Hæstiréttur íslands
Mál nr. 409/2012
Lykilorð
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Ábyrgðartrygging
|
|
Fimmtudaginn 14. febrúar 2013. |
|
Nr. 409/2012.
|
Benedikt Eggertsson og (Hjördís E. Harðardóttir hrl. Valgerður Valdimarsdóttir hdl.) Vátryggingafélag Íslands hf. (Ólafur Eiríksson hrl. Heiðar Örn Stefánsson hdl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Hjörleifur B. Kvaran hrl. Björgvin Þórðarson hdl.) |
Vinnuslys. Líkamstjón. Ábyrgðartrygging.
Starfsmaður byggingarfulltrúa sveitarfélags hlaut líkamstjón þegar gólf vinnupalls brotnaði undan honum er hann var við úttekt á járnbindingu í veggjum og bitum einbýlishúss í byggingu. B ehf. hafði tekið að sér tiltekin verk við byggingu hússins og var með ábyrgðartryggingu hjá T hf., sem viðurkenndi bótaskyldu B ehf. gagnvart tjónþola og greiddi honum bætur á grundvelli örorkumats. Í kjölfarið höfðaði T hf. mál á hendur BE og V hf. til heimtu helmings þeirrar fjárhæðar sem greidd hafði verið tjónþola. Því var hafnað að BE sem byggingarstjóri hússins og þar með V hf. vegna lögboðinnar starfsábyrgðartryggingar byggingarstjóra bæru ábyrgð á tjóninu, þar sem af þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 yrði ekki leidd skylda byggingarstjóra til að tryggja öryggi á byggingarstað auk þess sem fyrirmæli þessa efnis í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum voru ekki talin eiga við í málinu. Á hinn bóginn var talið að BE hefði sem húsasmíðameistara hússins borið skylda til að tryggja að smíði vinnupalla og frágangur þeirra væri forsvaranlegur og í samræmi við öryggiskröfur. Sýnt var að sú var ekki raunin og var BE því talinn meðábyrgur B ehf. vegna tjónsins. Talið var að frjáls ábyrgðartrygging BE hjá V hf. tæki til atviksins og því var fallist á greiðsluskyldu félagsins. Var krafa T hf. því tekin til greina gagnvart BE og V hf., þó þannig að tjónþola var gert að bera einn þriðja hluta tjóns síns sjálfur með vísan til stöðu hans sem starfsmanns byggingarfulltrúa og þess að honum hefði mátt vera ljóst að aðstæður voru varhugaverðar á byggingarstað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandinn Benedikt Eggertsson skaut málinu til Hæstaréttar 12. júní 2012. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, að því er hann varðar, en til vara sýknu af kröfu stefnda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. Að því frágengnu krefst hann lækkunar á kröfu stefnda og þess að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.
Áfrýjandinn Vátryggingafélag Íslands hf. áfrýjaði fyrir sitt leyti 13. júní 2012. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á kröfu stefnda og þess að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi slasaðist starfsmaður byggingafulltrúa Mosfellsbæjar, Þór Sigurþórsson, 28. mars 2007 þegar gólf vinnupalls brotnaði undan honum er hann vann að úttekt á járnabindingu í veggjum og bitum einbýlishússins að Stórakrika 26 í Mosfellsbæ. Eigandi hússins var áfrýjandinn Benedikt Eggertsson, en hann var jafnframt byggingarstjóri hússins og húsasmíðameistari þess. BG smíðar ehf. höfðu tekið að sér uppslátt og uppsteypu hússins og höfðu starfsmenn þess félags smíðað vinnupall þann sem brotnaði undan starfsmanni byggingafulltrúa. BG smíðar ehf. voru með ábyrgðartryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. Viðurkenndi stefndi bótaskyldu verktakans gagnvart tjónþola og greiddi honum bætur á grundvelli örorkumats. Höfðaði stefndi mál þetta til heimtu helmings þeirrar fjárhæðar, sem það hafði greitt tjónþola, óskipt úr hendi áfrýjenda. Reisir hann kröfu sína gegn áfrýjandanum Benedikt á því að hann sé meðábyrgur vegna tjónsins á grundvelli þess að hann hafi með saknæmum hætti vanrækt skyldur sínar bæði sem byggingarstjóri og húsasmíðameistari hússins að Stórakrika 26. Kröfu sína gegn áfrýjandanum Vátryggingafélagi Íslands hf. reisir stefndi á því að áfrýjandinn Benedikt hafi annars vegar haft hjá félaginu lögboðna starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra og hins vegar frjálsa ábyrgðartryggingu vegna atvinnureksturs.
II
Áfrýjandinn Benedikt reisir frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því að stefndi vísi í málatilbúnaði sínum til óskiptrar ábyrgðar BG smíða ehf. og áfrýjandans og hafi stefnda því borið að stefna þeim báðum samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Fyrir liggur í málinu að stefndi greiddi 24. september 2009 starfsmanninum, sem fyrir slysinu varð, bætur úr frjálsri ábyrgðartryggingu sem félagið hafði veitt BG smíðum ehf. Samhliða bótauppgjörinu framseldi tjónþolinn „allar endurgreiðslur eða kröfur á hendur þriðja aðila vegna tjónsins“. Í 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 segir að stofnist skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem skaðatrygging tekur til öðlist vátryggingafélagið rétt tjónþola á hendur hinum skaðabótaskylda að svo miklu leyti sem það hefur greitt bætur. Samkvæmt þessu standa engin rök til aðildar BG smíða ehf. að málinu.
Í öðru lagi krefst áfrýjandinn frávísunar málsins vegna vanreifunar, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Dómkröfur stefnda séu kröfuréttarlegs eðlis, en þær virðist að öðru leyti byggjast á reglum skaðabótaréttar. Í málinu krefjist stefndi greiðslu á 6.385.132 krónum ásamt vöxtum, en af gögnum málsins sé ljóst að hann hafi greitt tjónþola skaðabætur. Þar sem stefndi hafi fært málið í kröfuréttarlegan búning sé vandséð hvernig áfrýjandinn geti tekið til varna og af þeirri ástæðu séu möguleikar hans til að taka til varna á grundvelli skaðabótareglna jafnframt mjög takmarkaðir. Einnig sé málið afar illa upplýst þar sem stefndi hafi ekki tryggt sér sönnun um málsatvik og mögulega eigin sök tjónþola og eigi áfrýjandinn þar með enga möguleika á að tryggja sér sönnun í málinu. Að lokum sé engin tilraun gerð af hálfu stefnda til að útlista hvernig kröfufjárhæð sé fundin út og heldur ekki sýnt fram á frádráttargreiðslur er beri að draga frá tjónsbótum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Krafa stefnda er reist á því að hann hafi veitt verktaka ábyrgðartryggingu og vegna skaðabótaábyrgðar hans hafi stefndi greitt þeim, er fyrir slysi varð, fullar bætur. Þar með hafi stefndi öðlast endurkröfurétt á hendur áfrýjandanum Benedikt sem sé meðábyrgur að tjóninu og Vátryggingafélagi Íslands hf. sem veitt hafi Benedikt ábyrgðartryggingar. Kröfugrundvöllur málsins er því skýr. Hvað varðar möguleika áfrýjandans til að taka til varna er á það að líta að stefndi ber sönnunarbyrði fyrir skaðabótaábyrgð áfrýjandans Benedikts samkvæmt reglum skaðabótaréttar og ber hallann af sönnunarskorti í því efni. Fellur þessi röksemd því undir efnishlið málsins. Þá kom skýrt fram í málatilbúnaði stefnda í héraði að hann krefðist helmings þeirrar fjárhæðar sem hann hafði greitt úr ábyrgðartryggingunni og lagði hann fram fullnægjandi gögn um sundurliðun fjárhæðarinnar. Að lokum er þess að geta að bótakrafa tjónþola beindist ekki að vinnuveitanda hans og eiga ákvæði 2. málsliðar 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga frádrátt greiðslna frá samnings- eða lögbundinni atvinnuleysistryggingu launþega því ekki við hér.
Samkvæmt öllu framansögðu verður frávísunarkröfu áfrýjandans hafnað.
III
Þegar atvik máls þessa urðu voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem sett var meðal annars á grundvelli þeirra laga. Ákvæði um byggingarstjóra er að finna í 51. gr. laganna, en samkvæmt 3. mgr. þeirrar greinar er hann framkvæmdastjóri byggingarframkvæmda. Hann ræður iðnmeistara í upphafi verks eða samþykkir ráðningu þeirra og ber ábyrgð á því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Nánari ákvæði um verkefni og skyldur byggingarstjóra eru í byggingarreglugerð, einkum 31. til 36 gr. hennar. Hæstiréttur hefur í nokkrum dómum fjallað um skaðabótaábyrgð byggingarstjóra, sbr. dóma réttarins 20. desember 2005 í máli nr. 267/2005, 13. mars 2008 í máli nr. 318/2007, 5. nóvember 2009 í máli nr. 37/2009, 4. mars 2010 í máli nr. 369/2009 og 20. maí 2010 í máli nr. 459/2009. Af þeim dómum verður dregin sú ályktun að ábyrgð byggingarstjóra sé ekki eingöngu bundin við að honum beri að sjá til þess að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, heldur beri honum einnig skylda til að hafa yfirumsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum, sem hann stýrir meðal annars með því að iðnmeistarar sem að framkvæmdunum koma fyrir hans atbeina sinni skyldum sínum og að framkvæmdin sé tæknilega og faglega fullnægjandi. Í skipulags- og byggingarlögum eru á hinn bóginn ekki lagðar skyldur á byggingarstjóra er lúta að því að tryggja öryggi eða aðbúnað á byggingarstað. Þau verkefni, sem falin eru byggingarstjóra með lögunum og byggingarreglugerð, lúta að því mannvirki sem verið er að reisa og er þeim ætlað tryggja að framkvæmd við gerð þess fullnægi faglegum og tæknilegum kröfum. Þegar þessa er gætt og litið til tilgangs og gildissviðs skipulags- og byggingarlaga verður ekki af ákvæðum þeirra leidd skylda byggingarstjóra til að tryggja öryggi á byggingarstað eða ábyrgð á því ef út af er brugðið. Breytir þar engu þótt almennt ákvæði er lýtur að öryggisráðstöfunum á byggingarstað sé að finna í gr. 56.6 í byggingarreglugerð, enda er í upphafi þeirrar greinar vísað um byggingarvinnustaði til reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir. Meðábyrgð áfrýjandans Benedikts verður því ekki reist á að hann hafi vanrækt skyldur sem á honum hvíldu sem byggingarstjóra á grundvelli þágildandi skipulags- og byggingarlaga.
Í 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga er kveðið á um skyldu byggingarstjóra til að hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu og eru nánari ákvæði þar að lútandi í 33. gr. byggingarreglugerðar. Sú lögboðna starfsábyrgðartrygging, sem áfrýjandinn Benedikt hafði hjá áfrýjandanum Vátryggingafélagi íslands hf., var bundin við að bæta tjón sem leiddi af ábyrgð Benedikts sem byggingarstjóra á grundvelli skipulags- og byggingarlaga. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu verður greiðsluskylda áfrýjandans Vátryggingafélags Íslands hf. því ekki reist á hinni lögboðnu starfsábyrgðartryggingu.
Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er aðeins í einu ákvæði vikið að skyldum byggingarstjóra. Er það í 1. mgr. 36. gr. þeirra þar sem segir að starfi fleiri en einn verktaki við mannvirkjagerð samtímis skuli byggingarstjóri sjá um að samhæfðar séu ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir slys eða óhollustu. Verður að gagnálykta frá þessu ákvæði og telja þær skyldur sem lagðar eru á byggingarstjóra með lögunum þar tæmandi taldar. Í því tilviki sem hér um ræðir liggur ekki annað fyrir en að BG smíðar ehf. hafi eitt annast uppslátt og uppsteypu hússins og reist vinnupallinn sem slysinu olli í tengslum við það. Skorti á samhæfingu öryggisráðstafana vegna starfa fleiri verktaka verður því ekki um slysið kennt og ábyrgð áfrýjandans Benedikts verður því heldur ekki reist á að hann hafi vanrækt skyldur sínar sem byggingarstjóri samkvæmt þessu ákvæði.
Í annan stað reisir stefndi kröfu sína á hendur áfrýjandanum Benedikt á því að hann hafi vanrækt skyldur þær sem á honum hvíldu sem húsasmíðameistari við byggingu hússins að Stórakrika 26. Í 13. gr. laga nr. 46/1980 segir að atvinnurekandi skuli tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Í öðrum ákvæðum laganna eru skyldur atvinnurekaenda í þessum efnum nánar tíundaðar, en ekki verður af ákvæðum þeirra ráðið hver staða húsasmíðameistara sé að þessu leyti á byggingarvinnustað. Kveðið var á um verksvið og skyldur iðnmeistara í 52. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga. Segir þar að iðnmeistari beri ábyrgð gagnvart byggingarstjóra og eiganda byggingarframkvæmda á að þeir verkþættir, sem hann tekur að sér að hafa umsjón með, séu unnir í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Um skyldur húsasmíðameistara eru nánari ákvæði í byggingarreglugerð. Í 38. gr. hennar er kveðið á um að húsasmíðameistari beri meðal annars ábyrgð á allri trésmíðavinnu við bygginguna, steypumótum svo og öllum stokkum og götum sem sett eru í steypumót. Þá segir í 119. gr. að á meðan á byggingarframkvæmdum stendur skuli tryggt að stöðugleiki burðarvirkja sé ávallt fullnægjandi og að ekki verið skaðleg áhrif af völdum veðurs. Bráðbirgðamannvirki svo sem steypumót, vinnupallar, stoðir, afstýfingar og svo framvegis skuli hafa fullnægjandi styrk. Það er því á ábyrgðarsviði húsasmíðameistara að þessa sé gætt. Af því sem að framan segir um tilgang og gildissvið skipulags- og byggingarlaga leiðir að fara verður varlega við að draga af þeim ályktanir um ábyrgð á öryggi á byggingarstað. Af framansögðu er hins vegar ljóst að á húsasmíðameistara eru ekki aðeins lagðar skyldur er lúta að endanlegum frágangi og eiginleikum þess mannvirkis sem verið er að reisa, heldur einnig sérstakar skyldur til að tryggja öryggi þeirra tímabundnu tilfæringa sem nauðsynlegar eru á byggingartíma þess, svo sem vinnupalla. Verður því að telja að húsasmíðameistara beri skylda til að tryggja að smíði vinnupalla og frágangur sé forsvanlegur og í samræmi við öryggiskröfur og geti hann ella orðið ábyrgur fyrir tjóni sem af hlýst. Verður hann ekki leystur undan þeirri ábyrgð þótt hann fái verktaka til að sinna einstökum verkþáttum. Ljóst er að smíði og frágangur vinnupalls þess, sem brotnaði undan starfsmanni byggingafulltrúa, var með öllu ófullnægjandi og er áfrýjandinn Benedikt sem húsasmíðameistari meðábyrgur fyrir því tjóni.
Áfrýjandinn Benedikt var með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá áfrýjandanum Vátryggingafélagi Íslands hf. þegar slysið varð. Samkvæmt vátryggingarskírteini hennar var sú starfsemi sem hún tók til byggingariðnaður og hið tryggða húsasmíði. Tryggingin tekur því til framangreinds tjóns og er því fallist á greiðsluskyldu áfrýjandans Vátryggingafélags Íslands hf. vegna þess.
Af hálfu áfrýjandans Benedikts var fyrir Hæstarétti fallið frá málsástæðu reistri á því að krafa stefnda væri fyrnd, en haldið við þá málsástæðu að sýkna bæri áfrýjandann sökum tómlætis stefnda. Skylda til að tilkynna áfrýjandanum um tjónið hvíldi á meðáfrýjanda, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004, en ekki stefnda. Þá liggur fyrir í málinu að meðáfrýjandinn og stefndi stóðu saman að öflun matsgerðar vegna umrædds líkamstjóns starfsmanns Mosfellsbæjar. Að þessu gættu eru engin efni til að telja að krafa stefnda sé niður fallin fyrir tómlætis sakir.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um eigin sök tjónþola og skiptingu tjónsins samkvæmt 25. gr. skaðabótalaga milli stefnda annars vegar og áfrýjenda hins vegar.
Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjendur verða dæmdir sameiginlega til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjandans Benedikts greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Benedikt Eggertsson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., sameiginlega 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjandans Benedikts fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2012.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 31. janúar sl., var höfðað af Tryggingamiðstöðinni hf., með stefnu birtri 27. og 29. apríl 2011, á hendur Benedikt Eggertssyni og Vátryggingafélagi Íslands hf.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða honum. 6.385.132 krónur. Þá er gerð krafa um að af 6.187.479 krónum reiknist vextir samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. september 2009 til 25. febrúar 2010 en dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Af 197.653 krónum reiknist vextir samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. mars 2010 til 18. apríl 2010 en dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi Benedikt krefst þess aðallega að máli stefnanda verði vísað frá dómi og honum dæmdur málskostnaður. Til vara krefst hann sýknu og greiðslu málskostnaðar, en til þrautavara að stefnukrafa verði lækkuð verulega og málskostnaður felldur niður. Stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. krefst aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara lækkunar stefnukröfu og að málskostnaður verði felldur niður.
Með úrskurði dómsins upp kveðnum 14. nóvember 2011 var kröfu stefnda Benedikts um frávísun hafnað.
II
Málavextir
Verktakafyrirtækið BG smíðar ehf. byggði árið 2007 einbýlishús á lóðinni Stórakrika 26, Mosfellsbæ. Byggingarstjóri verksins, í samræmi við 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 31. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, var stefndi Benedikt. Hann var enn fremur húsasmíðameistari byggingarinnar. Hinn 28. mars 2007 átti að fara fram úttekt á steypumótum byggingarinnar að beiðni stefnda Benedikts. Mætti starfsmaður byggingarfulltrúa bæjarins, Þór Sigurþórsson, á staðinn til að framkvæma hana. Við úttektina hrapaði Þór og slasaðist. Lögreglan og Vinnueftirlitið voru kvödd á vettvang. Slysinu er lýst þannig í tilkynningu eftirlitsins: „Sá slasaði var að vinna að eftirlitsskyldu byggingarfulltrúa á járnalögn veggja og bita samkvæmt pöntun úttektar. Sá slasaði spurði byggingarstjóra um lengri stiga og hvort ekki væru öll knekti komin undir sliskjur vinnupalls. Ekki var lengri stigi til staðar og jánkaði byggingarstjórinn um öryggi vinnupallar. Sá slasaði klifrar upp á steypumót eftir kerfismóti sem lagt hefur verið upp að mótum og leitar að hentugum stað til að fara niður á vinnupall sem var fyrir utan og handriðalaus. Upphækkun var á mótum og voru þau ótraust. Sá slasaði fer niður á vinnupallinn og brotnar dokaplata sem notuð er í gólf vinnupallar undan hinum slasaða og hrapar hann niður um 4 m. Slasaði beinbrotnar á 4 stöðum á fæti, öxl og þremur rifbeinum. Einnig finnur hann fyrir eymslum í hnjám, nára, hendi og hálsi. Slasaði var með öryggishjálm. Teknar voru myndir af vinnupalli af hinum slasaða þar sem hann lá slasaður.“
Starfsmenn verktakans BG smíða ehf. önnuðust uppsetningu vinnupallsins en verktakinn hafði ábyrgðartryggingu hjá stefnanda. Stefnandi viðurkenndi bótaskyldu verktakans gagnvart tjónþola. Á grundvelli örorkumats greiddi stefnandi tjónþola, Þór Sigurþórssyni, hinn 24. september 2009, skaðabætur að fjárhæð 12.061.883 kr. Eftir það óskaði stefnandi eftir afstöðu stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., til bótaskyldu annars vegar úr starfsábyrgðartryggingu en hins vegar frjálsri ábyrgðartryggingu byggingarstjóra, stefnda Benedikts. Hafnaði félagið bótaskyldu.
Skýrslur fyrir dóminum gáfu Benedikt Eggertsson, Hans Ragnar Sveinjónsson og Þór Sigurþórsson.
III
Málsástæður stefnanda
Kröfur sínar á hendur stefnda Benedikt byggir stefnandi á sakarreglunni. Í fyrsta lagi beri hann ábyrgð á tjóni því er mál þetta fjalli um sem byggingarstjóri., sbr. 51. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997. Nánari ákvæði um byggingarstjóra sé að finna í 2. kafla byggingarreglugerðar nr. 441/1998, gr. 31. 36. Byggingarstjóri óski eftir úttektum byggingarfulltrúa sbr. 35. gr. reglugerðarinnar og skuli hann vera viðstaddur úttektir. Stefnda hafi því borið að sjá til þess að úttektin gæti farið fram hnökralaust og að allur aðbúnaður á verkstað væri í lagi og að úttektarmanni væri ekki hætta búin. Það hafi hins vegar misfarist í því tilviki sem hér sér til meðferðar. Á því beri byggingarstjórinn ábyrgð. Tjónið verði rakið til gáleysislegrar hegðunar stefnda sem ekki hafi sinnt þeirri lagaskyldu sinni að tryggja öryggi á vinnustað. Í gögnum málsins komi fram að tjónþoli „spurði byggingarstjórann um lengri stiga og hvort ekki væru öll knekti kominn undir sliskjur vinnupalls. Ekki var lengri stigi til staðar og jánkaði byggingarstjórinn um öryggi vinnupalls“. Beint orsakasamband sé milli saknæms aðgæsluleysis stefnda og tjónsins sem tjónþoli hafi orðið fyrir og sé tjónið sennileg afleiðing af saknæmu aðgæsluleysi.
Stefnandi telur stefnda Benedikt bera í öðru lagi ábyrgð á tjóni því er mál þetta fjalli um sem húsasmíðameistari. Samkvæmt byggingarreglugerð gr. 31.3 geti byggingarstjóri, að öðrum skilyrðum uppfylltum, einnig tekið að sér ábyrgð á einstökum verkþáttum byggingarframkvæmdar. Jafnvel þótt starfsmenn verktakans hafi annast uppsetningu vinnupallsins sé ábyrgð á frágangi hans og öryggi alfarið á vegum byggingarstjóra og/eða húsasmíðameistara. Vinnupallurinn hafi ekki staðist lágmarkskröfur um öryggi og á því beri stefndi Benedikt ábyrgð.
Kröfur sína á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands byggir stefnandi á að stefndi Benedikt hafi haft starfsábyrgðartryggingu og ábyrgðartryggingu hjá félaginu. Félagið hafi gefið út skilmála um lögboðna starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra nr. AP 28. Samkvæmt gr. 33.1 byggingarreglugerðar skuli starfsábyrgðartryggingin vera til staðar vegna fjárhagstjóns sem leitt geti af gáleysi í starfi byggingarstjórans. Félagið hafi án heimildar þrengt vátrygginguna og ákveðið að vátryggingin bæti ekki líkamstjón eða tjón á munum. Fjárhagstjón sem rekja megi til gáleysis byggingarstjóra kunni að verða rakið til mistaka við framkvæmd verksins en ekki síður til þeirra mistaka sem leitt geti til slyss á mönnum eða tjóns á munum. Verði ekki fallist á að félaginu beri að endurgreiða helming bótafjárhæðarinnar úr starfsábyrgðartryggingu stefnda Benedikts byggir stefnandi á því að endurgreiða beri stefnufjárhæðina úr frjálsri ábyrgðartryggingu hans. Starfsemi ábyrgðartryggingarinnar sé skilgreind sem byggingariðnaður og hið tryggða húsasmíði. Samkvæmt skilmálum ábyrgðartryggingar atvinnurekstrar gildi hún vegna tjóns sem menn valdi öðrum með saknæmum og ólögmætum hætti, þ.e. sakarreglunni. Vátryggingin bæti beint líkamstjón- eða munatjón þriðja manns vegna skaðabótaábyrgðar vátryggðs sem falli á hann samkvæmt íslenskum lögum.
Um lagarök vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar, ákvæða þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, byggingarreglugerðar nr. 441/1998, laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547/1996 og reglugerðar um notkun tækja nr. 367/2006. Þá vísar hann til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Um vaxtakröfu er vísað til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafan byggist á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1990.
Málsástæður stefnda Benedikts
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á grundvelli aðildarskorts í málinu, með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Vísar hann til þess að hann sé bæði með starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra og ábyrgðartryggingu atvinnurekstrar hjá meðstefnda. Kröfu beri að beina að meðstefnda eingöngu, enda hafi meðstefndi ekki tilkynnt Benedikt sem vátryggðum að félagið hygðist ekki taka til varna fyrir hann. Vísar stefndi til 44. gr. laga nr. 30/2004 vátryggingarsamningalaga. Þá komi fram í skilmálum meðstefnda fyrir tryggingunum að félagið komi fram fyrir hönd vátryggðs og ráði málsmeðferð allri og annist málsmeðferð fyrir dómstólum ef á reynir.
Stefndi vísar til þess að verði litið svo á að umræddur vinnupallur hafi verið vanbúinn, byggi hann á því að verktakinn BG smíðar ehf., sem sett hafi pallinn upp, beri eingöngu ábyrgð á vanbúnaðinum. Fyrirtækið hafi séð um framkvæmd uppsláttar og uppsteypu byggingarinnar samkvæmt samningi við stefnda og þar af leiðandi einnig um uppsetningu verkpalla þeirra sem fyrirtækið taldi þörf á við framkvæmd verksins. Þá hafi stefnandi viðurkennt bótaskyldu fyrirtækisins að fullu gagnvart hinum slasaða, án nokkurs fyrirvara um að aðrir bæru þar hugsanlega bótaskyldu, og án nokkurs samráðs við stefnda um mögulega bótaskyldu hans í málinu. Stefnandi hafi þar með sjálfur ráðstafað sakarefninu og geti ekki eftir á ákveðið einhliða að aðrir eigi að bera bótaábyrgð
Stefndi hafnar því alfarið að hann beri ábyrgð á slysi því er hér um ræðir á grundvelli ábyrgðar byggingarstjóra þar sem hann beri ekki ábyrgð á líkamstjóni. Þá mótmælir stefndi því að 1. mgr. 36. gr. laga nr. 46/1980 eigi við í þessu tilviki. Enn fremur mótmælir stefndi því að hann hafi sýnt af sér saknæmt aðgæsluleysi sem byggingarstjóri. Hann hafi ekki „jánkað um öryggi vinnupallsins“, eins og fram komi í stefnu. Stefndi hafnar því enn fremur að hann beri ábyrgð á slysi því er hér um ræðir á grundvelli ábyrgðar húsasmíðameistara. Hann beri ekki ábyrgð á því að frágangur steypumóta sé úttektarhæfur.
Verði fallist á að stefndi beri að einhverju leyti bótaábyrgð í málinu mótmælir hann þeirri afstöðu meðstefnda að ábyrgðartrygging hans taki ekki til tjónsins.
Stefndi telur að líta beri til eigin sakar hins slasaða en orsök slyssins megi alfarið rekja til gáleysis hans. Hann hafi sýnt af sér vítavert gáleysi með því að stökkva niður á umræddan vinnupall úr þó nokkurri hæð. Hinn slasaði, sem hafi verið vanur eftirlitsmaður, hefði átt að vita betur. Slysið hafi orðið þar sem hinn slasaði hafi stokkið óvarlega úr nokkurri hæð á vinnupallinn. Við þetta atvik hefði engu breytt hvernig pallurinn hefði verið útbúinn með tilliti til öryggis.
Stefndi byggir sýknukröfu sína enn fremur á því að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti gagnvart sér í málinu. Stefna hafi verið birt stefnda meira en fjórum árum eftir að slysið hafi átt sér stað. Stefnandi hafi ákveðið bótaskyldu og staðið að matsgerð í málinu, allt án nokkurrar vitneskju stefnda. Þá byggir stefndi á því að bótakrafan sé fyrnd gagnvart sér, en krafan hafi fyrnst á fjórum árum frá slysdegi. Vísar stefndi hér til 52. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga og laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.
Kröfu sína um lækkun dómkrafna byggir stefndi á því að háttsemi hins slasaða eigi að leiða til þess, að stefnandi verði látinn bera meginhluta tjóns síns sjálfur á grundvelli eigin sakar. Meginástæða slyssins hafi verið gálaus háttsemi hins slasaða sjálfs. Komi til þess að bótaskylda verði á einhvern hátt felld á stefnda sé fyrirliggjandi örorkumati alfarið mótmælt, enda stefndi ekki aðili að því mati.
Um lagarök vísar stefndi til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 2. mgr. 16. gr., 2. mgr. 18. gr. og 80. gr., meginreglna kröfuréttar, laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004, einkum 44. gr. og 52. gr., laga nr. 46/1980, einkum 36. gr., almennra reglna um tómlæti og laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007, laga nr. 46/1980, ásamt reglugerð. Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 130. gr. og 131. gr.
Málsástæður stefnda Vátryggingafélags Íslands hf.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að tjónsatvik falli ekki undir ábyrgðarsvið byggingarstjóra né skilmála lögboðinnar ábyrgðartryggingar byggingarstjóra. Stefndi og þar með ábyrgðarsvið byggingarstjóra samkvæmt skipulags- og byggingarlögum séu skilgreind í 51. gr. þeirra og dómaframkvæmd. Ábyrgð byggingarstjóra samkvæmt skipulags- og byggingarlögum sé takmörkuð við endanlegt ástand þess mannvirkis sem hann tekur að sér byggingarstjórn á. Þá byggir stefndi á því að ábyrgð byggingarstjóra samkvæmt skipulags- og byggingarlögum snúi að eiganda mannvirkis og byggingaryfirvöldum en að í henni felist ekki ábyrgð gagnvart þriðja aðila. Þar sem umrætt mannvirki sé í dag að fullu byggt í samræmi við uppdrætti, lög og reglugerðir og þar sem ekki hafi komið upp gallar sem rekja megi til þess að iðnmeistarar, sem komu að verkinu hafi ekki sinnt skyldum sínum með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti, sé ljóst að meðstefndi hafi uppfyllt framangreindar skyldur sínar og verði því ekki krafinn um bætur á grundvelli vanrækslu á skyldum sínum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Ábyrgð byggingarstjóra nái ekki til líkamstjóns heldur eingöngu til almenns fjártjóns eiganda byggingaframkvæmda t.a.m. til kostnaðar við lagfæringar á mannvirki, sbr. grein 33.1 í byggingarreglugerð. Þá sé tekið fram í tryggingaskilmálum að tryggingin taki ekki til líkamstjóns. Enn fremur byggir stefndi á því að líkamstjón tjónþola sé ekki með nokkru móti í orsakasamhengi við nokkra mögulega vanrækslu á þeim skyldum sem á byggingarstjóra hvíla samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.
Hvað varðar vísun stefnanda til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerða sem eiga sér stoð í þeim þá vísar stefndi til þess að ábyrgð byggingarstjóra samkvæmt þessum réttarreglum taki til líkamstjóns. Lögboðin ábyrgðartrygging byggingarstjóra taki ekki til þeirra skyldna sem á herðum byggingarstjóra hvíli samkvæmt þeim auk þess sem tjónsatvik eigi ekki rætur að rekja til vanrækslu meðstefnda á þeim skyldum sem þar eru lagðar á byggingarstjóra. Þá hafi meðstefndi ekki gerst sekur um vanrækslu á skyldum sínum samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem sé í orsakasambandi við slys tjónþola. Meginregla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sé sú að það sé hver einstakur framkvæmdaaðili, sem atvinnurekandi, sem beri ábyrgð á því að ákvæðum laganna og þeim reglugerðum sem settar eru með stoð í þeim sé fylgt, sbr. 13. gr. laganna. Byggingarstjórar beri þá skyldu eina samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum að sjá um að samhæfðar séu ráðstafanir mismunandi atvinnurekenda til þess að koma í veg fyrir slys eða óhollustu, séu fleiri en einn atvinnurekandi að störfum við mannvirkjagerð, sbr. 36. gr. laganna. Ekkert í máli þessu bendi til þess að samhæfing ráðstafana mismunandi atvinnurekenda hafi verið orsök tjónsins.
Stefndi byggir sýknukröfu sína enn fremur á því að tjónsatvik falli ekki undir ábyrgðarsvið húsasmíðameistara né skilmála frjálsrar ábyrgðartryggingar þeirrar sem meðstefndi hafi haft hjá stefnda. Þar sem tjónsatvik hafi ekki verið í nokkrum tengslum við skyldur sem á byggingarstjóra séu lagðar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum né samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skipti litlu máli hvort frjáls ábyrgðartrygging meðstefnda taki til starfa hans sem byggingarstjóra. Enn fremur vísar stefndi til þess að umrædd trygging taki ekki til starfa meðstefnda sem byggingarstjóra.
Stefnda vísar til þess að í máli þessu liggi ekki fyrir sönnun þess að meðstefndi hafi vitað eða mátt vita af vanbúnaði þess vinnupalls sem stefnandi féll í gegnum. Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að meðstefndi hafi jánkað spurningu tjónþolans um öryggi vinnupallsins. Þá leiði sú skylda meðstefna að vera viðstaddur úttektir verkþátta ekki til þess að hann beri ábyrgð á líkama og heilsu annarra þeirra sem þurfi að vera á staðnum við úttekt.
Varakrafa stefnda um lækkun dómkrafna byggir aðallega á því að ekki sé unnt að fella á meðstefnda helming ábyrgðar á tjóni sem rekja megi til vanbúnaðar vinnupalls sem starfsmenn BG smíða ehf. hafi sett upp með ófullnægjandi hætti. Samkvæmt 25. gr. skaðabótalaga skuli innbyrðis ábyrgð þeirra sem beri óskipta bótaábyrgð skiptast eftir því sem sanngjarnt þyki þegar litið er til eðlis skaðabótaábyrgðar þeirra og atvika að öðru leyti. Ábyrgð byggingarstjóra sé hvergi nærri jafn mikil og samanlögð ábyrgð BG smíða ehf.
Stefndi vísar varakröfu sinni til stuðnings enn fremur til eigin sakar tjónþola. Hann sé ekki bundinn af þeirri ákvörðun stefnanda að gera upp tjón tjónþola án þess að tillit sé tekið til eigin sakar hans. Tjónþola, sem þaulvönum starfsmanni byggingarfulltrúa, hafi ekki getað dulist að það væri hættulegt að hoppa um 90 cm niður á vinnupall. Þá hafi það verið í verkahring tjónþola að segja fyrir um breytingar á frágangi vinnupallsins og vinnuaðstöðu við steypumótin, teldi hann þörf á, sbr. gr. 56.9 í byggingarreglugerð.
Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxta frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. Krafa stefnanda sé ekki skaðabótakrafa. Krafa um greiðslu skuldar barst fyrst við málshöfðun og ekki verði ljóst hvort sú krafa hafi verið sett fram með réttu eður ei fyrr en við dómsuppsögu.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu deila aðilar um ábyrgð á tjóni sem byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar, varð fyrir er hann framkvæmdi úttekt á steypumótum byggingar við Stórakrika 26, en gólf vinnupalls gaf sig og féll fulltrúinn niður nokkra metra. Stefndi Benedikt var byggingarstjóri byggingarinnar. Hann var enn fremur eigandi og húsasmíðameistari hennar. Fékk hann verktakafyrirtækið BG smíðar ehf. til að sjá um uppslátt og uppsteypu. Við framkvæmd verksins slógu starfsmenn verktakafyrirtækisins upp vinnupall þann sem byggingarfulltrúinn féll niður um. Stefnandi viðurkenndi bótaskyldu BG smíða ehf. og greiddi byggingarfulltrúanum að fullu bætur úr ábyrgðartryggingu sem fyrirtækið var með hjá stefnanda. Stefnandi telur hins vegar að stefndi Benedikt beri ábyrgð á helmingi tjónsins. Kröfur sínar á hendur Benedikt byggir stefnandi á sakarreglunni, annars vegar á hendur honum sem byggingarstjóra og hins vegar sem húsasmíðameistara. Kröfur sínar á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., byggir stefnandi á að stefndi Benedikt hafi haft starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra og frjálsa ábyrgðartryggingu hjá félaginu.
Af hálfu stefnda Benedikts er m.a. byggt á því að sýkna skuli hann af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts þar sem kröfu beri að beina að meðstefnda eingöngu. Ekki er unnt að fallast á þetta sjónarmið stefnda þar sem í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga er heimildarákvæði þess efnis að tjónþoli geti krafist bóta beint frá tryggingarfélagi.
Fyrir liggur skýrsla Vinnueftirlitsins um slysið. Þar kemur fram að meginorsök slyssins megi rekja til þess að vinnupallurinn uppfyllti ekki lágmarkskröfur um öryggi. Um hafi verið að ræða svokallaðan knektarpall sem festur var utan á steypumót. Hafi hann verið mjög vanbúinn og ekki uppfyllt ákvæði reglugerða um búnað vinnupalla. Gólf hans hafi verið veikburða og engin handrið á honum. Vantað hafi knekti eða undirstöður undir miðju gólfs pallarins. Verður með hliðsjón af þessu að leggja til grundvallar að vinnupallurinn hafi verið vanbúinn. Þótt byggingarfulltrúinn kunni að hafa stokkið niður á pallinn verður samt sem áður að telja að meginorsök þess að pallurinn brotnaði hafi verið vanbúnaður hans.
Þegar fasteignin Stórikriki 26 var reist giltu um ábyrgð byggingarstjóra skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Í 3. mgr. 52. gr. laganna var kveðið á um að byggingarstjóri bæri ábyrgð á því að byggt væri í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Sambærilegt ákvæði er að finna í 32. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Af dómum Hæstaréttar verður dregin sú ályktun að ábyrgð byggingarstjóra liggi enn fremur í að hafa yfirumsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum, þar á meðal að iðnmeistarar, sem komi að verki fyrir hans atbeina sinni skyldum sínum og að framkvæmdin sé tæknilega og faglega fullnægjandi. Að mati dómsins er það hlutverk byggingarstjóra, sem æðsta yfirmanns byggingaframkvæmda, að sjá til þess að fyllsta öryggis sé gætt á byggingarstað og að gerðar séu ráðstafanir til að koma í veg fyrir slysahættu. Verði annmarkar á verkum iðnmeistara eða annarra sem að verkinu koma að þessu leyti kann ábyrgð að falla á byggingarstjóra. Fram hefur komið að umræddur vinnupallur uppfyllti ekki lágmarkskröfur um öryggi að mati Vinnueftirlitsins. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að stefndi Benedikt, sem byggingarstjóri verksins, beri, ásamt fyrirsvarsmönnum verktakafyrirtækisins BG smíðum ehf. ábyrgð á tjóni stefnanda enda mátti honum vera ljós vansmíði vinnupallsins hefði hann sinnt hlutverki sínu eðlilega. Ekki er unnt að fallast á þá málsástæðu stefndu að ábyrgð byggingarstjóra nái ekki til líkamstjóns enda hefur Hæstiréttur í dómaframkvæmd komist að gagnstæðri niðurstöðu, sbr. dóm réttarins í máli nr. 82/2005, frá 6. október 2005.
Stefndi Vátryggingafélag Ísland hf. vísar enn fremur á sýknukröfu sinni til stuðnings að tjónsatvik falli ekki undir skilmála lögboðinnar ábyrgðartryggingar byggingarstjóra. Hin lögboðna starfsábyrgðartrygging byggingarstjóra er eins og heitið ber með sér ábyrgðartrygging. Í því felist að stefndi skuldbatt sig til að bæta byggingarstjóranum það tjón, sem hann verður fyrir, við það að verða skaðabótaskyldur gagnavart tjónþola samkvæmt reglum skaðabótaréttar. Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 skal byggingarstjóri ,,hafa í gildi tryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í starfi hans“. Í 2. og 3. mgr. 33. gr. reglugerðarinnar eru heimildir til að takmarka ábyrgðartrygginguna með þeim hætti að áskilja hámarksvátryggingarfjárhæð og sjálfsáhættu byggingarstjórans, en síðargreinda takmörkunin má þó ekki skerða rétt þess til bóta, sem fyrir tjóni verður og öðlast kröfu á byggingarstjórann. Ekki er að finna heimildir til annars konar takmarkana og í ljósi þess að um lögboðna ábyrgðartryggingu er að ræða var hinu stefnda félagi óheimilt, sbr. 1. mgr. 45. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, að takmarka bótasvið vátryggingarinnar í vátryggingarskilmálum við tjón ,,sem rakið verður til þess að ekki hefur verið byggt í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir“.
Ekki er heldur unnt að fallast á þá málsástæðu stefnda Benedikts að sýkna beri hann af kröfum stefnanda vegna tómlætis eða fyrningar. Ljóst er að meðstefnda var í kjölfar slyssins gert kunnugt um málið, sbr. að hann stóð ásamt stefnanda að matsbeiðni til að meta afleiðingar tjóns byggingarfulltrúans. Skylda til að tilkynna stefnda Benedikt um tjónið hvíldi á meðstefnda, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004. Þá á 52. gr. nefndra laga við um fyrningu á ábyrgð tryggingarfélags en ekki vátryggðs.
Stefndu byggja jafnframt á því að tjónþoli beri meðábyrgð á tjóni sínu þar sem hann hafi sýnt af sér gáleysi. Við mat á þessu er til þess að líta að tjónþoli hafði um árabil starfað við eftirlit á byggingarstöðum fyrir byggingarfulltrúa. Hluti af störfum byggingarfulltrúa getur verið að segja fyrir um gerð og frágang vinnupalla og aðrar öryggisráðstafanir á byggingarstað sem hann telur þörf á, sbr. grein 56.9 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í framburði tjónþola fyrir dómi kom fram að honum hafi litist illa á vinnusvæðið, allt hefði verið í drasli og litlu mátt muna að hann hætti við úttektina. Mátti honum því vera ljóst að aðstæður væru varhugaverðar og telja verður rétt að tjónþoli beri af þeim sökum þriðjungi tjónsins.
Samkvæmt framangreindu er fallist á að stefndu verði sameiginlega (in soldium) dæmdir til að endurgreiða stefnanda tvo þriðju af helmingi þeirra bóta sem hann greiddi tjónþola, samtals 4.256.754 kr. Ekki er efni til að skipta innibyrðis ábyrgð með öðrum hætti, sbr. 1. mgr. 25. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og stefndi Vátryggingafélagi Íslands hf. hefur krafist. Þar sem um endurkröfu er að ræða þykir 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki eiga við. Er því kröfu stefnanda um vexti samkvæmt þeirri grein hafnað. Samkvæmt gögnum málsins setti stefnandi fyrst með birtingu stefnu fram sundurliðaða kröfugerð gagnvart stefndu. Með vísan til 4. mgr. 5. gr. laganna reiknast dráttarvextir á framangreinda fjárhæð frá 29. apríl 2011 en þá var stefna birt stefnda Benedikt.
Í samræmi við þessa niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verða stefndu dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 1.000.000 kr., þ.m.t. virðisaukaskattur.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Benedikt Eggertsson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda Tryggingamiðstöðinni hf., óskipt 4.256.754 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. apríl 2011 til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda 1.000.000 kr. í málskostnað.