Hæstiréttur íslands

Mál nr. 509/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Mánudaginn 12. september 2011.

Nr. 509/2011.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms, um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. september 2011 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. september 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 21. september 2011 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. september 2011.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að X, kt. [...], [...] ,[...], dvalarstaður, [...], [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 21. september 2011 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. 

Kærði mótmælir kröfunni. Til vara krefst hann að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá mótmælir hann því, ef krafan verður tekin til greina, að honum verði gert að sæta einangrun.

Í greinargerð með kröfunni kemur fram að Lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi borist tilkynning frá Tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þann 23. ágúst 2011, um að Y hafi verið stöðvaður á tollhliði vegna gruns um að hann hefði fíkniefni falin í ferðatösku sinni. Við skoðun á ferðatöskunni hafi komið í ljós að taskan vó u.þ.b. 20 kg. tóm. Við skoðun tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á töskunni hafi komið í ljós umtalsvert magn af meintum fíkniefnum sem höfðu verið falin í töskunni. Samtals sé um að ræða 30.225 stykki af meintum Ecstasy töflum auk 4.707,43 gr. af efnum sem talin séu vera notuð til að drýgja fíkniefni, svokölluð íblöndunarefni. Er vísað nánar til meðfylgjandi gagna málsins.

Lögregla hafi rökstuddan grun um að kærði hafi verið í sambandi við Y þegar hann var erlendis. Þá hafi lögregla einnig upplýsingar um að kærði hafi í nokkur skipti lagt peninga inn á reikninga Y þegar hann var erlendis. Þá hafi fundist kreditkort í eigu kærða í fórum Y þegar hann var stöðvaður við komu sína til landsins.

Í dag, 7. september 2011, hafi lögregla framkvæmt húsleit að dvalarstað kærða. Við þá húsleit fundust 2 gr. af meintu amfetamíni auk 1 stk. Ecstasy töflu sem talin er vera sömu gerðar og þær töflur sem fundust í fórum Y við komu hans til landsins. Þá hafi fundist einnig önnur gögn sem tengjast framangreindum innflutningi á heimili kærða. Í kjölfar húsleitarinnar hafi kærði verið handtekinn af lögreglu.

Kærði hafi verið yfirheyrður einu sinni frá því að hann var handtekinn.

Rannsókn þessa máls sé í fullum gangi. Meðal þess sem verið er að rannsaka er aðdragandi ferðar Y til landsins og tengsl kærða við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis auk annarra atriða. Lögregla telur að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði sé einn af þeim aðilum sem hafi fengið Y til að flytja framangreind fíkniefni til landsins. Þá telji lögregla sig einnig hafa vísbendingar um að kærði hafi marg sinnis verið í sambandi við Y þegar hann var erlendis og í nokkur skipti hafi hann lagt peninga inn á reikninga í eigu Y. Magn hinna meintu fíkniefna, sem þegar hafa fundist í fórum kærða, þyki eindregið benda til þess að hin meintu fíkniefni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og að háttsemi hans kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 auk ákvæða laga nr. 65, 1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telji að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.

Þess er krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88, 2008.

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, laga nr. 65, 1974 um ávana og fíkniefni, telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 21. september 2011 kl. 16.00.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur fangelsi. Með vísan til alvarleika brotsins og rannsóknargagna þykja skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála vera uppfyllt í málinu. Verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um gæsluvarðhald yfir kærða eins og krafan er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.

Vegna rannsóknarhagsmuna og með vísan til gagna málsins verður krafan um að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi tekin til greina skv. b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 21. september nk. kl. 16.00.

Kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu samkvæmt b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.