Hæstiréttur íslands

Mál nr. 684/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Lagaskil


                                     

Fimmtudaginn 12. nóvember 2015.

Nr. 684/2015.

Western Asset Management Company

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Kaupþingi hf.

(Grímur Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns. Lagaskil.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni W um dómkvaðningu matsmanns til þess að svara nánar tilgreindum spurningum um efni gjaldþrotalaga New York-ríkis og gjaldþrotaréttar bandarískra alríkislaga. Snerist ágreiningur aðila einkum um það hvernig skýra bæri orðalagið „lög annars ríkis“ í síðari málslið n. liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans í Hæstarétti, var vísað til þess að ákvæðið fæli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að við skipti á lánastofnunum bæri að fylgja íslenskum lögum. Þá þyrfti að líta til tilurðar og tilgangs ákvæðisins, en af lögskýringargögnum mætti ráða að umrætt ákvæði hafi verið sett til þess að innleiða 1. mgr. 30. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB „með fullnægjandi hætti“. Dómurinn beitti því þrengjandi lögskýringu við túlkun ákvæðisins þannig að með orðalaginu „lög annars ríkis“ væri átt við lög annarra aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Var því talið að matsgerð á grundvelli beiðni W yrði tilgangslaus til sönnunar í skilningi 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og var beiðni hans af þeim sökum hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. október 2015, sem barst réttinum 8. sama mánaðar en kærumálsgögn bárust 19. þess mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að umbeðin dómkvaðning fari fram. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar, auk málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Þar sem varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms af sinni hálfu kemur krafa hans um málskostnað í héraði ekki til umfjöllunar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af meðferð málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2015.

I

         Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 4. september sl., er höfðað af Kaupþingi hf., Borgartúni 26 í Reykjavík, með stefnu birtri 20. júní 2012 á hendur aðalstefnda Western Asset Management Company, 385 East Colorado Boulevard, Pasadena, California 91101, Bandaríkjum Norður-Ameríku, og með stefnu birtri 20. júní 2012 á hendur varastefnda XL Re Ltd., BrianHara House, One Bermudiana Road, Hamilton HM 08, Bermúdaeyjum.

         Dómkröfur stefnanda eru þær í fyrsta lagi að rift verði ráðstöfun stefnanda til aðalstefnda, Western Asset Management Company, dags. 3. september 2008, að fjárhæð 545.037,37 Bandaríkjadollarar, vegna viðskipta, dags. 28. ágúst 2008.

         Í öðru lagi krefst stefnandi þess að aðalstefndi greiði stefnanda 545.037,37 Bandaríkjadollara með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. september 2012 til greiðsludags.

         Í þriðja lagi krefst stefnandi þess að aðalstefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.

         Verði aðalstefnda ekki gert að þola dóm í málinu gerir stefnandi eftirfarandi kröfur í varaaðild:

         Í fyrsta lagi að rift verði ráðstöfun stefnanda til varastefnda, XL Re Ltd., dags. 3. september 2008, að fjárhæð 545.037,37 Bandaríkjadollara, vegna viðskipta, dags. 28. ágúst 2008.

         Í öðru lagi að varastefndi greiði stefnanda 545.037,37 Bandaríkjadollara með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. september 2012 til greiðsludags.

         Í þriðja lagi að varastefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins.

         Aðalstefndi krafðist þess í öndverðu að öllum kröfum stefnanda yrði vísað frá dómi, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2013. Að því frágengnu krefst aðalstefndi þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara að kröfufjárhæð stefnanda verði lækkuð verulega. Í báðum tilvikum krefst aðalstefndi þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

         Varastefndi krafðist einnig frávísunar málsins í upphafi en þeirri kröfu var hafnað með framangreindum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2013. Að því frágengnu krefst hann aðallega sýknu en til vara stórfelldrar lækkunar á kröfum stefnanda. Þá krefst hann einnig málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.

         Í þinghaldi í málinu 28. maí 2015 lagði aðalstefndi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns. Stefnandi mótmælti beiðninni og var málinu frestað til munnlegs málflutnings um ágreininginn til 4. september sl. Málflutningur fór þá fram um ágreining þennan og er hann hér til úrlausnar. Í þessum þætti málsins krefst aðalstefndi að dómkvaðning fari fram í samræmi við beiðnina. Stefnandi krefst þess að henni verði hafnað og að honum verði úrskurðaður málskostnaður.

II

         Í máli þessu krefst stefnandi riftunar á nánar tilgreindri greiðslu sem stefnandi innti af hendi 3. september 2008, að fjárhæð rúmlega 545.037 Bandaríkjadollarar, sem endurgjald fyrir hlutdeild í 900 milljóna Bandaríkjadollara allsherjarskuldabréfi sem stefnandi gaf út 25. febrúar 2008, í formi verðviðauka (e. Pricing Supplement), eins og nánar er lýst í stefnu og greinargerð aðalstefnda. Fyrir liggur að gjalddagi skuldabréfsins var ekki kominn þegar stefnandi innti þessa greiðslu af hendi, en hann kveðst hafa bókfært greiðsluna til lækkunar á útistandandi skuldum sínum.

         Stefnanda var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 á grundvelli ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009, sem gaf út innköllun til kröfuhafa 6. júlí 2009. Stefnandi var síðan tekinn til formlegrar slitameðferðar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010. Hann reisir kröfu sína um riftun greiðslunnar á 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þar sem hún hafi verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var, og krefst enn fremur endurgreiðslu hennar á grundvelli 142. gr., sbr. 143. gr. laga nr. 21/1991.

         Aðalstefndi reisir sýknukröfu sína á aðildarskorti. Auk þess telur hann að umræddar greiðslur hafi ekki falið í sér greiðslu skuldar samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 í ljósi þeirra skilmála sem giltu um viðskipti með þau verðmæti sem stefnandi greiddi fyrir í umrætt sinn. Aðalstefndi heldur því meðal annars fram að samkvæmt þeim eigi lög New York-ríkis að gilda um þessi viðskipti. Hluti af vörnum aðalstefnda er á því reistur að n-liður 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki leiði til þess að einungis megi rifta umræddri greiðslu ef lög New York-ríkis heimili það. Telur aðalstefndi að þar séu ekki sambærilegar heimildir til riftunar og hér á landi og að skilyrðum þeirra sé ekki fullnægt í máli stefnanda.

         Í XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum er fjallað um endurskipulagningu fjárhags, slit og samruna fjármálafyrirtækja. Í 99. gr. laganna, eins og greininni var breytt með lögum nr. 130/2004, er vikið að fjárhagslegri endurskipulagningu lánastofnunar með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru EES-ríki. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar um að veita lánastofnun heimild til greiðslustöðvunar eða að leita nauðasamninga skuli fara að íslenskum lögum með frávikum sem nánar er lýst í fjórtán stafliðum. Frá gildistöku fyrrgreindra laga nr. 130/2004 og fram á mitt ár 2011 sagði í n-lið þessarar málsgreinar að þrátt fyrir ákvæði d- og e-liðar væri „heimilt að beita ákvæðum III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga, nr. 7/1936, um ógilda löggerninga, nema lög gistiríkis heimili ekki slíkt“. Með 1. gr. laga nr. 78/2011 var bætt við þennan staflið svohljóðandi setningu: „Löggerningur verður þó ekki ógiltur ef sá sem hag hefur af því að slíkur löggerningur haldi gildi sínu leggur fram fullnægjandi sönnun um að um löggerninginn eigi að gilda lög annars ríkis og að þar sé ekki að finna ógildingarreglu um fjármálafyrirtæki sem tekur til þess tilviks sem um ræðir.“ Í 1. mgr. 104. gr. laganna kemur fram að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar um slit lánastofnunar, sem hefur staðfestu og starfsleyfi hér á landi, en er með útibú í öðru EES-ríki, skuli fara að íslenskum lögum með þeim takmörkunum sem greinir í 2. mgr. 99. gr. laganna.

         Með fyrrgreindum lögum nr. 130/2004 voru gerðar breytingar á XII. kafla laga nr. 161/2002 sem var ætlað að innleiða tilskipun nr. 2001/24/EB, um endurskipulagningu og slit lánastofnana, í íslenskan rétt. Af aðfaraorðum tilskipunarinnar má ráða að hún var einkum sett til að tryggja að ráðstafanir sem yfirvöld samþykkja að grípa til vegna rekstrarerfiðleika fjármálafyrirtækja hafi réttaráhrif á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Þá á hún að stuðla að því að lánardrottnar slíkra fyrirtækja njóti jafnræðis hvar sem þeir eru á svæðinu. Í 10. gr. tilskipunarinnar, sbr. enn fremur 3. gr. hennar, er mælt fyrir um þá meginreglu að lög heimaaðildarríkis gildi, m.a. um það hvort löggerningar, sem eru öllum lánardrottnum skaðlegir, séu ógildir, ógildanlegir eða skorti réttarvernd, nema kveðið sé á um annað í tilskipuninni. Í IV. bálki tilskipunarinnar eru ákvæði sem eru sameiginleg endurskipulagningarráðstöfunum og slitameðferð. Þar segir orðrétt í 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar:

Ákvæði 10. gr. skal ekki gilda um reglur er varða það hvort löggerningar, sem eru öllum lánardrottnum skaðlegir, séu ógildir, ógildanlegir eða skorti réttarvernd, í þeim tilfellum þegar sá sem hefur hag af þessum löggerningum leggur fram sannanir um að:

             - gerningurinn, sem er skaðlegur öllum lánardrottnum, fellur undir lög aðildarríkis annars en heimaaðildarríkis, og

             - lögin bjóða engin úrræði til að vefengja gerninginn sem um ræðir.

         Í þinghaldi í máli þessu 19. desember 2013 var á það bent að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði með úrskurði 7. nóvember sama ár leitað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli nr. E-1880/2012 (Landsbankinn gegn Meryll Lynch International) um það hvernig bæri að skýra fyrrgreinda 1. mgr. 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB. Lýstu stefndu þeirri afstöðu sinni að ekki væri rétt að ákveða aðalmeðferð þessa máls fyrr en að gengnum dómi EFTA-dómstólsins.

         Hinn 17. október 2014 kvað EFTA-dómstóllinn upp dóm í tilefni af fyrrgreindri beiðni héraðsdóms. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að orðalag 1. mgr. 30. gr. framangreindrar tilskipunar um ógildi, ógildanleika eða skort á réttarvernd vísaði einnig til riftunar samkvæmt gjaldþrotarétti á grundvelli reglna um undanskot eigna frá gjaldþrotaskiptum eins og þeirra sem væru í XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sá sem hefði hag af löggerningi, sem teldist skaðlegur öllum lánardrottnum, bæri samkvæmt ákvæðinu að sanna að engin úrræði væru tiltæk, eða að engin úrræði væru lengur tiltæk, til að vefengja viðkomandi gerning, hvort sem efnislegar ástæður eða ástæður er lúta að málsmeðferð væru þess valdandi. Þyrfti sérstakt mat að fara fram á viðkomandi löggerningi hverju sinni. Þótt almennt séð væri unnt að vefengja gerninginn samkvæmt lögum þess EES-ríkis sem ætti við um hann, myndi þeim sem hag hefur af honum nægja að sýna fram á að skilyrði fyrir slíkri vefengingu væru ekki uppfyllt í þessu tiltekna máli. Það færi hins vegar eftir reglum heimaaðildarríkis hvort þeim sem hefur hag af löggerningnum hefði tekist að sanna að lögin, sem eigi við um gerninginn, veiti engin úrræði til að vefengja hann.

         Í þinghaldi í máli þessu 4. desember 2014 áskildi aðalstefndi sér, í ljósi niðurstöðu EFTA-dómstólsins, rétt til þess að afla álits sérfræðings um tilvist og efni erlends réttar sem hann teldi hafa þýðingu í málinu. Aðalstefndi lagði síðan fram í þinghaldi 28. maí sl. beiðni um dómkvaðningu eins hlutlauss og óvilhalls kunnáttumanns í gjaldþrotalögum New York-ríkis og gjaldþrotarétti bandarískra alríkislaga til að svara eftirfarandi matsspurningum:

1.      Hvaða reglur gilda samkvæmt lögum New York ríkis og/eða bandarískum alríkislögum um það hvenær löggerningur er talinn vera skaðlegur kröfuhöfum?

2.      Ef löggerningur er talinn vera skaðlegur kröfuhöfum, hvaða reglur gilda samkvæmt lögum New York ríkis og/eða bandarískum alríkislögum sem heimila að slíkir gerningar séu vefengdir?

3.      Þess er óskað að matsmaður geri sérstaka grein í svörum sínum við spurningum nr. 1 og 2, fyrir tilvist og efni framangreindra réttarreglna New York ríkis og/eða bandarískra alríkislaga við þær kringumstæður þegar fjármálafyrirtæki, sem er útgefandi allsherjarskuldabréfs, með sömu skilmálum og greinir í dómskjali nr. 9, 10, 30 og 31 hefur keypt hlutdeildarkröfur í eigin allsherjarskuldabréfi fyrir lokauppgjörsdag þess og er síðar tekið til slita. Þá er þess óskað að matsmaður fjalli um hvort þeim reglum sem um ræðir yrði í einhverjum tilvikum beitt gagnvart aðila sem hefur ekki fengið greiðslu heldur eingöngu séð um eignastýringu og fjárfestingaráðgjöf fyrir þriðja aðila.

Í umfjöllun sinni um tilgang matsbeiðninnar vísar aðalstefndi til málsástæðu sinnar um þýðingu New York-réttar, sem hann telur hamla því að kröfugerð stefnanda nái fram að ganga. Jafnframt vísar aðalstefndi til fyrrgreinds ákvæðis n-liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 104. gr. sömu laga. Aðalstefndi telur að við skýringu framangreindra ákvæða skipti ekki máli þó að New York-ríki tilheyri ekki Evrópska efnahagssvæðinu. Því til stuðnings vísar hann til þess að n-liður 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 gangi lengra en 30. gr. fyrrgreindrar tilskipunar nr. 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Þar sé vísað til þess þegar um löggerning gildi „lög annars ríkis“. Ákvæðið takmarkist því þegar af þessari ástæðu ekki við aðildarríki EES. Þar sem ákvæðið sé skýrt verði dómurinn að beita því samkvæmt orðanna hljóðan. Ekkert í umræddri tilskipun komi heldur í veg fyrir að einstök aðildarríki EES beiti þessari nálgun, enda setji hún eingöngu lágmarksreglur um að lögum aðildarríkjanna sé beitt um löggerninga. Aðalstefndi kveður sönnunarbyrði hvíla á sér um að umrædd viðskipti séu ekki riftanleg samkvæmt reglum New York-ríkis og með matsbeiðninni hyggist hann uppfylla þá sönnunarbyrði.

         Stefnandi reisir mótmæli sín við því að matsmaður verði dómkvaddur í þessu skyni á því að matsgerðin sé bersýnilega tilgangslaus til sönnunar í málinu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Byggist sú afstaða á því að ákvæði n-liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2001 verði að skilja á þann veg, að sá sem hag hafi af því að hinn umdeildi löggerningur haldi gildi sínu, geti einungis borið fyrir sig að lög aðildarríkis að EES-samningnum eigi við um gerninginn, ekki lög ríkja sem standa utan samningsins. Meginregla um lagaval komi fram í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, en þar segi að XX. kafli laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. gildi um slitameðferð fjármálafyrirtækis með sama hætti og við gjaldþrotaskipti. Í lögunum séu undantekningar frá þeirri meginreglu sem eigi rætur að rekja til EES-réttar, en þær gildi eðli málsins samkvæmt einungis þegar reglur íslensks réttar skarist við reglur annarra aðildarríkja EES-samningsins. Stefnandi telur orðalag 1. mgr. 104. gr. laga nr. 161/2002, sem vísi til þeirra takmarkana sem greini í 2. mgr. 99. gr. laganna, styðja þessa afstöðu, en þar sé vísað til „annarra aðildarríkja“, sbr. 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. a í lögunum. Þá bendir stefnandi á að þessar reglur um lagaval eigi rætur að rekja til tilskipunar Evrópusambandsins sem taki aðeins til áreksturs milli reglna aðildarríkja. Við innleiðingu hennar í íslenskan rétt hafi ekkert komið fram um að víðtækari undanþágur eigi að gera frá meginreglunni um að reglur heimaaðildarríkis gildi við skiptin. Þá telur stefnandi að skýra beri orðalagið „lög annars ríkis“ í n-lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 til samræmis við 3. mgr. 99. gr., sem mælir fyrir um skyldu Fjármálaeftirlitsins til að tilkynna fram komna beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings til lögbærra yfirvalda og kröfuhafa lánastofnunar „í viðkomandi ríkjum“. Þar sé ótvírætt átt við önnur aðildarríki EES-samningsins.

III

         Af dómi Hæstaréttar Íslands frá 19. desember 2012 í málinu nr. 723/2012 verður dregin sú ályktun að ef lagavalsreglur verða skýrðar með þeim hætti, að erlendar réttarreglur gildi ekki um atriði sem málsaðili ber fyrir sig, sé bersýnilega tilgangslaust að afla matsgerðar um efni þeirra til sönnunar í málinu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við úrlausn á ágreiningi aðila um matsbeiðni aðalstefnda verður því að taka afstöðu til þess hvort aðalstefndi geti borið fyrir sig reglur New York-ríkis á grundvelli n-liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 1. mgr. 104. gr. sömu laga.

         Ákvæði 99. gr. laga nr. 161/2002 ber yfirskriftina „Fjárhagsleg endurskipulagning lánastofnunar með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru EES-ríki“. Með fjárhagslegri endurskipulagningu er vísað til úrræða sem dómstólar hafa til að veita heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamninga. Þegar slíkar ráðstafanir eru heimilaðar ná þær sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir í öðru aðildarríki EES-samningsins, eins og segir í 1. mgr. 99. gr. laganna, sbr. 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. a í sömu lögum. Um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar gilda einnig íslensk lög með nánar tilgreindum frávikum, sem rakin eru í stafliðum a til n í 2. mgr. 99. gr. laganna. Í þessum stafliðum er ýmist talað um að farið skuli að lögum „þess ríkis“ eða „þess aðildarríkis“ þar sem t.d. skráning hefur farið fram, eign er staðsett eða mál hefur verið höfðað, svo dæmi séu tekin. Eins og rakið hefur verið er í síðari málslið n-liðar málsgreinarinnar vísað til þess að unnt sé að færa sönnur á að um löggerning, sem krafist er að verði ógiltur, gildi „lög annars ríkis“ og þar sé ekki að finna ógildingarreglu sem tekur til þess tilviks sem um ræðir. Sé litið á orðalag stafliðarins einangrað, án þess að líta til tilurðar hans og tilgangs, má draga þá ályktun að viðkomandi eigi að geta borið fyrir sig lög allra annarra ríkja en Íslands, ef þau gilda um þann löggerning sem til úrlausnar er. 

         Stefnandi sætir ekki fjárhagslegri endurskipulagningu, heldur er félagið í slitameðferð, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002. Því á ákvæði 99. gr. laganna ekki við um stefnanda samkvæmt orðum greinarinnar. Aftur á móti segir í 1. mgr. 104. gr. laganna að taki dómstóll hér á landi ákvörðun um slit lánastofnunar sem hefur staðfestu og starfsleyfi hér á landi skuli heimildin „ná sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir í öðrum aðildarríkjum“, eins og það er orðað í fyrri málslið málsgreinarinnar. Í síðari málslið hennar kemur síðan fram að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunarinnar skuli fara að íslenskum lögum „með þeim takmörkunum sem greinir í 2. mgr. 99. gr.“

         Síðari málsliðnum er ljóslega ætlað að leysa úr því álitaefni, sem vaknar við það að áhrif ákvörðunar um slit lánastofnunar ná út fyrir landsteinana til annarra aðildarríkja EES-samningsins, hvaða reglur eigi að gilda við slitin. Í málsliðnum er þeirri spurningu svarað á þann veg að íslensk lög gildi við slitin, en með sömu undantekningum og komi fram í 2. mgr. 99. gr. laganna. Ákvæðið felur hins vegar ekki í sér neina efnislega vísbendingu um það hvernig eigi að skilja þær undantekningar. Þannig verður engin ályktun dregin af fyrri málslið 1. mgr. 104. gr. laganna, þar sem gildissvið ákvörðunar um slit er afmörkuð við aðildarríki EES-samningsins, um hvort túlka verði n-lið 2. mgr. 99. gr. laganna á þann veg að einungis reglur þessara sömu aðildarríkja komi til álita, eins og stefnandi heldur fram.

         Eins og rakið hefur verið á ákvæði 99. gr. laga nr. 161/2002 í heild sinni rætur að rekja til tilskipunar nr. 2001/24/EB, sem íslenska ríkið skuldbatt sig til að innleiða í íslenskan rétt með aðild sinni að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Á það hefur verið bent að málsliðurinn sem hér er til úrlausnar var lögfestur með 1. gr. laga nr. 78/2011. Í athugasemdum við frumvarpið sem varð að þeim lögum kemur fram að lagt sé til að „skýrt verði að ákvæði 1. mgr. 30. gr. tilskipunar 2001/24/EB verði innleitt með fullnægjandi hætti“. Því næst er efni greinarinnar í tilskipuninni rakið með eftirfarandi hætti: „Þar kemur fram að ákvæði 10. gr. um að lög heimaaðildarríkis gildi við slit fjármálafyrirtækis skuli ekki gilda þegar metið er hvort ógilda megi samninga sem falla undir lög annars aðildarríkis og að þau lög hafi ekki að geyma ógildingarreglu sem taki til þess tilviks sem um ræðir.“ Í engu er vikið að þeim möguleika í lögskýringargögnum að víkja megi frá meginreglunni um að beita skuli lögum heimaaðildarríkis við fjárhagslega endurskipulagningu fjármálafyrirtækis eða slit, þegar lög annarra ríkja en aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins gilda um löggerninginn. Gefur efni þeirra þvert á móti eindregið til kynna að ekki hafi verið ætlunin að veita frekari undanþágur frá meginreglunni um að íslensk lög gildi í þessum tilvikum en mælt er fyrir um í 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar.

          Dómurinn telur óhjákvæmilegt að líta til þess sem hér hefur verið rakið um tilurð og tilgang síðari málsliðar n-liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002. Þá telur dómurinn rétt að virða orðalag hans í samhengi við efni 1. mgr. 99. gr. laganna, þar sem kveðið er á um að heimild lánastofnunar til fjárhagslegrar endurskipulagningar nái sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir „í öðru aðildarríki“ sem og yfirskriftar greinarinnar. Má í þessu sambandi hafa hliðsjón af því að fyrri málsliður stafliðarins víkur að undantekningu þegar lög „gistiríkis“ heimila ekki beitingu ógildingarreglna, en með því er skírskotað til efnis 1. mgr. 99. gr. laganna. Að lokum skiptir máli við túlkun málsliðarins að hann felur í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að við skipti á lánastofnunum hér á landi, sem og við fjárhagslega endurskipulagningu þeirra, beri að fylgja íslenskum lögum. Því er rétt að beita þrengjandi lögskýringu við túlkun hans, þannig að með orðalaginu „lög annars ríkis“ í stafliðnum sé átt við lög annarra aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

         Þar sem leggja verður þessa túlkun ákvæðisins til grundvallar við úrlausn málsins verður á það fallist með stefnanda að bersýnilegt sé að með beiðni aðalstefnda um dómkvaðningu matsmanns sé leitað sönnunar um atriði sem ekki skiptir máli og að matsgerð á grundvelli hennar yrði tilgangslaus, sbr. 3. mgr. 46. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Því ber að hafna beiðninni. Ákvörðun málskostnaðar, sem fallið hefur til vegna þessa ágreinings, bíður lokaniðurstöðu málsins.

         Af hálfu stefnanda flutti málið Grímur Sigurðsson hrl., en af hálfu aðalstefnda flutti málið Hrefna Dögg Gunnarsdóttir hdl. v. Sigurðar Arnar Hilmarssonar hdl.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

         Hafnað er beiðni aðalstefnda, Western Asset Management Company, um að dómkvaddur verði matsmaður í samræmi við matsbeiðni sem lögð var fram í þinghaldi 28. maí sl.

         Ákvörðun málskostnaðar bíður lokaniðurstöðu málsins.