Hæstiréttur íslands

Mál nr. 1/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Erfðaskrá


Föstudaginn 8

                                                    Miðvikudaginn 13. janúar 1999.

Nr. 1/1999.                                           Árni Jóhannsson

                                                    Finnbogi Jóhannsson og

                                                    Ingigerður Jóhannsdóttir

                                                    (Ragnar H. Hall hrl.)

                                                    gegn

                                                    Hjalta Jóhannssyni og

                                                    Jóhanni Hjaltasyni

                                                    (Atli Gíslason hrl.)

Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Erfðaskrá.

Staðfest niðurstaða héraðsdóms um að erfðaskrá skyldi metin gild og lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi arfleiðenda þrátt fyrir að arfleiðsluvottorð hafi ekki verið gert eftir reglum 42. gr. erfðalaga nr. 8/1962, heldur látið við það sitja að undirskriftir arfleiðenda væru staðfestar af tveimur vitundarvottum. Talið nægilegt til að fullnægja áskilnaði 1. mgr. 42. gr. erfðalaga að arfleiðendur samþykktu í verki að tilteknir menn gerðust vottar að erfðaskránni, án þess að þess væri getið í vottorðinu að um erfðaskrá væri að ræða eða að arfleiðendur hefðu kvatt þá til að votta slíkan gerning. Talið sannað að arfleiðendur hafi verið andlega hæfir til að gera erfðaskrá og hafi ekki verið beittir misneytingu. Sú málsástæða að einungis síðasta síða erfðaskrárinnar var vottuð talin of seint fram komin, en henni var fyrst hreyft fyrir Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 1998, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. janúar 1999. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 1998, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að erfðaskrá Jóhanns Hjaltasonar og Guðjónu Guðjónsdóttur frá 1. desember 1985 yrði lögð til grundvallar við opinber skipti á dánarbúi þeirra. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að erfðaskráin verði metin ógild við skipti dánarbúsins, en til vara að fyrri blaðsíða hennar verði metin ógild. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðilar dæmdir til að greiða kærumálskostnað.

I.

Guðjóna Guðjónsdóttir, sem var síðast til heimilis að Kleppsvegi 54 í Reykjavík og lést 20. nóvember 1996, sat í óskiptu búi eftir lát eiginmanns síns, Jóhanns Hjaltasonar, hinn 3. september 1992. Dánarbú þeirra var tekið til opinberra skipta 4. júní 1997. Lögerfingjar hjónanna eru sóknaraðilar og varnaraðilinn Hjalti Jóhannsson.

Við opinber skipti dánarbúsins kröfðust varnaraðilar þess að lögð yrði til grundvallar erfðaskrá Guðjónu og Jóhanns, sem var dagsett 1. desember 1985 og vottuð af tveimur vitundarvottum, Garðari Viborg og Brynjari Viborg, án þess að gætt hafi verið ákvæða 42. gr. erfðalaga nr. 8/1962 um arfleiðsluvottorð. Í erfðaskránni var mælt fyrir um þá ráðstöfun eigna arfleiðenda eftir lát þeirra beggja að varnaraðilinn Hjalti skyldi taka að arfi helmingshlut í íbúð þeirra að Kleppsvegi 54, svo og nánar tilgreindar bækur, en varnaraðilinn Jóhann, sem var barnabarn arfleiðendanna, átti jafnframt að fá í sinn hlut bækur, sem þar voru upp taldar. Að öðru leyti átti arfur að ganga til erfingja eftir lögerfðareglum.

Erfðaskráin, sem hér um ræðir, var rituð á tvö blöð. Á fyrra blaðinu voru fyrirmæli um stöðu langlífari arfleiðandans að þeim skammlífari látnum og ráðstöfun á hluta íbúðar þeirra til varnaraðilans Hjalta, auk meginhluta fyrirmæla um bækur, sem áttu að koma í hans hlut. Á síðara blaðinu voru ákvæði um arf handa varnaraðilanum Jóhanni, beitingu lögerfðareglna við skipti á öðrum eignum arfleiðendanna og bann við því að sá langlífari þeirra ráðstafi með erfðaskrá eða dánargjafargerningi eignum, sem hann fengi í sinn hlut með erfðaskránni. Þá var þess og getið að hvorugur arfleiðenda mætti breyta eða afturkalla erfðaskrána án samþykkis hins. Neðst á síðara blaðinu var dagsetning ásamt undirskriftum arfleiðenda og vitundarvotta. Á fyrra blaðinu voru hins vegar engar undirskriftir og var á hvorugu blaði vikið að því að erfðaskráin væri rituð á tvö laus blöð.

Í hinum kærða úrskurði er greint frá framburði varnaraðilans Hjalta og vitundarvottanna tveggja um hvernig staðið hafi verið að undirritun erfðaskrárinnar. Eins og þar kemur fram ber þeim saman um að varnaraðilinn hafi farið með vottunum á sjúkrahús, þar sem Jóhann lá á þeim tíma, og hafi hann ritað þar undir erfðaskrána ásamt öðrum vottinum, en þó að þeim báðum viðstöddum. Síðan hafi varnaraðilinn og vottarnir farið á heimili arfleiðendanna, þar sem Guðjóna hafi ritað undir erfðaskrána ásamt hinum vottinum. Að endingu hafi verið farið með erfðaskrána aftur á sjúkrahúsið og hún afhent Jóhanni.

Sóknaraðilar mótmæltu því fyrir skiptastjóra í dánarbúi arfleiðendanna að erfðaskráin yrði lögð til grundvallar við skiptin. Beindi hann ágreiningsefninu til úrlausnar héraðsdóms og er mál þetta rekið af því tilefni.

II.

Eins og málið liggur fyrir er ekki sýnt að Jóhann Hjaltason og Guðjóna Guðjónsdóttir hafi kvatt þá Garðar Viborg og Brynjar Viborg gagngert á sinn fund til að votta erfðaskrá sína. Að teknu tilliti til framburðar Garðars og Brynjars fyrir dómi, sem hefur ekki verið hnekkt, verður hins vegar að leggja til grundvallar að arfleiðendurnir hafi samþykkt í verki að þessir tilteknu menn gerðust vottar að arfleiðslu þeirra. Er með þessu fullnægt þeim áskilnaði, sem fram kemur í upphafi 1. mgr. 42. gr. erfðalaga. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða héraðsdómara um þær málsástæður, sem lögmaður sóknaraðila fyrir héraðsdómi hélt þar uppi af þeirra hálfu.

III.

Fyrir Hæstarétti halda sóknaraðilar því fram að Jóhann Hjaltason og Guðjóna Guðjónsdóttir hafi ásamt fyrrnefndum vitundarvottum aðeins undirritað hluta þess skjals, sem varnaraðilar bera fyrir sig sem erfðaskrá. Upplýst sé í málinu að hvorki hafi erfðagerningurinn verið kynntur vottunum né hafi þeir lesið hann yfir. Sé þannig engin vissa fyrir því að fyrra blað erfðaskrárinnar, sem nú liggi fyrir, hafi í upphafi verið hluti þess gernings, sem arfleiðendurnir og vottarnir undirrituðu. Telja sóknaraðilar þetta aðallega eiga að leiða til þess að erfðaskráin verði metin ógild í heild, en til vara sá hluti hennar, sem var ritaður á fyrra blaðið og áður er lýst. Þessari málsástæðu héldu sóknaraðilar ekki fram fyrir héraðsdómi og hafa varnaraðilar mótmælt að hún fái komist að fyrir Hæstarétti, auk þess að andmæla henni efnislega.

Fyrir héraðsdómi var sóknaraðilum í lófa lagið að halda fram þeirri málsástæðu, sem hér að framan er getið. Þá verður að ætla að þessi málsástæða hefði gefið tilefni til sérstakrar gagnaöflunar fyrir héraðsdómi ef hún hefði komið þar fram, meðal annars með munnlegri sönnunarfærslu og eftir atvikum sérfræðilegri athugun á þeim blöðum, sem umrædd erfðaskrá var rituð á, en slíkri gagnaöflun verður ekki nú komið við. Að þessu gættu og með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo sem þeim var breytt með 17. gr. laga nr. 38/1994, sbr. 4. mgr. 150. gr. fyrrnefndu laganna, verður ekki byggt á þessari málsástæðu við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt framangreindu verður úrskurður héraðsdómara staðfestur. Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Árni Jóhannsson, Finnbogi Jóhannsson og Ingigerður Jóhannsdóttir, greiði í sameiningu varnaraðilum, Hjalta Jóhannssyni og Jóhanni Hjaltasyni, hvorum fyrir sig 60.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 1998

I.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi 4. nóvember sl., barst dóminum 6. nóvember 1997.

                Sóknaraðilar eru Hjalti Jóhannsson, kt. 251241-4229 og Jóhann Hjaltason, kt.  300766-5959, báðir til heimilis að Nýlendugötu 16 í Reykjavík og krefjast þeir þess að erfðaskrá Jóhanns Hjaltasonar, kt. 060999-1128 og Guðjónu Guðjónsdóttur, kt. 201001-7069, frá 1. desember 1985 verði metin gild og lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi Guðjónu og Jóhanns.  Þá krefjast þeir málskostnaðar.

                Varnaraðilar eru Finnbogi Jóhannsson, kt. 080530-4209, Lækjartúni 13, Mosfellsbæ, Árni Jóhannsson, kt. 300133-2319, Rauðalæk 67, Reykjavík og Ingigerður Jóhannsdóttir, kt. 290736-4049, Egilsstöðum, Vopnafirði og krefjast þeir þess að erfðaskrá framangreindra hjóna verði metin ógild og hún skuli ekki lögð til grundvallar skiptum dánarbúsins.  Þá krefjast þeir málskostnaðar.

II.

                Málavextir eru þeir að 20. nóvember 1996 lést framangreind Guðjóna Guðjónsdóttir, sem sat í óskiptu búi eftir Jóhann Hjaltason, sem lést 3. september 1992.  Búsetuleyfi hennar er dagsett 22. febrúar 1993.  Með úrskurði héraðsdóms 4. júní 1997 var dánabú Guðjónu tekið til opinberra skipta.  Hin látnu áttu fjóra sameiginlega niðja á lífi, sem eru skylduerfingjar þeirra, þ.e. varnaraðilar og sóknaraðilinn Hjalti.      Við skiptameðferð búsins kom fram erfðaskrá undirrituð af hjónunum í Reykjavík 1. desember 1985.  Í 1. grein hennar segir að það sé sameiginleg ósk hjónanna að hið langlífara fái að sitja í óskiptu búi þar til það falli frá eða svo lengi sem það óski.  Í 2. grein er um það fjallað að fáist ekki leyfi til setu í óskiptu búi skuli hið langlífara, auk lögmæts erfðahluta, hljóta í arf eftir hitt 1/3 hluta allra eigna þess og meira ef sá hluti sem ráðstafa megi með erfðaskrá verði aukinn með breyttum lagaákvæðum.

                Í 3. gr. erfðaskrárinnar er kveðið á um það að sóknaraðilinn Hjalti skuli erfa 1/2 fasteign hjónanna, sem er 4-5 herbergja íbúð á 1. hæð að Kleppsvegi 54 í Reykjavík, "sem er þá hans erfðahlutur og sá hluti, sem við megum ráðstafa með erfðaskrá, hinn helmingurinn eða andvirði hans skal falla til hinna þriggja barna okkar eða niðja þeirra eins og lög mæla fyrir um".  Þá eru í þessari grein erfðaskrárinnar taldar upp allmargar bækur sem sóknaraðilinn Hjalti á að fá í sinn hlut auk lögboðins arfs, þ.e. utan skipta eins og segir í erfðaskránni. 

                Þá eru einnig tilgreindar allnokkrar bækur í þessari grein erfðaskrárinnar sem sonarsonur hjónanna, sóknaraðilinn Jóhann, sem er sonur sóknaraðila Hjalta, á að erfa. 

                Erfðaskráin er dagsett 1. desember 1985 og undir hana eru rituð nöfn þeirra Jóhannns og Guðjónu.  Þar undir rita tveir vitundarvottar en ekki er á skránni vottorð í samræmi við fyrirmæli 42. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

                Við meðferð búsins hjá skiptastjóra vefengdu varnaraðilar erfðaskrána og tókst skiptastjóra ekki að jafna þann ágreining.  Skiptastjóri sendi héraðsdómi málið 3. nóvember 1997 og barst það dóminum 6. nóvember sama ár.  Það var þingfest 9. febrúar 1998 en þá hafði þingfestingu verið frestað að ósk lögmanns sóknaraðila vegna sáttatilrauna.  Vegna fráfalls lögmanns sóknaraðila dróst málið enn á langinn og var það flutt 4. nóvember sl. eins og áður segir.

               

III.

                Sóknaraðilar styðja kröfur sínar þeim rökum að gagnkvæm erfðaskrá þeirra Jóhanns Hjaltasonar og Guðjónu Guðjónsdóttur frá 1. desember 1985 sé gildur erfðagerningur og án nokkurra efniságalla. 

                Af hálfu sóknaraðila er og á því byggt að ráðstöfun eigna til sóknaraðila með erfðaskránni verði að teljast eðlileg og skynsamleg ráðstöfun eigna í ljósi atvika.  Sóknaraðili, Hjalti Jóhannsson, hafi t.d frá árinu 1969 til 1974 búið hjá arfleifendum en dvalið hjá þeim upp frá því 6 nætur í viku hverri að ósk föður síns.  Þessi háttur hafi verið hafður á allt til andláts arfleifenda.  Enn fremur hafi hann sinnt ýmsum verkum fyrir arfleifendur og hafi þeir viljað umbuna honum fyrir aðstoðina.  Að auki hafi arfleifendur alla tíð borið mikla umhyggju fyrir sóknaraðila, Jóhanni Hjaltasyni. 

                Sóknaraðilar byggja og á því að ráðstöfun eigna samkvæmt erfðaskránni rúmist innan ákvæða erfðalaga sem arfleiðsluheimild.  Er enn fremur á því byggt að þrátt yfir að erfðaskráin sé haldin formgalla að því er varði arfleiðsluvottun þá hafi hún verið undirrituð af arfleifendum í viðurvist tveggja tilkvaddra óvilhallra arfleiðsluvotta, sem uppfyllt hafi hæfiskilyrði erfðalaga og sem hafi verið kunnugt um að hinn vottfesti gerningur hafi verið erfðaskrá.  Þegar erfðaskráin var undirrituð hafi arfleifendur verið heil heilsu andlega og hæf til að ráðstafa eigum sínum á skynsamlegan hátt með erfðaskrá, bæði á þeirri stundu sem erfðaskráin hafi verið gerð og eins fyrir og eftir það tímamark.  Erfðaskráin hafi haft að geyma hinsta vilja arfleifenda, enda hafi þeir haft alla getu til að breyta erfðaskránni, á þeim tíma sem þau hafi átt eftir ólifað, hafi vilji þeirra staðið til þess. 

               

IV.

                Varnaraðilar styðja kröfur sínar þeim rökum að meint sameiginleg, gagnkvæm erfðaskrá foreldra þeirra, Jóhanns Hjaltasonar og Guðjónu Guðjónsdóttur, sé formlega og efnislega haldin slíkum göllum að hún sé ekki gildur erfðagerningur og aðstæður allar hafi fyrir gjörð hinnar meintu erfðaskrár verið slíkar að óhugsandi sé að hin meinta erfðaskrá hafi að geyma vilja þeirra um ráðstöfun eigna þeirra að þeim látnum.

                Varnaraðilar halda því fram að ekkert sé vitað um tilurð hinnar meintu erfðaskrár og enginn vilji kannast við að hafa samið hana.  Ekkert arfleiðsluvottorð fylgi skránni og engir arfleiðsluvottar séu tilnefndir, heldur aðeins vitundarvottar.  Að sögn sóknaraðila hafi þau Jóhann og Guðjóna ekki verið saman við gerð hinnar meintu sameiginlegu erfðaskrár og mótmæla varnaraðilar því að þau hafi nokkru sinni rætt saman um hana eða kynnt sér efni hennar.  Varnaraðilar vísa til þess að þótt annað foreldra þeirra hafi viljað gera slíka erfðaskrá, sem sé alls ekki raunin, þá falli hún úr gildi vegna brostinna forsenda ef vilji beggja stóð ekki til að gera hana.  1. og 2. grein hinnar meintu erfðaskrár um gagnkvæman erfðarétt og rétt til setu í óskiptu búi kunni að hafa verið eðlilegar á sínum tíma en verið óþarfar við andlát Jóhanns heitins samkvæmt 2. gr. laga nr. 48/1989 um breytingu á erfðalögum.  Varnaraðilar telja hins vegar að 3. gr. hinnar meintu erfðaskrár sé órökræn og í engu samræmi við frjálsan og  óþvingaðan  vilja foreldra þeirra.  Sóknaraðili, Hjalti, hafi á þeim tíma sem hin meinta erfðaskrá á að hafa verið gerð fengið herbergi og fæði á heimili foreldra sinna sér að kostnaðarlausu á meðan Sigfríð Lárusdóttir, tengdadóttir þeirra hjóna, hafi séð um þvotta, ræstingu og böðun og varnaraðili, Finnbogi, fært foreldrum sínum hreinan þvott frá Sigfríð með föstu millibili.  Þá sé meðal bóka, sem eigi samkvæmt hinni meintu erfðaskrá að ganga til sóknaraðila, bók, sem varnaraðili, Árni, hafi gefið föður sínum og ekki sé í hinni meintu erfðaskrá minnst á 10 barnabörn sem þau hjónin áttu 1. desember 1985.

                Þá benda varnaraðilar á að hinir meintu vitundarvottar hafi að eigin sögn verið tilkvaddir af sóknaraðila, Hjalta, sem ásamt syni Hjalta var ívilnað samkvæmt 3. gr. hinnar meintu erfðaskrá.  Annar vitundarvotturinn sé gamall vinur sóknaraðila, Hjalta, og hinn faðir þess fyrra, þannig að varnaraðilar mótmæla því að fyrrgreindir vottar hafi verið óvilhallir eins og sóknaraðili heldur fram.

                Þá telja varnaraðilar að hin miklu veikindi, sem faðir þeirra gekk í gegnum, kunni meðal annars að hafa ruglað samhæfingu augna hans og valdið stirðlæsi því, sem hann hafi kvartað undan við augnlækni 4. desember 1985.  Telja þeir því ólíklegt að hann hafi getað lesið hina meintu erfðaskrá eða kynnt sér efni hennar, enda hafi hún ekki verið lesin upp fyrir hann.  Varnaraðilar benda á að niðurstaða rithandarrannsóknar hafi verið sú að ekki verði tekin afstaða til þess hvort nafnritanir Jóhanns og/eða Guðjónu á hinni meintu erfðaskrá séu falsaðar eða ekki.

                Enn fremur telja varnaraðilar að hafi Jóhann ritað undir hina meintu erfðaskrá þá hafi sú undirskrift verið fengin með því að misnota sér veikindi hans og bágt líkamlegt og andlegt ástand 1. desember 1985 og mótmæla þeir því að hann hafi undirritað það, sem hann hvorki las né var lesið fyrir hann nema um óeðlilegan þrýsting hafi verið að ræða.  Sama sé að segja um meinta undirritun Guðjónu heitinnar.

                Þá byggja varnaraðilar á því að hin meinta erfðaskrá hafi aldrei verið í vörslu þeirra Jóhanns og Guðjónu, né þau vitað hvers efnis hún var.  Ekkert hafi komið fram um geymslustað hennar fyrir 1. desember 1985 og frá þeim degi til 20. desember 1996, nema það að sóknaraðili Hjalti var með hana í sinni vörslu 20. desember 1996 og afhenti hana í skiptadeild sýslumannsins í Reykjavík þann dag.  Einnig benda varnaraðilar á að faðir þeirra á, samkvæmt vætti hinna meintu votta, að hafa sagt að hann myndi láta staðfesta skrána hjá nótaríusi eða fógeta.  Það að hin meinta erfðaskrá var síðan aldrei staðfest af nótaríusi sýnir að hún hafi ekki verið í samræmi við vilja þeirra Jóhanns og Guðjónu. 

V.

                Erfðaskráin, sem um er deilt í málinu, er dagsett í Reykjavík 1. desember 1985.  Undir hana eru rituð nöfn þeirra Jóhanns Hjaltasonar og Guðjónu Guðjónsdóttur og þar undir rita tveir vitundarvottar, Garðar Viborg og Brynjar Viborg.  Ekki er á erfðaskránni vottorð eins og gert er ráð fyrir í 42. gr. erfðalaga.  Af þessu leiðir, með vísan til 2. mgr. 45. gr. erfðalaga, að sönnunarbyrðin fyrir því að erfðaskráin sé í samræmi við vilja arfleifenda og að þau hafi, á þeim tíma er hún var gerð, verið hæf til að gera hana, hvílir á sóknaraðilum.

                Vottarnir hafa báðir komið fyrir dóm og staðfest undirritanir sínar á erfðaskrána.  Í vitnisburði þeirra kom fram að þeir hafi verið kvaddir til þess að vera vottar af sóknaraðila Hjalta, sem hafi gert það að beiðni föður síns.  Þá kom einnig fram hjá þeim að þeir voru þeim hjónum kunnugir frá fyrri tíð en Hjalti og Brynjar voru einnig kunningjar.  Þegar erfðaskráin var undirrituð lá Jóhann á Landsspítalanum og héldu þeir þangað.  Þegar þeir komu inn í herbergið til hans var erfðaskráin þar á borði fyrir framan hann í rúminu og undirritaði hann hana þar að þeim báðum viðstöddum.  Strax á eftir ritaði Garðar Viborg nafn sitt á erfðaskrána.  Vottarnir báru báðir að Jóhann hefði verið andlega heilbrigður og honum verið ljóst að um erfðaskrá var að ræða.  Garðar kvaðst ekki hafa lesið erfðaskrána, enda ekki komið við hvað í henni stóð, en vitað að um erfðaskrá væri að ræða.  Brynjar kvaðst hins vegar hafa lesið hana í aðalatriðum.  Eftir undirritun Jóhanns hafi verið farið að Kleppsvegi 54 þar sem Guðjóna hafi undirritað erfðaskrána og báru þeir á sama hátt um hana og Jóhann, að hún hefði verið andlega heil heilsu og að henni hefði verið ljóst að um erfðaskrá væri að ræða.  Eftir undirritun Guðjónu ritaði Brynjar nafn sitt á hana sem vottur.  Brynjar bar að eftir undirritunina á Kleppsveginum hafi hann ásamt sóknaraðila, Hjalta, fært Jóhanni erfðaskrána á Landsspítalann. 

                Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið telur dómurinn sannað að þau Jóhann og Guðjóna hafi ritað eigin hendi undir erfðaskrána og þeim verið ljóst að um erfðaskrá væri að ræða. 

                Eins og áður sagði báru vottarnir báðir að hjónin hefðu á þessum tíma verið andlega heilbrigð og fullfær um að gera þessa ráðstöfun eigna sinna.  Halldór Jónsson, heimilislæknir þeirra hjóna frá árinu 1984, bar að Jóhann hefði verið alveg andlega heill nánast fram til hins síðasta og í raun verið ósamræmi á milli líkamlegs ástands hans og andlegs.  Honum hafi fyrst hugsanlega farið aftur andlega síðasta árið sem hann lifði, þ.e. 1992.  Varðandi Guðjónu hafi farið að bera á elliglöpum og minnisleysi um 1989 - 1990 en hún hafi hins vegar verið líkamlega betur á sig komin en Jóhann. 

                Meðal gagna málsins er bréf, undirritað af yfirlæknum lyflækninga- og hjartadeildar Landsspítalans.  Þar segir að Jóhann hafi legið á spítalanum 7. - 9. nóvember 1985, 11. nóvember - 20. desember á hjartdeild og síðan á endurhæfingardeild.  Við innlögn 11. nóvember er ekkert minnst á andlegt atgervi Jóhanns en 18. desember lýsir endurhæfingarlæknir honum svona: "hress karl og kátur, vel motiveraður og áhugasamur, rétt að gefa honum honum tækifæri á vistun á endurhæfingardeild".  Í hjúkrunarskýrslu frá 1. desember segir að hann láti bærilega af sér en þreytist fljótt auk þess sem fjallað er um neyslu hans á mat og drykk og lyfjum, er hann fékk.  Að morgni 2. desember skrifar næturvaktin:  "Svaf heldur lítið seinnipart nætur, las Passíusálmana."  Tilefni bréfs læknanna var fyrirspurn lögmanns varnaraðila um andlegt ástand Jóhanns 1. desember 1985 og einnig var beðið um mat þeirra á því hvort hann hefði verið svo andlega heill heilsu að hann gæti hafa gert erfðaskrá.  Læknarnir telja enga leið til að svara þessum spurningu 12 árum eftir sjúkrahúsvist Jóhanns en telja "að framangreindar upplýsingar eigi að nægja til að sýna fram á að andleg truflun sé mjög ósennileg".

                Samkvæmt framansögðu telur dómurinn sannað að þau Jóhann og Guðjóna hafi verið svo heil heilsu andlega 1. desember 1985 að þau hafi verið fær um að ráðstafa eignum sínum á skynsamlegan hátt með erfðaskrá. 

                Með vísan til þess, sem að framan var rakið um heilsufar Jóhanns Hjaltasonar 1. desember 1985 svo og framburð vottanna, telur dómurinn að ósannað sé að undirskrift hans undir erfðaskrána hafi verið fengin með misneytingu.

                Það er því niðurstaða dómsins að verða við kröfu sóknaraðila og meta gilda erfðaskrá þeirra Jóhanns Hjaltasonar og Guðjónu Guðjónsdóttur.  Skal hún lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi þeirra.  Með hliðsjón af því að ekki var formlega rétt staðið að gerð erfðaskrárinnar, sbr. 42. gr. erfðalaga, og því ekki óeðlilegt af hálfu varnaraðila að vefengja hana, verður málskostnaður felldur niður.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Erfðaskrá Jóhanns Hjaltasonar og Guðjónu Guðjónsdóttur, er gerð var 1. desember 1985, er gild og skal lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi þeirra en málskostnaður skal falla niður.