Hæstiréttur íslands
Mál nr. 170/2008
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Bifreið
- Stórkostlegt gáleysi
- Húftrygging
|
|
Fimmtudaginn 4. desember 2008. |
|
Nr. 170/2008. |
Bryndís Sigurðardóttir(Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Ingvar Sveinbjörnsson hrl.) |
Vátryggingasamningur. Bifreiðir. Stórkostlegt gáleysi. Húftrygging.
Bifreiðin SH 720 í eigu B skemmdist í árekstri við aðra bifreið. S var við stjórn bifreiðarinnar þegar áreksturinn varð. B krafði vátryggingafélagið SA um bætur úr húftryggingu bifreiðarinnar vegna skemmda á henni, en SA neitaði greiðslu. SA reisti sýknukröfu sína á því að með vísan til vátryggingaskilmála húftryggingarinnar væri félaginu óskylt að bæta tjónið þar sem ökumaður bifreiðarinnar hefði verið undir áhrifum fíkniefna og hefði því ekki getað stjórnað bifreiðinni örugglega þegar umferðaróhappið varð og jafnframt hefði hann sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að aka á of miklum hraða inn á gatnamótin, þar sem áreksturinn átti sér stað, gegn rauðu ljósi. Talið var, á grundvelli framburðar vitnis, að S hefði ekki haft augun á umferðarvitanum þegar hann nálgaðist gatnamótin heldur hefði hann byrjað að hemla þegar bifreið sú, sem var fyrir framan hann á hægri akrein hemlaði. Jafnframt var talið sannað miðað við staðsetningu bifreiðanna er lentu í árekstrinum að rautt ljós hefði logað nokkra stund í akstursstefnu SH 720 þegar áreksturinn varð. Ennfremur var sannað að S hefði ekið á 70 til 80 km hraða á klukkustund, en leyfilegur hámarkshraði þar var 60 km á klukkustund. Þegar litið var til þessa atvika var fallist á með SA að S hefði valdið árekstrinum af stórkostlegu gáleysi í skilningi 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga og SA sýknað af kröfum B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. mars 2008. Hún krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.163.596 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2005 til greiðsludags. Til vara krefst hún lægri fjárhæðar að mati réttarins ásamt dráttarvöxtum eins og í aðalkröfu greinir. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Hinn 10. október 2005 varð umferðaróhapp á gatnamótum Sæbrautar og Súðavogs og skemmdist bifreið áfrýjanda SH 720 eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi reisir kröfu sína á vátryggingarsamningi við stefnda um húftryggingu á bifreiðinni. Er á því byggt að um hafi verið að ræða óhappatilvik og sé ósannað að ökumaður bifreiðarinnar hafi sýnt af sér stófellt gáleysi þegar hann ók gegn rauðu ljósi. Ökumaður bifreiðarinnar hafi viðurkennt að hafa neytt kannabisefnis meira en sólarhring fyrir umferðaróhappið en það hafi ekki haft áhrif á aksturshæfni hans.
Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að ökumaður bifreiðar áfrýjanda hafi verið undir áhrifum fíkniefna og því ekki getað stjórnað bifreiðinni örugglega þegar umferðaróhappið varð. Þá hafi hann sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að aka á of miklum hraða inn á gatnamótin gegn rauðu ljósi. Sé stefnda af þessum ástæðum óskylt að bæta tjónið og vísar hann til greina 2.8 og 2.6 í vátryggingaskilmálum húftryggingarinnar.
II
Samkvæmt gögnum málsins ók sonur áfrýjanda, Sigurður Aðalgeirsson, bifreiðinni SH 720 á vinstri akrein norður eftir Sæbraut í átt að gatnamótum við Súðavog. Í framburði Sigurðar fyrir dómi 13. desember 2007 kom fram að hann hafi séð grænt ljós framundan. Þegar hann hafi verið að koma að gatnamótunum hafi hann orðið var við að bíll fyrir framan hann á hægri akrein hafi verið að hemla. Hafi hann þá stigið strax á bremsuna en of seint. Aðspurður hvaða ljós hafi logað á umferðarvitanum þegar áreksturinn varð svaraði Sigurður því til að hann hafi varla náð að líta á það þar sem þetta hafi gerst svo hratt. Í skýrslu, sem tekin hafði verið af Sigurði hjá lögreglu tveimur tímum eftir áreksturinn, kvað hann aftur á móti að grænt ljós hafi logað á umferðarvitanum og að hann hefði ekið á 70-80 km hraða á klukkustund. Í lögregluskýrslu 21. október 2006 kemur fram að leyfilegur hámarkshraði á þessum kafla Sæbrautar sé 60 km á klukkustund.
Kolbeinn Sigurjónsson, sem ók bifreiðinni UO 648, bar fyrir dómi að bifreið hans hafi verið kyrrstæð á rauðu ljósi við umrædd gatnamót á Súðavogi. Á hægri hönd hans hafi verið sendibifreið. Hafi hann og bifreiðastjóri sendibifreiðainnar báðir ekið af stað þegar grænt ljós kviknaði. Í lögregluskýrslu 21. október 2005 er haft eftir Kolbeini að hann hafi síðan ekið Súðavog til vesturs og ætlunin hafi verið að aka inn á Sæbraut til suðurs. Hafi grænt ljós logað í akstursstefnu hans í nokkurn tíma áður en áreksturinn varð. Hilmar Antonsson, bifreiðastjóri sendibifreiðarinnar VT 413, bar að bifreiðin UO 648 hafi nánast verið komin yfir báðar akreinar Sæbrautar og inn á móts við miðeyjuna þegar bifreiðin SH 720 hafi skollið á afturhluta UO 648. Hallur Jónasson, sem var ökumaður annarrar bifreiðar á eftir VT 413, bar að SH 720 hafi verið ekið á mikilli ferð inn á gatnamótin og hafi þá grænt ljós logað fyrir akstursstefnu frá Súðavogi. Hilmar Antonsson bar að áreksturinn hafi verið harður og bifreiðin UO 648 snúist í hálfhring. Hafi SH 720 síðan lent á sendibifreið þeirri er hann ók, en hann hafði beygt af Súðavogi norður Sæbraut. Kvað Hilmar að sendibifreiðin, sem er 5 tonn að þyngd, hefði kastast til við áreksturinn um meira en einn metra.
Af framburði Sigurðar Aðalgeirssonar, ökumanns SH 720, verður ráðið að hann hafi ekki haft augun á umferðarvitanum þegar hann nálgaðist gatnamót Sæbrautar og Súðavogs heldur hafi hann byrjað að hemla þegar bifreið sú, sem var fyrir framan hann á hægri akrein, hemlaði. Af framburði Hilmars Antonssonar og Kolbeins Sigurjónssonar svo og staðsetningu bifreiðinnar UO 648 verður ráðið að rautt ljós hafi logað nokkra stund í akstursstefnu SH 720 norður Sæbraut þegar áreksturinn varð. Bifreiðinni SH 720 var ekið í umrætt sinn norður Sæbraut á 70 til 80 km hraða á klukkustund, en leyfilegur hámarkshraði þar er 60 km á klukkustund. Þegar litið er til allra þessara atvika verður fallist á það með stefnda að ökumaður SH 720 hafi valdið fyrrgreindum árekstri af stórkostlegu gáleysi í skilningi 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Í grein 2.6. skilmála húftryggingar bifreiðarinnar SH 720 er kveðið svo á að stefndi bæti ekki tjón sem verða kunni á ökutækinu þegar tjón verður rakið til ásetnings eða stórkostlegs gáleysis vátryggðs eða ökumanns. Verður samkvæmt framansögðu krafa stefnda um sýknu tekin til greina og niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður hvor aðili látinn beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. desember 2007, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Bryndísi Sigurðardóttur, kt. 121066-3439, Lækjarbergi 31, Hafnarfirði, á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 4, Reykjavík, með stefnu sem birt var 28. febrúar 2007.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 1.163.596 kr. auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2005 til greiðsludags. Þess er krafist að vextir verði árlega lagðir við höfuðstól hinn 1. nóvember ár hvert, í fyrsta sinn 1. nóvember 2006. Til vara er gerð krafa að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur að mati réttarins auk dráttarvaxta svo sem í aðalkröfu greinir til greiðsludags. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda að teknu tilliti til 24,5% vsk.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnda tildæmdur hæfilegur málskostnaður að mati réttarins. Til vara er krafist lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður falli niður.
Helstu málavextir eru að umferðaróhapp varð á gatnamótum Sæbrautar og Súðarvogs í Reykjavík seinni hluta dags hinn 10. október 2005. Fólksbifreiðinni SH-720, Toyota Celica, fyrst skráð 11. apríl 2000, eign stefnanda, var ekið á tvær bifreiðar á gatnamótunum. Í skýrslu lögreglumannsins, Ingólfs Más Ingólfssonar, um atvikið er greint frá akstursskilyrðum þannig: Birtuskilyrði-Dagsbirta, Færð-Þurrt, Umferð-Mikil, Veður-Sólskin, Yfirborð vegar-Malbikað. Þá segir m.a.:
Bifreiðinni SH-720 var ekið Sæbraut til norðurs og yfir gatnamótin við Súðarvog. Ökumaður hennar var Sigurður Aðalgeirsson. Farþegi í bifreiðinni, Hilmar Örn Albertsson. Þeir sögðust hafa verið með bílbelti er óhappið varð og ökuljós tendruð. Bifreiðin er ökutækjatryggð hjá Sjóvá Almennum.
Bifreiðinni VT-413 var ekið Súðarvog til vestur af hægri akrein og inn á Sæbraut til norðurs. Ökumaður hennar var Hilmar Antonsson. ...
Bifreiðinni UO-648 var ekið Súðarvog til vesturs á vinstri akrein og inn á Sæbraut til suðurs. Ökumaður hennar var Kolbeinn Sigurjónsson. ...
Á vettvang kom kranabifreið frá Króki og hafði á brott bifreiðarnar SH-720 og UO-648 en þær voru ekki í ökuhæfu ástandi eftir óhappið. ...
Framburður ökumanns SH-720. Sigurður sagðist hafa verið að aka Sæbraut til norðurs, yfir gatnamót við Súðarvog er óhappið varð. Sigurður sagðist ekki vita betur en að grænt ljós logaði móti akstursstefnu hans. Sigurður var í nokkru uppnámi á vettvangi og erfitt að ræða við hann um þá atburði er gerst höfðu stuttu áður.
Framburður ökumanns VT-413. Hilmar sagðist hafa verið kyrrstæður á Súðarvogi við Sæbraut. Er grænt ljós tendraði hugðist hann beygja inn á Sæbraut til norðurs. Er hann var kominn inn á gatnamótin var bifreiðinni SH-720 ekið á framhorn á bifreið hans. Hilmar sagði að grænt ljós hefði verið á akstursstefnu hans. Hilmar sagðist furða sig á því að ökumaður bifreiðarinnar SH-720 hafi náð að aka inn í hlið bifreiðar sinnar þar sem bifreið hans væri sendibifreið og lengi að taka af stað inn á gatnamótin svo rautt ljós hljóti að hafa logað nokkuð áður en ökumaður SH-720 fór yfir fyrrgreind gatnamót.
Framburður ökumanns UO-648. Kolbeinn sagðist hafa verið kyrrstæður á vinstri akrein á Súðarvogi og hugðist aka inn á Sæbraut til suðurs er grænt ljós tendraði þegar bifreiðinni SH-720 var ekið á aftara horn bifreiðar sinnar þannig að hún snerist. Kolbeinn sagði að grænt ljós hefði logað á akstursstefnu hans í nokkurn tíma áður en áreksturinn varð.
Framburður vitnis á vettvangi. ...
Upplýsingar varðandi málið. Af gefnu tilefni skal þess getið að við höfðum afskipti af ökumanni og farþega bifreiðarinnar SH-720 við Írabakka um 15 mínútum áður en tilkynning um ofangreindan árekstur átti sér stað. Þar höfðum við ekið fram hjá bifreiðinni þar sem henni var lagt í bifreiðastæði á móts við Írabakka 12 og var hún mannlaus. Er við ókum svo sömu leið til baka rétt skömmu síðar sáum við að maður stóð við bifreiðina og annar kominn í farþegasæti hennar. Virtist okkur sem mennirnir hefðu komið frá gróðursvæði, tré og runnar, ofan við bifreiðastæðið. Við gáfum okkur á tal við mennina, Sigurð og Hilmar Örn, og spurðum við um ferðir þeirra. Ég veitti því athygli að nokkur kannabislykt var af drengjunum og inni í bifreiðinni. Einnig veitti ég því athygli að tóbakssverta var á vísifingri þeirra. Þeir félagar samþykktu að tæma vasa sína og sýna fram á að ekkert saknæmt leyndist þar. Ekkert saknæmt fannst í fórum þeirra né í bifreiðinni. Virtist okkur á þeim ummerkjum sem áður er lýst að þeir hafi neytt fíkniefna utan við bifreiðina í áðurnefndu gróðursvæði. Sigurður og Hilmar viðurkenndu við okkur að þeir hefðu hugsanlega fengið sér í „haus“ skömmu áður en við komum á vettvang en væru ekki með nein fíkniefni á sér nú.
Bifreiðinni var lagt þarna í bifreiðastæði og gerði ég ökumanni og farþega skýra grein fyrir því að akstur undir áhrifum fíkniefna væri með öllu óheimill. Sigurður sagðist alveg vita að svo væri enda væri hann ekki að fara að aka bifreiðinni heldur væru þeir aðeins að sitja og tala saman í bifreiðinni. Hilmar sagðist búa þarna í Írabakka og væri ekki að fara neitt. Við kvöddum þá félaga og brýndi ég fyrir þeim að fara varlega og hélt stutta tölu um skaðsemi þess að neyta fíkniefna en virtist tala fyrir daufum eyrum af augnaráði þeirra að dæma.
Eins og ég greindi hér að ofan frá þá liðu um 12-15 mínútur frá þessum samskiptum okkar og þar til við vorum send á F2 (forgang) að ofangreindum gatnamótum vegna áreksturs.
Á vettvangi umferðaróhapps tilkynnti ég Sigurði að þeir þyrftu að fylgja okkur að lögreglustöðinni við Hverfisgötu þar sem frekari rannsóknar væri þörf á aðdraganda óhappsins. Ég óskaði einnig eftir því við Hilmar að hann fylgdi okkur þar sem ég vildi taka af honum framburð. Þá færði ég Sigurð fyrir Þorvald innivarðstjóra sem tók ákvörðun um að kalla til héraðslækni til að meta hæfni Sigurðar til að stjórna ökutæki. Á lögreglustöðina kom Lúðvík Ólafsson læknir og lagði mat á aksturshæfni Sigurðar. Einnig sá Lúðvík um að taka blóðsýni úr Sigurði. ...
Hilmar Örn Albertsson bar við skýrslutöku, er fram fór í lögreglustöðinni, að hann og Sigurður Aðalgeirsson hefðu reykt hass u.þ.b. einum og hálfum tíma áður en áreksturinn varð.
Í matsgerð Lúðvíks Ólafssonar læknis á ökuhæfni Sigurðar Aðalgeirssonar hinn 10. október 2005 segir m.a. að Sigurður hafi játað að hafa notað kannabis kvöldið áður. Hann noti hass tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Skráð er að Sigurður sé hæfur til aksturs, en lagt til að blóðrannsókn verði gerð. Niðurstaða Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 2. nóvember 2005, segir að magn etanóls í blóðsýni nr. 35127 hafi verið rannsakað og ekkert greinst. Í matsgerð frá sömu rannsóknarstofu, dags. 2. desember 2005, segir hins vegar m.a.:
Blóðsýn nr. 35127: Alkóhól (etanól) var ekki mælanlegt í blóði. Í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 4,7 ng/ml. Teterhýdrókannabínól er hið virka efni í kannabis. Það hefur slævandi áhrif á miðtaugakerfi og getur dregið úr aksturshæfni. Styrkur tetrahýdrókannabínóls í blóði bendir til þess að hlutaðeigandi hafi verið undir slævandi áhrifum þess og má gera ráð fyrir að hann hafi að þeim sökum ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti.
Með bréfi, dags. 23. maí 2006, krafði lögmaður stefnanda stefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., um bætur vegna tjóns á bifreið stefnanda 10. október 2005. Greint er frá því í bréfinu að tryggingarfélagið hafi neitað að hafa afskipti af viðgerðum bifreiðarinnar og hafnað greiðslu á viðgerðarkostnaði og hafi stefnandi því neyðst til þess að láta gera við bifreiðina hjá P. Samúelssyni hf. Tölulega er krafan þannig fram sett í bréfinu.
Viðgerðarkostnaður skv. samantekt
P. Samúelssonar hf. 1.347.364 kr.
Reikningur frá Krók dráttarbílum 70.300 kr.
Áfallnir vextir 48.280 kr.
Innheimtuþóknun 113.297 kr.
Samtals 1.579.241 kr.
Af hálfu tryggingarfélagsins var framangreindu bréfi lögmanns stefnanda svarað með bréfi, dags. 30. júní 2006. Þar segir m.a.:
Bifreiðin var tryggð með kaskótryggingu hjá félaginu þegar tjónið varð þann 10. október 2005. Félagið telur skýrt af gögnum málsins að ökumaður bifreiðarinnar SH 720 sýndi stórkostulegt gáleysi við akstur bifreiðarinnar í greint sinn en í blóði hans mældist eftir aksturinn tetrahydrókannabínol 4,7. Að mati rannsóknaraðila var ökumaður undir slævandi áhrifum og telur félagið tjónið á bifreiðinni megi rekja beint til þess ástand. Vísað er til gr. 2.6. í meðfylgjandi vátryggingarskilmálum sem giltu um vátrygginguna og til stuðnings er einnig vísað til gr. 2.8.
Á dómþingi hinn 30. maí 2007 var af hálfu stefnda lögð fram beðni um dómkvaðningu matsmanns til að meta og svara eftirfarandi spurningum vegna málsins:
1. Hver var styrkur tetrahýdrókannabinól í blóðsýni úr Sigurði Aðalgeirssyni þegar árekstur varð en áreksturinn varð kl. 16.23 mánudaginn 10.10.2005. Blóðsýnið var tekið kl. 18.10 þennan dag?
2. Hver var styrkur tetrahýdrókannabinól í blóðsýninu kl. 17.40 en þá var mat á ökuhæfni gert.
3. Getur mat á ökuhæfni, sbr. dómskjal nr. 4 komið í staðinn fyrir niðurstöðu úr blóðsýni varðandi mat á ökuhæfni?
4. Ef svarið er játandi eða neitandi óskast það skýrt hvers vegna svo sé.
5. Hvaða áhrif hefur tetrahýdrókannabinól á ökuhæfni og hvað þarf styrkur þess efnis að vera mikill í blóði til að hafa áhrif á ökuhæfni.
Þorkell Jóhannesson, dr. med., sérfræðingur í lyfja- og eiturefnafræði, var kvaddur til að framkvæma matið. Matsgerð hans er dagsett 20. september 2007 og var lögð fram á dómþingi 22. október 2007. Þar segir:
1. Svar við spurningu 5: Hæfni til aksturs undir áhrifum tetrahýdrókannabínóls (THC) ásamt yfirliti yfir verkanir og hvörf þess í líkamanum.
Tetrahýdrókannabínól (THC) er einn af um það bil 60 kannabínóíðum, sem fyrir koma í kannabis og ræður langmestu um vímugefandi verkun og önnur lyfhrif og eiturhrif, er greina má eftir neyslu kannabis, hvort sem er eftir inntöku eða reykingar.
Í tilraunum með THC í miðlungsstórum skömmtum (ca. 10 mg), reykt í sígarettu, verður hlutaðeigandi að líkindum fáum mínútum síðar var við aukna hjartsláttartíðni, þurrk í augum (slímhúð augna er oft rauð og þrútin), munni, nefi og stundum einnig skjálfta í höndum og kvíða. Ef maðurinn fer í vímu af völdum neyslunnar, byrjar hún litlu síðar. Færist þá höfgi yfir manninn, og oftast vellíðan og oft í bylgjum. Í vímunni má greina meiri eða minni truflun á dómgreind og hegðun, tímaskyni, fjarlægðarskyni, nýminni og orðræða truflast oft (menn eiga erfitt með að finna orð hugsunum sínum). Samstilling fínhreyfinga í höndum og augum truflast (dæmigert er skerðing á getu til þess að fylgja eftir ljósi með augunum) svo og viðbragðsflýtir auk annars. Víman stendur lengst í 2-3 klst.
Mikilvægt er að gera sér ljóst, að gróf ölvunareinkenni (slaga, þvoglumæli, grófir rykkir í augum o.fl.) sjást að jafnaði ýmist lítið eða ekki eftir töku THC. Klínísk ökuhæfnispróf, sem fyrst og fremst eru miðuð við verkun etanóls (áfengis), eiga þannig ekki alls kostar við verkanir tetrahýdrókannabínóls.
Erfitt hefur reynst að tengja þéttni THC í blóði greinilega við ökuhæfni. Hámarksþéttni í blóði um það bil 10 mínútum eftir að hafa reykt 10 mg af THC í sígarettu gæti verið á bilinu 50-100 ng/ml (1 ng = einn billjónasti úr grammi (...)) og er að öðru jöfnu samfara merkjanlegri kannabisvímu. THC hverfur í fyrstu hratt úr blóðrásinni, en langvarandi dreifing milli blóðs og vefja á sér stað. THC getur þannig verið til staðar í blóðinu 1-2 sólarhringum eftir að þess var neytt. Enginn efi er á því, að maður í kannabisvímu hefur skert ökuhæfni, en hvernig er staðan, þegar víman hverfur og þéttni THC í blóðinu minnkar marktækt?
Í þessu sambandi ber fyrst að hafa í huga, að ýmsar verkanir tetrahýdró-kannabínóls haldast lengur en vímuástandið og kunn því að greinast í manni, sem er eðlilegur í framkomu og háttum þrátt fyrir undanfarandi neyslu kannabis. Ekki á þetta síst við truflað tímaskyn og skerta getu til að fylgja eftir ljósi með augunum og þrot í augum. Í öðru lagi er sú staðreynd, að þéttni THC hefur verið á bilinu 4-14 ng/ml í blóði ökumanna, sem látist hafa í umferðarslysum. Verður því að telja líklegt, að lítil þéttni THC í blóðinu, sem væri á þessu bili, geti skert ökuhæfni manna.
Þess skal að lokum getið, að mikil eða langvarandi kannabisneysla getur leitt til þolmyndunar gegn THC.
2. Svar við spurningum 3 og 4: Mat á ökuhæfni.
Lúðvík Ólafsson, lækningaforstjóri, mat ökuhæfni Sigurðar Aðalgeirssonar þann 10.10. 2005 kl 17.40 eða liðlega 1 klst. eftir að hann lenti í umferðarslysi því, sem hér er til umfjöllunar.
Mat Lúðvíks er fagmannlega gert, þótt það eigi greinilega fyrst og fremst við verkanir etanóls (áfengis). Í matið vantar þannig könnun á fyrrgreindum augnhreyfingum, sem oft truflast eftir neyslu kannabis. Af matinu má ráða, að maðurinn hefði síðast neytt kannabis tæpum sólarhring áður (og hann staðfestir þetta í lögregluskýrslu). Í matinu eru engar upplýsingar þess efnis, að maðurinn sé reglulegur neytandi. Framburður mannsins í lögregluskýrslu bendir þó sennilega til hins gagnstæða. Engu að síður verður ekkert fullyrt um hugsanlega þolmyndun gegn verkunum THC (kannabis).
Af matinu má að öðru leyti einkum ráða tvennt: Maðurinn hefur í fyrst lagi ekki verið í vímu af völdum kannabis, áfengis eða annarra vímugjafa (eðlileg meðvitund, hegðun, minni, tal og framburður og athygli). Maðurinn hefur í öðru lagi að líkindum verið undir einhverjum áhrifum kannabis (blóðhlaupin augu, hraður hjartsláttur og truflað tímaskyn (sbr. einnig viðbótarupplýsingar, dagsettar 26.4. 2007)). Þau kannabisáhrif, sem matið bendir til, gætu enn fremur verið í sennilegu samhengi við kannabisneyslu kvöldið áður að því er best verður séð.
Ef tekið er tillit til þeirra gagna, sem að framan greinir, verður ekki séð, að mat Lúðvíks Ólafssonar taki af eða hnekki matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, sem dagsett er 2.12. 2005. Í matsgerðinni segir, að þéttni THC í blóði sakbornings hafi verið 4,7 ng/ml í blóðsýni sem tekið var kl. 18.10 þann 10.10. 2005 eða ½ klst. eftir að Lúðvík Ólafsson gerði sitt mat. Í matsgerð Rannsóknastofnunar segir orðrétt: „Styrkur tetrahýdrókannabínóls í blóði bendir til þess að hlutaðeigandi hafi verið undir slævandi áhrifum þess og má gera ráð fyrir að hann hafi af þeim sökum ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti“.
Undirritaður tekur því samkvæmt framansögðu undir álit Rannsóknastofunnar og telur líkur vera á þann veg, að hæfni mannsins til þess að stjórna vélknúnu ökutæki hafi verið skert, þegar sýnið var tekið.
3. Svar við spurningu 2.
Svo sem áður ræðir var svo skammt á milli töku blóðsýnis (kl. 18.10) og mats lækningastjórans (kl. 17.40), að þessir atburðir nálgast að vera samtímis, þegar efni á borð við THC á í hlut.
4. Svar við spurningu 1.
Ætla verður, að þéttni THC hefði að líkindum verið meiri í blóðinu kl. 16.23 en kl.18.10 sama dag.
Stefnandi byggir á því að hafa húftryggingu hjá stefnda. Í því felist að stefndi hafi lofað að greiða út bætur sem nemi tjóni stefnanda vegna umferðaróhappsins sem hér um ræðir. Stefnandi hafi ekki verið ökumaður bifreiðar sinnar umrætt sinn. Varnir stefnda séu reistar á því að ökumaðurinn, Sigurður Aðalgeirsson, hafi verið undir áhrifum vímuefna við aksturinn. Sigurður hefði verið ákærður fyrir það en neitað sök. Ákæran hafi síðan verið dregin til baka á grundvelli framburðar ákærða fyrir rétti. Vísað er til þess að ökuhæfi Sigurðar hafi verið metið af lækni sama dag og umferðaróhappið. Hafi niðurstaðan orðið sú að Sigurður hefði verið hæfur til að aka bifreið á þeim tíma er hér um ræðir. Ljóst væri að stefndi eigi að öllu leyti sönnunarfærslu um það að stefnandi hafi unnið sér eitthvað til sakar eða ökumaður hafi verið óhæfur til að aka bifreiðinni og slysið verði rakið til þess. Hvorugu væri til að dreifa.
Byggt er á því að ósannað sé að ökumaður bifreiðarinnar hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi, sem sé forsenda þess að takmörkunarskilmálum fyrir ábyrgð stefnda í vátryggingaskilmálum verði beitt. Ljóst sé að hvorki gr. 2.6 né gr. 2.8 í vátryggingaskilmálum eigi við um þetta tilvik. Hins vegar sé ljóst að bifreiðin skemmdist vegna óhappatilviks og að ökumaður var í hæfu ástandi til að aka bifreiðinni þá er tjónið varð. Stefnda beri að sanna og sýna fram á, að ökumaður bifreiðarinnar SH-720 hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við akstur bifreiðarinnar. Þá sé ljóst að sönnun stefnda lúti að því að sanna að stefndi hafi verið undir áhrifum vímuefna og þá enn fremur að um orsök sé að tefla og samhengi milli ætlaðrar vímu og aksturslags. Þannig nægi ekki að halda því fram að blóð ökumanns hefði verið torkennilegt, þegar fyrir liggi mat læknis á hæfi og ástandi ökumanns varðandi akstur og læknisfræðilegar niðurstöður á vettvangi umrætt sinn.
Þá er staðhæft að ekkert liggi fyrir sem bendi til þess að um annað sé að ræða en eitt fjölmargra óhappa í umferðinni, sem eigi sér stað á hverjum degi með því sem kalla mætti eðlilegum hætti. Stefnda beri að greiða stefnanda fullt andvirði bifreiðarinnar og bæta stefnanda afnotamissinn frá þeim tíma, sem tjónið varð hinn 10. október 2005 til 3. febrúar 2006, er gert hefði verið við bifreiðina. Eins og gögn málsins sýni hafi langur tími liðið frá því að tjón varð og þar til afstaða hafi legið fyrir af hálfu stefnda. Um óhappatilvik væri að ræða og húftryggingu sé einmitt ætlað að bæta slík tilvik og tjón. Fráleitt sé að vátryggingafélag, sem tekur að sér að tryggja húftryggingu, geti skotið sér undan ábyrgð með þeim hætti sem hér væri reynt. Slíkt mundi augljóslega leiða til algerrar réttaróvissu. Engum skerðingum verði beitt á grundvelli skilmála húftryggingar eða kaskótryggingar bifreiðarinnar.
Greint er frá stefnukröfu á þann veg að hún sé annars vegar andvirði viðgerðar bifreiðarinnar, andvirði reiknings frá Króki og fyrir afnotamissi bifreiðarinnar. Gerð sé krafa um bílaafnot fyrir þann tíma, sem afnot vörðu eða frá 10. október 2005 til 3. febrúar 2006. Mánaðarlegt gjald fyrir bifreið, sem sé sambærileg þessari bifreið nemi 59.900 kr. á mánuði eða fyrir allt tímabilið 249.583 kr. Stefnukrafa sundurliðast því þannig:
1. Viðgerð skv. tjónsmatsreikningi P. Samúelssonar hf. 1.361.154 kr.
2. Reikningur Króks ehf. 70.000 kr.
3. Krafa um bílaafnot 249.583 kr.
Samtals 1.680.737 kr.
Stefndi byggir á því að dómafordæmi séu fyrir því að vátryggður missi bótarétt vegna hegðunar ökumanns án tillits til vitneskju vátryggðs um hegðunina. Þá er byggt á því að ökumaður bifreiðar stefnanda, SH-720, hafi umrætt sinn ekið áleiðis yfir gatnamót Skeiðarvogs og Sæbrautar á rauðu ljósi eins og vitni hafi borið um. Þannig væri sannað að ökumaðurinn ók andstætt ákvæðum 34. gr. rg. nr. 289/1995 og ákvæðum umferðarlaga og þá einkum 4. og 5. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Að aka með þessum hætti yfir gatnamót, vitandi vits, sé stórkostlegt gáleysi í skilningi greinar 2.6 í vátryggingar-skilmálum stefnda. Stefnda sé því óskylt að bæta tjónið.
Þá er vísað til þess að rannsókn hafi sýnt að ökumaður SH-720 var undir áhrifum slævandi efnis, sem hafði áhrif á aksturshæfni. Hann hafi ekki verið fær um að stjórna bifreiðinni með öruggum hætti, sbr. matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 2. desember 2005. En samkvæmt grein 2.8 í skilmálum stefnda bæti stefndi ekki tjón þegar ökumaður er undir áhrifum örvandi eða deyfandi lyfja.
Bent er á að stefnandi hafi ekki fært fram haldbær rök fyrir því að niðurstaða blóðsýnis úr ökumanninum sé röng og að ályktun eiturefnasérfræðinganna um ökuhæfni hans sé röng. Staðhæft er að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því að rekja megi áreksturinn til annars en neyslu kannabis og/eða stórkostlegs gáleysis. Nærtækasta skýringin á árekstrinum sé sú að athygli og/eða litaskyn ökumanns SH-720 hafi verið skert vegna neyslu kannabis og hann því ekki skynjað stöðu umferðarljósanna rétt. En hafi ökumaður SH-720 ekið vitandi vits gegn rauðu ljósi sé að sjálfsögðu um stórkostlegt gáleysi að ræða.
Ætlað er að niðurstaða mats Lúðvíks Ólafssonar lækningaforstjóra á hæfni ökumannsins til aksturs hafi enga þýðingu hvað mál þetta varðar. Þar hafi ekki verið mæld þau atriði sem mestu máli skipta varðandi ökuhæfni, þ.e. viðbragðsgeta og skyn á umhverfi. Neysla kannabis skerði getu til að stjórna ökutæki. Rannsóknir í þeim efnum sýni að svo sé. Þekkt væri til dæmis að fjarlægðarskyn geti brenglast.
Byggt er á því að mat á ökuhæfni, með þeim hætti sem lækningaforstjórinn gerði, segi fátt um ökuhæfni. Ökuhæfni verði að mæla í ökuhermi. Niðurstöður blóðsýna séu eini raunhæfi mælikvarðinn við mat á ökuhæfni þar sem niðurstöður um mat á ökuhæfni, með þeim hætti sem hann fékk, séu ekki óyggjandi.
Þá er ætlað að niðurfelling saksóknar á hendur ökumanni SH-720 feli ekki í sér neina sönnun á að ökumaðurinn hafi verið hæfur til aksturs umrætt sinn. Væntanlega hafi málið verið fellt niður þar sem gerðar séu mjög ríkar kröfur í refsimálum um sönnun, mun ríkari en í einkamálum.
Verði ekki fallist á sýknu er vísað til þess að vátryggingarskilmálar, grein 2.7, kveði á um að hafi ökumaður valdið tjóni af gáleysi, sem ekki teljist stórkostlegt, áskilji félagið sér rétt til að draga allt að 5% frá tjónsbótum.
Í greinargerð stefnda eru borin fram töluleg mótmæli. Þar segir:
Fjárhæð stefnukröfu er mótmælt en bótakrafan er þríþætt og beinast mótmæli stefnda að öllum liðum bótakröfunnar.
Krafa um viðgerðarkostnað að fjárhæð kr. 1.361.154.- virðast byggð á tjónsmati P. Samúelssonar hf. sbr. dskj. nr. 9 en krafan er ekki byggð á viðgerðarreikningum svo sem venja er. Af málflutningi stefnanda má ráða að gert hafi verið við bifreiðina og er því skorað á stefnanda að leggja fram viðgerðarreikninga og reikninga fyrir kaupum á varahlutum. Bent er á að í tjónsmati sem stefnukrafa er m.a. byggð á er virðisaukaskattur stór hluti af fjárhæðinni. Hafi virðisaukaskattur ekki verið greiddur af viðgerðarkostnaði ber stefnanda ekki að greiða hann. Upplýsa þarf og hvaða varahlutir voru keyptir og við hvaða hluti var gert við en í viðgerðaráætlun P. Samúelsson er gert ráð fyrir kaupum á varahlutum.
Flutningskostnaður að og frá geymslusvæði Króks er ekki mótmælt en um er að ræða kostnað að fjárhæð kr. 9.999,84 án vsk. Geymslukostnaði í 67 daga er mótmælt en enga nauðsyn bar að bíða með viðgerð í 67 daga og ber stefnda ekki að greiða fyrir þá bið.
Kröfu um bílaafnot að fárhæð kr. 249.583.- er mótmælt en stefnda er óskylt að greiða þann kostnað sbr. grein 16.7 í skilmálum. Auk þess er bent á að krafist er bóta fyrir missi afnota í nær fjóra mánuði en viðgerð hefði ekki átt að taka nema 15 daga að hámarki.
Stefnandi er í svonefndum stofni hjá stefnda og á því rétt á dagpeningum fyrir bílaleigubifreið í 7 daga þegar húftryggt ökutæki verður fyrir tjóni. Stefnandi á því rétt að greiðslu fyrir bílaafnot að fjárhæð kr. 13.977.- teljist tjónið bótaskylt og er þá miðað við þær fjárhæðir sem stefnandi miðar kröfu um bílaafnot við.
Sigurður Aðalgeirsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði verið ökumaður bifreiðarinnar SH720 hinn 10. október 2005. Hann hefði ekið eftir Sæbraut til norðurs, grænt ljós verið framundan, veður gott og sólin í bakið. Hann hefði verið að nálgast gatnamót [Sæbrautar/Súðarvogs]. Hafi hann þá orðið var við að bifreið á akrein við hlið hans á hægri hönd var að bremsa. Hafi hann þá litið á ljósin og stigið strax á bremsuna en verið aðeins of seinn. Hann hafi reynt að komast hjá slysi en rekist á vinstra afturhornið á bifreið sem var á gatnamótunum og runnið síðan á bifreið sem var að beygja á gatnamótunum til hægri. Sigurður kvaðst hafa fylgt aksturshraða umferðarinnar, sem þá var á leið hans, hraðinn hafi ekki verið mikill.
Sigurður kvaðst hafa verið í góðu ástandi þegar áreksturinn varð. Lagt var fyrir Sigurð dskj. nr. 3, sem er lögregluskýrsla af atvikinu og vísað var til þess að þar segi lögreglumaður, er ritaði skýrsluna, m.a. að hann hefði hitt hann áður. Sigurður kvaðst kannast við það. Vísað var til þess að í skýrslunni segir [bls. 5.]: „Við gáfum okkur á tal við mennina, Sigurð og Hilmar Örn, og spurðum við um ferðir þeirra.“ Sigurður kvað aðspurður Hilmar Örn vera kunningja sinni og hafa verið farþega í bifreiðinni umrætt sinn. Þá var vísað til þar sem í skýrslunni segir: „Ég veitti því athygli að nokkur kannabislykt var af drengjunum og inni í bifreiðinni. Einnig veitti ég því athygli að tóbakssverta var á vísifingri þeirra.“ Sigurður kvaðst ekki kannast við þetta. Rangt væri að tóbakssverta hefði verið á vísifingri hans. Hann kvaðst ekki reykja. Þetta kynni að hafa átt við Hilmar Örn. Þá var vísað til þess þar sem segir: „Sigurður og Hilmar viðurkenndu við okkur að þeir hefðu hugsanlega fengið sér í "haus" skömmu áður en við komum á vettvang en væru ekki með nein fíkniefni á sér nú.“ Sigurður kvaðst ekki kannast við þetta.
Sigurður kvaðst ekki hafa reykt hass eða kannabis áður en hann hóf akstur. Lögreglumaðurinn hafi aðallega talað við Hilmar þetta sinn. Vísað var til þess þar sem segir í skýrslunni: „Við kvöddum þá félaga og brýndi ég fyrir þeim að fara varlega og hélt stutta tölu um skaðsemi þess að neyta fíkniefna en virtist tala fyrir daufum eyrum af augnaráði þeirra að dæma.“ Sigurður kvaðst ekki kannast við þetta.
Eftir áreksturinn kvaðst Sigurður hafa verið í miklu „sjokki“ og ekki vitað hvað hann ætti að gera. Þeir hefðu stigið út úr bifreiðinni og hann skoðað hana en séð þá að lögreglubifreið var að koma að gatnamótunum sömu leið og þeir fóru. Hann hefði gert sér grein fyrir því að tjónið á bifreiðinni var mjög mikið. Lögreglubifreiðin hefði numið staðar á gatnamótunum. Þar hafi farið sömu lögreglumenn, karl og kona, sem hittu þá rétt áður. Maðurinn hefði stigið út úr lögreglubifreiðinni, mjög reiður, tekið í þá og sett þá aftur í [lögreglu]bifreiðina. Þar hefðu þeir verið þar til sjúkrabifreið kom. Sjúkraflutningamenn, sem þar voru á ferð, hefðu talað dágóða stund við lögreglumennina og einum þeirra hleypt inn í bifreiðina til að skoða þá, en þeir höfðu ekki slasast. Síðan hefði lögreglan farið með þá á lögreglustöðina til að tala við þá þar.
Er þeir komu þangað hafi strax verið farið með Hilmar annað og kvaðst Sigurður hafa beðið í anddyrinu dágóða stund og síðan verið færður inn í herbergi við hliðina. Læknir hefði skoðað hann og lagt fyrir hann próf [mat á ökuhæfni dskj. nr. 4]. Öndunar- og blóðsýni hefðu verið tekin.
Vísað var til þess að augu hans hefðu samkvæmt matinu verið blóðhlaupin. Sigurður kvaðst vera slæmur af ofnæmi, bæði fyrir dýrum og frjókornum. Væri hann því með krónískt kvef.
Vísað var til dskj. nr. 18, sem er lögregluskýrsla af Hilmar Erni Albertssyni hinn 10. október 2005, þar sem segir: „Ég, lögreglumaður 0234 ræddi við þig og Sigurð Aðalgeirsson á bifreiðastæði við Írabakka um 30 mínútum fyrir áreksturinn manstu af hvað tilefni ég ræddi við ykkur? Já að við værum að reykja.“ Sigurður sagði að þetta væri ekki satt. Hilmar hefði verið í mikilli neyslu. Þegar lögreglan kom að þeim í Breiðholti þá hafi hann verðið að koma úr skóla og að ná í Hilmar. Sjálfur kvaðst Sigurður ekki hafa reykt hass síðan um hádegi daginn áður.
Ingólfur Már Ingólfsson lögreglumaður gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að tilefni þess að hann lét taka blóðsýni úr Sigurðir Aðalgeirssyni hafi verið að greinilegt hefði verið að Sigurður var undir áhrifum fíkniefna, en hann hefði rætt við hann skömmu áður og ekki talið forsvaranlegt annað en að taka af honum blóð og í kjölfarið að fá héraðslækni til að skoða Sigurð. Hann hafi farið fram á að tekið yrði blóð ef svo færi að málið færi fyrir dóm eða frekari rannsóknar væri þörf. Á vettvangi hafi þau [hann og Þuríður Björg Kristjánsdóttir lögreglumaður] metið það svo. Þau hefðu séð ástand ökumanns og farþega áður, þar sem þeir voru nýstignir inn í bifreið og höfðu komið gangandi ofan hæð fyrir ofan Bakkana í Breiðholti. Á því hefðu þau byggt þegar þau handtóku þá síðar á vettvangi.
Ingólfur sagði að honum hefði virst þeir báðir [Sigurður og Hilmar] hálfdofnir í samskiptum og það hafi ekki farið fram hjá honum vegna reynslu í starfi að þeir hefðu ilmað eins og Blómaval í desember, greniilmur af þeim, lykt sem hann þekki vel. Augasteinar hefðu verið þandir og þeir voteygðir sem væru þekkt einkenni.
Vísað var til dskj. nr. 3, sem áður er getið, og spurt var hvort hann legði að jöfnu, annars vegar ökumann og hins vegar farþegann. Ingólfur sagði að það hafi hann gert á þeim tíma sem hann hafði afskipti af þeim í fyrra skiptið. Ekki hafi þá verið fært að saka þá um að hafa að ekið bifreiðinni [undir áhrifum fíkniefna]. Í Bökkunum í Breiðholti hafi samskipti hans aðallega verið við Sigurð, sem sat undir stýri. Bifreiðin hafi ekki verið í gangi og engin merki um að þeir væru að leggja af stað. Þeir hefðu ekkert unnið til saka skv. umferðarlögum.
Vísað var til dskj. nr. 3, þar sem segir: „Sigurður og Hilmar viðurkenndu við okkur að þeir hefðu hugsanlega fengið sér í "haus" skömmu áður en við komum á vettvang en væru ekki með nein fíkniefni á sér nú.“ Ingólfur kvaðst kannast við þetta. Hann hefði ályktað að þeir hefðu verið að reykja hass og gert þeim grein fyrir að þeir mættu ekki aka bifreiðinni.
Þuríður Björg Kristjánsdóttir lögreglumaður gaf skýrslu fyrir rétti. Hún sagði m.a. að korteri eða tuttugu mínútum áður en umferðaróhappið varð þá hafi þau [hún og Ingólfur Már] haft afskipti af Sigurði við Írabakka. Þau hafi séð bifreiðina þar mannlausa og síðan séð tvo drengi koma gangandi niður að bifreiðinni úr skóginum fyrir ofan. Þau hafi snúið við til að kanna málið og tala við þá. Þegar að var komið hafi þau fundið kannabislykt af þeim. Annar þeirra var kominn inn í bílinn farþegamegin, en hinn á leiðinni inn og ekki búið að ræsa bifreiðina. Þau hefðu talað við þá og spurt þá hvort þeir hefðu verið að neyta kannabisefna. Þeir hefðu hvorki svarað því játandi né neitandi heldur sagt hugsanlega eða kannski, en mikil kannabislykt var þar. Þau hefðu fengið leyfi til að leita í bílnum og leita á þeim en ekkert saknæmt fundið. Félagi hennar hefði rætt við þá og brýnt fyrir þeim að akstur undir áhrifum fíkniefna væri bönnuð, ekki væri skynsamlegt fyrir þá að aka, líða þyrfti nokkur tími áður. Þeir hefðu samþykkt það. Hafi þau þá haldið sína leið. Korteri eða tuttugu mínútum síðar hafi þeim borist tilkynning um umferðaróhapp á Sæbraut við Dugguvog. Þegar þau komu þar þá hafi þau séð að áðurgreind bifreið, SH720, var ein af þremur bifreiðum er lent höfðu í umferðaróhappinu. Þar sem þau höfðu áður haft afskipti af ökumanni og farþega vegna gruns um fíkniefnaneyslu þá hafi þeir verið handteknir og færðir á lögreglustöðina.
Jakob Líndal Kristinsson gaf skýrslu fyrir rétti. Lagt var fyrir Jakob dskj. nr. 20, sem er myndrit af matsgerð, dags. 2. desember 2005, sem hann og Guðlaug Þórsdóttir læknir undirrita f.h. Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði hjá Háskóla Íslands. Jakob staðfesti að hafa ritað undir matsgerðina. Hann sagði m.a. að hann hefði talið að gera hefði mátt ráð fyrir að hlutaðeigandi aðili hefði ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti vegna þess að í umferðalögum segi að sá sem hefur 0,5 vínandamagn í blóðinu geti ekki stjórnað bifreið með öruggum hætti. Það sé það eina sem unnt sé að miða við þar sem engin önnur viðurkennd alþjóðleg viðmiðun sé um hvenær maður geti ekið bifreið með öruggum hætti. Hér sé miðað við 0,5 , í sumum löndum væri miðað við 0,8 , en í Noregi og Svíþjóð væri miðað við 0,2 . Með því að styðjast við erlendar rannsóknir megi ganga út frá því að 0,5 af vínanda samsvari einhvers staðar á milli 3 til 4 ng/ml af plasma því að þær rannsóknir hafi verið gerðar í plasma. Það samsvari aftur á móti 1,8 upp í 2,5 ng í blóði. Að teknu tilliti til óvissuþátta þá hafi verið talið að 4,7 ng/ml af tetrahýdrókannabínóli í blóði séu meira heldur en 0,5 af vínanda.
Lagt var fyrir Jakob dskj. nr. 26, sem er myndrit af beiðni um lyfjarannsókn, dags. 10. október 2005. Spurt var hvort efni skjalsins hefði haft áhrif á rannsóknina. Jakob kvað svo ekki hafa verið.
Lagt var fyrir Jakob dskj. nr. 4, sem áður var getið. Vísað var til að læknirinn hefði lýst Sigurð Aðalgeirsson hæfan til aksturs og hafi læknirinn skoðað Sigurð á umræddum tíma. Spurt var hvort niðurstaða læknisins kynni að vera rétt. Jakob sagði að það færi eftir við hvað væri miðað. Miðað við umferðarlögin þá teldi hann yfirgnæfandi líkur á að svo hafi ekki verið. Sigurður hefði verið undir meiri áhrifum en samsvaraði áhrifum 0,5 af vínanda.
Þorkell Jóhannesson gaf skýrslu fyrir rétti. Lagt var fyrir Þorkel dskj. nr. 24, sem er matsgerð Þorkels í málinu, en hann var dómkvaddur til að svara ákveðnum fimm spurningum lögmanns stefnda hinn 30. maí 2007. Matsgerðin er dagsett 20. september 2007. Þorkell staðfesti að hafa unnið þessa matsgerð. Hann sagði m.a. að hann hefði ekki hitt Sigurð Aðalgeirsson.
Lögmaður stefnanda spurði hvort hann gerði greinarmun á því hver ökuhæfni manna almennt væri, hvort hún væri misjöfn milli manna af líkamlegum ástæðum, hvort menn þyldu með misjöfnum hætti efni, hvort heldur það væri vínandi eða önnur vímuefni. Þorkell kvaðst halda að svarið við því væri já, en það sem skipti meira máli væri að þol manna væri mismunandi við mismunandi kringumstæður, þ.e. hvort menn væru vel vakandi, syfjaðir, þreyttir eða ekki. Lögmaðurinn spurði hvort litið væri til slíkra þátta í matsgerð hans. Þorkell kvaðst hafa reynt að kynna sér gögn málsins og hafi hann ekki talið sér fært að reyna að meta það út frá þeim gögnum sem hann hafði.
Lögmaður stefnanda vísaði til matsgerðar Þorkels þar sem segir á bls. 2: „Af matinu má að öðru leyti einkum ráða tvennt: Maðurinn hefur í fyrsta lagi ekki verið í vímu af völdum kannabis, áfengis eða annarra vímugjafa (eðlileg meðvitund, hegðun, minni, tal og framburður og athygli). Maðurinn hefur í öðru lagi að líkindum verið undir einhverjum áhrifum kannabis ( blóðhlaupin augu, hraður hjartsláttur og truflað tímaskyn). Lögmaðurinn spurði hvort blóðhlaupin augu, hraður hjartsláttur og truflað tímaskyn gætu ekki stafað frá einhverju öðru en „inntöku með einhverjum hætti. “ Þorkell sagði að það væri hugsanlegt. Hann hafi hins vegar stuðst við skýrslu lækningaforstjórans og lesið út úr mati hans þegar hann skoðaði manninn. Einkennin hefðu passað við kannabis þó hugsanlega gætu þau passað við annað.
Lögmaður stefnanda vísaði þá til matsgerðar Þorkels þar sem segir á bls. 3: „Undirritaður tekur því samkvæmt framansögðu undir álit Rannsóknastofunnar og telur líkur vera á þann veg, að hæfni mannsins til þess að stjórna vélknúnu ökutæki hefi verið skert, þegar sýnið var tekið.“ Lögmaðurinn spurði hvort einhver sérstök athugun hefði farið fram af hálfu Þorkels þar sem þarna væri fjallað um hæfni mannsins til að stjórna vélknúnu ökutæki. Þorkell kvað svo ekki hafa verið, en það sem legið hefði til grundvallar væri það, sem áður var rakið í matsgerðinni, að óyggjandi væri að menn sem eru með THC í blóði, eins og hér um ræðir, hafi lent í banaslysum vegna aksturs. Með öðrum orðum væru heimildir fyrir því að menn, sem höfðu þetta magn í blóði, hefðu lent í bílslysum og það alvarlegum.
Hallur Jónasson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði verið í þriðju bifreið, er tók af stað í Súðarvogi frá umferðaljósunum á gatnamótum Súðarvogs og Sæbrautar [þegar umrætt umferðaróhapp varð]. Fyrsta bifreið fyrir framan hafi tekið af stað fram hjá ljósunum og næstu tvær bifreiðar á eftir. Nokkurt bil hefði verið á milli fyrstu og annarrar bifreiðar og um leið og hann var að fara af stað [þriðja bifreiðin] þá hafi bifreið verið ekið Sæbrautina yfir gatnamótin „í bremsu“ og rekist á afturhluta fyrstu bifreiðarinnar [er ók frá Súðarvogi til vinstri] og síðan á sendibifreið, er ekið hafði aðra akreinina til hægri á Súðarvogi og stefndi norður Sæbrautina. Bifreiðinni, sem ekið var norður Sæbrautina yfir gatnamótin, hafi augljóslega verið ekið gegn rauðu ljósi á gatnamótunum. Hallur sagði að umræddri bifreið hefði verið ekið á miklum hraða en verið í bremsu, þegar hún fór yfir gatnamótin, en aðrar bifreiðar, sem voru að koma norður Sæbrautina, hafi verið stopp þegar þetta gerðist. Umræddri bifreið hefði verið beygt til að aka ekki aftan á bíl á Sæbrautinni og yfir gatnamótin, en þá hefði fyrsta bifreiðin frá Súðarvogi verið komin það langt að ekið var á afturhluta hennar.
Hallur lýsti því að tvær akreinar væru í hvora átt á Sæbraut. Umrædd bifreið hefði verið ekið á vinstri akrein til norðurs fram hjá bifreið, sem stöðvuð var á hægri akrein til norðurs á Sæbrautinni [vegna stöðvunarmerkis umferðarljósa á gatnamótum Sæbrautar og Súðarvogs].
Aðalgeir Gíslason gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði haft forgöngu um það að láta gera við bifreiðina SH720. Lagt var fyrir Aðalgeir dskj. nr. 9, sem er samantekt um vinnu og efniskostnað viðgerðar á bifreiðinni SH720, og dskj. nr. 27, sem er reikningur Toyota Kópavogi, dags. 13. desember 2007.
Aðalgeir kvað bifreiðina SH720 hafa verið óökufæra eftir umferðaróhappið, en fyrirtækið Krókur hefði tekið hana í geymslu. Lagt var fyrir Aðalgeir dskj. nr. 8, sem er reikningur Króks, dags. 13. mars 2006, samtals að fjárhæð 70.300 kr., en þar af er kostnaður vegna geymslu að fjárhæð 60.299,87 kr. Vísað var til þess að reikningurinn bæri það með sér að bifreiðin hefði verið 67 daga í geymslu hjá Krók og spurt var hvers vegna svo hefði verið. Aðalgeir sagði að ekki hefði legið ljóst fyrir, og ekki komið niðurstaða frá stefnda, hver bótaskyldan var, svör hefðu ekki borist, geymslukostnaður hefði orðið vegna þess. Eftir 67 daga hafi bifreiðin verið leyst út þegar niðurstaðan varð að stefndi taldi sig ekki bótaskyldan. Bifreiðin hefði verið færð á verkstæði og hann fengið vini og starfsmenn til að hjálpa sér. Vísað var til dskj. nr. 9, þar sem segir að komudagur hafi verið 16. desember 2005, og spurt var hver væri Jóhann Þór Halldórsson, sem þar segir að hafi skoðað bifreiðina. Aðalgeir sagði að hann væri tjónamatsmaður hjá stefnda. Vísað var til að nafnið Ásgeir Stefán Sigurðsson stæði neðarlega á 1. síðu dskj. nr. 9, og spurt var hver það væri. Aðalgeir sagði að hann hefði verið einn af matsmönnum á þessum tíma. Spurt var hvað orðið WinCABAS, er þar stendur, merki. Aðalgeir sagði að það væri tjónamatskerfi að uppruna frá Svíþjóð, sem tryggingafélögin vinni með ásamt viðurkenndum verkstæðum. Þetta mat hefði verið gert á grundvelli tjóns á bifreiðinni. Menn frá stefnda hefðu séð þetta mat án þess að gerðar hefðu verið athugsemdir, en gangurinn væri þannig, þegar að bifreiðar yrði fyrir umferðaróhappi og væru óökufærar tækju Krókur eða Vaka þær og beðið væri eftir niðurstöðu um hver væri bótaskyldur. Þegar bifreiðin væri komin á verkstæði þá væri hún metin eftir áðurgreindu kerfi og matið sent til viðkomandi tryggingafélags. Þar væri ákvörðun tekin um hvort gert yrði við bifreiðina eða hún greidd út en það færi eftir umfangi tjóns í hvert sinn.
Vísað var til dskj. nr. 27, sem áður var getið, og spurt var hvort þar væri greint frá varahlutum sem keyptir hefðu verið í bifreiðina SH720. Aðalgeir sagði að þar væri greint frá varahlutum sem fóru í viðgerð bifreiðarinnar. Búið væri að gera upp bifreiðina án andmæla frá stefnda.
Lögmaður stefnanda vísaði til dskj. nr. 9, sem áður var getið, og sagði að í dag hefði verið fallið frá virðisaukaskatti og bað Aðalgeir að lýsa hvernig viðgerðin hefði farið fram. Aðalgeir sagði að varahlutir hefðu verið keyptir. Síðan hefði hann fengið samstarfsaðila og félaga til að koma bifreiðinni á götuna aftur. Vinnan væri ógreidd. Þörf væri að greiða fyrir vinnuna og tjónið því staðreynd.
Aðalgeir sagði að stefnandi ætti bifreiðina en hún væri eiginkona hans.
Hilmar Antonsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði ekið sendiferðabifreið, VT413, fimm tonna bifreið, þegar umferðaróhappið varð. Hefði hann beðið á ljósunum á enda Súðarvogs við Sæbraut. Bifreið hafi verið samsíða honum [á vinstri hönd]. Þegar græna ljósið kom hafi þeir ekið af stað. Hafi hann beygt til hægri [frá Súðarvogi] norður Sæbrautina. Bifreiðin, sem hafði staðið samsíða honum, hafi farið fram hjá mörkum [á milli akreina Sæbrautar frá suðri annars vegar og norðri hins vegar]. Hafi hann ekki vitað fyrr til en bifreið hans hentist til rétt eftir að hann hafði beygt að nokkru inn á Sæbrautina [til norðurs]. Þá hafi bifreið, sem kom norður Sæbrautina, verið búin að aka á bifreiðina, sem áður hafði beðið samsíða honum á ljósunum á enda Súðarvogs við Sæbraut, og snúa þeirri bifreið, en hefði síðan lent á bifreið hans eftir það.
Hilmar sagði að höggið hefði verið mikið þegar ekið var á bifreið hans, bifreiðin hefði kastast til og legið við að hann skylli í rúðuna. Hann hefði þó ekki meiðst við áreksturinn.
Kolbeinn Sigurjónsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði ekið bifreið fyrirtækisins, er hann lenti í umræddu umferðaróhappi á gatnamótum Súðarvogs og Sæbrautar. Hann hafi verið þar staddur á gatnamótunum samhliða sendiferðabifreið, sem stóð hægra megin við hann. Þegar grænt ljós kom hafi þeir farið yfir gatnamótin og þegar hann hafi verið kominn svona hálfa leið út á götuna fram hjá bifreiðum, sem stoppað höfðu á rauðu ljósi, þá hafi allt í einu komið bifreið á vinstri akrein og keyrt inn í hlið bifreiðar hans og snúið henni í hálfhring og síðan ekið á sendiferðabifreiðina sem einnig var komin inn á Sæbrautina.
Lúðvík Ólafsson lækningaforstjóri gaf skýrslu fyrir rétti. Lagt var fyrir Lúðvík dskj. nr. 4 og 19, sem er mat Lúðvíks á ökuhæfni Sigurðar Aðalgeirssonar, sem gert var í Lögreglustöðinni við Hverfisgötu hinn 10. október 2005, kl. 17:40. Lúðvík staðfesti að hafa unnið þetta mat. Hann sagði m.a. að hann hefði skráð þá sögu, gert þau próf sem þarna komi fram. Byggt væri á norsku formi sem þýtt hafi verið á íslensku. Það færi hins vegar eftir ákvörðun lögreglunnar hvor hann tæki blóðsýni, en það hafi verið gert í þetta skipti. Á skjalinu [eða skjölunum] komi fram ákveðnar upplýsingar, sem hann hafi haft frá Sigurði og á annan hátt. Meðal annars hefði Sigurður upplýst að hann hefði notað kannabis kvöldið áður, en noti vímugjafa sjaldnar en daglega, hass tvisvar eða þrisvar í viku.
Lúðvík kvaðst hafa athugað meðvitund Sigurðar og áttan á stað með ákveðnum spurningum um tímasetningu að degi til, hvaða dagur væri, hvaða ár o.s.frv., sbr. dskj. nr. 19, en þar segir:
Til skýringar á liðnum frádráttur þar sem hann gerir fáein mistök þá endurtók sig sams konar mistök hjá honum allan tímann, þ.e.a.s. þegar 7 var dregið frá tölu sem endaði á 9, endaði næsta tala ætíð á þremur. Þetta var frekar kerfisfeill heldur en reikningsskekkja. Áttan á stund þá virðist hann vera að hluta áttaður, en hann telur vera 8. október, veit að það er mánudagur og telur klst. vera um kl. 16:00, en er reyndar langt gengin í 18:00. Augu voru miðlungs blóðhlaupin en engin merki um áverka á þeim að sjá.
Lúðvík kvaðst hafa samkvæmt forminu sýnt Sigurði fimm hluti og spurt hann eftir tvær mínútur hvaða hlutir þetta hafi verið og hafi hann munað þá. Hann hafi lagt mat á húð í andliti og svipbrigði og lykt úr vitum og augun, sem hefðu verið svolítið blóðhlaupin, ljósopin hefðu verið eðlileg og birtuviðbragð eðlilegt og augnhreyfingar eðlilegar. Púls hjá honum hefði verið hraður, 100 á mínútu, tímaskyn hefði verið innan eðlilegra marka. Sigurður hefði gengið beint og snúið sér örugglega, svokallaðan Romberg á öðrum fæti, örugglega, leyst fingur-nefpróf örugglega, hafði vægan skjálfta í höndum, hegðun Sigurðar hafi verið eðlileg, framburður skýr og hann hefði ekki farið með rugl, athyglin góð, ekki hafi þurft að endurtaka fyrirskipanir til hans, þá hafi samvinna við hann verið góð.
Lúðvík sagði að þau atriði, sem mætti telja óeðlileg, gæfu ekki tilefni til að segja eða úrskurða Sigurð óhæfan til aksturs, þ.e. blóðhlaupin augu, hraður púls og vægur skjálfti.
Lögmaður stefnanda vísaði til dskj. nr. 5, sem er myndrit af vottorði frá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 2. nóvember 2005, og varðar alkóhólákvörðun í blóði með gasgreiningu á súlu í blóðsýni nr. 35127 sem sýnir að ekkert alkóhól er í blóðsýni þessu. Þá vísaði hann til dskj. nr. 20, sem áður var getið [matsgerð frá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 2. desember 2005]. Jafnframt vísaði hann til dskj. nr. 24, sem er matsgerð dr. Þorkels Jóhannessonar er áður var getið, og benti á þar sem segir á bls. 2: „Mat Lúðvíks er fagmannlega gert, þótt það eigi greinilega fyrst og fremst við verkanir etanóls (áfengis). Í matið vantar þannig könnun á fyrrgreindum augnhreyfingum, sem oft truflast eftir neyslu kannabis.“ Lögmaðurinn tók fram að Lúðvík hefði lýst því yfir að hann hefði gert könnun á þessum augnhreyfingum. Lúðvík sagði að svo hefði verið. Það fylgdi sérstaklega könnun á Nystagmus.
Lögmaður stefnanda vísaði síðan til þess sem segir á bls. 2 í matsgerð dr. Þorkels: „Af matinu má að öðru leyti einkum ráða tvennt: Maðurinn hefur í fyrsta lagi ekki verið í vímu af völdum kannabis, áfengis eða annarra vímugjafa ... .Maðurinn hefur í öðru lagi að líkindum verið undir einhverjum áhrifum kannabis (blóðhlaupin augu, hraður hjartsláttur og truflað tímaskyn ...“ Lögmaðurinn spurði hvort aðrar ástæður en vímuefni eða annað geti valdið slíkum truflunum ef um truflun væri að ræða. Lúðvík sagði að þegar hann hafi gert skýrslu sína [mat á ökuhæfni Sigurðar] þá hafi það fyrst og fremst verið til að sjá status Sigurðar, þegar skoðun fór fram, ekki að túlka hvað valdið hefði einkennum er að baki búa; vissulega geti ofnæmi valdið blóðhlaupnum augum, blóðhlaupin augu og hraður hjartsláttur gæti orsakast af öðru en vímuefnum. Hann viti ekki hver sé normal hjartslátt þeirra sem hann skoðar.
Vísað var til dskj. nr. 20, sem áður var getið, og bent á að 4,7 ng/ml hafi verið í blóði Sigurðar og spurt var, hvort Lúðvík teldi Sigurð, með þetta magn af þessu tiltekna efni í blóði, hæfan til aksturs. Lúðvík kvaðst ekki geta svarað þessari spurningu. Hann væri ekkert inni í því hvað magn þurfi að vera af tetrahýdrókannabínóli, eða slíkum efnum, í blóði til að valda truflun á hæfni manna. Þá var spurt hvort Lúðvík teldi mann með 0,5 af vínanda í blóði hæfan til að aka bifreið. Lúðvík sagði að hann væri ekki tilbúinn að fara út fyrir sitt svið, þetta væri ákvörðun löggjafans að setja þessi mörk. Hann kvaðst ekki gera neinar sérstakar athugsemdir við það. Í sínu starfi væri hann ekki að reyna að komast að raun um hversu mikið magn af hinum og þessum efnum væru í fólki, heldur drægi hann ályktun út frá skoðun sinni á viðkomandi, hvort líkur væri á því að hann gæti ekki stjórnað vélknúnu ökutæki. Hann kvaðst ekki fyrir réttinum vilja taka afstöðu til fræðilegra spurninga af þessu tagi.
Þá var Lúðvík spurður hvort hann þekkti sem læknir áhrif umrædds efnis á ökuhæfni almennt. Hann kvaðst eitthvað vita um það, en það hefði ekki áhrif á mat hans hvort hann þekkti það eða ekki. Mat hans gangi ekki út á annað en það að greina hvort viðkomandi getur, miðað við skoðun eftir viðurkenndum aðferðum, stjórnað ökutæki. Með skoðuninni væri ekki reynt að finna út hvers vegna á því stæði. Fyrir því gætu verið margar ástæður, bæði neysla lyfja og sjúkdómar.
Spurt var hvaða áhrif umrætt efni hefði almennt á ökuhæfni. Lúðvík kvaðst ekki vera tilbúinn að tjá sig um það. Hann kvaðst þekkja sum áhrif efnisins, en hann sjái ekki ástæðu til að lýsa þeim fyrir réttinum. Hann hefði ekki verið kallaður fyrir réttinn til þess.
Spurt var hvort honum væri kunnugt um rannsóknir sem gerðar hefðu verið á langtíma áhrifum kannabis á ökuhæfni flugmanna. Hann kvaðst ekki þekkja þær.
Ályktunarorð: Af framburði vitna af umræddu umferðaróhappi á gatnamótum Sæbrautar og Súðarvogs, hinn 10. október 2005, verður ráðið að ökumaður bifreiðar stefnanda hafi ekki virt umferðarljósmerki um að nema staðar á gatnamótunum. Þá verður ráðið af frásögn þeirra að ökuhraði bifreiðarinnar hafi verið meiri en svo að ökumaðurinn hefði fullt vald á henni, en áreksturinn var harður, eins og gögn málsins um tjón á tveimur af þremur viðkomandi bifreiðum bera einnig vott um.
Upplýst er að tetrahýdrókannabínól (kannabis) mældist í blóðsýni ökumannsins, sem tekið var skömmu eftir umferðaróhappið. Samkvæmt áliti sérfræðinga hjá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði benti styrkur efnisins til þess að hann hefði verið undir slævandi áhrifum. Gera megi ráð fyrir að hann hafi af þeim sökum ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti. Þegar sýnið var tekið, hafi hæfni ökumannsins til þess að stjórna vélknúnu ökutæki verið meira skert, en áhrif af 0,5 vínandamagni í blóði manns valdi að jafnaði.
Samkvæmt tryggingarskilmálum aðila bætir stefndi ekki tjón sem verða kann á ökutæki stefnanda með þeim hætti eða við þær aðstæður m.a. að tjónið verði rakið til ásetnings eða stórkostlegs gáleysis ökumanns. Þá segir í skilmálum að tryggingarfélagið bæti ekki tjón þegar ökumaður, vegna undanfarandi neyslu örvandi eða deyfandi lyfja, telst ekki geta stjórnað ökutækinu eða vera óhæfur til þess skv. ákvæðum umferðarlaga.
Telja verður að stórkostlegt gáleysi Sigurðar Aðalgeirssonar, ökumanns bifreiðar stefnanda, hafi valdið tjóni stefnanda umrætt sinn, en skömmu áður en umferðaróhappið varð hafði lögreglumaður bent honum á að akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna væri með öllu óheimill.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum er rétt að málskostnaður falli niður.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Bryndísar Sigurðardóttur.
Málskostnaður fellur niður.