Hæstiréttur íslands
Mál nr. 212/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Evrópska efnahagssvæðið
- EFTA-dómstóllinn
- Ráðgefandi álit
|
|
Þriðjudaginn 7. júní 2005. |
|
Nr. 212/2005. |
Íslenska ríkið(Óskar Thorarensen hrl.) gegn HOB víni ehf. (Stefán Geir Þórisson hrl.) |
Kærumál. Evrópska efnahagssvæðið. EFTA dómstóllinn. Ráðgefandi álit.
Fallist var á þá kröfu stefnda í einkamáli að óskað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á því, hvort það stæðist tiltekin ákvæði EES-samningsins, að ÁTVR krefðist þess af birgjum sínum, að þeir afhentu fyrirtækinu áfengi til smásölu á sérstakri gerð vörubretta og jafnframt að verð vörubrettis væri innifalið í vöruverði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. maí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2005, þar sem ákveðið var að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál varnaraðila á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði að leita álits EFTA-dómstólsins á þeim atriðum, sem greinir í hinum kærða úrskurði, og varnaraðila gert að greiða sér málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Leitað er ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:
1. Standa 11. gr. og 16. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið því í vegi að ríkisfyrirtæki, sem hefur einkaleyfi til smásölu á áfengi, krefjist þess af birgjum sínum, að þeir afhendi fyrirtækinu áfengi til smásölu á sérstakri gerð vörubretta (EUR-vörubrettum) og jafnframt að verð vörubrettis sé innifalið í vöruverði?
2. Stendur 59. gr. samningsins í vegi skilyrðum af þessu tagi?
Sóknaraðili, íslenska ríkið, greiði varnaraðila, HOB víni ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2005.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 9. desember 2004. Stefnandi er HOB vín ehf., Kaplahrauni 1, Hafnarfirði. Stefndu eru Áfengis og Tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR), Stuðlahálsi 2, Reykjavík, og fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhváli, Reykjavík.
Við fyrirtöku málsins í þinghaldi 22. apríl sl. krafðist stefnandi þess að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins með heimild í lögum nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Af hálfu stefndu var kröfu stefnanda mótmælt. Aðilum var gefinn kostur á að færa fram munnlegar athugasemdir sínar í þinghaldi 22. apríl sl., en að því loknu var krafa stefnanda tekin til úrskurðar.
Efnislegur ágreiningur aðila í máli þessu lýtur að kröfu ÁTVR í reglum, sem fyrirtækið hefur sett sér og staðfestar hafa verið af fjármálaráðherra, um að stefnandi og aðrir birgjar afhendi áfengi til sölu í vínbúðum fyrirtækisins á svokölluðum EUR-vörubrettum og jafnframt sé verð brettanna innifalið í vöruverði. Krefst stefnandi þess í málinu að viðurkennt verði með dómi að stefnda ÁTVR sé óheimilt að gera þessa kröfu, en stefndu krefjast sýknu.
I.
Málsatvik
Stefnandi er innflutnings- og heildverslun með áfengi og flytur inn áfengi frá aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins ætlað til smásölu. Um heild- og smásölu áfengis gilda annars vegar lög nr. 63/1969 um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum, en hins vegar áfengislög nr. 75/1998, með síðari breytingum. Í III. kafla laga nr. 75/1998 er fjallað um innflutning áfengis. Samkvæmt kaflanum er innflutningur áfengis í atvinnuskyni háður leyfi ríkislögreglustjóra og veitir leyfið innflytjanda heimild til að selja eða afhenda innflutt áfengi til þeirra sem hafa leyfi til að framleiða, selja eða veita áfengi í atvinnuskyni. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 63/1969 annast ÁTVR innflutning og innkaup á vínanda, áfengi og tóbaki samkvæmt lögunum og dreifingu þessara vara undir yfirstjórn fjármálaráðherra. Í 5. gr. laganna kemur fram að ÁTVR selji áfengi innanlands og í 10. gr. áfengislaga nr. 75/1998 kemur fram að verslunin hafi einkarétt til smásölu áfengis. Samkvæmt framangreindu er smásala áfengis eingöngu í höndum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og er verslunin því eini viðskiptavinur fyrirtækja sem flytja inn áfengi ætlað til smásölu á innanlandsmarkaði. Í 2. gr. laga nr. 63/1969 kemur fram að ÁTVR skuli gæta jafnræðis gagnvart öllum áfengis- og tóbaksbirgjum.
Samkvæmt 14. gr. laga nr. 63/1969 er ráðherra heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laganna með reglugerð. Á grundvelli þessarar heimildar hefur verið sett reglugerð nr. 369/2003 um Áfengis og tóbaksverslun ríkisins. Í III. kafla þeirrar reglugerðar er fjallað um innkaup og sölu áfengis, m.a. reglur um hvernig standa skuli að vali á áfengi til sölu í vínbúðum til reynslu og frambúðar. Þá kemur fram í 10. gr. reglugerðarinnar að stjórn ÁTVR skuli setja sérstakar reglur um val á vöru til sölu í vínbúðum og skuli reglurnar hljóta staðfestingu ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Á grundvelli þessarar heimildar hafa verið settar reglur nr. 351/2004 um innkaup og sölu áfengis og skilmálar í viðskiptum við birgja. Í þessum reglum kemur fram að verð til birgja fer eftir samningi þeirra við ÁTVR hverju sinni. Í fjórða lið reglnanna er að finna ýmis ákvæði sem lúta að nánari skilmálum í viðskiptum við birgja. Í gr. 4.9 segir m.a. að við afhendingu vöru skuli gæta eftirtalinna atriða:
Sé magn vöru í afhendingu meira en sem svarar einu lagi á bretti skal varan afhent á EUR-vörubretti. Andvirði vörubretta sé innifalið í vöruverði. Mesta þyngd vöru og brettis sé 900 kg og mesta hæð þess 150 cm. Sé hleðsla á bretti umfram 70 cm að hæð, skal vefja vörurnar plastskæni. [...] Sé reglum þessum ekki fylgt, getur ÁTVR hafnað móttöku vöru.
Í málinu er ágreiningslaust að til reglna nr. 351/2004, þar á meðal framangreinds ákvæðis, er vísað í þeim samningum sem stefnandi hefur gert við ÁTVR um sölu áfengis. Samkvæmt atvikum málsins, eins og þau liggja fyrir á þessu stigi málsins, verður stefnandi því, líkt og aðrir birgjar ÁTVR, að reikna með andvirði vörubretta við gerð samninga við ÁTVR um sölu áfengis. Í málinu hefur ekki verið upplýst hvort EUR-vörubretti séu framleidd samkvæmt tilteknum lands- eða evrópustaðli, en af gögnum málsins verður þó ráðið að vörubretti sem þessi séu mjög tíðkanleg í öllum flutningi á vöru. Þá liggja ekki fyrir í málinu upplýsingar um hvort verð og framboð á EUR-brettum kunni að vera mismunandi milli aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Að lokum er ekki fram komið í málinu að ÁTVR miði við tiltekið verð á vörubrettum eða leitist við að hafa áhrif á það hvernig stefnandi og aðrir birgjar reikna andvirði vörubretta í samningum þeirra um sölu áfengis til ÁTVR.
Af hálfu stefndu er fullyrt að í framkvæmd sé tekið við vörum á öðrum vörubrettum sem uppfylli sömu lágmarkskröfur og EUR-vörubretti. Þá er einnig fullyrt að í framkvæmd sé birgjum ekki gert skylt að afhenda vöru á vörubretti ef um er að ræða svo lítið magn að rúmist í einu lagi á bretti (9 kassar af bjór eða 9-25 kassar af léttvíni). Af hálfu stefnanda hefur fullyrðingum stefndu um tilvist þessara framkvæmdareglna ekki verið mótmælt sérstaklega.
Af hálfu ÁTVR hefur verið upplýst að fyrirtækið taki árlega við um 35.000 vörubrettum í dreifingarmiðstöð sinni. Um 5.500 þessara bretta séu metin ónothæf, en önnur séu seld. Tekjur af sölu vörubretta árið 2004 hafi verið 7.431.500 krónur. Kostnað við förgun, geymslu og umsýslu vörubrettanna telur ÁTVR vera um 7,3 milljónir krónur.
II.
Málsástæður og lagarök aðila
Málatilbúnaður stefnanda er einkum reistur á því að umrætt skilyrði í gr. 4.9 í reglum nr. 351/2004 sé í andstöðu við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, einkum 11. gr., 1. mgr. 59. gr. og 53. gr., en meginmál samningsins hafi verið lögfest með lögum nr. 2/1993. Stefnandi telur að umrætt skilyrði feli í sér ráðstöfun sem hafi sambærileg áhrif og magntakmörkun í skilningi 11. gr. samningsins. Skilyrðið geri það að verkum að erfiðara sé að koma nýrri vöru að hjá ÁTVR auk þess sem það feli í sér að lagðar séu auknar byrðar á smærri vörusendingar, þ.e. litlar vörusendingar sem séu þó stærri en sem nemi einu lagi á bretti. Stefnandi vísar til dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins um að ekki komi til greina að telja að umrætt skilyrði geti helgast af lögmætum sjónarmiðum eða undanþáguákvæði 13. gr. samningsins. Hann vísar til 16. gr. samningsins um að tryggja skuli að hvers konar ríkisrekin einkasala sé aðlöguð með þeim hætti að ekki sé um að ræða neina mismunun milli þegna aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins um það með hvaða hætti varanna er aflað og þær markaðssettar. Umrætt skilyrði í reglum ÁTVR feli í sér mismunun þar sem það bitni í raun miklu frekar á innfluttu áfengi en innlendri framleiðslu. Stefnandi vísar einnig til þess að umrætt skilyrði feli í sér brot á 1. mgr. 59. sbr. e. lið 1. mgr. 53. gr. EES samningsins sem misbeitingu á markaðsráðandi stöðu ÁTVR.
Stefndu byggja varnir sínar m.a. á því að ákvæði 4.9. í reglum nr. 351/2004 um innkaup og sölu áfengis og skilmála í viðskiptum við birgja sé í fullu samræmi við ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Reglurnar eigi sér fullnægjandi lagastoð í lögum nr. 63/1969 um verslun með áfengi og tóbak, en í 2. gr. laganna komi fram að þess skuli gætt að jafnræði gildi gagnvart öllum áfengisbirgjum. Af hálfu stefndu er bent á að meðferð áfengis á vörulager sé orðin mjög skipulögð og tæknivædd með það að markmiði að hámarka nýtingu á húsnæði og mannafla, en tryggja jafnframt vandaða meðferð á hinni viðkvæmu vöru með lágmarks rýrnun. Vörumóttaka fari þannig fram að lyftarar keyri inn í vöruflutningabílana og taki vöruna og komi henni svo beint fyrir í vörurekkum, oft í mikilli hæð frá gólfi, þar sem hún sé geymd þar til henni er ráðstafað aftur. Tekist hafi að ná samtímis miklum afköstum og lágmarks tjónatíðni þannig að rýrnun sé nú í lágmarki eða aðeins um 0,3%. Forsenda framangreindrar birgðastjórnunar ÁTVR sé sú að allar vöru komi inn með sambærilegum hætti að því er varðar allan ytri frágang og merkingar og á eins vörubrettum, óháð því hvert upprunaland vörunnar sé. Verklagi þessu hafi þannig verið komið á af praktískum ástæðum og sé það nauðsynlegt vegna geymslu og meðferðar viðkomandi vara í vöruhúsi. Tilgangurinn sé að tryggja öryggi í meðferð vörunnar og koma í veg fyrir tjón á henni. Ákvæðið nái jafnt til allra áfengisbirgja, innlendra sem erlendra, og óháð því hvort um innlenda eða erlenda framleiðslu er að ræða. Stefndu benda á að vöruhús ÁTVR hafi beinlínis verið hannað með EUR-vörubretti í huga. Þá benda stefndu á að undanþága sé gerð hvað smærri vörusendingar varðar til þess að tryggja jafnræði birgja. Því er mótmælt af hálfu stefndu að auðveldara sé fyrir innlenda en erlenda birgja að afla sér notaðra bretta gegn vægara verði, en ekkert liggi fyrir í málinu um verð á brettum, notuðum og nýjum, hvorki hérlendis né í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Að lokum er vísað til þess að heimilt sé að nota önnur vörubretti sem uppfylli sömu lágmarkskröfur og séu birgjar því ekki þvingaðir til að kaupa sérstaka tegund vörubretta.
III.
Niðurstaða
Málatilbúnaður stefnanda í máli þessu er að verulegu leyti reistur á því að stefndu hafi brotið gegn ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. samnefnd lög nr. 2/1993. Nánar tiltekið telur stefnandi annars vegar að þær reglur ÁTVR, sem áður greinir, feli í sér ráðstafanir sambærilegar við magntakmarkanir í skilningi 11. gr. samningsins og verði þessar takmarkanir hvorki réttlættar með vísan til hlutrænna sjónarmiða né þeirra ástæðna sem greinir í 13. gr. samningsins. Leiði af þessu að viðskiptahættir ÁTVR, sem ríkiseinkasölu, séu andstæðir 16. gr. samningsins. Stefnandi telur einnig að umræddar reglur ÁTVR feli í sér brot á ákvæðum 53. og 54. gr. samningsins, sbr. 59. gr. samningsins.
Að mati dómara liggur nægilega fyrir að skýring framangreindra ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hefur raunverulega þýðingu fyrir kröfu stefnanda og þar með úrslit málsins. Þá er það álit dómara að staðreyndir málsins liggi nægilega fyrir á þessu stigi málsins svo að til greina komi að óska eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins samkvæmt lögum nr. 21/1994.
Af 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, svo og EES-samningnum í heild, verður dregin sú ályktun að dómari aðildarríkis skuli ekki óska eftir ráðgefandi áliti um skýringu EES-reglna nema fyrir hendi sé réttlætanlegur vafi um túlkun þessara reglna með hliðsjón af fyrirliggjandi sakarefni. Þótt dómara sé ljóst að fyrir hendi séu fordæmi EFTA-dómstólsins um skýringu þeirra ákvæða sem að framan greinir, svo og fjölmörg fordæmi Evrópudómstólsins sem taka ber tillit til samkvæmt 6. gr. EE-samningsins, er það álit hans að þessi fordæmisréttur taki ekki af tvímæli um skýringu umræddra ákvæða með hliðsjón af sakarefni málsins. Samkvæmt framangreindu telur dómari nægilegt tilefni til þess að afla ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins með þeim hætti sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Leitað verður ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um eftirfarandi atriði: Er ríkisfyrirtæki, sem hefur einkaleyfi til smásölu á áfengi, heimilt að krefjast þess af birgjum sínum, að þeir afhendi fyrirtækinu áfengi til smásölu á sérstakri gerð vörubretta (EUR-vörubrettum) og jafnframt krefjast þess að verð vörubrettis sé innifalið í vöruverði, sbr. annars vegar 11. gr. og 16. gr. EES-samningsins og hins vegar 59. gr., sbr. einkum a. lið 54. gr., EES-samningsins?