Hæstiréttur íslands
Mál nr. 541/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. ágúst 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. ágúst 2017, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 24. sama mánaðar um að varnaraðili skuli sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst brotaþoli, A, þóknunar fyrir Hæstarétti til handa skipuðum réttargæslumanni sínum.
Brotaþoli lagði 25. júlí 2017 fram beiðni hjá sóknaraðila um nálgunarbann á hendur varnaraðila. Með bréfi degi síðar hafnaði sóknaraðili beiðninni, en þar var meðal annars rakið að til rannsóknar hjá lögreglu væru tvö ætluð ofbeldisbrot varnaraðila gegn brotaþola. Hinn 24. ágúst 2017 kærði brotaþoli áreiti varnaraðila vegna smáskilaboða sem hann hafi verið að senda henni svo og símhringinga, en varnaraðili mun ekki hafa látið af því atferli þrátt fyrir óskir brotaþola þar um. Sama dag tók sóknaraðili að eigin frumkvæði ákvörðun um að varnaraðili sætti nálgunarbanni samkvæmt heimild í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2011 og var hún birt honum samdægurs.
Við mat á því hvort nálgunarbanni skuli beitt er heimilt samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011 að líta til þess hvort háttsemi sakbornings á fyrri stigum hafi verið þannig að hætta sé talin á að hann muni hafa í frammi háttsemi sem lýst er í 4. gr. laganna. Að virtum gögnum málsins er nægjanlega í ljós leitt að varnaraðili hafi raskað friði brotaþola og að hætta sé á að hann muni gera það áfram. Er þannig fullnægt skilyrðum a. og b. liðar 4. gr. laga nr. 85/2011 til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni. Jafnframt verður að telja að friðhelgi brotaþola verði ekki vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann veg sem greinir í dómsorði.
Þóknun verjanda varnaraðila og réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. og 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 24. ágúst 2017 um að varnaraðili, X, sæti nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili brotaþola, A [...], [..] og foreldra hennar að [...], [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreinda staði. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti brotaþola eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Þóknun verjanda varnaraðila, Gríms Sigurðarsonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Arnars Þórs Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 62.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. ágúst 2017.
Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun sína, dags. 24. ágúst 2017, um að X, kt. [...], skuli sæta nálgunarbanni, skv. a og b lið 1. mgr. 4. gr. laga 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], að [...], sem og heimili foreldra hennar að [...] í sama sveitarfélagi, hvar brotaþoli hefur dvalist, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreinda staði, mælt frá miðju húsanna. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að Lögreglustjóri hafi byggt ákvörðun sína um nálgunarbann á því að X sé undir rökstuddum og eftir atvikum sterkum grun um refsiverða háttsemi, áreiti og ónæði gagnvart beiðanda, fyrrum unnustu sinni, í neðangreindum málum. Ákvörðunin um nálgunarbann hafi verið tekin að eigin frumkvæði lögreglu vegna nýrra gagna og upplýsinga um áframhaldandi ónæði og áreiti kærða þann 24. ágúst sl. og birt fyrir kærða sama dag.
Mál nr. 007-2016-[...]
Þann 30. september 2016 hafi brotaþoli óskaði eftir aðstoð lögreglu að [...], [...], vegna heimilisofbeldis. Þrátt fyrir að beiðnin um lögregluaðstoð hafi verið afturkölluð fór lögreglan engu að síður á vettvang sem var þáverandi heimili X. Þar hafi hann og brotaþoli kveðið enga þörf á aðstoð lögreglu þar sem þau hafi verið búin að leysa sín mál. Síðar sama dag hafi brotaþoli hins vegar komið á lögreglustöð og kært X fyrir heimilisofbeldi, hótanir m.a. um að „rústa henni“ og hefna sín á henni, sem og eignaspjöll. Þann 4. október sama ár haf brotaþoli síðan komið á lögreglustöð og dregið til baka kæruna þar sem það væri búið að bæta tjónið, X hafi keypti nýja tölvu og nýjan farsíma, í stað þeirra sem hann hafi skemmt. Kæran hefði því ekki lengur haft neinn tilgang og hún hafi ekki viljað hafa frekari samskipti við X. Hætt hafi verið rannsókn í málinu.
Mál nr. 007-2017-[...]
Í mars 2017 hafi brotaþoli komið á lögreglustöð og lagt fram kæru á hendur X vegna líkamsárásar og heimilisofbeldis. Um hafi verið að ræða nokkur tilvik. Fyrsta tilvikið sem þolandi greindi frá í skýrslu sinni hjá lögreglu hafi varðað líkamsárás í febrúarmánuði 2017 á heimili brotaþola að [...]. Við það hafi brotaþoli hlotið m.a. áverka á mjöðm og læri. Einnig hafi brotaþoli kært árás sem átti sér stað á hóteli í borginni [...] í Bandaríkjunum í byrjun mars 2017. Þar mun X hafa hent brotaþola út af hótelherbergi þeirra með valdi, með því að grípa um báða úlnliði hennar og snúa hana niður og draga hana síðan eftir teppinu. Að auki hafi X meinað brotaþola að fá veskið sitt og farangur. Seinna í sömu ferð til Bandaríkjanna, nánar tiltekið í borginni [...], hafi X aftur veist að brotaþola og hann slegið ítrekað í andlitið með þeim afleiðingum að framtönn losnaði. Brotaþoli hafi einnig lýst árás þann 1. apríl í bifreið við [...] þar sem X mun hafa rifið í hana og skellt bílhurð á hana, og rifið af henni sólgleraugu en brotaþoli hafi flúið undan. Áverkavottorð og/eða ljósmyndir af áverkum hafi fylgt með málinu vegna árásanna.
Við skýrslutöku hafi kærði neitað sakargiftum að mestu, hafi kvaðst hafa rifið af henni sólgleraugun og svo rifið í brotaþola í [...] þar sem hún hafi ætlað að stökkva út úr bifreiðinni. Hann kvað málinu í [...] hafa verið lokið með réttarsátt og hafi ekki tjáð sig um það.
Mál nr. 007-2017-[...]
Þann 25. júlí 2017 hafi brotaþoli komið á lögreglustöð og hafi kært ætlaðar ærumeiðingar og eftir atvikum hótanir, sbr. 233. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Í kærunni sé m.a. greint frá því að X hafi sent brotaþola smáskilaboð til að vekja athygli þess síðarnefnda á færslu á Facebook. Jafnframt að X hafi nálgast brotaþola í gegnum „falsaðan reikning“ undir öðru nafni á sama samfélagsmiðli þrátt fyrir að brotaþoli hafi ítrekað sagt X að láta sig í friði. Að auki hafi brotaþoli greint frá því að X hefði birt nektarmyndir af brotaþola án heimildar á samfélagsmiðlum og þannig raskað friðhelgi þess síðarnefnda. Vegna þessa hafi brotaþoli lagt fram beiðni um nálgunarbann. Í bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 26. júlí sl., hafi beiðninni verið hafnað að svo stöddu eins og atvikum hafi verið háttað þá.
Í skýrslutöku af kærða hafi hann kveðið þau vera í samskiptum bæði á betri og verri veg, hann hafi neitað fyrir að hafa dreift nektarmynd af brotaþola en hafi viðurkennt að hafa búið til nýjan gervi aðgang undir öðru nafni.
Mál nr. 007-2017-[...]
Þann 1. ágúst 2017 hafi brotaþoli tilkynnt að X hafi sent sér skilaboð og hringt í hana og tilkynnt að hann ætlaði að taka eigið líf. Lögregla hafi farið á vettvang og kannaði aðstæður en ekki hafi verið frekari þörf á aðstoð lögreglu.
Mál nr. 007-2017-[...]
Þann 24. ágúst 2017 hafi brotaþoli kært áframhaldandi áreiti og ónæði X í formi smáskilaboða (SMS) og símhringinga sem hafi haldið áfram eftir 26. júlí sl. Þar hafi komið fram ítrekaðar beiðnir hennar til kærða um að hætta að hafa samband við sig en hann hafi ekki sinnt því og áfram sent henni skilaboð. Jafnframt sé talið að hann hafi komið heim til brotaþola og sett bók inn um bréfalúgu.
Í skýrslutöku af brotaþola þann 24. ágúst 2017 hafi m.a. komið fram að X hafi ítrekað sett sig í samband við hana undanfarna daga þrátt fyrir að hún hafi beðið hann um að gera það ekki og reyndar hafi ekki liðið sólarhringur frá 26. júlí sl. að hann hafi sett sig í samband við hana í formi símtala eða smáskilaboða (SMS). Því til sönnunar hafi brotaþoli lagt fram gögn er hafi sýnt samskipti þeirra frá deginum áður, þ.e. 23. ágúst sl., í formi SMS skilaboða. Jafnframt hafi komið fram hjá brotaþola að auk þess að senda henni skilaboð hafi X hringt í farsímann hennar og ef hún svaraði ekki honum þá hafi hann notað aðra síma eins og t.d. síma sonar síns og hefði komið með bók heim til hennar. Brotaþoli hafi reynt að loka á X á facebook og hann hafi stofnað reikning undir öðru nafni og reynt að hafa samband við hana. Hann hafi ekki látið af þessum samskiptum þrátt fyrir beiðnir hennar þar um og hafi oft haft uppi niðrandi og ógnandi ummæli við hana.
Í skýrslutöku lögreglu kvað kærði þau hafa verið í samskiptum en að hann hafi ítrekað sent henni skilaboð þrátt fyrir að hún hafi beðið hann um að hætta því. Hann hafi kveðið hana hafa einnig sent á sig skilaboð og átt í samskiptum. Hann hafi kvaðst hafa komið með bók til heim til hennar.
Í ljósi ofangreinds hafi lögreglustjóri talið að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt en X liggi undir rökstuddum grun um að hafa framið refsiverð brot gegn brotaþola og raskað friði hennar. Þá sé talin hætta á að hann muni gera slíkt aftur og með því raska friði hennar í skilningi ákvæðisins njóti hann fulls athafnafrelsis. Ekki sé því talið sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.
Niðurstaða:
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að staðfest verði ákvörðun hans frá dags. 24. ágúst 2017, um að X, kt. [...], skuli sæta nálgunarbanni, skv. a og b lið 1. mgr. 4. gr. laga 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], að [...] á [...], sem og heimili foreldra hennar að [...] í sama sveitarfélagi, hvar brotaþoli hefur dvalist, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreinda staði, mælt frá miðju húsanna. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Heimild er til að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að viðkomandi hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta er á því að viðkomandi brjóti þannig gegn brotaþola, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Þessu úrræði verður þó aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 6. gr. laga nr. 85/2011, og skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.
Fram kemur í greinargerð lögreglustjóra að brotaþoli eigi heimili að [...] á [...]og dvelji jafnframt á heimili foreldra hennar að [...] á [...]. Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að varnaraðili sé undir rökstuddum grun og eftir atvikum sterkum grun um refsiverða háttsemi, áreiti og ónæði gagnvart brotaþola, sem er fyrrverandi unnusta hans. Rakin eru fimm mál þar sem brotaþoli hefur lagt fram kærur á hendur varnaraðila og eru þau vegna mála frá 30. september 2016, mars 2017, 25. júlí 2017, 1. ágúst 2017 og nú síðast 24. ágúst sl.
Ákvörðunin um nálgunarbann hafi verið tekin að eigin frumkvæði lögreglu vegna nýrra gagna og upplýsinga um áframhaldandi ónæði og áreiti kærða þann 24. ágúst sl. og birt fyrir kærða sama dag.
Í mars 2017 lagði brotaþoli fram kæru vegna líkamsárásar á heimili brotaþola í febrúar 2017 þar sem hún hefði hlotið áverka á mjöðm og læri. Við skýrslutöku neitaði varnaraðili sakagiftum að mestu.
Þann 25. júlí 2017 kærði brotaþoli ætlaðar ærumeiðingar og eftir atvikum hótanir, sbr. 233. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Í kærunni sé m.a. greint frá því að X hafi sent brotaþola smáskilaboð til að vekja athygli þess síðarnefnda á færslu á Facebook. Jafnframt að X hafi nálgast brotaþola í gegnum „falsaðan reikning“ undir öðru nafni á sama samfélagsmiðli þrátt fyrir að brotaþoli hafi ítrekað sagt X að láta sig í friði. Að auki hafi brotaþoli greint frá því að X hefði birt nektarmyndir af brotaþola án heimildar á samfélagsmiðlum og þannig raskað friðhelgi þess síðarnefnda. Vegna þessa hafi brotaþoli lagt fram beiðni um nálgunarbann. Beiðninni hafi verið hafnað að svo stöddu eins og atvikum hafi verið háttað þá. Í skýrslutöku af kærða hafi hann kveðið þau vera í samskiptum bæði á betri og verri veg, en neitaði að hafa dreift nektarmynd af brotaþola en hafi viðurkennt að hafa búið til nýjan gervi aðgang undir öðru nafni.
Þann 24. ágúst 2017 hafi brotaþoli kært áframhaldandi áreiti og ónæði X í formi smáskilaboða (SMS) og símhringinga sem hafi haldið áfram eftir 26. júlí sl. Þar hafi komið fram ítrekaðar beiðnir hennar til kærða um að hætta að hafa samband við sig en hann hafi ekki sinnt því og áfram sent henni skilaboð. Jafnframt sé talið að hann hafi komið heim til brotaþola og sett bók inn um bréfalúgu.
Þessu til sönnunar hafi brotaþoli lagt fram gögn er hafi sýnt samskipti þeirra frá deginum áður, þ.e. 23. ágúst sl., í formi SMS skilaboða. Jafnframt hafi komið fram hjá brotaþola að auk þess að senda henni skilaboð hafi X hringt í farsímann hennar og ef hún svaraði ekki honum þá hafi hann notað aðra síma eins og t.d. síma sonar síns og hefði komið með bók heim til hennar. Hann hafi ekki látið af þessum samskiptum þrátt fyrir beiðnir hennar þar um og hafi oft haft uppi niðrandi og ógnandi ummæli við hana. Í skýrslutöku hjá lögreglu kvað varnaraðili þau hafa vera í samskiptum og hann hefði ítrekað sent henni skilaboð þrátt fyrir að hún hafi beðið hann að hætta því og kvaðst hafa komið með bók heim til hennar.
Með vísan til framlagðra gagna og þess sem rakið hefur verið verður að telja að rökstuddur grunur og eftir atvikum sterku grunur sé um að varnaraðili hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola og skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 sé fullnægt. Varðandi móttöku kröfu lögreglustjóra í héraðsdómi hefur athugun dómara leitt í ljós að krafa um staðfestingu héraðsdóms á ákvörðun lögreglustjóra hafi borist héraðsdómi með boðsendingu laugardaginn 26. ágúst sl. og þannig innan tilskilins frest skv. 12. gr. l. nr. 85/2011.
Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið þykir við svo búið ekki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti en með því að banna varnaraðila að nálgast hana. Telja verður að þess hafi verið gætt að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn ber til þar sem nálgunarbanni er markaður tími í sex mánuði. Af gögnum um háttsemi varnaraðila á fyrri stigum verður að telja að hætta sé á því að hann mundi fremja háttsemi sem lýst er í 4. gr. laga nr. 85/2011, en varnaraðili lét sér ekki segjast og sendi brotaþola margítrekað skilaboð í þessum mánuði þrátt fyrir að fyrir liggi staðfest skv. gögnum málsins og viðurkenningu varnaraðila að brotaþoli hafi ítrekað krafist þess að hann léti af þessari háttsemi. Með vísan til fyrirliggjandi gagna málsins þykja ekki efni til að marka nálgunarbanni skemmri tíma en krafa er um og hagsmunir brotaþola af því að vera í friði ríkari en hagsmunir varnaraðila af því að setja sig í samband við brotaþola í óþökk hennar eða að fara inn á það svæði sem nálgunarbann tekur til. Því ber að fallast á kröfu sóknaraðila um að staðfesta ákvörðun hans frá 24. ágúst sl. um nálgunarbann eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila og réttargæslumanns brotaþola greiðist úr ríkissjóði eins og nánar er kveðið á um í úrskurðarorði. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er nálgunarbann er lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu lagði á X , kt. [...], 24. ágúst 2017 um að hann skuli sæta nálgunarbanni, skv. a og b lið 1. mgr. 4. gr. laga 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], að [...] á [...], sem og heimili foreldra hennar að [...] í sama sveitarfélagi, hvar brotaþoli hefur dvalist, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreinda staði, mælt frá miðju húsanna. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Þóknun verjanda varnaraðila, Gríms Sigurðssonar hrl., og réttargæslumanns brotaþola, Arnars Þórs Stefánssonar hrl., að upphæð 220.000 krónur til hvors skal greidd úr ríkissjóði.