæmt þág. lögum nr. 135/2008 hinn 4. september 2015. Í kærunni segir að hið „meinta misferli“ felist í misnotkun á bankareikningi einkahlutafélagsins C, mögulegri misnotkun bankareikninga annarra viðskiptamanna stefnanda og misnotkun fjármuna stefnanda. Segir í kærunni að stefndi tengist umræddu einkahlutafélagi með beinum hætti.

Hinn 5. október 2015 lýsti sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra yfir kyrrsetningu í fasteignunum [...], [...], [...] og eignarhluta stefnda í [...], [...], fnr. [...],ökutækjunum [...], fnr. [...], [...], fnr. [...], [...], fnr. [...], [...], fnr. [...], [...], fnr. [...] og [...], fnr. [...] og hestakerru, fnr. [...], 6% eignarhluta stefnda í fyrirtækinu [...] ehf., kt. [...] og eignarhluti stefnda í fyrirtækinu [...] ehf., kt. [...], ásamt innstæðum bankareikninga stefnda [...], nr. [...], nr. [...], nr. [...], nr. [...] og nr. [...], nr. [...]. Kyrrsetningunni var lýst yfir að kröfu stefnanda til tryggingar fullnustu kröfu að fjárhæð 178.261.094 auk áfallandi dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og alls kostnaðar við gerðina og eftirfarandi staðfestingarmáls.

 

Málsástæður og lagarök stefnda í þessum þætti málsins

Stefndi segir málatilbúnað stefnanda ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Málatilbúnaðurinn sé í andstöðu við b, d, e og g liði málsgreinarinnar.  Þá segist stefndi mótmæla kröfufjárhæð stefnanda. Þá sé í stefnu ekki getið fyrirsvarsmanns stefnanda og sé það í andstöðu við b lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91, 1991.

Stefndi segir að krafa stefnanda um staðfestingu kyrrsetningargerðar sé vanreifuð. Í stefnu sé því lýst að öll skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 séu uppfyllt. Ekki sé afmarkað frekar hvernig skilyrðin séu uppfyllt. Krafa stefnanda sé ekki lögvarin enda séu fjárhæðir áætlaðar og óskýrar. Í stefnu lýsi stefnandi því ekki hvernig draga myndi úr líkindum á fullnustu hinnar áætluðu kröfu sinnar, fái hann ekki kyrrsetningu vegna hennar. Sönnunarbyrði um að skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1991 séu uppfyllt hvíli á stefnanda.

Stefndi segir að krafa stefnanda sé, auk fyrrnefndrar kröfu um staðfestingu kyrrsetningargerðar, skaðabótakrafa. Bótagrundvöllur stefnanda sé sakarreglan, ljóst sé hins vegar að dómkrafa stefnanda sé reist á áætlunum og forsendum sem ekki styðji þau gögn. Dómkrafan sé vanreifuð.

Stefnandi segir að í stefnu sé byggt á því að málsókn sé komin til vegna meints misferlis stefnda í störfum hjá stefnanda. Stefnandi telji misferlið hafa staðið yfir frá árinu 2007 en leggi þrátt fyrir það aðeins fram gögn vegna áranna 2010 og 2011. Stefnandi hafi lagt fram kæru á hendur stefnda til sérstaks saksóknara. Í kærunni telji stefnandi að stefndi hafi gerzt sekur um ótilgreint misferli. Málið sé til rannsóknar hjá lögreglu og hafi stefndi verið kallaður til skýrslutöku í kjölfarið. Niðurstaða málsins liggi ekki fyrir. Samkvæmt gögnum sem stefnandi hafi lagt fram við þingfestingu komi ekki fram að stefndi hafi framkvæmt þær færslur sem liggi að baki kröfulið að fjárhæð 47.761.094 krónur.

Þá segir stefndi stefnanda telja stefnda hafa gerzt sekan um umboðsvik sem stefnandi telji hafa falizt í „glötuðum veðum stefnanda eða meintum stuldum á veðum að fjárhæð um krónur 4.500.000,-“. Stefnandi hafi áætlað þessa fjárhæð, engin gögn hafi fylgt með stefnu málsins sem skýri kröfuna. Einu útskýringar stefnanda á þessum lið samkvæmt stefnu séu að meint umboðssvik varði fiskvinnslufyrirtæki, lyftara og aðra lausafjármuni án frekari tilgreiningar. Þessi krafa sé vanreifuð.

Í þriðja lagi haldi stefnandi því fram að „húsaleiga hafi verið greidd framhjá stefnanda til tengst þriðja aðila að fjárhæð um 16.000.000,-“. Þessi fjárhæð sé einnig áætluð af hálfu stefnanda. Ekki sé útskýrt í stefnu hvert andlag leigunnar hafi verið. Virðist sem stefnandi krefji stefnda um skaðabætur vegna óheimilaðrar framleigu til þriðja manns án þess að það sé útskýrt nánar. Þessi krafa sé vanreifuð.

Þá segir stefndi að stefnandi byggi á því að stefndi hafi veitt ótilteknum aðilum „óeðlileg viðskiptakjör fyrir allt að 10.000.000,-“. Þetta sé áætluð krafa. Stefnandi útskýri ekki í stefnu hverjir eigi að hafa notið óeðlilegra kjara og hvorki séu tímasetningar né fjárhæðir nefndar í stefnunni. Þá sé ekki útskýrt nánar hvernig kjörin teljist vera óeðlileg eða hvort lánareglur stefnanda hafi verið brotnar en lánareglurnar hafi ekki verið lagðar fram með stefnu. Þessi krafa sé vanreifuð.

Þá segir stefndi að stefnandi haldi því fram að stefndi hafi „framkvæmt óheimilaða gjafagerninga fyrir allt að krónum 100.000.000,-“. Þessi krafa stefnanda sé áætluð eins og aðrar. Stefnandi leggi ekki fram lánareglur til stuðnings þessari kröfu. Engar útskýringar á færslum liggi fyrir í stefnu, engin dæmi séu sett fram um hina meintu gjafagerninga svo sem hverjir eigi að hafa fengið gjafirnar. Þessi krafa sé vanreifuð.

Stefndi segir stefnanda krefjast skaðabóta að fjárhæð 178.261.094 krónur. Krafan sé vanreifuð og þá ekki sízt þegar litið sé til grundvallarskilyrða skaðabótaábyrgðar um tjón, orsakatengsl og sennilega afleiðingu. Krafan sé reist á órökstuddum áætlunum og ekki studd fullnægjandi gögnum. Meint tjón stefnanda sé ekki afmarkað í stefnunni, heldur áætlað og útskýringar stefnanda á háttsemi stefnda séu heldur ekki afmarkaðar.

Stefndi segir útreikning stefnufjárhæðar byggðan á fimm órökstuddum og áætluðum kröfum. Ljóst sé að stefnandi hafi ekki lagt fram nauðsynleg gögn að baki kröfum sínum við þingfestingu málsins.  Slíkur málatilbúnaður sé ekki í samræmi við 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991 og kunni að valda frávísun án kröfu sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 413/2009 og 713/2013.

Stefndi segir að þegar horft sé á allt framangreint skorti mjög á skýran og ljósan málatilbúnað af hálfu stefnanda. Samkvæmt þessu sé málatilbúnaður stefnanda andstæður b, d, e og g liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og mjög til þess fallinn að takmarka varnir stefnda. Því beri að vísa málinu frá dómi.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda í þessum þætti málsins

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað en ákvörðun um málskostnað vegna þessa þáttar bíði efnisdóms í málinu. Til vara krefst stefnandi þess að málskostnaður verði felldur niður milli aðila.

Stefnandi segir að málið sé ekki vanreifað af sinni hálfu en horfa verði til eðlis kyrrsetningarmála. Bregðast hafi þurft hratt við til að gæta hagsmuna stefnanda. Þeir hafi verið bezt tryggðir með kyrrsetningu. Réttarstefnu verði hins vegar að gefa út innan viku frá lokum gerðar og hafi rannsókn stefnanda á reikningum sínum þá ekki verið lokið. Standi sú rannsókn enn þó ljóst sé að tjón stefnanda sé mikið og líklega hærra en verðmæti hinna kyrrsettu eigna. Í stefnu sé krafa stefnanda sett fram í nokkrum liðum ásamt fjárhæð við hvern kröfulið. Þá sé jafnframt rökstutt á hverju kröfuliðirnir séu byggðir og lögð fram þau gögn sem til hafi verið þegar stefna hafi verið gefin út. Þá hafi frekari gögn verið lögð fram síðar enda gagnaöflun ekki lýst lokið. Hafi þetta á engan hátt orðið til þess að takmarka varnir stefnda. Sakarefni séu ljós og hafi stefndi nægt svigrúm til að bregðast við kröfum stefnanda og leggja fram gögn af sinni hálfu. Fráleitt sé að stefndi njóti góðs af þeim skamma fresti sem veittur sé til stefnugerðar í framhaldi af kyrrsetningargerð.

Stefnandi kveðst byggja á því að skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 séu uppfyllt. Ekki beri að gera strangar kröfur til sönnunar gerðarbeiðanda kyrrsetningar um réttmæti þeirrar kröfur sem hann vill afla tryggingar. Stefnandi hafi kært stefnda fyrir ólögmæta háttsemi sem bakað hafi stefnanda tjón. Samkvæmt upplýsingum stefnanda hafi stefndi við rannsókn málsins játað brot en síðar dregið þá játningu til baka að einhverju leyti. Eigi stefnandi lögvarða kröfu á hendur stefnda.

 

Upphafleg stefna og bókun stefnanda

Við úrlausn þessa þáttar málsins þykir rétt að reifa helztu atriði fjárkröfu stefnanda, svo sem hún var sett fram í stefnu, og bókunar sem stefnandi lagði fram í því þinghaldi, er haldið var til málflutnings um frávísunarkröfu stefnda.

Í stefnu krafðist stefnandi greiðslu 178.261.094 króna greiðslu auk dráttarvaxta frá þingfestingu málsins til greiðsludags. Er málið var tekið fyrir, til málflutnings um frávísunarkröfu stefnda, lækkaði stefnandi þessa dómkröfu sína í þá fjárhæð sem áður hefur verið getið.

Í stefnu sinni sundurliðar stefnandi þáverandi stefnufjárhæð. Tilgreinir hann þannig að þar sé meðal annars um að ræða „fjárdrátt, samtals að fjárhæð kr. 47.761.094,-.“ „Einkum“ sé þar vísað til tveggja færslna og aðgerða þeim tengdra á bankareikning félagsins C ehf., en eiginkona stefnda sé nú framkvæmdastjóri þess en stefndi hafi áður gegnt þeim starfa. Er í stefnu vísað til skjals sem lagt var fram við þingfestingu og segir í stefnu að það sýni hvernig stefndi hafi framkvæmd „flókna fléttu“ sem leitt hafi til þess að skuldastaða C ehf. hafi lækkað um 20 milljónir króna og um 27.761.094 krónur og þá orðið engin.

Í framangreindri bókun stefnanda segir að byggt sé á fjárdrætti sem numið hafi 53.461.600 krónum. Auk þeirra 47.761.094 króna sem áður var getið um er í bókuninni vísað til ellefu tilvika þar sem sagt er að alls 5.700.506 krónur hafi runnið inn á reikning stefnda.

Í stefnu er byggt á því að stefndi hafi gerzt sekur um umboðssvik sem hafi falizt „nánar tiltekið í fyrsta lagi glötuðum veðum stefnanda eða meintum stuldum á veðum að fjárhæð um kr. 4.500.000,-.“ Stefndi hafi misnotað aðstöðu sína í tilvikum þegar stefnandi hafi getað leyst til sín veð vegna skulda viðskiptavina við stefnanda. Söluandvirði þeirra hafi átt að renna til uppgjörs skulda fyrrum eigenda við stefnanda, en í stað þess hafi stefndi millifært söluandvirði þeirra inn á sinn eigin reikning. Þetta hafi verið „fiskvinnslutæki, lyftara og [aðrir] lausafjármunir.“ Í bókuninni kveðst stefnandi hins vegar byggja á því að glötuð veð nemi alls 4.020.685 krónum. Eru í bókuninni rakin fimm tilvik þar sem stefndi hafi framkvæmt nánar tilteknar færslur og tilgreinir stefnandi dagsetningar hverrar og einnar, úttektarreikning og innlagnarreikning þannig að ýmist reikningsnúmer eða reikningseigandi er tilgreindur.

Þá segir í stefnu að stefndi hafi gerzt sekur um umboðssvik, en „húsaleiga hafi verið greidd framhjá stefnanda til tengds þriðja aðila að fjárhæð um 16.000.000,- [krónur].“ C ehf. hafi leigt herbergi af stefnanda og greitt fyrir 5.000 krónur á mánuði en stefndi hafi í heimildarleysi framleigt herbergið til annars félags fyrir 361.000 krónur á mánuði. Hafi þetta staðið frá árinu 2010 til ársins 2015. Hafi leigugreiðslurnar runnið eftir ýmsum leiðum inn á bankareikning stefnda. Með framangreindi bókun breytti stefnandi þessari kröfu þannig að byggt væri á því að húsaleigan, sem greidd hefði verið „framhjá stefnanda til tengds þriðja aðila“ næmi 15.548.800 krónum. Hefði C ehf. leigt herbergi af stefnanda á [...] á [...] fyrir 4.340 krónur á mánuði. Stefndi hefði hins vegar fengið greiddar „beint inn á sinn reikning vegna óheimilar framleigu“ 361.600 krónur á mánuði og segir jafnframt að „þær greiðslur [hafi runnið] eftir ýmsum leiðum inn á reikning stefnda“. Hefðu greiðslurnar ýmist komið beint frá félaginu [...] ehf. sem leigt hafi herbergið, frá C ehf. eða [...] ehf.

Í stefnu var byggt á því að „stefndi hafi veitt tilteknum aðilum óeðlileg viðskiptakjör fyrir allt [að] kr. 10.000.000,-.“ „Félög og einstaklingar“ sem tengist stefnda hafi notið hinna óeðlilegu kjara vegna tengslanna við stefnda sem hafi nýtt sér aðstöðu sína til að veita óeðlilega lága vexti af lánum og yfirdráttarlánum og auk þess fellt niður vexti í tengslum við uppgjör. Með framangreindri bókun féll stefnandi frá kröfu vegna þessa.

Loks er á því byggt í stefnu að stefndi hafi framið umboðssvik, þannig „að stefndi hafi framkvæmt óheimilaða gjafagerninga fyrir allt að kr. 100.000.000,-.“ Sé þar um að ræða „afléttingu veða á fasteignum einstaklinga þar sem nægt veðrými [hafi verið] til staðar“, og sitji stefnandi þar uppi með lán án trygginga. Tjón stefnanda vegna þessa nemi allt að 35 milljónum króna. Þá sé um að ræða óeðlilegar afskriftir til „þriðja aðila“ þar sem vextir hafi verið „afskrifaðir og/eða endurgreiddir eða höfuðstóll skulda afskrifaður án þess að hagsmunir stefnda hafi verið hafðir að leiðarljósi. Tilslakanir og hliðranir, einkum vegna erlendra lána, [hafi verið] framlengdar óeðlilega lengi og án þess að formlegt samþykki sparisjóðsstjóra lægi fyrir.“ Með framangreindri bókun breytti stefnandi þessu atriði krafna sinna þannig að byggt yrði á því að tjón vegna óheimilla gjafagerninga næmi 34 milljónum króna. Lýsir stefnandi þeim þannig þeir hafi beinzt að þremur einkahlutafélögum, [...] ehf., [...] ehf. og [...] ehf. Lýsir stefnandi atvikum svo í bókuninni að stefndi hafi hinn 25. marz 2013 afskrifað 20 milljónir króna af skuld fyrstnefnda einkahlutafélagsins við stefnanda. Sama dag hafi félagið að nýju tekið að safna skuldum með því að ganga á yfirdráttarheimild sína. Þá segir stefnandi að hinn 17. desember 2012 hafi [...] ehf. og C ehf. gert með sér samkomulag um bætur vegna tjóns á þaki húsnæðis félagsins. Hafi [...] ehf. skuldbundið sig til þess að greiða C ehf. 3.500.000 krónur vegna þessa og hafi stefndi ritað undir samkomulagið fyrir hönd [...] ehf. Hafi afskriftareikningur stefnanda verið notaður „til þess að fjármagna viðgerð“ þessa og hafi stefndi framkvæmt færsluna hinn 31. desember 2012. Loks segir í bókuninni að hinn 14. ágúst 2014 hafi stefndi aflétt veði sem staðið hafi á fyrsta veðrétti á tiltekinni bifreið. Skuldarinn, [...] ehf., hafi ekki gert upp „undirliggjandi skuldir stefnanda“ og því hafi stefnda verið óheimilt að aflétta veðinu. Verðmæti bifreiðarinnar hafi þá verið metið fjórar milljónir króna. Skuldir [...] ehf., sem veðinu hafi verið ætlað að tryggja greiðslur á, hafi síðar verið afskrifaðar. Þá hafi stefndi í heimildarleysi samþykkt veðflutning og veðbandslausn tiltekins tryggingarbréfs, upphaflega að fjárhæð 6.500.000 krónur. Tryggingarbréfið hafi hvílt á fyrsta veðrétti nánar tilgreinds húss á [...] og hafi áætlað markaðsvirði hússins verið 26.600.000 krónur. Tryggingabréfið hafi verið fært á aftasta veðrétt annars tilgreinds húss og standi þar á eftir skuldum sem nemi um níutíu milljónum króna. Hafi þær skuldir [...] ehf., sem bréfinu hafi verið ætlað að tryggja, nú verið afskrifaðar.

Í stefnu segir að vandleg „skoðun á öllum framangreindum gerningum stefnda“ standi nú yfir.

 

Niðurstaða

Rétt er hjá stefnda að í stefnu er ekki getið um nafn fyrirsvarsmanns stefnanda sem þó er mælt fyrir um í b lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Telja verður að í framkvæmd verði oft misbrestur á þessu, án þess að dómstólar telji varða tafarlausri frávísun. Hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að vörnum stefnda hafi orðið áfátt við að fyrirsvarsmaðurinn hafi ekki verið nafngreindur enn sem komið er. Þykir þessi galli ekki varða frávísun málsins.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. má kyrrsetja eignir skuldara til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu um peningagreiðslu ef kröfunni verður ekki þegar fullnægt með aðför. Skilyrði þessa er að sennilegt megi telja, fari kyrrsetning ekki fram, að mjög muni draga úr líkindum til að fullnusta takist eða hún verði verulega örðugri.

Stefndi segir til stuðnings kröfu sinni um frávísun kröfu um staðfestingu kyrrsetningarinnar að stefnandi lýsi ekki í stefnu hvernig skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 séu uppfyllt. Í stefnu byggir stefnandi á því að á síðustu starfsárum sínum hjá stefnanda hafi stefndi framið bæði fjárdrátt og umboðssvik í starfi sínu. Verður að telja ljóst að sú skoðun stefnanda sé grunnur þess að hann hafi leitað kyrrsetningar eigna stefnda. Þykir orðalag kröfu um staðfestingu kyrrsetningargerðarinnar ekki þannig úr garði gert að ætla megi að það hindri stefnda í átta sig á málsgrundvellinum og koma við vörnum. Eins og rakið hefur verið hefur stefnandi lækkað fjárkröfu sína á hendur stefnda umtalsvert. Hann hefur ekki reifað hvort og þá hvaða áhrif sú breyting kann að hafa á kröfu hans um staðfestingu kyrrsetningargerðarinnar, en það þykir ekki valda því að vísa beri kröfu um staðfestingu kyrrsetningargerðarinnar frá að svo komnu máli.

Stefndi byggir á því að stefnandi eigi ekki lögvarða kröfu á hendur sér. Til slíks er litið við efnismeðferð.

Samkvæmt e lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnandi greina í stefnu þær málsástæður sem hann byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem greina þarf til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Skal þessi lýsing vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé. Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laganna skal stefnandi við þingfestingu leggja fram þau skjöl sem varða málatilbúnað hans eða hann byggir annars kröfur sínar á, svo og skrá yfir þau skjöl sem hann leggur þá fram.

Regla e liðar 1. mgr. 80. gr. laganna þjónar meðal annars þeim tilgangi að svo verði búið um hnúta að stefndi geti af lestri stefnunnar áttað sig glöggt á því hvaða kröfur eru gerðar á hendur honum, við hvað þær séu studdar og hver stefnandi telur vera þau atvik málsins sem geri að verkum að fallast beri á stefnukröfurnar. Er stefnda nauðsynlegt að geta áttað sig á þessu þegar hann tekur ákvörðun um hvort hann taki til varna í málinu og þá með hverjum hætti. Verður að ætlast til þess af stefnanda að hann geri sakarefni ljós af sinni hálfu strax í öndverðu og breyti þeim ekki síðar, stefnda í óhag, án samþykkis stefnda.

Rakið hefur verið hvernig stefnandi afmarkaði sakarefni í stefnu sinni og hvernig hann, síðar breytti og skýrði þau nánar með bókun. Að mati dómsins skorti talsvert á í öndverðu að fjárkröfur stefnanda væru skýrðar með fullnægjandi hætti.

Í stefnu var þannig byggt á því að stefndi hefði framið umboðssvik með því að stuðla að því að veð hefðu glatazt eða þeim verið stolið. Var ekki tilgreint hvaða veð þetta hefðu verið, að öðru leyti en sagt var að þarna hefðu verið fiskvinnslutæki, lyftari og aðrir lausafjármunir. Var sagt að tjón vegna þessa næmi „fjárhæð um kr. 4.500.000“.

Í stefnu var byggt á því að „húsaleiga [hefði] verið greidd framhjá stefnanda til tengds þriðja aðila“ með því að C ehf., þar sem stefndi hafi áður verið framkvæmdastjóri, hefði leigt ótilgreint herbergi af stefnanda fyrir 5.000 krónur á mánuði, en framleigt herbergið í heimildarleysi til annars félags fyrir 361.000 krónur á mánuði. Þetta er sagt hafa staðið frá árinu 2010 til 2015, án þess að það sé afmarkað frekar. Er fjártjón stefnanda ekki rökstutt sérstaklega að öðru leyti og ekki reifað hvort sú óheimila framleiga, sem byggt er á að stefndi hafi stundað, hafi orðið til þess að stefnandi hafi orðið af leigutekjum sem hann ella hefði notið. Er þannig hvorki reifað né rökstutt að stefnandi hefði sjálfur leigt herbergið út, fyrir þá fjárhæð sem byggt er á að C ehf. hafi gert, ef ekki hefði komið til sú háttsemi sem stefnandi telur stefnda hafa viðhaft. Þá er ekki reifað sérstaklega hversu mörgum slíkum mánaðarlegum greiðslum stefnandi hafi orðið af, að öðru leyti en því að sagt er að þetta ástand hafi varað „frá árinu 2010 til ársins 2015“.

Þá var í stefnu byggt á því að stefndi hefði „framkvæmt óheimilaða gjafagerninga fyrir allt [að] kr. 100.000.000“ en þeir hefðu falizt í afléttingu veða á fasteignum einstaklinga þar sem nægt veðrými hefði verið til staðar, afskriftum og eða endurgreiðslu vaxta og afskrifta höfuðstóls skulda án þess að hagsmunir stefnanda væru hafðir að leiðarljósi. Tilslakanir og hliðranir, einkum vegna erlendra lána, hefðu verið framlengdar óeðlilega lengi og án samþykkis sparisjóðsstjóra. Þetta er ekki útskýrt frekar í stefnu. Ekki er þar getið um hvaða veðum hafi verið aflétt og hvaða veðrými hafi þar verið í boði, vextir hvaða skuldara stefnanda hafi verið afskrifaðir eða endurgreiddir eða hverjir hafi notið tilslakana og hliðrana lána sinna. Þá eru ekki færðar líkur að því í stefnu hvert tjón stefnanda hafi í raun orðið af þeim aðgerðum sem byggt er á að stefndi hafi haft í frammi, en byggt á því að tjón vegna tapaðra trygginga nemi „allt að kr. 35.000.000“, án þess að sú tala sé sundurliðuð eða skýrð frekar. Þykir þessi liður verulega vanreifaður í stefnu.

Þau atriði stefnu sem hér hafa verið rakin þykja vanreifaðri en svo að þau geti talizt nægileg fyrir stefnda til að taka til eðlilegra varna. Með bókun í þinghaldi sem haldið var til málflutnings um frávísunarkröfu stefnda freistaði stefnandi þess að bæta þar úr, svo sem rakið hefur verið. Við munnlegan málflutning vísaði stefnandi til þess skamma frests sem 1. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 veitir gerðarbeiðanda kyrrsetningar til að fá gefna út réttarstefnu í staðfestingarmáli. Stefnandi fór sjálfur þá leið að óska kyrrsetningar til að afla kröfum sínum verndar. Með því að óska eftir kyrrsetningunni gekkst hann undir þær reglur sem um þá bráðabirgðagerð gildir. Stefndi þarf ekki að una því, auk kyrrsetningarinnar, að hennar vegna verði gerðar vægari kröfur en ella til stefnu á hendur honum. Að öllu samanlögðu þykja fjárkröfur stefnanda á hendur stefnda hafa verið svo vanreifaðar í stefnu að óhjákvæmilegt sé að fallast á kröfu stefnda um frávísun fjárkrafna málsins. Þær breytingar sem stefnandi freistaði að gera á kröfunum með bókun undir rekstri málsins þykja ekki breyta þessari niðurstöðu, enda á stefna að greina sakarefni svo skýrlega að stefndi þurfi ekki að ganga að því gruflandi á hvaða grunni kröfur á hendur sér séu reistar og hvaða atvik þar séu lögð til grundvallar.

Ekki er fortakslaust skylt að mál til staðfestingar kyrrsetningar og mál vegna þeirra fjárkrafna sem henni er ætlað að tryggja séu rekin í einu lagi. Þykir frávísun fjárkrafna ekki kalla á frávísun kröfu um staðfestingu kyrrsetningar.

Með vísan til alls framanritaðs verður kröfu um frávísun kröfu um staðfestingu kyrrsetningar hafnað en krafa um frávísun fjárkröfu tekin til greina. Ákvörðun málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins bíður efnisdóms.

Katrín Rúnarsdóttir hdl. flutti mál stefnanda um þennan þátt fyrir hönd Guðmundar Ingva Sigurðssonar hrl. en Tómas Hrafn Sveinsson hrl. gætti hagsmuna stefnda. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Hafnað er kröfu stefnda, B, um frávísun kröfu um staðfestingu kyrrsetningar.

Fjárkröfu stefnanda, A, á hendur stefnda er vísað frá dómi.