Hæstiréttur íslands
Mál nr. 643/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Frestur
|
|
Mánudaginn 19. desember 2011. |
|
Nr. 643/2011.
|
Háttur ehf. (Ólafur Eiríksson hrl.) gegn Arion banka hf. (Andri Árnason hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Frestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa A hf. um að bú H ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Hæstiréttur hafnaði kröfu A hf. með vísan til þess að áskoranir A hf. sem birtar voru fyrir H ehf. hefðu ekki uppfyllt skilyrði 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. nóvember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2011 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að taka bú sóknaraðila til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hafnað kröfu varnaraðila um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Hinn 11. ágúst 2010 voru forsvarsmanni sóknaraðila birtar tvær áskoranir frá varnaraðila. Áskoranir þessar eru dagsettar 28. júlí 2010 og í þeim báðum er vísað til 5. töluliðs 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Í annarri áskoruninni er sagt að krafa samkvæmt lánssamningi í erlendum myntum nr. 35-4917, með útgáfudegi 2. apríl 2007, sé í innheimtu hjá lögfræðideild varnaraðila. Fram kemur fjárhæð kröfunnar í hinum erlendu myntum auk þess sem tekið er fram að fjárhæð hennar í íslenskum krónum miðað við skráð sölugengi myntanna hjá Seðlabanka Íslands 27. júlí 2010 nemi 993.316.632 krónum. Þá er vísað til þess að samkvæmt ársreikningi sóknaraðila fyrir árið 2008 hafi tap af rekstri hans það ár numið 1.164 milljónum króna og eigið fé í árslok verið neikvætt um 909 milljónir króna. Síðan segir svo í áskorun þessari: „Arion banki hf. skorar hér á yður, sem stjórnarmann og framkvæmdastjóra Háttar ehf., að beina yfirlýsingu til bankans þar sem því er lýst yfir að Háttur ehf. sé greiðslufært og að efnahagur félagsins sé með þeim hætti að félagið verði fært að greiða ofangreinda skuld við Arion banka hf. innan tveggja (2) vikna frá dagsetningu yfirlýsingarinnar. Hafi slík yfirlýsing ekki borist bankanum ... innan þriggja (3) vikna frá dagsetningu þessarar áskorunar, verður gerð krafa um að bú Háttar ehf. verði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. b-lið 17. gr. laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti nr. 95/2010.“
Í hinni áskoruninni er sagt að varnaraðili eigi „eftirfarandi“ kröfur á hendur sóknaraðila. Í skjalinu sem sent var Hæstarétti með öðrum gögnum málsins er þessi áskorun tvær blaðsíður. Á þeirri fyrri eru tilteknar tvær kröfur. Um aðra er notað númerið 35-2200 og sagt að útgáfudagur sé 4. mars 2005. Næsti gjalddagi sé 1. september 2010, gjaldfallnar eftirstöðvar 1.715.097 japönsk yen og ógjaldfallnar eftirstöðvar 73.749.184 japönsk yen. Af sundurliðun verður ráðið að afborgun frá 1. júní 2010 sé ógreidd. Hin krafan sem getið er um á þessari blaðsíðu bréfsins er merkt 35-2838. Útgáfudagur er sagður vera 13. janúar 2006 og næsti gjalddagi 3. ágúst 2010. Gjaldfallnar eftirstöðvar nemi 1.171.949 japönskum yenum og ógjaldfallnar eftirstöðvar 41.018.188 japönskum yenum. Af sundurliðun verður ráðið að afborgun með gjalddaga 3. maí 2010 sé ógreidd.
Í hinum kærða úrskurði er talið að þessi áskorun hafi haft að geyma kröfu vegna fjögurra skuldabréfa. Hæstiréttur leitaði eftir skýringu á þessu og fékk þá sent frá Héraðsdómi Reykjavíkur ljósrit af blaðsíðu, sem sýnilega á að koma næst á eftir blaðsíðu eitt sem lýst er að framan. Hefur þessi viðbót að geyma lýsingu á ógjaldföllnum eftirstöðvum síðari kröfunnar af fyrri blaðsíðunni auk þess sem tilgreind eru tvö skuldabréf í viðbót sem bæði virðast vera í vanskilum frá gjalddögum 1. og 10. júní 2010. Varnaraðili hefur gefið Hæstarétti þá skýringu á þessu skjali að þar séu tilteknar tvær kröfur en ekki fjórar. Svör frá sóknaraðila til Hæstaréttar voru meðal annars á þá leið að ekki væri viðurkennt að þessi áskorun hafi verið birt fyrir varnaraðila né að það hafi verið allar blaðsíðurnar þrjár sem birtar hafi verið.
Á síðustu blaðsíðu þessarar síðari áskorunar er að finna svofelldan texta: „Áskorun þessi er send þar sem Háttur ehf. hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar við Arion banka hf. samkvæmt lánasamningi nr. 0358-35-4917, sem er í innheimtu hjá lögfræðideild bankans. Krafa Arion banka hf. samkvæmt þeim lánasamningi í íslenskum krónum er 993.316.632,- kr. sé krafan umreiknuð m.v. skráð sölugengi myntanna hjá Seðlabanka Íslands þann 27.07.2010. Arion banki hf. skorar hér á yður, sem stjórnarmann Háttar ehf., að beina yfirlýsingu til bankans þar sem því er lýst yfir að Háttur ehf. sé gjaldfært og að félagið verði fært um að greiða komandi afborganir af umræddu láni til Arion banka hf. Hafi slík yfirlýsing ekki borist bankanum ... innan þriggja (3) vikna frá dagsetningu þessarar áskorunar, verður gerð krafa um að bú Háttar ehf. verði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. b-lið 17. gr. laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti nr. 95/2010.“
II
Meðal gagna málsins er bréf Logos lögmannsþjónustu til varnaraðila 17. ágúst 2010, en sú lögmannsstofa hefur annast rekstur málsins fyrir sóknaraðila. Þetta mun vera bréfið sem í hinum kærða úrskurði er talið skrifað 18. ágúst 2010. Í bréfinu er sagt að fyrirsvarsmaður sóknaraðila hafi leitað til stofunnar vegna bréfs varnaraðila „sem var birt umbj. okkar 28. júlí s.l.“ Af efni bréfsins sést að því er ætlað að vera svar við fyrri greiðsluáskorun varnaraðila sem áður var getið og varðaði lánssamning nr. 35-4917 frá 2. apríl 2007, en þessi áskorun var samkvæmt birtingarvottorði á lausu blaði birt sóknaraðila 11. ágúst 2010. Virðist ekki vera ágreiningur með aðilum um að birting á þessari áskorun hafi átt sér stað þennan dag. Í svarbréfi lögmannsstofunnar er talið að óvissa ríki um skuldbindingar sóknaraðila við varnaraðila, meðal annars vegna ákvæða lánssamninga um „gengistryggingu“. Í bréfinu er fjallað almennt um fjárhag sóknaraðila en síðan meðal annars sagt: „Miðað við þær forsendur sem umbj. okkar hefur gefið sér í þeim gögnum er fylgja bréfi þessu er eiginfjárstaða félagsins jákvæð og því fyrirséð að það geti mætt skuldbindingum sínum.“ Í lokakafla þessa bréfs segir svo: „Á grundvelli alls þess sem að framan er rakið mun Háttur ekki lýsa því yfir að félagið sé greiðslufært og efnahagur félagsins sé með þeim hætti að félagið verði fært að greiða þá skuld sem tilgreind er í áskorun Arion innan tveggja vikna frá dagsetningu slíkrar yfirlýsingar enda er ljóst að Háttur skuldar Arion ekki þá fjárhæð.“
III
Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta að fullnægðu einhverju af þeim skilyrðum sem þar eru nú talin upp í fimm töluliðum, enda sýni skuldarinn ekki fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Með 17. gr. laga nr. 95/2010 var bætt við skilyrði því sem varnaraðili byggir á í þessu máli. Þar er lánardrottni heimilað að krefjast gjaldþrotaskipta á búi skuldara hafi hann ekki innan þriggja vikna orðið við áskorun lánardrottins, sem birt hefur verið skuldara eftir sömu reglum og gilda um birtingu stefnu í einkamáli, um að lýsa því skriflega yfir að hann verði fær um að greiða skuld við hlutaðeigandi lánardrottinn þegar hún fellur í gjalddaga eða innan skamms tíma ef hún er þegar gjaldfallin.
Þetta lagaákvæði hefur að geyma sérreglu sem beinist að því að auðvelda lánardrottni að knýja fram gjaldþrotaskipti á búi skuldara. Af því leiðir að gera verður strangar kröfur til lánardrottins um að hann hafi fullnægt þeim skilyrðum sem lagaákvæðið kveður á um til þess að krafa hans um gjaldþrotaskipti á búi skuldara verði tekin til greina. Af síðari áskorun varnaraðila sem getið er að framan verður ekki með vissu ráðið að hvaða skuld sóknaraðila áskorunin beinist, þar sem hún er sögð send af því tilefni að sóknaraðili hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt lánssamningnum sem fyrri áskorunin tekur til, auk þess sem í þessari áskorunin er talað um „komandi afborgun af umræddu láni“ án þess að séð verði hvaða lán þar er átt við, hvort það sé lánið sem fyrri áskorunin tekur til eða hvort það sé eitt, tvö eða fjögur lán sem síðari áskorunin á að taka til án þess að þó sé ljóst hversu mörg þau hafi verið. Þessi áskorun er svo ómarkviss og ruglingsleg að hún getur ekki haft þau réttaráhrif að verða grundvöllur gjaldþrotabeiðni samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.
IV
Fyrr var lýst efni áskorunar varnaraðila vegna lánssamnings nr. 35-4917. Svo sem þar greinir var þess krafist að svar bærist frá sóknaraðila innan þriggja vikna frá dagsetningu áskorunarinnar, sem var 28. júlí 2010. Þetta á sér ekki stoð í umræddri lagaheimild, þar sem talið verður að hinn tilgreindi þriggja vikna frestur eigi að teljast frá birtingu áskorunar, en svo sem fyrr greinir átti hún sér stað 11. ágúst 2010. Þó að sóknaraðili hafi ekki með skýrum hætti byggt á því að þessi annmarki á áskorun varnaraðila standi kröfu hans um gjaldþrotaskipti í vegi hefur hann allt að einu meðal annars byggt andmæli sín á því að frestur sem honum hafi verið gefinn til svara hafi verið of skammur. Með hliðsjón af því þykir mega byggja dóm á þessu og verður hinn kærði úrskurður þegar af þessari ástæðu felldur úr gildi.
Eins og atvikum er háttað er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Arion banka hf., um að bú sóknaraðila, Háttar ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2011.
Sóknaraðili, Arion banki hf., kt. 581008-0150, Borgartúni 19, Reykjavík, krafðist þess með bréfi sem barst dóminum 6. apríl 2011 að bú varnaraðila, Háttar ehf., kt. 710805-0240, Suðurlandsbraut 12, Reykjavík, yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Við munnlegan málflutning krafðist sóknaraðili einnig málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.
Sóknaraðili segir að varnaraðili skuldi sér fé samkvæmt einum lánssamningi og fjórum skuldabréfum, allt í erlendri mynt. Samanlagðar kröfur nemi 1.329.326.536 krónum. Er þá miðað við gengi gjaldmiðla 29. mars 2011. Varnaraðili hreyfði því sjónarmiði að kröfur sóknaraðila væru ekki í erlendri mynt, heldur í íslenskum krónum, verðtryggðum miðað við gengi gjaldmiðla. Sóknaraðili kveðst ekki fallast á þetta sjónarmið, en hafi samt látið reikna kröfur sínar miðað við að þær verði taldar í íslenskum krónum. Þetta hafi hann gert til að sýna fram á að fjárhagsstaða varnaraðila væri slík að óhjákvæmilegt væri að taka bú hans til gjaldþrotaskipta, hvort sem fallist yrði á að kröfurnar væru í erlendri mynt eða ekki. Hann kveðst hafa reiknað þær í samræmi við ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Þannig sé upphaflegur höfuðstóll hverrar kröfu vaxtareiknaður með óverðtryggðum vöxtum Seðlabankans, sbr. 1. ml. 4. gr. laga nr. 38/2001. Frá þeirri fjárhæð dragist allar greiðslur, sem gerðarþoli hafi innt af hendi, vaxtareiknaðar frá greiðsludegi. Þannig útreiknuð fjárhæð myndi eftirstöðvar skuldarinnar, þ.e. höfuðstól hverrar kröfu í íslenskum krónum. Samkvæmt þessum útreikningi nemi kröfurnar samtals 640.311.756 krónum.
Um er að ræða þessa lánssamninga:
Lánasamningur nr. 0351-35-4917 er í tveimur myntum. Í beiðni segir að eftirstöðvar með samningsvöxtum og dráttarvöxtum til 30. mars 2011 nemi samtals 6.042.362 svissneskum frönkum og 245.163.662 japönskum jenum. Þá reiknar hann 13.403.517 króna kostnað.
Sé skuldin talin vera í íslenskum krónum telur sóknaraðili að hún nemi samtals 538.911.295 krónum.
Skuldabréf nr. 0351-35-2200 er í japönskum jenum. Í beiðni segir að eftirstöðvar með samningsvöxtum og dráttarvöxtum til 30. mars 2011 nemi samtals 84.044.785 jenum og kostnaður nemi 3.148.213 krónum.
Sé skuldin talin vera í íslenskum krónum telur sóknaraðili að hún nemi samtals 56.560.391 krónu.
Skuldabréf nr. 0351-35-2838 er í japönskum jenum. Í beiðni segir að eftirstöðvar með samningsvöxtum og dráttarvöxtum til 30. mars 2011 nemi 44.171.331 jeni og kostnaður nemi 1.939.514 krónum.
Sé skuldin talin vera í íslenskum krónum telur sóknaraðili að hún nemi samtals 32.550.565 krónum.
Skuldabréf nr. 0351-35-4258 er í japönskum jenum. Í beiðni segir að eftirstöðvar með samningsvöxtum og dráttarvöxtum til 30. mars 2011 nemi 10.311.764 jenum og kostnaður nemi 668.944 krónum.
Sé skuldin talin vera í íslenskum krónum telur sóknaraðili að hún nemi samtals 6.611.565 krónum.
Skuldabréf nr. 0351-35-6712 er í japönskum jenum. Í beiðni segir að eftirstöðvar með samningsvöxtum og dráttarvöxtum til 30. mars 2011 nemi 8.429.956 jenum og kostnaður nemi 600.246 krónum.
Sé skuldin talin vera í íslenskum krónum telur sóknaraðili að hún nemi samtals 5.677.940 krónum.
Í beiðni segir að samanlögð fjárhæð krafna sé 1.329.326.536 krónur. Er þá miðað við gengi 29. mars 2011.
Til tryggingar kröfum sínum á sóknaraðili veð í fasteignunum Síðumúla 20-22 og Efri-Rauðalæk. Löggiltir fasteignasalar mátu eignir þessar fyrir sóknaraðila. Matið fór fram í nóvember 2009 og var fasteignin Síðumúli 20-22 talin 280.000.000 króna virði, en Efri-Rauðalækur var metinn á 150.000.000 króna. Þetta telur sóknaraðili sýna að kröfur sínar séu ekki nægilega tryggðar.
Sóknaraðili vísar til þess að samkvæmt síðasta ársreikningi er varnaraðili hafi skilað til ríkisskattstjóra hafi eigið fé félagsins verið neikvætt um 909 milljónir króna í árslok 2008.
Sóknaraðili skoraði á forsvarsmann varnaraðila að lýsa félagið greiðslufært og að það gæti greitt tiltekna skuld innan tveggja vikna. Var vísað til 5. tl. 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga.
Áskorun þessi var birt 11. ágúst 2010. Með bréfi dags. 18. ágúst 2010 svaraði lögmaður varnaraðila. Þar eru í löngu máli gerðar athugasemdir við málatilbúnað sóknaraðila, einkum er lögð áhersla á að um sé að ræða kröfur sem í raun séu í íslenskum krónum og gengistryggðar. Er skorað á sóknaraðila að leggja fram nýjan útreikning krafnanna. Undir lok bréfsins segir: „Á grundvelli alls þess sem að framan er rakið mun Háttur ekki lýsa því yfir að félagið sé greiðslufært og efnahagur félagsins sé með þeim hætti að félagið verði fært að greiða þá skuld sem tilgreind er í áskorun Arion innan tveggja vikna frá dagsetningu slíkrar yfirlýsingar enda er ljóst að Háttur skuldar Arion ekki þá fjárhæð. Umbj. okkar lýsir sig tilbúinn til viðræðna “
Sóknaraðili byggir á 5. tl. 2. mgr. 65. laga nr. 21/1991, sbr. b-lið 17. gr. laga nr. 95/2010. Þá segir hann að hvorki 2. né 3. mgr. 65. gr. laganna eigi hér við.
Varnaraðili kveðst skulda sóknaraðila samkvæmt þeim lánssamningi og skuldabréfum sem hann vísi til. Hann kveðst hafa greitt skilvíslega allt þar til honum varð ljóst að lánin væru gengistryggð á ólögmætan hátt. Hafi hann leitað eftir því að hann yrði krafinn um réttar efndir, en því hafi sóknaraðili ekki sinnt.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili geti ekki krafist gjaldþrotaskipta þar sem hann hafi krafið hann um yfirlýsingu er varðaði mun hærri skuld en hann hafi með réttu getað krafið hann um. Umræddir samningar feli í sér ólögmæta gengistryggingu. Áskorun samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga hljóti að miða við ákveðna fjárhæð og það verði að vera hin raunverulega skuld. Umfjöllun sóknaraðila í gjaldþrotabeiðni um endurútreikning krafnanna breyti hér engu.
Varnaraðili byggir á því að óheimilt hafi verið að krefja hann um yfirlýsingu innan tveggja vikna. Í 5. tl. segi að það skuli gert innan skamms tíma. Áskorun sóknaraðila uppfylli því ekki formskilyrði greinarinnar. Þá byggir varnaraðili á því að lánið sem hann var krafinn um hafi aldrei verið gjaldfellt. Vísar hann hér til ákvæðis 9. gr. samnings aðila um gjaldfellingu og ákvæðis 10. gr. um tilkynningar. Gjaldfelling lánsins hafi aldrei verið tilkynnt.
Þá telur varnaraðili að of langur tími hafi liðið frá því að hann svaraði áskorun sóknaraðila þar til krafa um gjaldþrotaskipti kom fram. Beita verði hér grunnrökum 65. gr. gjaldþrotalaga þannig að krafa um gjaldþrotaskipti verði að koma fram innan skamms tíma frá því að skuldari verður ekki við þeirri áskorun um að lýsa sig gjaldfæran. Vísar hann einnig til almennra reglna kröfuréttar um tómlæti.
Varnaraðili skýrir nánar þá málsástæðu sína að lánssamningur aðila frá 2. apríl 2007 sé um lán í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla.
Hann bendir á að höfuðstóll hafi aðeins verið tilgreindur í íslenskum krónum, en myntviðmið í hlutföllum. Hann hafi skuldbundið sig til að nýta lánsfjárhæðina til kaupa á íslenskum fasteignum og þau kaup hafi farið fram í íslenskum krónum. Engin gjaldeyrisviðskipti hafi átt sér stað við útborgun lánsins. Lánsféð hafi ekki verið greitt út í erlendum gjaldmiðlum. Afborganir og vextir hafi verið greidd í íslenskum krónum, venjulega með því að sóknaraðili skuldfærði tékkareikning varnaraðila, sem sé í íslenskum krónum, samkvæmt heimild í samningnum. Þannig hafi í raun verið gert ráð fyrir efndum samnings í íslenskum krónum.
Þá bendir varnaraðili á 5. gr. samningsins þar sem fram komi að hinir erlendu gjaldmiðlar hafi verið til viðmiðunar um höfuðstól skuldarinnar. Loks hafi umboð til undirritunar samningsins af hálfu varnaraðila einungis náð til fjárhæðarinnar 400.000.000 króna.
Þá telur varnaraðili að skuldabréfin fjögur séu bersýnilega um íslensk lán bundin gengi erlendra gjaldmiðla. Þannig sé höfuðstóll einungis tilgreindur í íslenskum krónum og allar greiðslur hafi verið inntar af hendi í íslenskum krónum líkt og gert sé ráð fyrir í skuldabréfunum. Þá bendir hann nánar á orðalag skuldabréfanna um ýmis atriði.
Þá telur varnaraðili að endurútreikningur á kröfum sóknaraðila fái engu breytt. Hann hafi aldrei verið krafinn um greiðslu á þeim grundvelli. Hann kveðst ekki hafa forsendur til að meta hvort sóknaraðili hafi reiknað réttilega samkvæmt 18. gr. vaxtalaga, en fylgiskjöl með kröfu sóknaraðila nægi ekki til að sýna fram á það. Sóknaraðili beri hér sönnunarbyrði. Þá sé óljóst hvort krafa um dráttarvexti sé innifalin í fjárhæðinni.
Varnaraðili mótmælir því sérstaklega að unnt sé að krefja hann um dráttarvexti. Hann hafi ekki verið krafinn réttilega um greiðslu og skuldirnar hafi verið gjaldfelldar. Þá kæmi 7. gr. vaxtalaga í veg fyrir slíka kröfu. Dráttarvextir verði ekki reiknaðir af skuld sem varnaraðila hafi verið ókleift að greiða vegna þess að sóknaraðili neitaði að krefja um réttar efndir.
Þá mótmælir varnaraðili fjárhæð dráttarvaxta. Ákvæði í samningi um dráttarvexti sé ógilt. Vextina verði að reikna samkvæmt ófrávíkjanlegum reglum 6. gr. vaxtalaga.
Varnaraðili mótmælir mötum þeim á verðmæti veðtrygginga sem sóknaraðili vísar til. Segir hann þau ekki hafa neitt sönnunargildi. Þeirra hafi verið aflað einhliða.
Verðmat á Síðumúla 20-22 sé órökstutt og nærri tveggja ára gamalt. Hafi það verið unnið á óvissutímum. Ekki liggi í raun neitt fyrir um verðmæti eignarinnar annað en kaupverð hennar í apríl 2007, 400.000.000 króna. Sóknaraðili beri sönnunarbyrðina fyrir því að verðmætið sé annað og lægra nú.
Varnaraðili segir einnig að verðmat á Efri-Rauðalæk sé lítt rökstutt. Ekkert liggi fyrir um að verðmæti jarðarinnar sé annað en lagt sé til grundvallar í bókhaldi og ársreikningum varnaraðila. Hvíli sönnunarbyrðin á sóknaraðila vilji hann hnekkja því.
Samkvæmt þessu og þar sem enn hafi ekki verið lögð fram fullnægjandi gögn um fjárhæð skuldarinnar, verði ekki annað séð en að krafan sé nægilega tryggð með veði, sbr. 3. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga.
Í munnlegum málflutningi benti sóknaraðili á að í áðurnefndum endurútreikningi væru ekki reiknaðir neinir dráttarvextir. Þá væri það ekki áskilið í 5. tl. 65. gr. að krafa væri gjaldfallin.
Niðurstaða
Sóknaraðili skoraði á varnaraðila að lýsa sig færan um að greiða skuldir samkvæmt tilgreindum lánssamningi og skuldabréfum. Varnaraðili kvaðst ekki mundu svara. Gerði hann margs konar athugasemdir við áskorun sóknaraðila, en lýsti sig ekki færan um að greiða skuld sína.
Skorað var á varnaraðila að lýsa sig færan um að greiða innan tveggja vikna. Í lögunum er miðað við skamman tíma. Úr því að varnaraðili neitaði að verða við áskorun sóknaraðila þarf ekki að leysa úr því hvort tvær vikur sé of skammur tími í þessu samhengi. Áskorunin verður ekki ógild vegna þessa, en ef á reyndi yrði dómurinn að leysa úr um það hvort svar við áskorun væri fullnægjandi. Skilyrðum 5. tl. 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotalaga var fullnægt þegar svar lögmanns varnaraðila barst sóknaraðila í ágúst 2010.
Varnaraðili telur að sér hafi ekki verið skylt að svara þar sem hann skuldi ekki eins háa fjárhæð og tilgreind var í áskoruninni. Á þetta verður ekki fallist. Skorað var á hann að lýsa sig færan um að greiða tilteknar skuldir, sem hann mótmælir ekki að hann skuldi. Ágreiningur um fjárhæð skuldar leysir hann ekki undan því að svara áskorun sóknaraðila.
Beiðni sóknaraðila um töku bús varnaraðila til gjaldþrotaskipta barst dóminum eins og áður segir 6. apríl 2011. Þá voru liðnir meira en sjö mánuðir frá því að áðurgreint svar varnaraðila barst. Ekki er settur neinn tímafrestur í 5. tl. til að krefjast gjaldþrotaskipta, þótt eðli máls samkvæmt hljóti einhver takmörk að gilda í því efni. Reglu 1. tl. verður ekki beitt hér með lögjöfnun. Sá tími sem leið í þessu tilviki er ekki óhæfilega langur. Þá hefur því ekki verið haldið fram að fjárhagur varnaraðila hafi breyst svo einhverju skipti á þessu tímabili. Verður ekki fallist á þessa málsástæðu varnaraðila.
Kröfur sóknaraðila eru tryggðar með veði í fasteignum. Upplýsingar um verðmæti þeirra eru ekki traustar, en matsmaður var ekki dómkvaddur til að meta ætlað söluverð þeirra. Sóknaraðili lagði fram möt er unnin voru á hans vegum í nóvember 2009. Þar er verðmæti eignarhluta í Síðumúla 20 og 22 talið nema 280.000.000 króna, en verðmæti jarðarinnar Efri-Rauðalækjar 150.000.000 króna. Fateignamat eignanna nemur lægri fjárhæð. Ekkert er fram komið er bendir til að verðmæti eignanna sé meira en talið var í matsgerðunum í nóvember 2009.
Skuld varnaraðila nemur ekki lægri fjárhæð en 640.311.756 krónum, sem er fjárhæð skuldarinnar að mati sóknaraðila, ef fallist er á að skuldirnar séu í íslenskum krónum og beri ólögmæta gengistryggingu. Haldbær mótmæli hafa ekki komið fram við þessum útreikningi sóknaraðila. Þá er ekki unnt að miða neitt við kaupverð í viðskiptum sem áttu sér stað fyrir mörgum árum. Hefur því ekki verið sannað að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með veði.
Málsástæðum varnaraðila er öllum hafnað. Sóknaraðili hefur sýnt fram á að fullnægt er skilyrðum 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sbr. b-lið 17. gr. laga nr. 95/2010. Ber því að taka bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Að kröfu sóknaraðila, Arion banka hf., er bú varnaraðila, Háttar ehf., kt. 710805-0240, Suðurlandsbraut 12, Reykjavík, tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.