Print

Mál nr. 11/2000

Lykilorð
  • Jafnrétti
  • Laun
  • Kjarasamningur
  • Sönnun

Miðvikudaginn 31

 

Miðvikudaginn 31. maí. 2000.

Nr. 11/2000.

Akureyrarbær

(Árni Pálsson hrl.)

gegn

kærunefnd jafnréttismála

vegna Ragnhildar Vigfúsdóttur

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.

Sif Konráðsdóttir hdl.)

 

Jafnrétti. Laun. Kjarasamningur. Sönnun.

R gengdi starfi jafnréttis- og fræðslufulltrúa hjá sveitarfélaginu A frá september 1995 þar til í apríl 1998. Var hún ráðin samkvæmt kjarasamningi A við STAK, en við röðun í launaflokka hjá A samkvæmt umræddum kjarasamningi var tekið mið af starfsmati. Samkvæmt skipuriti A heyrði starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa beint undir bæjarstjóra ásamt starfi atvinnumálafulltrúa og bæjarlögmanns. Við samanburð á starfi jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa við óformlegt starfsmat á árinu 1996 fékk staða  jafnréttis- og fræðslufulltrúa 167 stig, en staða atvinnumálafulltrúa 170 stig. Í framhaldi af matinu óskaði R eftir leiðréttingu á kjörum sínum með hliðsjón af kjörum atvinnumálafulltrúa, sem tóku mið af kjarasamningi verkfræðinga, þótt verkfræðingar gegndu ekki alltaf þeirri stöðu. Á þessum tíma gegndi H, sem var verkfræðingur og karlmaður, stöðu atvinnumálafulltrúa. Var launakjörum svo háttað í mars 1997 að mánaðarlaun jafnréttis- og fræðslufulltrúa voru 172.895 krónur auk greiðslna fyrir 22 fasta yfirvinnutíma og akstur samkvæmt akstursbók, en mánaðarlaun atvinnumálafulltrúa voru 250.891 króna auk greiðslna fyrir 33 fasta yfirvinnutíma og 600 km akstur á mánuði. Kærunefnd jafnréttismála (K) komst að þeirri niðurstöðu í febrúar 1998, að kynferði hefði ráðið þeim verulega muni, sem verið hefði á launum og öðrum kjörum jafnréttis- og fræðslufulltrúa annars vegar og atvinnumálafulltrúa hins vegar og hafi A ekki fylgt ákvæðum jafnréttislaga við umræddar launaákvarðanir. Fór K þess á leit við A að R yrði bættur umræddur munur. Hafnaði A þeirri kröfu og höfðaði K þá mál á hendur A vegna R. Talið var að við úrlausn þess, hvort störf teldust jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga, yrði að byggja á heildstæðu mati og því gæti verið um slík störf að ræða þótt einstaka þættir þeirra kynnu að vera ólíkir. Þá næðist markmið jafnréttislaga ekki, ef launajöfnuður ætti einungis að ná til fólks innan sömu starfsstéttar, en óhjákvæmilegt væri, að samningsfrelsi á vinnumarkaði sætti þeim takmörkunum, er leiddi af ákvæðum jafnréttislaga þannig skýrðum. Talið var að K hefði leitt verulegar líkur að því, að störf jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa hjá A hefðu verið svo sambærileg að inntaki og ytri búnaði, að R hefði verið mismunað í kjörum hjá A. Nægðu þær til þess samkvæmt almennum sönnunarreglum, að A yrði að sýna fram á að svo hafi ekki verið gert á grundvelli kynferðis. Var A ekki talinn hafa sannað að hlutlægar og málefnalegar ástæður hefðu í hvívetna ráðið kjaramuninum og voru mismunandi kjarasamningar einir ekki taldir geta réttlætt mismun starfskjara kvenna og karla. Þá var fallist á niðurstöðu héraðsdóms um yfirvinnu- og akstursgreiðslur, en A var ekki talinn hafa sýnt fram á, að í þessu máli ættu við önnur sjónarmið um þá þætti starfskjaranna en föst laun. Var því fallist á kröfu K vegna R um að viðurkennt yrði með dómi að sá munur, sem var á launum og öðrum starfskjörum jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa A, hafi frá ráðningu R og fram í mars 1997, brotið gegn lögum nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ekki voru talin efni til að dæma R sérstakar miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. janúar 2000 og krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess, að viðurkennt verði, að sá munur, sem var á launum og öðrum starfskjörum jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa áfrýjanda Akureyrarbæjar frá ráðningu Ragnhildar Vigfúsdóttur í starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa 1. september 1995 og fram í mars 1997 hafi verið ólögmætur og brot á 1. tl. 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá krefst stefndi 500.000 króna fégjalds á grundvelli 22. gr. sömu laga vegna hneisu og óþæginda Ragnhildar Vigfúsdóttur. Loks er krafist staðfestingar á málskostnaðarákvæði héraðsdóms auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Nokkur ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt, þar á meðal starfsmatskerfi áfrýjanda frá maí 1993 og endurrit vitnamáls fyrir Héraðsdómi Norðurlands 7. mars 2000, þar sem skýrslur voru teknar af Böðvari Guðmundssyni og Dan Jens Brynjarssyni, en báðir áttu sæti í starfsmatsnefnd áfrýjanda á árinu 1996, og Helga Jóhannessyni, sem var atvinnumálafulltrúi áfrýjanda frá því í janúar 1996 fram í mars 1997.

I.

Ragnhildur Vigfúsdóttir tók við starfi jafnréttis- og fræðslufulltrúa hjá áfrýjanda 1. september 1995 og gegndi því til aprílmánaðar 1998.  Hún var ráðin samkvæmt kjarasamningi áfrýjanda við Starfsmannafélag Akureyrar (STAK), eins og fram var tekið í auglýsingum um starfið. Þá fékk hún greidda fasta yfirvinnu vegna 22 vinnustunda á mánuði og fyrir akstur samkvæmt akstursbók. Í auglýsingu um starfið 11. júní 1995 kom fram, að krafist væri háskólamenntunar, reynslu og þekkingar á sviði fræðslu- og jafnréttismála auk reynslu af stjórnun og skipulagningu. Lögð var áhersla á tvíþætt verksvið jafnréttisfulltrúa samkvæmt nýrri jafnréttisáætlun bæjarins og skyldi hann vinna að framgangi áætlunarinnar bæði innan bæjarkerfisins og gagnvart bæjarbúum. Einnig sagði í auglýsingunni, að jafnréttis- og fræðslufulltrúi myndi gegna veigamiklu hlutverki við undirbúning þriggja ára þróunarverkefnis um nám í starfi hjá Akureyrarbæ. 

Langflestir starfsmenn áfrýjanda fengu greidd laun samkvæmt framangreindum kjarasamningi og við röðun í launaflokka var tekið mið af starfsmati. Í starfsmatsnefnd áttu sæti fulltrúar STAK og áfrýjanda auk oddamanns, Böðvars Guðmundssonar, sem jafnframt var sérfræðingur nefndarinnar. Kjör starfsmanna, sem aðild áttu að öðrum kjarasamningum, voru utan starfsmats. Einstaka starfsmenn aðrir, einkum æðstu embættismenn áfrýjanda, stóðu einnig utan starfsmats, þótt einhverjir þeirra ættu aðild að STAK, og munu launakjör þeirra hafa ráðist af einstaklingsbundnum samningum, sem tóku mið af kjarasamningi verkfræðinga og áfrýjanda. Í ódagsettu skipuriti kemur fram, að atvinnumálafulltrúi og jafnréttis- og fræðslufulltrúi heyrðu auk bæjarlögmanns beint undir bæjarstjóra, en að öðru leyti var störfum hjá áfrýjanda skipt í sérstakar deildir eða svið.

Þegar Ragnhildur Vigfúsdóttir kom til starfa hjá áfrýjanda lá fyrir beiðni jafnréttisnefndar bæjarins 10. júlí 1995 til kjaranefndar hans þess efnis, að „gerð verði örlítil tilraun til að nýta starfsmat til samanburðar launa og starfa karla og kvenna í deildarstjórastöðum hjá Akureyrarbæ, út fyrir þann hóp sem samkvæmt samningum gangast undir starfsmat.“ Óskað var samanburðar á störfum þriggja tvennda; í fyrsta lagi deildarstjórum leikskóladeildar og öldrunardeildar, í öðru lagi jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa og í þriðja lagi deildarstjóra ráðgjafardeildar og deildartæknifræðingi hjá tæknideild. Konur gegndu þá störfum deildarstjóra leikskóladeildar og ráðgjafardeildar og jafnréttis- og fræðslufulltrúa en karlmenn hinum störfunum. Í bréfinu sagði jafnframt, að forsenda þessa vals væri sú, að ekki væru fleiri deildarstjórastöður hjá bænum skipaðar konum og reynt hefði verið að velja á móti störf, sem í fljótu bragði virtust sambærileg, væru skipuð körlum og væru á öðrum sviðum. Að ákvörðun bæjarráðs 26. júlí 1995 gerðu einungis oddamaður starfsmatsnefndar og fulltrúar áfrýjanda í nefndinni umbeðinn samanburð en ekki fulltrúar STAK, þar sem tilgreindir starfsmenn tækju ekki allir laun samkvæmt kjarasamningi starfsmannafélagsins við áfrýjanda. Í bréfi þessa vinnuhóps 28. júní 1996 til kjarasamninganefndar áfrýjanda kemur fram, að störfin hafi verið metin miðað við fyrirliggjandi starfslýsingar og gildandi starfsmatskerfi og skipti þá engu, hvort karl eða kona gegni viðkomandi starfi. Engin afstaða sé því tekin til þess, „hvort störfin séu sambærileg á grundvelli „pörunar“ jafnréttisnefndar eða hvort störfin tilheyri dæmigerðum karla- eða kvennastéttum.“ Niðurstöðurnar voru metnar til stiga á þann veg, að deildarstjóri leikskóladeildar fékk 168 stig, deildarstjóri öldrunardeildar 172 stig, jafnréttis- og fræðslufulltrúi 167 stig, atvinnumálafulltrúi 170 stig, deildarstjóri ráðgjafardeildar 169 stig og deildartæknifræðingur hjá tæknideild einnig 169 stig. Þá er fram komið, að þrjú þessara starfa, störf deildarstjóra öldrunardeildar og ráðgjafardeildar og jafnréttis- og fræðslufulltrúa, höfðu áður verið metin í starfsmati með hefðbundnum hætti og var sú niðurstaða látin standa í úrlausn vinnuhópsins.

Í skilgreiningu starfsmatskerfisins segir meðal annars, að um sé að ræða kerfisbundna aðferð við að bera saman afmarkaða og skilgreinda þætti viðfangsefna og lúti tilgangur matsins að því að finna innbyrðis afstætt gildi starfa, sem hafa megi til hliðsjónar við grunnröðun þeirra í launaflokka. Þá kemur fram, að matsþættir séu hæfni (um 45%), aðgæsla (um 28%), álag (um 16%) og vinnuskilyrði (um 11%). Hver þáttur er svo metinn til stiga á nánar tilgreindum forsendum, er horfa meðal annars til þekkingar og reynslu, krafna um frumkvæði og árvekni í starfi, vitneskju um trúnaðarmál, hættu á því að valda öðrum meiðslum í starfi og þeirra þátta í starfsumhverfinu, sem áhrif hafa á vinnuskilyrði.

Böðvar Guðmundsson bar fyrir dómi, að mat vinnuhópsins hefði verið óformlegt og haft mjög takmarkað samanburðargildi, en ekki hafi verið rætt við viðkomandi starfsmenn og aldrei staðið til, að um fullgilt starfsmat væri að ræða. Hann kvað þó, að reynt hefði verið að vinna matið nákvæmlega eins og gert hefði verið, þótt fleiri hefðu verið í hópnum, og hefði verið unnið efnislega á sama hátt og endranær. Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri áfrýjanda sagði fyrir héraðsdóminum,  að ekki hefði verið um fullkomið starfsmat að ræða, þar sem fulltrúar STAK hefðu ekki verið með í hópnum og ekki hefði verið rætt við starfsmennina í þetta sinn, eins og venja væri, en áður hefði þó verið rætt við þá, er fyrr hefðu sætt starfsmati. Niðurstaðan hefði örugglega breyst eitthvað, hefði verið um fullkomið starfsmat að ræða, en það hefði komið sér á óvart, ef hún hefði breyst mjög verulega.

Í framhaldi af niðurstöðu vinnuhópsins mun Ragnhildur Vigfúsdóttir hafa óskað  leiðréttinga á kjörum sínum með hliðsjón af kjörum atvinnumálafulltrúa, er tóku mið af kjarasamningum verkfræðinga. Þeirri stöðu gegndi þá Helgi Jóhannesson verkfræðingur, eins og áður greinir. Fram er komið, að forverar hans hafi einnig notið kjara samkvæmt kjarasamningi verkfræðinga, þótt þeir hefðu ekki slíka menntun. Í mars 1997 tók kona við starfi atvinnumálafulltrúa og voru kjör hennar á sama hátt ákveðin eftir þessum kjarasamningi, en hún var heldur ekki verkfræðingur. Í auglýsingu 24. september 1995 um stöðu forstöðumanns atvinnuskrifstofu eða atvinnumálafulltrúa, eins og starfið hefur verið nefnt, var krafist góðrar menntunar auk reynslu og þekkingar á íslensku atvinnulífi. Þá var sagt, að forstöðumaðurinn annaðist meðal annars daglegan rekstur skrifstofunnar í umboði atvinnumálanefndar og væri um að ræða brautryðjendastarf, sem krefðist stöðugrar árvekni og frumkvæðis. Launakjara var að engu getið.

Í bréfi áfrýjanda til skrifstofu jafnréttismála 20. ágúst 1997 kemur fram, að heildarlaun atvinnumálafulltrúa fram til mars 1997 hafi að meðtöldum greiðslum fyrir 33 fasta yfirvinnutíma auk orlofs á yfirvinnu verið 250.891 króna. Þá hafi hann fengið greitt fyrir 600 km akstur á mánuði, 34,55 krónur fyrir hvern kílómetra. Á sama tíma hafi jafnréttis- og fræðslufulltrúi fengið 172.895 krónur á mánuði að meðtöldum greiðslum fyrir 22 fasta yfirvinnutíma auk orlofs á þá. Fyrir akstur hafi verið greitt samkvæmt akstursbók, 34,55 krónur fyrir hvern ekinn kílómetra.

II.

Fyrir liggja lýsingar á störfum jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa á þeim tíma, sem hér skiptir máli. Í málinu getur að líta tvær starfslýsingar vegna fyrrnefnda starfsins og er önnur dagsett 22. maí 1991 en hin ódagsett. Við úrlausn stefnda um kæru Ragnhildar Vigfúsdóttur 23. febrúar 1998 var síðari starfslýsingin ekki lögð til grundvallar gegn mótmælum áfrýjanda og verður við það að sitja. Í fyrri starfslýsingunni segir, að jafnréttis- og fræðslufulltrúi skuli vinna að framgangi jafnréttisáætlunar og annarra verkefna, sem jafnréttisnefnd og bæjarstjórn feli honum. Hann skuli veita fyrirtækjum, einstaklingum og yfirmönnum hjá áfrýjanda ráðgjöf um jafnréttismál. Þá skuli hann hafa umsjón með fræðslumálum starfsfólks áfrýjanda í samráði við starfsmannastjóra og stjórn fræðslunefndar. Fulltrúinn er starfsmaður jafnréttisnefndar og fræðslunefndar og situr fundi þeirra með tillögurétti og málfrelsi. Þá er honum ætlað að hafa frumkvæði að vali nýrra verkefna umfram þau, sem nefndirnar kunni að fela honum. Á verksviði jafnréttis- og fræðslufulltrúa eru samkvæmt starfslýsingunni meðal annars umsjón með hvers konar námskeiðum um jafnréttis- og sveitarstjórnarmál og ráðgjöf um símenntunarmál starfsmanna áfrýjanda.

Fram kemur í starfslýsingu atvinnumálafulltrúa, sem hann samdi 3. júní 1996 að beiðni formanns jafnréttisnefndar Akureyrar vegna áðurnefnds samanburðar, að hann sé yfirmaður atvinnumálaskrifstofu Akureyrarbæjar og beri ábyrgð á rekstri hennar og stjórnunaraðgerðum gagnvart atvinnumálanefnd, en hann sitji fundi hennar og skrái fundargerðir. Hann skuli annast samskipti við atvinnulífið í bænum og hafa yfirsýn yfir það. Honum sé meðal annars ætlað að stuðla að því, að aðstaða til reksturs fyrirtækja á Akureyri sé að minnsta kosti ekki lakari en annars staðar á landinu og veita fyrirtækjum og einstaklingum almenna ráðgjöf í samstarfi við Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar. Þá skuli atvinnumálafulltrúi vinna að hvers konar fræðslustarfsemi um atvinnumál í bænum og stuðla að samstarfi fyrirtækja og samvinnu atvinnulífs og opinberra aðila.

Stefndi komst að þeirri niðurstöðu 23. febrúar 1998, að kynferði hafi ráðið þeim verulega muni, sem verið hafi á launum og öðrum kjörum jafnréttis- og fræðslufulltrúa annars vegar og atvinnumálafulltrúa hins vegar og hafi áfrýjandi ekki fylgt ákvæðum jafnréttislaga við umræddar launaákvarðanir. Fór stefndi þess á leit við áfrýjanda, að Ragnhildi Vigfúsdóttur yrði bættur þessi munur, að því leyti sem hann yrði ekki skýrður með þeim óverulega muni á stigum, sem verið hafi á störfunum í framangreindum samanburði. Bæjarráð Akureyrar hafnaði því endanlega 16. júlí 1998 að verða við þeim kröfum Ragnhildar, sem reistar væru á áliti stefnda. Í framhaldi þess var mál þetta höfðað og er í héraðsdóminum gerð skilmerkileg grein fyrir málsástæðum og lagarökum aðila.

III.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 28/1991 skulu konum og körlum greidd jöfn laun og þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Þar er kveðið á um, að með launum sé átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup og hvers konar frekari þóknun, beina eða óbeina, hvort heldur sé með hlunnindagreiðslum eða öðrum hætti og sagt, að með kjörum sé átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur samningsréttindi. Þá er þar einnig tekið fram, að með jöfnum launum karla og kvenna fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf sé átt við launataxta, sem samið er um, án þess að gerður sé greinarmunur á kynjum. Samkvæmt 6. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það meðal annars um laun, launatengd fríðindi og hvers konar aðra þóknun fyrir vinnu. Framangreind ákvæði eru í samræmi við 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, sem Ísland er aðili að, skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur, sem á honum byggja. Í 69. gr. samningsins er aðildarríkjunum gert að tryggja, að konur og karlar hljóti jöfn laun fyrir jafna vinnu, en með launum er átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup ásamt öllum öðrum greiðslum, hvort heldur er í fé eða fríðu, sem launþegi fær beint eða óbeint frá vinnuveitanda sínum vegna starfa síns, sbr. og XVIII. viðauka samningsins um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnurétt og jafnrétti kynjanna. Í 1. gr. tilskipunar ráðsins nr. 75/117/EBE segir, að meginreglan um sömu laun karla og kvenna feli í sér, að afnumin sé öll mismunun vegna kynferðis, að því er varðar sömu störf eða störf sem álitin eru jafnverðmæt, er varðar alla þætti launa og launakjara. Er hér um sambærileg ákvæði að ræða og fram koma í lögum nr. 28/1991.

IV.

Í áliti stefnda 23. febrúar 1998 um kæru Ragnhildar Vigfúsdóttur segir, að úrlausn þess, hvort störf teljist jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga verði að byggjast á heildstæðu mati og geti þannig verið um slík störf að ræða, þótt einstaka þættir þeirra kunni að vera ólíkir og þau krefjist til dæmis mismunandi menntunar. Þá segir jafnframt, að markmið jafnréttislaga um sömu launakjör kvenna og karla fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf náist ekki, ef launajöfnuðurinn eigi einungis að ná til fólks innan sömu starfsstéttar. Á þessi sjónarmið verður að fallast, en óhjákvæmilegt er, að samningsfrelsi á vinnumarkaði sæti þeim takmörkunum, er leiðir af ákvæðum jafnréttislaga þannig skýrðum.

Fram er komið, að áfrýjandi setti sér sérstaka jafnréttisáætlun 1989 og var fyrst ráðinn jafnréttis- og fræðslufulltrúi á Akureyri 1991. Eins og málið er flutt verður við það að miða, að áfrýjandi hafi lagt ríka áherslu á árangur starfa að jafnréttismálum og því hafi hið nýja starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa haft sérstakt vægi. Það heyrði samkvæmt skipuriti beint undir bæjarstjóra en var ekki skipað á bekk í deildaskiptingu starfa hjá áfrýjanda. Í bréfi áfrýjanda til stefnda 19. janúar 1998 kemur fram, að miklar væntingar hafi verið gerðar til starfs atvinnumálafulltrúa og þýðingar þess fyrir þróun og eflingu byggðar á Akureyri, en til starfsins mun hafa verið stofnað á svipuðum tíma og starfs jafnréttis- og fræðslufulltrúa. Atvinnumálafulltrúi heyrði samkvæmt skipuriti beint undir bæjarstjóra ásamt jafnréttis- og fræðslufulltrúa auk bæjarlögmanns. Þetta fyrirkomulag nýrra starfa og það mikilvægi, sem þeim var sýnilega báðum ætlað að hafa í starfsemi áfrýjanda, styður það sjónarmið, að með störfunum hafi átt að vera nokkurt jafnræði í ytri ásýnd. Auglýsingar um störfin, sem áður voru nefndar, renna frekari stoðum undir þetta og er þess þó að gæta, að í auglýsingu um starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa var krafist háskólamenntunar en ekki í auglýsingu um stöðu atvinnumálafulltrúa, þar sem áhersla var lögð á þekkingu í atvinnumálum. Þá tengjast bæði störfin atvinnulífi og stjórnsýslu á Akureyri með það að markmiði að veita fræðslu og stuðla að þróun gagngert í því skyni að efla atvinnu í bænum og styrkja jafnrétti kynja í framkvæmd.

Eins og áður greinir fór fram mat á nokkrum störfum hjá áfrýjanda á árinu 1996 að beiðni jafnréttisnefndar Akureyrar, þar á meðal störfum atvinnumálafulltrúa og jafnréttis- og fræðslufulltrúa. Matið var ekki unnið af fullskipaðri starfsmatsnefnd, heldur einungis fulltrúum áfrýjanda og oddamanni nefndarinnar, sem jafnframt var sérfræðingur hennar, og ekki var rætt sérstaklega við þá starfsmenn, er þessum störfum gegndu. Þótt ekki hafi þannig í hvívetna verið fylgt venjubundnum aðferðum við starfsmatið hefur ekki verið sýnt fram á, að það hafi haft merkjanleg áhrif á efnislegar niðurstöður. Starfsmatið á því að gefa allskýrar vísbendingar, þó að það skeri ekki til hlítar úr um það álitaefni, hvert samræmi skuli vera um launagreiðslur vegna þeirra starfa, sem þar voru skoðuð. Áður er frá því greint, að í matinu 1996 hafi starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa verið metið til 167 stiga en atvinnumálafulltrúa 170 stiga. Engin rök hafa verið færð fram fyrir því, að þessi munur á stigum skýri þann verulega mun á kjörum þessara starfsmanna, sem raun bar vitni.

Þegar allt er virt verður að telja, að stefndi hafi leitt verulegar líkur að því, að störf jafnréttis- og fræðslufulltrúa annars vegar og atvinnumálafulltrúa hins vegar hafi verið svo sambærileg að inntaki og ytri búnaði, að Ragnhildi Vigfúsdóttur hafi verið mismunað í kjörum hjá áfrýjanda. Nægja þær til þess samkvæmt almennum sönnunarreglum, að áfrýjandi verði að sýna fram á, að svo hafi ekki verið gert á grundvelli kynferðis. Öðrum gögnum um ábyrgð og umfang umræddra starfa en rakin hafa verið og þýðingu geta haft er ekki til að dreifa í málinu. Áfrýjandi hefur ekki fært sannfærandi rök að því, að eðlileg markaðssjónarmið hafi átt að leiða til svo mismunandi kjara, þegar litið er til stöðu þessara starfa í stjórnkerfi bæjarins. Eins og mál þetta liggur fyrir dómstólum verður ekki talið, að áfrýjanda hafi tekist að sanna, að hlutlægar og málefnalegar ástæður hafi í hvívetna ráðið kjaramuninum, en mismunandi kjarasamningar geta ekki einir sér réttlætt mismun starfskjara kvenna og karla. Það haggar ekki þessari niðurstöðu, að kona tók við starfi atvinnumálafulltrúa í mars 1997 og naut sambærilegra kjara og forverar hennar, sem voru karlmenn. Þá verður fallist á úrlausn héraðsdóms um þann þátt kröfugerðar stefnda, er lýtur að yfirvinnu- og akstursgreiðslum, en áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á, að í þessu máli eigi önnur sjónarmið við um þá þætti starfskjaranna en föst laun.

Samkvæmt framansögðu verður krafa stefnda um viðurkenningardóm tekin til greina.

Í uppsagnarbréfi Ragnhildar Vigfúsdóttur til bæjarstjórnar Akureyrar 27. febrúar 1998 kom fram, að hún hefði þá verið ráðin í tímabundna stöðu íslensks lektors við Nordens folkliga akademi í Gautaborg og sýndi val hennar í stöðuna, að hjá bænum væri verið að vinna gott starf í jafnréttis- og fræðslumálum. Að öllu athuguðu þykja ekki vera efni til þess að dæma henni sérstakar miskabætur samkvæmt 22. gr. laga nr. 28/1991.

  Málskostnaðarákvæði héraðsdóms verður staðfest. Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Sá munur, sem var á launum og öðrum starfskjörum jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa áfrýjanda, Akureyrarbæjar, frá ráðningu Ragnhildar Vigfúsdóttur í starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa 1. september 1995 og fram í mars 1997, braut gegn lögum nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda, kærunefnd jafnréttismála, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. nóvember 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 6. október s.l., hefur kærunefnd jafnréttismála, kt. 660691-2009, Pósthússtræti 13, Reykjavík, vegna Ragnhildar Vigfúsdóttur, kt. 120859-2779, Grenivöllum 22, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi gegn Akureyrarbæ, kt. 410169-6229, Geislagötu 9, Akureyri, með stefnu birtri þann 25. janúar 1999.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði, að sá munur sem var á launum og öðrum starfskjörum jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa Akureyrarbæjar frá ráðningu Ragnhildar Vigfúsdóttur í starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa 1. september 1995 og fram í mars 1997 hafi verið ólögmætur og brot á 1. tl. 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 28, 1991.  Stefnandi krefst einnig greiðslu fégjalds á grundvelli 22. gr. laga nr. 28, 1991 vegna hneisu og óþæginda Ragnhildar Vigfúsdóttur kr. 500.000,-.  Að lokum krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar fyrir héraðsdómi samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofu Láru V. Júlíusdóttur, hrl., svo og greiðslu útlagðs kostnaðar Ragnhildar Vigfúsdóttur vegna málareksturs fyrir kærunefnd jafnréttismála samtals kr. 86.677.

Stefndi krefst þess að hann verði sýkn af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til greiðslu málskostnaðar.

Atvik máls munu vera þau, að starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa stefnda var auglýst laust til umsóknar í júní 1995.  Var það öðru sinni sem starfið var auglýst það skiptið þar sem umsækjendur vegna fyrri auglýsingar komu að mati bæjaryfirvalda ekki til greina í starfið.  Í auglýsingunni kom fram, að jafnréttis- og fræðslufulltrúi tæki laun samkvæmt kjarasamningi stefnda við Starfsmannafélag Akureyrarbæjar, STAK.   Ragnhildur Vigfúsdóttir var ein umsækjenda boðuð í viðtal og átti þar viðræður við þrjá starfsmenn stefnda, starfsmannastjóra, formann jafnréttisnefndar og nefndarmann í fræðslunefnd.  Í viðtalinu kom fram mikill áhugi á að ráða Ragnhildi til starfa og í framhaldi af því voru starfskjörin rædd.  Samkomulag varð um, að kjör Ragnhildar skyldu vera samkvæmt launaflokki 87 samkvæmt áðurnefndum kjarasamningi stefnda við STAK.  Þá fengi hún fasta 22 yfirvinnutíma á mánuði, auk þess sem akstur yrði greiddur samkvæmt akstursbók.  Jafnframt samdist svo um, að Ragnhildur fengi greiddan flutningskostnað. 

Langflestir starfsmenn stefnda tóku laun samkvæmt kjarasamningi hans við STAK og var jafnréttis- og fræðslufulltrúi þar á meðal.  Í tengslum við þann kjarasamning fór fram ákveðið starfsmat.  Sérstök starfsmatsnefnd mat störfin en í henni áttu sæti fulltrúar STAK og stefnda ásamt oddamanni, Böðvari Guðmundssyni en hann var jafnframt sérfræðingur nefndarinnar.  Kjör starfsmanna, sem aðild áttu að öðrum stéttarfélögum s.s. Félagi leikskólakennara, Verkamannafélaginu Einingu eða Verkfræðingafélagi Íslands, voru utan starfsmats.  Einstaka starfsmenn aðrir, einkum æðstu embættismenn bæjarins, stóðu einnig utan starfsmats þó svo einhverjir þeirra ættu aðild að STAK.  Launakjör þeirra réðust af einstaklingsbundnum samningum sem felldir voru að eða sóttu viðmiðanir til kjarasamnings verkfræðinga og stefnda.

Þegar Ragnhildur kom til starfa hjá stefnda lá fyrir beiðni frá jafnréttisnefnd stefnda til kjaranefndar STAK þess efnis, að starfsmati yrði beitt til samanburðar á kjörum nokkurra kvenna og karla í deildarstjórastörfum hjá stefnda.  Var í bréfinu talað um að framkvæmd yrði „örlítil samanburðartilraun“ og óskað eftir samanburði á:

1.a) deildarstjóra leikskóladeildar og

b) deildarstjóra öldrunardeildar,

2.a) jafnréttis- og fræðslufulltrúa og

b) atvinnumálafulltrúa og að lokum,

3.a) deildarstjóra ráðgjafardeildar og

b) deildartæknifræðingi hjá tæknideild. 

 

Á þeim tíma sem matið fór fram gegndu konur þeim störfum sem merkt voru a) en karlar störfum merktum b).  Í bréfi formanns jafnréttisnefndar til kjaranefndar STAK kom fram, að ástæður þess að framangreind störf voru valin hafi verið þær, að ekki hefðu verið fleiri deildarstjórastöður skipaðar konum hjá stefnda og reynt hefði verið að velja á móti störf, sem í fljótu bragði virtust sambærileg, væru skipuð körlum og væru á öðrum sviðum.  Fulltrúar stefnda í starfsmatsnefnd ásamt sérfræðingi nefndarinnar mátu störfin, en fulltrúar STAK í nefndinni tóku ekki þátt í matinu.  Niðurstaða þeirra var eftirfarandi:

1. deildarstjóri leikskóladeildar 168 stig, deildarstjóri öldrunardeildar 172 stig,

2. jafnréttis- og fræðslufulltrúi 167 stig, atvinnumálafulltrúi 170 stig,

3. deildarstjóri ráðgjafadeildar 169 stig, deildartæknifræðingur hjá tæknideild 169 stig.

Í framhaldi af niðurstöðum framangreinds starfsmats óskaði Ragnhildur eftir leiðréttingu kjara til samræmis við kjör atvinnumálafulltrúa, en kjör hans tóku mið af kjarasamningum verkfræðinga.  Á þessum tíma gegndi karlmaður stöðu atvinnumálafulltrúa og reyndar hafði svo verið frá því stöðunni var komið á fót, en í mars 1997 tók kona við starfinu.  Heildarmánaðarlaun atvinnumálafulltrúa voru í mars 1997 kr. 242.809,34 auk orlofs á yfirvinnu kr. 8.081,33 og 600 km akstur á mánuði.  Á sama tíma voru heildarlaun jafnréttis- og fræðslufulltrúa kr. 168.801,56 auk orlofs á yfirvinnu kr. 4.093,72 auk þess sem greitt var fyrir akstur samkvæmt akstursbók.  Niðurstöður samanburðartilraunarinnar voru ræddar á fundi kjarasamninganefndar stefnda þann 6. nóvember 1996 og fjallaði jafnréttisnefnd stefnda um málið á fundi 25. nóvember s.á.  Málið var tekið til umfjöllunar í bæjarráði stefnda á fundum 23. janúar 1997 og 6. febrúar s.á.  Þar sem stefndi varð ekki við kröfum Ragnhildar um leiðréttingu kjara á grundvelli áðurnefnds starfsmats kærði hún málið til stefnanda.  Þann 23. febrúar 1998 komst stefnandi að þeirri niðurstöðu, að stefndi hefði brotið jafnréttislög við launaákvarðanir sínar gagnvart Ragnhildi.  Í kjölfar þeirrar niðurstöðu fóru fram viðræður milli Ragnhildar og stefnda um launauppgjör á grundvelli niðurstöðu stefnanda en þær viðræður leiddu ekki til breytingar á kjörum Ragnhildar.  Með bókun bæjarráðs stefnda þann 16. júlí 1998 var ákveðið að hafna kröfum Ragnhildar, sem byggðu á áliti stefnanda.

Stefnandi byggir viðurkenningarkröfu sína á, að stefndi hafi við ákvörðun launakjara Ragnhildar brotið lög nr. 28, 1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.  Vísar stefnandi einkum til 4. gr. laganna um að konum og körlum skuli greidd jöfn laun og skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.  Jafnframt vísar hann til 6. gr. laganna þar sem kveðið er á um, að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildi það m.a. um laun, launatengd fríðindi og hvers konar aðra þóknun fyrir vinnu.  Stefnandi heldur því fram, að störf jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa séu jafnverðmæt og sambærileg þó svo þau séu ekki eins.  Þegar bornar séu saman starfslýsingar þeirra megi sjá, að bæði störfin tengist atvinnulífi á Akureyri, innan sem utan stjórnsýslu bæjarins.  Í starfslýsingunum sé lögð áhersla á fræðslu, upplýsingamiðlun og þróunarstarf innan viðkomandi sviðs með það að markmiði annars vegar, að styrkja atvinnulíf í bænum og hins vegar, að stuðla að jafnrétti kynja.  Starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa snúi fremur að innra starfi á vegum sveitarfélagsins, en ákveðnir þættir þess varði þó atvinnulíf í bænum.  Starf atvinnumálafulltrúa sé meira í tengslum við atvinnulífið á Akureyri.  Í starfslýsingunum sé að finna lýsingu á viðkomandi störfum, en ekki komi þar fram hvaða kröfur séu gerðar um menntun og aðra hæfni þeirra sem gegna eiga störfunum.  Það liggi jafnframt fyrir, að störfin séu jafnsett samkvæmt skipuriti bæjarins.  Vísar stefnandi og í áðurnefnt starfsmat og heldur því fram, að óumdeilt sé, að sá punktamunur sem er á störfum jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa réttlæti ekki einn og sér þann launamun, sem hafi verið á milli þeirra sem gegnt hafa störfunum.  Heldur stefnandi því fram, að stefndi hafi notað starfsmat við ákvörðun launa frá árinu 1975 og byggi það starfsmat á reglum sem Alþjóðavinnumálastofnunin hafi sett um gerð slíkra starfsmatskerfa, þar sem hæfni, ábyrgð, áreynsla og starfsskilyrði séu þeir þættir sem matið grundvallist á.  Mat það sem framkvæmt hafi verið af Böðvari Guðmundssyni og fulltrúum stefnda í starfsmatsnefndinni hafi á allan hátt verið sambærilegt mati á öðrum störfum hjá stefnda, að öðru leyti en því, að fulltrúar STAK tóku ekki þátt í því.  Þá heldur stefnandi því fram, að synjun stefnda á leiðréttingu á kjörum Ragnhildar í ljósi niðurstöðu stefnanda, sé í andstöðu við jafnréttisáætlun stefnda fyrir árin 1993-1997.  Í grein 2.2.2 þeirrar áætlunar komi fram að:  „Við ákvörðun launa og fríðinda skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað, sbr. 4. gr. laga nr. 28/1991.  Í því sambandi skal horfa sérstaklega til þess að meta jafnt mismunandi starfssvið, reynslu og menntun karla og kvenna.”  Þá byggir stefnandi á því, að ekki sé hægt að réttlæta launamun mismunandi faghópa á vinnumarkaði almennt með vísan til kjarasamninga.  Skyldur atvinnurekenda samkvæmt jafnréttislögum takmarkist ekki við nákvæmlega sömu störf, heldur við það, að störfin séu jafnverðmæt og sambærileg.  Fyrir liggi að nokkrir af æðstu starfsmönnum stefnda fái greidd laun samkvæmt kjarasamningi tækni- og verkfræðinga við launanefnd sveitarfélaga, án tillits til menntunar þeirra.  Það hafi Ragnhildi ekki verið boðið en fyrir liggi ákvörðun stefnda þess efnis, að laun atvinnumálafulltrúa tækju mið af samningnum án tillits til menntunar þess sem á hverjum tíma gegndi starfinu.  Byggir stefnandi á því að ljóst sé, að það sé komið undir mati æðstu yfirmanna stefnda, hvort greitt sé fyrir starf samkvæmt kjarasamningi við STAK eða miðað við aðra kjarasamninga.  Því hafi launamunur jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa byggst á einhliða ákvörðun stefnda um að greiða laun fyrir umrædd störf samkvæmt mismunandi kjarasamningum, en hafi að öðru leyti ekkert með kjarasamninga að gera.  Þá heldur stefnandi því fram, að ekki sé hægt að mismuna körlum og konum í launum með vísan til markaðslegra forsendna og réttlæta áðurnefndan launamun jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa með samningsfrelsi og mismunandi mati á verðmæti starfa.  Það sé alkunna að kynjahlutfall milli stétta sé mjög misjafnt og að tala megi um karla- og kvennastörf.  Markmiðum jafnréttislaga um sömu launakjör fyrir karla og konur sem inna af hendi jafn verðmæt og sambærileg störf, verði ekki náð ef launajöfnuðurinn eigi einungis á ná til starfsmanna innan sömu starfsstéttar.  Þá liggi það fyrir, að stefndi hafi reynt mikið til að fá hæfan starfsmann í starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa.  Að lokum byggir stefnandi á því, að sá munur sem var á launum atvinnumálafulltrúa meðan karlmaður gegndi því starfi og jafnréttis- og fræðslufulltrúa, verði ekki skýrður út með þáttum sem lúti að þeim einstaklingum sem gegndu störfunum.

Stefnandi byggir kröfu sína um fégjald á 22. gr. laga nr. 28, 1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Krafan sé gerð vegna þeirrar hneisu, óþæginda og röskunar á stöðu og högum, sem framangreind mismunun leiddi af sér.  Ragnhildur hafi verið ráðin jafnréttis- og fræðslufulltrúi stefnda og hafi henni sérstaklega verið ætlað það hlutverk að gæta þess fyrir hans hönd, að jafnréttislög væru virt og að jafnréttisstefnu hans væri hrint í framkvæmd.  Fréttir af málinu hafi verið mikið í fjölmiðlum, það hafi vakið mikla athygli, sem vafalaust hafi áhrif á framtíðarmöguleika Ragnhildar á vinnumarkaði.  Málið hafi orðið til þess, að Ragnhildur hafi misst þann brennandi áhuga sem hún hafi haft á starfi sínu og á því að raunverulega væri hægt að vinna að jafnréttismálum fyrir hönd stefnda af einlægni.

Stefndi byggir sýknukröfur sínar á því, að hann hafi fullt frelsi til samningagerðar um kaup og kjör við starfsmenn sína og/eða félög þeirra.  Heldur hann því fram, að hann hafi í öllu gætt ákvæða jafnréttislaga við ákvörðun launakjara Ragnhildar.  Þá byggir stefndi einnig á því, að starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa, sé ekki sambærilegt og ekki jafnverðmætt og starf atvinnumálafulltrúa.  Segir stefndi fullkomlega eðlileg og sanngjörn rök búa að baki ákvörðunum um laun jafnréttis- og fræðslufulltrúa annars vegar og atvinnumálafulltrúa hins vegar.  Séu þær á engan hátt kynbundnar sem sjáist best á því, að kona gegni í dag störfum atvinnumálafulltrúa.  Þá heldur stefndi því fram, að hann sé á engan hátt bundinn af þeirri samanburðartilraun, sem hann féllst á að láta hluta af áðurnefndri starfsmatsnefnd framkvæma, í tengslum við skoðun jafnréttisnefndar á launakjörum hjá stefnda.  Þar hafi verið um að ræða vinnuhóp starfsmanna stefnda og hafi skoðun sú, sem fram fór á vegum hópsins, ekki verið formlegt mat og á engan hátt skuldbindandi fyrir stefnda.  Heldur stefndi því fram, að samanburðartilraunin hafi ekkert gildi þar sem fyrir liggi, að matið taki aðeins á tilteknum afmörkuðum þáttum starfa þeirra sem tilraunin tók til og því verði það ekki lagt til grundvallar við mat á því hvort störf jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa séu sambærileg og jafn verðmæt.  Heldur stefndi því fram, að starfsmat, sem unnið sé samkvæmt kjarasamningi STAK og stefnda, byggi á samningi milli aðilanna og geri einungis ráð fyrir að starfsmatið sé sé notað til að raða störfum í launaflokka innan marka kjarasamningsins.  Það sé því ekki rétt, sem stefnandi heldur fram, að kjarasamningur stefnda og STAK byggi á starfsmatinu.  Stefndi segir einnig, að starfsmatinu sé ekki á nokkurn hátt ætlað að taka mið af öðrum kjarasamningum eða öðrum utanaðkomandi forsendum, sem áhrif kunni að hafa á gerð kjarasamningsins.   Bendir stefndi sérstaklega á, að starfsmatið taki ekkert mið af þeirri tengingu við markaðinn sem nauðsynleg sé, en markaðsstaða starfs atvinnumálafulltrúa hafi einmitt ráðið þeirri ákvörðun stefnda, að laun fyrir starfið skyldu taka mið af launum verk- og tæknifræðinga hjá stefnda.  Hafi stefnda verið ljóst, þegar starf atvinnumálafulltrúa var stofnað, að nauðsynlegt væri að launin tækju með ákveðnum hætti mið af þeim markaði, sem starfið væri á.  Mótmælir stefndi því, að markaðsstaða starfa verði metin með því einu, að bera saman fjölda umsækjenda um þau, enda ljóst að mjög margir þættir ráði því hversu margir umsækjendur eru á hverjum tíma.  Eigi þessi rök ekki síst við þegar umsækjendur eru leitaðir uppi og hvattir til að sækja um tiltekna stöðu.  Stefndi mótmælir því hins vegar að hann mismuni konum og körlum með vísan til markaðslegra forsendna.  Bendir stefndi á að starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa hafi verið metið á sambærilegan hátt og starf atvinnumálafulltrúa.  Ljóst sé, að starfs- og ábyrgðarsvið starfs jafnréttis- og fræðslufulltrúa sé allt annað og gjörólíkt starfi atvinnumálafulltrúa og það hafi á engan hátt sambærilega tengingu við markaðsaðstæður.  Verksvið atvinnumálafulltrúa sé beinlínis að vinna á og með þeim markaði sem laun hans sækja viðmiðun sína til, en verksvið jafnréttis- og fræðslufulltrúa lúti fyrst og fremst að þjónustu við starfsfólk og stofnanir stefnda og sé því ekki í neinum tengslum við markaðinn og launamiðviðanir hans.  Heldur stefndi því fram, að markaðsstaða hinna ýmsu stétta og fagfélaga sé mjög misjöfn þegar komi að því að ná fram kröfum í tengslum við gerð kjarasamninga.  Ákvarðanir bæjarstjórnar stefnda, um eftir hvaða kjarasamningi skuli greiða fyrir tiltekin störf, séu ekki frekar en kjarasamningarnir sjálfir á neinn hátt kynbundnar og því fái konur og karlar, sem á annað borð fái greitt eftir sama kjarasamningi, að sjálfsögðu sömu laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf.  Segir stefndi að hann, líkt og aðrir aðilar á vinnumarkaði, njóti samningsfrelsisins með þeim takmörkunum sem leiði af ákvæðum laga, faglegum og málefnalegum sjónarmiðum um gagnkvæmt traust á vinnumarkaði og friðarskyldunni.  Sú niðurstaða, sem felist í kjarasamningi STAK og stefnda um starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa, byggi auðvitað á þessum grundvallarsjónarmiðum, en hafi ekkert með kynferði að gera.  Við ákvörðun um eftir hvaða kjarasamningi skuli greitt fyrir störf hjá stefnda, sem ekki séu skilgreind undir ákveðinn kjarasamning, liggi til grundvallar skoðun á þeim atriðum sem til skoðunar koma við gerð kjarasamninga.  Sá launamunur sem eftir atvikum sé milli einstakra kjarasamninga og þ.a.l. milli einstakra stétta og faghópa, byggi á þeirri staðreynd, að viðkomandi störf séu ekki sambærileg og jafnverðmæt.  Þá heldur stefndi því fram, að ákvörðun um launakjör jafnréttis- og fræðslufulltrúa hafi verið tekin áður en starfið var auglýst og því hafi hún verið óháð því hvort kona eða karl yrði ráðin(n) í stöðuna.  Stefndi hafnar því að hann sé, með tilvísun sinni til mismunandi kjarasamninga, að réttlæta launamun mismunandi faghópa.  Hann hafi hins vegar bent á þá staðreynd, að kjarasamningar séu mjög mismunandi og þar af leiðandi mat á sambærileika starfa og verðmæti þeirra.  Það mat sem í þessum frjálsu samningum sé fólgið, byggi á gagnkvæmri niðurstöðu aðila að viðkomandi samningi.  Þá tekur stefndi sérstaklega fram, að hann byggi kröfur sínar ekki á því að munur sá, sem var á launum jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa, verði skýrður með hliðsjón af þeim þáttum, sem lúti að þeim einstaklingum sem störfunum gegna.  Þá telur stefndi að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því, að stefndi hafi af ásettu ráði eða af vanrækslu brotið gegn ákvæðum laga nr. 28, 1991 og vísar máli sínu til stuðnings til 22. gr. laganna.  

Stefndi heldur því fram, að viðurkenningarkrafa stefnanda geti einungis tekið til þess munar sem var á föstum launum fyrir störf jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa.  Fyrir liggi, að sú yfirvinna, sem greidd hafi verið vegna þessara starfa, hafi verið greidd fyrir unna yfirvinnu, en hafi ekki verið hluti af föstum launum fyrir starfið.  Jafnframt sé ljóst, að greiðsla fyrir akstur hafi verið greiðsla fyrir ekna kílómetra.  Ragnhildur hafi því fengið fulla greiðslu fyrir yfirvinnu sína og þann kostnað, sem hún hafi orðið fyrir vegna aksturs í þágu vinnuveitanda síns.

Að lokum mótmælir stefndi því, að uppfyllt séu skilyrði 2. ml. 22. gr. jafnréttislaga um greiðslu fégjalds fyrir ófjárhagslegt tjón.  Því sé ekki mótmælt, að kæra Ragnhildar á hendur stefnda hafi vakið athygli á henni og stöðu hennar.  Það sé hins vegar vandséð, að hún hafi beðið hneisu eða orðið fyrir sérstökum óþægindum vegna þeirrar athygli.  Þvert á móti sé ljóst, að Ragnhildur hafi nýtt sér athyglina sér til framdráttar og verði ekki annað séð af umfjöllun fjölmiðla um málið, en að hún hafi áunnið sér virðingu og aðdáun, fremur en hið gagnstæða.  Það hafi alfarið verið ákvörðun Ragnhildar að láta af störfum og hafi hún tekið þá ákvörðun þrátt fyrir að þáverandi bæjarstjóri hafi lýst yfir, fyrir sína hönd, vilja til þess að ganga til samninga um málið.  Ástæða starfslokanna hafi einfaldlega verið, að Ragnhildi bauðst spennandi starf í fjarlægu landi sem hún þáði.

Skýrslur fyrir dómi gáfu Ragnhildur Vigfúsdóttir, fyrrverandi jafnréttis- og fræðslufulltrúi stefnda, Jakob Björnsson, fyrrverandi bæjarstjóri stefnda, Valgerður Bjarnadóttir, fyrrverandi jafnréttis- og fræðslufulltrúi stefnda, Karl Jörundsson, starfsmannastjóri stefnda, og Ingibjörg Eyfells, fyrrverandi deildarstjóri leikskóladeildar stefnda.

Í 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 28, 1991 er kveðið á um, að konum og körlum skuli greidd jöfn laun og kynin skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.  Þá segir í 6. gr. laganna, að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildi  það m.a. um: Laun, launatengd fríðindi og hvers konar aðra þóknun fyrir vinnu.  Í máli þessu greinir aðila m.a. á um hvort störf jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa séu jafnverðmæt og sambærileg.  Styður stefnandi kröfur sínar við framlagðar starfslýsingar og margumrædda tilraun, þar sem starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa var metið til 167 punkta, en starf atvinnumálafulltrúa til 170 punkta. 

Fyrir liggur að stefndi hefur notast við starfsmatskerfi frá árinu 1975 og greitt laun eftir niðurstöðum starfsmatsnefndar um árabil.  Óumdeilt er, að niðurstaða umræddrar matstilraunar var ekki á beinan hátt skuldbindandi fyrir stefnda.  Hefur stefndi mótmælt því, að niðurstöður tilraunarinnar verði lagðar til grundvallar í málinu og byggir hann þau mótmæli sín einkum á tveimur atriðum.  Annars vegar, að matsnefndin hafi ekki verið skipuð þeim aðilum, sem alla jafna framkvæmdu umrædd starfsmöt á þeim tíma sem tilraunin fór fram og hins vegar, að við matið hafi ekki verið tekið tillit til þeirra markaðslegu sjónarmiða, sem mikil áhrif hafi haft á launakjör atvinnumálafulltrúa. 

Hvað varðar skipan matsnefndar þeirrar, sem framkvæmdi tilraun þá, sem hér er til umfjöllunar, hefur á engan hátt verið leitt í ljós, að hin breytta skipun nefndarinnar hafi haft áhrif á niðurstöður tilraunarinnar um samanburð á störfunum.  Verður í þessu sambandi að hafa í huga, að fram kom í framburði Ragnhildar Vigfúsdóttur fyrir dómi, sem ekki var mótmælt af stefnda, að sérfræðingur nefndarinnar, Böðvar Guðmundsson, vinni alla jafna starfsmöt sem þessi að stærstum hluta.  Verður því að telja ósannað, að umrædd tilraun sé að þessu leyti ófullkomnari en starfsmöt þau, sem áður hafa farið fram á vegum nefndarinnar.  Hvað varðar þá fullyrðingu stefnda, að við tilraunina hafi ekki verið tekið tillit til markaðslegra sjónarmiða, þá verður að hafa í huga, að þeir starfsmenn sem gegndu störfum jafnréttis- og félagsmálafulltrúa og atvinnumálafulltrúa á því tímabili sem hér um ræðir, voru ekki einu umsækjendurnir um stöðurnar þegar þeir voru ráðnir til starfa og fyrir liggur að fleiri sóttu um starf atvinnumálafulltrúa.  Þó svo fjöldi umsækjenda geti ekki verið algildur mælikvarði á markaðsstöðu starfa, m.a. vegna þess að telja verður að umsækjendum séu að mestu ljós launakjörin þegar þeir senda inn umsókn, þá hlýtur fjöldi umsókna að gefa ákveðna vísbendingu um áhuga mögulegra umsækjenda á viðkomandi störfum.  Með vísan til þessa þykir stefndi ekki hafa fært að því nægjanlegar sönnur, að markaðssjónarmið hafi ráðið umræddum launamun.

Þá hefur stefndi haldið því fram, að launamunur jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa skýrist af því, að greitt hafi verið fyrir störfin eftir mismunandi kjarasamningum.  Kom fram hjá starfsmannastjóra stefnda, við skýrslutöku fyrir dómi, að ákvörðun um að atvinnumálafulltrúi tæki laun samkvæmt kjarasamningi verk- og tæknifræðinga við stefnda, hafi verið tekin af æðstu stjórnendum stefnda.  Í auglýsingu stefnda, þar sem auglýst var eftir forstöðumanni á atvinnuskrifstofu þ.e. atvinnumálafulltrúa, voru menntunarkröfur ekki tilgreindar á annan hátt en þann, að viðkomandi þyrfti að hafa góða menntun.  Þá er ekkert vikið að menntunarkröfum í starfslýsingu fyrir starf forstöðumanns atvinnumálaskrifstofu.  Réttlæting launa-munarins með þeim hætti, að vísa til þess, að fyrir störfin hafi verið greitt samkvæmt mismunandi kjarasamningum, verður því að teljast haldlaus, þar sem starf atvinnumálafulltrúa var fellt undir kjarasamning verk- og tæknifræðinga með einhliða ákvörðun stefnda, óháð menntun þess sem starfinu gegndi á hverjum tíma.

Stefndi byggir einnig á því, að honum hafi verið frjálst að semja við starfsmenn sína um kaup og kjör með vísan til samningsfrelsis á vinnumarkaði.  Það er alkunna að samningsfrelsið er ekki algert og þurfa aðilar vinnumarkaðarins að hlíta því, að það sé takmarkað með ákvæðum laga.  Meðal þeirra laga sem setja samningsfrelsi á vinnumarkaði skorður eru lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28,1991.  Verður launamunur sá, sem var á milli jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa, því ekki réttlættur með samningsfrelsinu einu saman.

Í greinargerð sinni getur stefndi þess, að launaákvarðanir jafnréttis- og fræðslufulltrúa annars vegar og atvinnumálafulltrúa hins vegar hafi á engan hátt verið kynbundnar, sem sjáist best á því, að kona gegni í dag starfi atvinnumálafulltrúa.  Verður ekki séð, að sú ákvörðun stefnda að ráða konu í starf atvinnumálafulltrúa í mars 1997, tæpum 2 árum eftir að Ragnhildur Vigfúsdóttir réð sig til stefnda og ákvörðun var tekin um launakjör hennar, útiloki að við ákvörðun starfskjara Ragnhildar hafi henni verið mismunað á grundvelli kynferðis.

Við munnlegan flutning málsins hélt stefndi því fram, að stefnandi bæri sönnunarbyrðina fyrir því, að stefndi hefði, við ákvörðun launakjara Ragnhildar Vigfúsdóttur, mismunað henni á grundvelli kynferðis.  Hélt stefndi því fram, að breyting sú, sem gerð var á upphaflegu frumvarpi til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, leiddi til þess að sönnunarbyrðin yrði ekki felld á stefnda líkt og gert er í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 28, 1991, er fjallar um sönnunarbyrði fyrir kærunefnd jafnréttismála.  Óvarlegt þykir að draga víðtækari ályktanir af áðurnefndum breytingum á frumvarpinu, en að ekki hafi verið til staðar vilji hjá löggjafanum til að fella sönnunarbyrði í öllum tilfellum á vinnuveitendur í málum, sem fjölluðu um brot á umræddum lögum.  Fyrrnefndar breytingar koma á hinn bóginn ekki í veg fyrir, að dómstólar felli sönnunarbyrði á vinnuveitendur með vísan til almennra venjuhelgaðra reglna um sönnun.  Eins og áður hefur verið rakið hefur stefnanda, að mati dómsins, tekist að leiða sönnur að því, að störf jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa séu því sem næst jafnverðmæt og sambærileg.  Þykja almennar sönnunarreglur því leiða til, að fella verði sönnunarbyrði á stefnda, um að við ákvörðun launakjara hafi Ragnhildi Vigfúsdóttur ekki verið mismunað á grundvelli kynferðis.  Það hefur stefnda ekki tekist og verður hann að bera hallan af þeim sönnunarskorti.  Verður þess vegna að slá því föstu, að stefndi hafi við ákvörðun launakjara Ragnhildar Vigfúsdóttur brotið gegn 1. mgr. 4. gr. og 1. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28, 1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Stefndi hefur mótmælt því, að viðurkenningarkrafa stefnanda geti tekið til þess munar, sem var á yfirvinnu- og akstursgreiðslum jafnréttis- og fræðslufulltrúa annars vegar og atvinnumálafulltrúa hins vegar.  Fyrir dómi bar Ragnhildur Vigfúsdóttir, að þær 22 yfirvinnustundir, sem hún fékk greiddar á mánuði, hafi verið hluti af hennar föstu starfskjörum, en ekki greiðsla fyrir unnar yfirvinnustundir.  Þá bar hún, að stefndi hefði hafnað kröfu hennar um fastan aksturssamning.  Ekki liggur fyrir í málinu, að könnun hafi farið fram á því hjá stefnda hver sé yfirvinnuþörf starfa jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa, né heldur hver sé akstursþörf umræddra starfa.  Stefndi hefur ekki lagt fram nein gögn sem hnekkja þeirri fullyrðingu Ragnhildar, að greiðsla fyrir hinar föstu yfirvinnustundir hafi verið hrein launauppbót.  Þá hefur stefndi ekki heldur lagt fram nein gögn sem skýra þann mun, sem var á akstursgreiðslum vegna starfs jafnréttis- og fræðslufulltrúa annars vegar og atvinnumálafulltrúa hins vegar.  Þykir það standa stefnda nær, að sýna fram á að munur þessi hafi byggt á málefnalegum og lögmætum ástæðum, en það hefur honum ekki tekist.  Ber stefndi hallann af þeim sönnunarskorti og verður því að slá því föstu, að við ákvörðun fastra yfirvinnustunda og greiðslna fyrir akstur í þágu vinnuveitanda, hafi stefndi mismunað Ragnhildi Vigfúsdóttur á grundvelli kynferðis.

Hvað varðar kröfu stefnanda um greiðslu fégjalds á grundvelli 22. gr. laga nr. 28, 1991, þá verður að horfa til tilgang starfs þess, sem Ragnhildur Vigfúsdóttir gegndi.  Henni, sem jafnréttis- og fræðslufulltrúa, bar að vinna að framkvæmd jafnréttisáætlunar stefnda.  Áðurnefnt brot stefnda gegn lögum nr. 28, 1991 féll því beinlínis innan starfsvettvangs Ragnhildar og var til þess fallið að kasta rýrð á trúverðugleika hennar sem jafnréttisfulltrúa.  Verður því að telja, að stefndi hafi bakað Ragnhildi Vigfúsdóttur hneisu og óþægindi, er hann mismunaði henni í launakjörum á grundvelli kynferðis.  Þykir fjárhæð bóta þessara hæfilega tilgreind í stefnu enda hefur henni ekki verið mótmælt tölulega af stefnda.

Þykir rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað að fjárhæð krónur 392.699,- eins og krafist er og kostnað Ragnhildar Vigfúsdóttur vegna málareksturs fyrir kærunefnd jafnréttismála krónur 86.677.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

 Dómsorð:

Viðurkennt er, að sá munur sem var á launum og öðrum starfskjörum jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa stefnda Akureyrarbæjar frá ráðningu Ragnhildar Vigfúsdóttur í starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa 1. september 1995 og fram í mars 1997, var ólögmætur og brot á 1. tl. 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 28, 1991.

Stefndi greiði stefnanda, kærunefnd jafnréttismála v/Ragnhildar Vigfúsdóttur, krónur  500.000,-

Stefndi greiði stefnanda, krónur 392.699,- í málskostnað og jafnframt krónur 86.677,- vegna málareksturs Ragnhildar Vigfúsdóttur fyrir kærunefnd jafnréttismála.