Hæstiréttur íslands
Mál nr. 558/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Þagnarskylda
- Afhending gagna
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. ágúst 2016 en kærumálsgögn bárust réttinum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júlí 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðilanum Tollstjóra yrði aðallega gert að afhenda upplýsingar úr tollkerfi um innflutningsaðila á innihaldi nánar tilgreinds gáms og upplýsingar um fjölda afgreiddra gáma til sama innflutningsaðila með sams konar innihaldi á tímabilinu 1. janúar til 15. október 2014, en til vara að leggja framangreind gögn fyrir dómara í trúnaði. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Með kaupsamningi sóknaraðila og einkahlutafélagsins Dímon lína 5. mars 2013 tók sá fyrrnefndi yfir „allan rekstur Dímon línu ehf. Félagið sjálft, kennitala þess og efnahagsreikningur eru ekki hluti af hinu selda. Kaupin miðast við yfirtöku á daglegum rekstri, nafni, vörumerki, viðskiptavild og öllum viðskiptasamböndum Dímon línu ehf. erlendis og hér á landi, hvort sem um er að ræða birgja eða viðskiptavini. Jafnframt fylgja í kaupunum símanúmer, internettengingar og önnur auðkenni sem einkenna reksturinn, svo og allt auglýsinga- og kynningarefni auk tóla og tækja sem fylgja og fylgja ber ... Á afhendingardegi mun kaupandi ... kaupa af seljanda allar heilar og seljanlegar vörubirgðir.“ Kaupverðið var samtals 220.945.199 krónur og þar af var verð vörubirgða 90.945.199 krónur.
Í kaupsamningnum var ákvæði um samkeppnishömlur. Um þær sagði að seljandi og fyrirsvarsmaður hans, Arnór Stefánsson, skuldbyndu sig til að stunda ekki með nokkrum hætti, hvorki beint né óbeint, að hluta til né að öðru leyti, starfsemi sem gæti talist „í samkeppni við þann rekstur sem yfirtekinn er samkvæmt þessum samningi, í 3 ár frá afhendingardegi ... en í því felst ... Að hefja ekki starfsemi sem selur sömu vörur og félagið gerir nú, eiga ekki beint eða óbeint í slíku félagi eða eiga fulltrúa í stjórn þess. Sama gildir um stofnun, eignaraðild og stjórnarsetu í slíkum félögum ... Að sækjast ekki eftir viðskiptasamböndum, umboðum og vörumerkjum sem tilheyra félaginu við undirritun kaupsamnings þessa.“ Sóknaraðili lýsir því svo að tilgangur sinn með kaupum á rekstri og viðskiptavild Dímon línu ehf. hafi einkum verið að sækjast eftir því að taka yfir viðskiptasamband við suður-kóreskan línuframleiðanda en þær línur, sem voru fluttar inn frá honum, hafi verið „kenndar við fyrrum nafn þb. Dofra ehf., Dímon línu. Um var að ræða verðmætt og vel geymt viðskiptaleyndarmál.“ Arnór Stefánsson og félag honum tengt, Dofri ehf., hafi á hinn bóginn brotið samkeppnisákvæði samningsins frá 5. mars 2013 með því að hafa flutt hingað til lands í júlí 2014 gám frá suður-kóreskum framleiðanda með svokölluðum „línum og sigurnöglum/stoppurum“.
II
Sóknaraðili höfðaði í febrúar 2015 mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur varnaraðilunum Arnóri Stefánssyni og Dofra ehf. til heimtu skaðabóta vegna þess tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna ætlaðra vanefnda þeirra á samkeppnisákvæði samningsins frá 5. mars 2013. Meðal gagna málsins er farmbréf sem sóknaraðili lagði fram og segir í stefnu að það sé „vegna innflutnings á línum og sigurnöglum/stoppurum frá Suður-Kóreu, en móttakandi sendingarinnar var sagður vera Samskip hf. á Íslandi.“ Hafi starfsmenn Samskipa hf. talið sóknaraðila líklegan viðtakanda gámsins þar sem á farmbréfinu hafi komið fram að í honum væru línuveiðarfæri frá Suður-Kóreu. Farmbréfið hafi verið gefið út 4. júlí 2014 og samkvæmt því hafi verið um að ræða sendingu með línum og stoppurum. Þar sem sóknaraðili hafi ekki pantað þessar vörur og ekki átti von á þeim hafi verið ljóst í huga hans að varnaraðilinn Arnór Stefánsson eða félag á hans vegum væri að versla við birgi sóknaraðila í Suður-Kóreu og brjóta með því samkeppnisákvæði kaupsamningsins. Í stefnu skoraði sóknaraðili á varnaraðila „að leggja fram gögn um innflutning, innflutningsverð og sölu þeirra vara sem er vísað til í þessari stefnu, línu og króka.“
Auk framangreinds farmbréfs vísaði sóknaraðili til þess í stefnu að hann hafi farið til fundar við hinn suður-kóreska framleiðanda í september 2014 og þá meðal annars kynnt honum efni kaupsamningsins frá 5. mars 2013. Í framhaldinu kveðst sóknaraðili hafa átt í tölvubréfasamskiptum við framleiðandann og í bréfi hins síðarnefnda 13. október 2014, sem er meðal gagna málsins, komi fram að framleiðandinn hafi að beiðni Arnórs Stefánssonar þegar sent tvo gáma af línu til félags í eigu hins síðarnefnda í tveimur aðskildum sendingum og hafi önnur þeirra verið sú sem sóknaraðili fékk fyrirspurn um frá Samskipum hf. Einnig hafi framleiðandinn upplýst að Arnór væri búinn að leggja fram pöntun fyrir þriðja gámnum en sá gámur hafi ekki verið sendur af stað. Þá sagði í stefnunni að línuframleiðandinn hafi í tölvubréfinu vísað til þess að hann hefði í mörg ár átt í góðu viðskiptasambandi við Arnór og því hafi hann treyst honum og orðum hans en Arnór hefði sagt fyrirsvarsmanninum að hann væri ekki að brjóta gegn samningi sínum við sóknaraðila. Fyrirsvarsmaðurinn hafi jafnframt sagt að nú væri ljóst að það væri ekki satt og væri hann miður sín vegna þess og þeirra augljósu svika sem Arnór ráðgerði gagnvart sóknaraðila.
Í þinghaldi 30. október 2015 lagði sóknaraðili fram bókun þar sem hann skoraði á varnaraðila „að gefa skýr og afdráttarlaus svör við því hvað hann, eða aðili á hans vegum eða tengdur honum, hafi flutt marga gáma til Íslands með vörum frá hinum suður-kóreska framleiðanda.“ Þegar málið var tekið fyrir 23. nóvember sama ár lögðu varnaraðilar fram bókun þar sem fram kom að þeir hefðu ekki viðurkennt með neinum hætti að hafa flutt inn umræddar línur og hvíldi sönnunarbyrðin þar um alfarið á sóknaraðila. Þá sagði í bókuninni að áskorunin hafi lotið að fjölda lína og hafi varnaraðilar ekki getað lagt fram nein gögn vegna innflutningsins þar sem þeir hafi ekki staðið að innflutningi á línum. Þá sagði að því væri mótmælt að varnaraðilar „hafi flutt inn þá gáma sem fjallað er um í stefnu sem og þann eina gám sem fjallað er um í farmbréfinu ... Liggur engin sönnun fyrir varðandi þennan innflutning.“
Sóknaraðili mun með bréfi 20. janúar 2016 hafa farið þess á leit við Tollstjóra að hann með vísan til 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 og laga nr. 140/2012 um upplýsingamál afhenti sér aðflutningsskýrslu og upplýsingar um fjölda tollafgreiddra gáma til þess sem var innflutningsaðili gámsins samkvæmt áðurgreindu farmbréfi 4. júlí 2014. Tollstjóri mun með bréfi 3. febrúar 2016 hafa hafnað beiðninni með vísan til 9. gr. laga nr. 140/2012 og 188. gr. tollalaga nr. 88/2015 þar sem um væri að ræða viðskiptahagsmuni aðila sem eðlilegt væri að leynt skyldu fara. Við fyrirtekt málsins 16. mars 2016 krafðist sóknaraðili þess að Tollstjóra yrði með úrskurði gert að afhenda sér framangreind gögn. Í sama þinghaldi lögðu varnaraðilar fram bókun þar sem kom fram að þeir hafi verið skýrir um að hafa ekki flutt inn umræddan gám. Í því sambandi væri einnig rétt að taka fram að jafnvel þótt varnaraðilar hefðu flutt inn gáminn jafngilti það ekki sönnun þess að varnaraðilar hefðu haft með höndum starfsemi í samkeppni við sóknaraðila og hefði sönnunarfærslan því enga þýðingu fyrir málið.
Þegar málið var næst tekið fyrir 18. maí 2016 var sótt þing af hálfu varnaraðilans Tollstjóra og lagðar fram af hans hálfu athugasemdir vegna kröfu sóknaraðila. Þar kom meðal annars fram að tollafgreiðsla á þeim gámi sem um ræddi hefði verið rafræn en það þýddi að „Tollstjóri hefur ekki undir höndum aðflutningsskýrsluna sjálfa, hún er geymd hjá þeim miðlara sem gerði aðflutningsskýrsluna fyrir innflytjanda. Þetta byggir á 2. mgr. 29. gr. tollalaga þar sem fram kemur að tollmiðlari skuli varðveita öll tölvutæk gögn sem varða tollafgreiðslu og að auki varðveita afrit af viðeigandi skriflegum gögnum sem liggja til grundvallar rafrænni aðflutningsskýrslu ... Þessi gögn eru ekki geymd hjá Tollstjóra fyrir utan takmarkaðar upplýsingar sem fara inn í tollakerfið og getur Tollstjóri því ekki afhent aðflutningsskýrsluna eins og gerð er krafa um. Með því að rekja sig til baka í tollakerfinu er hægt að sjá hver innflytjandi umræddrar sendingar var en ekki er gerð krafa um þær upplýsingar“.
Við fyrirtekt málsins 23. maí 2016 lagði sóknaraðili fram beiðni um að Tollstjóri yrði skyldaður með úrskurði til að afhenda skjöl fyrir héraðsdómi. Þar sagði að sóknaraðili krefðist „þess aðallega að embætti Tollstjóra verði skyldað með úrskurði til að afhenda fyrir dómi skjal sem hefur að geyma upplýsingar úr tollkerfi um innflutningsaðila á innihaldi gáms á farmbréfi á dskj. nr. 19.“ Auk þess krefðist sóknaraðili „afhendingar á skjali sem upplýsir fjölda tollafgreiddra gáma til sama innflutningsaðila með sams konar innihaldi (undir tollflokki 5607-4901) tímabilið frá 1. janúar 2014 til 15. október 2014.“
III
Eins og að framan er rakið varðar málið kröfu sóknaraðila um að varnaraðilanum Tollstjóra verði gert að afhenda fyrir dómi skjal sem hefur að geyma upplýsingar úr tollkerfi um hver var innflutningsaðili á innihaldi gáms samkvæmt farmbréfi því sem út var gefið 4. júlí 2014 og áður er lýst. Jafnframt lýtur krafa sóknaraðila að því að Tollstjóri upplýsi með framlagningu skjals úr tollkerfi um fjölda afgreiddra gáma til sama innflutningsaðila með sama innihaldi á tímabilinu 1. janúar til 15. október 2014. Tollstjóri hefur með vísan til 188. gr. tollalaga og 9. gr. upplýsingalaga hafnað því að leggja umrædd skjöl fram. Ekki er um það deilt að umræddar upplýsingar eru til í tollkerfi Tollstjóra og er honum því kleift að afhenda skjal sem hefur að geyma umræddar upplýsingar. Með hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila hafnað.
Í 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 segir að sé skjal í vörslum manns sem ekki er aðili að máli geti aðili krafist að fá það afhent til framlagningar í máli ef vörslumanni skjalsins er skylt að afhenda það aðilanum án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að vörslumanni sé skylt að bera vitni um það í málinu. Þá segir meðal annars í 2. mgr. 68. gr. laganna að verði vörslumaður skjals ekki við kröfu aðila um að láta það af hendi geti aðili lagt þau gögn sem um getur í 4. mgr. 67. gr. laganna fyrir dómara ásamt skriflegri beiðni um að vörslumaður verði skyldaður með úrskurði til að afhenda skjalið fyrir dómi.
Í c. lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 kemur fram að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um atriði sem það hefur komist að í opinberu starfi og á að fara leynt. Í 3. mgr. 53. gr. laganna kemur fram að telji dómari hagsmuni aðila verulega meiri af því að upplýst verði um atriði samkvæmt c. lið 2. mgr. 53. gr. en hagsmuni hlutaðeigandi af því að leynd verði haldið geti hann eftir kröfu aðila lagt fyrir vitni að svara spurningu þótt leyfi sé ekki veitt til þess, enda feli svarið ekki í sér frásögn af einkahögum manns sem á ekki aðild að máli. Ef dómari telur óvíst hvort þessum skilyrðum sé fullnægt getur hann lagt fyrir vitni að tjá sér fyrst í trúnaði hvers efnis svar þess yrði.
Samkvæmt 1. mgr. 188. gr. tollalaga ber starfsmönnum Tollstjóra þagnarskylda um þau atvik sem þeim verða kunn í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt skulu fara vegna lögmætra almanna- og einkahagsmuna. Tekur þetta til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsinga um viðskipti einstakra manna og fyrirtækja, þar með talin hvers konar vitneskja sem ráða má af samritum af sölu- og vörureikningum sem tollyfirvöld halda eftir. Einnig tekur þagnarskylda til upplýsinga er varða starfshætti Tollstjóra, þar með talið fyrirhugaða tollrannsókn, og annarra upplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, starfsreglum eða eðli máls. Í 2. mgr. 188. gr. laganna segir að þagnarskylda haldist þótt látið sé af starfi.
Af fyrrnefndum ákvæðum leiðir að Tollstjóri og starfsmenn hans eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu. Verður því lagt til grundvallar að upplýsingarnar sem sóknaraðili krefst að fá afhentar séu háðar slíkum trúnaði enda má ætla að þær varði viðskipti einstakra manna og fyrirtækja samkvæmt gögnum sem tollyfirvöld halda eftir í skilningi 1. mgr. 188. gr. tollalaga. Samkvæmt þessu teljast upplýsingar þær sem gögn Tollstjóra hafa að geyma til atriða sem honum er almennt óheimilt að bera vitni um, sbr. c. lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Í samræmi við 188. gr. tollalaga gildir þagnarskylda Tollstjóra þó ekki ef dómari úrskurðar að honum sé skylt að veita upplýsingar fyrir dómi. Þar sem önnur ákvæði laga standa því ekki í vegi að sóknaraðila sé veittur aðgangur að umræddum gögnum er það hlutverk dómstóla að skera úr um hvort þær skuli lagðar fram í málinu, sbr. dóm Hæstaréttar 15. júní 2016 í máli nr. 385/2016. Við úrlausn um það atriði þarf að leggja mat á þá andstæðu hagsmuni sem hér vegast á, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991.
Eins og áður getur hefur sóknaraðili höfðað mál þetta á hendur varnaraðilunum Arnóri Stefánssyni og Dofra ehf., sem tekið hefur verið til gjaldþrotaskipta, til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir vegna ætlaðra vanefnda þessara varnaraðila á samkeppnisákvæði kaupsamningsins frá 5. mars 2013. Til stuðnings kröfu sinni hefur sóknaraðili lagt fram áðurgreint farmbréf frá 4. júlí 2014, þar sem fram kemur magn og verð þeirrar vöru, sem flutt var hingað til lands með gámi þeim er farmbréfið varðar. Jafnframt hefur sóknaraðili lagt fram tölvubréf það frá 13. október 2014, sem áður er getið, en í því kom fram að sendandi tölvubréfsins væri framleiðandi vörunnar sem send var með gámnum. Krafa sóknaraðila um afhendingu áðurgreindra gagna úr tollkerfi er liður í nánari sönnunarfærslu um þau atriði, sem málsókn sóknaraðila er reist á, en hann telur að upplýsingar um innflytjanda umræddrar sendingar eða sendinga frá Suður-Kóreu á áðurnefndu tímabili hafi þýðingu í málinu. Gildi það án tillits til þess hver móttakandi vörunnar kunni að hafa verið, enda hafi sóknaraðili leitt að því nægar líkur að sennilegt sé að varnaraðilinn Arnór eigi þar hlut að máli. Við mat á hagsmunum innflytjandans beri að hafa í huga að þegar liggi fyrir farmbréf þar sem fram komi upplýsingar um vöruna og verð hennar en ekki nafn innflytjandans og verði ekki séð að nafn innflytjanda geti flokkast undir viðskiptaleyndamál.
Með vísan til þess sem að framan er rakið hefur sóknaraðili fært að því gild rök að vikið skuli frá meginreglunni um þagnarskyldu Tollstjóra samkvæmt 188. gr. tollalaga, enda verður ekki talið að afhending umbeðinna gagna feli í sér frásögn af einkahögum manns sem ekki á aðild að máli í skilningi 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem varnaraðilinn Tollstjóri hefur ekki fært haldbær rök fyrir hinu gagnstæða er fallist á með sóknaraðila að hagsmunir hans af því að umbeðnar upplýsingar úr tollkerfi verði lagðar fram vegi þyngra en hagsmunir varnaraðilans Tollstjóra af því að efni þeirra verði haldið leyndu. Er þá einnig litið til þess að varnaraðilarnir Arnór Stefánsson og þrotabú Dofra ehf. hafa undir rekstri málsins ítrekað lýst því yfir að þeir hafi ekki flutt umræddan gám hingað til lands og verður í því ljósi ekki séð að afhending gagnanna geti falið í sér upplýsingar um viðskipti þeirra.
Eftir framangreindum úrslitum verður varnaraðilum gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Varnaraðilanum Tollstjóra er skylt að afhenda sóknaraðila, Ísfelli ehf., skjal sem geymir upplýsingar úr tollkerfi um innflutningsaðila á innihaldi gáms á farmbréfi á dómskjali nr. 19, sem út var gefið 4. júlí 2014, og skjal úr tollkerfi sem geymir upplýsingar um fjölda afgreiddra gáma til sama innflutningsaðila með sams konar innihaldi á tímabilinu 1. janúar til 15. október 2014.
Varnaraðilar, Tollstjóri, Arnór Stefánsson og þrotabú Dofra ehf., greiði hver fyrir sig sóknaraðila samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júlí 2016
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 27. júní sl. um kröfu stefnanda um Tollstjóra verði skyldaður með úrskurði til að afhenda nánar tilgreind skjöl, var höfðað með stefnu þingfestri þann 26. febrúar 2015 af Ísfelli ehf., Óseyrarbraut 28, Hafnarfirði, á hendur Arnóri Stefánssyni og Dofra ehf., báðum til heimilis að Þverási 47, Reykjavík.
Í þinghaldi þann 23. maí sl. óskaði stefnandi, hér eftir í þessum afmarkaða þætti málsins nefndur sóknaraðili, eftir því að Tollstjóri, hér eftir nefndur varnaraðili, yrði skyldaður með úrskurði til þess að afhenda nánar tilgreind skjöl fyrir dómi í samræmi við 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991., sbr. 3. og 4. gr. 67. gr. laganna.
- Annars vegar skjal með upplýsingum úr tollkerfi um innflutningsaðila á innihaldi gáms á farmbréfi, sbr. dskj. nr. 19.
- Hins vegar skjal sem upplýsir fjölda afgreiddra gáma til sama innflutningsaðila með sams konar innihaldi, á tímabilinu 1. janúar 2014 til 15. október 2014.
Til vara krefst sóknaraðili þess að gögnin verði lögð fyrir dómara í trúnaði og gegn þagnarskyldu.
Flutningur um kröfuna fór fram þann 27. júní sl.
Hinn 20. janúar sl. hafði sóknaraðili farið fram á það við varnaraðila að afhenda sér umrædd gögn, en þeirri beiðni var hafnað með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 188. gr. tollalaga nr. 88/2005
Sóknaraðili byggir á því að hann hafi einstaklega hagsmuni af því að kynna sér gögnin með vísan til kaupsamings aðila, en í máli þessu beri hann sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu sinni að stefndi í málinu, Arnór Stefánsson, hafi brotið gegn samkeppnisákvæði kaupsamnings aðila með innflutningi nánar tiltekinna gáma af línum. Stefndi hefur neitað því að hafa flutt inn umrædda gáma og því að hafa undir höndum aðflutningskýrslu vegna þeirra. Sóknaraðili telur sig hafa hagsmuni af því að vita hvort umræddir gámar hafi verið sendir til landsins að beiðni stefnda Arnórs, í bága við samkeppnisákvæði kaupsamnings aðila.
Varakröfu sína byggir sóknaraðili á 1. mgr. 69. gr. eml, og er hún sett fram ef svo yrði talið að einhver hinna umbeðnu gagna hefðu að geyma atriði sem varnaraðila væri óskyld eða óheimilt að bera vitni um. Með þeim hætti gæti dómurinn staðfest án þess að trúnaður væri brotinn um viðkomandi gögn hvort þau vörðuðu stefnda Arnór Stefánsson eða félög sem hann tengist.
Ljóst er og ágreiningslaust að varnaraðili hefur tiltækar þær upplýsingar sem stefnandi óskar eftir, sbr. tölvupóstsamskipti lögmanns sóknaraðila og starfsmanns varnaraðila frá 20. maí 2016, og að þær upplýsingar séu í vörslum varnaraðila. Ekki er útlokað að umrædd skjöl/gögn geti haft þýðingu í málinu. Í kröfu sóknaraðila eru ekki tilgreind ákveðin skjöl heldur gögn er varða innflutningsferlið sem kallar á að varnaraðili þarf að prenta þau út úr tölvukerfi sínu. Stefndu í máli þessu hafa lýst því yfir að þeir hafi ekki umrædd gögn undir höndum þar sem þeir hafi ekki staðið að innflutningi þeim sem um ræðir, sbr. farmbréf, dskj. nr. 19.
Í 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála kemur fram að aðili geti, verði vörslumaður skjals ekki við kröfu hans um afhendingu þess, lagt fyrir dómara þau gögn sem getið er um í 4. mgr. 67. gr., ásamt beiðni um að vörslumaður verði með úrskurði skyldaður til þess að afhenda skjalið fyrir dómi. Samkvæmt 3. mgr. 67. gr. getur aðili krafist þess að fá skjal, sem er í vörslum manns sem ekki er aðili að máli, til framlagningar ef vörslumanni skjalsins er skylt að afhenda það aðilanum, án tillits til málsins eða efni skjalsins sé slíkt að vörslumanni sé skylt að bera vitni um það í málinu.
Varnaraðili hafnar því að sér sé skylt að afhenda umrædd gögn og vísar til þagnarskylduákvæðis 188. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sem kveður á um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna.
Í 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir: „Ákvæði annarra laga sem heimila víðtækari aðgang að upplýsingum halda gildi sínu. Almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarka ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögum þessum.“ Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna kemur eftirfarandi fram varðandi þetta ákvæði. „Þau sérákvæði laga um þagnarskyldu þar sem upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til ganga skýrlega lengra en ákvæði 6.–10. gr. frumvarpsins, eða taka til annarra upplýsinga en þar eru undanþegnar aðgangi almennings, ganga framar ákvæðum frumvarps þessa, ef að lögum verður, og hindra því aðgang að þeim upplýsingum sem þar er getið. Afar fá slík ákvæði eru í íslenskum lögum þannig að um óveruleg frávik er að ræða frá þeim rétti til aðgangs að gögnum sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu.“
Þá kemur jafnframt fram í athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga að skýra beri sérákvæði um þagnarskyldu til samræmis við 9. gr. laganna, en í 2. mgr. 9. gr. er svo mælt fyrir um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Úr athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga segir um 9. gr.
„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“
Þá kemur fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 140/2012, að sérstök ákvæði um þagnarskyldu gangi framar reglum um upplýsingarétt eftir II. og III. kafla upplýsingalaga nr. 140/2012.
Því verður að telja að 188. gr. tollalaga nr. 88/2005 sé sérákvæði um þagnarskyldu Tollstjóra, en þar er tiltekið að undir þagnaskylduna falli upplýsingar um viðskipti einstakra manna og fyrirtækja, þ.m.t. hvers konar vitneskja sem ráða má af samritum af sölu- og vörureikningum sem tollyfirvöld halda eftir.
Í máli þessu er jafnframt til þess að líta að lögð hafa verið fram staðafestar útprentanir úr tollakerfi varnaraðila og þar kemur fram að á tímabilinu 1. janúar 2014 til 15. október 2014, sem vísað er til í kröfu sóknaraðila, voru engar sendingar tollafgreiddar til stefndu í máli þessu. Af því leiðir að gögn þau, sem krafist er afhendingar á, varða væntanlega aðra aðila en aðild eiga að máli þessu.
Sóknaraðili hefur ekki fært fullnægjandi rök fyrir því að varnaraðila væri skylt að bera vitni í málinu um efni þeirra skjala sem krafist er afhendingar á, sbr. 53. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 188. gr. tollalaga og 9. gr. upplýsingalaga. Þá liggur fyrir að varnaraðili hefur gert grein fyrir því að hann hafi ekki umrædda aðflutningaskýrslu undir höndum.
Samkvæmt framangreindu eru skilyrði 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 ekki uppfyllt og verður því ekki fallist á það með sóknaraðila að hann eigi rétt til aðgangs að upplýsingum úr tollkerfi varnaraðila, sem og skjali, sem upplýsir fjölda tollafgreiddra gáma til sama innflutningsaðila á tilteknu tímabili. Í 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 segir að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um atriði, sem það hefur komist að í opinberu starfi, sbr. c-lið, og á að fara leynt. Einnig um leyndarmál um viðskipti, uppgötvanir eða önnur slík verk sem það hefur komist að í starfi, sbr. c-lið. Samkvæmt 3. mgr. 53. gr. sömu laga getur dómari eftir kröfu aðila lagt fyrir vitni að svara spurningu þótt leyfi sé ekki veitt til þess, enda feli þá svarið ekki í sér frásögn af einkahögum manns sem á ekki aðila að máli, ef dómari telur hagsmuni aðila verulega meiri af því að upplýst verði um atriði samkvæmt b-d lið 2. mgr. Þá getur dómari, telji hann óvíst hvort þessum skilyrðum sé fullnægt, lagt fyrir vitni að tjá sér fyrst í trúnaði hvers efnis svar þess yrði, sbr. 2. ml. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991.
Sóknaraðili hefur ekki fært fram fullnægjandi rök fyrir því að umbeðin gögn séu þess eðlis að varnaraðila sé skylt að verða við kröfu hans. Því verður ekki fallist á að sóknaraðili hafi fært haldbær rök fyrir því og/eða að ríkar ástæður mæli
með því að vikið skuli frá meginreglunni um þagnarskyldu sóknaraðila skv. 188. gr. tollalaga eða sýnt fram á engar aðrar leiðir séu ekki færar til að afla þessara gagna.
Varðandi varakröfu er henni jafnframt hafnað þar sem fyrir liggur skv. gögnum málsins að stefndu stóðu ekki að innflutningi á því tímabili sem hér um ræðir og innflutningsaðili væntanlega því einhver aðili sem dómari getur ekki farið að kanna hvort stefndu hafi einhver tengsl við. Samkvæmt því sem rakið hefur verið er kröfum sóknaraðila hafnað.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Ísfells ehf., um að varnaraðila, Tollstjóra, verði gert skylt að afhenda nánar tilgreindar upplýsingar úr tollkerfi um innflutningsaðila á innihaldi gáms og upplýsingar um fjölda afgreiddra gáma til sama innflutningsaðila með sams konar innihaldi, á tímabilinu 1. janúar 2014 til 15. október 2014.
Þá er hafnað kröfu sóknaraðila um að gögnin verði lögð fyrir dómara í trúnaði og gegn þagnarskyldu.
Málskostnaður fellur niður.