Hæstiréttur íslands

Mál nr. 680/2013


Lykilorð

  • Skjalafals
  • Vegabréf


Dómsatkvæði

Fimmtudaginn 9. október 2014.

Nr. 680/2013.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

Safar Ali Nazari

(Ásbjörn Jónsson hrl.)

Skjalafals. Vegabréf.

Í samræmi við játningu S, afgansks ríkisborgara, var hann sakfelldur fyrir skjalafals samkvæmt 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa við vegabréfaskoðun við komu til landsins framvísað fölsuðu vegabréfi. Við ákvörðun refsingar, sem var ákveðin 30 daga fangelsi, var litið til þess að ákærði gekkst við brotinu og að ekkert lægi fyrir um að hann hefði áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Með hliðsjón af aldri ákærða og dómvenju þóttu á hinn bóginn ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. október 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu og refsingu ákærða.

Ákærði krefst þess að tildæmd refsing hans verði skilorðsbundin.

Eins og greinir í héraðsdómi unnu tveir tannlæknar rannsókn á grundvelli tannfræðilegra gagna um ákærða til aldursgreiningar hans. Var það mat þeirra að ákærða væri eldri en tvítugur og sennilega nær þrítugu. Töldu tannlæknarnir nánast útilokað að uppgefinn aldur, 17 ár og tveir mánuðir miðað við fæðingardag [...], stæðist. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð rannsókn norsks læknis frá 29. nóvember 2012 á aldri ákærða. Samkvæmt henni var ákærði á þeim tíma talinn vera 18 ára en hann gæti þó bæði verið yngri og eldri. Þó væri útilokað að hann væri yngri en 16 ára og uppgefinn aldur, 16 ár og fjórir mánuðir miðað við fyrrgreindan fæðingardag, væri ekki útilokaður en ósennilegur.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Safar Ali Nazari, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 262.846 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Ásbjörns Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 7. október 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni 27. september 2013, á hendur Safar Ali Nazari, sagður vera fæddur [...] 1996, afgönskum ríkisborgara, fyrir skjalafals, með því að hafa, þann 28. ágúst 2013, framvísað við landamæralögreglu í flugstöð Leifs Eiríkssonar, í blekkingarskyni, er hann var á leið til Toronto í Kanada með flugi FI603, breytifölsuðu vegabréfi nr. JR3161314 frá Suður-Kóreu, á nafni [...], f.d. [...], útgefnu þann 18.03.2009 með gildistíma til 18.03.2019. 

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. 

Um málavaxtalýsingu er skírskotað til ákæru.

Ákærði játaði brot sitt skýlaust fyrir dóminum eins og því er lýst í ákæru. Þykir með játningu ákærða, sem á sér stoð í öðrum gögnum málsins, sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir og er brot ákærða rétt heimfært til refsiákvæða í ákærunni. Ákærði krafðist vægustu refsingar sem lög leyfa og jafnframt að hún verði skilorðsbundin í ljósi aldurs hans og játningar.

Í málinu liggur ekki fyrir sakavottorð. Engar upplýsingar liggja fyrir um það hvort ákærði hefur áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Í gögnum málsins liggur fyrir rannsókn tannfræðilegra gagna vegna aldursgreiningar ákærða. Segir í matinu: „Við mat á aldri af aðstæðum í munni og klínískri reynslu teljum við hann geti verið á aldursbilinu 25-35 ára.“  Þá segir einnig í forsendum: „Allir endajaxlar eru fullmyndaðir og með lokaðar rætur og samkvæmt aðferð Kullman með þroskastig Ac eða 7, og aldurinn því a.m.k. 19.2 ár og staðalfrávik 1.0 ár. Samkvæmt aðferð Liversidge er aldurinn 19.53 ár og staðalfrávik 1.08 ár og aðferð Mincer 20.35 ár og staðalfrávik 2.03 ár. Ef tekin eru meðaltöl þessara þriggja aðferða fæst að aldurinn er að minnsta komist 19.7 ár og staðalfrávik 1.4 ár.“ Í niðurstöðum matsins segir að það sé mat þeirra að ákærði sé eldri en tvítugur og sennilega nær þrítugu. Telja þeir nánast útilokað að uppgefinn aldur, sautján ár og tveir mánuðir standist.

Með hliðsjón af ofangreindu og þrátt fyrir staðalfrávik ákærða í hag, verður að telja að hann sé allavega orðinn átján ára gamall.

Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði hefur gengist við broti sínu. Þá er litið til þess að ekkert liggur fyrir um það að ákærði hafi áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Með hliðsjón af framangreindu og dómaframkvæmd þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Með hliðsjón af áralangri dómvenju og aldri ákærða þykja ekki vera efni til að skilorðsbinda refsinguna. Þá bera að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar sbr. 218. gr. laga nr. 88/2008, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Snorra Snorrasonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 150.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóm þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Dómsorð:

Ákærði,  Safar Ali Nazari, afganskur ríkisborgari, skal sæta fangelsi í 30 daga.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Snorra Snorrasonar hdl. 150.600 krónur.