Hæstiréttur íslands

Mál nr. 310/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


                                     

Þriðjudaginn 14. maí 2013.

Nr. 310/2013.

Þórólfur Valberg Valsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Heiðar Örn Stefánsson hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni V hf. um dómkvaðningu matsmanns í máli Þ á hendur V hf. Þ höfðaði málið til heimtu skaðabóta vegna líkamstjóns af völdum umferðarslyss. Vildi V hf. leita mats á því hver væri örorka Þ samkvæmt reglum almannatrygginga vegna afleiðinga slyssins og hvaða greiðslum Þ ætti rétt á samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar. Ekki var talið bersýnilegt að matsgerð samkvæmt beiðni V hf. kæmi ekki til með að skipta máli eða verða tilgangslaus til sönnunar. Þótti 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála því ekki standa dómkvaðningu í vegi. Var því fallist á að dómkvaðning matsmanns samkvæmt beiðni V hf. skyldi fara fram.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. apríl 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2013, þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns í máli sóknaraðila á hendur honum. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Með því að gjafsókn, sem sóknaraðila var veitt 11. apríl 2013, er bundin við rekstur málsins fyrir héraðsdómi verður honum ekki ákveðinn gjafsóknarkostnaður í kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Þórólfur Valberg Valsson, greiði varnaraðila, Vátryggingafélagi Íslands hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2013.

Þegar mál þetta var tekið fyrir 4. apríl sl. lagði stefndi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns til að meta rétt stefnanda til greiðslna frá almannatryggingum. Dómkvaðningu matsmanns var mótmælt af hálfu stefnanda. Lögmenn aðila gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum og að því loknu var ágreiningurinn tekinn til úrskurðar.

Nánar tiltekið óskar stefndi eftir að lagt verði mat á eftirfarandi:

  1. Hver sé örorka stefnanda samkvæmt reglum almannatrygginga vegna afleiðinga slyss stefnanda þann 5. nóvember 2007.
  2. Hvaða greiðslum stefnandi eigi rétt á samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar miðað við metna örorku samkvæmt spurningu 1.

Fram kemur í matsbeiðni að með reglum almannatrygginga sé átt við þær reglur sem almannatryggingar byggja á við mat á rétti tjónþola til greiðslna, hvort sem greiðslur eru inntar af hendi frá Tryggingastofnun eða Sjúkratryggingum Íslands og hvort sem þær eru inntar af hendi í formi eingreiðslu, örorkustyrks eða örorkulífeyris. Með matsspurningu 2 sé matsmanni falið að meta hvaða greiðslur matsþoli eigi rétt á frá Tryggingastofnun og/eða Sjúkratryggingum Íslands á grundvelli svars matsmanns við spurningu 1.

Stefndi vísar til matsgerða í málinu, einkum þeirrar er lögð var fram í þinghaldi 11. mars sl. og stefnandi aflaði eftir endurupptöku málsins 8. nóvember sl., sbr. 104. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í ljósi matsgerða sem fram hafi komið síðan ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands var tekin 26. nóvember 2010 telur stefndi að tilefni sé til að ætla að örorka stefnanda samkvæmt reglum almannatrygginga sé önnur og hærri en sú sem lögð hafi verið til grundvallar ákvörðuninni. Séu niðurstöður matsmanna réttar sé ljóst að mat Sjúkratrygginga Íslands nái ekki að fullu utan um núverandi ástand stefnanda. Stefnandi hafi ekki óskað eftir endurupptöku ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands á grundvelli 3. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar þrátt fyrir margítrekaðar beiðnir og áskoranir stefnda. Tilgangur matsbeiðni sé að leiða í ljós rétt stefnanda til greiðslna frá almannatryggingum. Með matsgerðinni hafi stefndi í hyggju að sanna að við uppgjör samkvæmt skaðabótalögum skuli draga frá bótum stefnanda vegna greiðslna úr almannatryggingum hærri fjárhæð en þá sem leiði af fyrrgreindri ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands. Stefndi byggir m.a. á því að honum verði ekki gert að þola að stefnandi afli, eftir endurupptöku málsins, gagna, sem renna stoðum undir þann málatilbúnað hans að afleiðingar umferðarslyssins séu meiri en áður var talið, án þess að fá sjálfur tækifæri til að afla sönnunargagna um að hinar sömu afleiðingar leiði til meiri réttar frá almannatryggingum en áður var talið og að frádráttarliðir samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga séu því hærri en áður var talið.

Mótmæli stefnanda við því að dómkvaddur verði matsmaður að beiðni stefnda byggjast á því að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun um að stefnandi eigi ekki rétt á frekari bótum úr almannatryggingum, sbr. rökstuðning frá Sjúkratryggingum Íslands og greiðslur stefnda til stefnanda í framhaldi þeirrar stjórnvaldsákvörðunar. Í matsbeiðninni felist ný málsástæða sem sé of seint fram komin þar sem stefndi sé þegar búinn að samþykkja uppgjör samkvæmt stjórnvaldsákvörðuninni og þar með niðurstöðu hennar. Ekki verði heldur séð að niðurstaða væntanlegrar matsgerðar, þótt jákvæð yrði fyrir stefnda, geti haft einhver réttaráhrif í málinu eða neytt stefnanda til að sækja aftur um bætur hjá Sjúkratryggingum Íslands eða Tryggingastofnun ríkisins.

Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 á stefndi rétt á að afla í einkamáli þeirra sönnunargagna sem hann telur málstað sínum til framdráttar. Að meginreglu til er það hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt umfram það sem leiðir af ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar. Eina áskilnaðinn um form og efni matsbeiðna er að finna í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Eins og ráðið verður af bæði stefnu og greinargerð er sakarefni máls þessa m.a. hvort og að hverju marki draga beri frá umdeildri skaðabótakröfu stefnanda bætur frá þriðja aðila samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Í þinghaldinu 8. nóvember sl., þegar stefnandi lagði fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna til að meta tjón stefnanda af völdum slyssins 5. nóvember 2007, áskildi stefndi sér rétt til að skora á stefnanda að láta endurmeta rétt sinn hjá Tryggingastofnun. Auk þess lýsti hann því yfir að það væri fyrst með nýjustu matsgerðinni sem fyrir lægi sönnunargagn sem benti til þess að líkamlegt ástand stefnanda væri verra en það hefði verið við uppgjör. Er því fallist á það með stefnda að umdeild beiðni hans um dómkvaðningu matsmanns felur ekki í sér nýja málsástæðu. Þá getur heldur ekki komið til álita við mat á því hvort dómkveðja eigi matsmann að taka afstöðu til efnislegs ágreinings aðila í málinu, hvort stefnandi eigi rétt á frekari bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar þar sem þegar hafi verið tekin stjórnvaldsákvörðun og að stefnandi hafi fallist á þá niðurstöðu með greiðslum stefnanda í framhaldi af henni. Úrlausn þessa ágreinings aðila verður að bíða efnismeðferðar málsins.

Stefndi hefur gert grein fyrir því hvað hann hyggst sanna með umbeðinni matsgerð og ekki verður talið bersýnilegt að matsgerð samkvæmt beiðninni komi ekki til með að skipta máli eða verði tilgangslaus til sönnunar. Ákvæði 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir því ekki standa dómkvaðningu í vegi en stefndi ber áhættuna af notagildi matsgerðar til sönnunar í málinu og kostnað af öflun hennar. Er því fallist á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns.

Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Dómkvaðning matsmanns samkvæmt matsbeiðni stefnda skal fara fram.