Hæstiréttur íslands

Mál nr. 237/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Málshöfðunarfrestur
  • Frávísun frá héraðsdómi


Föstudaginn 27. maí 2011.

Nr. 237/2011.

Innheimtustofnun sveitarfélaga

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

gegn

A

(sjálfur)

Kærumál. Fjárnám. Málshöfðunarfrestur. Frávísun máls frá héraðsdómi.

I kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu I um að máli hans gegn A yrði vísað frá dómi og úrskurð héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa A um að fellt yrði úr gildi fjárnám sem sýslumaðurinn í R gerði hjá A 16. febrúar 2010 fyrir kröfu I. Í dómi Hæstaréttar kom fram að fyrir lægi í málinu að þing hefði verið sótt af hálfu I þegar fyrri úrskurðurinn var kveðinn upp og væri kærufrestur því liðinn. Þegar af þeirri ástæðu gæti kæra I ekki komið til frekari álita að því er þann úrskurð varðaði en það fengi því þó ekki breytt að til aðalkröfu hans fyrir Hæstarétti yrði að taka afstöðu að því leyti sem hún væri reist á atriðum sem dóminum bæri að taka afstöðu til af sjálfsdáðum. Fram kæmi í hinum kærða úrskurði að A hefði í september 2010 leitað úrlausnar héraðsdóms um gildi fjárnámsins. Frestur samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför hefði verið löngu liðinn þegar krafa A barst héraðsdómi. I hafi ekki lýst sig því samþykkan að leyst yrði að efni til úr kröfu A fyrir dómi. Þá hefði A ekki fært fram neinar haldbærar ástæður fyrir því að afsakanlegt gæti talist að krafa hans um úrlausn dómsins hefði ekki borist innan frestsins en fyrir lægi af gögnum málsins að honum hefði orðið kunnugt um fjárnám fyrir kröfu I ekki síðar en 3. maí 2010. Þegar af þessum sökum var málinu af sjálfsdáðum vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærðir eru úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi, og 1. apríl sama ár, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum 16. febrúar 2010 fyrir kröfu sóknaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför með áorðnum breytingum. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hafnað verði kröfu varnaraðila um að fyrrgreint fjárnám verði fellt úr gildi. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili „ítrekar gerðar kröfur fyrir héraðsdómi þess efnis að fjárnám það sem gert var af hálfu sóknaraðila þann 16. febrúar 2010 ... verði fellt úr gildi“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

I

Fyrir liggur í málinu að sótt var þing af hálfu sóknaraðila þegar áðurnefndur úrskurður var kveðinn upp í héraðsdómi 25. febrúar 2011 og var kærufrestur samkvæmt 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, því liðinn 11. apríl sama ár. Þegar af þeirri ástæðu getur kæra sóknaraðila ekki komið til frekari álita að því er varðar þann úrskurð, en það fær því ekki breytt að til aðalkröfu hans fyrir Hæstarétti verður að taka afstöðu að því leyti, sem hún er reist á atriðum sem dóminum ber að taka afstöðu til af sjálfsdáðum.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemst því ekki að fyrir Hæstarétti krafa hans um endurskoðun á ákvæði úrskurðarins um málskostnað.

II

Samkvæmt gögnum málsins barst sýslumanninum í Reykjavík 2. nóvember 2009 beiðni sóknaraðila um að gert yrði fjárnám hjá varnaraðila fyrir skuld að höfuðstóli samtals 862.348 krónur, en kröfuna taldi sóknaraðili nema samtals 946.950 krónum að meðtöldum áföllnum vöxtum og kostnaði. Að undangenginni árangurslausri tilraun til að boða varnaraðila til fjárnáms 1. desember 2009 tók sýslumaðurinn gerðina fyrir 16. febrúar 2010 á lögheimili varnaraðila, sem ekki mætti til hennar, og gerði þar fjárnám annars vegar í bifreið með tilteknu skráningarnúmeri og hins vegar eignarhluta hans í nánar tilgreindri fasteign.

Í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 er mælt fyrir um heimild aðila að aðfarargerð til krefjast úrlausnar héraðsdóms um gildi gerðarinnar, en krafa um slíka úrlausn verður að berast dóminum innan átta vikna frá því að gerðinni er lokið. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar verður ágreiningur um aðfarargerð, sem lokið hefur verið, ekki lagður fyrir héraðsdóm að liðnum þessum fresti nema aðilar séu á það sáttir, afsakanlegt sé að málið hafi ekki verið lagt fyrir dóm í tæka tíð eða ágreiningur rísi um gerðina í tengslum við kröfu gerðarbeiðanda um frekari fullnustugerð. Í hinum kærða úrskurði frá 1. apríl 2011 segir að varnaraðili hafi „í september 2010“ leitað úrlausnar héraðsdóms um gildi fjárnámsins, sem um ræðir í málinu. Leggja verður þetta til grundvallar, en bréf varnaraðila, sem dómurinn virðist telja hafa falið það erindi í sér, er hvorki dagsett né áritað um móttökudag. Af þessu er ljóst að frestur samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 var löngu liðinn þegar krafa varnaraðila mun hafa borist héraðsdómi. Sóknaraðili hefur ekki lýst sig samþykkan því að leyst verði að efni til úr kröfu varnaraðila fyrir dómi. Þá hefur varnaraðili ekki fært fram neinar haldbærar ástæður fyrir því að afsakanlegt geti talist að krafa hans um úrlausn dómsins hafi ekki borist innan frestsins samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði, en fyrir liggur af gögnum málsins að honum hafi orðið kunnugt um fjárnám fyrir kröfu sóknaraðila ekki síðar en 3. maí 2010. Þegar af þessum sökum verður málinu af sjálfsdáðum vísað frá héraðsdómi.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Varnaraðili, A, greiði sóknaraðila, Innheimtustofnun sveitarfélaga, samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2011.

Með tilkynningu móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. september sl. var þessu máli skotið til dómsins. Sóknaraðili, A, krefst þess að aðfarargerð sýslumannsins í Reykja­vík, sem fram fór 16. febrúar 2010, verði felld úr gildi og afmáð úr fasteignabók.

Varnaraðili, Innheimtustofnun sveitarfélaga, krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að kröfu sóknaraðila verði hafnað þannig að fjárnám sem gert var í fasteign sóknaraðila að [...], með fastanúmerið [...], standi óhaggað. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Málið var tekið til úrskurðar um kröfu varnaraðila um frávísun þess frá dómi 18. febrúar sl.

Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um frávísun málsins verði hafnað.

Málsatvik

Ágreiningur þessa máls varðar fjárnám sem varnaraðili, Innheimtustofnun sveitarfélaga, lét gera hjá sóknaraðila 16. febrúar 2010 vegna skuldar hans við varnaraðila vegna vangoldinna meðlagsgreiðslna með tveimur börnum sóknaraðila.  Höfuðstóll aðfararbeiðninnar nam 946.950 krónum og var til tryggingar greiðslu hans og áfallins kostnaðar gert fjárnám í fasteigninni [...], fastanúmer [...] og bifreiðinni [...], nr. [...]. Sóknaraðili leitaði úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um gildi aðfarargerðarinnar í september 2010 en leitaði jafnframt samkomulags við varnaraðila. Að beiðni sóknaraðila var fjárnámi í bifreiðinni aflýst 15. nóvember 2010. Málið var þingfest 7. janúar 2011 og sóknaraðili lagði fram greinargerð sína í þinghaldi 21. janúar 2011.

Málsástæður og lagarök varnaraðila fyrir kröfu um frávísun

Varnaraðili styður kröfu sína um vísun málsins frá dómi á því að lögboðinn frestur samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför (AFL) hafi verið liðinn þegar sóknaraðili hafi krafist úrlausnar héraðsdómara um gildi aðfarargerðarinnar. Í tilvitnuðu ákvæði sé gerðarþola veitt heimild til að krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerð innan átta vikna frá því gerðinni lauk. Fjárnámið hafi verið gert 16. febrúar 2010, en sóknaraðili hafi ekki krafist úrlausnar héraðsdómara fyrr en 3. september 2010, rúmum 6 mánuðum eftir lok aðfarargerðarinnar. Telur varnaraðili að þetta leiði til þess að héraðsdómara beri að vísa málinu frá dómi.

Varnaraðili vísar einnig til þess að ákvæði 2. mgr. 92. gr. AFL heimili undan­þágu frá tímamörkunum séu þau skilyrði uppfyllt sem rakin séu í ákvæðinu. Þar komi til álita að héraðsdómari telji afsakanlegt að málefnið hafi ekki verið lagt fyrir hann í tæka tíð. Við afmörkun og skýringu þess hvað teljist afsakanlegt í þessu sambandi megi styðjast við ummæli löggjafans í greinargerð með lögunum, en þar segi að slíkt geti átt við hafi viðkomandi ekki borist vitneskja um gerðina innan átta vikna frestsins og hann hafi þannig ekki geta komið kröfu sinni að tímanlega. Jafnframt sé rakið að eigi slíkt við verði viðkomandi að koma að kröfu sinni án ástæðulauss dráttar eftir að honum hafi borist vitneskja um gerðina. Hvorki í lögunum né skýringum með þeim sé vikið að því að taka megi í þessu sambandi tillit til annarra atvika er varða gerðarþola, til dæmis að gerðarþoli hafi þurft tíma til að leita úrlausnar sinna mála í stjórnsýslunni eða að stjórnvöld hafi ekki gætt upplýsingaskyldu sinnar. 

Varnaraðili mótmælir þeim málsástæðum sóknaraðila að varnaraðila hafi borið að leiðbeina honum um heimild til að kæra fjárnámið til héraðsdóma á grundvelli leiðbeiningarskyldu stjórnvalda.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðila hafi verið fullkunnugt um að fjárnám hafi verið gert í eigum hans og hefði hæglega geta lagt fram kröfuna í tæka tíð, án ástæðu­lauss dráttar. Hafi sýslumaðurinn í Reykjavík sent varnaraðila bréflega tilkynningu í almennum pósti um að fjárnámið hafi farið fram og afleiðingar þess strax eftir fram­kvæmd þess. Sóknaraðili hafi auk þess leitað til Innheimtustofnunar sveitarfélaga 3. maí 2010 og óskað eftir því að stofnunin aflétti aðfararveði af fast­eign­inni. Því sé ljóst að á þeim tímapunkti hafi honum verið fullkunnugt um tilvist fjárnámsins, en frá þeim tíma hafi liðið fjórir mánuðir þar til sóknaraðili hafi kært framkvæmd fjárnáms­ins. Auk þess telur varnaraðili málatilbúnað sóknaraðila ruglingslegan og samhengis­lausan.

Þegar allt framangreint sé virt telji varnaraðili að vísa eigi málinu frá dómi.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila fyrir því að hafna beri kröfu um frávísun

Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um vísun málsins frá dómi verði hafnað og málið tekið til efnismeðferðar. Vísar hann einkum til þess að samkvæmt 92. gr. laga nr. 90/1989 hafi dómari svigrúm til að víkja frá átta vikna fresti ákvæðisins. Jafnframt bendir hann á að fram komi í greinar­gerð með ákvæðinu að ekki séu neinar takmarkanir á því hversu lengi eftir lok aðfarar­gerðar megi reyna að afla úrlausnar héraðsdómara eftir undantekningu 2. mgr. ákvæðisins.

Sóknaraðili vísar einnig til þess að það hafi ekki verið fyrr en á fundi með varnaraðila að hann hafi áttað sig á því að boðun til fjárnámsins hafi verið áfátt og ekki hafi verið gætt réttra reglna við boðun þess. Aldrei hafi búið að [...], á [...] [...] [...] [...], kona að nafni B, sem sagt sé á birtingar­vottorði að boðun í fjárnámið hafi verið birt fyrir. Sýslumaður hafi auk þess ekki verið búinn að senda aðfararbeiðnina í lögregluboðun þegar fjárnámið hafi farið fram. Þar sem ágalli hafi verið á boðun til fjárnámsins hafi sóknaraðili ákveðið að bera aðfarargerðina undir héraðsdóm. Þar sem hann hafi áttað sig á þessu að kæru­fresti liðnum hafi hann ekki borið málið undir héraðsdóm innan átta vikna frestsins. Telur hann það skjóta skökku við að varnaraðili, sem hafi ekki bent sóknar­aðila á að bera þyrfti fjárnámið undir dóm innan átta vikna frá því að það fór fram ætli síðan að byggja á því að sóknaraðili hafi borið málið of seint undir dóminn.

Niðurstaða

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Byggir hann þá kröfu á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 2. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför fyrir því að bera ágreining um aðfarargerð undir dóm eftir að átta vikna frestur samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins er liðinn.

Meðal þeirra gagna sem lögð voru fram með beiðni sóknaraðila um úrlausn héraðsdóms er tölvuskeyti, dagsett 16. júní 2010, frá starfsmanni sýslumanns þar sem sóknaraðila er leiðbeint um það að hann geti krafist úrlausnar héraðsdómara um ágreining eftir lok aðfarargerðarinnar. Í skeytinu segir að gæta verði að tíma­mörkum en ekki er talað um að bera verði aðfarargerð undir dómara innan átta vikna eftir að gerðinni er lokið.

Þegar málið barst dómara í september 2010 var það mat hans, á grundvelli þeirra gagna sem þá lágu fyrir, að réttlætanlegt væri að beiðnin hefði borist dóminum eftir að átta vikna fresturinn var liðinn enda lá ekki annað fyrir en að sóknaraðila hefði fyrst orðið kunnugt úrræði 92. gr. aðfararlaga 16. júní það ár en honum þá ekki jafnframt gerð grein fyrir því að hann yrði að bregðast við án ástæðulauss dráttar. Sóknaraðili er ólöglærður og að mati dómsins verður að taka sérstakt tillit til þess við meðferð dómsmála gefi viðeigandi lagaákvæði á annað borð kost á svigrúmi til slíks. Þykir við mat í þessu efni ekki hafa úrslitaþýðingu hvenær honum varð kunnugt um fjárnámið heldur það að honum virðist ekki hafa verið gerð grein fyrir því hver fresturinn til að bera málið undir dóminn væri.

Að mati dómsins var því afsakanlegt að málið var ekki lagt fyrir hann í tæka tíð. Verður kröfu sóknaraðila því ekki vísað frá dómi á þeim grunni að hún hafi borist eftir að átta vikna frestur samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 var runninn út.

Varnaraðili byggir frávísunarkröfu sína einnig á því að málatilbúnaður sóknar­aðila sé ruglingslegur og samhengislaus. Fallast má á það með varnaraðila að mála­tilbúnaður sóknaraðila hefði að ósekju mátt vera örlítið hnitmiðaðri. Hér verður þó að líta til þess að sóknaraðili er ólöglærður og jafnframt þess að ekki verður séð að málatil­búnaður sóknaraðila komi í veg fyrir að varnaraðili geti gripið til fullnægjandi varna. Kröfu sóknaraðila verður því ekki heldur vísað frá dómi af þeim sökum að málatilbúnaður hans sé ekki nægjanlega vandaður.

Tekin verður afstaða til málskostnaðar í efnisþætti málsins.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er þeirri kröfu varnaraðila, Innheimtustofnunar sveitarfélaga, að kröfu sóknaraðila, A, á hendur varnaraðila verði vísað frá dómi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2011.

Með tilkynningu móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. september sl. var þessu máli skotið til dómsins. Sóknaraðili, A, krefst þess að aðfarar­gerð sýslumannsins í Reykja­vík, sem fram fór 16. febrúar 2010, verði felld úr gildi og afmáð úr fasteignabók. Enn fremur krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

 Varnaraðili, Innheimtustofnun sveitarfélaga, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað þannig að fjárnám sem gert var í fasteign sóknaraðila að [...], með fastanúmerið [...], standi óhaggað. Að auki krefst varnaraðili málskostn­aðar úr hendi sóknaraðila.

 Málið var tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi 3. mars sl.

Málsatvik

Ágreiningur þessa máls varðar fjárnám sem varnaraðili, Innheimtustofnun sveitarfélaga, lét gera hjá sóknaraðila 16. febrúar 2010 vegna skuldar hans við varnar­aðila vegna vangoldinna meðlagsgreiðslna með tveimur börnum sínum. Greiðslu­áskorun varnaraðila var birt á lögheimili sóknaraðila fyrir B 26. ágúst 2009, kl. 12.28. Í birtingarvottorði kemur fram að B búi á [...] [...] [...] [...]. Hún neiti að taka við áskoruninni en birtingarvottorðið sé skilið eftir. Sóknar­aðili kveðst aldrei hafa fengið greiðsluáskorunina og hafi hann ekkert um hana vitað. Varnaraðili sendi sýslumanni 27. október 2009 til meðferðar aðfararbeiðni vegna skuldar sóknaraðila. Samkvæmt framlögðu birtingarvottorði, dagsettu 25. nóvember 2009, var reynt að birta, á lögheimili sóknaraðila, kl. 20.13, boðun í fjárnám sem átti að fara fram 1. desember. Á vottorðinu stendur að sóknaraðili sé fluttur og ekki vitað hvert. Þessi fullyrðing í birtingarvottorðinu mun þó ekki hafa átt við rök að styðjast. Samkvæmt framlagðri yfir­lýs­ingu deildarstjóra fullnustudeildar sýslu­manns­ins í Reykjavík var málinu úthlutað í lögreglu­boðun 2. desember 2009. Fram­lögð gögn sýna að lögreglan fékk málið aldrei sent frá sýslumannsembættinu. Boðun varnaraðila í fjárnám fyrir milligöngu lögreglu hafði ekki farið fram þegar málinu var lokið með fjárnámi 16. febrúar 2010.

 Að kvöldi 16. febrúar 2010 fóru fulltrúi sýslumanns og fulltrúi varnaraðila að lögheimili sóknaraðila. Hann hittist þar ekki fyrir né nokkur sem gat tekið málstað hans. Í gerðabók sýslumanns er bókað að skilyrðum 24. gr. laga nr. 90/1989 sé fullnægt til að gerðin fari fram þótt ekki sé mætt fyrir gerðarþola.

 Höfuðstóll aðfararbeiðninnar nam 862.348 krónum og var til tryggingar greiðslu hans, áfallinna vaxta og áfallins kostnaðar, samtals 946.950 króna, gert fjárnám í fasteigninni [...], fastanúmer [...] og bifreiðinni [...], nr. [...].

 Sóknaraðili leitaði úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um gildi aðfarargerðar­innar í september 2010 en leitaði jafnframt samkomulags við varnar­aðila. Að beiðni sóknaraðila var fjárnámi í bifreiðinni aflýst 15. nóvember 2010. Þrátt fyrir þetta vildi sóknaraðili láta reyna á gildi aðfarargerðarinnar þar sem hann taldi boðun í fyrirtöku hennar hafa verið áfátt. Málið var þingfest 7. janúar 2011 og sóknaraðili lagði fram greinargerð sína í þinghaldi þann 21. janúar 2011.

 Varnaraðili freistaði þess að fá málinu vísað frá héraðsdómi þar sem það hefði borist dóminum löngu eftir að átta vikna frestur 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför var liðinn og ekki væru uppfyllt skilyrði 2. mgr. ákvæðisins til þess að víkja frá átta vikna frestinum. Þar sem ekki varð annað séð af framlögðum gögnum en sóknaraðila hefði fyrst 16. júní 2010 orðið kunnugt um það úrræði 92. gr. aðfararlaga að bera mætti lögmæti fjárnámsins undir héraðsdóm, en honum þá ekki jafnframt gerð grein fyrir því að hann yrði að bregðast við án ástæðulauss dráttar, var talið afsakanlegt að málið hefði ekki verið borið undir dóm innan tilskilins frests og að skilyrði 2. mgr. 92. gr. væru uppfyllt. Kröfu varnaraðila um vísun málsins frá héraðsdómi var því hafnað.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

 Sóknaraðili byggir kröfu sína um að aðfararveðið frá 16. febrúar 2010 verði fellt niður aðallega á því að ekki hafi á neinn hátt verið sinnt boðun til þeirrar aðfarargerðar.

 Vísar hann fyrst til þess að úr því að birtingarvotti hafi tekist að boða hann í þinghald vegna fyrirtöku beiðni um gjaldþrotaskipti á félagi í hans eigu sé óútskýrt hvers vegna stefnuvottur hafi ekki náð að birta honum boðun í fyrirtöku hjá sýslumanni.

 Sóknaraðili telur einnig óeðlilegt að sýslumaður hafi ekki nýtt sér heimild sína til lögregluboðunar samkvæmt 2. og 3. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Samkvæmt tölvupósti frá deildarstjóra embættis sýslumannsins í Reykjavík 13. janúar 2011 hafi fjárnámi verið úthlutað í lögregluboðun 2. desember 2009. Boðun hans, fyrir milligöngu lögreglu, hafi ekki farið fram þegar fjárnámi var lokið án hans vitundar 16. febrúar 2010. Sóknaraðili telur að auðvelt hefði verið að finna hann þar sem hann hafi ætíð sinnt rétti sínum og dætra sinna til umgengni. Hefði lögregla auðveldlega getað rakið ferðir sóknaraðila á grundvelli samkomulags um umgengni.

Þar fyrir utan sé sóknaraðili skráður í nám við [...] og hafi fulltrúi varnaraðila vitað af því frá þeim tíma þegar sóknaraðili lagði fram afrit staðfestingar Vinnumálastofnunar á atvinnuleysi áður en aðfarargerðin fór fram. Þar komi fram að sóknaraðili fái skertar bætur vegna náms við [...].

 Enn fremur hafi varnaraðila verið kunnugt um tölvupóstsamskipti sóknar­aðila við Vinnumálastofnun. Af þessum sökum hefði verið vandræðalaust að freista þess að ná sambandi við sóknaraðila í tölvupósti til að sammælast um birtingu boðunar.

 Sóknaraðili byggir á því að aðfarargerðin sem hann krefst að felld verði niður hafi ekki verið boðuð. Þau tilvik þar sem ljúka megi aðfarargerð án boðunar séu tæmandi talin í 3. málslið 3. mgr. 24. gr. laga nr. 89/1989. Þau séu í fyrsta lagi að ekki takist að hafa uppi á gerðarþola, meðal annars ekki með lögregluboðun, og í öðru lagi að hagsmunir gerðarbeiðanda leyfi ekki að gerð verði frestað frekar.

 Ekki hafi verið fullreynt að hafa samband við sóknaraðila með lögreglu­boðun. Ekki sé heldur hægt að líta svo á að hagsmunir varnaraðila hafi ekki þolað frekari bið. Fyrir því megi færa margvísleg rök. Í fyrsta lagi sé samband sóknaraðila við varnar­aðila langvinnt og megi ætla að það vari að minnsta kosti til 2023. Í öðru lagi hafi sóknaraðili verið í skilum með allar aðrar skuldbindingar sínar, til dæmis við Íbúðalánasjóð. Í þriðja lagi hafi verið nægilegt veðrými hjá sóknaraðila fyrir skuldum við varnaraðila og engin ástæða til að ætla að það brysti skyndilega. Í fjórða lagi sé varnaraðili innheimtustofnun með mikla fagkunnáttu og mikið bolmagn á sviði innheimtu og þar af leiðandi hafi síður en ella verið tilefni til að veita varnaraðila ívilnanir hjá sýslumanni eins og frjálsleg meðferð heimildar í 3. málslið 3. mgr. 24. gr. laga nr. 89/1990 verði að teljast. Sérstaklega beri að geta í þessu sambandi sérstakrar fullnustuheimildar varnar­aðila til að láta halda eftir hluta af launum sókn­araðila í 1. tölulið 7. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 um innheimtustofnun sveitarfélaga.

 Eins og sjá megi af gerðarbók sýslumanns hafi fulltrúi sýslumanns ekki gert neinar athugasemdir við ábendingar varnaraðila og hafi heimilað fjárnám í fasteign­inni að [...] með fastanúmerið [...] og bifreið [...]. Í 38. gr. laga um aðför sé mælt fyrir um að ekki skuli taka fjárnámi meira en það sem sýslumaður telji munu nægja til fullnustu kröfu gerðarbeiðanda. Vegna þessa bendir sóknaraðili á að samkvæmt fyrirliggjandi mati löggilts bílasala á bifreiðinni [...] sé verðmæti hennar fullnægjandi til að verða við kröfum varnaraðila. Á síðari stigum málsins hafi varnaraðili viðurkennt það með niðurfellingu fjárnáms á bifreiðinni.

 Sóknaraðili vísar einnig til 5. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1989 en þar segi að vísi gerðarþoli eða sá, sem málstað hans taki, ekki á eignir til fjárnáms, eða ekki sé neinn staddur við gerðina af hans hálfu, megi gerðarbeiðandi tiltaka þær eignir, sem fjárnám verði gert í. Sýslumaður skuli þá gæta þess að fjárnám sé að öðru jöfnu fyrst gert í þeim eignum, sem ætla megi að gerðarþoli eða heimilismenn hans geti helst verið án. Af því megi ætla að fulltrúa sýslumanns hafi borið skylda til að gera athugasemdir við fjárnám varnaraðila í fasteign sóknaraðila að [...] fastanúmer [...] þar sem það sé heimili sóknaraðila og að veðrými til fjárnáms í bifreið hafi fullnægt kröfum varnaraðila og bifreiðin verið eign sem sóknaraðili hafi frekar mátt vera án en þeirrar fasteignar sem sé heimili hans. Færa mætti rök fyrir því af hálfu varnaraðila að orðalagið „að öðru jöfnu“ gildi að jafnaði um veðhæfi íbúðar mót veðhæfi bifreiðar en sóknaraðili vill í því samhengi benda á að veðrými bifreiðarinnar hafi verið þrefalt andvirði höfuðstóls skuldar hans við varnaraðila og að fjárnám í því íbúðarhúsi þar sem sóknaraðili bjó þegar fjárnámið var gert teljist mun alvarlegri skerðing á lífsgæðum hans en fjárnám í bifreið. Margfalt veðrými bifreiðar geri það að verkum að fjárnám í bifreiðinni hefði hæglega mátt leggja að jöfnu við fjárnám í íbúð, þar af leiðandi hafi sýslumaður brugðist þeirri lögbundinni skyldu sinni að verja hagsmuni sóknaraðila í fjarveru hans. Auk þess bendir varnaraðili á oftöku eigna við fjárnáms­beiðni sína. Enda hafi varnaraðili, á síðari stigum málsins, fellt niður fjárnám sitt í bifreið við samningsgerð við sóknar­aðila.

 Sóknaraðili kveðst gera sér grein fyrir að skuldbindingar hans við varnaraðila byggi á lagaskyldu en ekki á samningi. Vegna þess áréttar sóknaraðili að varnaraðili sé opinber aðili og beri sem slíkur upplýsingaskyldu umfram einkaaðila og gera megi til hans kröfu um vandaða stjórnsýsluhætti. Sóknaraðili hafi hins vegar ekki beitt fyrir sig ábyrgðarbréfi eða annarri sannanlegri aðferð til að ganga úr skugga um að sóknaraðila væri kunnugt um breytingar á fyrri greiðslumáta. Sóknaraðili kveðst ósáttur við það verklag varnaraðila að hætta að senda greiðsluseðla þegar vanskil hafi staðið lengur en í þrjá mánuði. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa getað nýtt sér aðrar leiðir til sparnaðar sem þó hefðu fullnægt upplýsingaskyldu í samræmi við áður ákveðinn greiðslumáta, svo sem að fækka greiðsluseðlum niður í 6 mánaða tímabil eða skemur sem haldið hefðu kröfum varnaraðila vakandi á fullnægjandi hátt fyrir sóknaraðila með tilliti til upplýsingaskyldu varnaraðila sem opinbers aðila í samræmi við stjórnsýslulög og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins.

 Sóknaraðili telur varnaraðila og Sýslumanninn í Reykjavík ekki hafa gætt upplýsingaskyldu sinnar. Hafi henni verði svo ábótavant að réttur varnaraðila til að nýta sér ákvæði 92. gr. laga nr. 90/1989 hafi misfarist. Þegar sóknaraðili hafi leitað réttlátrar málsmeðferðar hjá varnaraðila hafi málsmeðferðin tekið svo langan tíma að átta vikna frestur heimildar um beiðni endurupptöku dómara hafi runnið út. Í ljósi upplýsingaskyldu varnaraðila og sýslumanns, sem beri samkvæmt lögum þessum sambærilega leiðbeiningaskyldu og héraðsdómari, hefðu þessar stofnanir átt að gera sóknaraðila grein fyrir möguleika hans samkvæmt 92. gr. laga nr. 90/1989 um málsskot til Héraðsdóms.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

 Varnaraðili vísar fyrst til þess að krafa hans sé lögmæt og fjárnámið hafi farið fram í samræmi við lög.

 Varnaraðili hafnar alfarið þeirri meginmálsástæðu sóknaraðila að ekki hafi verið sinnt boðun til aðfarargerðarinnar. Greiðsluáskorun samkvæmt 7. gr. laga um aðför hafi verið birt 26. ágúst 2009 samkvæmt a-lið 3. mgr. 85. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Birting greiðsluáskorunarinnar hafi því verið lögmæt. Sýslumanninum í Reykjavík hafi borist aðfararbeiðnin 2. nóvember 2009 og hafi hann reynt birtingu boðunar vegna fjárnáms 27. nóvember 2009, en sú birting hafi ekki tekist. Af þeim sökum hafi sýslumaður beitt heimild 24. gr. laga um aðför og lokið fjárnámi á skráðu lögheimili sóknaraðila 16. febrúar 2010, þar sem gerðarþoli hittist ekki fyrir né neinn sem gat tekið málstað hans.

 Vegna þeirrar málsástæðu sóknaraðila að óheimilt hafi verið að ljúka gerð samkvæmt 3. mgr. 24. gr. laga um aðför nema fyrst hafi verið reynd lögregluboðun bendir varnaraðili á að heimild sýslumanns til þess að ljúka gerð að kröfu varnaraðila á skráðu lögheimili sóknaraðila sé, að mati varnaraðila, ekki háð því að boðað hafi verið, fyrir milligöngu lögreglu, til gerðarinnar þar sem hagsmunir varnaraðila hafi ekki leyft að gerðinni yrði frestað frekar, enda hafi þá verið liðnir tæpir þrír og hálfur mánuður frá því sýslumaðurinn í Reykjavík móttók aðfararbeiðni varnaraðila. Gerðin hafi því uppfyllt skilyrði 3. mgr. 24. gr. laga um aðför.

 Varnaraðili hafnar þeirri málsástæðu sóknaraðila að varnaraðila hafi verið skylt að hafa uppi á sóknaraðila og tilkynna um fyrirhugað fjárnám, til að mynda með því að leita að honum í skólastofum [...] eða skrifstofum Vinnumála­stofnunar, enda hvíli slíkar skyldur ekki á varnaraðila lögum samkvæmt.

 Varnaraðili mótmælir einnig þeirri málsástæðu sóknaraðila að ógilda beri fjárnám í fasteign hans á þeim grundvelli að gert hafi verið fjárnám í fleiru en talið er nægja til fullnustu kröfu gerðarbeiðanda. Yrði fallist á þessa kröfu myndi það leiða til þess að sóknaraðili hefði enga tryggingu fyrir kröfum sínum. Varnaraðili bendir á að samkvæmt 5. mgr. 39. gr. laga um aðför hafi hann ábendingarrétt við fyrirtöku fjárnáms­gerðarinnar, þar sem sóknaraðili hafi ekki mætt til gerðarinnar, og bent á þær eignir er gera ætti fjárnám í.

 Fjárnámi hafi verið aflýst af bifreiðinni [...]. Eftir standi fjárnám í fasteign sóknaraðila að [...], Reykjavík. Verði fallist á kröfur sóknaraðila leiði það til þess að varnaraðili hafi í raun ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa máls þar sem fallist hafi verið á kröfur hans um afléttingu aðfararveðs af bifreiðinni. Varnaraðili telur að þegar val standi um tvær eignir er gera skuli fjárnám í, þá þurfi gerðarbeiðandi ekki að sæta því að gera fjárnám í því veði sem sé ótryggara. Aðfararveð í fasteign sé mun tryggara en í bifreið. Fjárnám í lausafé falli sjálfkrafa úr gildi að liðnu ári frá því það var gert, hafi nauðungarsölu ekki verið krafist innan þess tíma, sbr. 60. gr. laga um aðför. 

 Um fasteignir gildi ákvæði 37. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, en samkvæmt því falli réttaráhrif þinglýsingar á fjárnámi í fasteign ekki brott fyrr en full fimm ár séu liðin frá því að fjárnáminu var þinglýst, en hægt sé að framlengja þann frest með einfaldri tilkynningu. Einnig sé eðli málsins samkvæmt mun auðveldara að koma lausafé undan nauðungar­sölu en fasteign. Varnaraðili bendir á að það sé til hagsbóta fyrir sóknaraðila að gera fjárnám í fasteign hans þar sem svigrúm til samninga væri minna ef fjárnám stæði í bifreiðinni, þar sem þá þyrfti að senda uppboðsbeiðni til sýslumanns innan árs. Tilvísun sóknaraðila til lokamálsliðar 5. mgr. 39. gr. aðfararlaga geti ekki leitt til þess að varnaraðila hefði verið óheimilt að gera fjárnám í fasteign sóknaraðila

 Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til ákvæða laga um Innheimtu­stofnun sveitarfélaga nr. 54/1971, einkum 5. gr., laga um aðför nr. 90/1989, einkum 24. og 39. gr. og laga um meðferð einkamála nr. 90/1991. Kröfu sína um málskostnað byggir varnaraðili á ákvæðum 129.-131. gr. laga nr. 90/1991 um meðferð einkamála, einkum c-lið 1. mgr. 131. gr.

Niðurstaða

 Að beiðni varnaraðila var gert fjárnám í íbúð og bíl sóknaraðila 16. febrúar 2010 án þess að honum hefði verið tilkynnt um fyrirtökuna. Ágreiningsefni þessa máls lýtur að því hvort hagsmunir varnaraðila hafi ekki þolað þá bið sem hlotist hefði af því að boðun til fyrirtökunnar yrði birt fyrir sóknaraðila, sbr. 3. tölulið 3. mgr. 21. gr. og 3. mgr. 24. gr.  laga nr. 90/1989.

Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er það meginregla að tilkynna skal gerðarþola með hæfilegum fyrirvara að beiðni sé komin fram um aðför hjá honum og um meginefni hennar. Í 3. mgr. ákvæðisins eru tilgreindar, í sex tölu­liðum, undan­tekningar frá skyldu til tilkynningar samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. þarf ekki að tilkynna gerðarþola um framkomna aðfarar­beiðni sé hætt við að gerðar­beiðandi verði fyrir sérstökum réttarspjöllum af drætti, sem verði á aðför vegna slíkrar tilkynningar. Í fræðum og framkvæmd hefur verið litið svo á að þessa heimild verði að skýra þröngt þannig að hún eigi því aðeins við að mjög brýnum hagsmunum gerðarbeiðanda yrði stefnt í hættu með frekari bið og að spjöll hans yrðu önnur og meiri en almennt gerist.

 Varnaraðili vísaði til þess að greiðsluáskorun hafi verið birt 26. ágúst 2009 og 2. nóvember 2009 hafi sýslumaður tekið við aðfararbeiðni þannig að þegar fjárnámið fór fram hafi tæpir sex mánuðir verið liðnir frá því greiðsluáskorun hafi verið birt og þrír og hálfur mánuður frá því að aðfararbeiðni hafi verið móttekin hjá sýslumanni þegar. Önnur rök, hvorki í greinargerð né við munnlegan flutning málsins, hefur varnaraðili ekki fært fram til stuðnings því að þeir hagsmunir sem tryggja átti með fjárnáminu þyldu ekki þá bið sem hlytist af því að lögregla leitaði gerðarþola. Í gerðabók sýslumanns er ekkert fært til bókar um það hvernig réttlætt var frávik frá þeirri meginreglu að tilkynna skuli gerðarþola um fyrirtöku fjárnáms.

Að mati dómsins hafa ekki verið færð nægjanleg rök fyrir því að hagsmunir sóknaraðila hafi verið svo brýnir og þeim stafað svo mikil hætta af þeirri bið sem hlotist hefði af því að sóknaraðili yrði boðaður til fyrirtöku, ef nauðsyn krefði fyrir milligöngu lögreglu, að réttlætt geti að fjárnámið hafi farið fram án hans vitneskju. Þar sem ekki voru uppfyllt skilyrði til þess að víkja frá meginreglunni um boðun til fjár­námsins var sýslumanni ekki rétt að gera fjárnám hjá sóknaraðila 16. febrúar 2010 að honum fjarstöddum. Því verður fallist á kröfu sóknaraðila og fjárnámið fellt úr gildi.

 Vegna þessarar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför verður varnar­aðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur og hefur við ákvörðun hans verið tekið tillit til skyldu sóknaraðila til þess að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

 Fellt er úr gildi fjárnám sem gert var 16. febrúar 2010 í eign sóknaraðila, A, að [...], með fastanúmerið [...] og skal afmáð af eigninni.

Varnaraðili, Innheimtustofnun sveitarfélaga, greiði sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.