Hæstiréttur íslands
Mál nr. 482/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júní 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2016 þar sem varnaraðila var gert að afplána 105 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] 2015. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], [...], verði á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga gert að sæta afplánun á 105 daga eftirstöðvar refsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] 2015, sem honum var veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunnar þann 11. ágúst 2015.
Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að kærði liggi undir sterkum grun um að hafa í félagi við meðkærða, Y, frelsissvipt tvær stúlkur í gær, 27. júní, með því að hafa ráðist inn í íbúð að [...] í Reykjavík og haldið þar A og B í yfir 6 klst. á heimili B. Kváðu þær að á meðan þeim hafi verið haldið hafi þeim og ættingjum þeirra verið hótað lífláti, klippt hafi verið í hár þeirra og borinn hnífur að hálsi A. Kvað hún Y hafa verið með miklar hótanir við B og einnig sett sleif ofan í háls hennar. Þá hafi þær borið um í skýrslutöku hjá lögreglu að kærði X hefði beitt töng með gulu skafti til að merja tá á B og einnig hefði hann beitt tönginni á putta á B svo á sá. Auk þess kváðu þær Y hafa troðið peysu upp í B til að heyrðist ekki í henni þegar tönginni hafi verið beitt. Loks kváðust þær hafa verið haldi inni í íbúðinni frá kl. 04:00 þar til um morguninn og hafi þeim þá verið hleypt út og þær farið á kaffihús í nágrenninu.
Þá kemur fram að kærðu hafi verið handteknir á vettvangi stuttu eftir að brotaþolar hafi tilkynnt lögreglu um árásina og hafi þeir neitað sök í skýrslutöku.
Við frumrannsókn málsins hafi komið í ljós að atlaga kærðu tengdist meintri peningaskuld brotaþola sem kærðu hafi verið að innheimta, en annar brotaþola hafi verið kærasta kærða Y.
Að mati lögreglu hafi kærði með þessu rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnarinnar enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi gerst sekur um brot sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi, sbr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærða hafi verið veitt reynslulausn þann 11. ágúst 2015 á 105 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] 2015.
Kærði sé undir sterkum grun um brot gegn 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé sett fram.
Niðurstaða
Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram sterkur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem varðað geti meira en 6 ára fangelsi. Hefur hann því brotið gróflega gegn skilyrðum reynslulausnar sem honum var veitt 11. ágúst 2015. Það er því fallist á með lögreglustjóra að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005 til þess að kærða verði gert að afplána eftirstöðvar dæmdrar refsingar. Er krafan því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta afplánun á 105 daga eftirstöðvum refsingar, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] 2015, sem honum var veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunnar þann 11. ágúst 2015.