Hæstiréttur íslands
Mál nr. 421/2013
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Einkaréttarkrafa
|
|
Þriðjudaginn 17. desember 2013. |
|
Nr. 421/2013. |
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl. lögmaður brotaþola) |
Líkamsárás. Skilorð. Einkaréttarkrafa.
X var sakfelldur fyrir líkamsárás gegn A með því að hafa í þrígang sömu nóttina, ráðist að A með spörkum og slegið hana í andlit og líkama, með þeim afleiðingum að hún hlaut áverka á hönd, hnakka og kjálka, mar víða á líkamann og 5 brotnar tennur. Var brot X talið varða við 1. mgr. 218. gr. alm. hgl. nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til aðdraganda árásarinnar, þess að X játaði brot sín skýlaust fyrir dómi og að hann hafði ekki áður gerst sekur um hegningarlagabrot. Var refsing X ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 6 mánuði auk þess sem honum var gert að greiða A skaðabætur að fjárhæð 630.580 krónur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða sem verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og dæmdar bætur lækkaðar.
Brotaþoli A krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í yfirlýsingu ákærða um áfrýjun kom ekki fram að hann gerði kröfu um lækkun á skaðabótakröfu brotaþola, eins og skylt er samkvæmt 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Af þeim sökum og með vísan til 1. mgr. 208. gr. sömu laga verður þeirri kröfu hans vísað frá Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og refsingu hans, fangelsi í sex mánuði.
Í samkvæminu aðfaranótt 25. janúar 2012, sem vísað er til í 1. lið ákæru, var ákærði staddur ásamt brotaþola, A fyrrum sambýliskonu sinni, en sambúð þeirra mun hafa lokið haustið 2011. Samkvæmt framburði ákærða við skýrslutöku hjá lögreglu kom til orðahnippinga milli hans og brotaþola. Kvað ákærði B, vinkonu brotaþola, hafa slegið sig og hann reiðst við það. Í kjölfarið hafi nokkrir aðrir gestir haldið sér og hann barist um í þeim tilgangi að losa sig frá þeim. Þessi framburður ákærða fær stoð í vitnisburði B og annarra vitna hjá lögreglu. Þegar litið er til þessa aðdraganda árásar ákærða á brotaþola umrætt sinn, auk þess sem hann játaði brot sín skýlaust fyrir dómi og hefur ekki áður gerst sekur um hegningarlagabrot, verður fullnustu refsingar hans frestað skilorðsbundið.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað verða staðfest.
Samkvæmt 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir.
Með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærða gert að greiða málskostnað brotaþola fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, B, sæti sex mánaða fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað og skaðabótakröfu A skulu vera óröskuð. Ákærði greiði brotaþola 125.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 8. maí 2013.
Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn í Borgarnesi með ákæru 8. mars 2013 á hendur ákærða, X, kt. [...]-[...], [...]. Málið var dómtekið 15. apríl 2013.
Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfararnótt miðvikudagsins 25. janúar 2012, ráðist á A kt. [...]-[...], með eftirfarandi hætti:
1. Er hann var staddur á [...], ráðist á A, sem þar var stödd í partíi, og sparkað í andlitið á henni.
2. Síðar sömu nótt, er hann var staddur á [...], en þangað hafði A farið með honum, ráðist á A og slegið hana og sparkað ítrekað í andlit hennar, hendur og líkama.
3. Síðar sömu nótt, er hann var staddur við heimili A að [...], en þangað hafði hann komið og óskað eftir að fá að tala við A og hún opnað fyrir honum, ráðist á A og slegið hana.
Afleiðingar ofangreindra árása eru þær að A fékk áverka á vinstri hönd, mar víða á líkamann, áverka á hnakka, áverka á kjálka og 5 brotnar tennur. Áverkum A er nánar lýst í áverkavottorði dags. 11.04.2012. Þar segir að hana verki í kjálka beggja vegna og finni til þegar hún bítur saman tennur, hún sé með hausverk og finni fyrir ógleði, og verki í úlnliði beggja vegna, hægri öxl og vinstri olnboga. Þá er hún með 3-4 cm stóran marblett aftan á hægri öxl, mar á ofanverðum upphandlegg, mar og bólgu á vinstri úlnlið, aumvið þreifingu yfir hálsvöðvafestum og kúlu aftan á hnakka hægra megin. Tannáverkunum er sérstaklega lýst í áverkavottorði tannlæknis dags. 27.03.2012 þannig að eftirfarandi fimm tennur hafi brotnað: +4 mesialt, +5 mesialt, -1 og -2 incisalt og 1- mesialt.
Telst þetta varða 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu eru gerðar þessar bótakröfur:
a) Þorbjörg I. Jónsdóttur hrl. fyrir hönd A kt. [...]-[...], gerir kröfu sem hér segir:
F.h. umbjóðanda míns A kt. [...]-[...], [...], [...], er hér með gerð eftirfarandi krafa um greiðslu skaðabóta úr hendi X, kt. [...]-[...], [...], vegna líkamsárásar aðfararnótt 25. janúar síðastliðinn.
Sundurliðun skaðabótakröfu:
Líkamstjón vegna tannbrots kr. 610.000
Miskabætur kr. 2.000.000
Þjáningabætur kr. 60.000
Útlagður lækniskostnaður kr. 23.000
Lögmannskostnaður kr. 125.500
Samtals kr. 2.818.500.-
Þá er gerð krafa um vexti á höfuðstól kröfunnar skv. 16. gr. skaðabótalaga nr.
50/1993 frá 25. janúar 2012 fram til 15. maí 2012 og dráttarvexti á höfuðstól kröfunnar frá þeim degi til greiðsludags skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Gerður er fyrirvari um aðra og breytta kröfugerð vegna málsins ef í ljós kemur frekara tjón hjá umbjóðanda mínum.“
Af hálfu ákæruvaldsins hefur verið fallið frá þeim lið í ákæru töluliðs 2 að ákærði hafi sparkað ítrekað í andlit brotaþola. Að því gættu hefur ákærði fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru og er játning hans studd sakargögnum. Eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotin, sem réttilega eru færð til refsilaga í ákæru.
Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki mál á sakaskrá sem hefur áhrif á ákvörðun viðurlaga.
Við ákvörðun refsingar er þess að gæta að líkamsárásin, sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir, var hrottaleg og af áverkum má ráða að ákærði beitti miklu afli og beindist árásin að höfði brotaþola. Að þessu gættu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu fjögurra mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Af hálfu brotaþola, A, er í ákæru gerð skaðabótakrafa á hendur ákærða. Ákærði hefur fallist á bótaskyldu, en mótmælir fjárhæð kröfunnar. Krafa um sjúkra- og tannlæknakostnað er studd reikningum samtals að fjárhæð 30.580 krónur og verður sá liður kröfunnar tekinn til greina. Þótt brotaþoli hafi orðið fyrir líkamstjóni vegna þeirra áverka sem ákærði veitti henni verður ekki með vissu ráðið af gögnum málsins umfang tjóns hennar að þessu leyti. Þá hefur brotaþoli engin gögn lagt fram í málinu sem renna stoðum undir kröfu hennar um bætur fyrir þjáningar. Að þessu gættu er krafa um bæði tannlæknakostnað og þjáningarbætur svo vanreifuð að vísa verður henni frá héraðsdómi.
Þá verður ákærða gert með vísan til 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, að greiða brotaþola miskabætur, sem þykja að öllum atvikum virtum hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Einnig verður fallist á vaxtakröfu brotaþola þannig að vextir reiknist frá 25 janúar 2012 til 27. september 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, en þá var mánuður liðinn frá því krafan var kynnt ákærða, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
Loks verður ákærða með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 gert að greiða sakarkostnað samkvæmt yfirliti ákæruvalds en málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola samkvæmt ákvörðun dómsins. Þær greiðslur þykja hæfilega ákveðnar að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómsorði. Jafnframt verður ákærða gert að greiða ferðakostnað verjandans.
Allan V. Magnússon, dómstjóri, kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti sex mánaða fangelsi, en fresta skal fullnustu fjögurra mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum
Ákærði greiði A 630.580 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 25. janúar 2012 til 27. september 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 662.733 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Jóhanns Karls Hermannssonar, hdl., 166.288 krónur, og ferðakostnað verjandans, 19.625 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Þorbjargar I. Jónsdóttur, hrl., 456.820 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti vegna starfa hennar við að halda fram kröfunni fyrir dómi. Um þóknun réttargæslumanns vísast til 48. gr., 216. gr. og 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.