Hæstiréttur íslands

Mál nr. 278/2012


Lykilorð

  • Manndráp
  • Einkaréttarkrafa
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


                                     

Fimmtudaginn 29. nóvember 2012.

Nr. 278/2012.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Skarphéðinn Pétursson hrl.

Þórhallur Haukur Þorvaldsson hdl.)

Manndráp. Einkaréttarkrafa. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.

X var sakfelld fyrir að hafa deytt barn sitt undir eins og það var fætt. Var X talin sakhæf, meðal annars að virtum tveimur matsgerðum dómkvaddra manna, en hún var á hinn bóginn talin hafa verið í veikluðu eða rugluðu hugarástandi er atvik málsins gerðust. Brot X var talið varða við 212. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og var refsing hennar ákveðin fangelsi í þrjú ár. Hæstiréttur vísaði einkaréttarkröfu A, barnsföður X, frá héraðsdómi þar sem krafan fullnægði ekki áskilnaði 2. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er henni var fyrst komið á framfæri við ákæruvaldið og hún var of seint fram komin er henni var í réttu horfi komið á framfæri við meðferð málsins í héraði, sbr. 1. mgr. 173. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. apríl 2012. Hann krefst þess að ákærða verði sakfelld fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og refsing hennar þyngd.

Ákærða krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, til vara að refsing verði milduð, en að því frágengnu að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hún þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara sýknu af henni.

A hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Er því litið svo á að hann krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína. 

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu, heimfærslu brots hennar til refsiákvæðis og sakarkostnað, en refsing hennar er ákveðin fangelsi í 3 ár.

Í hinum áfrýjaða dómi var ákærðu gert að greiða A 600.000 krónur í miskabætur ásamt nánar tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum. Eftir gögnum málsins var þessari kröfu komið á framfæri við ákæruvaldið meðan á rannsókn málsins stóð með tölvubréfi 27. október 2011, en ákæra var gefin út 31. sama mánaðar. Eins og krafa var sett þar fram fullnægði hún ekki áskilnaði 2. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Kröfunni var öðru sinni komið á framfæri við meðferð málsins fyrir héraðsdómi 28. febrúar 2012 og þá í réttu horfi, en hún var þá of seint fram komin, sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar. Verður kröfunni af þeim sökum vísað frá héraðsdómi.

Ákærða verður dæmd til að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins, þar á meðal af málsvarnarlaunum verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði, en að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.

Dómsorð:

Ákærða, X, sæti fangelsi í 3 ár, en til frádráttar komi gæsluvarðhald, sem hún sætti frá 3. til 7. júlí 2011.

Einkaréttarkröfu A er vísað frá héraðsdómi.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærða greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem er samtals 594.519 krónur að meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda ákærðu, Skarphéðins Péturssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2012.

I

Málið, sem dómtekið var 29. febrúar síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 31. október 2011 á hendur „X, kennitala [...], [...],[...], fyrir manndráp, með því að hafa laugardaginn 2. júlí 2011, á baðherbergi í herbergi nr. [...] á vinnustað ákærðu, [...],[...],[...], eftir að hafa fætt þar fullburða lifandi sveinbarn, veitt drengnum tvo skurðáverka á andlit með bitvopni og banað honum síðan með því að þrengja að hálsi hans uns hann lést af völdum kyrkingar.

Telst þetta aðallega varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við 212. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærða verði dæmd til að greiða honum miskabætur að fjárhæð krónur 3.000.000 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. júlí 2011 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafan er kynnt ákærðu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags auk greiðslu málskostnaðar að mati réttarins.“

Ákærða neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærða krefst þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi.

II

Málavextir eru þeir að framangreindan dag klukkan 16:01 var óskað lögregluaðstoðar að fæðingadeild Landspítalans við Hringbraut. Skömmu áður hafði ákærða verið flutt þangað frá bráðamóttökunni í Fossvogi. Í fyrstu var talið að um fósturlát hefði verið að ræða hjá henni, en síðar kom í ljós að hún hafði fætt fullburða barn og var fylgjan fjarlægð úr legi hennar. Ákærða kannaðist ekki við að hafa fætt barn. Lögreglan hóf þegar eftirgrennslan á vinnustað ákærðu og heimili. Eftir nokkra leit fannst lík af nýfæddu barni í ruslagámi á bak við vinnustað hennar. Hafði líkinu verið pakkað inn í plast og það síðan sett í svartan plastpoka sem settur hafði verið í ruslagáminn.

Í skýrslu lögreglu segir að ljóst hefði verið að barninu hafi verið fyrirkomið og hefði rannsókn hennar beinst að því kanna hvort ákærða hefði verið ein að verki. Í ljós hefði komið að ekki var ástæða til að gruna aðra en hana um verknaðinn. Ákærða var úrskurðuð í gæsluvarðhald til 18. júlí, en Hæstiréttur felldi úrskurðinn úr gildi 7. sama mánaðar. Við yfirheyrslur hjá lögreglu neitaði hún að hafa fætt barn og þar af leiðandi ekki deytt barn.

Við yfirheyrslur yfir vinnufélögum ákærðu kom í ljós að hún hafði verið við vinnu sína umræddan dag en ekki farið í morgunmat á sama tíma og þeir. Þegar hún svo kom til þeirra voru föt hennar blóðug og hún kvartaði yfir vanlíðan. Einn vinnufélaganna hringdi í mann sinn sem síðan hringdi í kærasta ákærðu sem kom að sækja hana ásamt stjúpa sínum. Ákærða vildi þá fara heim, en þeir óku henni á slysadeild.

Í vottorði Heiðrúnar P. Maack, læknis á Landspítalanum, um fyrstu skoðun á ákærðu segir: „Verkjalaus en föl að sjá. Kviður er mjúkur og eymslalaus. Við speculum skoðun sést mar í slímhúð vagina. Vefur sem situr fastur í cervix og líkist í fyrstu fósturleifum en ekki næst að fjarlægja með túffutöng. Óljóst hvað hér sé um að ræða og kalla ég því til Guðlaugu Sverrisdóttur, vakthafandi sérfræðing, sem kemur og skoðar einnig konuna. Legháls virðist vera opinn og jafnvel grunur um fylgjuleifar sem standa fastar. Við sónarskoðun á kvið sést mikið innihald í legi og stækkað leg og því ákveðið að drífa konuna upp á skurðstofu.“

Í vottorði Guðlaugar Sverrisdóttur kvensjúkdómalæknis segir að eitthvað hafi gengið niður af henni, svo sem coagel eða fóstur. „Við fyrstu skoðun niðri á deild leit út eins og hún væri nýbúin að fæða. Töluvert innihald var í legi og fast í leghálsi það sem leit út eins og fylgjuvefur og því ákveðið að taka hana upp á skurðstofu og tæma legið.“ Ákærða var nú svæfð og hafin aðgerð á henni. Togað var í það sem leit út fyrir að vera naflastrengur. Síðan segir: „Leg palperats stækkað mótsvarandi 16-17 vikum. Ég fer upp með höndina og finn upp á fylgju sem er föst efst í leginu og næ að fjarlægja hana. Fylgjan lítur út eins og fullburða og er vigtuð 530 g og því er strax farið að reyna að hafa upp á hvar hugsanlegt barn getur verið til staðar.“ Í framhaldinu var svo haft samband við lögreglu eins og áður getur.

Lík barnsins var krufið og segir í krufningarskýrslunnar að líkið sé af nýfæddum dreng, sem sé fullþroskaður og 50 cm langur og vegi 3068 grömm. Djúpir skurðir séu báðum megin við munninn, allt 3 cm langir með ferskum blæðingum í mjúkvef. Á hálsinum séu margir litlir áverkar á hörundi, nokkurra millimetra langir. Naflastrengur var enn til staðar og ferskur, mældist 33 cm langur. Endinn virtist nokkuð rifinn en einnig séu skýrir endar. Þá segir að merki séu um litlar hringlaga blæðingar á hálsvöðvum. Í niðurstöðum skýrslunnar segir að um sé að ræða fullþroskaðan dreng. Punktblæðingar hafi verið í slímhúðarhimnu augna, ferskar blæðingar í fituvef og vöðvum á hálsi og utanvert á barkakýli. Loftun hafi verið í lungum í öllum hlutum og hann hafi verið með nýburalungnabólgu. Miklir skurðir séu í báðum munnvikum og bráð sýking í fósturhimnu og í rásum naflastrengs. Niðurstaðan er sú að drengurinn hafi látist af völdum kyrkingar. Síðan segir. „Drengurinn hafði svonefnda nýburalungnabólgu vegna bráðrar sýkingar í fylgju móðurinnar. Mögulegt hefði verið að beita sýklalyfjum á þessa sýkingu eftir fæðingu og hefðu batahorfur verið jákvæðar.“

Þá voru sýnishorn úr líkinu, ákærðu og kærasta hennar send til DNA greiningar hjá sænsku réttarlæknisfræðistofnuninni. Niðurstaða hennar var að 99,999% líkur væru á að ákærða og kærasti hennar væru foreldrar barnsins.

Lára Björgvinsdóttir geðlæknir var dómkvödd til að rannsaka geðhagi ákærðu og til að kanna hvort hún væri sakhæf í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga eða hvort ætla megi að refsing geti borið árangur, sbr. 16. gr. sömu laga. Í greinargerð Láru kemur fram að þótt ákærða viti að fundist hafi látið sveinbarn, sem lögreglan telji að hún hafi fætt, þá haldi hún fast við að hafa ekki vitað að hún væri ófrísk. Á sama hátt haldi hún fast við að hafa ekki orðið vör við fæðingu og ekkert barn séð. Við skoðun bendi ekkert til þess að ákærða eigi við alvarlega geðræna erfiðleika að stríða. Hún hafi þó haft einkenni þunglyndis og kvíða eftir fæðinguna. Ákærða sé eðlilega greind og ekkert bendi til að vitræn starfsemi sé skert. „Hún heldur fast við þá sögu að hún hafi ekki fundið fyrir fæðingunni né séð barnið, drepið það og komið fyrir í ruslagámi. Í ljósi fyrri sögu má telja að hún hafi orðið mjög hrædd og kvíðin í fæðingunni og framið verknaðinn í mikilli geðshræringu. Mögulegt er að hún muni ekki allt sem gerðist vegna þessa. Þó er mjög ólíklegt að raunverulegt minnistap nái yfir alla atburði fæðingar, dráps og því að koma líki sonar síns fyrir í ruslagámi þar sem vitræn geta er ekki skert.“ Það var niðurstaða Láru að ákærða væri sakhæf. Hún beri engin merki um sturlun, geðrof né rugl og ekkert bendi til þess að hún hafi verið í slíku ástandi þegar meint brot var framið. Þá var það og niðurstaða Láru að framangreind einkenni ákærðu útiloki ekki að refsing komi að gagni.

Eftir þingfestingu málsins voru, að kröfu verjanda ákærðu, þeir Sigurður Páll Pálsson geðlæknir og Brynjar Emilsson sálfræðingur dómkvaddir til að meta hvort ákærða væri sakhæf og eins til að kanna önnur atriði varðandi geðhagi hennar. Þeir ræddu við ákærðu og lögðu fyrir hana próf auk þess að kanna gögn málsins. Í samantekt þeirra segir að hún komi eðlilega fyrir við skoðanir og hafi í dag engin merki um alvarlega geðsjúkdóma. Hún hafi hins vegar merki um sorgareinkenni, þunglyndi og kvíða. „Virðist þó gera lítið úr og afneita fremur vandamálum. Á greindarprófi koma fram vísbendingar um misþroska þar sem verklegir (óyrtir) þættir mælast í lágri meðalgreind. Heildargreind liggur líklegast á stigi lágrar meðalgreindar eða meðalgreindar. Á sjálfmatsprófum kemur fram þunglyndi og kvíði fyrir framtíðinni en ekki eru vísbendingar um alvarlegan geðsjúkdóm. Ekki koma fram grunsemdir um geðrof. Á prófum koma fram sterkar vísbendingar um að X sé gjörn á að afneita vandamálum fyrir sjálfri sér og fegra hlutina. Ekki koma fram merki um andfélagslega persónuþætti eða siðblindu. X hefur enn í dag ekki eðlilegar minningar um atburð og trúir varla enn því sem hún er ákærð fyrir. X virðist bæla (represse) minningar sínar en þetta er þekkt í svona málum og er yfirleitt ómeðvitað fyrirbrigði, ekki tengt blekkingum eða því að viðkomandi reyni að villa um fyrir rannsakendum. X virðist aldrei hafa ímyndað sér, haldið eða vitað að hún væri ófrísk. Virðist ekki hafa neitt hugsað um það alvarlega í aðdraganda atburðar. Málið var því ekki til í hennar huga, ómeðvitað bælt niður.“ Síðar segir að erfitt sé að fullyrða um hugarástand hennar á verknaðarstundu en hugsanlegt sé að við fæðinguna „hafi hún fengið gífurlegt áfall sem hafi hrint af stað tímabundnu hugrofsástandi (dissociative, trans líkt ástand). Þekkt er að konur geti deytt nýfædd börn sín í slíku ástandi t.d. ef þær heyra í þeim.“ Erfitt sé hins vegar að meta hvort þetta sé gert með vilja eður ei. Þá verði að líta til þess að ákærða virðist hafa sett líkið í plastpoka sem sé frekar flókin athöfn og gæti bent til þess að hún hafi þá verið komin úr hugrofsástandinu. Hún hafi þá valið að fela líkið og blekkja þar með umhverfið. Líklegast í mikilli geðshræringu og skömm. Matsmennirnir taka þó fram að fólk geti gert flókna hluti í mikilli geðshræringu, hugrofi.

Fyrir matsmennina voru lagðar 5 spurningar og verða þær nú raktar og svör þeirra:

„1. Var ákærða, sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands ófær um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem hún á að hafa framið þann verknað sem henni er gefið að sök, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940?

Svar: Erfitt er að fullyrða um slíkt en alls ekki hægt að útiloka skammvinnt hugrofsástand á verknaðarstundu vegna mikillar geðshræringar samtvinnað við líkamlega veiklun, þreytu, verki, líkamlegt og andlegt álag sem fylgir svona óvæntri fæðingu ein síns liðs án nokkurrar hjálpar. Ljóst er hins vegar að strax við fyrstu geðskoðun stuttu eftir atburð var ekki um slíkt að ræða. Né heldur voru merki um slíkt við okkar geðrannsókn. Engin saga er um geðrofseinkenni eða alvarlegan geðrofssjúkdóm og koma ekki fram alvarleg geðræn einkenni við skoðun matsmanna. Í dag koma fram þunglyndiseinkenni og kvíði en þau einkenni komu fram eftir atburð. Á greindarprófi komu fram vísbendingar um vægan misþroska en heildargreind er líklegast innan meðallags og því ekki um þroskaskerðingu að ræða.

2. Verði ákærða fundin sek um að hafa framið þann verknað sem hún er ákærð fyrir, myndi geð- og sálræn meðferð bera frekari árangur en refsing, sbr. 16. gr. sömu laga?

Svar: Matsmenn telja að ástand það sem X var í á verknaðarstundu falli betur undir 16. greinina. X hefur mikla skömm og sektarkennd yfir þessum atburði. Hún trúir þessu varla enn, hún er í mikilli þörf fyrir að vinna úr þessu áfalli. Ljóst er að hún myndi þola fangelsisvist en ekki er hægt að sjá beinan tilgang þess eða sanngirni út frá eðli máls. Hafa ber í huga að X var sjálf í lífshættu við atburðinn. Refsing samtvinnuð skyldu til sálfræðimeðferðar virðist skynsamlegust hér.

3. Ákærða hefur frá upphafi sagt að hún hafi ekki vitað að hún væri með barni. Þekkist það innan læknavísindanna að konur fæði börn án þess að hafa vitað af óléttu sinni og er framburður ákærðu trúverðugur í því ljósi?

Svar: Þekkt er að mæður viti ekki af óléttu sinni og telja matsmenn framburð ákærðu trúverðugan um þetta atriði.

4. Í ljósi framburðar ákærðu um að hún hafi ekki vitað að hún væri með barni, er mögulegt að við óvænta fæðingu hafi hún komist í það hugarástand sem lýst er í 212. gr. almennra hegningarlaga og tekur m.a. til veiklaðs eða ruglaðs hugarástands.

Svar: Já, sbr. einnig svör að ofan. Matsmenn telja að á verknaðarstundu hafi X verið með veiklað hugarástand. X var auk þess með sýkingu, mikla verki og blóðleysi án nokkurrar aðstoðar eða undirbúnings fyrir fæðingu.

5. Ákærða hefur frá upphafi borið fyrir sig að hún muni ekki eftir því að hafa fætt barn eða framið þann verknað sem hún er ákærð fyrir. Fyrir liggur í gögnum málsins að ákærða var með alvarlega meðgöngueitrun þegar hún kom á Landspítalann, en slíkri eitrun fylgir venjulega mjög hækkaður blóðþrýstingur. Er mögulegt, í ljósi þess áfalls að fæða barn sem ákærða vissi ekki að hún gengi með og mikillar meðgöngueitrunar að meðvitund hennar, minni og hugarástand hafi brenglast, ruglast eða veiklast við fæðinguna:

Svar: Já, slíkt er mögulegt. Varðandi hugarástand á verknaðarstund sjá lið nr. 4. Varðandi minnið, þá eru persónuleikavarnir X þannig að líkur eru á að hún í raun og veru muni ekki atburðinn að miklu leyti. Slíkt er kallað bæling og var einnig til staðar hjá X alla meðgönguna. X hefur sterka tilhneigingu til að fegra hlutina og afneita vandamálum eða neikvæðum atburðum í sínu lífi. Samkvæmt X hefur hún ekki upplifað nein áföll og aldrei fundið fyrir kvíða eða depurð. Öll hennar saga er fegruð og ekki í samræmi við t.d. frásögn móður eða það sem eðlilegt verður að teljast í lífi fólks. Neikvæðum atburðum er því afneitað (ómeðvituð bæling) sem getur leitt til að X muni þá ekki. Hún hafi því miklar eyður í raunverulegum minningum um hvað gerðist. Matsmenn merkja ekki að X sé að reyna að blekkja eða villa um fyrir þeim í lýsingum sínum. Svona upplifir hún málið enn í dag.“

III

Við aðalmeðferð ítrekaði ákærða að hún neitaði sök í málinu. Hún kvaðst ekki hafa fætt barn og þar af leiðandi ekki deytt það. Farið var yfir gögn málsins með henni, þar á meðal niðurstöðu DNA rannsóknar. Ákærða kvaðst hafa vitað allan tímann að hún væri ekki ófrísk og engin einkenni fundið um það. Hún var spurð um athafnir sínar kvöldið og nóttina fyrir atburðinn. Hún kvaðst hafa horft á kvikmynd um kvöldið og farið svo að sofa eftir að hafa beðið eftir kærasta sínum, en hann hefði unnið lengur en ráð hafði verið gert fyrir. Þetta hefði verið mjög venjulegt föstudagskvöld. Hún kvaðst hafa vaknað milli klukkan fjögur og fimm um nóttina og þá uppgötvað að kærasti hennar var ekki við hlið hennar. Hún kvaðst því hafa hringt í hann og hann þá sagst þurfa að vinna til klukkan sex. Ákærða kvaðst hafa fundið fyrir verkjum og beðið móður kærastans um lyf og fengið íbúfen. Eftir það hefði hún sofnað og sofið til klukkan sjö er hún hefði vaknað og farið að búa sig til vinnu. Síðan hefði hún verið sótt af vinnufélögum sínum og þær haldið til vinnu. Mikið hafi verið að gera og hefðu þær flýtt sér að þrífa herbergin. Rétt fyrir klukkan tíu hefði samstarfskona hennar sagst ætla niður að útbúa morgunmat, en ákærða kvaðst hafa sagst ætla að verða eftir til að ryksuga gólf og þrífa baðherherbergi í hótelherberginu, sem þær voru að þrífa. Þegar ákærða var um það bil að ljúka verkinu kvaðst hún hafa staðið upp og fundið fyrir miklum svima og fann að eitthvað rann úr henni. Hún kvaðst hafa sest á klósettið og séð að það var blóð sem rann úr henni, en ekkert annað hefði komið frá henni. Hún kvað sér hafa brugðið því þótt hún blæddi mikið venjulega þá hefði það aldrei verið svona mikið. Blæðingin varði í tvær til þrjár mínútur, en þá minnkaði hún. Ákærða kvaðst þá hafa þvegið sér smávegis, farið í buxurnar og farið niður að borða eftir að hún hafði lokið við að þrífa herbergið. Hún kvaðst hafa verið ein í um það bil 10 mínútur. Ákærða neitaði að hafa gengið frá einhverju í ruslapoka. Þegar hún kom í borðstofuna hefðu vinnufélagar hennar spurt hvort eitthvað amaði að henni og kvaðst hún hafa svarað að heilsa sín væri ekki í lagi og hún hefði byrjað að blæða og hefði blætt mjög mikið. Hún kvaðst hafa viljað fara heim og fara með leigubíl, enda hefði hún vitað að kærasti hennar væri sofandi. Einn vinnufélaga hennar hefði hins vegar hringt í mann sinn og beðið hann að koma til að aka henni heim eða á spítala eftir því sem hún vildi. Maðurinn hringdi í kærasta ákærðu, en hann svaraði ekki og hringdi hann þá í stjúpa hans og bað hann að sækja hana. Stjúpinn vakti kærastann og komu þeir að sækja hana og fóru með hana á spítala. Ákærða var spurð hvort hún notaði hnífa við vinnu sína og kvaðst hún nota sljóan hníf til að losa um ristar á baðherbergjum hótelsins.

Ákærða ítrekaði að hún hefði ekki verið ófrísk og hún hefði haft reglulegar blæðingar. Þá kvaðst hún ekki hafa orðið vör við að kviður hennar hefði stækkað. Hún hefði þó þyngst um tvö til þrjú kíló en það væri henni eðlilegt. Hún hefði einnig verið föl og hefði verið minnst á það við hana hvort hún væri ófrísk og hvort hún hefði farið í óléttupróf. Ein samstarfskvenna hennar hefði lagt hönd sína á maga hennar og spurt hvenær hún ætlaði að eiga en hún svarað því til að hún væri ekki ólétt. Hún kvað sér eðlilegt að vera föl, enda væri hún blóðlítil. Spurð um afstöðu fjölskyldu sinnar til barneigna utan hjónabands kvað hún móður sína hafa sagt sér að það væri ekki vandamál og hið sama gilti um fjölskyldu kærasta síns. Þau hefðu gert ráð fyrir að eyða ævinni saman og í þeim áætlunum hefðu verið barneignir. Þá kvaðst hún vera barngóð og hefði glaðst yfir að eignast barn. Ákærða kvað bæði kærasta sinn og móður hans myndu hafa stutt hana ef hún hefði eignast barn. Þá kvað hún sig og kærasta sinn hafa rætt það að hún myndi ekki fara í fóstureyðingu ef hún yrði ólétt. Þetta hefði borist í tal þegar þau ræddu framtíðina, en bæði hefðu þau viljað stofna fjölskyldu og eignast börn.

Ákærða kvaðst hafa komið hingað til lands í október 2010 og hefði móðir hennar ekki vitað af því. Hún kvaðst hafa hætt í skóla, þar sem hún var að læra markaðsfræði, en ákvörðunina um flutninginn hefði hún tekið í byrjun mánaðarins. Ástæðan var sú að hún hefði viljað fara að búa með kærastanum og fara að vinna. Þau hefðu kynnst fyrir um fimm árum á netinu og verið í sambandi síðan, en bara hist einu sinni áður en hún kom til landsins. Þegar hún kom hefði kærastinn sótt hana á flugvöllinn og hefði hún strax flust inn til hans og byrjað að búa með honum. Hún kvaðst eiga foreldra og bróður í [...]. Hún kvað þau ekki hafa komið hingað til lands eftir þetta og væri það vegna þess að þau töluðu hvorki ensku né íslensku, en þau væru í miklu sambandi við hana í síma og tölvu.

Fyrrum kærasti ákærðu bar að þau hefðu kynnst á netinu. Hún hefði komið til landsins í október 2010 og þau farið að búa saman. Það hefði verið hennar hugmynd að flytja hingað. Framtíðaráætlanir þeirra hafi verið að eyða ævinni saman, enda hefði þeim komið mjög vel saman. Barneignir hafi hins vegar ekki verið á dagskrá alveg strax. Hann kvaðst hins vegar hafa glaðst yfir að eignast barn þrátt fyrir að það hefði verið óvænt. Barneignir utan hjónabands væru ekki vandamál í hans fjölskyldu. Hann kvað sig aldrei hafa grunað að ákærða væri ólétt. Þegar hann hugsi til baka þá hafi ekkert í fari hennar bent til þess að hún væri barnshafandi. Hann kvaðst þó einu sinni hafa spurt hana hvort hún væri ólétt en hún svarað að sér liði ekki nógu vel og hún væri með svima.

Hann kvað móður sína hafa haft samband við móður ákærðu eftir að þetta mál kom upp og hafi þá komið í ljós að margt af því sem ákærða hafði sagt sér um fjölskyldu sína hafi ekki reynst rétt. Þá hefði hún ekki viljað að hann væri viðstaddur þegar hún hafði samband við fjölskyldu sína.

Hann kvaðst hafa komið heim úr vinnu um klukkan sex að morgni 2. júlí og farið að sofa en ákærða farið í vinnu. Hann kvað ákærðu hafa kvartað yfir verkjum í maga og rætt við móður hans um það. Kunningi hans hefði svo hringt í sig og sagt sér að hann yrði að fara og sækja ákærðu í vinnuna því henni liði ekki nógu vel. Þegar hann kom á vinnustað ákærðu kvaðst hann hafa séð að hún var föl og spurt hana hvort henni liði ekki vel. Í því hefði móðir hans hringt og hann sagt henni hvernig ákærða liti út og móðirin þá sagt að það þyrfti að fara með hana á spítala og kvaðst hann hafa gert það.

Móðir kærastans bar að samband ákærðu og sonar hennar hafi verið mjög gott. Hún kvaðst stundum hafa rætt við ákærðu hvort ekki væri tímabært að færa sér barnabarn og hefði ákærða þá svarað að það myndi ekki gerast fyrr en eftir ár. Móðirin kvað að vel hefði verið tekið á móti barni á heimilinu. Þá kvaðst hún hafa rætt við ákærðu um það hvort þau ætluðu að gifta sig og hún svarað því til að þau ætluðu til Litháen næsta sumar og gifta sig þar. Móðirin kvað barneignir utan hjónaband ekki vera vandamál hjá sér eða fjölskyldu sinni.

                Að kvöldi 1. júlí kvað hún ákærðu hafa kvartað yfir magaverk og kvaðst hún hafa gefið henni verkjalyf og síðan hefði ákærða farið að sofa. Hún kvað ákærðu hafa verið vakandi um nóttina og beðið sig um róandi lyf sem hún vildi ekki gefa henni þar eð hún ætti að fara að vinna bráðlega. Um morguninn hefði ákærða litið eðlilega út, þrátt fyrir að hún hefði ekki sofið vegna verkja. Þá kvaðst hún hafa fundið blautt og illa lyktandi koddaver í ruslafötu í herbergi ákærðu, en hún hefði ekkert hreyft við því. Móðirin kvaðst hafa talað við ákærðu á spítalanum og spurt hana hvort eitthvað hefði komið úr henni en hún hefði sagt að svo hefði ekki verið. Hún kvaðst hafa talið að ákærða hefði misst fóstur en hún hefði ekki séð að hún væri ófrísk.

                Móðirin kvaðst hafa verið í sambandi við móður ákærðu eftir atburðinn og hefði þá komið í ljós að ákærða hefði sagt ósatt um margt varðandi fjölskylduhagi sína og fleira. Þá hefði ákærða heldur ekki viljað að hún hefði samband við móður hennar.

                Heiðrún P. Maack læknir staðfesti framangreint vottorð sitt. Hún kvaðst hafa verið á vakt á kvennadeild Landspítalans þennan dag. Ákærða hefði komið þangað frá slysadeild og verið föl en ekki með mikla verki. Þá hefði þungunarpróf verið jákvætt. Hún hefði skýrt frá mikilli blæðingu úr leggöngum og verkjum vinstra megin í kvið og hefðu blæðingarnar byrjað fyrir þremur dögum en aukist um morguninn. Ákærða kannaðist ekki við að vera þunguð og kvaðst hafa haft reglulegar blæðingar. Við skoðun hefði komið í ljós mar í slímhúð í leggöngum og vefur fastur í leghálsi. Fyrst var grunur um fósturlát og kvaðst Heiðrún  fyrst hafa reynt á ná þessu út til að minnka blæðingu. Síðan hafi Guðlaug Sverrisdóttir komið að málinu og kveðið upp úr með það að fara þyrfti með ákærðu á skurðarborð. Þar var ákærða svæfð og við athugun hefði komið í ljós að vefurinn var naflastrengur og hefði Guðlaug þá tekið við aðgerðinni, en sjálf hefði hún farið og hringt í lögregluna.

                Guðlaug Sverrisdóttir kvensjúkdómalæknir staðfesti vottorð sitt. Hún bar að ákærða hefði komið af slysadeild og verið grunur um að hún væri með utanlegsfóstur. Ákærða hefði skýrt frá því að hún hefði haft reglulegar blæðingar en verið með jákvætt þungunarpróf. Guðlaug kvaðst hafa spurt hana hvort eitthvað hefði gengið niður úr leggöngum hennar og hefði hún neitað því. Við sónarskoðun hefði sést töluvert stækkað leg og töluvert innihald í því. Grunur var því um fylgjuvef þar. Ákærða var því tekin í skurðaðgerð og þá kom í ljós að það sem álitið hafði verið fylgjuvefur reyndist vera naflastrengur. Guðlaug kvaðst því hafa þreifað upp í leghálsinn og náð í fylgjuna sem var töluvert stór. Hún kvaðst þá hafa gert sér grein fyrir að ákærða hefði fætt fullburða barn og því beðið ljósmóður að vigta fylgjuna og Heiðrúnu að hringja í lögregluna, enda ljóst að barnið vantaði. Eftir að ákærða var vöknuð af svæfingunni kvaðst Guðlaug hafa rætt við hana og spurt um barnið og hvar það væri niður komið, en hún hefði ekki kannast við að hafa fætt barn. Hún kvað ákærðu hafa verið rólega og yfirvegaða en þverneitað að hafa fætt barn. Hún kvað það vera þekkt að konur gætu gengið með fulla meðgöngu án þess að vita af því að þær væru með barni.

                Samúel J. Samúelsson læknir var kvaddur að hótelinu til að skoða lík barnsins. Hann skoðaði það síðar sama dag ásamt lækni, sem síðar krufði líkið. Samúel lýst áverkum á líkinu og þar á meðal kvaðst hann hafa tekið eftir skurðum í munnvikum eins og eftir eggjárn, skurðbarmarnir hefðu verið hreinir, það er ekki tættir eða rifnir.

                Kona sem vann í móttöku hótelsins kvaðst lítillega hafa þekkt ákærðu og ekki tekið eftir að hún væri ófrísk. Samstarfskonur hennar hefðu spurt hana hvort hún væri ófrísk, en hún neitað því. Hún kvað engin eggvopn vera á herbergjum hótelsins, en hnífur gæti hafa verið á vinnuvagni.     

                Vinnufélagi ákærðu bar að hún hefði verið föl þennan morgun og ekki litið vel út. Hún kvaðst ekki hafa spurt hana um líðan hennar, enda vitað að kærasti hennar átti afmæli daginn áður og talið ákærðu hafa verið að skemmta sér. Þær hafi síðan farið að vinna og kvaðst vinnufélaginn ekki hafa séð ákærðu aftur fyrr en hún kom í morgunmat og var þá öll blóðug. Klukkan fimmtán mínútur yfir tíu hefði ákærða verið ókomin og þá kvaðst vinnufélaginn hafa hringt í hana og spurt af hverju hún væri ekki komin, en hléinu lyki klukkan tuttugu mínútur yfir tíu. Ákærða svaraði að sér liði mjög illa, en sagðist vera að koma. Um það leyti sem vinnufélaginn og aðrir hefði verið að snúa aftur til vinnu að loknu morgunverðarhléi hefði ákærða komið og hefði blóð verið á blússu hennar, buxum og skóm. Einnig hefðu hendur hennar verið blóðugar og hún kvaðst einnig hafa séð blóð á vörum hennar. Ákærða gaf þá skýringu að hún væri á blæðingum og kvaðst ætla að þvo sér og halda svo áfram að vinna eftir að hafa fengið sér töflu. Vinnufélagar hennar sögðu henni að hún gæti ekki haldið áfram að vinna og úr varð að ein þeirra hringdi í mann sinn sem svo hringdi í kærasta ákærðu sem sótti hana. Ákærða hefði samþykkt þetta eftir að hafa í fyrstu verið á móti því að fara og sagt að mikið væri að gera. Vinnufélaginn kvaðst hafa tekið eftir blóði í herberginu sem ákærða hafði verið að þrífa. Það hefði litið út fyrir að ákærða hefði reynt að þrífa það. Hún kvað vinnufélagana hafa rætt um það að ákærða hefði haft óvenjulega miklar blæðingar.

                Vinnufélaginn kvaðst hafa unnið með ákærðu í um 5 mánuði en ekki dottið í hug að hún væri barnshafandi. Þá kvað hún ákærðu aldrei hafa hlíft sér þótt vinnan væri erfið. Á þessum tíma, meðan þær unnu saman, hefði ný kona komið til starfa og hefði hún spurt ákærðu hvenær hún ætti von á sér, en þegar hún neitaði að vera barnshafandi var bara hlegið að þessu. Þá var hún spurð hvort hnífur eða eggjárn væri meðal áhalda sem þær notuðu við vinnuna og kvað hún þær nota hníf til að opna ristar á baðherbergjum. Hnífar væru svo á herbergjum með eldhúsi, en eldhús hefði ekki verið í umræddu herbergi. Vinnufélaginn kvað ákærðu hafa sagt sér ósatt um ýmislegt og nefndi dæmi um það.

Annar vinnufélagi ákærðu bar að hafa lítið þekkt til hennar, enda hefðu þær bara unnið saman í um einn mánuð. Hún kvað sér hafa fundist fyrst að ákærða væri ófrísk, en ekki spurt hana um það. Þennan morgun hefði ákærða unnið á öðrum stað og þær svo ekki hist aftur fyrr en við morgunverðinn. Ákærða hefði ekki komið þangað á sama tíma og aðrar heldur hefði verið hringt í hana og hún komið um klukkan tuttugu mínútur yfir tíu. Hún kvað ákærðu hafa litið hrædda út og sagt að sér liði ekki vel. Ákærða hefði sagt að hún hefði blætt mikið, en nú liði sér betur og hún vildi halda áfram að vinna. Vinnufélaginn kvaðst hafa séð blóð á fötum og höndum ákærðu. Ákærða hefði tekið verkjatöflur og vildi fara í sturtu og halda svo áfram að vinna. Vinnufélagarnir sögðu hins vegar að hún ætti að fara heim og hvíla sig, en það vildi hún ekki þar sem svo mikið var að gera. Vinnufélaginn kvaðst svo hafa farið að vinna en vita til þess að hringt hefði verið í kærasta ákærðu sem hafi komið og sótt hana.

Rannsóknarlögreglumaður, sem ræddi fyrstur lögreglumanna við ákærðu á Landspítalanum, bar að hún hefði alfarið neitað að hafa fætt barn. Hún kvað hana hafa verið „alveg pollrólega“ þegar hún sagði þetta og hefði flissað stundum þegar verið var að spyrja hana um barnið og hvar það væri. Hún kvað túlk hafa verið viðstaddan og hefði hún rætt við ákærðu með aðstoð hans.

Rannsóknarlögreglumaður, sem fann lík barnsins, lýsti því hvernig það hafði verið vafið inn í þrjá eða fjóra glæra plastpoka sem bundið hafði verið fyrir með hnút. Hann lýsti einnig leit í herberginu, sem ákærða hafði verið að þrífa, og því að þar hefðu fundist blóðpollar undir listum. Þá hafði verið leitað að eggjárni í ruslakompunni og öllum ruslapokum þar, en ekkert eggjárn hefði fundist. Einnig hefði verið leitað að eggjárni í herberginu og kaffistofunni, en ekkert fannst sem hefði getað verið notað til að skera með munnvik barnsins eða naflastrenginn.

Rannsóknarlögreglumaður, sem tók þátt í leitinni á vinnustað ákærðu, bar á sama hátt um að engin eggjárn hefðu fundist sem líklegt væri að notuð hefðu verið til að skera í munnvik drengsins. Þá bar hann um leit á heimili ákærðu og að þar hefði fundist blautt koddaver. Af því hefði verið ýldulykt eins og af sorpi.

Sérfræðingar sænsku réttarlæknisfræðistofnunarinnar staðfestu framangreindar niðurstöður DNA greiningar á sýnum úr ákærðu, kærasta hennar og líki drengsins.

Réttarmeinafræðingurinn, sem krufði lík drengsins, kom fyrir dóm og staðfesti niðurstöður sínar. Hún kvað drenginn hafa verið kyrktan. Þá hafi verið skurðir í báðum munnvikum. Þeim hafi að öllum líkindum verið valdið með hnífi eða skærum, en eins getur verið að hluturinn hafi ekki verið mjög beittur. Skurðirnir voru veittir barninu meðan það var lifandi, en hún staðfesti að barnið hefði fæðst lifandi og fullburða. Lungun höfðu opnast að fullu og sennilega hefði barnið dáið nokkrum mínútum eftir fæðingu. Þá kvað hún möguleika á að skurðirnir í munnvikunum hafi verið veittir um leið og naflastrengurinn var losaður. Hún kvað drenginn hafa haft nýburalungnabólgu og hafi það verið vegna bólgu í fylgjunni.

                Deildarstjóri rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði staðfesti rannsókn á þvagsýni úr ákærðu. Niðurstöðurnar voru að ólögleg ávana- og fíkniefni hefðu ekki verið í mælanlegu magni í sýninu. Í sýninu fundust hins vegar leifar lyfja sem ákærðu höfðu að öllum líkindum verið gefin á sjúkrahúsinu. Einnig voru þar leifar verkjalyfs og koffeins sem gætu verið leifar kaffidrykkju.

                Lára Björgvinsdóttir geðlæknir staðfesti framangreinda matsgerð sína. Hún kvaðst hafa séð ákærðu að kvöldið 2. júlí á kvennadeild Landspítalans. Hún kvaðst hafa rætt nokkrum sinnum við hana og hefði hún getað lýst því sem gerðist þennan dag nema hvað hún kannaðist ekki við að hafa fætt barn. Hún hefði haldið fast við það allan tímann sem þær áttu samskipti vegna rannsóknarinnar. Þá hefði ákærða tjáð henni að sér hefði liðið vel á Íslandi. Þá kvaðst Lára hafa rætt við móður ákærðu sem hefði lýst henni sem heimakærri stúlku sem hefði gengið þokkalega í skóla, en verið vinafá. Niðurstaða Láru var að ákærða væri sakhæf og hún væri ekki haldin geðsjúkdómi. Hins vegar gæti varla verið um það að ræða að ákærða myndi ekki hvað hefði gerst, en ekki hafði hún skýringu á þessari afstöðu hennar til þess sem henni er gefið að sök. Lára benti á að atburðarásin væri frekar flókin við fæðinguna og að ganga frá líkinu og vafasamt að ákærða myndi ekki eftir þessu, enda myndi hún hvað gerðist fyrir og á eftir. Taldi hún frekar vera um mikla afneitun að ræða hjá ákærðu, en það væri þekkt að konur afneituðu meðgöngu. Taldi Lára það trúverðugt að ákærða hefði í raun ekki verið sér meðvituð um að hún væri ófrísk. Hún kvað ákærðu hafa skýrt blóðið á sér með því að hún væri með blæðingar.

                Sigurður Páll Pálsson geðlæknir staðfesti framangreinda matsgerð. Hann kvað ákærðu hafa tilhneigingu til að fegra sig og það sem hún geri sem sé ef til vill ekki óeðlilegt miðað við unga og óráðna konu, sem væri mjög háð móður sinni. Hann kvað hana ekki enn trúa að þetta hafi gerst, það er að hún hafi eignast barn, enda hafi hún líklega bælt það ómeðvitað að hún væri ófrísk. Þá staðfesti hann að ákærða væri sakhæf, enda ekki hægt að segja að ákærða hafi ekki vitað hvað hún hefði verið að gera. Frágangurinn á líki barnsins hefði verið með þeim hætti. Ákærða væri ekki haldin neinum meiri háttar geðsjúkdómi, en hún hefði tilhneigingu til að bæla óþægilegar staðreyndir lífsins og væri það hennar veikleiki. Þetta væri hins vegar ekki talinn sjúkdómur í geðlæknisfræðinni.

                Brynjar Emilsson, sálfræðingur og hinn matsmaðurinn, staðfesti matsgerðina. Hann kvað það hafa verið vissum erfiðleikum bundið að meta ákærðu þar eð hún talaði ekki íslensku. Brynjar kvað hana ekki greindarskerta, en hún skoraði nokkuð hátt á prófum sem sýndu sjálfsblekkingu og tilhneigingu til að blekkja aðra. Þá væri hún yfir viðmiðunum á prófi sem mældi kvíða og þunglyndi. Á undanlátsemiprófi og sjálfsmatsprófi væri hún eðlileg. Annað próf sýndi engin geðrofseinkenni og heldur ekki siðblindu. Hann tók þó fram að prófin væru aðeins til að styðja klínískt mat, en persónugerð ákærðu virtist vera þannig að hún afneitaði vandamálum, bæði gagnvart sjálfri sér og öðrum. Þetta kæmi fram í sögu hennar og væri staðfest í prófunum. Að öðru leyti væri hún heilbrigð kona. Spurður um skýringu á því sem hún er ákærð fyrir kvað Brynjar hana eiga mjög erfitt með að sjá neikvæða atburði eða neikvæða eiginleika hjá sér. Þetta væru varnarhættir hennar. Þess vegna gæti hún hafa neitað því fyrir sjálfri sér að hún væri ófrísk og eins að hafa fætt barn. Það hefði því verið henni mikið áfall þegar það rann upp fyrir henni hvað hafði gerst og þess vegna kynni hún að hafa gripið til þess sem hún gerði. Hún kynni því að hafa verið í hugrofsástandi, að minnsta kosti hluta tímans.

IV

Ákærða neitar sök. Hún hefur allt frá upphafi neitað að hafa verið barnshafandi og þar af leiðandi ekki fætt barn. Hér að framan var það rakið að ákærða var flutt á slysadeild og þaðan á kvennadeild þar sem í ljós kom, að mati lækna, að hún hafði nýlega fætt barn. Lík barns fannst skömmu síðar og samkvæmt niðurstöðu DNA-greiningar voru ákærða og þáverandi kærasti hennar foreldrar þess. Samkvæmt framburði ákærðu og móður þáverandi kærasta hennar hafði ákærða haft verki aðfaranótt 2. júlí og fengið lyf við þeim. Þá fann móðirin blautt og illa lyktandi koddaver í herbergi ákærðu og eins bar rannsóknarlögreglumaður, sem leitaði í herbergi hennar, um sams konar koddaver í herberginu. Ákærða fór til vinnu að morgni 2. júlí og hóf störf með vinnufélögum sínum. Eins og rakið var að framan fóru þær til morgunverðar klukkan tíu en ákærða varð eftir til að ljúka tilteknu verki. Hún mun hafa verið ein í um það bil tíu mínútur og þegar hún kom til vinnufélaga sinna var hún öll blóðug eins og rakið var.

Að áliti hinna sérfróðu meðdómsmanna getur það staðist að ákærða hafi ekki fundið merki þess að hún væri barnshafandi. Það sé vel þekkt að konur fæði börn án þess að hafa gert sér grein fyrir að þær gengju með barn. Framburður ákærðu og móður þáverandi kærasta hennar um verki bendi til þess að ákærða hafi haft hríðir um nóttina. Þá sé mjög líklegt að hún hafi misst legvatn um nóttina. Í herbergi hennar fannst blautt og illa lyktandi koddaver og sé langlíklegast að legvatnið hafi farið í það og af því stafi lyktin. Samkvæmt framburði ákærðu, sem fær stoð í framburði vinnufélaga hennar, var hún ein í stutta stund og bar að hafa þá fundið fyrir miklum svima. Hún kvaðst hafa sest á klósettið og eitthvað rann úr henni og hún hefði séð að það var blóð. Það er álit hinna sérfróðu meðdómsmanna að ákærða hafi þá fætt barnið.

Samkvæmt framansögðu telur dómurinn sannað, gegn neitun ákærðu, að hún hafi fætt fullburða barn á þeim tíma sem hún var ein á vinnustað sínum skömmu eftir klukkan tíu að morgni 2. júlí 2011. Lík barnsins fannst í ruslagámi, eins og lýst var. Það var niðurstaða krufningar að barnið hefði látist af völdum kyrkingar. Með vísun til alls þess, sem nú hefur verið rakið, er það niðurstaða dómsins að ákærða hafi kyrkt barnið mjög skömmu eftir fæðinguna, enda er engum öðrum til að dreifa. Ákærðu er einnig gefið að sök að hafa veitt barninu tvo skurðáverka með bitvopni. Að áliti hinna sérfróðu meðdómsmanna er langlíklegast að ákærða hafi skorið í munnvik barnsins þegar hún skar í sundur naflastrenginn, en hann bar þess merki að hafa verið skorinn í sundur.

Geðhagir ákærðu hafa verið ítarlega rannsakaðir eins og rakið var. Það var niðurstaða matsmanna að hún væri sakhæf og fellst dómurinn á þá niðurstöðu. Við athugun á ákærðu kom fram að hún hafði engin merki um geðrof og engin merki um siðblindu. Varðandi vitræna getu voru vísbendingar um misþroska en heildargeta var innan eðlilegra marka. Það er álit hinna sérfróðu meðdómsmanna að ákærða hafi verið sér alls ómeðvituð um þungunina og nær öruggt að fæðingin hafi komið henni í opna skjöldu. Fæðingin, sem var óundirbúin og án aðstoðar, hefur að öllum líkindum valdið skelfingarviðbrögðum með tímabundnu minnisleysi eða hugrofi eins þekkt er úr áfallasálfræði. Hvort slíkt minnisleysi hafi verið algert eða staðið meðan ákærða kom líkinu fyrir er ógerlegt að meta.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að ákærða hafi deytt barnið undir eins og það var fætt í veikluðu eða rugluðu hugarástandi sem hún komst í við fæðinguna. Varðar brot hennar við 212. gr. almennra hegningarlaga. Ákærðu hefur ekki áður verið refsað svo vitað sé og er refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár, en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hennar eins og í dómsorði segir. Ákærða hefur verið sakfelld gegn neitun fyrir að hafa banað nýfæddu barni sínu og er það mat dómsins að ekki geti komið til þess að skilorðsbinda dóminn. Kemur þar bæði til að um mjög alvarlegt brot er að ræða svo og það álit dómsins að fangelsisrefsing geti komið ákærðu að gagni við að takast á við afleiðingar verknaðarins.

Krafan um miskabætur byggist á 26. gr. skaðabótalaga. Fallast má á það með bótakrefjanda að ákærða hafi valdið honum miska með því að deyða barn þeirra rétt eftir fæðinguna eins komist var að hér að framan. Hafa verður í huga að þau höfðu búið saman frá því í október 2010 og verður ekki annað ráðið af skýrslum en þau hafi bæði hugsað sér að halda sambúðinni áfram og eignast barn eða börn er fram liðu stundir. Samkvæmt þessu eru bætur hæfilega ákveðnar 600.000 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Það athugast að ákærðu var birt bótakrafan við þingfestingu, 10. nóvember 2011, og miðast upphafstími dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi. Þá skal ákærða greiða honum 200.000 krónur í málskostnað.

Loks verður ákærða dæmd til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dóminn kváðu upp Arngrímur Ísberg, héraðsdómari sem dómsformaður, og meðdómsmennirnir Halldóra Ólafsdóttir geðlæknir og Ragnheiður I. Bjarnadóttir kvensjúkdómalæknir.

D Ó M S O R Ð :

                Ákærða, X, sæti fangelsi í 2 ár en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hennar frá 3. júlí til 7. júlí 2011.

                Ákærða greiði A 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. júlí 2011 til 10. desember sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 200.000 krónur í málskostnað.

Ákærða greiði 899.665 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns, Daníels Pálmasonar hdl., 1.129.500 krónur.