Hæstiréttur íslands

Mál nr. 67/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 25

 

Mánudaginn 25. febrúar 2008.

Nr. 67/2008.

Ólafur Magnússon

(Magnús Björn Brynjólfsson hdl.)

gegn

Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um frávísun kröfu um úrlausn nánar tilgreinds ágreinings við nauðungarsölu þar sem Ó  hafði hvorki gætt þess að lýsa því við gerðina að hann leitaði úrlausnar héraðsdóms um ágreininginn, né látið bóka um það hvaða kröfur hann hygðist hafa uppi fyrir dóminum, eins og áskilið er í  2. mgr., sbr. 3. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. janúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. janúar 2008, þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að uppboðsbeiðni varnaraðila 2. maí 2007 á hendur sóknaraðila skyldi ekki ná fram að ganga. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst aðallega frávísunar málsins frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Hann krefst og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili reisir aðalkröfu sína um frávísun málsins frá Hæstarétti á því að þeir hagsmunir sem deilt sé um í málinu nái ekki áfrýjunarfjárhæð.

Úrskurði um frávísun máls má kæra til Hæstaréttar án tillits til verðmætis þeirra hagsmuna sem um er deilt, sbr. j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður frávísunarkröfu varnaraðila því hafnað.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Ólafur Magnússon, greiði varnaraðila, Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. janúar 2008.

 

I.

Málið barst dóminum 30. ágúst sl. og var þingfest 19. september sl. Það var tekið til úrskurðar um formhlið málsins 14. desember sl. að loknum munnlegum málflutningi.

Sóknaraðili er Ólafur Magnússon, kt. 010936-3499, Bræðratungu 13, Kópavogi.

Varnaraðili er Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, kt. 450181-0489, Skúlagötu 17, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að uppboðsbeiðni dagsett 2. maí 2007 í nafni varnaraðila á hendur sóknaraðila nái ekki fram að ganga. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að staðfest verði kærð ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi um framgang nauðungarsölu á fasteigninni nr. 50A við Vatnsendablett í Kópavogi og að honum verði úrskurðaður málskostnaður að viðbættum virðisaukaskatti.

Við upphaf aðalmeðferðar var á það bent af hálfu varnaraðila að skilyrði 2. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991 væru ekki fyrir hendi til að taka mætti kröfu sóknaraðila fyrir. Þessu var mótmælt af hálfu sóknaraðila og vísað til bókunar hans við fyrirtöku uppboðsmálsins hjá sýslumanni 9. ágúst s.l. um andmæli hans sem gerðarþola og á því byggt að bókunin hafi falið í sér yfirlýsingu um málskot til héraðsdóms með samþykki gerðarbeiðanda, varnaraðila í máli þessu. Af hálfu varnaraðila var því mótmælt að sóknaraðili hafi við fyrirtöku hjá sýslumanni lýst því yfir að hann ætlaði að leita úrlausnar héraðsdómara og þá var því einnig mótmælt að varnaraðili hefði við fyrirtökuna gefið samþykki sitt fyrir málskoti sóknaraðila. Var málið flutt af hálfu aðila um þetta atriði og tekið til úrskurðar að því leyti.

II.

Við fyrirtöku nauðungarsölumáls nr. 110/2007 á eigninni Vatnsendabletti 50A í Kópavogi, sem fram fór 9. ágúst 2007, var sótt þing af hálfu beggja aðila, þ.e. sóknaraðila sem gerðarþola en varnaraðila sem gerðarbeiðanda. Lét sóknaraðili þá bóka eftir sér að hann vísaði í andmæli sín í bréfi sem barst sýslumanni 28. júní 2007. Í bréfinu mótmælti sóknaraðili framkomnum nauðungarsölubeiðnum varnaraðila sem ólögmætum og órökstuddum og krafðist þess að sýslumaður vísaði beiðnunum frá embættinu. Við fyrirtökuna 9. ágúst sl. voru enn fremur bókuð mótmæli sóknaraðila gegn því að byggt væri á ljósriti fjárnáms en ekki frumriti. Fulltrúi sýslumanns hafnaði mótmælum sóknaraðila gegn framgangi gerðarinnar með vísan til 25. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Er loks bókað að eftir kröfu varnaraðila hafi verið ákveðið að byrja uppboð á áðurnefndri eign á skrifstofu sýslumanns 20. september 2007 kl. 10:00.

Með bréfi dagsettu 28. ágúst sl. skaut sóknaraðili málinu til Héraðsdóms Reykjaness og krafðist þess að uppboðsbeiðni dagsett 2. maí 2007 í nafni varnaraðila á hendur sóknaraðila næði ekki fram að ganga eins og áður er rakið.

III.

Samkvæmt 2. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991 skal sá, sem vill leita úrlausnar héraðsdómara um ágreining, sem rís við nauðungarsölu, lýsa því yfir við fyrirtöku sýslumanns á nauðungarsölunni, þar sem sú ákvörðun kemur fram, sem leita á úrlausnar um. Hafi hlutaðeigandi ekki verið staddur við fyrirtökuna og ekki mátt fá boðun til hennar eða haft lögmæt forföll eða ákvörðunin kom ekki fram við fyrirtökuna, má hann þó koma yfirlýsingu sinni bréflega fram við sýslumann innan viku frá því honum varð kunnugt um ákvörðunina. Er ljóst að sú aðstaða er ekki fyrir hendi í máli þessu.

 

Fyrir liggur að við fyrirtöku umrædds nauðungarsölumáls hjá sýslumanni var ekki bókað sérstaklega um yfirlýsingu sóknaraðila um málskot og því var heldur ekki fært til bókar hvaða kröfur hann myndi gera fyrir dóminum, sbr. ákvæði 3. mgr. 73. gr. laganna. Þau mótmæli, sem bókuð voru eftir sóknaraðila við fyrirtökuna og lýst er hér að framan, verða ekki talin jafngilda yfirlýsingu um að hann hygðist leita úrlausnar héraðsdómara. Þá bendir ekkert til þess að varnaraðili hafi gefið samþykki sitt fyrir málskoti sóknaraðila en sóknaraðili hefur um þetta atriði vísað til ákvæða 4. mgr. 22. gr. laganna. Þessu hefur varnaraðili mótmælt sérstaklega hér fyrir dóminum. Að þessu virtu eru ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991 til að sóknaraðili geti borið ágreining aðila undir dóminn. Er málinu því vísað frá dómi.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 120.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Máli þessu er vísað frá dómi.

Sóknaraðili, Ólafur Magnússon, greiði varnaraðila, Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda, 120.000 krónur í málskostnað.