Hæstiréttur íslands

Mál nr. 736/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. október 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. nóvember 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2016.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að kærða, X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 4. nóvember nk. kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að hún hafi nú til rannsóknar mál er varði innflutning á fíkniefnum hingað til lands frá [...].

Upphaf málsins megi rekja til þess að tilkynning hafi borist frá tollvörðum hjá Íslandspósti, Stórhöfða um að þar hafi borist póstsending frá [...]. Viðtakandi póstsendingarinnar sé skráður A, [...]. Póstsendingin hafi innihaldið fatnað ásamt 2 plasteiningum af vaxhandsápum sem hafi innihaldið 6 handsápur hvor, samtals 12 stykki. Handsápurnar hafi  hver og ein verið í hvítum kassa og hafi innihaldið efni sem búið var að setja blátt vax yfir. Við rannsókn og prófun tæknideildar hafa ofangreind efni greinst sem metamfetamín og sé heildarmagn þeirra samkvæmt mælingu 983,47 grömm.

Kærði kvaðst ekki vita hvað pakkinn hefði innihaldið. Þetta hafi verið pakki sem aðili hafi beðið sig um að taka við en hann hafi ekki vitað innihald hans. Um gjöf hafi verið að ræða. Kvaðst hann hafa kynnst viðkomandi á facebook og heitir B sem búi í [...] en hann vissi ekki hvers lenskur hann er. X kvaðst ekki þekkja B vel og ekki treysta honum vel og því ekki viljað nota eigin heimilsfang. Hafi hann fengið A til aðstoðar.

Við yfirheyrslu yfir A hafi hann sagt kærða hafa beðið sig, fyrir um 1-2 vikum síðan, að sækja fyrir sig pakka sem væri væntanlegur til landsins þar sem hann kæmist ekki sjálfur. A mun síðan hafa fengið tilkynningu um sending frá útlöndum frá Póstinum í fyrradag og um kvöldið hafi kærði komið á heimili A og farið inná vefsíðu póstsins í gegnum síma A og afgreitt beiðni um að fá póstsendinguna í pósthúsið í [...]. A hafi síðan farið í gær og sótt pakkann og farið með hann á heimili C, hvar þeir tóku upp pakkann í geymslu í kjallara hússins uns Lögreglan bar að garði og handtók þá.

Rannsókn málsins sé enn á frumstigi. Mikilvægt sé að sakborningum gefist ekki kostur á að samræma framburði sína. Lagt hafi verið hald á talsvert af tölvu- og símbúnaði sem ekki hafi gefist kostur á að rannsaka og eftir atvikum bera niðurstöður rannsóknar undir hlutaðeigandi. Framburður sakborninga sé misvísandi og í mörgum atriðum ótrúverðugur. Lögreglu hafi ekki gefist ráðrúm til þess að staðreyna framburð hvers og eins sakbornings. Þá eigi enn eftir að rannsaka hverjir tengist málinu í [...]. Allir sakborningar málsins eiga sér sögu hjá lögreglu vegna fíkniefnabrota m.a. ræktunar og innflutnings. Að mati lögreglu megi ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að tala við samverkamenn sína. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna til að koma í veg fyrir að kærði geti spillt rannsókn málsins.

 Sakarefni málsins sé talið varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940, en brot gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi allt að 12 árum ef sök sannast. Að mati lögreglu sé framkominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem getur varðað fangelsisrefsingu. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur er vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Niðurstaða:

Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á byrjunarstigi.

Af því sem fram hefur komið fyrir dómi þykir ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan frekari rannsókn fer fram. Ætla má að kærði muni reyna að torvelda rannsókn málsins gangi hann laus, svo sem með því að hafa áhrif á meðkærðu, sem rannsókn beinist að, eða aðra. Skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fullnægt svo fallast megi á kröfu lögreglustjórans um að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Eins og máli þessu er háttað koma önnur úrræði ekki í stað gæsluvarðhaldsins. Ekki þykir tilefni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.

Þá hefur sækjandi fært að því fullnægjandi rök, sbr. og skilyrði b. liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 að nauðsynlegt sé að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi standi.

Verður, að öllu framangreindu virtu, krafan tekin til greina eins og í úrskurðar­orði greinir.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 4. nóvember nk. kl. 16:00. Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.