Hæstiréttur íslands

Mál nr. 70/2005


Lykilorð

  • Laun
  • Uppgjör


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. september 2005.

Nr. 70/2005.

Hjalti Jósefsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Norðan heiða ehf.

(Benedikt Ólafsson hdl.)

 

Laun. Uppgjör.

H var sagt upp störfum hjá N og krafðist hann launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti frá 1. maí 2004. Fyrir lá að H sinnti ekki störfum hjá N í uppsagnarfrestinum og var ágreiningur aðila bundinn við það, hvort H hafi með því fyrirgert rétti sínum til launa fyrir það tímabil, en H hélt því fram að N hafi hafnað vinnuframlagi hans á uppsagnarfrestinum. Telja varð ósannað að H hafi einhliða hætt störfum fyrir apríllok 2004, líkt og N hélt fram. Þá greindi aðila á um hvað fór fram á fundi þeirra 30. apríl 2004, en voru þó sammála um að niðurstaða fundarins hafi verið sú að H myndi ekki vinna í uppsagnarfrestinum. Eins og atvikum var háttað þótti það hafa staðið N nær að ganga frá því með tryggilegum og sannanlegum hætti, ef hans skilningur var að í niðurstöðu fundarins fælist að greiðsla í uppsagnarfresti félli niður, líkt og N hélt fram í málinu. Það hafði hann ekki gert og varð að bera hallann af því. Var krafa H um laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti frá 1. maí 2004 því tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. febrúar 2005. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.263.282 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. júní 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Bú áfrýjanda var tekið til gjaldþrotaskipta 28. september 2004. Hefur áfrýjandi lagt fram yfirlýsingu skiptastjóra í þrotabúinu þar sem kemur fram að hvorki þrotabúið né lánardrottnar muni taka við aðild að málinu samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Áfrýjandi rekur því málið samkvæmt 2. mgr. 130. gr. sömu laga.

I.

Áfrýjandi réði sig til starfa hjá stefnda 1. desember 2003 og starfaði fyrst og fremst að sölu og markaðsmálum. Stefndi mun hafa tekið við rekstri Kjötsölu Íslands, sem áður mun hafa tekið við rekstri Ferskra afurða ehf., og mun áfrýjandi hafa starfað hjá báðum þeim félögum. Með bréfi 31. mars 2004, sem áfrýjandi móttók samdægurs, var honum sagt upp störfum frá þeim degi vegna endurskipulagningar á rekstri félagsins. Uppsagnarfrestur var jafnframt tilgreindur einn mánuður. Öðrum starfsmönnum stefnda mun einnig hafa verið sagt upp á sama tíma og reis ágreiningur um hvort uppsagnirnar væru í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga um hópuppsagnir. Með bréfi 2. apríl 2004 til stéttarfélagsins Samstöðu var gildistíma uppsagnanna frestað og skyldu þær gilda frá 1. maí 2004. Er ágreiningslaust að þessi frestun hafi tekið til áfrýjanda og að hin skriflega uppsögn hans hafi samkvæmt því gilt frá 1. maí. Í máli þessu krefst áfrýjandi launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti frá þeim tíma. Hvorki er í málinu  ágreiningur um að hann hafi átt rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti né um tölulega kröfugerð hans. Þá liggur fyrir að áfrýjandi sinnti ekki störfum hjá stefnda í uppsagnarfrestinum. Heldur stefndi því fram að áfrýjandi hafi með því fyrirgert rétti sínum til launa fyrir það tímabil en áfrýjandi heldur því fram að ástæða þess hafi verið sú að stefndi hafi hafnað vinnuframlagi hans. Er ágreiningur aðila bundinn við þetta eina atriði.

II.

Stefndi heldur því fram að áfrýjandi hafi einhliða hætt störfum þegar í aprílmánuði 2004. Hafi síðasti starfsdagur áfrýjanda verið miðvikudaginn 7. apríl, daginn fyrir skírdag, og að hann hafi ekki komið til starfa eftir páska. Vísar hann í þeim efnum til aðilaskýrslu Valgerðar Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóra og stjórnarformanns stefnda, fyrir héraðsdómi og skýrslu tveggja vitna, þeirra Arndísar Helenu Sölvadóttur og Sigríðar Þóru Þorsteinsdóttur, er störfuðu hjá stefnda á þessum tíma. Eru skýrslur vitnanna ekki afdráttarlausar um að áfrýjandi hafi ekki verið við vinnu eftir páska. Þá bar þriðji starfsmaður stefnda, Hannes Þ. Pétursson, að sér vitanlega hafi áfrýjandi verið við störf til 30. apríl. Verður samkvæmt því að telja ósannað að áfrýjandi hafi einhliða hætt störfum fyrir apríllok 2004.

Eins og rakið er í héraðsdómi áttu áfrýjandi og Valgerður Kristjánsdóttir fund 30. apríl 2004. Greinir þau á um hvað fram fór á þeim fundi. Heldur áfrýjandi því fram að Valgerður hafi óskað eftir að hann léti strax af störfum hjá stefnda og ynni ekki í uppsagnarfresti. Valgerður bar hins vegar að áfrýjandi hafi sjálfur sagst „ekki vilja vera fyrir“ og viljað hætta störfum og hún sagt að „hann mætti alveg ráða því.“ Hún sagðist hafa boðið áfrýjanda annað starf hjá Kaupfélagi Vestur Húnvetninga, þar sem hún mun einnig hafa verið framkvæmdastjóri, en honum ekki hugnast það boð. Er framburður hennar um efni fundarins ekki með öllu glöggur. Hvað sem þessu líður eru þau sammála um að niðurstaða fundarins hafi verið sú að áfrýjandi myndi ekki vinna í uppsagnarfrestinum, en ekki verður séð af skýrslum aðila fyrir héraðsdómi að greiðsla launa í uppsagnarfesti hafi komið þar til umræðu. Þegar litið er til framanritaðs verður að telja að það hafi staðið stefnda nær að ganga frá því með tryggilegum og sannanlegum hætti ef hans skilningur var að í niðurstöðu fundarins fælist að greiðsla launa áfrýjanda í uppsagnarfresti félli niður. Það gerði hann ekki og verður hann að bera hallann af því. Samkvæmt þessu verður krafa áfrýjanda tekin til greina og stefndi dæmdur til að greiða honum 1.263.282 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Norðan heiða ehf., greiði áfrýjanda, Hjalta Jósefssyni, 1.263.282 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. júní 2004 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 19. janúar 2005.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms 16. desember sl., er höfðað af Hjalta Jósefssyni, Melvegi 5, Hvammstanga, 30. júní sl. á hendur Norðan heiða ehf. Strandgötu 1, Hvammstanga.

Dómkröfur stefnanda.

Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.263.282 krónur með hæstu lögleyfðu dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. júní 2004 til greiðsludags. Jafnframt gerir stefnandi kröfu um málskostnað úr hendi stefnda og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Dómkröfur stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

II

Málavextir

Stefnandi er félagi í Verkstjórnarsambandi Íslands og hefur starfað í kjötvinnslu og við sölu á kjötafurðum frá árinu 1993. Hann hóf störf hjá stefnda um áramótin 2003-2004. Áður hafði hann starfað hjá Kjötsölu Íslands sem yfirtók rekstur Ferskra afurða ehf. 1. september 2003 en hjá Ferskum afurðum ehf. hafði stefnandi starfað í 4 ár. 

Þann 31. mars sl. barst stefnanda, líkt og öðrum starfsmönnum stefnda, uppsagnarbréf undirritað af Valgerði Kristjánsdóttur fyrir hönd Kaupfélags Vestur Húnvetninga. Í uppsagnarbréfinu sem stefnandi áritaði um móttöku segir að ástæða uppsagnarinnar sé endurskipulagning á rekstri félagsins. Einnig segir að uppsögnin taki gildi sama dag og að uppsagnarfrestur sé einn mánuður. Þar sem hér var um hópuppsagnir starfsfólks stefnda að ræða í skilningi kjarasamninga átti að fara fram ákveðið samráðsferli við verkalýðsfélagið. Þar sem samráð átti sér ekki stað frestuðust uppsagnirnar um einn mánuð af þeim sökum.

Aðilar eru ekki sammála um hvenær stefnandi hætti störfum hjá stefnda. Sjálfur heldur stefnandi því fram að hann hafi unnið eins og hann var vanur út aprílmánuð 2004 og að auki einn dag í maí en af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi einvörðungu unnið allra fyrstu daga aprílmánaðar. Af framburði aðila og vitna verður ráðið að starf stefnanda útheimti að hann væri mikið á höfuðborgarsvæðinu. Vitni sem komu fyrir dóminn treystu sér ekki til að segja til um hvort stefnandi var við vinnu í apríl eða ekki. Þó kom fram hjá vitninu Hannesi Péturssyni að stefnandi hafi unnið aprílmánuð eins og hann var vanur. Valgerður Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri stefnda kvað ekki fastar að orði en svo að hún vissi ekki til þess að stefnandi hafi mætt til vinnu eftir páska 2004. Vitnið Sigríður Þóra Þorsteinsdóttir sem var undirmaður stefnanda á þessum tíma og tók síðar við starfi hans mundi ekki hvenær það var sem hún gekk í hans störf en taldi það hafa verið eftir páska 2004. Hún kvaðst hins vegar hafa frá og með 1. júní sl. hafa fengið aðstoðarmann vegna þess að hún sinnti nú þeim störfum sem stefnandi gegndi áður.

Að morgni 30. apríl 2004 hittust stefnandi og Valgerður Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri stefnda á heimili stefnanda. Þau eru ekki sammála um hvað þeim fór á milli á fundinum eins og síðar verður rakið. Eftir hádegi þennan dag hélt Valgerður fund með öðrum starfsmönnum stefnda þar sem hún dró uppsagnir þeirra til baka. Jafnframt kom fram á þeim fundi að stefnandi myndi ekki halda áfram störfum fyrir félagið.

Í málinu krefur stefnandi stefnda um laun í þrjá mánuði, júní, júlí og ágúst 2004, að viðbættu orlofi, orlofsuppbót og mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð, samtals 1.263.282 krónur.

III

Málsástæður og lagarök.

                Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann eigi rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti. Hann hafi starfað hjá stefnda sem launþegi og stefnda beri að greiða honum laun að meðtöldum launatengdum gjöldum í samræmi við kjarasamninga í umsömdum uppsagnarfresti sem hafi verið júní, júlí og ágúst 2004.  Kröfu um greiðslu launatengdra gjalda styður stefnandi við grunnreglur vinnuréttar og samning Verkstjórasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem og grundvallarreglum laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 og 7. gr. laga nr. 80/1938.

                Stefnandi heldur því fram að uppsagnarbréf sem honum barst 31. mars 2004 hafi verið undirritað af Valgerði Kristjánsdóttur fh. Kaupfélags Vestur Húnvetninga en ekki stefnda og þar af leiðandi ekki lögmæt uppsögn. Þá byggir stefnandi á því að hópuppsagnir sem viðhafðar voru gagnvart starfsfólki stefnda, stefnanda þar með töldum, brjóti í bága við meginreglur vinnuréttar og kjarasamninga þar sem ekki hafi verið farið eftir lögboðnu ferli. Af þessu leiði að uppsögn stefnanda hafi í fyrsta lagi tekið gildi 1. maí 2004.

                Varðandi kröfu um orlof vísar stefnandi til greinar 2.1 í samningi Verkstjóra-sambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins og byggir á því að hann hafi starfað í meira en 3 ár hjá fyrirrennara stefnda og sá orlofsréttur hafi fluttst með honum er hann hóf störf fyrir stefnda. Varðandi uppsagnarfrest vísar stefnandi til kafla 10.1 í nefndum samningi. Þá byggir stefnandi á því að ef hann hafi á einhverjum tíma samið um verri kjör en fram koma í nefndum samningi sé slíkt samkomulag ógilt með vísan til grunnreglu vinnuréttar.

                Stefnandi kveðst sjálfur greiða skatt af launum sínum og telur öruggara að innheimta kröfu sína með skatti til að koma í veg fyrir að hann verði tvíkrafinn um skatt. Þá byggir stefndi á því að stefnanda beri að greiða mótframlaga atvinnurekanda í lífeyrissjóð og kveður hann þá fjárhæð innifalda í kröfugerð sinni. Stefnandi telur að það gildi einu hvort hann eigi aðild að félögum þeim sem standa að samningum vinnumarkaðarins á vinnusvæði Austur-Húnavatnssýslu.

                Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til meginreglu vinnuréttar um greiðslu launa fyrir vinnu, meginreglu samningaréttar um skyldu samningsaðila til að efna samninga og reglna kröfuréttarins. Þá styður stefnandi kröfu sína við lög nr. 55/1980, lög nr. 19/1979, lög nr. 80/1938 og lög nr. 30/1987. Einnig vísar hann til kjarasamnings milli Samtaka atvinnulífsins og Verkstjórasambands Íslands.

                Málsástæður og lagarök stefnda.

                Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi sjálfur tekið við uppsagnarbréfi 31. mars 2004 og hann hafi lítið komið til vinnu eftir það. Stefndi kveður stefnanda hafa verið vinnslu- og sölustjóra hjá stefnda. Hann hafi lofað að senda svokölluð ,,páskalömb”, nýslátrað og ferskt kjöt, í verslanir viðskiptavina stefnda fyrir páska 2004 en þá hafi Pálmasunnudagur verið 4. apríl. Stefnandi hafi átt að sjá um að taka á móti þessum nýslátruðu lömbum úr sláturhúsi og koma þeim til viðskiptavina fyrir páska. Stefndi segir stefnanda ekki hafa gert þetta og honum virðist sem það hafi verið af ásetningi. Af þessum sökum hafi kjötið verið sett í frysti til að forða því frá skemmdum og þetta hafi valdið stefnda verulegu tjóni. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi ekkert mætt til vinnu eftir páska 2004 en þrátt fyrir það hafi honum verið greidd laun ásamt orlofi  fyrir aprílmánuð 2004.

                Stefndi heldur því fram að hann hafi þegar greitt stefnanda laun umfram það sem honum bar. Ein af meginreglum vinnuréttar sé sú að launþega beri að leggja fram vinnu til að öðlast rétt til launa. Þetta eigi einnig við um vinnu í uppsagnarfresti. Stefnandi hafi ekki gert það og því beri stefnda engin skylda til að greiða stefnanda laun umfram það sem þegar hefur verið gert.

                Hvað lagarök varðar vísar stefndi til almennra reglna vinnuréttarins, jafnt lögfestra sem ólögfestra. Hvað varðar kröfu um málskostnað er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Niðurstaða

                Í máli þessu er ekki tölulegur ágreiningur með aðilum en þeir deila um rétt stefnanda til launa í uppsagnarfresti, upphaf frestsins og hversu langur uppsagnar-fresturinn átti að vera.

Óumdeilt er að stefnandi tók líkt og aðrir starfsmenn stefnda við uppsagnar-bréfi 31. mars 2004 og miðaðist uppsögnin við 1. apríl 2004. Uppsagnarfrestur samkvæmt bréfinu var einn mánuður. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til annars en að uppsögn stefnanda hafi frestast um einn mánuð líkt og hjá öðrum starfsmönnum stefnda. Verður því við það miðað að uppsagnarfrestur stefnanda hafi byrjað að líða 1. maí 2004.

Stefnandi bar fyrir dóminum að á áðurnefndum fundi hans og Valgerðar Kristjánsdóttur að morgni 30. apríl hafi Valgerður óskað eftir því að hann ynni ekki meira fyrir félagið. Valgerður bar aftur á móti að hún hafi ekki óskað eftir því við stefnanda að hann léti strax af störfum en hann hafi sagt ,,að hann vildi ekki vera fyrir”. Hún kvað stefnanda ekki hafa óskað eftir að fá að hætta strax og raunar hafi hún boðið honum vinnu hjá Kaupfélagi Vestur Húnvetninga án þess að tilgreina það nánar. Ekki eru aðrir til frásagnar um það sem þeim fór á milli á fundinum. Hólmfríður Bjarnadóttir starfsmaður Stéttarfélagsins Samstöðu á Hvammstanga sótti fund Valgerðar með öðrum starfsmönnum stefnda eftir hádegið 30. apríl. Hún bar að Valgerður hefði þá upplýst að stefnandi myndi hætta þennan dag. Aðspurð kvaðst hún ekki geta sagt til um hvort stefnandi hætti eða hvort hann var látinn hætta. Þó taldi hún sig hafa traustar heimildir fyrir því að stefnandi hefði ekki óskað eftir að láta af störfum.

Stefnandi á ekki rétt til launa í uppsagnarfresti hafi hann að ástæðulausu hætt að sækja vinnu sína. Hafi stefndi aftur á móti ekki óskað eftir vinnuframlagi stefnanda bar honum að greiða stefnanda laun á meðan uppsagnarfrestur var að líða. Stefnandi ber sönnunarbyrgði fyrir þeirri staðhæfingu sinni að stefndi hafi afþakkað vinnuframlag hans á fundi hans og Valgerðar að morgni 30. apríl eins og hann heldur fram. Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn máli sínu til stuðnings sem bent geta til þess að sú hafi verið raunin. Gegn andmælum stefnda telst ósannað að stefndi hafi gert stefnanda að hætta störfum fyrirvaralaust þann 30. apríl sl. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu enda hefur hann að fullu fengið greitt fyrir apríl 2004.

Með hliðsjón af málavöxtum öllum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Af hálfu stefnanda flutti málið Steingrímur Þormóðsson hrl. en af hálfu stefnda Benedikt Ólafsson hdl.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist lítillega vegna anna dómarans. Lögmenn aðila hafa lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á endurflutningi málsins.

DÓMSORÐ

Stefndi, Norðan heiða ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Hjalta Jósefssonar.

Málskostnaður fellur niður.