Hæstiréttur íslands
Mál nr. 211/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Matsgerð
|
|
Miðvikudaginn 2. apríl 2014. |
|
Nr. 211/2014.
|
Glitnir hf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Guðnýju Sigurðardóttur (enginn) Jóni Ásgeiri Jóhannessyni (Gestur Jónsson hrl.) Lárusi Welding (Reimar Pétursson hrl.) Magnúsi Arnari Arngrímssyni (Helgi Birgisson hrl.) Pálma Haraldssyni og (Gísli Guðni Hall hrl. Rósant Má Torfasyni (enginn) |
Kærumál. Matsgerð.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu G hf. um að yfirmatsmönnum yrði gert að endurskoða matsgerð sína.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að yfirmatsmönnum yrði gert að endurskoða matsgerð sína. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir yfirmatsmennina að þeir endurskoði matsgerð og „svari matsspurningunni með fullnægjandi hætti.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilarnir Jón Ásgeir Jóhannesson, Lárus Welding, Magnús Arnar Arngrímsson og Pálmi Haraldsson krefjast hver fyrir sitt leyti staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, en aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða þeim varnaraðilum, sem hafa látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti, kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en að öðru leyti fellur kærumálskostnaður niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Glitnir hf., greiði varnaraðilunum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Lárusi Welding, Magnúsi Arnari Arngrímssyni og Pálma Haraldssyni hverjum fyrir sig 75.000 krónur í kærumálskostnað, en að öðru leyti fellur hann niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2014.
Ágreiningur málsins var tekinn til úrskurðar hinn 25. febrúar sl., og varðar yfirmatsgerð dags. 16. október 2013.
Stefnandi krefst þess að lagt verði fyrir yfirmatsmennina, Bjarka Andrew Brynjarsson, Erlend Davíðsson og Smára Rúnar Þorvaldsson að þeir endurskoði yfirmatsgerð sína, dags. 16. október 2013 og svari matsspurningunni með fullnægjandi hætti. Þá er þess einnig krafist að tekið verði tillit til þessa málflutnings við efnisúrlausn málsins.
Stefndu, Jón Ásgeir Jóhannesson, Lárus Welding, Magnús Arnar Arngrímsson og Pálmi Haraldsson, sem yfirmatsbeiðendur, krefjast þess að fram kominni kröfu stefnanda verði hafnað.
I
Dómsmál þetta er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Glitni banka hf. gegn Guðnýju Sigurðardóttur, Vesturbrún 8, Reykjavík, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, óstaðsettum í hús í Bretlandi, Lárusi Welding, óstaðsettum í hús í Bretlandi, Magnúsi Arngrímssyni, Klettási 6, Garðabæ, Pálma Haraldssyni, óstaðsettum í hús í Bretlandi og Rósant Má Torfasyni, Daltúni 19, Kópavogi, með stefnu birtri 29. mars 2010.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda, sameiginlega (in solidum), skaðabætur að fjárhæð 6.000.000.000 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. júlí 2008 til þingfestingardags en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Allir stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnanda auk málskostnaðar.
II
Í málinu byggir stefnandi á því að stefndu, Lárus, Magnús Arnar, Rósant Már og Guðný hafi í störfum sínum sem yfirmenn og sérfræðingar í Glitni banka hf. brotið gróflega gegn starfsskyldum sínum sem forstjóri, fjármálastjóri, lánastjóri og sem nefndarmenn í áhættunefnd bankans, með því að hafa sammælst um að knýja fram lán að fjárhæð 6.000.000.000 kr. til handa Fons hf. og stefndu, Jóni Ásgeiri og Pálma, persónulega, í gegnum FS38 ehf., að frumkvæmi stefnda, Lárusar og stefndu, Jóns Ásgeirs og Pálma.
Stefnandi telur að þetta hafi verið gert án þess að lánareglum bankans væri fylgt og með fullri vitneskju um að lántakinn væri ógjaldfær og tryggingar fyrir endurgreiðslu lánsins væru ónógar. Því telur stefnandi að veruleg fjártjónshætta hafi verið til staðar fyrir bankann.
Stefndu hafna kröfum og málatilbúnaði stefnanda.
III
Hinn 10. febrúar 2011 var matsbeiðni stefnanda lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þess var óskað að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir og óvilhallir kunnáttumenn til að meta: „Markaðsverðmæti eftirgreindra hlutabréfa sem voru í eigu Fons hf. kt. 700394-3799 í félaginu Aurum Holdings Limited, skráðu í Bretlandi undir númerinu 5074694, þann 9. júlí 2008, þegar lánabeiðni FS38 ehf., kt. 661007-2220 að fjárhæð sex milljarða króna, var samþykkt af tilteknum meðlimum áhættunefndar Glitnis banka hf.
- 195 Al Ordinary Shares
- 890,158 A2 Ordinary Shares
- 11,959,902 C1 Ordinary Shares
- 1,962,985 Deferred Ordinary Shares.“
Til verksins voru dómkvaddir þeir, Bjarni Frímann Karlsson og Gylfi Magnússon. Matsgerð þeirra er frá 23. apríl 2012. Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar kemur fram að matsmenn telja efri mörk mats 25,7% hlutar í Aurum þann 9. júlí 2008 vera 929 milljónir en neðri mörk séu 0. Í lok matsgerðarinnar segir: „Þá er það niðurstaða matsmanna að í ljósi framangreinds sé eðlilegt mat á verðmæti 25,7% hlutar í Aurum m.v. þann 9. júlí 2008 mitt á milli efri og neðri marka matsins og því 464 milljónir króna.“
IV
Hinn 22. júní 2012 var lögð fram í málinu beiðni þeirra, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Lárusar Welding, Magnúsar Arnar Arngrímssonar og Pálma Haraldssonar um yfirmat. Dómkvaddir voru þeir Bjarki Andrew Brynjarsson, Erlendur Davíðsson og Smári Rúnar Þorvaldsson. Yfirmatsgerð þeirra var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 18. nóvember 2013. Í kafla 7.6, Samanteknar niðurstöður, segir: „Það er mat yfirmatsmanna að líklegt verðbil í viðskiptum milli aðila með allt hlutafé félagsins á matsdagsetningu sé GBP 8,4m til 52m. Það samsvarar því að markaðsverðmæti hlutar Fons á matsdagsetningu hafi verið á bilinu ISK 345m til 2.080 m.“ Þarna er miðað við miðgengi Seðlabanka Íslands á matsdagsetningu, 149,42 kr. Síðan segir að ekki sé hægt að útiloka að viðskipti hefðu getað átt sér stað á hærra verði, sér í lagi ef umtalsverðra samlegðaráhrif gætti milli Aurum og kaupandans. Jafnframt sé ekki hægt að útiloka að fjárfestir sem ekki hefði trú á því að stjórnendur Aurum næðu tökum á rekstri félagsins myndi meta eiginfjárvirðið lítið sem ekkert.
V
Þá er yfirmatsgerðin var lögð fram í þinghaldi 18. nóvember sl. lagði stefnandi fram bókun samanber dómskjal nr. 241. Þar kemur fram að í matsbeiðninni hafi þess verið óskað að metið yrði „markaðsverðmæti“ hlutabréfa Fons hf. í Aurum Holding Limited hinn 9. júlí 2008. Niðurstaða yfirmatsmanna í yfirmati hafi verið að markaðsverðmæti hlutar Fons hf. í Aurum Holding Limited, „á markaðsdagsetningu“ hafi verið „á bilinu 345m-2.080m“.
Í bókuninni kemur fram að stefnandi telji að niðurstaða yfirmatsbeiðninnar svari ekki matsspurningunni með þeim hætti sem 1. mgr. 61. gr., sbr. 1. mgr. 63. gr. laga um meðferð einkamála áskilja. Yfirmatsgerðin kveði ekki á um fjárhæð sem yfirmatsmenn telja eftir faglega skoðun á félaginu vera líklegt markaðsverðmæti félagins hinn 9. júlí 2008 eins og um hafi verið beðið og eins og greini í dómkvaðningu matsmanna. Þess í stað láti yfirmatsmenn dómara og málsaðilum eftir að meta markaðsverðmæti hluta Fons hf. innan verðbils sem spannar ríflega 1.700 milljónir króna, samanber þó yfirlýsingar þeirra um að markaðsverðið geti verið frá því að vera „lítið sem ekkert“ upp í að vera „á hærra verði“ en framangreindar fjárhæðir, án þess þó að það sé nægjanlega rökstutt. Stefnandi telji augljóst að slík niðurstaða yfirmats sé afar ónákvæm og svari ekki matsspurningunni. Því sé niðurstaða yfirmatsgerðarinnar ekki í samræmi við dómkvaðningu héraðsdóms, sbr. IX. kafla laga um meðferð einkamála.
Því krefjist stefnandi þess að dómurinn leggi fyrir yfirmatsmenn að meta markaðsverð hlutabréfa Fons í Aurum Holding Limited, eins og greini í matsbeiðni og rökstyðja þá niðurstöðu sína.
VI
Hinn 16. desember 2013 lögðu yfirmatsbeiðendur fram bókun sem dómskjal nr. 242. Þar sé mótmælt kröfu stefnanda um að dómurinn leggi fyrir yfirmatsmenn að meta markaðsverð hlutabréfa Fons í Aurum Holding Limited eins og greinir í matsbeiðni og rökstyðja þá niðurstöðu sína.
Yfirmatsbeiðendur vísa til 66. gr. laga um meðferð einkamála, þar sem fram komi að dómari geti úrskurðað um atriði sem varða framkvæmd matsgerðar, svo sem hvort það hafi verið metið sem skyldi meta samkvæmt dómkvaðningunni eða hvort matsgerð sé nægilega rökstudd, ef ágreiningur rís um kröfu um endurskoðun hennar eða endurmat.
Yfirmatsbeiðendur taka fram að þeir hafi krafist yfirmatsins en stefnandi, þ.e. yfirmatsþoli, eigi ekki kröfu um endurskoðun þess eða endurmat á því enda sé krafa stefnanda ekki þannig orðuð. Yfirmatið hafi verið unnið á kostnað og ábyrgð yfirmatsbeiðenda. Sönnunargildi þess sé því á áhættu yfirmatsbeiðenda.
Yfirmatsbeiðendur taka fram að yfirmatsmenn hafi metið það sem meta skyldi, þ.e. markaðsverð hlutabréfanna. Matið sé rökstutt. Mismunandi tölulegar niðurstöður séu útskýrðar með mismunandi forsendum. Megi ráða að yfirmatsmenn hafi nýtt sér sérfræðiþekkingu sína við framkvæmd matsins. Þá hafi þeir aflað tiltækra gagna í því skyni að framkvæma matið. Því verði að líta svo á, að í matinu komi fram svar við matsspurningu og yfirmatsmenn verði ekki krafðir frekari svars við henni. Til hliðsjónar vísa yfirmatsbeiðendur til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 78/2012.
VII
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála afla aðilar sönnunargagna, ef þeir fara með forræði á sakarefninu. Í IX. kafla laga um meðferð einkamála er kveðið á um matsgerðir. Samkvæmt 1. mgr. 61. gr. sömu laga kveður dómari einn eða tvo matsmenn til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. sömu laga skal matsmaður afhenda matsbeiðanda matsgerðina og á hann rétt á þóknun fyrir starf sitt úr hendi matsbeiðanda, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Samkvæmt 64. gr. sömu laga getur aðili krafist yfirmats þar sem tekin verði til endurmats þau atriði sem áður hafi verið metin. Í 1. mgr. 66. gr. sömu laga segir að dómari leysi úr ágreiningi sem lýtur að dómkvaðningu og hæfi matsmanns og um greiðslur til hans með úrskurði. Dómari geti einnig úrskurðað um atriði sem varða framkvæmd matsgerðar, svo sem hvort það hafi verið metið sem meta skyldi samkvæmt dómkvaðningunni eða hvort matsgerðin sé nægileg rökstudd, ef ágreiningur rís um kröfu um endurskoðun hennar eða endurmat. Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. leggur dómari mat á önnur atriði varðandi matsgerð, þar á meðal sönnunargildi hennar, þegar leyst er að öðru leyti úr máli.
Mál þetta liggur þannig fyrir að fjórir stefndu, þ.e. Jón Ásgeir Jóhannesson, Lárus Welding, Magnús Arnar Arngrímsson og Pálmi Haraldsson, óskuðu yfirmats. Þeir hafa forræði á því. Yfirmatsbeiðendurnir bera sjálfir kostnað af yfirmatsgerðinni og áhættu af því hvort hún komi þeim að notum. Afstaða yfirmatsbeiðenda er sú að ekki séu efni til þess að aðhafast frekar varðandi yfirmatsgerðina. Ekki verður séð að lagaheimild sé fyrir því að yfirmatsþoli geti knúið fram endurskoðun á yfirmatsgerð er yfirmatsbeiðandi aflar á sinn kostnað til stuðnings sínum málstað. Þegar af þessari ástæðu er kröfu stefnanda hafnað. Ekki er gerð krafa um málskostnað í þessu þætti málsins.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu yfirmatsþola, Glitnis hf., um að lagt verði fyrir yfirmatsmennina, Bjarka Andrew Brynjarsson, Erlend Davíðsson og Smára Rúnar Þorvaldsson að þeir endurskoði yfirmatsgerð sína, dags. 16. október 2013 og svari matsspurningunni með fullnægjandi hætti, er hafnað.