Hæstiréttur íslands

Mál nr. 366/2017

Linda Stefanía De L'Etoile (Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson hdl.)
gegn
Landsbankanum hf. (Ragnar Baldursson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Tryggingarbréf
  • Veðsetning
  • Ábyrgð

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um að ógilt yrði fjárnám sem sýslumaður gerði fyrir kröfu L hf. í fasteign L á grundvelli tveggja tryggingarbréfa sem J eiginmaður L hafði gefið út með veði í fasteigninni. Byggði L kröfu sína meðal annars á 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í dómi héraðsdóms sem staðfestur var með vísan til forsendna hans í Hæstarétti kom fram að talið var ljóst að með undirritun sinni á umrædd tryggingarbréf hefði L heimilað veðsetningu síns eignarhluta sem þinglýstur eigandi en ekki einungis gefið samþykki sitt sem maki þinglýsts eiganda. Þá var ekki fallist á með L að það hefði verið ósanngjarnt af hálfu L hf. eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig samþykki L á því að veita veðleyfi í eignarhluta sínum í fasteigninni samkvæmt fyrrnefndum tryggingarbréfum samkvæmt. 36. gr. laga nr. 7/1936. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júní 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði fjárnám, sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði 3. október 2016 fyrir kröfu varnaraðila í fasteign sóknaraðila að Jóruseli 4 í Reykjavík. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fjárnám þetta verði fellt úr gildi. Þá krefst hún aðallega málskostnaðar í héraði, en til vara að hann verði felldur niður. Loks krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Linda Stefanía De L´Etoile, greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2017.

Mál þetta var þingfest 18. nóvember 2016 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 11. maí sl. Sóknaraðili er Linda Stefanía De L´Etoile, kt. 190354-4319, Jóruseli 4, Reykjavík, en varnaraðili er Landsbankinn hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að felld verði úr gildi fjárnámsgerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, nr. 2016-022151, sem fram fór í fasteigninni Jóruseli 4, í Reykjavík, fnr. 205-7399, 3. október 2016. Til vara krefst sóknaraðili þess að fjárnámið verði lækkað að fjárhæð. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnar­aðila, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og áðurnefnd fjár­náms­gerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu staðfest. Þá krefst varnaraðili máls­kostnaðar úr hendi sóknaraðila, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

I

Málavextir

Forsaga máls þessa er sú að 30. mars 2007 og 10. apríl 2007 gaf Jón Gunnar Edvardsson, eiginmaður sóknaraðila, út tvö tryggingarbréf með veði í fasteigninni að Jóruseli 4 í Reykjavík til forvera varnaraðila. Fasteignin var þá þinglýst eign þeirra að jöfnu en með með kaupmála 14. júní 2013 var fasteignin gerð að séreign sóknaraðila.

Samkvæmt samhljóða texta bréfanna voru þau gefin út „til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum mínum/okkar við [varnaraðila], nú eða síðar, hvort sem þær eru samkvæmt víxlum, lánssamningum, skulda­bréfum, yfirdrætti á tékkareikningi, hvers konar ábyrgðum og ábyrgðar­skuldbindingum (þar með töldum ábyrgðum, er bankinn hefir tekist eða kann að takast á hendur mín/okkar vegna) eða í hvaða öðru formi sem er, á hvaða tíma sem er og í hvaða gjaldmiðli sem er“. Stóðu bæði bréfin til tryggingar skuld allt að 12.000.000 króna, auk dráttarvaxta og kostnaðar. Jafnframt var varnaraðila sett að veði fasteignin að Jóruseli 4, Reykjavík, fnr. 205-7399, „öll húseignin“ eins og í bréfunum segir. Var annað bréfið á 6. veðrétti og hitt á 7. veðrétti eignarinnar, í báðum tilvikum með uppfærslurétti, ásamt öllu því sem fasteigninni fylgdi og fylgja ber samkvæmt 15.-20. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Undir skjölin rita eiginmaður sóknaraðila og sóknaraðili fyrir ofan forskriftina „undirritun útgefanda og þingl. eiganda“. Þá ritar sóknar­aðili einnig fyrir ofan forskriftina „samþykkur ofangreindri veðsetningu sem maki þinglýsts eiganda“.

Sama dag og fyrra tryggingarbréfið var gefið, út 30. mars 2007, stofnaði eiginmaður sóknaraðila tékkareikning nr. 0101-26-150549 við aðalútibú varnaraðila. Á umsókninni var óskað eftir heimild til handa sóknaraðila til að ávísa, taka út af reikn­ingnum sem og að hafa debetkort á reikninginn. Sama dag var veitt yfir­dráttar­heimild að fjárhæð 10.100.000 krónur á reikninginn.

Sama dag og síðara tryggingarbréfið var gefið, út 10. apríl 2007, var yfir­dráttar­heimild á áðurnefndum tryggingareikningi hækkuð í 15.000.000 króna. Þann 4. maí 2007 var yfirdráttarheimildin svo hækkuð í 21.500.000 krónur.

Fram kemur í greinargerð varnaraðila að útgáfa áðurnefndra tryggingarbréfa hafi verið óaðskiljanlegur þáttur í lánveitingunni til skuldara og að yfirdráttarlánin hefðu að öðrum kosti ekki verið veitt.

Varnaraðili sendi sóknaraðila innheimtubréf 15. apríl 2008. Stefna á hendur Jóni Gunnari var árituð um aðfararhæfi 14. júlí 2008 vegna yfirdráttarskuldar að fjár­hæð 26.436.914 krónur á framangreindum tékkareikningi. Fjárnám var gert inn í veðrétt í eignarhluta hans vegna skuldarinnar 1. september 2008. Segir í greinargerð varnaraðila að sóknaraðili hafi látið undir höfuð leggjast að bregðast við tilkynningum frá varnaraðila sem henni hafi verið sendar árlega allt frá árinu 2011. Hún hafi fyrst haft uppi athugasemdir varðandi tryggingarbréfin við fyrirtöku fjárnámsgerðarinnar 3. október 2016, níu árum eftir útgáfu þeirra.

Varnaraðili óskaði eftir að fjárnám yrði gert hjá sóknaraðila inn í veðrétt hennar samkvæmt ofangreindum tryggingarbréfum í fasteigninni að Jóruseli 4 með aðfararbeiðni til sýslumanns 8. september 2016 til tryggingar skuld Jóns Gunnars við varnaraðila sem þar er tilgreind 44.738.552 krónur.

Aðfarargerðin, sem fékk númerið 2016-022151, var tekin fyrir hjá sýslumanni 3. október 2016. Var þar mætt af hálfu sóknaraðila sem gerðarþola og gerðar athugasemdir við kröfu varnaraðila sem gerðarbeiðanda og þess krafist að henni yrði hafnað þar sem sóknaraðili hefði aldrei veitt samþykki sitt „fyrir veðsetningu á upp­haf­legum 50% af eigninni“. Greiðslumat á skuldara hefði aldrei farið fram og jafnvel þótt samþykki hefði legið fyrir væri það ógilt þar sem slíkt mat hefði ekki verið gert. Þá var gerður almennur fyrirvari um fjárhæðir í aðfararbeiðni. Varnaraðili hafnaði mót­mælum sóknaraðila og vísaði til þess að á umræddum tryggingarbréfum kæmi skýrt fram að sóknaraðili samþykkti veðsetninguna og að hún hefði kynnt sér upp­lýsinga­bækling um persónuábyrgð og veðtryggingar þriðja aðila. Ákvað sýslumaður að fjárnámið næði fram að ganga. Var gert fjárnám fyrir kröfum varnaraðila í 50% eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni að Jóruseli á grundvelli tryggingarbréfanna tveggja. Bókað var í gerðarbók sýslumanns að samkvæmt endurriti frá 1. september 2008 sem fylgdi aðfararbeiðninni hefði verið gert fjárnám hjá Jóni Gunnari í þáverandi 50% eignarhluta hans í Jóruseli inn í veðrétt samkvæmt tryggingarbréfunum tveimur. Nú væri því gert fjárnám hjá sóknaraðila í þeim 50% eignarhluta í Jóruseli sem áður hefði eingöngu verið hennar eign. Af hálfu sóknaraðila var því lýst yfir við gerðina að lögmæti hennar yrði borið undir dómstóla. Beiðni sóknaraðila um úrlausn dómsins barst 28. október 2016.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili krefst þess að fjárnámsgerð sem lauk 3. október 2016 með því að gert var fjárnám inn í veðrétt varnaraðila í fasteigninni að Jóruseli 4, fnr. 203-7333, fyrir skuld að fjárhæð 44.738.552 krónur auk dráttarvaxta og áfallins kostnaðar, verði felld úr gildi.

Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á því að samþykki hennar hafi ekki tekið til veð­setningar í hennar eignarhluta. Hún hafi ritað undir tryggingarbréfin undir textanum „undirritun útgefanda og þingl. eiganda“ en hún hafi ekki verið útgefandi trygg­ingarbréfsins. Geti því undirritun hennar á þessum stað á skjalinu ekki haft nokkra þýðingu. Varnaraðili hafi einhliða útbúið skjalið og hafi sjálfur ekki gert ráð fyrir öðru en að veðsetningin ætti aðeins að taka til eignarhluta útgefanda bréfsins. Eins og skjalið beri skýrlega með sér sé nafn sóknaraðila forprentað á þann stað sem henni bar að rita undir en það hafi verið í reitinn „samþykkur ofangreindri veðsetningu sem maki þinglýsts eiganda: Linda Stefanía de L Etoile“.

Í þessu felist að samþykki sóknaraðila hafi ekki verið fyrir því að eignarhluti hennar hafi einnig verið settur að veði og veiti önnur gögn ekki heldur vísbendingu um að það hafi verið ætlunin. Aðeins felist því í samþykki sóknaraðila að eiginmanni hennar hafi verið heimilt að veðsetja sinn eignarhluta, sbr. 1. mgr. 60. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Samkvæmt meginreglum samningaréttar um samþykki séu ekki uppfyllt skilyrði fyrir því að talið verði að til gilds veðréttar hafi verið stofnað í eignarhluta sóknaraðila.

Gera verði þær kröfur til varnaraðila sem fjármálastofnunar að hann vandi til skjala­gerðar og að réttilega sé gengið frá skjölum er lúti að mikilvægum ráðstöfunum eins og um sé að ræða í þessu máli og að hann tryggi sér skýra og ótvíræða sönnun fyrir veðréttindum. Óskýrleika verði að skýra varnaraðila í óhag.

Af þessu leiði að ekki liggi fyrir samþykki sóknaraðila til veðsetningar á sínum eignarhluta. Geti veðsetning eignarinnar vegna útgáfu tryggingarbréfanna tveggja því ekki náð til annars en eignarhluta eiginmanns sóknaraðila í eigninni.

Verði ekki á þetta fallist byggir sóknaraðili á því að samþykki hennar sé ógilt samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þar sem varnaraðili hafi ekki farið að reglum sem fram komi í Samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001.

Í 1. gr. samkomulagsins komi fram að aðilar þess séu sammála um gildi þeirrar stefnu að draga úr vægi ábyrgða. Það sjáist m.a. af 1. mgr. 3. gr. þar sem fram komi sú regla að sé skuldaábyrgð eða veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu beri fjármálafyrirtæki að greiðslumeta greiðanda, nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að það verði ekki gert. Þar að auki komi fram í 3. mgr. 3. gr. að ef ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemi meira en 1.000.000 króna þá sé skilyrðislaus skylda fyrir hendi til greiðslumats á skuldara. Hins vegar sé hjónum eða fólki í óvígðri sambúð heimilt að „undanskilja“ fjármálafyrirtæki frá skyldu til greiðslumats, vegna ábyrgðar á skuldum hvors annars.

Í 2. mgr. 3. gr. samkomulagsins komi fram að við greiðslumat skuli tekið tillit til neyslu og annarra fastra útgjalda áður en ráðstöfunarfé til greiðslu skuldbindinga væri reiknað út. Við áætlun á útgjöldum til neyslu skuli að lágmarki nota viðmiðun Ráð­gjafarstofu um fjármál heimilanna eða Íbúðalánasjóðs.

Í 4. gr. samkomulagsins er mælt fyrir um upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækis. Þar komi fram að fjármálafyrirtæki beri að gefa út upplýsingabæklinga um skulda­ábyrgðir og veðsetningar og dreifa með skjölum sem afhent séu ábyrgðarmönnum til undirritunar. Í bæklingunum skuli m.a. koma fram hvaða skyldur felist í ábyrgðinni, heimild ábyrgðarmanns til að segja henni upp o.fl.

Þá komi fram í 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gangi í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Bendi niðurstaða greiðslumats til að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en ábyrgðarmaður óskar engu að síður eftir eftir að lán verði veitt skuli hann staðfesta það skriflega.

Sóknaraðili kveður að í fjölmörgum dómum Hæstaréttar hafi ábyrgð verið felld úr gildi ef brotið hefur verið gegn skyldum samkomulagins eða almennum óskráðum og skráðum reglum.

Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa gerst brotlegan við þá meginskyldu sem samkomulagið hafi falið í sér að greiðslumeta lántaka þegar ábyrgð þriðja manns hafi verið til staðar. Um sé að ræða fortakslausa skyldu sem varnaraðila hafi aðeins verið heimilt að víkja frá ef um var að ræða hjón eða fólk í óvígðri sambúð sem lýsti því yfir að það óskaði ekki eftir að slíkt mati færi fram. Engin yfirlýsing hafi legið fyrir frá sóknaraðila um að hún óskaði ekki eftir greiðslumati. Ekkert greiðslumat hafi farið fram vegna skuldbindingar þeirrar sem sóknaraðili hafi gengist undir þann 30. mars 2007 og 10. apríl 2008. Vart verði séð hvernig því markmiði samkomulagsins verði náð að skuldir verði miðaðar við greiðslugetu lántaka og tryggingar hans með slíkum vinnubrögðum.

Varnaraðili verði að bera hallann af því að hafa ekki viðhaft þau vönduðu vinnubrögð að greiðslumeta lántaka þegar um ábyrgð þriðja manns er að ræða. Hafi Hæstiréttur kveðið á um það með afar skýrum hætti að fjármálafyrirtæki beri skylda til að framkvæma greiðslumat og að upplýsa ábyrgðarmann um niðurstöðu slíks mats, á grundvelli óskráðra og skráðra reglna, þ. á m. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Sóknaraðili byggir í öðru lagi á því að varnaraðili hafi ekki uppfyllt skyldu sína um tilkynningar samkvæmt ákvæðum laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Þar komi fram að lánveitandi skuli senda ábyrgðarmanni tilkynningu skriflega svo fljótt sem kostur er ef um vanefndir lántaka er að ræða, ef veð eða aðrar tryggingar eru ekki lengur tiltækar, um andlát lántaka eða að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og eftir hver áramót með upplýsingum um stöðu láns sem ábyrgð stendur fyrir og yfirliti yfir ábyrgðir. Þá komi fram í 2. mgr. 7. gr. laganna að ábyrgðarmaður skuli vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. og ef vanræksla sé veruleg skuli ábyrgð falla niður. Í 4. mgr. lagagreinarinnar segi að lán­veitandi geti ekki, þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni, gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins.

Sóknaraðili hafi aldrei fengið sendar tilkynningar um ábyrgðir í sínu nafni. Virðist sem varnaraðili hafi ekki litið svo á sjálfur að sóknaraðili væri í ábyrgð til tryggingar fjárskuldbindingum Jóns Gunnars. Verði því að líta svo á að fullnægt sé skilyrði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um að vanræksla þessi sé veruleg og ábyrgð sé því fallin niður. Þá hafi sóknaraðili heldur ekki verið upplýst um dóm á hendur skuldara.

Sóknaraðili kveður ákvæði 7. gr. laga nr. 32/2009 vera afturvirka lagareglu. Samsvarandi reglu hafi verið að finna í 1. mgr. 5. gr. áðurnefnds samkomulags frá 1. nóvember 2001 en þar segi að fjármálafyrirtæki beri að tilkynna ábyrgðarmanni um vanskil sem verði á fjárhagslegri skuldbindingu sem hann er í ábyrgð fyrir. Slíka til­kynningu ætti að senda innan 30 daga frá greiðslufalli skuldara. Er byggt á því að til­kynningaleysi um þetta leiði til þess að ábyrgðin samkvæmt tryggingabréfunum sé fallin úr gildi með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936 þar sem engar tilkynningar um vanskil hafi borist sóknaraðila.

Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að krafan að baki fjárnámsbeiðninni sé fyrnd samkvæmt þágildandi lögum nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. lög nr. 150/2007. Einnig er byggt á því að krafan sé fallin niður fyrir tómlæti.

Þá kveðst sóknaraðili hafna því að hún hafi á einhvern hátt haft hag af umræddri lánveitingu til eiginmanns hennar. Þvert á móti komi fram í gögnum málsins að yfirdráttarlánið hafi verið veitt vegna kaupa hans á hlut í tilteknu fyrirtæki. Hún hafi ekki verið aðili að þeim kaupum.

Á grundvelli framangreinda sjónarmiða og málsástæðna byggir sóknaraðili á því að fallast beri á kröfu hennar um að fellt verði úr gildi fjárnám það er fram fór þann 3. október 2016.

Um lagarök vísar sóknaraðili m.a. til samkomulags frá 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Þá vísar hún til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga auk ólögfestra meginreglna samninga- og kröfuréttar. Um málskostnað vísar hún til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt á málskostnað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og staðfest verði sú fjárnámsgerð sem fram fór 3. október 2016 í máli nr. 2016-022151. Byggir varnaraðili á því að öll skilyrði laga nr. 90/1989 um aðför séu uppfyllt. Fjárnámið hafi byggt á trygg­ingarbréfum þar sem sóknaraðili hafi sem þinglýstur eigandi veitt veð í eignar­hluta sínum í fasteigninni Jóruseli 4. Þá hafi varnaraðili uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samkomulaginu frá 2001 en jafnvel þótt dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að svo hefði ekki verið byggir varnaraðili á því að engin atvik séu fyrir hendi sem leitt geta til þess að skuldbindingu sóknaraðila beri að víkja til hliðar eins og hún haldi fram.

Sóknaraðili hafi ritað undir tryggingarbréfin í dálk undir fyrirsögninni „undirritun útgefanda og þingl. eiganda“. Með þessari undirritun sinni hafi sóknaraðili heimilað, sem þinglýstur eigandi, veðsetningu allrar fasteignarinnar að Jóruseli 4, fn. 205-7399 en tilgreint sé í báðum tryggingarbréfunum að öll fasteignin/húseignin sé til tryggingar. Undirritun sóknaraðila sem þinglýsts eiganda feli því ótvírætt í sér að eignarhluti hennar hafi verið settur að veði. Útgefandi ritaði einnig undir á sama stað en hann hafi einnig verið eigandi fasteignarinnar. Þannig hafi öll fasteignin verið veðsett.

Í meginmáli tryggingarbréfanna sé feitletrað að veðsett sé „Jórusel 4, Reykjavík, íbúð 01-0101, öll húseignin fastanúmer 205-3799“. Bréfin beri því skýrt með sér að veðréttinum hafi ekki einungis verið ætlað að ná til eignarhluta Jóns Gunnars, heldur allrar eignarinnar, þar með talið til hlutar sóknaraðila. Liggi því fyrir skriflegt samþykki sóknaraðila fyrir veðsetningunni í sínum eignarhlut. Kröfu sóknaraðila um að veðsetningin nái ekki til hennar hluta sé því hafnað.

Athygli sé vakin á því að við undirritun bréfanna hafi sóknaraðili og eiginmaður hennar verið eigendur að jöfnu að fasteigninni sem hér um ræði. Sóknaraðili hafi svo eignast alla eignina í júní 2013. Þá hafi allar veðskuldbindingar á eigninni legið fyrir og sóknaraðili því meðvituð um skuldbindingar sínar. Sóknaraðila hafi átt að vera þetta ljóst eða mátt vera það ljóst enda hafi hún engum mótmælum hreyft við veðsetningunni fyrr en við fyrirtöku á fjárnámsbeiðninni þann 3. október 2016 eða níu árum frá undirritun tryggingarbréfanna. Þá hafi sóknaraðili jafnframt ritað undir bæði bréfin í dálkinn „samþykkur ofangreindri veðsetningu sem maki þinglýsts eiganda: Linda Stefanía de L Etoile“.

Varnaraðili kveðst mótmæla þeirri málsástæðu sóknaraðila að skylt hafi verið að greiðslumeta aðalskuldara. Samkomulag stjórnvalda og fjármálafyrirtækja frá árinu 2001 heimilaði hjónum og fólki í óvígðri sambúð að „undanskilja“ fjármálafyrirtæki frá skyldu til greiðslumat eins og fram komi í 3. mgr. 3. gr. þess. Engin ástæða hafi verið til þess fyrir varnaraðila að framkvæma greiðslumat þar sem honum bar hvorki skylda til þess né hafi verið óskað eftir því af sóknaraðila. Jafnvel þótt talið yrði að varnaraðila hafi borið skylda til þess þá nægi það ekki eitt og sér til þess að umrædd ábyrgð teljist ólögmæt. Fleiri þættir þyrftu að koma til. Tilgangur greiðslumats á aðalskuldara sé að ábyrgðarmenn taki upplýsta ákvörðun um greiðslugetu hans áður en skrifað sé undir skuldaskjöl. Þegar leiða megi líkur að því að niðurstaða greiðslumats hafi ekki verið forsenda fyrir veitingu ábyrgðarskuldbindingarinnar þurfi fleiri atriði að koma til skoðunar áður en ákvörðun um niðurfellingu ábyrgðar verði tekin.

Samkomulagið um notkun ábyrgða frá 2001 sé samantekt verklagsreglna sem settar hafi verið til að draga úr vægi ábyrgðarskuldbindinga við lánveitingar. Nauðsynlegt sé að meta allar aðstæður við lánveitinguna, samning aðila og önnur atriði sem varpað geta ljósi á hvort ógilda beri skuldbindinguna og þá í samræmi við 36. gr. laga nr. 7/1936. Fara verði fram heildarmat á aðstæðum aðila fyrir, eftir og við undirritun sóknaraðila á umrædd tryggingarbréf. Telur varnaraðili að slíkt mat leiði til þess að hafna beri kröfu sóknaraðila. Bendir varnaraðili á að sóknaraðili staðfesti það sérstaklega með undirritun sinni á umrædd tryggingarbréf að hafa kynnt sér efni upplýsingabæklings LBI, sbr. 10. gr. tryggingarbréfanna. Sóknaraðili, sem jafnframt sé maki útgefanda tryggingarbréfanna, hafi sem slík haft aðgang að fjárhag útgefanda og mátt vita hver fjárhagsleg staða hans hafi verið þegar hún samþykkti veðsetninguna. Sóknaraðili hafi auk þess haft aðgang að og upplýsingar um stöðu umrædds tékkareiknings á hverjum tíma enda sameiginlegur reikningur hennar og maka hennar auk þess sem hún hafi verið prókúruhafi reikningsins. Þá hafi sóknaraðili haft fjárhagslegan ávinning af lántökunni. Þá sé ítrekað að umrædd tryggingarbréf hafi verið óaðskiljanlegur þáttur í lánveitingu til skuldara og sóknaraðila og að yfirdráttarlánið hefði að öðrum kosti ekki verið veitt.

Jafnvel þótt horft yrði fram hjá þeirri staðreynd að forvera varnaraðila hafi ekki borið skylda til að greiðslumeta eiginmann sóknaraðila verði ekki fram hjá því litið að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að greiðslumat hafi verið ákvörðunarástæða þess að hún samþykkti veðsetningu eignarhluta síns í umræddri fasteign. Hefði niðurstaða greiðslumats verið ákvörðunarástæða fyrir samþykki sóknaraðila hefði hún auðveldlega getað látið það ógert að undirrita umrædd tryggingarbréf.

Þá skuli það áréttað að sóknaraðili hafi aldrei gert athugasemdir við trygg­ingar­bréfin og veðsetninguna eða haldið því fram að henni hafi ekki verið kynntur réttur sinn fyrr en tæpum níu árum eftir útgáfu bréfanna. Þá hafi sóknaraðila verið sendar tilkynningar um lánsveðið árlega frá árinu 2011. Sóknaraðili hafi heldur ekki mótmælt veðsetningunni eftir að hafa fengið þær tilkynningar eða innheimtubréf og megi ljóst vera að hún hafi ávallt litið svo á að hún væri bundin af samþykki sínu fyrir veðsetningunni. Hljóti þetta tómlæti sóknaraðila um meintan rétt sinn að verða skýrt henni í óhag.

Eins og áður sé fram komið hafi sóknaraðili staðfest með undirritun sinni á umþrætt tryggingarbréf að hún hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings forvera varnaraðila. Hún hafi ekki óskað eftir að kynna sér greiðslumat/greiðslugetu útgefanda/aðalskuldara. En eins og áður sagði bar forvera varnaraðila engin skylda til þess né var óskað eftir því. Hefði sóknaraðili gert fyrirvara við undirritun sína á trygg­ing­arbréfið þess efnis að hún hefði ekki séð upplýsingabæklinginn hefði forveri varnaraðila aldrei samþykkt tryggingarbréfið. Bankinn hefði kallað sóknaraðila á sinn fund og afhent henni upplýsingabæklinginn og farið ítarlega yfir öll atriði málsins. Hefði niðurstaða greiðslumats verið ákvörðunarástæða sóknaraðila hefði hún aldrei átt að skrifa undir bréfin. Það hafi hún þó gert og þar sé sérstaklega tiltekið að hún hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings um persónuábyrgðir og veðtryggingu þriðja aðila og tekið þá ákvörðun sem þinglýstur eigandi að samþykkja að fasteignin að Jóruseli stæði til tryggingar skuldum maka hennar. Í því felist skuldbinding sem beri að standa við.

Þá hafnar varnaraðili þeirri málsástæðu sóknaraðila að aðstöðumunur hafi verið með aðilum þannig að komið hafi niður á sóknaraðila. Sóknaraðili hafi ekki á neinn hátt leitast við að rökstyðja það í hverju hinn meinti aðstöðumunur hafi falist og/eða hvaða áhrif hann hafi átt að hafa haft við samningsgerðina.

Jafnframt hafnar varnaraðili því að ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 séu uppfyllt og telur fjarri að það sé óheiðarlegt eða bersýnilega ósanngjarnt af hans hálfu að byggja á efni tryggingarbréfanna. Varnaraðili hafi farið eftir samkomulagi um notkun ábyrgða frá 1. nóvember 2001. Öll sönnunarbyrði fyrir því að um ógilda ábyrgðar­skuldbindingu sé að ræða hvíli á sóknaraðila og hún hafi ekki sýnt fram á að skilyrði ógildingar samkvæmt áðurnefndu ákvæði séu uppfyllt. Með vísan til ofangreinds telur varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að það væri ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að sóknaraðili sé bundin við samþykki sitt fyrir veðsetningunni.

Hvað varðar málsástæðu sóknaraðila um tilkynningar tekur sóknaraðili fram að hann hafi sent slíkar tilkynningar til varnaraðila á grundvelli laga nr. 32/2009. Þær hafi verið sendar til sóknaraðila á tímabilinu 1. janúar 2011 til 10. janúar 2017. Til­kynn­ingar vörðuðu lánsveð í fasteigninni Jóruseli. Ljóst sé að varnaraðili hafi fullnægt til­kynningaskyldu sinni og er þeirri málsástæðu sóknaraðila að hún hafi ekki fengið um­ræddar tilkynningar mótmælt enda sýni framlögð gögn fram á annað.

Málsástæðum sóknaraðila um að krafan sé að einhverju leyti fallin niður vegna fyrningar er mótmælt sem haldlausum. Umræddur tékkareikningur hafi verið stofnaður 30. mars 2007. Um fyrningu kröfunnar gildi því ákvæði laga nr. 14/1905 um fyrn­ingu skulda og annarra kröfuréttinda þar sem til hennar var stofnað fyrir gildistöku nú­gildandi laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. lagaskilaákvæði 28. gr. hinna síðarnefndu laga. Krafan sé vegna peningaláns. Löggjafinn hafi mælt svo fyrir í meira en eina öld að peningalán fyrnist á 10 árum frá upphafstíma fyrningarfrests og leiði sú niðurstaða af 2. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905. Sé engum vafa undirorpið að krafan er ekki fyrnd. Þá hafi gengið dómur um kröfuna 14. júlí 2008.

Sóknaraðili byggi einnig á tómlæti varnaraðila við innheimtu skuldarinnar. Því mótmæli varnaraðili. Þeir sem gangist undir fjárskuldbindingar verði að efna þær. Lög­gjafinn hafi ávallt haft fyrningarfrest ríflegan á peningalánum og því skyti skökku við ef krafa félli niður vegna tómlætis mörgum árum áður en krafan hefði ella fyrnst. Auk þess hafi sóknaraðila alla tíð verið send yfirlit um ábyrgðir sem og greiðsluáskorun sem ekki hafi verið brugðist við.

Varnaraðili hafnar því að fella beri fjárnámsgerðina úr gildi með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Engin skylda hafi hvílt á varnaraðila að framkvæma greiðslumat í þessu tilviki né hafi þess verið óskað af hálfu sóknaraðila seinna. Skilyrði ákvæðisins til að fella skuldbindingu sóknaraðila úr gildi í heild eða að hluta séu ekki uppfyllt.

Þá hafi sóknaraðili á engan hátt sýnt fram á að ósanngjarnt sé af hálfu varnaraðila að bera fyrir sig ábyrgð hennar samkvæmt yfirlýsingunni, hvað þá að önnur skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 séu uppfyllt.

Beri að hafna öllum kröfum sóknaraðila í máli þessu og staðfesta aðfarargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í máli nr. 2016-022151, sem fór fram þann 11. júlí 2014.

Um lagarök vísar varnaraðila til aðfararlaga nr. 90/1989, laga nr. 7/1936 um samn­ingagerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, auk meginreglna kröfu- og samn­inga­réttar um skuldbindingargildi samninga og um tómlæti, auk meginreglna veðréttar. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

IV

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er aðilum að aðfarargerð heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerð, ef krafa þess efnis berst héraðs­dómara innan átta vikna frá því að gerðinni var lokið. Þeirri aðfarargerð sem hér um ræðir lauk 3. október 2016 og var krafa sóknaraðila um úrlausn dómsins móttekin 28. sama mánaðar. Kröfunni er því beint til dómsins innan lögmælts frests.

Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að aðfarargerð, sem lauk með því að fjár­nám var gert inn í veðrétt varnaraðila í fasteign sóknaraðila að Jóruseli 4 í Reykjavík, verði felld úr gildi.

Fjármálaeftirlitið tók með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., þá ákvörðun 9. október 2008 að ráðstafa öllum eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf., 540291-2259, til Nýja Landsbanka Íslands hf., 471008-0280, nú Landsbankinn hf. 471008-0280. Enginn ágreiningur er um aðild varnaraðila að máli þessu.

Hin umdeilda aðfarargerð byggði á tveimur tryggingarbréfum útgefnum af eigin­manni sóknaraðila með veði í áðurnefndri fasteign sem þá var í óskiptri sameign þeirra og átti hvort þeirra helmingshlut. Fyrir liggur að með kaupmála 14. júní 2013 var fasteignin gerð að séreign sóknaraðila.

Við útgáfu og undirritun bréfanna ritaði sóknaraðili undir bréfin við for­skriftina „undirritun útgefanda og þingl. eiganda“. Þá ritar sóknaraðili einnig undir sem „samþykkur ofangreindri veðsetningu sem maki þinglýsts eiganda“. Lýtur ágreiningur aðila að því hvort sóknaraðili hafi með undirritun sinni á bréfin heimilað veð­setningu síns eignarhluta sem þinglýstur eigandi eða hvort hún hafi einungis verið að samþykkja veðsetningu eignarhluta eiginmanns hennar sem maki, sem leiði til þess að helmingshlutur hennar í eigninni standi ekki til tryggingar skuld eiginmanns hennar. Þá greinir aðila einnig á um hvort varnaraðili hafi farið að ákvæðum sam­komulags frá 2001 um öflun ábyrgða og hvort víkja eigi ábyrgð sóknaraðila til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 verði hún á annað borð talin vera fyrir hendi.

Dómurinn telur ljóst að með undirritun sinni á umrædd tryggingarbréf hafi sóknaraðili heimilað veðsetningu síns eignarhluta sem þinglýstur eigandi en hún hafi ekki einungis verið að gefa samþykki þitt sem maki þinglýsts eiganda. Í meginmáli trygg­ingarbréfanna er feitletrað að veðsett sé á 7. veðrétti fasteignin að Jóruseli 4, Reykjavík, íbúð 01-0101, fasteignanúmer 205-7399, „öll húseignin“. Ljóst er því að bréfið sjálft ber með sér að veðsetningunni var ekki aðeins ætlað að ná til eignarhluta Jóns Gunnars, útgefanda bréfsins, heldur til allrar eignarinnar og þar með hluta sóknaraðila. Staðfestir sóknaraðili með undirritun sinni að svo sé. Gat sóknaraðila því ekki dulist að með útgáfu bréfanna var öll fasteignin að Jóruseli veðsett varnaraðila. Telur dómurinn því að til gilds veðréttar hafi stofnast í eignarhluta sóknaraðila.

Kemur þá til skoðunar hvort varnaraðili hafi farið að samkomulagi um notkun ábyrgða er ábyrgð sóknaraðila var fengin og hvaða áhrif það hefur hafi svo ekki verið.

Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, fyrir hönd aðildarfélaga sinna, Samband íslenskra sparisjóða, fyrir hönd sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra, af hálfu stjórnvalda, gerðu 1. nóvember 2001 með sér samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Var það í gildi á þeim tíma er um ræðir og er óumdeilt að varnaraðili var bundinn af efni þessa samkomulags.

Markmið samkomulagsins var að vernda ábyrgðarmenn í þeim tilvikum er skulda­ábyrgð eða veð í eigu annars einstaklings var sett til tryggingar fjárhagslegri skuld­bindingu. Í 1. mgr. 3. greinar samkomulagsins sagði að væri skuldaábyrgð eða veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu bæri fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda, nema ábyrgðarmaður óskaði sérstaklega eftir því skriflega að svo yrði ekki gert. Þá sagði í 3. mgr. 3. greinar að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. væri fjár­málafyrirtæki skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð næmi meira en 1.000.000 króna. Þó væri hjónum eða fólki í óvígðri sambúð heimilt að undanskilja fjármálafyrirtæki frá skyldu til greiðslumats, vegna ábyrgðar á skuldum hvors annars. Í 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins sagði síðan að tryggt skyldi að ábyrgðarmaður gæti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengist í ábyrgðina, enda lægi fyrir að greiðandi hefði samþykkt það.

Óumdeilt er að ekki fór fram greiðslumat á útgefanda bréfsins og eiginmanni sóknaraðila áður en ábyrgð hennar var gefin. Varnaraðili hefur á því byggt að honum hafi ekki borið skylda til þess að láta fara fram greiðslumat þar sem um hjón var að ræða, sbr. 3. mgr. 3. gr. samkomulagsins og þá skipti ekki máli hversu há viðkomandi ábyrgðarskuldbinding sé í því tilliti. Með undirritun sinni á bréfin hafi sóknaraðili undanskilið varnaraðila frá þeirri skyldu að greiðslumeta eiginmann hennar. Sóknaraðili hefur hafnað þessari túlkun varnaraðila og byggir á því að ekkert liggi fyrir um að sóknaraðili hafi lýst því yfir að hún teldi ekki þörf á greiðslumati eiginmanns hennar auk þess sem það standi varnaraðila nær sem fjármálastofnun að sýna fram á að slík yfirlýsing hafi verið gefin með óyggjandi hætti. Engin slík yfirlýsing liggi fyrir og verði varnaraðili að bera hallann af því að svo er ekki.

Dómurinn telur óhjákvæmilegt, þrátt fyrir þau tengsl sem eru milli aðila í máli þessu, að líta svo á að varnaraðila hafi, í samræmi við skýrar skyldur sínar samkvæmt áður­nefndu samkomulagi, borið að tryggja sér sönnur um það að sóknaraðili vildi „undanskilja“ varnaraðila frá þeirri skyldu að greiðslumeta skuldara eins og það er orðað í samkomulaginu. Við mat á þessu er óhjákvæmilegt að líta til dóms Hæstaréttar í máli nr. 611/2013 þar sem tengsl aðila voru sambærileg og í máli þessu. Dómurinn telur ekki unnt að líta svo á að undirritun sóknaraðila á bréfin ein og sér hafi falið í sér slíka yfirlýsingu jafnvel þótt í niðurlagi bréfanna hafi komið fram að sóknaraðili hefði kynnt sér upplýsingabækling varnaraðila um persónuábyrgð og veðtryggingar þriðja aðila. Í honum er að finna sambærilegt ákvæði og í samkomulaginu sjálfu um mat á greiðslu­getu skuldara. Eftir sem áður bar varnaraðila að tryggja sér skýra yfirlýsingu sóknaraðila um það að hún kysi að undanþiggja varnaraðila frá þeirri skyldu að gera greiðslumat á skuldara.

Að þessu sögðu tekur dómurinn fram að samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar verður samningur aðila um ábyrgð ekki ógiltur í heild eða hluta af þeirri ástæðu einni að fjármálastofnun hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt margnefndu sam­komulagi frá árinu 2001. Verður því að finna slíkri ógildingu stoð í reglum samn­ingaréttar ef leysa á sóknaraðila undan skuldbindingu sinni samkvæmt fyrrnefndum tryggingarbréfum. Kemur þá til skoðunar hvort aðstæður séu með þeim hætti í máli þessu að víkja beri veðskuldbindingu sóknaraðila til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 eins og hún hefur byggt á.

Dómurinn tekur fram að þegar metið er hvort beita eigi 36. gr. laga nr. 7/1936 og víkja tiltekinni skuldbindingu til hliðar þarf að fullnægja þeim skilyrðum að ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera loforð fyrir sig og skal við mat á því líta til efnis samnings, atvika við samningsgerð, stöðu aðila við hana og atvika, sem síðar koma til.

Í málinu hefur sóknaraðili bent á að lánafyrirgreiðsla til eiginmanns hennar og út­gefanda bréfanna, Jóns Gunnars, hafi verið vegna kaupa hans á hlut í fyrirtæki er hann starfaði þá hjá sem framkvæmdastjóri. Hefur sóknaraðili lagt fram kaupsamning þar að lútandi og afrit af greiðsluskjölum vegna kaupanna. Telur sóknaraðili þar af leiðandi ljóst að veðið hafi ekki verið veitt í þágu hennar sjálfrar eða henni til hags­bóta. Fyrirgreiðslan hafi falist í því að eiginmaður hennar hafi fengið yfirdrátt á tékka­reikningi og á sama tíma hafi hann gefið út tryggingarbréfin tvö sem um ræði í máli þessu. Hún hafi ekki komið að þessum kaupum og ekki notið góðs af þeim á nokkurn hátt. Í málinu liggur þó fyrir að sóknaraðili hafði heimild til að ávísa, taka út og hafa debetkort á tékkareikninginn. Verður raunar ekki betur séð en að hún sjálf riti nafn sitt á umsóknina þar að lútandi. Þá verður auk þess að telja að sóknaraðila hafi verið kunnugt um kaupin og framangreind viðskipti þar sem hún ritar undir sem vottur að viðauka við kauptilboð eiginmanns hennar, greiðslu 10.000.000 króna vegna kaup­anna. Auk þess sem hún veitti eiginmanni sínum á árinu 2007 fullt og ótakmarkað umboð til rita undir öll nauðsynleg skjöl vegna veðsetningar á eigninni vegna kaupa hans á fyrirtækinu. Er framangreindum sjónarmiðum sóknaraðila hafnað og þá verður heldur ekki talið að atvik hafi verið með þeim hætti og aðstöðumunur að það eigi að leiða til þess að skuldbinding hennar verði felld niður.

Þá verður ekki fram hjá því horft að sóknaraðila var sent innheimtubréf 15. apríl 2008 þar sem gerð var grein fyrir „kröfu í vanskilum“, eins og þar segir, að fjárhæð 12.000.000 króna, tryggingarbréfinu lýst og tiltekið að veð væri í eigninni að Jóruseli 4. Þá kemur fram í gögnum málsins að stefna á eiginmann sóknaraðila var árituð um aðfararhæfi 14. maí 2008 og fjárnám var gert inn í veðrétt hans í eignarhluta hans 1. september 2008 á grundvelli kröfu samkvæmt hinni árituðu stefnu. Að síðustu verður heldur ekki fram hjá því litið að í það minnsta allt frá árinu 2011 sendi varnaraðili sóknaraðila yfirlit um ábyrgðir þar sem tekið er fram að yfirlitið sýni „ábyrgðir þínar á skuldum annarra“ við varnaraðila. Þá er tekið fram að lánsveðið sé „allsherjarveð“, greiðandi sé Jón Gunnar Edvardsson og að ábyrgðarfjárhæð nemi 16.420.816 krónum. Þá verður ekki talið að fyrirvari sem fram kemur á umræddum yfir­litum á árunum 2012 til 2017 breyti þessu enda hefur þegar verið komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili veitti veð í sínum eignarhluta við undirritun bréfanna auk þess sem hafa verður í huga að á árinu 2013 var öll eignin gerð að séreign sóknaraðila með kaupmála. Ekki verður séð af gögnum málsins, eða því sem fram er komið í málinu, að sóknaraðili hafi gert nokkurn reka að því að gæta réttar síns hvað þetta varðar. Það virðist ekki vera fyrr en við fyrirtöku fjárnámsins sem varnaraðili mót­mælir veðskuldbindingu sinni, níu árum eftir að hún var veitt. Þá verður einnig að hafa í huga að sóknaraðili hefur haldið því fram að fjárhagur aðila hafi ekki verið sam­eiginlegur en hefur þó ekki gert reka að því að sýna fram á að svo hafi háttað til í tilviki sóknaraðila og eiginmanns hennar. Raunar styðja gögn málsins hið gagnstæða þar sem m.a. kemur fram í áðurnefndum kaupmála þeirra frá árinu 2013 að þau hafi sam­eiginlegan fjárhag. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að framkvæmd greiðslu­mats hafi verið slík forsenda af hálfu sóknaraðila að slíkt geti haft áhrif á mat á skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936.

Þegar ofangreint er virt heildstætt verður að áliti dómsins ekki talið ósann­gjarnt af hálfu varnaraðila eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig samþykki sóknaraðila á því að veita veðleyfi í þáverandi eignarhluta sínum í Jóruseli samkvæmt fyrrnefndu tryggingarbréfi en eins og áður er fram komið er sóknaraðili nú ein eigandi eignarinnar. Eins og hér þykir standa á er því óhjákvæmilegt að hafna kröfum sóknaraðila í málinu um að ábyrgðarskuldbinding hennar verði talin ógild með þeim afleiðingum að fjárnám í eign hennar verði fellt úr gildi.

Að síðustu tekur dómurinn fram að sóknaraðila er ekki hald í því að krafa varn­araðila sé fyrnd hvernig sem á málið er litið og hvort sem horft er til eldri laga nr. 14/1905 eða núgildandi laga nr. 150/2007. Er sjónarmiðum sóknaraðila hvað þetta varðar hafnað og einnig sjónarmiðum er lúta að tómlæti varnaraðila.

Þá verður ekki fallist á varakröfu sóknaraðila enda hefur hún lítt verið rökstutt og engin efni til að taka hana til greina.

Með vísan til alls framangreinds er hafnað kröfu sóknaraðila um ógildingu að­farar­gerðar nr. 2016-022151 sem fram fór 3. október 2016.

Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 á varnar­aðili rétt á málskostnaði úr hendi sóknaraðila, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989, sem þykir með hliðsjón af umfangi málsins hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 28. febrúar sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Staðfest er aðfarargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í máli nr. 2016-022151 sem fram fór 3. október 2016 í fasteign sóknaraðila að Jóruseli 4 í Reykjavík, fasta­númer 205-7399.

Sóknaraðili, Linda Stefanía De L‘Etoile, greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 400.000 krónur í málskostnað.