Hæstiréttur íslands

Mál nr. 212/2001


Lykilorð

  • Börn
  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. október 2001.

Nr. 212/2001.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

 

Börn. Kynferðisbrot. Skaðabætur. Sératkvæði.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni A. Rannsóknarviðtal var tekið við A undir stjórn lögreglu áður en 2. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 var breytt í núgildandi horf, sbr. 16. gr. laga nr. 36/1999. Var myndband af viðtalinu sýnt við aðalmeðferð málsins í héraði en jafnframt kom A fyrir héraðsdóm og var það viðtal við hana undir stjórn dómsformanns en þá vildi hún lítið tjá sig. Skoðun lækna útilokaði ekki að A hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og við úrlausn málsins var litið til þess að héraðsdómur, sem skipaður var tveimur embættisdómurum og sálfræðingi, hafði ekki talið varhugavert að leggja framburð stúlkunnar til grundvallar um sekt X. Dómendur Hæstaréttar höfðu og skoðað umrædd myndbönd. Var ekki talið andstætt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 að líta til beggja viðtalanna við sönnunarmat málsins. Þegar þau voru virt, ásamt gögnum málsins í heild þótti hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefði gerst brotlegur gagnvart A. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi sæta 8 mánaða fangelsi og greiða A 400.000 krónur í skaðabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. júní 2001. Krefst ákæruvaldið staðfestingar á sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu og greiðslu skaðabóta eins og krafist er í ákæru.

Ákærði krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann ómerkingar héraðsdóms, en til þrautavara, að refsing verði milduð, hún skilorðsbundin og dæmdar skaðabætur lækkaðar.

I.

Ómerkingarkrafa af hálfu ákærða er á því reist, auk þess sem skírskotað er til 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að í héraðsdómi sé byggt á framburði stúlkunnar A í öðru dómsmáli. Einnig hafi hún neitað að tjá sig fyrir dómi um sakarefnið. Þá skorti á sálfræðilegar athuganir bæði á stúlkunni og ákærða.

Eins og fram kemur í héraðsdómi voru lögð fram í máli þessu gögn úr máli, sem höfðað var á hendur bróður stúlkunnar fyrir kynferðisbrot gagnvart henni eftir að ætluðu atferli ákærða lauk. Ekki verður annað séð en að þessi gögn hafi verið lögð fram án athugasemda af hálfu verjanda ákærða. Þykir það og hafa verið nauðsynlegt varnarinnar vegna að þau lægju fyrir við meðferð málsins til að unnt yrði að ganga úr skugga um, hvort stúlkan gerði skýran greinarmun á þeim tveimur málum, sem hér um ræðir. Var héraðsdómurum nauðsynlegt að leggja mat á þetta atriði.

A kom fyrir dóm tæpum tveimur árum eftir að rannsóknarviðtal var tekið við hana í Barnahúsi, en það lá fyrir á myndbandi.  Um framburð hennar fyrir dóminum var fjallað í sönnunarmati héraðsdóms. Þótt hún hafi verið ófús til að tjá sig að ráði um það, sem hún hafði áður skýrt frá í fyrrnefndu viðtali, getur það ekki leitt til ómerkingar dómsins.

Fyrir liggur í málinu skýrsla geðlæknis um rannsókn á ákærða, sem gerð er grein fyrir í héraðsdómi. Fram kom hjá geðlækninum fyrir dómi, að vegna erfiðleika í samstarfi við ákærða hafi hann aldrei komið til viðtals hjá sálfræðingi, eins og ætlunin hafi verið. Af þessum sökum varð rannsókn á geðhögum ákærða ekki eins fullkomin og að var stefnt. Það þykir þó ekki hafa staðið því í vegi að efnislegur dómur yrði lagður á málið.

Um stúlkuna lágu fyrir héraðsdómi skýrsla Barnahúss um greiningu og meðferð hennar þar og skýrsla sálfræðings um hana, sem gerð var eftir að upp kom að bróðir hennar hefði misnotað hana kynferðislega.

Að öllu þessu athuguðu þykja ekki efni til að taka ómerkingarkröfu verjanda ákærða til greina.

II.

Hinn 29. desember 1998 tók forstöðumaður Barnahúss rannsóknarviðtal við A undir stjórn lögreglunnar en þar voru mættir auk lögreglumanns fulltrúi ákæruvalds, skipaður talsmaður ákærða og starfsmaður barnaverndaryfirvalda. Stúlkan var tæplega sjö ára gömul er viðtalið fór fram. Var það tekið upp á myndband. Á þessum tíma hafði ákærða ekki verið kynnt kæra málsins. Viðtalið var tekið áður en 2. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 var breytt í núgildandi horf, sbr. 16. gr. laga nr. 36/1999. Í héraðsdómi er greint frá því, sem fram kom í rannsóknarviðtalinu. Við aðalmeðferð málsins í héraði 28. september 2000 var myndband af því sýnt. Jafnframt kom stúlkan fyrir dóminn þannig að viðtal var tekið við hana í sérstöku yfirheyrsluherbergi í Héraðsdómi Reykjavíkur og annaðist forstöðumaður Barnahúss það sem fyrr, en nú undir stjórn dómsformanns. Eins og fram kemur í héraðsdómi vildi stúlkan þá að mjög takmörkuðu leyti tjá sig um atferli ákærða, en þó sagðist hún engu hafa gleymt. Kvaðst hún reyna að gleyma málinu, en það gengi ekki og liði henni þá illa. Vildi hún þess vegna ekki segja frá þessu. Fram kom fyrir dómi hjá vitninu Rögnu Björgu Guðbrandsdóttur félagsráðgjafa, sem hafði A til meðferðar og greiningar í Barnahúsi, að stúlkan hefði við meðferðina fengið þau skilaboð að hún væri búin að tala um þetta og þyrfti ekki að gera það oftar. Liði henni illa þegar hún ræddi þetta og stjórnaði því sjálf, hvenær hún gerði það.

Í héraðsdómi er greint frá vottorði Jóns R. Kristinssonar barnalæknis og Þóru F. Fischer kvensjúkdómalæknis 15. janúar 1999 um skoðun á A. Kom þar fram, að við skoðunina hafi ytri kynfæri hennar virst eðlileg, meyjarhaft heilt og engin merki um áverka. Segir og að skoðun útiloki þó ekki að stúlkan hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Er Þóra F. Fischer kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins sagði hún að það gæti komið heim og saman við frásögn stúlkunnar að innþrenging hefði átt sér stað milli rasskinna eða á svæðið fyrir framan leggöngin. Slíkt geti átt sér stað hvað eftir annað án þess að nokkur merki væru sjáanleg nema skoðun færi fram innan viku.

Héraðsdómur, sem skipaður var tveimur embættisdómurum og sálfræðingi, hefur lagt mat á frásagnir stúlkunnar í báðum framangreindum viðtölum, eins og nánar er lýst í niðurstöðu dómsins. Dómendur Hæstaréttar hafa og skoðað umrædd myndbönd. Líta verður til þess að stúlkan kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins í héraði og tjáði sig með þeim hætti, sem áður er lýst. Eins og hér stendur á og með hliðsjón af 2. og 3. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 verður það ekki talið andstætt 1. mgr. sömu greinar að líta til beggja viðtalanna við sönnunarmat málsins. Þegar þau eru virt ásamt gögnum málsins í heild, þar á meðal framburði Rögnu Bjargar Guðbrandsdóttur félagsráðgjafa og þeirra, sem stúlkan greindi fyrst frá ætlaðri háttsemi ákærða og héraðsdómur hefur metið trúverðugan, þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst brotlegur gagnvart stúlkunni eins og lýst er í ákæru.

Að þessu athuguðu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Dæma ber ákærða til greiðslu áfrýjunarkostnaðar, eins og í dómsorði greinir.

                                                         Dómsorð:

        Héraðsdómur skal vera óraskaður.

        Ákærði, X, greiði áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin  málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

Sératkvæði

Gunnlaugs Claessen

Fyrir liggur frásögn stúlkunnar, sem um ræðir í málinu, þess efnis að hún hafi mátt sæta kynferðislegri misnotkun af hálfu ákærða, sem er föðurbróðir hennar. Var tekið við hana rannsóknarviðtal í Barnahúsi 29. desember 1998, þar sem þessar ásakanir komu fram, en tveim dögum fyrr hafði hún trúað móður sinni og fleirum fyrir þeim. Hún hefur ekki horfið frá þeim síðar, en í skýrslutöku við aðalmeðferð málsins vildi hún ekki tjá sig um kynferðislega áreitni ákærða við sig umfram það, sem greinir í héraðsdómi. Ákærði neitar staðfestlega sök, en framburður hans og vitna er ítarlega rakinn í hinum áfrýjaða dómi.

Við mat á sönnun í málinu er til þess að líta að ári áður en mál þetta kom upp hlutaðist félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar til um að Þorgeir Magnússon sálfræðingur, tæki viðtöl við stúlkuna og móður hennar vegna grunsemda hinnar síðastnefndu um kynferðisbrot gagnvart stúlkunni. Er skýrsla sálfræðingsins dagsett 9. desember 1997. Segir þar meðal annars að móðirin hafi áhyggjur af því að henni finnist stúlkan vita of mikið um kynlíf. Viti hún þannig hvernig fólk hafi samfarir. Móðurinni sé einnig kunnugt um að dóttir hennar og drengur í nágrenninu, ári eldri, séu að leysa niður um sig þegar þau séu tvö ein að leika sér. Faðir stúlkunnar taki hana stundum til sín, en hann búi við erfiðar aðstæður með þrem fullorðnum bræðrum sínum. Aðstæður móður stúlkunnar væru erfiðar. Í skýrslu sálfræðingsins kom einnig fram að stúlkan segðist stundum hafa séð klámfengið myndefni í sjónvarpinu hjá föður sínum og lýst í því sambandi nöktu fólki af báðum kynjum, kynfærum og atlotum kynjanna. Hafi stúlkan jafnframt tjáð honum að hún og nágranni hennar á svipuðum aldri hafi stundum leyst niður um sig og drengurinn síðan lagst ofan á hana og þau leikið eftir samfarir fólks.

Samkvæmt því, sem að framan er rakið, er ljóst að þótt stúlkan hafi verið kornung á þessum tíma hefur hún séð og heyrt nóg til að geta lýst kynferðislegum athöfnum fólks. Sú aðstaða er því ekki fyrir hendi að unnt sé án fyrirvara að leggja til grundvallar að þekking hennar eða hugmyndir í áðurnefndu rannsóknarviðtali 29. desember 1998 um þessi efni, orðfæri um kynlíf og látbragð, sem hún kunni skil á, hljóti að byggjast á hennar eigin lífsreynslu í samskiptum við ákærða við kynferðislega misnotkun hans.

Fram er komið að um líkt leyti og áðurnefnt rannsóknarviðtal var tekið í lok árs 1998 hófst kynferðisleg misnotkun bróður stúlkunnar á henni, sem  átti sér ítrekað stað fram eftir ári 1999. Á þeim tíma fór stúlkan í fjölmörg viðtöl hjá sérhæfðum rannsakanda og félagsráðgjafa í Barnahúsi, þar sem hún endurtók ásakanir sínar á hendur ákærða. Hún gat þó í engu um háttsemi bróður síns fyrr en í viðtali 24. ágúst 1999. Játaði bróðir hennar að hafa misnotað systur sína kynferðislega og féll dómur í máli ákæruvaldsins gegn honum í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun árs 2000.

Í áðurnefndu rannsóknarviðtali í árslok 1998 skýrði stúlkan frá því að ákærði færi stundum og stundum ekki „inn í pjöllu og rassinn“. Hún hafi fundið til þegar hann hafi „farið með tippið inn“ í þessa líkamshluta. Í skýrslu Barnahúss um greiningu og meðferð á stúlkunni 22. september 2000 kom fram að stúlkan talaði mikið um ætlað kynferðislegt ofbeldi af hálfu ákærða og að hún hafi þá sagt að „það var svo vont að ég gæti öskrað.“

Varðandi þessa frásögn verður ekki komist hjá að virða læknisfræðileg gögn um stúlkuna, sem aflað hefur verið. Var gerð á henni læknisskoðun 6. janúar 1999, sem barnalæknir og kvensjúkdómalæknir önnuðust. Í niðurlagi vottorðs þeirra segir að ytri kynfærin virðist eðlileg, meyjarhaft heilt og að engin merki séu sjáanleg um gamlan eða nýlegan áverka. Sé þrenging getnaðarlims í leggöng stúlkunnar ólíkleg, en skoðun útiloki þó ekki að stúlkan hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Stúlkan var skoðuð að nýju 20. október 1999 af sömu læknum. Í niðurstöðu vottorðs þeirra segir að lögun meyjarhafts og ops sé óbreytt frá fyrri skoðun „og því vaginal innþrenging (penetration) ólíkleg. Fínlegar breytingar á æðamynstri og fínlegur áverki á meyjarhaftinu sjálfu, sem ekki var fyrir 9 mánuðum, gæti stutt sögu stúlkunnar um sleik og káf en ekki í gegnum hymen“. Annar læknanna, Þóra F. Fischer, gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti vottorðin. Kom jafnframt fram hjá henni að þótt meyjarhaftið væri órofið við síðari skoðunina væri samt „heilmikill munur á þessu svæði á milli þessara tveggja skoðana“. Kvaðst vitnið ekkert óeðlilegt hafa séð við fyrri skoðunina en breytingar, sem orðið hefðu fram að hinni síðari, gætu rennt stoðum undir lýsingar stúlkunnar á því hvernig bróðir hennar hafi borið sig að við kynferðislega misnotkun á stúlkunni.

Svo sem greinir í héraðsdómi var í þágu rannsóknar málsins sérstaklega athugaður svefnpoki á háalofti á heimili ákærða. Ekkert fannst við þá athugun sem styrkt getur sakargiftir á hendur honum. Það gerir heldur ekki umsögn í sálfræðiskýrslu Helga Viborg, sálfræðings 8. nóvember 1999 um viðtal við stúlkuna, sem um ræðir í málinu.

Ákærði neitar eindregið sök, svo sem áður er komið fram. Sakargiftir á hendur honum eru eingöngu studdar við frásögn ætlaðs brotaþola, en sitthvað er fram komið, svo sem rakið er að framan, sem gerir varhugavert að byggja á þeirri frásögn einni saman. Ekkert annað er fram komið í málinu, sem rennt getur stoðum undir sök ákærða. Að svo vöxnu máli tel ég að ekki verði hjá því komist að sýkna ákærða, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og leggja allan kostnað af rekstri málsins á ríkissjóð.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2000

                Ár 2000, mánudaginn 6. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Valtý Sigurðssyni, héraðsdómara, ásamt Álfheiði Steinþórsdóttur sálfræðingi og Hjördísi Hákonardóttur héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 1026/2000:  Ákæruvaldið gegn X, en málið var dómtekið 1. nóvember sl.

                Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 31. maí 2000 á hendur:

                X,

,,fyrir kynferðisbrot, með því að hafa, í nokkur skipti á árunum 1997 og 1998, þegar stúlkan A, fædd 1992, dvaldi um helgar hjá föður sínum, að […], sem var heimili hans og ákærða, snert kynfæri stúlkunnar og endaþarm með getnaðarlim sínum og látið hana fróa sér.

Telst þetta varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40, 1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakrafa:

Af hálfu A, er þess krafist, að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð kr. 600.000, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga frá 23.3.1999 til greiðsludags, og lögfræðikostnað að skaðlausu.”

Við aðalmeðferð krafðist sækjandi þess að ákærði yrði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu ákærða er gerð krafa um sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins.  Þá verði allur sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði.  Þess er krafist að ákærði verði sýknaður af bótakröfu málsins en til vara að henni verði vísað frá dómi eða hún lækkuð.

Mál þetta var þingfest 26. september sl.  Þá kom fram ósk frá verjanda um að leggja fram í málinu skjöl málsins S-295/1999: Ákæruvaldið gegn Y.  Í kjölfar þess fóru saksóknari og verjandi yfir gögn þess máls og lögðu fram nokkur skjöl.  Málið var tekið til dóms 10. október sl.  Þann 1. nóvember sl. ákvað dómurinn, á grundvelli 131. gr. laga nr. 19/1991, að endurupptaka málið til framhaldsmeðferðar og leggja fram öll rannsóknargögn áðurnefnds máls.  Málið var því næst flutt munnlega að nýju og dómtekið.

Málavextir.

Með bréfi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til lögreglunnar í Reykjavík, dagsettu 29. desember 1998, var óskað rannsóknar á því hvort brotið hefði verið kynferðislega á 6 ára stúlku, A, fæddri […] 1992.  Í skýrslunni kom fram að foreldrar stúlkunnar væru fráskildir og byggi hún hjá móður sinni.  Þar á heimili var einnig sambýlismaður móðurinnar, auk þess sem 15 ára bróðir stúlkunnar kæmi einu sinni í mánuði í heimsókn, en hann væri í tímabundnu fóstri annars staðar.  Stúlkan mun hafa heimsótt föður sinn reglulega, en hann býr ásamt þremur bræðra sinna að […].  Tilefni beiðninnar var sagt það að stúlkan hefði hinn 27. desember 1998 verið gestkomandi hjá vinkonu sinni og þá skýrt frá því að föðurbróðir hennar, ákærði í málinu, hefði áreitt hana kynferðislega.  Þar er jafnframt getið um það að starfsmaður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi rætt við stúlkuna að beiðni móður hennar, þar sem móðir hennar hafi um nokkurt skeið haft grun um að stúlkan hefði orðið fyrir kynferðisáreitni á heimili föðurins.  Beiðninni fylgdi skýrsla Þorgeirs Magnússonar sálfræðings, sem ræddi við stúlkuna.  Í þeirri skýrslu kom fram að Þorgeir hefði átt viðtal við stúlkuna 19. desember 1997 og 5. janúar 1998, auk þess að ræða við föðurinn þar sem hann var hvattur til þess að gæta þess að klámfengið myndefni væri ekki til sýnis á heimilinu meðan barnið væri þar í heimsókn. 

Miðvikudaginn 30. desember 1998 var ákærði handtekinn og færður til yfirheyrslu vegna málsins.  Þá var einnig óskað aðstoðar tæknideildar lögreglunnar til að taka ljósmyndir af meintum vettvangi.  Þegar komið var upp á skörina á háalofti yfir íbúðinni var þar útbreiddur svefnpoki.  Þá var hluti loftsins stúkaður af.  Þar fyrir innan var nokkurt magn af klámfengnum blaðaúrklippum og klámblöðum.  Einnig var þar að finna svefnpoka og sæng.  Í stofu var talsvert af myndböndum.  Lagði lögreglan hald á svefnpoka og sængina auk myndbanda.  Ekki fundust sæðisblettir í svefnpokanum.

Þann 29. desember 1998 tók Vigdís Erlendsdóttir, forstöðumaður Barnahúss, rannsóknarviðtal í Barnahúsi við stúlkuna.  Viðtalið fór fram undir stjórn Björgvins Björgvinssonar lögreglufulltrúa, en auk starfsmanna lögreglu voru mættir skipaður talsmaður kærða, starfsmaður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur og fulltrúi ákæruvalds.  Í viðtalinu segir stúlkan frá því að ákærði hafi stundum, þegar hún var í heimsókn hjá föður sínum og dvaldi þar, gert ,,svolítið ljótt” við hana og hefði ,,komið við” hana.  Það hafi verið ”svolítið mikið ljótt”.  Ekki mundi hún hvenær það hefði gerst fyrst, en taldi það langt síðan.  Atburðir þessir hefðu gerst ýmist uppi í rúmi ákærða eða uppi á háalofti, en þá oftar uppi í rúmi hans.  Einu sinni hafi þetta gerst uppi í rúmi föður hennar, en þá hafi faðir hennar verið að tala við einhverja konu sem var í vinnunni sinni.  Síðast þegar þetta gerðist hafi allir bræðurnir verið heima sofandi.  Stúlkan sagði að þegar þeir hefðu verið sofandi þá hefði ákærði gert þetta við hana uppi í hans rúmi, en þegar þeir voru vakandi hefðu þau verið uppi á háalofti. 

Stúlkan kvaðst stundum hafa verið í náttfötum eða náttkjól þegar þetta gerðist en stundum fullklædd.  Hún sagði að ákærði hefði stundum verið í nærbuxum eins og þegar hann sefur.  Aðspurð af hverju hún hafi verið uppi í rúmi ákærða segir stúlkan að hún hafi aldrei vitað hvað ákærði hafi farið að gera, en hann hafði sagt henni að koma upp í rúmið hans.  Hann hafi yfirleitt þá verið í fötum.

Í viðtalinu lýsir stúlkan því að ákærði yrði reiður ef einhver frétti af þessu: ,,Því þetta er leyndarmálið okkar.  Því ég vil ekki hafa þetta sem leyndarmálið mitt” eins og hún segir þar orðrétt.  Hafi ákærði sagt henni að hún mætti aldrei segja frá þessu.  Nánar aðspurð hvað ákærði gerði við hana sagði hún að það héti að ,,ríða”, en sé það ,,ef að fólkið liggur eitt kemur hitt ofan á.”  Hún lýsti því að stundum fari hann og stundum ekki ,,inn í pjöllu og rassinn.”  Hann hafi alltaf farið með tippið inn í þessa líkamshluta.  Hún hafi fundið til þegar hann hafi farið með tippið inn í hana, en mundi ekki eftir því að blætt hafi, en hún hefði séð tippið á honum og það hefði verið hart.  Ekki mundi hún hvort eitthvað hafi komið úr tippinu.  Aðspurð hvort ákærði segði eitthvað þegar þetta gerðist svarar hún að hann sussi á sig og segi henni að hún megi engum segja.

Aðspurð hvort einhver hljóð hefðu komið frá ákærða svaraði hún því til að það væri bara þegar hann andaði.  Í viðtalinu lýsir hún þessu með látbragði og andar þá djúpt og ört með nefinu.  Taldi hún ákærða anda öðruvísi þegar hann væri vakandi. 

Stúlkan skýrði frá því að hún hefði séð myndir í sjónvarpinu á heimili föðurins og talar um konu í baði sem verið sé að hella bjór yfir.

Aðspurð segir stúlkan að hinir bræðurnir sofi stundum á daginn.  Aðspurð kemur fram að ákærði hefði kennt henni orðið “að ríða”, en það hafði hún einnig heyrt hjá strákunum í bekknum.  Hún kvaðst stundum hafa verið í náttkjól þegar ákærði hefði sett tippið í pjölluna og rassinn, en ekki þegar þau voru uppi á háalofti.  Þá væri hún í bleikum nærbuxum þegar hún var í náttkjólnum og að ákærði hefði girt niður um hana þegar hann setti tippið inn í pjölluna og rassinn.  Í viðtalinu kom fram að ákærði hefði látið hana halda utan um tippið og haldið í höndina á henni og hreyft hönd hennar til og frá.  Þá hafi tippið verið hart.  Sýndi stúlkan með látbragði greinilega að viðkomandi hafi látið hana fróa.  Hafi hún sagt honum að hætta, en hann talaði um að hætta eftir smástund, en hann hafi ekki hætt heldur haldið áfram.

Þann 6. janúar 1999 fór fram læknisskoðun á stúlkunni á Barnaspítala Hringsins og var hún framkvæmd af Jóni R. Kristinssyni barnalækni og Þóru F. Fischer kvensjúkdómalækni.  Í vottorði læknanna, dags. 15. janúar 1999, kemur fram að við almenna skoðun hafi ekkert óeðlilegt verið að sjá og stúlkan eðlileg miðað við aldur, óhrædd og glaðleg, eins og þar stendur.  Í niðurstöðu vottorðsins segir: ,,Ytri kynfæri virðast eðlileg, meyjarhaft heilt, engin merki sjáanleg um gamlan eða nýlegan áverka.  Íþrenging getnaðarlims (penetration) í leggöng stúlkunnar ólíkleg, en skoðun útilokar þó ekki að stúlkan hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.”

Í málinu liggur einnig fyrir vottorð sömu aðila, dags. 5. nóvember 1999, um skoðun á stúlkunni 20. október 1999.  Í niðurstöðu þess vottorðs segir: „Lögun meyjarhafts og op óbreytt frá fyrri skoðun og því vaginal innþrenging (penetration) ólíkleg.  Fínlegar breytingar á æðamynstri og fínlegur áverki á meyjarhaftinu sjálfu, sem ekki var fyrir 9 mánuðum, gæti stutt sögu stúlkunnar um sleik og káf en ekki í gegnum hymen.”

Með beiðni lögreglustjóraembættisins í Reykjavík 18. maí 1999 var Ingvari Kristjánssyni geðlækni falið að kanna þroska og andlegt ástand ákærða.  Í greinargerð læknisins, dags. 9. maí 2000, segir að hann hafi átt þrjú viðtöl við ákærða á tímabilinu desember 1999 til maí 2000.  Í niðurstöðunni segir: ,,Að um sé að ræða 42 ára gamlan mann, sem er fæddur og uppalinn í fjölmennri fjölskyldu í Reykjavík.  Fljótt eftir að skólaskyldualdri er náð koma í ljós námsörðugleikar og er hann því settur til náms í skóla fyrir tornæma, […].  Jafnframt námsörðugleikum virðist hann hafa sýnt af sér hegðunarvandkvæði (skróp) og nokkur einkenni fælni sem birtist í vatnshræðslu, hræðslu við drukkið fólk og stórar vinnuvélar.  Er barnaskólanámi lauk hafði hann, að eigin sögn, ekki náð góðum tökum á lestri né heldur grunnatriðum reiknings.  Sökum hegðunarvandkvæðanna var hann síðan vistaður á upptökuheimilinu að […] til 2ja ára. (Sic, stendur svo)  Árið 1994 var X endanlega vikið úr starfi en þá virðist hann hafa sýnt af sér samskonar hegðun og í skóla, þ.e.a.s. mætti ekki í vinnuna, en fór þess í stað á flakk.  Hann hefur frá þeim tíma ekki komið sér að því að fara í vinnu að nýju né leita eftir endurhæfingarúrræðum fyrr en nú á vordögum.  Líklegt er að væg einkenni félagsfælni, lágt sjálfsmat hans og námsörðugleikar eigi þar þátt í.

                Í viðtölunum neitaði X afdráttarlaust þeim sökum sem á hann eru bornar.  Við skoðun þessa koma ekki fram neinar vísbendingar um sturlun, rænuskerðandi sjúkdóm eða misnotkun rænuskerðandi efna og af fyrirliggjandi áðurefndum upplýsingum má helst ætla að X sé í meðallagi greindur og telur því undirritaður að forsendur almennrar sakhæfni séu fyrir hendi.”

Í skýrslu geðlæknisins  kemur enn fremur fram að ákærði hafi sagst vera óreyndur í kynferðismálum.  Hann horfi stundum á ,,ljósblátt” myndefni í sjónvarpsstöð og örsjaldan kveðst hann hafa séð myndbönd með ,,dökkbláu” efni sem honum finnist lítið í varið, þar sem hann vilji helst svona myndefni með rómantísku ívafi.  Ákærði kvaðst hafa umgengist systkinabörn sín í gegnum árin, bæði stelpur og drengi, vandræðalaust og kvað kæruefnið koma flatt upp á alla í fjölskyldunni.

Í dómi héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 4. febrúar 2000, var Y, fæddur […], bróðir stúlkunnar, fundinn sekur um kynferðisbrot gegn stúlkunni með því að hafa í að minnsta kosti sjö skipti á tímabilinu frá desember 1998 til ágúst 1999 á heimili hennar, sleikt kynfæri stúkunnar, sett fingur sinn í leggöng hennar og fróað sér samtímis eins og segir í ákæru í því máli.

Samkvæmt skýrslu dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar sálfræðings, dagsettri 18. október 1999, gerði hann sálfræðilega athugun á Y að beiðni Félagsþjónustu Reykjavíkur vegna þess máls.  Skýrsla þessi er allítarleg og voru lögð fyrir drenginn ýmis sálfræðipróf.  Þar kom fram að Y, sem þá var 15 ára, viðurkenndi ásakanir systur sinnar um kynferðislega misnotkun.

Í skýrslunni segir að Y hafi lýst því nokkuð nákvæmlega að hann hafi, í fyrsta sinn eftir jólin 1998 og síðan 5-6 sinnum eftir það lagt stúlkuna á rúm sitt, tekið hana úr buxunum og haft við hana munnmök á meðan hann fróaði sé þangað til hann hafði sáðfall. Hún hefði aldrei mótmælt þessu og hann ekki þvingað hana eða hótað henni á nokkurn hátt.  Hann sagðist sjálfur ekki hafa klætt sig úr buxunum heldur aðeins hneppt frá þeim og var þess fullviss að systir hans hefði ekki séð þegar hann fróaði sér. “

Þá segir í skýrslunni að framburður drengsins sé í góðu samræmi við frásögn stúlkunnar.  Samband þeirra systkina hafi verið gott í það minnsta áður en mál þetta kom upp og að hann saknaði hennar og var sannfærður um að hún saknaði hans.  Aðspurður um ásakanir hennar á föðurbróður sinn segist hann í fyrstu ekki vera viss hvort hann tryði henni, hann hefði ekki myndað sér skoðun á því, en bætti svo við: „Ætli maður verði ekki að treysta systur sinni að hún sé að segja satt.”

Rannsóknarviðtal var tekið af stúlkunni í dómhúsinu í Reykjavík þann 24. september 1999 og annaðist það Berglind Eyjólfsdóttir rannsóknarlögreglukona.    Í viðtalinu skýrir stúlkan frá því að bróðir hennar hafi átt við hana í rúminu í herbergi hans heima hjá þeim.  Með látbragði sýndi stúlkan að hún hafi legið á bakinu með fæturna fram af og í sundur og að hann hafi kropið fyrir framan hana.  Hún hafi verið í fötum en hann tekið buxurnar og nærbuxur niður.  Hann hafi verið að gera það sem hann mátti ekki gera, þ.e. að sleikja „kíkí", eða „pjölluna" og verið með puttann inni í „kíkí".  Hann fór ekki úr fötunum „það var X sem gerði það.”  Hann hafi ekki meitt hana í pjöllunni bara í ökklanum þegar hann girti niður um hana.  Aðspurð hvort bróðir hennar hafi bannað henni að tala um þetta sagði hún að hann hafi ekki sagt neitt en sagði í beinu framhaldi að það hafi verið X sem hafi sagt að hún mætti alls ekki segja frá.

Verður nú gerð grein fyrir skýrslu ákærða og vitna hjá lögreglu og fyrir dómi.

Ákærði neitaði sök við frumrannsókn, kvaðst ekki skilja kæruefnið og eiga bágt með að trúa því að hann sé borinn slíkum sökum.  Þegar stúlkan dvaldi hjá föður sínum hafi hún venjulega sofið í herbergi föðurins í gestarúmi þegar hún dvaldi þar yfir nótt.  Fyrir hafi komið að faðir hennar svæfi fram eftir, en stúlkan væri vakandi og að hún hafi komið inn í herbergi ákærða og vakið hann.  Það hafi þá verið í þeim tilgangi að hún vildi fá að borða eða að kveikja á sjónvarpinu.  Ákærði hafi aldrei gætt hennar aleinn þar sem faðir hennar sé alltaf heima, annað hvort sofandi eða vakandi.  Ef faðir hennar hefði farið af heimilinu hafi stúlkan farið með honum.  Í eitt skipti hafi faðirinn þó ekki tekið hana með, en þá hefðu hinir bræðurnir verið heima.

Fyrir 15 til 20 árum hafi hann útbúið herbergi innst á háaloftinu, sem hann notaði til að framkalla myndir.  Þar hafi hann hengt upp myndir af nöktum konum, en enginn hafi farið þangað upp síðan og stúlkan hafi ekki farið inn í það herbergi.  Ákærði kvaðst hafa farið með stúlkuna upp á háaloft í kringum 1. desember 1998 til þess að ná í jólatré og í annað sinn til þess að hengja upp ný ljós og hafi stúlkan þá haldið á vasaljósi meðan hann tengdi ljósin.  Nánar aðspurður um ásakanir stúlkunnar kveðst hann ekki hafa neina skýringu á því af hverju hún segi þetta og minnist þess ekki að hún hafi séð á honum tippið.  Þá kannast hann ekki við að hafa legið ofan á henni eða hún hafi komið upp í rúm til hans, nema þá í þeim tilgangi að biðja hann að koma fram úr.

Ákærði bar fyrir dóminum að hann kannaðist ekkert við þá háttsemi sem honum er gefin að sök og kvaðst enga skýringu geta gefið á því af hverju stúlkan bæri hann slíkum sökum.  Kvað hann samskipti sín og stúlkunnar hafa verið eðlileg á allan hátt.  Ákærði hafi búið á heimilinu ásamt bræðrum sínum og hafi yfirleitt ekið einum þeirra, Z, til vinnu á umræddum tíma.  Hann hafi síðan annað hvort lagt sig aftur eða farið að horfa á sjónvarpið þegar hann kom heim. 

Ákærði kannaðist við að hafa farið tvívegis með stúlkunni upp á háaloft en kannaðist ekkert við framburð stúlkunnar að öðru leyti um það sem þar hafi átt að eiga sér stað.  Kvað hann aðspurður um áhyggjur föður stúlkunnar yfir því að hún færi þangað upp eflaust vera þannig til komnar að þarna hafi verið myrkur og gólf á loftinu ekki klætt.  Þannig sé aðeins mjór renningur sem hægt sé að ganga á en sé stigið út fyrir hann sé hætta á að falla niður.

Stúlkan hafi sofið í herbergi föður síns þegar hún hafi verið í heimsókn.  Það hafi komið fyrir að stúlkan hafi vakið ákærða á morgnana þegar aðrir bræðranna sváfu og geti verið að hún hafi skriðið upp í rúm hans til að vekja hann.  Hins vegar neitar hann alfarið að þar hafi eitthvað gerst og kveðst hann ekki geta ímyndað sér hvað stúlkunni gangi til með þessum framburði.  Hins vegar viti hann að bróðir hennar hafi verið ákærður fyrir kynferðislegt áreiti við hana.

Rannsóknarviðtalið við stúlkuna frá 29. desember 1998 í Barnahúsi var sýnt í dóminum við aðalmeðferð málsins.  Þá gaf stúlkan skýrslu fyrir dóminum og annaðist Vigdís Erlendsdóttur einnig þá skýrslutöku.  Fyrir dómi vildi stúlkan ekki tjá sig um kynferðislega áreitni ákærða í hennar garð, „hana langaði ekki til þess.”  Fram kom að hún hafði engu gleymt þótt hún vildi ekki ræða þetta þar sem henni fannst það svo óþægilegt.  Sérstaklega aðspurð um teikningu merkt II/8 segist hún muna smávegis eftir henni og aðspurð hver hefði teiknað bendir hún á sjálfa sig.  Hún vildi hins vegar ekki tjá sig um hana og hverjir væru á teikningunni.  Aðspurð um það hvort hún muni það sem gerðist þá kinkar hún kolli og segir erfitt að gleyma.  Segist hún reyna að gleyma en það gangi ekki „það kemur alltaf.”  Henni líði þá illa og þess vegna vilji hún ekki segja frá nú.

Vitnið, C, skýrði svo frá fyrir lögreglu og fyrir dómi að hún hefði búið í einn mánuð, þ.e. desember 1998, ásamt dóttur sinni í sama stigahúsi og móðir stúlkunnar.  Vitnið kvaðst hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun sjálf sem barn og því hafi hún kennt dóttur sinni að bregðast við slíkri háttsemi.  Dóttir hennar og stúlkan, sem eru jafnaldrar, hafi verið að leika sér saman sunnudagskvöldið 27. desember 1998 í íbúð stúlkunnar þegar stúlkan hafi sagt dóttur vitnisins frá því í trúnaði að frændi hennar væri alltaf að fikta við sig.  Dóttir vitnisins hafi ákveðið að skýra vitninu frá þessu ef stúlkan gerði það ekki.  Hafi dóttir vitnisins gert sig líklega til að segja frá þessu þegar stúlkan hafi byrjað að segja frá í belg og biðu.  Móðirin og stúlkurnar hafi síðan komið inn í íbúð vitnisins og stúlkan þá sagt frá atburðunum jafnframt því sem hún hafi með látbragði leikið eftir hvernig ákærði færi aftan á sig í rassinn og í “pjölluna”.  Hafi stúlkan velt sér í gólfinu er hún sýndi tilburðina.

Vitnið upplýsti, að nokkrum dögum fyrir þetta atvik hafi stúlkan sagt sér að fyrra bragði að föðurbróðir hennar hafi náð í hana í skólann og farið með hana heim til bræðranna.  Þá hafi aðeins þau verið heima.  Hafi hann þá gert við hana einhverja hluti.  Vitnið kvaðst hafa ákveðið að spyrja einskis frekar að sinni og athuga málið nánar. Vitnið kvað stúlkuna hafa sagt að þetta hafi ekki gerst þegar bróðir hennar var einnig hjá föður þeirra.

Vitnið, D, kvaðst hafa unnið með ungum börnum sem kennari o. fl.  Vitnið hafi verið ásamt vinkonu sinni, C, í stofunni í íbúð sinni þann 27. desember 1998 að horfa á sjónvarpið en stúlkan hafi búið í íbúðinni á móti ásamt móður sinni.  Dóttir C sem hafi verið að leika við stúlkuna hafi þá komið inn í stofuna og hafi verið greinilegt að mikið hafi búið undir.  Kvaðst vitnið hafa slökkt á sjónvarpinu og setið og hlustað.  Þá hafi stúlkan lagst á gólfið og sýnt með látbragði og orðum að maður, sem hún nafngreindi ekki fyrst en sagði síðan að væri föðurbróður sinn, klæddi hana úr í rúminu þegar pabbi væri sofandi og að hann færi bæði framan og aftaná.  C hafi þá farið yfir í íbúð móðurinnar til að skýra henni frá atvikinu.  Vitninu hafi virst stúlkunni vera mikið létt eftir að hafa skýrt frá og hafi þetta að mati vitnisins ekki verið leikur heldur sannleikur.  Vitnið kvaðst aldrei áður hafa orðið vitni að slíku tali hjá stúlkunni. Vitnið segir að dóttir C og stúlkan hafi leikið sér mikið saman og m.a. teiknað mikið af myndum og hafi hún farið með eina mynd til móður stúlkunnar eftir þetta og þekkti hún þá mynd í skjölum málsins merkt IV.5. og hafi henni þótt mynd þessi athyglisverð miðað við aðrar myndir hennar.

Vitnið, E, móðir stúlkunnar, skýrði svo frá fyrir lögreglu og fyrir dómi að stúlkan hafi sagt henni frá þessu þann 27. desember 1998.  Skýrði hún á sama hátt og fram kom hjá vitnunum C og D.  Kvað vitnið stúlkuna hafa sagt að ákærði væri að „ríða henni í rass og pjöllu.”  Hafi stúlkan gefið ákveðin teikn til merkis um að hún væri að segja satt. 

Vitnið kvaðst hafa haft grunsemdir lengi um að stúlkan væri misnotuð kynferðislega t.d. hafi hún þegar hún var tveggja ára haft mikla útferð frá kynfærum og verið skoðuð á Landspítalanum á þeim tíma.  Ekkert hafi þá komið fram um að stúlkan hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun.

Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vör við neitt óeðlilegt í samskiptum stúlkunnar við ákærða og þá bræður nema þá að hún hafi talað um að þeir væru að stríða henni.  Stúlkan hafi ekki sótt í að fara þangað, en verið nokkuð hlutlaus í afstöðu sinni til heimsókna þangað.  Vitnið segir að hún hafi orðið vör við að stúlkan hafi verið rauð í klofinu og við endaþarm.  Einnig hafi hún séð lítið sár við endaþarm hennar.  Hana hafi þó ekki grunað neitt kynferðislegt í því sambandi  Stúlkan hafi oft komið rauð í klofinu eftir heimsóknir hjá föður sínum.  Vitnið hafi yfirleitt byrjað á því að baða hana og bera á hana.  Þetta hafi hún frekar tengt því að stúlkan hafi verið skeind harkalega. 

Vitnið bar að bróðir stúlkunnar hefði alla tíð sýnt merki um kynferðislega misnotkun.  Hann hafi hins vegar ekki misnotað stúlkuna á því tímabili sem hér um ræðir. 

Vitnið kvað stúlkuna hafa vitað mikið um kynlíf.  Þá hafi verið farið að bera á skapbrestum hjá henni.  Vitnið segir að stúlkan hafi átt í miklu sálarstríði, átt erfitt með svefn og fengið martraðir einkum eftir að hún hafði skýrt frá því sem gert hafi verið við hana.  Þá hafi stúlkan verið slæm á taugum og verið illt í maga og höfði. Hafi hún jafnvel talað um að svipta sig lífi.

Vitnið, Ingvar Kristjánsson geðlæknir, kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sína.  Skýrði hann svo frá að ákærði hefði greint honum frá atburðum en neitað alfarið að hafa sýnt stúlkunni kynferðislega tilburði.  Ekkert hafi komið fram í viðtalinu sem benti til að ákærði hefði einhverjar afbrigðilegar kynferðislegar tilhneigingar.  Hafi helst verið á ákærða að skilja að hann hefði ekki mikinn áhuga á kynlífi enda segðist hann enga reynslu hafa af því.  Í framburði vitnisins kom fram að viðbrögð ákærða við óþægilegum eða erfiðum atvikum væru þau einkum að koma sér hjá því að takast á við þau og koma sér hjá áreitum.  Aðspurður segir vitnið að ekki hafi verið lögð fyrir ákærða persónuleikapróf og þroskapróf.  Hann hafi verið búinn að gera ráðstafanir til að sálfræðingur annaðist það, en úr því hafi ekki orðið.

Vitnið, G, bróðir ákærða og faðir stúlkunnar, gaf skýrslu fyrir dóminum.  Kvaðst vitnið hafa á umræddum tíma unnið vaktavinnu og hafi stúlkan verið talsvert mikið hjá honum þegar hann var ekki að vinna.  Vitnið kvaðst sjaldan hafa þurft að fara út.  Vitnið hafi deilt herbergi með einum bróður sínum og hafi stúlkan sofið þar einnig í sérstöku rúmi.  Samskipti stúlkunnar og ákærða hafi verið mjög góð og hafi ekkert verið að sjá að neitt óeðlilegt væri að gerast.  Taldi vitnið sig vera dómbæran á að meta þetta þar sem hann komi úr stórri fjölskyldu auk þess sem hann hafi unnið á […] sem sérhæfður starfsmaður.  Stúlkan hafi umgengist alla bræðurna eins og fjölskyldu sína og því ekkert fundist athugavert við að striplast um íbúðina eins og gengur og gerist.  Vitnið segir að bræðurnir hafi verið mikið heima við.  Vitnið taldi að stúlkan væri búin að ganga í gegnum ýmislegt og að framburður hennar væri því ekki marktækur í þessu sambandi.  Kvaðst vitnið, bæði fyrir lögreglu og dóminum, hafa reynt stúlkuna að ósannsögli, en hún hefði eitt sinn fengið sig til að skrifa bréf til kennara síns um að hún væri veik svo að hún gæti verið inni við í frímínútum.  Hún hafi hins vegar ekki verið veik þessu sinni.  Stúlkan hafi sótt mikið í að vera hjá vitninu.  Vitnið kvaðst vita til að stúlkan hafi eitt sinn farið með ákærða upp á háaloft og hafi verið þar í nokkrar mínútur.  Vitnið kvaðst ekki hafa viljað að stúlkan færi upp á loftið þar sem gangvegur sé um 60-80 cm breiður.  Vitnið kvað stúlkuna hafa gott minni og geta búið til sögur. 

Vitnið, H, kvað samskipti ákærða og stúlkunnar hafa verið mjög góð eins og raunar samskipti allra á heimilinu.  Að mati vitnisins hafi stúlkunni liðið mjög vel á heimilinu og hafi að jafnaði verið eins og þungu fargi væri af henni létt í hvert skipti sem hún kom.  Vitnið sagði að allir á heimilinu hefðu sinnt stúlkunni og hafi ákærði ekki sinnt henni meira en aðrir.  Vitnið kvaðst ekki hafa orðið var við neitt óeðlilegt í samskiptum ákærða og stúlkunnar.  Háaloftið hafi vakið áhuga stúlkunnar eins og annarra barna sem komið hafi inn á heimilið.  Ekki hafi hann orðið var við að stúlkan hafi farið með ákærða þangað upp nema þá í tengslum við tengingu rafmagns, en það hafi hann eftir hinum bræðrunum.  Vitnið skýrði frá því fyrir lögreglu að stúlkan ætti það til að ljúga og hafi hún m.a. beðið föður sinn um að skrifa miða til kennara síns um að hún væri veik.  Hefði faðir stúlkunnar talað um þetta atvik.  Aðspurður kvaðst hann ekki muna eftir fleiri dæmum, en kvað þau ábyggilega vera fleiri.  Fyrir dóminum skýrði vitnið frá því að stúlkan hafi getað búið til sögur og honum finnist eins og stúlkan hafi verið heilaþvegin.

Vitnið kvaðst aldrei hafa orðið var við að stúlkan vildi ekki hafa ákærða nálægt sér og ekkert borið á neinu slíku.  Stúlkan hafi einu sinni komið inn í stofu þegar þeir hafi verið að horfa á bláa mynd í sjónvarpinu og hafi þá þegar verið slökkt á því og hún rekin í rúmið.  Ekkert hafi verið um klámblöð á heimilinu. Stúlkan hafi verið glöð þegar hún hafi verið hjá þeim. 

Vitnið, I, bróðir ákærða, skýrði frá fyrir dóminum að hann hafi verið í vinnu á þeim tíma sem hér um ræðir. Vitnið segir að samskipti ákærða og stúlkunnar hafi verið í alla staði eðlileg og gat vitnið ekki borið um neitt sem bent gæti til þess að ákærði hefði misnotað stúlkuna kynferðislega.  Þeir bræður hafi að jafnaði verið mikið heima við.  Stúlkan hafi frekar viljað vera nálægt ákærða, en að hún reyndi að forðast hann.  Vitnið kvaðst hafa orðið var við að stúlkan hafi verið að segja sögur.  Hefði hún sagst vera veik eitt sinn er hún átti að fara í skóla án þessa að vera veik í raun.  Hefði stúlkan sagt þetta við föður sinn, en vitnið heyrt það, og verið sagt eftir á af föður hennar að hún hefði ekki verið veik.

Vitnið, Þóra F. Fischer, kvensjúkdómalæknir skýrði niðurstöðu læknisvottorðs dags. 15. janúar 1999 og staðfesti að ekkert óvenjulegt hafi verið að sjá á kynfærum stúlkunnar við skoðun.  Það gæti hins vegar komið heim og saman við framburð stúlkunnar ef þrenging hefði átt sér stað milli rasskinna eða á svæðið fyrir framan leggöngin.  Slík þrenging geti átt sér stað hvað eftir annað án þess að nokkur merki væru sjáanleg nema skoðun færi fram innan viku.  Að öllum líkindum mætti þá greina roða eða einhver merki.  Það væri hins vegar ólíklegt að limur hafi farið inn í gegnum meyjarhaftið.  Vitnið sagði varðandi læknisvottorð, dagsett 5. nóvember 1999, vegna rannsóknar á háttsemi bróður stúlkunnar gagnvart henni, að munur hafi verið sýnilegur á meyjarhafti stúlkunnar á þeim tíma sem liðið hafi frá því að fyrri skoðun fór fram. Vitnið staðfesti læknisvottorðin í málinu. 

Vitnið, Ragna Björg Guðbrandsdóttir, félagsráðgjafi í Barnahúsi, upplýsti að hún hefði átt 20 viðtöl við stúlkuna tímabilið janúar 1999 til 30. september s.á. en síðan hafi hún átt 17 viðtöl eftir það.  Viðtölin hafi að mestu snúist um það að vinna sig út úr því sem stúlkan hafði upplifað.  Staðfesti hún greinargerð sína sem frammi liggur í málinu dagsetta 22. september 2000.  Þar kemur m.a. fram að frá janúar til maí 1999 hafi verið mjög erfitt hjá stúlkunni.  Hafi það komið fram í mikilli vanlíðan og óstýrilátri hegðun heima og í skólanum.  Þessa vanlíðan tengdi stúlkan því að hún hafi verið óánægð með líkama sinn og fundist hún vera ljót.  Hún hafi talað um að hún vildi ekki lifa lengur.  Stúlkan hafi talað um meint kynferðislegt ofbeldi sem hún hafi sætt af hendi ákærða og lýsti því að það hafi verið vont og að hann hafi gert það viljandi.  Í skýrslu vitnisins er m.a. haft eftir stúlkunni: „Það var svo vont að ég gæti öskrað.” „Ég fór að gráta en tárin sáust ekki”, „hann gerði ekki mistök, hann gerði þetta viljandi.” Stúlkan hafi m.a. sagt varðandi umræðu um aldur og hvað væri eðlilegt að sex ára krakkar gætu, að henni fyndist hún ekki sex ára eftir það sem ákærði hefði gert við hana. 

Vitnið kvaðst hafa afhent lögreglu teikningu og fylgir hún skýrslu hennar, en hana hafi stúlkan gert í viðtali þegar þær hafi verið að vinna með brúður.  Stúlkan hafi beðið um blað og farið að teikna og sagst ætla að teikna leiksvið.  Á eftir hafi hún útskýrt teikninguna.

III.

Forsendur og niðurstaða.

Mál það sem hér um ræðir kom upp í lok desember 1998 er stúlkan skýrði frá kynferðislegri hegðun ákærða gagnvart henni.

Ákærði hefur staðfastlega neitað frá upphafi að hafa haft kynferðislega tilburði við stúlkuna.  Hefur framburður hans verið stöðugur frá upphafi um öll þau atriði sem máli skipta.  Vitnin, G, H og I bera á svipaðan hátt um heimilisaðstæður og samband ákærða við stúlkuna.  Vitnin hafa greint frá því fyrir lögreglu og dómi að þeir hafi staðið stúlkuna að því að segja ósatt.  Vísa þeir allir til sama atburðar er stúlkan bað föður sinn að skrifa bréf til kennara síns um að hún væri veik svo hún gæti verið inni í frímínútum.  Þessi framburður bræðranna er að mati dómsins óeðlileg samræming á túlkun þeirra á þessum atburði.  Þykir þessi framburður ekki vega þungt um meinta skreytni stúlkunnar, enda engin fleiri dæmi nefnd.

Ákærði hefur haldið því fram að hann hafi nánast aldrei verið einn með stúlkunni í íbúðinni og er vitnisburður bræðra hans á sama veg.  Hins vegar hefur einnig komið fram að einn þeirra var útivinnandi og tveir voru að koma upp verkstæði í bílskúr.  Einnig að ákærði hafi vaknað og sinnt stúlkunni á morgnana og bæði faðir og annar bróðir hafi stundum sofið fram eftir degi.  Þá hefur komið fram hjá ákærða að stúlkan hafi komið upp í rúm hans.  Í því sambandi hefur ákærði hins vegar staðhæft að það hafi aðeins verið þegar hún hafi verið að vekja hann.

Í skýrslu Ingvars Kristjánssonar geðlæknis og í framburði hans fyrir dóminum, en vitnið kannaði að beiðni lögreglunnar í Reykjavík þroska og andlegt ástand ákærða, kemur fram að ákærði neitaði allri sök í viðtölum hjá honum.  Þar kemur hins vegar fram að skýrslan byggir aðeins á þremur viðtölum á sex mánaða tímabili og vegna skorts á samvinnu við ákærða og lestrartregðu hans hafi ekki verið unnt að vinna verkið sem skyldi.  Að mati dómsins hefðu ýmis persónuleikapróf og rannsóknir á ákærða ef til vill getað varpað betra ljósi á andlegt ástand og persónuleika hans.

Í rannsóknarviðtali við stúlkuna sem tekið var á myndband 29. desember 1998 lýsir hún meintri háttsemi ákærða á líkan hátt og hún hafði áður gert við vitnin C, D og E.  Framburður þeirra, sem rakinn hefur verið hér að framan, er að mati dómenda skýr og trúverðugur af því sem stúlkan skýrði þeim frá og ber í öllu því sem máli skiptir vel saman við frásögn hennar sjálfrar.  Einkum ber til þess að líta að stúlkan sagði frá atburðum að fyrra bragði og fannst vitnunum bersýnilegt að þetta hafði hvílt þungt á henni.  Þá bar vitnið, C, að stúlkan hefði sagt við hana nokkrum dögum áður að föðurbróðir hennar hefði einu sinni náð í hana í skólann og gert eitthvað við hana.

Framburður stúlkunnar í rannsóknarviðtalinu verður að mati dómenda að teljast afar trúverðugur.  Þar lýsir stúlkan með orðum og látbragði kynferðislegum athöfnum fullorðins manns á einkar sannfærandi hátt.  Þannig sýnir hún breytingu sem verður á andardrætti ákærða á meðan á athöfnum hans stóð, viðkomu hennar við harðan lim hans og fróunarhreyfingar.  Allt eru þetta atriði sem ekki má búast við að stúlka á hennar aldri kunni skil á án þess að hafa af því eigin reynslu.  Í málinu hafa verið lagðar fram þrjár teikningar eftir stúlkuna.  Sérstaklega er athyglisverð teikning sem hún gerði að eigin frumkvæði í viðtali í Barnahúsi 25. maí 1999.  Þar teiknar hún mann sem liggur á einhverju og er hann með reistan lim.  Minni kvenvera með sítt rautt hár, eins og stúlkan, liggur ofan á.  Hann er með bros á vör og hún með skeifu.  Utan um þau er dreginn hálfhringur.  Teikningu þessa skýrði stúlkan á þann veg að maðurinn væri ákærði og lægi hann á svefnpoka, stúlkan væri hún sjálf og hálfhringurinn væri háaloftið.  Kemur þessi mynd heim og saman við það sem stúlkan hafði áður lýst og vettvangsrannsókn lögreglu.

Í skýrslu sinni fyrir dómi átti stúlkan afar erfitt með að tjá sig og var að sjá að hún væri ófús að rifja atburðina upp.  Fram kom að stúlkan mundi atburðina þótt hún vildi ekki ræða þá þar sem henni fannst það svo óþægilegt.  Hún kannaðist við að hafa teiknað mynd þá sem sem lýst er hér að framan.  Fram kom að stúlkan hafði reynt að gleyma atburðunum, en að það reyndist henni erfitt. 

Við mat á framburði stúlkunnar fyrir dóminum ber til þess að líta að frá því að málið kom upp var stúlkan til meðferðar og greiningar hjá Rögnu Björgu Guðbrandsdóttur, félagsráðgjafa í Barnahúsi, en skýrsla hennar hefur verið rakin nokkuð hér að framan.  Þar kemur fram að stúlkan fór í alls 20 viðtöl á tímabilinu 11. janúar til 30. september 1999.  Í lok þessa tímabils kom fram hjá henni að bróðir hennar hafi verið að áreita hana kynferðislega frá desember 1998 til ágúst 1999.  Skýrði Ragna Björg svo frá fyrir dóminum að stúlkan hefði verið í 17 viðtölum eftir þetta vegna þessara nýju upplýsinga.  Svo sem rakið hefur verið var bróðir stúlkunnar fundinn sekur um kynferðisbrot gegn henni með dómi uppkveðnum 4. febrúar árið 2000.  Fram kemur í skýrslu Rögnu Bjargar og fyrir dómi, að lögð hefur verið áhersla á það í meðferðinni að kenna stúlkunni að verjast því að rifja upp atburði þá sem hún varð fyrir og hafa valdið henni miklu hugarangri og andlegum erfiðleikum.  Dómurinn telur að líta beri til þessa við heildarmat á trúverðugleika framburðarins og sönnunargildis hans í heild.  Því þykir ekki rétt, sem og með tilliti til aldurs hennar að skoða tregðu stúlkunnar til að tjá sig fyrir dóminum sem afturhvarf frá fyrri framburði. 

Í skýrslu dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar sálfræðings, í tengslum við mál ákæruvaldsins gegn bróður stúlkunnar sem rakið hefur verið hér að framan, kemur skýrt fram að misnotkun bróður hennar hafi ekki hafist fyrr en um jólin 1998.  Á þessu tímabili var drengurinn í fóstri en heimsótti móður í leyfum.  Í skýrslu sálfræðingsins kemur sérstaklega fram, að drengurinn skýri nokkuð nákvæmlega frá þeim ásökunum sem systir hans hafði borið á hann og að frásögn hans sé í góðu samræmi við frásögn stúlkunnar.  Þykir þetta styrkja trúverðugleika stúlkunnar í því máli sem hér er til meðferðar.

Í rannsóknarviðtali stúlkunnar fyrir dómi 24. september 1999 vegna máls bróðurins gerir stúlkan skýran greinarmun á framferði ákærða annars vegar og bróðurins hins vegar eins og rakið hefur verið hér að framan.

Dómurinn telur atburðalýsingu stúlkunnar og framburð sem lýst er hér að framan vera sterk sönnunargögn.  Allt látbragð stúlkunnar og frásagnarmáti er sannfærandi og skýr þegar aldur hennar er hafður í huga svo og almennur skilningur og þekking barna á þessu aldursskeiði.  Stúlkan hefur aldrei hvikað frá framburði sínum um að það hafi verið ákærði sem framdi þann verknað sem ákært er fyrir í málinu og að þetta hafi gerst í nokkur skipti.  Hún gerir skýran greinarmun í tíma á þeim tveimur aðilum sem hafa sýnt henni kynferðislega áreitni og einnig að því er varðar staðsetningar atburða og aðferðir við áreitnina.

Þegar allt framanritað er virt þykir dóminum ekki varhugavert að leggja framburð stúlkunnar til grundvallar um sekt ákærða.  Dómurinn telur því fram komna lögfulla sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi sem áhrif hefur á refsingu í þessu máli.  Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærði misnotaði traust það sem stúlkan mátti bera til hans sem náins ættingja og þess að brotin fóru fram á heimili því þar sem umgengni stúlkunnar fór fram við föður sinn.  Þá ber til þess að líta að brot ákærða teljast gróf ofbeldisbrot þar sem neytt er yfirburðar aldurs gagnvart barni.  Við mat á refsingu er einnig tekið tillit til þess að meðferð málsins hjá ákæruvaldinu hefur dregist verulega. 

Með hliðsjón af þessu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. 

Með broti sínu gerðist ákærði sekur um meingerð gegn persónu og friði stúlkunnar sem valdið hefur alvarlegri röskun á persónuleikaþroska hennar.  Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu ber stúlkan greinileg einkenni áfallastreitu eftir þá kynferðislegu áreiti sem hún hefur orðið fyrir.  Þykja miskabætur henni til handa hæfilega ákveðnar 400.000 krónur og skal fjárhæðin bera dráttarvexti frá dómsuppsögudegi.  Þá ber ákærða að greiða réttargæslumanni brotaþola, Þóreyju S. Þórðardóttur héraðsdómslögmanni, réttargæslulaun sem þykja hæfileg 100.000 krónur. 

Ákærða ber að dæma til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Haraldar Blöndal hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

Af hálfu ákæruvaldsins fór Sigríður Jósefsdóttir saksóknari með málið.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 8 mánuði.

Ákærði greiði Þóreyju S. Þórðardóttur héraðsdómslögmanni fyrir hönd stúlkunnar A, 400.000 krónur, með dráttarvöxtum frá dómsuppsögudegi. 

Ákærði greiði Þóreyju S. Þórðardóttur héraðsdómslögmanni, réttargæslulaun 100.000 krónur. 

Ákærða greiði allan sakarkostnaðar þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Haralds Blöndal hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.