Hæstiréttur íslands

Mál nr. 209/1998


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Vátrygging


Fimmtudaginn 14



                                                        

Fimmtudaginn 28. janúar 1999.

Nr. 209/1998.

Guðni Elíasson

(Steingrímur Þormóðsson hdl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Vátrygging.

G var farþegi í bifreið sinni sem ekið var af sambýliskonu hans, Á, en G var ölvaður. Eftir að bifreiðin hafði verið stöðvuð og G var farinn út úr henni í þeim tilgangi að lagfæra hana ætlaði Á að bakka henni að ljósastaur. Á  tókst ekki að koma bifreiðinni í afturábak gír og teygði G sig inn um opnar bifreiðastjóradyrnar til að aðstoða hana við það. Á missti tengslafetilinn og rann bifreiðin við það afturábak með þeim afleiðingum að G klemmdist á milli hurðarinnar og ljósastaurs og slasaðist. G stefndi tryggingafélaginu V sem tryggt hafði bifreiðina lögbundinni ábyrgðartryggingu og krafðist bóta, bæði á grundvelli I. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993 og á grundvelli frítímaslysatryggingar sem hann hafði keypt hjá félaginu.

Fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að ábyrgð tryggingafélagsins yrði ekki reist á slysatryggingu ökumanns og eiganda þar sem G var ekki stjórnandi bifreiðarinnar eða farþegi í henni umrætt sinn.

Talið að ákvæði í vátryggingarsamningi um frítímaslysatryggingu sem kváðu á um brottfall bótaskyldu vegna ölvunarástands eða sakar tryggingartaka útilokuðu ekki bótaskyldu V. Var V því dæmt til greiðslu bóta samkvæmt ákvæðum þeirrar tryggingar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. maí 1998. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.482.669 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 24. mars 1996 til greiðsludags, svo og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Við áfrýjun héraðsdóms beindi áfrýjandi kröfu um greiðslu á 2.860.869 krónum til vara að Álfhildi Guðbjartsdóttur ásamt stefnda. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti féll áfrýjandi frá kröfu sinni gegn Álfhildi, jafnframt því að hverfa frá málsástæðu um rétt sinn til bóta úr hendi stefnda óskipt með Álfhildi á grundvelli sakarreglu. Af hálfu Álfhildar var fallið frá kröfu um málskostnað úr hendi áfrýjanda og var því málið fellt niður hvað hana varðar.

I.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi er málið komið til af því að áfrýjandi var ásamt sambúðarkonu sinni, fyrrnefndri Álfhildi Guðbjartsdóttur, á leið frá skemmtistað í Reykjavík til heimilis þeirra á Selfossi aðfaranótt 24. mars 1996. Þau voru í bifreið áfrýjanda, sem hafði lögboðnar vátryggingar hjá stefnda. Mun Álfhildur hafa ekið bifreiðinni og stefndi, sem var undir áhrifum áfengis, verið eini farþeginn. Nokkru eftir að þau héldu af stað mun stefndi hafa ætlað að nota farsíma í bifreiðinni og séð þá ástæðu til að lagfæra vír, sem lá frá símtæki til loftnets á henni utanverðri. Var bifreiðinni lagt af þessum sökum á bílastæði austan við húsið að Skúlagötu 4 í Reykjavík.

Um atvik í kjölfar þess, sem að framan greinir, bar Álfhildur á þann veg í lögregluskýrslu 14. maí 1996 að áfrýjandi, sem hafi verið talsvert ölvaður, hafi beðið hana um að aka að ljósastaur til þess að hann fengi næga birtu til að laga fyrrnefndan vír. Hún hafi ekki farið á réttan stað og því þurft að færa bifreiðina. Var síðan eftirfarandi haft eftir Álfhildi í skýrslunni: „Guðni fór út og kom að bifreiðinni vinstra megin, en mætta var þá búin að vera að reyna að koma í afturábak gír, en það gekk illa og kúplingin er mjög þung. Guðni kom inn í dyrnar og hallaði sér yfir mættu til að hjálpa til við að koma í afturábak gír, en þá telur mætta að hún hafi verið búin að koma bílnum í afturábak gír og misst af kúplingunni. Þá hrökk bifreiðin afturábak og lenti Guðni milli bifreiðarinnar og ljósastaursins og slasaðist mikið ...„. Aðilarnir eru sammála um að leggja eigi þessa lýsingu atvika til grundvallar við úrlausn málsins.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var áfrýjandi færður á sjúkrahús eftir umrætt slys. Þar var meðal annars tekið blóðsýni úr honum og reyndist áfengismagn í því 1,0o/oo. Áfrýjandi hlaut áverka af slysinu, sem er lýst í héraðsdómi. Í málinu liggur fyrir mat á örorku áfrýjanda vegna slyssins, þar sem varanleg fjárhagsleg örorka hans var metin 10%, en varanlegur miski og varanleg læknisfræðileg örorka 20%. Tímabundin örorka hans í samtals ellefu mánuði var talin 100%, en í aðra þrjá mánuði 50%. Þá var þar komist að þeirri niðurstöðu varðandi tilkall áfrýjanda til þjáningabóta að hann hafi verið rúmliggjandi vegna slyssins í tólf daga, en batnandi með fótaferð í fjórtán mánuði. Stefndi mótmælir ekki þessum niðurstöðum örorkumatsins.

Í málinu krefur áfrýjandi stefnda annars vegar um bætur vegna líkamstjóns samkvæmt ákvæðum I. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993, samtals 2.860.869 krónur, en hins vegar um bætur úr frítímaslysatryggingu, sem var liður í svokallaðri F plús vátryggingu hjá stefnda, að fjárhæð 621.800 krónur. Áfrýjandi hefur lækkað fyrrnefndu kröfuna frá því, sem hann krafðist í héraði og sundurliðað er í hinum áfrýjaða dómi, með því að kröfuliður um bætur vegna varanlegrar örorku er nú 710.565 krónur í stað 1.894.840 króna áður og fallið hefur verið frá kröfulið um svonefndar hefðbundnar miskabætur, að fjárhæð 250.000 krónur. Með sama hætti og fyrir héraðsdómi mótmælir stefndi kröfulið áfrýjanda vegna tímabundins atvinnutjóns sem of háum og telur að hafna beri með öllu kröfulið vegna annars fjártjóns, sem áfrýjandi nefnir svo, en að öðru leyti er ekki tölulegur ágreiningur um þessa kröfu. Síðarnefndu kröfuna kveðst áfrýjandi reikna þannig að bætur úr slysatryggingunni miðað við 100% örorku hefðu með verðbótum numið 3.109.000 krónum á slysdegi. Af þeirri fjárhæð eigi hann rétt á 20%, eða sama hlutfalli og varanleg læknisfræðileg örorka hans var ákveðin í áðurnefndu mati. Stefndi mótmælir þessari kröfu ekki tölulega.

II.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða héraðsdómara um að sýkna stefnda með öllu af fyrrnefndri kröfu áfrýjanda um bætur vegna líkamstjóns að fjárhæð samtals 2.860.869 krónur.

III.

Stefndi heldur því fram að áfrýjandi eigi ekki rétt á bótum úr frítímaslysatryggingu, enda leiði af skilmálum um hana að bætur verði ekki greiddar vegna slyss, sem vátryggður veldur af stórkostlegu gáleysi, eða slyss, sem vátryggður verður fyrir undir áhrifum áfengis, nema sannað sé að ekkert samband hafi verið milli þess ástands vátryggðs og slyssins. Ákvæði, sem stefndi ber fyrir sig í þessum efnum, eru annars vegar í 4. tölulið 8. gr. skilmála hans, sem gilda gagngert um frítímaslysatryggingu, og hins vegar í 4. gr. sameiginlegra skilmála fyrir F plús vátryggingu. Í fyrrnefnda ákvæðinu segir að vátryggingin bæti ekki „slys, sem vátryggður verður fyrir í handalögmáli, við þátttöku í refsiverðum verknaði, undir áhrifum deyfi- og/eða eiturlyfja eða í ölæði, nema sannað sé, að ekkert samband hafi verið milli ástands þessa og slyssins.“ Síðarnefnda ákvæðið er svohljóðandi: „Vátrygging þessi gildir ekki um tjón, sem vátryggingartaki eða vátryggðu valda af ásettu ráði, af stórkostlegu gáleysi eða undir áhrifum áfengis, örvunar- eða deyfilyfja.“ Af hálfu áfrýjanda hefur því ekki verið borið við að þessi ákvæði kunni í einhverjum atriðum að stangast á við 20. gr. eða önnur ákvæði laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.

Aðilarnir eru sem fyrr segir sammála um að leggja eigi til grundvallar að atvik að slysi áfrýjanda hafi verið með þeim hætti, sem Álfhildur Guðbjartsdóttir skýrði frá í lögregluskýrslu og áður er greint frá. Af þeirri lýsingu verður ekki ráðið að áfrýjandi hafi valdið slysinu eða verið meðvaldur að því. Getur stefndi því ekki færst undan kröfu áfrýjanda með stoð í 4. gr. sameiginlegra skilmála sinna fyrir F plús vátryggingu.

Í skilmálum stefnda fyrir umræddri slysatryggingu er með tvennu móti ráðgert að áfengisneysla vátryggðs fyrir slys geti haft áhrif á rétt hans til bóta. Svo sem áður greinir segir um þetta í 4. tölulið 8. gr. skilmála fyrir frítímaslysatryggingu að bætur verði ekki greiddar fyrir slys, sem vátryggður verður fyrir „í ölæði“, nema hann sanni að ekkert orsakasamband hafi verið á milli þess ástands hans og slyssins. Í 4. gr. sameiginlegu skilmálanna fyrir F plús vátryggingu segir hins vegar að hún nái ekki til tjóns, sem vátryggður veldur „undir áhrifum áfengis“. Þetta orðalag í skilmálunum verður að skilja svo að þar sé gerður greinarmunur á ölæði vátryggðs og því, að hann sé undir áhrifum áfengis, enda eru mismunandi afleiðingar af þessu tvenns konar ástandi hans samkvæmt því, sem nánar er sagt til um í skilmálunum. Í ljósi afleiðinganna, sem þar er mælt fyrir um, verður að telja að í fyrrgreinda ákvæðinu, þar sem rætt er um ölæði vátryggðs, sé ráðgert að áhrifa áfengis verði að gæta meira en um ræðir í síðargreinda ákvæðinu. Einnig verður að líta til þess að með ákvæðinu í 4. tölulið 8. gr. skilmála stefnda fyrir frítímaslysatryggingu er vikið frá almennum reglum um sönnunarbyrði um orsakatengsl þegar vátryggingaratburði er valdið með háttsemi, sem girðir fyrir rétt vátryggðs til bóta. Þegar allt þetta er haft í huga og litið til bókstaflegrar merkingar þeirra orða, sem hugtakið ölæði er samsett úr, verður að leggja til grundvallar að umrætt ákvæði í 4. tölulið 8. gr. geti ekki átt við nema áhrifa áfengis gæti að minnsta kosti með mjög áberandi hætti í framferði vátryggðs. Eins og áður greinir reyndist áfengismagn vera 1,0o/oo í blóði áfrýjanda nokkru eftir slys. Af þeim læknisfræðilegu upplýsingum, sem liggja fyrir í málinu, verður ráðið að líkur séu taldar fyrir því að greina megi ölvunareinkenni hjá allt að helmingi þeirra, sem hafa þetta áfengismagn í blóði. Í lögregluskýrslu var sem áður segir haft eftir sambúðarkonu áfrýjanda að hann hafi verið „talsvert ölvaður“ þegar hann varð fyrir slysinu. Þessi ummæli hafa þó ekki verið skýrð nánar, hvorki í lögregluskýrslunni né undir rekstri málsins. Þau atriði, sem hér um ræðir, þykja ekki nægja stefnda til sönnunar því að áfrýjandi hafi verið í ölæði þegar slys hans bar að höndum. Verður stefndi því ekki undanþeginn skyldu til að greiða áfrýjanda bætur með stoð í umræddu ákvæði 4. töluliðar 8. gr. skilmála fyrir frítímaslysatryggingu.

Samkvæmt framangreindu verður að taka til greina kröfu áfrýjanda um bætur úr F plús vátryggingu hjá stefnda. Fjárhæð bótakröfunnar, 621.800 krónur, er sem áður segir óumdeild og verður stefndi því dæmdur til að greiða hana. Samkvæmt 24. gr. laga nr. 20/1954, sbr. 7. gr. laga nr. 33/1987, ber stefnda að greiða vexti af bótunum eftir ákvæðum vaxtalaga nr. 25/1987 frá gjalddaga, sem markast eftir ákvæði 1. mgr. fyrrnefndu greinarinnar. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefnda hafi verið kynnt niðurstaða örorkumats, sem er dagsett 21. júlí 1997, fyrr en með birtingu héraðsdómsstefnu 11. ágúst sama árs. Verður stefndi því dæmdur til að greiða dráttarvexti frá síðastnefndum degi, sbr. 4. mgr. 9. gr. vaxtalaga.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði áfrýjanda, Guðna Elíassyni, 621.800 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. ágúst 1997 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 1998.

                Mál þetta, sem dómtekið var 3. þessa mánaðar, er höfðað með stefnu, þingfestri 2. september 1997.

                Stefnandi er Guðni Elíasson, kt. 300161-3919, Fagurgerði 9, Selfossi.

                Stefnt er Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, en til vara Álfhildi Guðbjartsdóttur, kt. 070772-5079, Fagurgerði 9, Selfossi, og Vá­trygg­inga­félag Íslands hf.

                I.              Stefnandi gerir þá dómkröfu, að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.295.144 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaða­­bótalaga frá 24. mars 1996 til dómsuppsögudags og dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxta­­laga frá dómsuppsögudegi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess, að hið stefnda félag og stefnda Álfhildur Guðbjartsdóttir verði in solidum dæmd til að greiða stefn­­anda  4.295.144 krónur „með sama vaxtafæti“ og að ofan greinir.

                II.            Þá krefst stefnandi þess, að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða honum 621.800 krónur, ásamt dráttarvöxtum frá 24. mars 1996 til greiðsludags.

                III. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu, þar sem tillit verði tekið til þess, að stefnandi sé ekki virðsaukaskattsskyldur.

                Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefn­anda og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, en til vara, að stefnu­kröfur verði stórlækkaðar og málskostnaður falli niður.

                Varnir eru ekki hafðar uppi í málinu af hálfu varastefndu, Álfhildar Guðbjarts­dóttur.

I. Málavextir.

                Kl. 02.40 aðfaranótt sunnudagsins 24. mars 1996 var lögreglunni í Reykjavík til­kynnt um umferðarslys á bifreiðastæði austan Sjávarútvegshússins að Skúlagötu 4 hér í borg. Er lögreglumenn komu á vettvang, sáu þeir hvar stefnandi lá blóðugur á bif­reiða­stæð­­inu miðju, rétt við ljósastaur, sem þar er á umferðareyju. Nokkru norðar stóð bif­reið­in ZS-006. Var vinstri hurð bifreiðarinnar skemmd, en hún var ekki í gangi. Í frum­skýrslu lögreglu kemur fram, að varastefnda, Álfhildur Guðbjartsdóttir, hafi á vettvangi skýrt lögreglumönnum svo frá, að hún hefði verið ökumaður bifreiðarinnar og ekið henni afturábak á bifreiðastæðinu. Hafi stefnandi staðið fyrir utan bifreiðina, sagt Álfhildi að bakka og haldið í hurð hennar, en orðið á milli hurðarinnar og ljósastaursins, er Álfhildur ók bifreiðinni afturábak. Í skýrslunni segir síðar, að í viðræðum við varð­stjóra, eftir að á lögreglustöð var komið, hafi Álfhildur skýrt svo frá, að hún hafi þá skömmu áður ekið áðurnefndri bifreið frá veitingahúsinu Amsterdam í Tryggvagötu og ætlað heim til sín austur á Selfoss. Hafi farsími í bifreiðinni verið bilaður og stefnandi, sem hafi verið farþegi í bifreiðinni, viljað gera við símann. Hafi stefnandi skipað henni að aka bifreiðinni inn á bifreiðastæðið austan Sjávarútvegshússins og leggja henni þar við ljósastaur, til að fá birtu við viðgerðina. Hafi hún bakkað, en stefnandi staðið fyrir utan bifreiðina, haldið í hurðina og orðið á milli [hurðarinnar og ljósastaursins], er hún bakkaði.

                Í viðræðum Álfhildar og lögregluvarðstjóra á lögreglustöð breytti Álfhildur frá­sögn sinni af aðdraganda slyssins á þann veg, að stefnandi, sem hafi verið mjög ölvaður, hafi ekki verið ánægður með það, hvernig hún lagði bifreiðinni, og rekið hana undan stýri bifreiðarinnar, yfir í farþegasætið, og sjálfur sest í ökumannssætið. Með vinstri dyrnar opnar og hálfur úti, hafi stefnandi ekið bifreiðinni afturábak á bifreiðastæðinu, upp á [umferðar]eyju og þar klemmst með efri hluta líkamans milli hurðarinnar og ljósa­staurs, er staðsettur sé á miðri [umferðar]eyjunni. Hafi stefnandi verið fastur nokkra stund, en allt í einu losnað, án þess að hún vissi hvernig. Álfhildur hefur dregið frá­sögn þessa til baka og gefið þá skýringu á því, að hún hafi skýrt svo frá, sem áður greinir, undir þrýstingi frá lögreglu. Ber stefnanda og Álfhildi saman í fram­burð­ar­skýrsl­um sínum fyrir lögreglunni í Árnessýslu 22. maí 1996 um, að slysið hafi atvikast þannig, að Álfhildur hafi ekki lagt bifreiðinni rétt á stæðinu við ljósastaurinn og þurft að færa hana til. Stefnandi, sem hafi verið ölvaður, hafi þá farið út úr bifreiðinni, en Álfhildi gengið illa að koma henni í afturábak gír, til að bakka að ljósastaurnum. Hafi stefnandi þá komið upp að bílstjórahurðinni vinstra megin, teygt sig inn um hurðina og hall­að sér yfir Álfhildi, til að hjálpa henni að koma bifreiðinni í gír, en um leið og bif­reið­in fór í gírinn, hafi Álfhildur misst af kúplingunni, bifreiðin hrokkið snögglega afturá­bak og stefnandi klemmst milli hurðarinnar og ljósastaursins. Er málatilbúnaður beggja aðila byggður á þessari atvikalýsingu.

                Stefnanda var tekið blóðsýni til alkóhólrannsóknar kl. 03:15 umrædda nótt, og sam­kvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar, reyndist alkólhólmagn í því vera 1,00 o/oo.

                Við athugun á meiðslum stefnanda á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, reyndist hann hafa hlotið brot á ölnarbeini, rifbeini, mjóhryggjartindi og liðboga mjóhryggjarliðbolar. Þurfti að spengja mjóhrygginn, en önnur brot greru fljótlega. Með örorkumati 21. júlí 1997 mat Atli Þór Ólason læknir varanlegan miska stefnanda samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga vegna afleiðinga slyssins 20%, sem og varanlega læknisfræðilega örorku, en varanlega fjár­hagslega örorku samkvæmt 5. gr. laganna mat hann 10%. Þá mat læknirinn  tíma­bundna óvinnufærni stefnanda 100% í 11 mánuði og 50% í 3 mánuði. Tímabil þjáninga sam­kvæmt 3. gr. skaðabótalaga mat hann 12 daga í rúmlegu og 14 mánuði með fóta­ferð.

                Bifreið stefnanda, ZS-006, var skyldutryggð hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., auk þess sem stefnandi hafði keypt þar F plús tryggingu, sem innihélt slysa­trygg­ingu í frítíma af völdum bifreiða. Leitaði stefnandi eftir bótum hjá stefnda úr þessum trygg­ingum, en bótaskyldu var hafnað. Var málið lagt fyrir tjónanefnd trygg­inga­fél­ag­anna, sem taldi stefnanda eiga rétt til bóta úr F plús tryggingunni, en ekki úr ábyrgðar­trygg­ingu ZS-006. Stefnandi skaut málinu til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem úrskurðaði á þann veg, að stefnandi ætti hvorki bótarétt úr F plús tryggingunni né ábyrgð­artryggingu bifreiðarinnar.

II. Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Stefnandi byggir dómkröfu sína samkvæmt fyrsta dómkröfulið á, að 92. gr. um­ferð­arlaga hafi átt að koma í stað ökumannstryggingar og farþegatryggingar, „eins og ber­lega kemur fram í framsöguræðu flutningsmanns allsherjarnefndar við 2. umræðu um­ferðarlaga á Alþingi Íslendinga, þann 13. mars 1987, sbr. dálk 4146 í 19. hefti Alþing­istíðinda 1986 til 1987.“ Sé því ljóst, að sem farþegi njóti eigandi bifreiðar verndar þeirrar slysatryggingar, sem kveðið sé á um í 92. gr. umferðarlaganna. Þessu til stuðn­ings bendir stefnandi á, að þegar frumvarpið hafi upphaflega verið lagt fram á 109. lög­gjafarþingi (1986-1987), hafi verið kveðið á um, að allir, sem biðu líkamstjón í um­ferð­arslysum, nytu verndar hlutlægra ábyrgðarreglna. Einnig verði að skýra greinina með hliðsjón af þeim jafnræðissjónarmiðum, sem fram komi í 65. gr. stjórnarskrárinnar, sem leiði til þeirrar niðurstöðu, að eigandi bifreiðar, í þessu tilviki stefnandi, njóti verndar 92. gr. umferðarlaga.

                Stefnandi byggir á, að hann hafi, er slysið var, fallið undir hugtakið farþegi sam­kvæmt skilmálum slysatryggingarinnar. Orðið farþegi verði ekki túlkað svo þröngt, að það nái einungis til þess, að eigandi sitji inni í ökutækinu. Alkunna sé, að farþegar þurfi oft að hjálpa bílstjóra, þegar vandræði steðji að, t.d. þegar skipta þurfi um hjólbarða. Þar sem aðrir farþegar í slíkri aðstöðu njóti bótaréttar í grundvelli 88. gr. umferðarlaga, sé sú niðurstaða ótæk, að í slíkum tilvikum sé eigandi bifreiðar einn án bótaréttar.

                Stefnandi byggir varakröfu sína samkvæmt fyrsta dómkröfulið á, að ökumaður bif­reið­ar „hafi átt sök að slysinu“. Sé ökumanni bifreiðarinnar og vátryggingafélaginu því stefnt in solidum í samræmi við 97. gr. umferðarlaga. Byggir stefnandi á, að í 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga komi fram, að auk ábyrgðar samkvæmt 1. og 2. mgr. þeirrar laga­grein­ar (sem vísi til 88. og 89. gr. umferðarlaga), fari um bótaábyrgð samkvæmt al­menn­um skaðabótareglum. Í 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga sé kveðið á um, að greiðsla bóta­kröfu vegna tjóns, sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis, skuli vera tryggð með ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi. Samkvæmt orðanna hljóðan, taki þessi grein einnig til krafna, sem reistar séu á grundvelli almennra skaðabótareglna, sbr. 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga. Í 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga segi, að vá­trygg­inga­fél­ag sé greiðsluskylt vegna bótakrafna samkvæmt 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga. Af þessu leiði, að stefnandi eigi rétt á bótum úr hendi hins stefnda félags.

                Stefnandi sundurliðar dómkröfur sínar samkvæmt fyrsta dómkröfulið þannig, sbr. 1. - 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 26. gr. sömu laga:

Tímabundið atvinnutjón, 100% í 11 mánuði, 78.951 x 11

kr.

868.461

Tímabundið atvinnutjón, 50% í 3 mánuði, 78.951/ 2 x 3

kr.

118.427

Þjáningabætur:

Rúmliggjandi, 12 dagar x 1.408

kr.

16.900

Batnandi með fótaferð, 420 dagar x 760

kr.

319.200

Miskabætur, 4.334.000 x 20

kr.

866.800

Bætur vegna varanlegrar örorku, 947.420 x 10 x 20

kr.

1.894.840

lækkun vegna aldurs, 10%

kr.

189.484

Annað fjártjón samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga

kr.

150.000

Hefðbundnar miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga

kr.

250.000

Skaðabótakrafa samtals

kr.

4.295.144

               

                Stefnandi byggir dómkröfu sína samkvæmt öðrum dómkröfulið á, að hann hafi, er slysið varð, verið slysatryggður hjá hinu stefnda félagi samkvæmt svonefndri F plús trygg­ingu. Vísar stefnandi sérstaklega til IV. kafla skilmála nr. GH20 um „Frí­tíma­slysa­trygg­ingu“, en þar sé sérstakur kafli, sem beri heitið „Umferðarslys í frítíma af völdum skrán­ingarskylds ökutækis.“ Þá sé í 8. gr. IV. kafla talið upp, hvað vátryggingin bæti ekki. Sé slíkt slys, sem stefnandi varð fyrir, ekki þar á meðal.

                Stefnandi telji fráleitt, að eitthvert samband sé á milli gáleysis Álfhildar, sem valdið hafi slysinu, og þess að stefnandi hafi verið kenndur. Ekki verði séð, að atburðarásin hefði orðið með öðrum hætti, hefði stefnandi verið allsgáður. Einnig telji stefnandi, að því fari fjarri, að hegðun hans hafi verið með þeim hætti, að um stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða. Þá byggir stefnandi á því, að ofangreindir skilmálar séu liður í atvinnu­starf­semi hins stefnda félags og eigi því samkvæmt 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, með síðari breytingum, að skýra samninginn stefnanda í hag, sé uppi vafi um merkingu samn­ingsins.

III. Málsástæður og lagarök stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf.

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að stefnandi eigi engan rétt til bóta úr hendi stefnda að lögum eða eftir samningi.

                Um F plús trygginguna gildi þeir skilmálar, að vátryggingin bæti ekki slys, sem vá­tryggð­ur veldur af stórkostlegu gáleysi. Sama gildi um slys, sem vátryggður verður fyrir undir áhrifum áfengis, nema sannað sé, að ekkert samband hafi verið milli þess ástands vátryggðs og slyssins. Samkvæmt fyrirliggjandi lögreglurannsókn, viður­kenn­ingu stefnanda sjálfs og niðurstöðu rannsóknar á áfengismagni í blóði hans, sé ljóst, að stefn­andi hafi verið undir áfengisáhrifum, er slysið varð. Hafi hegðun hans í eða við bif­reið­ina og afskipti hans af akstri eða stjórn bifreiðarinnar, er henni var bakkað að ljósa­staurn­um og slysið átti sér stað, verið stórkostlega gálaus og ósannað, að ekkert sam­band hafi verið milli þessa og slyssins. Eigi stefnandi því engan bótarétt úr F plús trygg­ing­unni. Sé sú niðurstaða ekki ósanngjörn, eins og stefnandi staðhæfi, heldur í samræmi við góðar vátryggingavenjur. Eigi 36. gr. b. liður laga nr. 7/1936, sem stefnandi vísi til, hér ekki við.

                Á sama hátt eigi stefnandi heldur ekki bótarétt úr slysatryggingunni fyrir eiganda ZS-006 sem farþegi í bifreið sinni. Samkvæmt skilmálum þeirrar tryggingar, sé skilyrði bóta­réttar, að bifreiðareigandinn sé farþegi „í hinu vátryggða ökutæki“, en ekki utan þess, þegar slys verður, en samkvæmt málatilbúnaði stefnanda, hafi hann staðið utan bif­reiðarinnar, er hann slasaðist. Verði gildissvið tryggingarinnar ekki túlkað rýmra og teygt utan um eigandann, eftir að hann er farinn út úr bifreiðinni, en hér sé um frjálsa ábyrgð­artryggingu að ræða. Gildissvið bótaréttar á grundvelli umferðarlaga og skyldu­trygg­inga samkvæmt þeim lögum verði því ekki lagt til grundvallar um gildissvið slysa­trygg­ingar eiganda sem farþega í ökutæki sínu. Jafnframt hafi stefnandi fyrirgert hugs­an­legum bótarétti með ölvun sinni og stórkostlegu gáleysi, sbr. 18. gr., 20. gr. og 120. gr. vátryggingasamningalaga nr. 20/1954, og sbr. 3. gr. hinna almennu skilmála um slysa­tryggingu eiganda sem farþega í ökutæki, sbr. og 5. gr. almennra skilmála fyrir slysa­tryggingu ökumanns.

                Stefnandi eigi heldur ekki bótarétt eftir 92. gr. umferðarlaga um slysatryggingu öku­manns, þar sem hann synji fyrir að hafa verið ökumaður bifreiðarinnar, er hann slas­að­ist. Nái slysatrygging ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga eingöngu til öku­manna, og hafi það verið vilji löggjafans, er endanlega hafi verið gengið frá frumvarpinu til umferðarlaga vorið 1987. Brjóti það ekki gegn jafnræðissjónarmiðum 65. gr. stjórn­ar­skrárinnar, svo sem stefnandi haldi fram. Þá sé bótarétti í öllu falli einnig fyrirgert í þessu tilviki sökum ölvunar stefnanda og stórkostlegs gáleysis.

                Loks eigi stefnandi engan rétt til bóta úr ábyrgðartryggingu bifreiðar sinnar, þó að öku­maður hennar eigi sök á slysi stefnanda. Bæti ábyrgðartrygging ökutækis aldrei tjón eig­anda ökutækisins sjálfs, hvorki á líkama né eignum, heldur aðeins tjón þriðja manns. Sé forsenda bótaréttar úr ábyrgðartryggingunni, að stofnast hafi skaðabótakrafa á hendur hinum vátryggða bifreiðareiganda sjálfum og leiði af því, að valdi bifreið­ar­eig­and­inn sjálfum sér tjóni eða valdi ökumaður bifreiðar slysi eigandans með akstri bif­reið­ar­innar, sé ekki um skaðabótakröfu á hendur eigandanum að ræða. Geti stefnandi því ekki átt bótarétt úr ábyrgðartryggingunni fyrir ZS-006 hjá stefnda, hvað sem líði sök öku­mannsins.

                Verði talið, að stefnandi eigi einhvern bótarétt, er varakrafa byggð á því, að stefn­andi verði að bera tjón sitt sjálfur í hlutfalli við eigin sök og ábyrgð á slysinu og þá beri að stórlækka einstaka kröfuliði. Fari um ákvörðun bótaupphæðar eftir skaðabótalögum nr. 50/1993.

IV. Niðurstaða.

                Í málinu liggur fyrir játning stefnanda þess efnis, að hann hafi verið undir áfeng­is­áhrif­um, er umrætt slys átti sér stað. Er sú játning í samræmi við niðurstöðu rannsóknar á blóðsýni, sem tekið var úr stefnanda um tveimur og hálfri klukkustund eftir slysið, en sam­kvæmt henni reyndist áfengismagn í blóði hans vera 1,00 o/oo.

                Í skilmálum þeirrar frjálsu ábyrgðartryggingar, svonefndrar F plús tryggingar,  sem stefnandi hafði keypt hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., kemur fram, að vá­trygg­ingin bæti ekki slys, sem vátryggður veldur af stórkostlegu gáleysi. Hið sama gildir samkvæmt skilmálunum um slys, sem vátryggður verður fyrir undir áhrifum áfengis, nema sannað sé, að ekkert [orsaka]samband hafi verið milli þess ástands vá­tryggðs og slyssins.

                Atvikalýsing stefnanda og varastefndu, Álfhildar Guðbjartsdóttur, sem lögð er grund­vallar málatilbúnaði aðila, er á þann veg, að Álfhildur hafi ekki lagt bifreiðinni rétt á stæðinu við ljósastaurinn, til þess að stefnandi fengi næga birtu af ljósinu, svo að hann gæti gert við farsíma þann, er í bifreiðinni var. Hafi stefnandi þá farið út úr bifreiðinni, en Álfhildi gengið illa að koma henni í gír, til að bakka að ljósastaurnum. Hafi stefnandi þá komið upp að bílstjórahurðinni, teygt sig inn um „hurðina“ [dyrnar] og hallað sér yfir Álfhildi, til að hjálpa henni að koma bifreiðinni í gírinn, en um leið og bifreiðin fór í gír­inn, hafi Álfhildur misst af kúplingunni, bifreiðin hrokkið snögglega afturábak og stefn­andi klemmst á milli hurðarinnar og ljósastaursins.

                Það er álit dómsins, að meta verði afskipti stefnanda af akstri bifreiðarinnar til stór­kost­legs gáleysis, en að auki hefur stefnanda ekki tekist að sýna fram á, að  engin or­saka­tengsl séu á milli umræddrar hegðunar hans og slyssins. Verður því ekki talið, að stefnandi eigi rétt til bóta úr framangreindri ábyrgðartryggingu. Ennfremur verður ekki fallist á það með stefnanda, að atvik máls séu með þeim hætti, að b. liður 36. gr.  samn­inga­laga nr. 7/1936 eigi hér við.

                Samkvæmt hinni hlutlægu ábyrgðarreglu 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 skal sá, sem ábyrgð ber á skráningarskyldu ökutæki, bæta það tjón, sem hlýst af notkun þess, enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns. Þá kemur fram í 90. gr. laganna, að skráður eða skráningarskyldur eigandi (umráðamaður) vél­knúins ökutækis beri ábyrgð á því og sé fébótaskyldur, meðal annars samkvæmt áður­nefndri 88. gr. laganna. Með skírskotun til þessa, bætir skylduábyrgðartrygging sam­kvæmt umferðarlögum ekki eiganda bifreiðar tjón, heldur þriðja manni. Varð engin breyting þar á, er umferðarlög nr. 50/1987 leystu lög nr. 40/1968 um sama efni af hólmi.

                Í almennum skilmálum fyrir hina lögboðnu ábyrgðartryggingu og slysatryggingu öku­manns og eiganda, sem stefnandi hafði keypt hjá hinu stefnda vátryggingafélagi, er það skilyrði bótaréttar, að ökumaður verði fyrir tjóni við stjórn hins vátryggða öku­tækis, sbr. 92. gr. umferðarlaga. Óumdeilt er, að stefnandi var ekki við stjórn bif­reið­ar­inn­ar greint sinn, heldur áðurnefnd Álfhildur Guðbjartsdóttir. Þá kemur fram í skil­mál­un­um, að félagið greiði bætur vegna umferðarslyss, sem vátryggingartaki verður fyrir sem farþegi í hinu vátryggða ökutæki.

                Stefnandi var eigandi bifreiðarinnar ZS-006, er slysið átti sér stað. Hafði stefnandi verið farþegi í bifreiðinni skömmu fyrir slysið, en farið út úr henni á bifreiðastæðinu. Var stefnandi utan bifreiðarinnar, er slysið varð, og því hvorki farþegi í henni né öku­maður hennar.

                Það er því niðurstaða dómsins, að stefndi eigi hvorki rétt til bóta úr slysatryggingu fyrir eiganda bifreiðarinnar ZS-006 né eftir 92. gr. umferðarlaga um slysatryggingu öku­manns. Verður ekki fallist á það með stefnanda, að þau málalok brjóti í bága við jafn­ræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.

                Af öllu framansögðu leiðir, að sýkna ber stefnda og varastefndu af kröfum stefn­anda í máli þessu, en eftir atvikum er rétt, að málskostnaður milli aðila falli niður.

                Dóminn kveður upp Helgi I.  Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

                Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., og varastefndu, Álfhildur Guðbjartsdóttir og Vá­tryggingafélag Íslands hf., skulu vera sýknir af kröfum stefnanda, Guðna Elíassonar, í máli þessu.

                Málskostnaður fellur niður.