Hæstiréttur íslands

Mál nr. 199/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun


                                     

Fimmtudaginn 19. mars 2015.

Nr. 199/2015.

A

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

gegn

Velferðarsviði Reykjavíkurborgar

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Nauðungarvistun.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2015 þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 5. sama mánaðar um að sóknaraðili skyldi vistast á sjúkrahúsi í allt að 21 dag. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gaf sá geðlæknir, sem annast hefur sóknaraðila, skýrslu fyrir héraðsdómi og kvað vera brýnt að hún vistaðist á sjúkrahúsi vegna geðrofssjúkdóms. Er samkvæmt því og með hliðsjón af gögnum málsins fullnægt skilyrðum 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga til vistunar sóknaraðila á sjúkrahúsi gegn vilja hennar. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Guðmundar St. Ragnarssonar   héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2015.

Með beiðni, dagsettri 5. þ.m. hefur A, kt. [...], [...], [...], sem vistuð er á geðdeild Landspítala, farið þess á leit að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 5. þ. m., um það að hún skuli vistast á sjúkrahúsi. 

Beiðni þessari er mótmælt af hálfu varnaraðila, félagsþjónustu Reykjavíkurborgar.

B geðlæknir, sem hefur stundað sóknaraðila að undanförnu, hefur komið fyrir dóm. Hann segir A vera haldna örlyndissjúkdómi með geðrofi, sem líklega tengist mjög öflugri sterameðferð sem hún þurfi nú að sæta vegna annars sjúkdóms.  Hún skynji það að hún sé nú manísk en hana skorti innsæi í umfang vandans sem geðrofssjúkdómurinn valdi. Brýnt sé því að hún vistist áfram á sjúkrahúsi í nokkra daga enn. Með vísan til þess sem rakið er hér að framan ber að ákveða að fyrrgreind ákvörðun ráðuneytisins skuli haldast.

Þóknun talsmanns sóknaraðila, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 75.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, ber að greiða úr ríkissjóði.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Synjað er kröfu sóknaraðila, A, kt. [...], [...], [...], um það að felld verði úr gildi sú ákvörðun innanríkisráðuneytisins að hún skuli vistast á sjúkrahúsi.

Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 75.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.