Hæstiréttur íslands
Mál nr. 663/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Aðfararheimild
|
|
Fimmtudaginn
30. október 2014. |
|
Nr.
663/2014. |
Aðalbjörn Jóakimsson (Hrefna
Dögg Gunnarsdóttir hdl.) gegn LBI hf. (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Aðfararheimild.
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 513/2011
var D ehf. dæmt til að greiða L hf. tilgreinda fjárhæð. D ehf. hafði áður gefið
út tvö tryggingarbréf til L hf., með veði í fasteign A, til tryggingar skuldum
félagsins við bankann sem það stóð í þá „eða síðar á hvaða tíma sem er“.
Fallist var á að með framangreindum dómi hafi verið fengin veðtrygging fyrir
kröfu L hf. á hendur D ehf. í fasteign A. Hafi því verið unnt að leita eftir
fullnustu á kröfunni í eigninni með fjárnámi sem beint var að A sem gerðarþola,
þótt hann hafi enga aðild átt að framangreindu dómsmáli. Að þessu gættu en að
öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var aðfarargerð
sýslumanns staðfest.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur
Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. október 2014 sem barst
réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur
19. september 2014 þar sem staðfest var aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík
23. október 2013 í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Laugarásvegi 31 í
Reykjavík fyrir kröfu varnaraðila að fjárhæð 543.483.022 krónur. Kæruheimild er
í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fyrrnefnd
aðfarargerð verði ógilt. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og
kærumálskostnaðar.
Eins og ítarlega er rakið í hinum kærða úrskurði var Dynjandi ehf. með
dómi Hæstaréttar 22. mars 2012 í máli nr. 513/2011 dæmt til að greiða
Landsbanka Íslands hf., sem síðar fékk heiti varnaraðila, tilgreinda fjárhæð. Dynjandi
ehf. hafði gefið út tvö tryggingarbréf til varnaraðila 15. september 1998 og er
efni þeirra rakið í hinum kærða úrskurði. Með bréfunum voru varnaraðila sett að
veði tvö skip en 21. október 2004 voru veðin færð yfir á fasteign sóknaraðila Laugarásveg
31 í Reykjavík. Með þessu var fengin veðtrygging fyrir kröfu varnaraðila á hendur
Dynjanda ehf. í fasteign sóknaraðila. Var því unnt að leita eftir fullnustu á
kröfunni í eigninni með fjárnámi sem beint var að sóknaraðila sem gerðarþola,
þótt hann hafi enga aðild átt að framangreindu dómsmáli. Að þessu gættu en að
öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins
og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn
kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili,
Aðalbjörn Jóakimsson, greiði varnaraðila, LBI hf., 350.000 krónur í
kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19.
september 2014.
Mál
þetta var þingfest 4. mars sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum
málflutningi 4. september sl. Sóknaraðili er Aðalbjörn Jóakimsson, kt. [...],
Laugarásvegi 31, Reykjavík, en varnaraðili er LBI hf., kt. [...], áður
Landsbanki Íslands hf., Álfheimum 74, Reykjavík.
Dómkröfur
sóknaraðila eru þær að felld verði úr gildi fjárnámsgerð sýslumannsins í
Reykjavík, nr. 011-2013-08774, sem fram fór 23. október 2013 í eignarhluta
sóknaraðila í fasteigninni Laugarásvegi 31, Reykjavík, fastanúmer 201-9989,
fyrir kröfu að fjárhæð 543.483.022 krónur, að kröfu varnaraðila, LBI hf. Þá
krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila, að teknu tilliti til
virðisaukaskatts.
Varnaraðili
krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og áðurnefnd fjárnámsgerð
sýslumannsins í Reykjavík staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr
hendi sóknaraðila, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
I
Málavextir.
Einkahlutafélagið
Dynjandi mun hafa stundað útgerðarstarfsemi til nokkurra ára en á árinu 2004
seldi félagið skip sín og aflaheimildir og starfsemi þess þróaðist yfir í
fjárfestingarstarfsemi. Áttu félagið og forveri varnaraðila, Landsbanki Íslands
hf., um nokkurt skeið í umfangsmiklum viðskiptum með ýmiss konar
fjármálagerninga, m.a. vegna afleiðuviðskipta. Ritaði sóknaraðili, sem var
fyrirsvarsmaður Dynjanda ehf., fyrir hans hönd undir almenna skilmála fyrir
markaðsviðskipti hjá áfrýjanda. Með dómi Hæstaréttar frá 22. mars 2012 í máli
nr. 513/2011 var Dynjanda ehf. gert að greiða Landsbanka Íslands hf. skuld að
fjárhæð 370.851.103 japönsk jen vegna afleiðuviðskipta sem átt höfðu sér stað á
árinu 2006.
Dynjandi
ehf. gaf út tvö tryggingarbréf til forvera varnaraðila 15. september 1998 hvort
um sig að nafnverðsfjárhæð 120.000.000 króna og var bréfunum þinglýst. Með öðru
bréfinu var bankanum sett að veði skipið Ásbjörg RE-79 en veðið var 21. október
2004 flutt yfir á fasteign sóknaraðila að Laugarásvegi 31 í Reykjavík. Með hinu
bréfinu var bankanum sett að veði skipið Sigurgeir Sigurðsson RE-80 en veðið
var að sama skapi síðar fært yfir á áðurnefnda fasteign 21. október 2004. Með
útgáfu tryggingarbréfanna setti Dynjandi ehf. veðið „til tryggingar skilvísri
og skaðlausri greiðslu á skuldum þeim, sem ég nú eða síðar, á hvaða tíma sem
er, stend í við Landsbanka Íslands hf. hvort sem það eru víxilskuldir mínar,
víxilábyrgðir, yfirdráttur á tékkareikningi eða hvers konar aðrar skuldir við
bankann, þar með taldar ábyrgðir, er bankinn hefir tekist eða kann að takast á
hendur mín vegna, að samtaldri fjárhæð allt að kr. 120.000.000,00“ eins og þar
segir og eru bréfin samhljóða hvað þetta varðar. Hvíla bréfin nú á 2. og 3.
veðrétti á fasteign sóknaraðila að Laugarásvegi 31.
Varnaraðili
og Landsbankinn hf. óskuðu eftir því með bréfi til sýslumannsins í Reykjavík 6.
júní 2012, með vísan til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 að
eignar- og tryggingarréttindi í Laugarásvegi 31 í Reykjavík yrðu leiðrétt í
fyrra horf, þ.e. að réttindin yrðu skráð á nafn varnaraðila. Í bréfinu kom fram
að með áðurnefndri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi þeim fyrirmælum verið
beint til opinberra aðila sem hefðu með höndum opinbera skráningu eignar- og
tryggingarréttinda, að þeir skyldu færa allar eignir og tryggingarréttindi í nafni
varnaraðila, yfir á nafn Landsbankans hf. Þá kom þar fram að sérgreind
tryggingarréttindi ættu að vera áfram skráð á nafn varnaraðila. Var bréfinu
þinglýst 15. september 2012 og mun skráning í þinglýsingabækur hafa verið færð
í það horf er óskað var eftir.
Fjárnám
var gert í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Laugarásvegi 31 að kröfu
varnaraðila á grundvelli hinna þinglýstu tryggingarbréfa og með vísan til
áðurnefnds dóms Hæstaréttar. Í málinu lýtur ágreiningur aðila ekki að þeirri
skuld sem Dynjandi ehf. var dæmdur til að greiða með dóminum heldur telur
sóknaraðili að fjárnám vegna þeirrar kröfu á hendur Dynjanda ehf. verði ekki
sótt í fasteign sóknaraðila enda standi tryggingarbréfin ekki til tryggingar
afleiðuviðskiptum Dynjanda ehf.
Aðfarargerðin,
sem fékk númerið 011-2013-08774, var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík
23. október 2013. Sóknaraðili mótmælti gerðinni og krafðist þess að hún yrði
stöðvuð. Sýslumaður ákvað að taka mótmæli sóknaraðila ekki til greina og var
gerðinni fram haldið að kröfu varnaraðila. Gerðinni lauk sama dag með fjárnámi
í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni að Laugarásvegi 31 í Reykjavík, eins
og áður sagði.
II
Málsástæður
og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili
krefst þess að aðfarargerð sú er fram fór 23. október 2013 í eignarhluta hans
að Laugarásvegi 31 verði felld úr gildi. Byggir hann í fyrsta lagi á því að
varnaraðili geti ekki byggt rétt á tryggingarbréfunum sem voru aðfarargerðinni
til grundvallar og sé því rangur aðili að gerðinni. Vísar sóknaraðili til þess
að með ákvörðun Fjármálaeftirlitins, 9. október 2008, hafi öll
tryggingarréttindi að meginstefnu til færst frá varnaraðila, gamla bankanum,
til Landsbankans hf., nýja bankans. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 19. sama
mánaðar, hafi svo sérgreind tryggingarréttindi vegna afleiðna verið færð aftur
til varnaraðila, gamla bankans. Tryggingarbréfin feli á hinn bóginn ekki í sér
sérgreind réttindi í skilningi þeirrar ákvörðunar. Þau hafi þvert á móti verið
svokölluð allsherjarveð og sé víða í
skjölum málsins vísað til þeirra sem slíkra. Þá sé það í samræmi við orðalag
þeirra sjálfra sem á engan hátt gefi til kynna að um hafi verið að ræða
sérgreindar tryggingar vegna kröfuréttinda og afleiðusamninga, ólíkt atvikum í
dómi Hæstaréttar frá 1. desember 2011 í máli nr. 129/2011 sem varnaraðili vísi
til.
Sóknaraðili
kveður að með áðurnefndum ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins hafi verið settar
almennar reglur um hvernig réttindum yrði skipt milli bankanna tveggja. Engu
breyti þótt sýslumaðurinn í Reykjavík hafi ranglega fært tryggingarbréfin í
fyrra horf, þ.e. skráð þau á nafn Landsbanka Íslands hf. í kjölfar erindis
Landsbanka Íslands hf. og Landsbankans hf. frá 6. júní 2012 þar um.
Þá
byggir sóknaraðili á því í öðru lagi að tryggingarbréfunum hafi verið ætlað að
tryggja skuldir Dynjanda ehf. gagnvart Landsbanka Íslands hf. vegna
fasteignakaupa sem gerðir hafi verið lánasamningar um en ekki vegna
gjaldmiðlaskiptasamninga eða annarra afleiðna. Vísar sóknaraðili til þess að á
þeim tíma er tryggingarbréfin voru gefin út hafi Dynjandi ehf. verið
útgerðarfyrirtæki. Árið 2004 hafi skip félagsins og aflaheimildir verið seldar.
Söluandvirðið hafi verið lagt á reikning hjá viðskiptabanka Dynjanda ehf., þ.e.
Landsbanka Íslands hf. og innstæður reikninga settar að handveði á grundvelli
yfirlýsinga þar að lútandi. Það hafi verið trú sóknaraðila að innstæðurnar kæmu
til tryggingar gjaldmiðlaskuldum Dynjanda ehf. enda beri orðalag
handveðsyfirlýsinganna það með sér. Þá hafi þann skilning mátt rekja til
sérstaks kynningarfundar sem fram hafi farið þann 8. nóvember 2004 þar sem
félaginu hafi verið kynntar leiðir til fjárfestinga, m.a. viðskipti með
afleiður. Á fundinum hafi komið fram að Landsbanki Íslands hf. gæti boðið upp á
áhættulítil hlutabréfa- og gjaldeyrisviðskipti og var samningur um ráðgjöf um
skulda- og áhættustýringu undirritaður 19. nóvember 2004. Í samningnum sé að
finna skilmála þess efnis að Landsbanki Íslands hf. skuli útbúa „afleiðuramma“
fyrir Dynjanda ehf. og að umfang afleiðusamninganna skyldi rúmast innan þess
ramma. Skömmu eftir undirritun samningsins, eða í byrjun árs 2005, hafi verið
útbúin sérstök afleiðuheimild að fjárhæð 100.000.000 króna og hafi tryggingar
fyrir afleiðurammanum verið teknar í hinum handveðsettu innlánsreikningum.
Handveðsyfirlýsingarnar vísi báðar til þess að m.a. sé um að ræða tryggingu
fyrir afleiðuviðskiptum.
Sóknaraðili
telur því ljóst að ekkert í skjölum málsins eða atvikum þess bendi til þess að
hin umþrættu tryggingarbréf skyldu standa til tryggingar greiðslu á skuldum
Dynjanda ehf. vegna gjaldmiðlaskiptasamninga. Þvert á móti hafi verið umsamið
að innstæður á reikningi samkvæmt fyrrgreindum handveðsyfirlýsingum hafi átt að
standa til tryggingar þeirri skuld sem Dynjandi ehf. var síðar dæmdur til að
greiða með dómi Hæstaréttar frá 22. mars 2012 í máli nr. 513/2011.
Sóknaraðili
kveðst vekja athygli á að 13. desember 2004 hafi þess verið farið á leit við
Landsbanka Íslands hf. að skuldir Dynjanda ehf. yrðu gerðar upp að fullu. Telur
sóknaraðili að svo hafi um samist að tryggingarbréfin skyldi aðeins nýta vegna
fasteignaviðskipta. Um þetta leyti hafi hvílt fjögur tryggingarbréf á fasteign
sóknaraðila en við kaup Dynjanda ehf. á fasteignum, m.a. að Borgartúni 28 og
Kringlunni 4-12, hafi tryggingarbréfin eitt af öðru verið færð af Laugarásvegi 31
og yfir á viðkomandi fasteign. Sóknaraðili hafi farið þess á leit við
Landsbanka Íslands hf. að önnur lán Dynjanda ehf. yrðu greidd upp enda hafi
ekki staðið til að tryggingarbréfin tvö, sem eftir stóðu á fasteign
sóknaraðila, stæðu til tryggingar öðrum skuldum félagsins en
fasteignaviðskiptum.
Þá
kveðst sóknaraðili í þriðja lagi byggja á því að gerð hafi verið mistök af
hálfu sýslumannsins í Reykjavík í skilningi 18. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978
þegar tryggingarbréfin voru færð aftur til Landsbanka Íslands hf. í kjölfar
erindis til sýslumanns 6. júní 2012. Orðalag erindisins hafi verið villandi en
þar hafi komið fram: „Tryggingarréttindi vegna útlána, sem ekki færðust til
Landsbankans hf. á grundvelli viðauka við ofangreinda ákvörðun
Fjármálaeftirlitins, dags. 9. október 2008, sbr. 1. tölul. hennar, svo og
heimildar skilanefndar til að ákveða með bókun við stofnefnahag að útlán
færðust ekki yfir til Landsbankans hf., haldast óbreytt, þ.e. þau
tryggingarréttindi eiga að vera áfram skráð á nafn Landsbanka Íslands hf. Sama
gildir um sérgreind tryggingarréttindi vegna afleiðna.“ Kveður sóknaraðili að í
erindinu sé látið að því liggja að skráningu allsherjarveða, líkt og
tryggingarbréfa sóknaraðila, hafi átt að leiðrétta enda hafi undantekning í
ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 19. október 2008 átt við slík allsherjarveð
rétt eins og um sérgreind tryggingarréttindi vegna afleiðna. Sóknaraðili bendir
á að framangreint erindi sé í hróplegu ósamræmi við ákvarðanir
Fjármáleftirlitsins. Mistök hafi því verið gerð þegar bréfin voru færð í fyrra
horf og ranglega þinglýst á Landsbanka Íslands hf. Sýslumanninum í Reykjavík
hafi borið að ganga úr skugga um að tryggingarbréfin hefðu réttilega tilheyrt
Landsbanka Íslands hf., sbr. 7. og 12. gr. þinglýsingalaga. Sóknaraðili verði
ekki látinn bera hallann af því að mistök hafi verið gerð við þinglýsingu.
Þegar af þessari ástæðu beri að fallast á kröfu sóknaraðila.
Í
fjórða lagi byggir sóknaraðili á því
að varnaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að tryggingarbréfin hafi verið
réttilega færð á Landsbanka Íslands hf. Varnaraðili hafi ekki lagt fram frumrit
tryggingarbréfanna og þannig ekki leitt að því neinar líkur að tryggingarbréfin
hafi verið árituð um framsal. Varnaraðili verði að bera hallann af því að
réttindi varnaraðila séu ekki ótvíræð. Sóknaraðili telur röksemdir sínar benda
til þess að ranglega hafi verið krafist aðfarar hjá sóknaraðila. Aðför sé afar
íþyngjandi fyrir sóknaraðila sem hafi búið ásamt fjölskyldu sinni á
Laugarásvegi 31 um árabil og hann verði ekki látinn sæta því að slík gerð hafi
farið fram á grundvelli tryggingarbréfa sem ekki tilheyri varnaraðila.
Sóknaraðili
vísar til aðfararlaga nr. 90/1989, einkum 15. kafla þeirra laga,
þinglýsingalaga nr. 39/1978, einkum 5., 7., 12. og 18. gr. Þá vísar hann til 87.-89.
gr. og 1. mgr. 90. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um málskostnað
vísar hann til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 130.
gr., sbr. einnig 94. gr. aðfararlaga.
III
Málsástæður
og lagarök varnaraðila
Varnaraðili
byggir kröfu sína á því að öll skilyrði laga nr. 90/1989 um aðför hafi verið
uppfyllt er aðfarargerð í máli nr. 011-2013-08774 fór fram þann 23. október
2013.
Varnaraðili
mótmælir þeirri málsástæðu sóknaraðila sem rangri að hann sé ekki veðhafi
samkvæmt þeim tryggingarbréfum sem málið varði. Í fyrsta lagi hafi ekki verið
til að dreifa öðrum skuldum Dynjanda ehf. en á grundvelli afleiðusamninga þegar
ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var tekin. Liggi því í hlutarins eðli að allar
tryggingar voru sérgreindar, í skilningi ákvörðunarinnar, fyrir skuldum
samkvæmt afleiðusamningum. Í öðru lagi vísar varnaraðili til röksemda í dómi
Hæstaréttar í máli nr. 493/2013 en þar taldi dómurinn handveðsyfirlýsingu
nægilega sérgreinda í skilningi ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 19. október
2008 þar sem hún tók til ákveðins bankareiknings. Engu var talið breyta þótt
skuldin sem hún átti að tryggja væri það ekki. Í tryggingarbréfunum sé
tilgreind fasteignin við Laugarásveg 31 í Reykjavík. Veðandlagið sé því
sérgreint. Óumdeilt sé á hinn bóginn að sú skuld sem veðið á að tryggja er það
ekki. Með vísan til framangreinds dóms Hæstaréttar, geti það þó ekki falið í
sér að tryggingin sé ekki sérgreind í skilningi áðurnefndrar ákvörðunar
Fjármálaeftirlitsins.
Þá
hafnar varnaraðili þeirri málsástæðu sóknaraðila að ekki hafi staðið til að veð
á grundvelli tryggingarbréfanna stæðu til tryggingar afleiðuskuldum. Þessi
málsástæða sé ósamrýmanleg því sem sóknaraðili haldi fram í fyrstu málsástæðu
enda geti tryggingarbréf ekki staðið til tryggingar öllum skuldum og einhverjum
tilgreindum skuldum á sama tíma. Varnaraðili vísar til orðalags
tryggingarbréfanna en þar segi að veðandlag tryggingarbréfanna sé veðsett til
tryggingar öllum þeim skuldum sem útgefandi stendur í við veðhafa á hverjum
tíma. Í því felist að veðandlag tryggingarbréfanna standi einnig til tryggingar
skuldum samkvæmt afleiðusamningum. Ekkert liggi fyrir um það að tilgangur
tryggingarbréfanna hafi eingöngu verið að tryggja fasteignaviðskipti Dynjanda
ehf. og væri slíkur tilgangur í hróplegu ósamræmi við skýrt efni
tryggingarbréfanna.
Þá
byggi sóknaraðili á því að einungis handveð í innstæðum bankareikninga hafi átt
að standa til tryggingar afleiðuskuldum Dynjanda ehf. og vísi hann þar um til
orðalags handveðsyfirlýsinganna. Varnaraðili kveður umrædd handveð hafa 26.
mars 2008 verið nýtt til greiðslu annarra skulda Dynjanda ehf. en
afleiðuskulda, eins og sjá megi af viðskiptakvittunum sem séu meðal gagna
málsins Engin handveð hafi því verið til staðar þegar áðurnefnd ákvörðun
Fjármálaeftirlitsins var tekin. Aukinheldur hafi handveðin einnig verið
svokölluð allsherjarveð, þ.e. þau tryggðu allar skuldir veðsala við Landsbanka
Íslands hf. Vísun sóknaraðila til orðalags handveðsyfirlýsinganna sé því
þýðingarlaus. Varðandi tilvísun sóknaraðila til skjals sem beri yfirskriftina
„Yfirlit yfir samninga og tryggingar“ vill
varnaraðili benda á að það er dagsett í apríl 2006, tveimur og hálfu ári áður
en Fjármálaeftirlitið tók áðurnefnda ákvörðun, skjalið geti því ekki verið
grundvöllur fyrir því hvað telst sérgreind trygging í skilningi ákvörðunar
eftirlitsins 2008.
Varnaraðili
bendir á að öll þau veðskjöl sem lögð hafi verið fram í máli þessu eru
svokölluð allsherjarveð. Í því felist að það er á forræði veðhafa að ákveða
þegar veðtryggingar hafi verið innleystar inn á hvaða skuldir andvirði þeirra
sé ráðstafað. Það liggi ekkert fyrir í máli þessu að veðhafi hafi fallist á það
að umræddum tryggingarbréfum hafi eingöngu verið ætlað að tryggja
fasteignaviðskipti Dynjanda ehf. Sé það þvert á skýrt orðalag
tryggingarbréfanna um að þau tryggi allar skuldir félagsins. Jafnframt sé ekki
til að dreifa neinni sönnun fyrir því að sóknaraðili hafi litið svo á að veðið
stæði aðeins til tryggingar fasteignaviðskiptum Dynjanda ehf. Varnaraðili
bendir einnig á að hvorki sóknaraðili né Dynjandi ehf. höfðu heimtingu á því að
ákveða að tryggingarbréfin stæðu eingöngu til tryggingar fasteignaviðskipum
Dynjanda ehf. Sé þessi málsástæða sóknaraðila því haldlaus.
Varnaraðili
bendir jafnframt á að þrátt fyrir meintan skilning sóknaraðila á því að
tryggingarbréfin hafi eingöngu staðið til tryggingar fasteignaviðskiptum
Dynjanda ehf. hefur sóknaraðili aldrei krafist eða óskað eftir aflýsingu
þeirra. Það sé fyrst í greinargerð hans nú sem þessi skilningur komi fram. Það
liggi fyrir að nú eru um það bil sex ár síðan Dynjandi ehf. gerði upp öll lán
félagsins hjá Landsbanka Íslands hf. en frá þeim tíma hafi sóknaraðili aldrei
hreyft mótmælum við að tryggingarbréfunum hafi ekki verið aflétt. Sé þessi
málsástæða sóknaraðila mjög ótrúverðug og þar að auki, ef rétt væri, hefur
sóknaraðili sýnt af sér gríðarlegt tómlæti, sem varðar réttindamissi að mati
varnaraðila.
Þá
telur varnaraðili engin þinglýsingamistök hafa átt sér stað. Tryggingarbréfin
hafi verið sérgreind trygging fyrir afleiðuskuld Dynjanda ehf., í skilningi
ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, og réttindin hafi því ekki verið flutt til
Landsbankans hf. Varnaraðili bendir jafnframt á að yfirlýsingin stafi einnig
frá Landsbankanum hf. en ef sóknaraðili færi með rétt mál þá ætti Landsbankinn
hf. réttindin samkvæmt tryggingarbréfunum. Landsbankinn hf. lýsi því á hinn
bóginn yfir að þessi réttindi hafi ekki flust til hans með ákvörðun
Fjármálaeftirlitsins. Sé því ljóst að mati varnaraðila að engin mistök hafi átt
sér stað við þinglýsingu yfirlýsingarinnar. Aukinheldur telur varnaraðili að
ekki sé unnt að fella úr gildi ákvörðun um að láta fjárnám fara fram nema að
leyst hafi verið úr ágreiningi um hvort mistök hafi átt sér stað við
þinglýsingu á grundvelli þeirrar málsmeðferðar sem kveðið sé á um í
þinglýsingalögum nr. 39/1978. Þar sem það hafi ekki verið gert, sé í máli þessu
að minnsta kosti ósannað að mistök hafi átt sér stað við þinglýsingu umræddrar
yfirlýsingar.
Hvað
varðar fjórðu málsástæðu sóknaraðila bendir varnaraðili á að réttaráhrif
þeirrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins sem vísað hafi verið til, séu þau að
réttindin sem færðust ekki til Landsbankans hf. á grundvelli ákvörðunarinnar
séu óhreyfð hjá varnaraðila. Þar af leiðandi hafi engin kröfuhafaskipti átt sér
stað og hafi áritun á frumrit tryggingarbréfanna því verið þýðingarlaus.
Byggist þetta m.a. á orðalagi ákvörðunar Fjármáleftirlitsins frá 19. október
2008 þar sem segi: „Ákvörðunin tekur þegar gildi og skal hún, ásamt
breytingarákvörðuninni frá 12. október 2008, vera bindandi í lögskiptum aðila
frá 9. október 2008, í samræmi við áorðnar breytingar.“
Þinglýstu
yfirlýsingunni hafi verið ætlað að leiðrétta þinglýsingarbækur sem hafði
ranglega verið breytt á þann veg að Landsbankinn hf. væri veðhafi samkvæmt
tryggingarbréfunum. Réttindi samkvæmt tryggingarbréfunum hafi frá öndverðu
tilheyrt varnaraðila.
Varnaraðili
ítrekar að lokum að það sé ljóst af efni framangreindrar yfirlýsingar að það
hafi verið skilningur Landsbankans hf. að réttindin samkvæmt tryggingarbréfunum
tilheyrðu varnaraðila. Hefðu þessi réttindi flust til Landsbankans hf. á
grundvelli ákvörðunar Fjármáleftirlitsins séu löglíkur fyrir því að
Landsbankinn hf. hefði aldrei undirritað slíka yfirlýsingu. Hins vegar lýsir
Landsbankinn hf. því yfir að hann hafi ekki móttekið þessi réttindi og teljist
því sannað að mati varnaraðila að réttindin samkvæmt tryggingarbréfunum
tilheyri varnaraðila.
Að
mati varnaraðila leiði allt framangreint til þess að hafna beri öllum kröfum
sóknaraðila í máli þessu og staðfesta aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík í
máli nr. 011-2013-08774, sem fór fram þann 23. október 2013.
Þá
kveðst varnaraðili ekki hafa orðið við áskorun sóknaraðila um að leggja fram
frumrit tryggingarbréfanna enda hafi framlagning þeirra enga þýðingu við
úrlausn máls þessa. Ágreiningurinn varði þinglýst réttindi og séu þau réttindi
varnaraðila skýr og ótvíræð.
Um
lagarök vísar varnaraðili til 90. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og
þinglýsingalaga nr. 39/1978. Krafa varnaraðila um málskostnað byggist á 130.
gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989 um
aðför.
IV
Niðurstaða
Samkvæmt
1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er aðilum að aðfarargerð heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerð, ef krafa þess efnis
berst héraðsdómara innan átta vikna frá því að gerðinni var lokið. Þeirri
aðfarargerð sem hér um ræðir lauk 23. október 2013 og var krafa sóknaraðila um
úrlausn dómsins móttekin 16. desember 2013. Kröfunni er því beint til dómsins
innan lögmælts frests.
Í
máli þessu krefst sóknaraðili þess að fjárnám, sem gert var í eignarhluta hans
í fasteigninni að Laugarásvegi 31 í Reykjavík, fastanúmer 201-9989, á
grundvelli tveggja tryggingarbréfa sem gefin voru út af Dynjanda ehf. til
forvera varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., til tryggingar skuldum félagsins
við bankann, verði fellt úr gildi. Málatilbúnaður sóknaraðila verður skilinn
svo að hann byggi á því að varnaraðili sé ekki réttur aðili að gerðinni þar sem
réttindi samkvæmt tryggingarbréfunum tilheyri ekki varnaraðila heldur hafi þau
flust yfir til Landsbankans hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9.
október 2008 og hafi ekki verið færð tilbaka þar sem þau feli í sér
allsherjarverð og geti ekki talist sérgreind tryggingarréttindi vegna
afleiðusamninga í skilningi ákvörðunar eftirlitsins 19. sama mánaðar.
Varnaraðili sé því ekki handhafi neinna réttinda samkvæmt bréfunum auk þess sem
aldrei hafi staðið til að veðið stæði til tryggingar afleiðuskuldum Dynjanda
ehf., heldur einungis fasteignaskuldum félagsins. Varnaraðili hefur á því byggt
að þegar áðurnefndar ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins voru teknar hafi Dynjandi
ehf. ekki staðið í neinni annarri skuld við forvera varnaraðila, Landsbanka
Íslands hf., en vegna afleiðuviðskipta. Af þeirri ástæðu sé augljóst að
ákvarðanirnar eigi við um tryggingarbréfin sem staðið hafi til tryggingar öllum
skuldum félagsins við bankann. Þá hefur hann einnig haldið því fram, með vísan
til niðurstöðu Hæstaréttar frá 23. september 2013 í máli nr. 493/2013, að veðið
sé nægilega sérgreint þó skuldin samkvæmt tryggingarbréfunum sé það ekki. Eðli
málsins samkvæmt nái upptalningin í tryggingarbréfunum ekki til skulda vegna
afleiðuviðskipta þar sem þau viðskipti hafi ekki verið komin til sögunnar er
tryggingarbréfin voru gefin út á árinu 1998.
Í
ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 19. október 2008, sem breytti fyrri ákvörðun
eftirlitsins frá 9. sama mánaðar, var kveðið svo á um að nýi bankinn,
Landsbankinn hf., skyldi standa varnaraðila skil á sérgreindum tryggingum
viðskiptamanna vegna kröfuréttinda og afleiðusamninga sem ekki fluttust til
hins nýja banka. Afleiðusamningar Dynjanda ehf. og varnaraðila urðu því
samkvæmt orðanna hljóðan eftir hjá varnaraðila og fluttust ekki yfir til
Landsbankans hf. á grundvelli framangreindra ákvarðana Fjármálaeftirlitsins. Ljóst
má því vera að varnaraðili er réttur aðili að þeim réttindum og skyldum sem
leiddu af afleiðusamningum bankans og Dynjanda ehf. og réttindi samkvæmt
tryggingarbréfunum hafa frá öndverðu tilheyrt honum. Verður því hafnað
málsástæðum sóknaraðila um að varnaraðili hafi ekki verið réttur aðili að
gerðinni.
Þá
verður, með vísan til þeirra sjónarmiða sem fram koma í dómi Hæstaréttar frá
23. september í máli nr. 493/2013, að telja að þar sem veðandlagið samkvæmt
tryggingarbréfunum er nákvæmlega tilgreint séu réttindi samkvæmt þeim sérgreind
tryggingarréttindi í skilningi ákvörðunar Fjármálaeftirlitins frá 19. október
2008. Engu breytir um þá niðurstöðu þó skuldin sjálf hafi ekki verið það. Er
málsástæðu sóknaraðila hvað þetta varðar því hafnað.
Tryggingarbréfin
fólu í sér allsherjarveð vegna skulda Dynjanda ehf. við varnaraðila sem hann
stóð í þá „eða síðar á hvaða tíma sem er“ eins og þar segir. Var þar tiltekið
að veðið stæði til tryggingar skuldum félagsins við bankann hvort sem það væru
víxilskuldir, víxilábyrgðir, yfirdráttur á tékkareikningi „eða hvers konar
aðrar skuldir við bankann“ eins og það er orðað. Áður er rakið að annað
tryggingarbréfið var upphaflega með veði í skipinu Ásbjörgu RE-079 en veðið var
síðar flutt yfir á húseign sóknaraðila að Laugarásvegi 31 í Reykjavík. Hitt
bréfið var með veði í skipinu Sigurgeiri Sigurðssyni RE-80 en veðið var að sama
skapi síðar fært yfir á áðurnefnda fasteign. Dómurinn telur ljóst af skýru
orðalagi bréfanna að skuldbindingu samkvæmt þeim var ætlað að standa til tryggingar
hvers konar skuldum Dynjanda ehf. sem félagið stóð þá í við bankann eða kynni
að standa í síðar enda um allsherjarveð að ræða. Sóknaraðili hefur í málinu
haldið því fram að ekki hafi verið ætlunin að bréfin stæðu til tryggingar
skuldum vegna afleiðuviðskipta Dynjanda ehf. heldur einungis skuldum vegna
fasteignaviðskipta félagsins. Engin gögn liggja fyrir í málinu sem styðja þessa
staðhæfingu sóknaraðila. Verður hann ekki talinn hafa fært sönnur á hana.
Sóknaraðili hefur einnig haldið því fram að skuldir vegna afleiðuviðskipta hafi
verið tryggðar með innstæðum í bankareikningum sóknaraðila á grundvelli
handveðsyfirlýsinga. Við mat á þessu verður ekki fram hjá því litið að í málinu
liggja fyrir gögn sem sýna að gengið var að handveðunum 28. mars 2008 og
reikningum lokað. Verður því að ganga út frá því að þau hafi ekki verið til
staðar er áðurnefndar ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins voru teknar. Þessu hefur
ekki verið mótmælt af hálfu sóknaraðila og hefur hann á engan hátt sýnt fram á
að aðstæður hafi verið með neinum öðrum hætti. Er málsástæðum sóknaraðila hvað
þetta varðar því hafnað.
Sóknaraðili
hefur haldið fram að mistök hafi orðið við þinglýsingu er sýslumaðurinn í
Reykjavík færði tryggingarbréfin tvö yfir á varnaraðila á ný í kjölfar
sameiginlegs erindis þar að lútandi frá Landsbankanum hf. og Landsbanka Íslands
hf. eins og sóknaraðili hefur haldið fram. Úr slíkum ágreiningi ber að leysa á
grundvelli þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðili hefur ekki nýtt sér þau
úrræði sem þau lög mæla fyrir og úr ágreiningi þar að lútandi verður ekki leyst
í máli sem rekið er samkvæmt lögum nr. 90/1989 um aðför. Koma sjónarmið hans
hvað þetta varðar ekki til skoðunar í þessu máli.
Þá
er einnig hafnað þeirri málsástæðu sóknaraðila að varnaraðili hafi ekki lagt
fram frumrit bréfanna og því ekki sýnt fram á framsal þeirra til sín. Þegar
hefur verið hafnað þeirri málsástæðu sóknaraðila að varnaraðili sé ekki réttur
aðili að þeim réttindum er tryggingarbréfin bera með sér. Í ljósi þess, og með
hliðsjón af því að skilja verður ákvarðarnir Fjármálaeftirlitsins frá 9. og 19.
október 2008 svo að bréfin hafi í raun aldrei verið færð yfir til nýja bankans,
Landsbankans hf., verður þeirri málsástæðu sóknaraðila enn fremur hafnað.
Með vísan til alls framangreinds er hafnað kröfu sóknaraðila um
ógildingu aðfarargerðar nr. 011-2013-08774 sem fram fór 23. október 2013.
Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr.
laga nr. 91/1991 á varnaraðili rétt á málskostnaði úr hendi sóknaraðila, sem
þykir með hliðsjón af umfangi málsins hæfilega ákveðinn 250.000 krónur og hefur
þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Hrefna Dögg
Gunnarsdóttir hdl. en af hálfu varnaraðila Ágúst Karlsson hdl.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp
úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 19. maí sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Staðfest
er aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2013-08774 sem fram fór 23.
október 2013.
Sóknaraðili,
Aðalbjörn Jóakimsson, greiði varnaraðila, LBI hf., 250.000 krónur í
málskostnað, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.