Hæstiréttur íslands
Mál nr. 200/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Hjón
- Skipti
- Útburðargerð
|
|
Fimmtudaginn 27. apríl 2006. |
|
Nr. 200/2006. |
Aldís Pálsdóttir(Valborg Þ. Snævarr hrl.) gegn Óla Pétri Gunnarssyni (enginn) |
Kærumál. Hjón. Skipti. Útburðargerð.
A og Ó höfðu verið í hjónabandi og búið í húsnæði foreldra A. Fram fóru opinber skipti milli þeirra og var ágreiningur um hvort þeirra ætti rétt til að dveljast í húsnæðinu. Staðfest var ákvörðun skiptastjóra um dvalarrétt A í húsnæðinu og fallist á kröfu hennar um heimilað væri að Ó yrði borinn út úr því.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 21. mars 2006, þar sem annars vegar var staðfest sú ákvörðun skiptastjóra að sóknaraðili haldi rétti til dvalar í íbúðarhúsnæði að Litlu-Sandvík og hins vegar hafnað að svo stöddu kröfu sóknaraðila um að heimilað yrði að varnaraðili væri borinn út úr sama íbúðarhúsnæði. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði borinn út úr íbúðarhúsnæðinu að Litlu-Sandvík. Að öðru leyti krefst sóknaraðili staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt fyrir Hæstarétti vegna kærumálsins.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Í héraðsdómi er því lýst að fram fari opinber skipti milli aðila málsins, en þau hafa verið í hjónabandi. Hafa þau búið í skjóli foreldra sóknaraðila á neðri hæð húss þeirra, sem er á jörð föðurins að Litlu-Sandvík, án þess að sérstakur leigusamningur hafi verið gerður um afnotin. Ágreiningur varð um hvor málsaðila ætti rétt til dvalar í húsnæðinu og tók skiptastjóri ákvörðun um að sóknaraðili skyldi eiga áframhaldandi rétt til íbúðarhúsnæðisins og býr hún þar ásamt börnum aðilanna. Varnaraðili hefur ekki viljað víkja af eigninni og ber fyrir sig að hann eigi líftíðarábúðarrétt að jörðinni eða hluta hennar. Skiptastjóri tók ekki afstöðu til ábúðarréttarins. Varnaraðili mótmælti þessu og taldi að niðurstaða um ábúðarréttinn yrði að liggja fyrir áður en hægt væri að krefjast þess að hann viki af eigninni. Skiptastjóri tók þá ákvörðun um að vísa ágreiningi aðila um dvalarrétt í húsnæðinu til Héraðsdóms Suðurlands. Skiptastjóri taldi sig ekki þurfa að fylgja málinu eftir fyrir dóminum. Sóknaraðili gerði síðan framangreindar kröfur, annars vegar um staðfestingu á ákvörðun skiptastjóra og hins vegar um að þeirri ákvörðun yrði framfylgt með því að varnaraðili verði borinn út úr íbúðarhúsnæðinu að Litlu-Sandvík.
Að framan er því lýst að með hinum kærða úrskurði hafi verið staðfest sú ákvörðun skiptastjóra að sóknaraðili skyldi halda rétti til búsetu í íbúðarhúsnæðinu að Litlu-Sandvík. Þar sem varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti verður litið svo á að hann krefjist staðfestingar á hinum kærða úrskurði. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður þetta ákvæði hans staðfest.
Krafa sóknaraðila um að varnaraðili verði borinn út úr húsnæðinu að Litlu-Sandvík er ekki tilgreind í erindi skiptastjóra til héraðsdóms 6. maí 2005. Allt að einu verður að telja heimilt að fjalla um kröfuna í málinu, þar sem hún lýtur einungis að því að framfylgt verði með aðför þeirri ákvörðun sem skiptastjóri hafði tekið samkvæmt 112. gr hjúskaparlaga nr. 31/1993 og lögð var fyrir héraðsdóminn samkvæmt 122. gr. laga nr. 20/1991. Með því að fallist er á kröfuna um staðfestingu á ákvörðun skiptastjóra varðandi búseturétt í íbúðinni eru engin efni til annars, en að fallast á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði borinn út úr íbúðinni, sbr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður milli aðila. Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti ákveðst, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákvæði hins kærða úrskurðar um staðfestingu á ákvörðun skiptastjóra um dvalarrétt sóknaraðila, Aldísar Pálsdóttur, í íbúðarhúsnæði að Litlu-Sandvík er staðfest.
Sóknaraðila er heimilt að láta bera varnaraðila, Óla Pétur Gunnarsson, út úr framangreindu húsnæði.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Valborgar Þ. Snævarr hæstaréttarlögmanns, 132.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 21. mars 2006.
Sóknaraðili er Aldís Pálsdóttir, kt. 310361-4459.
Varnaraðili er Óli Pétur Gunnarsson, kt. 250656-2389.
Úrskurður í máli þessu var upphaflega kveðinn upp 23. janúar s.l., en með dómi Hæstaréttar Íslands upp kveðnum 20. febrúar s.l. var úrskurðurinn ómerktur og vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og uppkvaðningar að nýju. Málið var tekið fyrir 1. mars s.l. og var lögmönnum aðila gefinn kostur á að flytja málið upp á nýtt. Þeir vísuðu hins vegar í fyrri ræður og lögðu málið í úrskurð. Lögmaður sóknaraðila óskaði bókað að ekkert ágreiningsefni væri til meðferðar fyrir dómstólum vegna ætlaðs ábúðarréttar varnaraðila á jörðinni Litlu-Sandvík, enda hafi Hæstiréttur staðfest 19. janúar s.l. frávísunarúrskurð dómsins. Sé því ekki hægt að byggja á því í úrskurði í máli þessu að ágreiningur sé um það hvort ábúðarréttur sé til staðar og því eigi útburður að bíða. Séu öll lagaskilyrði til þess að fallast á útburðarkröfu sóknaraðila, enda krafan byggð á viðurkenndum rétti sóknaraðila til búsetu á eigninni og krafan því byggð á skýrum og ótvíræðum grundvelli.
Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands, upp kveðnum 18. janúar 2005, var bú ofangreindra aðila tekið til opinberra skipta vegna hjónaskilnaðar þeirra. Óskar Sigurðsson, hrl, var skipaður skiptastjóri og á fundi hans með málsaðilum 23. febrúar s.l. kom fram ágreiningur um það hvort þeirra ætti rétt til dvalar í íbúðarhúsnæði að Litlu-Sandvík, en þar höfðu þau búið ásamt foreldrum sóknaraðila. Lögmaður sóknaraðila krafðist þess fyrir hönd hennar að skiptastjóri tæki ákvörðun á grundvelli 2. mgr. 112. gr. hjúskaparlaga hvort hjóna skyldi halda rétti til dvalar í eigninni. Lögmaður varnaraðila vísaði til þess að hann væri ábúandi á jörðinni, ætti þar lögheimili og myndi því ekki flytja brott. Skiptastjóri tók ákvörðun um þennan ágreining aðila 1. mars s.l. og í bréfi hans til aðila kemur fram að málsaðilar hafi búið á neðri hæð íbúðarhússins að Litlu-Sandvík, en það sé skráð eign föður sóknaraðila, Páls Lýðssonar. Ekki sé til staðar formlegur leigusamningur um afnot húsnæðisins, en þau hafi búið þar með leyfi foreldra sóknaraðila. Þau eigi þrjú börn saman undir 18 ára aldri og hafi sóknaraðili farið fram á að fá forsjá þeirra. Þá segir í bréfinu að ágreiningur sé milli varnaraðila og eiganda jarðarinnar um ábúðarréttindi og uppgjör og þá hafi hann formlega krafist þess að varnaraðili flytji úr húsnæðinu. Í ljósi þessa sérstaka sambýlis sem tengist fjölskyldu sóknaraðila, sérstakra þarfa hennar til dvalar í húsnæðinu sem og barna þeirra hjóna, ákvað skiptastjóri að sóknaraðili héldi rétti til dvalar í íbúðarhúsnæðinu. Skiptastjóri tók ekki afstöðu til krafna varnaraðila varðandi hugsanlega ábúð á jörðinni eða uppgjörs vegna vinnuframlags, endurbóta og ræktunar. Með bréfi dagsettu 6. apríl s.l. mótmælti lögmaður varnaraðila ofangreindri ákvörðun skiptastjóra með vísan til þess að varnaraðili ætti lífstíðarábúðarrétt að jörðinni Litlu-Sandvík og að hann hefði ákveðið að krefjast viðurkenningar á þeim rétti sínum fyrir dómstólum. Yrði niðurstaða þess máls að liggja fyrir áður en hægt yrði að krefjast þess að hann viki af eigninni. Á skiptafundi 6. maí s.l. tók skiptastjóri þá ákvörðun að vísa til dómsins ágreiningi málsaðila um það hvort þeirra hjóna skyldi halda rétti til dvalar í íbúðarhúsnæðinu að Litlu-Sandvík með vísan til 1. mgr. 112. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991, en hafnaði þeirri kröfu að skiptastjóri fylgdi sjálfur eftir ákvörðun sinni samkvæmt 107. gr. laga nr. 20/1991, eftir atvikum með kröfu um útburð varnaraðila. Skiptastjóri taldi sig ekki þurfa að eiga aðild að málinu. Þetta bréf barst dóminum 9. maí s.l. og var málið þingfest 20. júní s.l. Eftir að málsaðilar höfðu skilað greinargerðum sínum var málið flutt munnlega um kröfur aðila 5. desember s.l. og gefinn kostur á endurflutningi 1. mars s.l. eins og áður greinir.
Sóknaraðili gerir þær kröfur að staðfest verði ákvörðun skiptastjóra um að sóknaraðili haldi rétti til dvalar í íbúð á neðri hæð í íbúðarhúsinu að Litlu-Sandvík og að í úrskurðarorði verði kveðið á um heimild til að varnaraðili verði borinn út úr íbúðarhúsnæðinu að Litlu-Sandvík Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt reikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, auk þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð. Sóknaraðili hlaut gjafsókn í málinu með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsettu 6. september s.l.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að hafnað verði kröfum sóknaraðila þess efnis að hann verði borinn út úr íbúðarhúsnæðinu að Litlu-Sandvík Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, auk þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð. Varnaraðili hlaut gjafsókn í málinu með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsettu 31. október s.l.
Málavextir eru eins og að ofan greinir en til viðbótar má geta þess að varnaraðili telur meginástæðu þess að ekki hafi náðst samkomulag um fjárskipti milli aðila vera þá að varnaraðili telji sig eiga lífstíðarábúðarrétt samkvæmt ábúðarlögum að jörðinni Litlu-Sandvík. Hafi varnaraðili lýst þessu við skiptastjóra auk þess sem jarðeiganda, föður sóknaraðila, hafi verið stefnt til viðurkenningar á ábúðarrétti varnaraðila. Samkvæmt ábúðarlögum nr. 80/2004 sé það skilyrði fyrir ábúðarrétti að ábúandi hafi lögheimili á jörð sinni. Hafi varnaraðili því ekki talið skilyrði fyrir því að flytja brott af jörðinni meðan ágreiningur sé uppi um ábúðarréttindi hans. Máli þessu mun hafa verið vísað frá dómi með úrskurði upp kveðnum 17. nóvember s.l. og með dómi Hæstaréttar Íslands, upp kveðnum 19. janúar s.l. var sú niðurstaða staðfest.
Sóknaraðili byggir á þeim röksemdum sem fram koma í fyrrgreindri ákvörðun skiptastjóra og bendir á að aðilar hafi búið ásamt foreldrum sóknaraðila í íbúðarhúsinu á jörðinni Litlu-Sandvík. Ekki liggi fyrir formlegur leigusamningur um afnot þeirra af eigninni, búseta þeirra byggi á munnlegu samþykki eigenda og ekki hafi verið um formlegar leigugreiðslur að ræða. Telur sóknaraðili að jafna megi þessu sambúðarformi til leigu og eigi því ákvæði 112. gr. hjúskaparlaga við í málinu. Í greinargerð með frumvarpi til þeirrar lagagreinar segi að leysa skuli úr ágreiningi um rétt til búsetu í íbúðarhúsnæði með tilliti til þarfa hjóna og barna. Samkomulag sé um að börnin lúti sameiginlegri forsjá aðila en eigi lögheimili hjá sóknaraðila. Hafi fjölskyldan verið búsett að Litlu-Sandvík í skjóli foreldra sóknaraðila og í íbúðarhúsi þeirra um margra ára skeið og hafi börnin búið þar alla sína ævi.
Sóknaraðili byggir á því að faðir hennar, Páll Lýðsson, sé eigandi jarðarinnar og þar með íbúðarhússins, en jörðin sé óðalsjörð og geti varnaraðili því aldrei átt neinn rétt til jarðarinnar. Hafi eigandi jarðarinnar krafist þess að varnaraðili víki af eigninni og því ljóst að hann dvelji þar í óþökk eiganda hennar. Ljóst sé að jörðin komi aldrei til skipta milli aðila, enda sé hún ekki eign þeirra. Af þeirri ástæðu geti niðurstaðan aldrei orðið sú að varnaraðili verði áfram í íbúðarhúsinu eftir skilnað aðila, en fyrir liggi að sóknaraðila standi áframhaldandi búseta þar til boða.
Sóknaraðili telur það engu skipta fyrir réttindi sóknaraðila til búsetu á eigninni að varnaraðili telji sig eiga ábúðarréttindi á jörðinni. Sé varnaraðili með háttsemi sinni að koma í veg fyrir þau sjálfsögðu lögbundnu réttindi sóknaraðila að fá skilnað að borði og sæng, en fyrir liggi að sýslumaður muni fella niður skilnaðarleyfi flytji annar aðila ekki lögheimili sitt af eigninni innan tiltekins tíma. Sóknaraðili sé sjúklingur og þráseta varnaraðila á jörðinni hafi haft afar skaðleg áhrif á heilsu hennar. Sé sóknaraðila mikilvægt að vera í námunda við foreldra sína í öruggu, ódýru húsnæði. Séu möguleikar hennar til öflunar annars húsnæðis litlir sem engir vegna fjárhagsstöðu hennar og séu afkomuhorfur hennar slæmar vegna sjúkdómsins. Sóknaraðili hafi átt lögheimili í Litlu-Sandvík frá fæðingu og séu tengsl hennar við eignina miklu meiri en tengsl varnaraðila sem að auki dvelji þar í óþökk eigenda. Eigi öll framangreind rök að leiða til þess að staðfesta beri ákvörðun skiptastjóra.
Sóknaraðili vísar til 72. gr. aðfararlaga, en hagsmunir sóknaraðila af því að fá aðfararhæfan úrskurð til að grundvalla útburð séu afar miklir og nauðsynlegt að heimildin verði tvímælalaus. Sóknaraðili reisir málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 130. gr. laganna.
Varnaraðili telur það grundvallaratriði til að unnt sé að fallast á kröfu um útburð að krafan sé ótvíræð og skýr og réttur sóknaraðila vafalaus. Það sé hins vegar ekki raunin í máli þessu. Hafi varnaraðili, ásamt sóknaraðila og börnum þeirra, búið í íbúðarhúsnæðinu að Litlu-Sandvík til fjölda ára og stundað búskap á jörðinni. Telji varnaraðili sig eiga ábúðarrétt að jörðinni og hafi krafist viðurkenningar á þeim rétti fyrir dómstólum. Samkvæmt ábúðarlögum nr. 80/2004 sé ábúanda skylt að eiga lögheimili á jörð sinni og nytja hana. Sé því ljóst að varnaraðili hafi mjög ríka hagsmuni af því að búa á eigninni uns niðurstaða liggi fyrir í máli hans til viðurkenningar á ábúðarrétti. Telji varnaraðili ekki grundvöll til þess að krefjast þess að hann víki af eigninni fyrr en niðurstaða varðandi ábúðarrétt hans liggur fyrir. Ef fallist yrði á kröfu sóknaraðila sé ljóst að það myndi valda varnaraðila verulegu tjóni og gæti valdið því að hann missti rétt til ábúðar samkvæmt ákvæðum ábúðarlaga.
Varnaraðili vísar til stuðnings kröfum sínum til 2. mgr. 112. gr. hjúskaparlaga og hafnar því að ákvæði í hjúskaparlögum geti gengið framar þeirri meginreglu um að krafa sóknaraðila þurfi að vera ótvíræð og ljós til að unnt sé að fallast á útburð. Þrátt fyrir að skiptastjóri hafi tekið ákvörðun um að réttur sóknaraðila til að búa í húsnæðinu eigi samkvæmt hjúskaparlögum að ganga framar rétti varnaraðila, geti það eitt og sér ekki leitt til þess að fallast eigi á útburðarkröfu sóknaraðila. Sú niðurstaða gæti hins vegar leitt af sér verulegt tjón fyrir varnaraðila. Þá bendir varnaraðili á að umrætt lagaákvæði fjalli um rétt annars hjóna til að halda áfram leigumála ef hjón hafa í sameiningu verið leigjendur að fasteign. Það eigi hins vegar ekki við um aðila málsins sem hafi verið ábúendur á jörðinni í fjölda ára. Telur varnaraðili umrætt lagaákvæði ekki eiga við í málinu. Telur varnaraðili því ekki unnt að fallast á útburðarkröfu sóknaraðila fyrr en skýr niðurstaða liggi fyrir varðandi rétt hans til ábúðar á jörðinni.
Varnaraðili vísar um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 130. gr.
Niðurstaða.
Samkvæmt 2. mgr. 112. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 tekur skiptastjóri, í þeim tilvikum þegar opinber skipti fara fram milli hjóna, ákvörðun um það hvort hjóna haldi áfram leigumála eftir sömu reglum og kveðið er á um í 1. mgr. Samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar skal ákveða eftir öllum aðstæðum hvort þeirra haldi áfram leigumálanum og skal einkum tekið tillit til þarfa hjóna og barna þeirra. Skiptastjóri byggir ákvörðun sína á því að málsaðilar eigi þrjú börn saman undir 18 ára aldri og hafi sóknaraðili farið fram á að fá forsjá barnanna. Í ljósi hins sérstaka sambýlis, sem tengist fjölskyldu konunnar, sérstakra þarfa hennar til dvalar í húsnæðinu sem og barna þeirra hjóna, tók skiptastjóri þá ákvörðun að sóknaraðili héldi rétti til dvalar í íbúðarhúsnæðinu að Litlu-Sandvík. Þessi sjónarmið um þarfir sóknaraðila og barnanna hafa ekki sætt andmælum af hálfu varnaraðila, en hann mótmælir því að krafa um útburð nái fram að ganga fyrr en skýr niðurstaða fáist um rétt hans til ábúðar á jörðinni. Eru því ekki efni til að hrófla við þeirri ákvörðun skiptastjóra að sóknaraðili haldi rétti til dvalar í íbúðarhúsnæðinu, en í þessari ákvörðun felst ekki úrlausn um hugsanlegan ábúðarrétt varnaraðila á jörðinni.
Varnaraðili hefur höfðað einkamál á hendur föður sóknaraðila í því skyni að viðurkenndur verði með dómi lífstíðarábúðarréttur, en til vara ótímabundinn ábúðarréttur hans að jörðinni Litlu-Sandvík og Stóru-Sandvík II. Þessu máli var vísað frá dómi samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 á þeim grundvelli að hjónin virtust hafa haft sameiginlegan ábúðarrétt á jörðinni og hefði varnaraðila því verið rétt að stefna konu sinni inn í málið. Samkvæmt 26. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004, skal, ef annað hjóna eða bæði hafa ábúðarrétt á jörð og hjúskap þeirra lýkur, fara um ábúðarréttindin í samræmi við ákvæði hjúskaparlaga ef hjónin koma sér ekki saman um hvort þeirra skuli hljóta ábúðarréttindin. Verði komist að þeirri niðurstöðu að ábúðarréttur sé fyrir hendi kemur til kasta skiptastjóra að ákveða í samræmi við ákvæði laga nr. 20/1991 hvor málsaðila hljóti ábúðarréttinn. Ákvörðun skiptastjóra þar að lútandi mætti skjóta til héraðsdóms. Meðan ekki hefur verið skorið úr hugsanlegum rétti varnaraðila að þessu leyti, er ekki unnt að svo stöddu að fallast á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði borinn út úr íbúðarhúsnæðinu að Litlu-Sandvík.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.
Málsaðilar hafa báðir gjafsókn í máli þessu eins og áður getur. Allur kostnaður þeirra af málinu skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns sóknaraðila, Valborgar Þ. Snævarr, hrl., 124.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 32.820 krónur vegna útlagðs kostnaðar og þóknun lögmanns varnaraðila, Valgerðar Valdimarsdóttur, hdl., 124.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Lögmaður varnaraðila hefur ekki gert grein fyrir útlögðum kostnaði.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Staðfest er sú ákvörðun skiptastjóra að sóknaraðili, Aldís Pálsdóttir, haldi rétti til dvalar í íbúðarhúsnæðinu að Litlu-Sandvík.
Hafnað er að svo stöddu kröfu sóknaraðila um að varnaraðili, Óli Pétur Gunnarsson, verði borinn út úr íbúðarhúsnæðinu að Litlu-Sandvík.
Málskostnaður milli aðila fellur niður. Allur kostnaður málsaðila af málinu skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns sóknaraðila, Valborgar Þ. Snævarr, hrl., 124.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 32.820 krónur vegna útlagðs kostnaðar og þóknun lögmanns varnaraðila, Valgerðar Valdimarsdóttur, hdl., 124.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.