Hæstiréttur íslands

Mál nr. 570/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


                                     

Þriðjudaginn 1. september 2015.

Nr. 570/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(enginn)

Kærumál. Farbann.

Fallist var á kröfu L um að X yrði bönnuð brottför af landinu um nánar tilgreindan tíma enda væri fullnægt skilyrðum 1. mgr. 100. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. ágúst 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. ágúst 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 25. september 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til þeirra atriða sem greinir í hinum kærða úrskurði er fallist á að fullnægt sé skilyrðum til að varnaraðili sæti farbanni. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. ágúst 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gerir þá kröfu að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...] verði gert að sæta farbanni, allt til föstudagsins 25. september 2015 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsaki nú ætlað brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Upphaf málsins sé tilkynning sem lögreglu hafi borist þann 19. ágúst sl. frá A um að reynt hafi verið að panta fartölvu í gegnum netverslun verslunarinnar á nafnið [...] þar sem gefin hafi verið upp kennitala sem hafi ekki staðist og varan því ekki verið send. Í pöntuninni hafi komið fram að varan hafi átt að sendast að [...] hér í borg.

Í kjölfarið hafi lögregla leitað upplýsinga frá færsluhirðingjafyrirtækjum og hafi orðið þess vísari að fleiri pantanir höfðu verið gerðar í netfyrirtækjum hérlendis sem sendast hafi átt áttu á sama heimilisfang. Þann 20 ágúst sl. hafi lögregla fengið tilkynningu um að vara hafi verið pöntuð á sama nafn og heimilisfang í gegnum netverslun B og greitt fyrir með stolnum greiðslukortaupplýsingum. Þar sem grunur hafi leikið á fjársvikum hafi lögregla látið sendingaraðila afhenda annan pakka og í kjölfar viðtöku hans að [...] þann 21. ágúst sl. hafi sakborningur þar verið handtekinn ásamt 2 öðrum og hafa þeir allir stöðu sakborninga í málinu.

Í kjölfarið, að fengnu samþykki, hafi verið framkvæmd húsleit á vettvangi. Við hana hafi fundist ýmsar vörur óuppteknar í umbúðum sem búið hafi verið að pakka ofan í ferðatösku, sjá nánar í munaskýrslu, og fartölvur sem talið sé að tilheyri sak­born­ingum, allt sem lögregla hafi haldlagt. [...] sé leiguhúsnæði á vegum vef­síð­unnar [...] og enginn sakborninga því búsettur þar. Við leit í hús­næð­inu hafi það borið þess merki að einungis 3 menn dveldust þar og sömu upp­lýs­ingar hafi fengist frá leigusalanum auk þess sem lögregla hafði fylgst með hús­næð­inu áður en til handtöku hafi komið og hafi ekki orðið vör við að fleiri dveldust í hús­næð­inu.

Er lögreglumenn höfðu fyrst afskipti af sakborningum sögðu þeir að með þeim hefði verið fjórði maðurinn en gátu ekki gefið upplýsingar um hann. Í fram­burðar­skýrslum hjá lögreglu í kjölfar handtöku sakborninga, svo og einnig í síðari yfir­heyrslum, hafi komið fram misræmi varðandi veru þessa fjórða manns sem lögregla telji ásamt öðru að bendi til þess að sé tilbúningur og vísast nánar til gagna málsins.

Aðspurðir um vörurnar, sem lögreglu gruni að hafi verið pantaðar í gegnum net­verslanir og greitt fyrir með stolnum greiðslukortaupplýsingum, sagðist í fyrstu enginn sakborninga kannast við þær né á hvers vegum þær voru. Einnig hafi verið ósam­ræmi í framburði þeirra er lúti að greiðslu fyrir ferðalag þeirra hingað til lands en í síðari skýrslutökum hafi 2 sakborningar bent á þann þriðja sem greiðanda fyrir flug­för, bílaleigubifreið og gistingu sakborninga hérlendis.

Aðspurður um þetta hafi einn sakborninga viðurkennt í skýrslutöku hjá lög­reglu að hafa komist yfir stolnar greiðslukortaupplýsingar í gegnum ákveðna heima­síðu á internetinu og hafa skipulagt ferð til Íslands þar sem þar hafi verið eini staður­inn sem ekki hafi farið fram á öryggisnúmer við pantanir á vörum með greiðslu­kortum í gegnum internetið. Sagðist hann hafa borgað flugförin, bifreiðina og leiguna á hús­næð­inu svo og borgað fyrir vörurnar með stolnum greiðslu­korta­upp­lýsingum. Sagði hann þátt annarra sakborninga vera minniháttar en að þeir hefðu verið með­vitaðir um brotin.

Rannsókn lögreglu sé ekki að fullu lokið og enn eigi eftir að afla gagna vegna málsins.

Sakborningur sé útlendingur og hafi engin sérstök tengsl við landið og telji því lög­regla að ef hann gangi laus mun hann reyna að komast úr landi til að komast undan mál­sókn eða fullnustu refsingar og telji lögregla því nauðsynlegt að tryggja nærveru hans á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir yfirvöldum hér á landi og því nauðsyn­legt að honum verði gert að sæta farbanni þar til mál hans sé til lykta leitt.

Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, 248. gr. almennra hegningar­laga og b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 telji lögreglustjóri nauðsynlegt að sakborningi verði gert að sæta farbanni til föstu­dags­ins 25. september 2015, kl. 16.00.

Niðurstaða:

                Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rann­sakar nú brot varnaraðila gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hann kom hingað til lands 18. ágúst sl. ásamt bróður sínum Y en þeir eru báðir búsettir í [...]. Y hefur hjá lögreglu og fyrir dómi játað að hafa útvegað sér númer stolinna greiðslukorta og notað þær upp­lýs­ingar til þess að greiða fyrir húsnæði hér á landi, bílaleigubíla og fyrir vörur sem hann pantaði af heima­síðum.

                Varnaraðili neitar að hafa vitað nokkuð um hvað bróðir hans Y aðhafðist hér eða hver tilgangur ferðarinnar hefði verið þótt Y hafi greitt fyrir allt fyrir þá báða: flugfar, húsnæði og bílaleigubíl en Y vinnur á lyftara í vöruhúsi. Þrátt fyrir þann framburð varnaraðila að hann vissi ekki neitt um neitt báru bræðurnir báðir, þegar þeir voru ásamt yngri frænda þeirra handteknir 21. ágúst sl., að fjórði maðurinn Z hefði verið með þeim í húsnæðinu sem þeir leigðu.

                Þegar Y gaf skýrslu hjá lögreglu í dag greindi hann frá því að hann hefði fundið ökuskírteini Z og pantað allar vörurnar í hans nafni en Z hefði aldrei verið með þeim í húsnæðinu.

                Þegar litið er til þess að bræðurnir báru báðir fyrir sig í fyrstu að þeir munir sem fundust í húsinu væru allir í eigu sama mannsins sem hefði dvalið með þeim í hús­inu eða heimsótt þá og þeir gáfu honum báðir sama nafnið þykja líkur fyrir því að þeir hafi rætt um það hvernig skyldi bregðast við kæmist upp um athafnir Y. Því þykir fyrir hendi rök­studdur grunur um að varnaraðili hafi vitað hver væri til­gangur ferðar þeirra til Íslands og þar með rök­studdur grunur um þátttöku hans í broti bróður síns. Því er uppfyllt skil­yrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

                Varnaraðili er [...]  ríkisborgari en býr í [...] og á þar kærustu. Varn­ar­aðili hefur engin tengsl við Ísland. Fallist er á það með sóknaraðila að ætla megi að varnaraðili muni reyna að koma sér úr landi og þannig leitast við að koma sér undan málsókn vegna brotsins. Skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 eru því einnig fyrir hendi, sbr. 100. gr. sömu laga.

                Rannsókn málsins er ekki lokið. Varnaraðili krefst þess til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími en fjórar vikur enda eigi lögregla ekki eftir að afla umfangs­mikilla gagna.

                Ráðstöfun á borð við farbann má standa samfleytt lengur en í fjórar vikur, sbr. gagn­ályktun frá 1. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008. Raunar er ekki þörf á því að marka far­banni ákveðinn tíma, þótt ekkert sé því til fyrirstöðu að það sé gert. Aflétta ber far­banni jafnskjótt og ekki er lengur þörf á því. Þegar litið er til þessa verður fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði bönnuð brottför af landinu þó eigi lengur en til föstudagsins 25. september 2015 kl. 16:00.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir settur héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, X kt. [...], skal sæta farbanni, allt til föstudagsins 25. september 2015, kl. 16:00.