Hæstiréttur íslands

Mál nr. 553/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 21. ágúst 2012.

Nr. 553/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Snorri Sturluson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95 gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. ágúst 2012 sem barst héraðsdómi 18. sama mánaðar en Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. ágúst 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 11. september 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

          Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. ágúst 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], skuli sæta gæsluvarðhaldi allt til 11. september 2012 kl. 16.

Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að rétt rúmlega hálf eitt aðfararnótt 14. ágúst sl. hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að Laugavegi [...] þar sem sést hafði til manns, sem klæddur var í dökkan jakka og hermannakvartbuxum, fara inn um glugga á húsi. Er lögreglan hafi verið að ræða við vitni á vettvangi hafi kærði, X, sést á gangi áleiðis frá vettvangi og síðan reynt að hlaupa undan lögreglumönnum. Hann hafi náðst og verið handtekinn vegna gruns um húsbrot. Kærði hafi verið mjög ósamvinnuþýður og er verið var að reyna að færa hann í lögreglubifreið hafi hann ítrekað reynt að sparka í lögreglumenn. Við það að reyna að halda aftur af kærða hafi hann hlotið blóðnasir og hóf hann þá einnig að hrækja blóði á lögreglumenn ásamt því að hóta þeim lífláti. Hafi hann haldið uppteknum hætti á meðan hann hafi verið færður á lögreglustöð og eftir að búið hafi verið að færa hann í fangaklefa. Mál þetta hafi fengið númerið 007-2012-45838, en í því sé kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið húsbrot auk ofbeldis gagnvart opinberum starfsmönnum.

Auk þessa máls sé kærði sterklega grunaður um eftirfarandi brot:

Mál 007-2011-19668

Fyrir eignarspjöll með því að hafa veist að sambýlismanni barnsmóður sinnar, þrifið af honum gleraugu, brotið og kastað í nærliggjandi ruslatunnu.

Mál 007-2011-37171

Fyrir líkamsárás, ofbeldi gegn opinberum starfsmönnum og að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu með því að hafa veist að starfsstúlku í myndbandaleigu með því að grípa í vinstri handlegg hennar og ýta harkalega upp að vegg. Við það hafi stúlkan hlotið mar og mjúkpartaáverka á upphandlegg og yfir brjósthrygg. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi kærði neitað að gefa upp persónuupplýsingar eða skilríki og hlaupið undan lögreglumönnum að heimili sínu þangað sem lögreglan hafi þurft að brjóta sér leið inn til að handtaka hann. Kærði hafi sýnt mikinn mótþróa við handtöku, hrækt á lögreglumenn og viðhaft hótanir gagnvart þeim. Á heimilinu hafi fundist fíkniefni sem haldlögð hafi verið vegna málsins en jafnframt hafi þar verið handtekinn aðili sem þekktur sé hjá lögreglu.

Mál 007-2011-56331

Fyrir framleiðslu fíkniefna og brot á vopnalögum. Þann 13. september 2011 hafi lögreglan leitað á heimili kærða og fundið 35 kannabisplöntur, 7,30 g af kannabislaufum og 8,9 g af maríhúana ásamt riffilskotum. Kærði hafi neitað sök og vísað á óreglumenn sem ábyrgð beri á þessari ræktun. Þeir báðir hafi borið um hjá lögreglu að hafa ekkert vitað af ræktun né vörslu fíkniefna í húsnæði kærða.

Mál 007-2011-68202

Fyrir líkamsárás þann 17. 11. 2011 í Hagkaup í Skeifunni með því að veitast að öryggisverði, er hafi verið að vísa kærða út úr versluninni, með höggum og spörkum. Í ákökum þeirra hafi kærði einnig veist að öryggisverðinum með kústskafti. Hafi öryggisvörðurinn hlotið brot á þumli, tognun í brjósthrygg, tognun í lendhrygg, mar á mjaðmagrind og mar á hendi.

Mál 007-2012-403

Fyrir hylmingu með því að hafa haft í vörslum sínum verkfæri sem kærði hafi vitað eða mátt vita að væru þýfi en þeim hafi verið stolið frá [...] meðan byggingarframkvæmdir stóðu þar yfir á tímabilinu 27. desember til 3. janúar sl.

Mál 007-2012-4497

Fyrir ofbeldi gagnvart opinberum starfsmönnum þann 25. janúar 2012. Tilkynning hafi borist til lögreglu um mann sem hafi verið að brjótast inn í húsnæði við Hverfisgötu [...]. Er lögreglan hafi komið á vettvang hafi maðurinn, sem reyndist vera kærði, reynt að hlaupa undan lögreglumönnum með kannabisplöntu í hendinni. Kærði hafi barist mikið gegn lögreglumönnum meðan verið var að handtaka hann og færa í fangaklefa og hótað þeim ítrekað lífláti. Í Hverfisgötu [...] hafi síðan fundist nokkuð af kannabisstönglum og kannabisplöntum sem kærði hafi neitað að eiga aðild að en vitni í málinu segja kærða hafa átt.

Mál 007-2012-7133

Fyrir hylmingu, ofbeldi gagnvart opinberum starfsmönnum og fíkniefnabrot með því að hafa þann 8. mars. 2012 haft í vörslum sínum m.a. höggborvél sem kærði hafi vitað eða mátt vita að væri stolin og í kjölfar handtöku að hafa ítrekað hótað lögreglumanni lífláti ásamt því að hafa í vörslum sínum í umrætt sinn 4,92 g af hassi sem kærði hafi reynt að gleypa er verið var að færa hann í fangaklefa.

Mál 007-2012-7206

Fyrir ofbeldi gegn opinberum starfsmanni með því að, er kærða hafi verið fylgt á salerni meðan hann var í haldi lögreglu á lögreglustöðinni við Hverfisgötu hér í borg þann 9. febrúar 2012, hafa slegið hnefahöggi í gegnum rúðu á hurð sem aðskildi fangagang og salernisaðstöðu með þeim afleiðingum að glerbrot hafi farið í auga lögreglumanns sem við það hafi hlotið áverka á glæru og þurft að gangast undir aðgerð á auga.

Mál 007-2012-7343

Fyrir fíkniefnabrot með því að hafa 9. mars 2012 við Laugaveg [...] hér í borg haft í vörslum sínum 2,81 g af hassi sem lögreglan hafi fundið við leit á kærða og lagt hald á.

Mál 007-2012-29578

Fyrir vopnalagabrot með því að hafa þann 26. maí 2012 á Lebowski bar við Laugaveg 20 hér í borg haft í vörslum sínum veiðihníf með 14 cm löngu blaði sem lögreglumenn hafi fundið við leit á kærða og lagt hald á.

Mál 007-2012-32027

Fyrir ofbeldi gagnvart opinberum starfsmönnum með því að hafa, í kjölfar þess að lögreglumenn höfðu afskipti af kærða þann 5. júní 2012, ráðist að lögreglumanni með höggum þannig að nota hafi þurft varnarúða til að ráða niðurlögum hans. Það hafi þó ekki gengið án nokkurra átaka að yfirbuga kærða sem hafi barist um sem óður væri. Einnig hafi hann hótað lögreglumanninum sem hafi handtekið hann ítrekuðu lífláti og líkamsmeiðingum og hótað jafnframt því að ætla að drepa alla fjölskyldu lögreglumannsins.

Mál 007-2012-39180

Fyrir tilraun til þjófnaðar og fíkniefnabrot með því að hafa þann 9. júlí 2012 reynt að brjóta upp lás á reiðhjóli, sem hafi verið læst við Vatnsstíg hér í borg, og í kjölfar þess að vera handtekinn verið með ógnanir og óbeinar hótanir í þeirra garð. Við leit á kærða í kjölfar handtökunnar hafi fundist 1,93 g af maríhúana og 0,90 g af amfetamíni.

Mál 008-2012-6214

Fyrir líkamsárás þann 19. maí 2012 að [...] með því að hafa slegið unnustu sína með krepptum hnefa á vinstri vanga og með flötum lófa á hægri vanga, kastað henni utan í vegg, tekið um höfuð hennar og slegið höfði hennar ítrekað utan í vegg þar til hún missti meðvitund. Hafi unnustan kvartað undan eymslum í höfði og hálsi eftir atlöguna og lýst kærða sem ofbeldisfullum manni sem m.a. hafi bannað henni að eiga vini og farsíma og ekki leyft henni að eiga samskipti við fólk nema hann væri viðstaddur. Hún sagðist einnig við skýrslutöku hjá lögreglu hafa reynt að fara frá honum en þá hafi kærði áreitt fjölskyldu hennar linnulaust uns hann hafi fundið hana og neytt síðan með valdi til að koma aftur heim með sér. Hún sagði kærða ítrekað hafa beitt sig ofbeldi í sambandi þeirra og m.a. ökkla-, putta-, nef- og kinnbeinsbrotið hana. Einnig sagði hún kærða hafa skorið hana með hníf. Unnustan hafi lagt kæruna fram þann 19. maí sl. en dregið hana til baka, símleiðis, tveimur dögum síðar. Miðað við frásögn A og sögu kærða megi leiða að því líkur að kærði hafi átt þar hlut að máli en málið sé enn í rannsókn.

Mál 008-2012-6429

Í málinu sé kærði grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna en af frásögnum vitna megi ráða að kærði hafi ekið bifreiðinni [...] vestur Reykjanesbraut þann 24. maí 2012, misst stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún valt. Kærði hafi neitað allri sök en samkvæmt vitni sem með honum var í för og vitni sem kom að vettvangi strax eftir slysið hafi kærði setið undir stýri bifreiðarinnar er það átti sér stað. Málið sé enn í rannsókn.

Mál 008-2012-6498

Í málinu sé kærði grunaður um líkamsárás. Lögreglan á Suðurnesjum hafi verið kölluð að [...] vegna heimilisofbeldis. Þar hafi lögreglumenn hitt fyrir fyrrgreinda unnustu kærða sem sagði hann hafa veist að sér, rifið gat á íþróttabuxur og sett fingur sína upp í leggöng hennar, kallað hana hóru og hlegið. Skömmu síðar hafi hann hrint henni í gólfið, sparkað ítrekað í hægra lærið á henni, tekið hana hálstak og slegið í framan. Unnustan sagðist hafa komist undan og til nágranna sinna sem hún hafi beðið að hringja á lögregluna. Sýnilegir áverkar hafi verið á konunni, skrámur og roði í andliti. Málið sé enn í rannsókn.

Mál 007-2012- 45297, 45634 og 45961

Í máli lögreglu nr. 007-2012-45831, dags. 13. ágúst sl., hafi aðili verið handtekinn eftir meiriháttar líkamsárás á heimili kærða. Í kjölfarið hafi lögreglan framkvæmt húsleit á heimilinu vegna rannsóknar málsins. Við leit lögreglu hafi fundist þýfi úr m.a. framangreindum málum en enn eigi eftir að rannsaka nokkuð af mununum sem lögreglan hafi haldlagt en grunur leiki á að mikið af munum þar séu þýfi úr nýafstöðnum innbrotum og þjófnuðum. Mál þetta sé enn í rannsókn.

Kærði eigi að baki töluverðan sakaferil og hafi hlotið dóma á árunum 1994 fyrir þjófnað, 2000 fyrir brot gegn 173. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 2002 og 2005 fyrr þjófnað og 2008 fyrir auðgunarbrot, brot gegn valdstjórninni og umferðarlögum. Auk þessa hafi ákærði gengist undir nokkrar lögreglustjórasáttir. Rannsóknir þessara mála séu allar á frumstigi

Samkvæmt framburði kærða sé hann án atvinnu en á örorkubótum og virðist því sem hann framfleyti sér og fjármagni vímuefnafíkn sína að einhverju leiti með afbrotum.

Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Þá sé það einnig mat lögreglustjóra, með hliðsjón af því að rannsóknir sumra þessara mála séu á frumstigi og enn eigi eftir að yfirheyra ákærða vegna nýjustu málanna, að brýnt sé að kærði verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þannig að hann fái ekki tækifæri til að torvelda rannsókninni með því ýmist að koma undan munum eða hafa áhrif á aðra samseka og/eða vitni.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a- og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga

Niðurstaða

Kærði er undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Skilyrðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt í máli þessu. Til að unnt sé að úrskurða hann í gæsluvarðhald verður jafnframt eitthvert þeirra skilyrða, sem koma fram í stafliðum a til d í 2. mgr. 95. gr. sömu laga, að vera fyrir hendi. Sóknaraðili styður kröfu sína bæði við a- og c-lið þessa ákvæðis. Í c-lið kemur fram að úrskurða megi mann í gæsluvarðhald ef ætla má að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið eða ef rökstuddur grunur leikur á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi.

Eins og rannsóknargögn lögreglu bera með sér hafa komið upp allmörg mál á síðustu mánuðum þar sem rökstuddur grunur er um að kærði hafi gerst sekur um líkamsárásir, sem m.a. beinast að sambúðarkonu kærða, brot gegn valdsstjórninni og fíkniefnabrot, þ. á m. um ræktun kannabisplantna. Enn fremur er kærði grunaður um hylmingu, húsbrot, vopnalagabrot og akstur undir áhrifum fíkniefna. Samkvæmt vottorði frá Fangelsismálastofnun lauk kærði afplánun vararefsingar 30. júlí sl. Í því ljósi er einnig fyrir hendir rökstuddur grunur um að aðild kærða að nýlegum þjófnaðarbrotum en þýfi er þeim tengjast fundust við leit á heimili kærða. Þá liggur fyrir að kærði á að baki allnokkurn sakarferil og hefur hann m.a. hlotið dóma fyrir auðgunarbrot, fíkniefnabrot og brot gegn valdstjórninni. Gögn málsins bera með sér að kærði eigi við vímuefnavanda að etja og að brotaferil hans megi rekja til þess að hann er í neyslu. Þá er hann grunaður um að hafa ítrekað sýnt löggæslumönnum ofstopa og hótað þeim lífláti þegar þeir hafa haft afskipti af honum, nú síðast aðfaranótt 14. ágúst sl., en í sex af þeim málum sem rakin eru í greinargerð lýtur sakarefnið að slíkri háttsemi. Þegar á framangreint er litið er nægilega í ljós leitt að fyrrgreindu skilyrði c-liðar 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt. Kemur þá ekki til skoðunar hvort efni sé til að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a-lið 2. mgr. 95. gr. laganna. Því er fallist á kröfu sóknaraðila eins og í úrskurðarorði greinir.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði,    X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til 11. september 2012 kl. 16.