Hæstiréttur íslands
Mál nr. 381/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Föstudaginn 26. ágúst 2005. |
|
Nr. 381/2005. |
X(Helgi Birgisson hrl.) gegn A (Sif Thorlacius hdl.) |
Kærumál. Lögræði.
Fallist var á að X yrði svipt sjálfræði tímabundið í tólf mánuði, enda væri hún ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 16. ágúst 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. ágúst 2005, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila um að hún verði svipt sjálfræði verði hafnað. Til vara krefst hún þess að hún verði svipt sjálfræði tímabundið í sex mánuði, en að því frágengnu að sviptingin vari í tólf mánuði. Þá er þess krafist að kærumálskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að sóknaraðili verði svipt sjálfræði tímabundið. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að skilyrði séu til að svipta sóknaraðila sjálfræði. Að virtum gögnum málsins eru þó ekki efni til annars en að þeirri sviptingu verði markaður ákveðinn tími, sbr. 1. mgr. 12. gr. lögræðislaga. Er því rétt að svipta sóknaraðila sjálfræði í tólf mánuði frá uppsögu þessa dóms að telja.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Sóknaraðili, X, er svipt sjálfræði í tólf mánuði.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, og talsmanns varnaraðila, Sifjar Thorlacius héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. ágúst 2005.
Með beiðni dagsettri 4. ágúst sl. hefur A, kt. [...], krafist þess aðallega að móðir hans, X, kt. [...], verði með vísan til a liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 svipt sjálfræði. Til vara er þess krafist með vísan til 5. gr. sömu laga að varnaraðili verði svipt sjálfræði tímabundið að mati dómsins. Með vísan til 17. gr. lögræðislaga var krafist málskostnaðar.
Við meðferð málsins fyrir dóminum var sóknaraðila skipaður talsmaður skv. 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga.
Varnaraðila var skipaður verjandi úr hópi starfandi lögmanna. Varnaraðili kom fyrir dóminn og mótmælti framkominni sjálfræðissviptingarkröfu.
Krafa sóknaraðila er byggð á því að varnaraðili hafi greinst með sjúkdóminn delusional disorder sem lýsi sér m.a. í verulegum ranghugmyndum og vantrausti. Vegna þessa sé samband hennar við nánustu ættingja slæmt þrátt fyrir ríkan vilja þeirra til að aðstoða varnaraðila. Er jafnframt vísað til framlagðs læknisvottorðs um heilsu varnaraðila. Varnaraðili hafi verið svipt sjálfræði í 6 mánuði á síðasta ári í framhaldi af innlögn hennar á geðdeild og hafi henni gengið ágætlega að stjórna lífi sínu meðan á þeirri meðferð stóð. Hún hafi fengið úthlutað íbúð hjá Búseta þar sem hún hafi haft fasta búsetu síðan. Hins vegar hefði henni versnað eftir að tímabundnu sjálfræðissviptingunni lauk enda hefði varnaraðili hætt allri læknismeðferð og iðjuþjálfun. Sjúkdómseinkenni hennar hefðu því farið verulega versnandi og hún því verið lögð inn á geðdeild 13. júlí sl. og nauðungarvistuð í 21 dag.
Samkvæmt framlögðu læknisvottorði Láru Björgvinsdóttur, geðlæknis, dagsettu 3. ágúst sl., var varnaraðili í innlögn sinni á geðdeild frá 29. júlí til 16. desember 2004 greind með delusional disorder geðsjúkdóm og væru sömu ranghugmyndir til staðar nú og þegar greiningin fór fram. Fram kemur í læknisvottorðinu að varnaraðili tók lyf sín meðan á tímabundnu sjálfræðissviptingunni stóð en hætti lyfjatöku þegar sviptingartímanum lauk. Í niðurstöðukafla vottorðsins kemur fram að varnaraðili eigi margra ára sögu um krónískan geðrofssjúkdóm og sé innsæislaus með öllu. Hún þurfi á meðferð að halda en allar líkur séu á að hún muni hætta allri meðferð ef hún útskrifist nú af geðdeild og yrði það hættulegt lífi hennar og heilsu. Mjög mikilvægt sé að varnaraðili fái viðeigandi meðferð sem myndi örugglega gagnast henni við að halda einkennum sjúkdóms hennar í skefjum en ólíklegt sé að markmið þetta náist án þess að til sjálfræðissvipingar komi. Lára Björgvinsdóttir, geðlæknir, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Staðfesti hún framangreint vottorð sitt og sjúkdómsgreiningu á varnaraðila sem þar kemur fram. Taldi hún nauðsynlegt fyrir líf og heilsu varnaraðila að hún yrði svipt sjálfræði svo hún þægi nauðsynlega læknismeðferð. Var það alit læknisins að varnaraðili væri of veik til að gera samkomulag um læknismeðferð sína og vísaði til þess að varnaraðili hefði lýst því yfir að hún myndi fara af sjúkrahúsinu væri hún ekki nauðungarvistuð.
Ljóst er af framlögðum gögnum og framburði læknisins, sem að framan er rakinn, að varnaraðili er haldin alvarlegum og krónískum geðrofssjúkdómi. Varnaraðili telur sig hins vegar ekki vera veika. Dóminum þykir sýnt að varnaraðili stríðir við alvarlegan geðsjúkdóm og er fallist á það með sóknaraðila að brýna nauðsyn beri til að varnaraðili njóti læknismeðferðar. Veikindi varnaraðila og algjör skortur á sjúkdómsinnsæi leiðir til þess að svipta verður hana sjálfræði með vísan til a liðar 4. gr. lögræðislaga. Af gögnum málsins og framburði læknisins fyrir dóminum sýnist fullreynt að marka sjálfræðissviptingunni skamman tíma og því telur dómurinn óraunhæft að marka sviptingunni ákveðinn tíma eins og mál þetta er vaxið.
Kostnaður af máli þessu greiðist úr ríkissjóði eins og í úrskurðarorði segir.
Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
X, kt. [...], er svipt sjálfræði.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sifjar Thorlacius hdl., 65.000 krónur greiðist úr ríkissjóði sem og útlagður kostnaðar 35.000 krónur.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Helga Birgissonar hrl., 65.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.