Hæstiréttur íslands

Mál nr. 342/2000


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Sameignarfélag
  • Prókúra
  • Umboð


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. mars 2001.

Nr. 342/2000.

Ragnar Duerke Hansen

Sæunn Erna Sævarsdóttir

Már Gunnþórsson og

Bílapartasala Garðabæjar sf.

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

Eignarhaldsfélaginu Jöfri hf.

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

 

Skuldabréf. Sameignarfélög. Prókúra. Umboð.

R, S og M ráku sameignarfélagið B með ótakmarkaðri ábyrgð. E krafði áfrýjendur um höfuðstól skuldabréfs, að viðbættum vöxtum og kostnaði, sem SH, starfsmaður B, hafði gefið út fyrir hönd þess. Áfrýjendur höfnuðu greiðsluskyldu á þeirri forsendu að SH hefði skort umboð til að skuldbinda B með útgáfu bréfsins. Ljóst var talið að hvorki hefði firmaskrá verið tilkynnt að SH gæti skuldbundið félagið né að félagið hefði veitt honum umboð til þess. Þá lægi ekkert fyrir um störf SH hjá B, sem nægði til að líta svo á að hann hefði notið stöðuumboðs til að gefa út skuldabréf í nafni félagsins. Var því fallist á að áfrýjendur væru ekki skuldbundnir af skuldabréfinu. Lögskipti að baki skuldabréfinu voru ekki talin geta komið til skoðunar þar sem málið hefði verið sótt eftir reglum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 6. september 2000. Þau krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi gaf Sævar Helgason út skuldabréf 19. október 1998 „pr.pr. Bílapartasala Garðabæjar sf.“ til stefnda að fjárhæð 879.750 krónur. Gekkst Sævar jafnframt í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldinni. Hún átti að bera hæstu skuldabréfavexti innlánsstofnana á hverjum tíma og greiðast með 48 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 1. nóvember 1998. Stefndi kveðst engar greiðslur hafa fengið af skuldinni. Samkvæmt ódagsettri tilkynningu, sem barst firmaskrá Garðabæjar 9. apríl 1991, reka áfrýjendurnir Ragnar Duerke Hansen, Sæunn Erna Sævarsdóttir og Már Gunnþórsson með ótakmarkaðri ábyrgð Bílapartasölu Garðabæjar sf. Stefndi höfðaði málið gegn áfrýjendum og Sævari Helgasyni með stefnu 31. ágúst 1999 til greiðslu höfuðstóls skuldar samkvæmt skuldabréfinu, sem að viðbættum umsömdum vöxtum til fyrsta gjalddaga nam 883.709 krónum, auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Málið var dómtekið í héraði 2. júní 2000 og hinn áfrýjaði dómur kveðinn upp 6. sama mánaðar. Með honum var krafa stefnda tekin að fullu til greina.

Í skýrslu, sem áfrýjandinn Már gaf við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi, kom fram að Sævar Helgason hafi verið starfsmaður Bílapartasölu Garðabæjar sf. Hafi Sævar haft heimild til að gefa út tékka á bankareikning félagsins. Hann hafi séð um daglega afgreiðslu og þannig mátt kaupa í þágu félagsins bifreiðir, en verð þeirra flestra hafi verið á bilinu frá 10.000 til 25.000 krónur. Sævar hafi hins vegar ekki getað bakað félaginu „stórar skuldbindingar“. Aðrir áfrýjendur gáfu ekki skýrslu fyrir dómi og heldur ekki Sævar.

Í fyrrnefndri tilkynningu til firmaskrár Garðabæjar segir að áfrýjendurnir Ragnar, Sæunn og Már riti sameiginlega firma Bílapartasölu Garðabæjar sf. Greinir þar einnig að áfrýjandinn Ragnar hafi prókúruumboð fyrir félagið, en annarra er ekki getið í því sambandi. Af þessu er ljóst að ekki var tilkynnt firmaskrá að Sævar Helgason gæti skuldbundið félagið. Eins og standa átti að ritun á firma þess hefði Sævar ekki getað fengið heimild í þessu skyni nema með atbeina allra áfrýjendanna Ragnars, Sæunnar og Más. Þótt ráða megi af framburði þess síðastnefnda fyrir dómi að Sævar kunni að hafa notið einhverrar heimildar til að baka félaginu skuldbindingar, er að engu leyti staðfest í málinu af hendi hinna tveggja að slík heimild hafi verið veitt. Af þeirri ástæðu verður ekki fallist á með stefnda að sýnt sé fram á að Sævari hafi verið veitt prókúrumboð fyrir félagið, berum orðum eða á annan hátt, sbr. 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð. Í málinu liggur ekkert fyrir um störf Sævars hjá félaginu, sem nægir til að líta svo á að hann hafi notið umboðs til að gefa út skuldabréf í nafni þess í skjóli 2. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Samkvæmt framangreindu verður að fallast á með áfrýjendum að þau séu ekki bundin af skuldabréfinu, sem um ræðir í málinu. Með héraðsdómsstefnu lagði stefndi málinu þann grunn að það væri sótt eftir reglum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Geta lögskipti að baki skuldabréfinu því ekki komið til skoðunar um hvort það kunni að hafa verið gefið út til hagsbóta Bílapartasölu Garðabæjar sf., svo sem stefndi byggði öðrum þræði á við flutning málsins fyrir Hæstarétti. Að þessu gættu verða áfrýjendur sýknuð af kröfu stefnda.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi handa hverju þeirra um sig eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Ragnar Duerke Hansen, Sæunn Erna Sævarsdóttir, Már Gunnþórsson og Bílapartasala Garðabæjar sf., eru sýkn af kröfu stefnda, Eignarhaldsfélagsins Jöfurs hf.

Stefndi greiði hverjum áfrýjanda um sig samtals 75.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2000.

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 21. marz sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Eignarhaldsfélaginu Jöfri ehf., kt. 681276-0259, Nýbýlavegi 2, Kópavogi, með stefnu birtri 13. og 16. september 1999 á hendur Ragnari Duerke Hansen, kt. 210253-2709, Víðihvammi 14, Kópavogi, Sæunni Ernu Sævarsdóttur, kt. 251167-3629, Heiðarvegi 62, Vestmannaeyjum, og Má Gunn­þórs­syni, kt. 020153-3859, Fagrabergi 10, Hafnarfirði, öllum persónulega og f.h. Bílapartasölu Garðabæjar sf., og á hendur Sævari Erni Helgasyni, kt. 140844-5789, Reykjavíkurvegi 68, Hafnarfirði.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda kr. 883.709, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 25/1987, frá 01.11.98 til greiðsludags, auk málskostnaðar að mati dómsins.  Krafizt er vaxtareiknings í samræmi við 12. gr. vaxtalaga.

Dómkröfur stefndu, Ragnars Duerke Hansen, Sæunnar Ernu Sævarsdóttur og Más Gunnþórssonar, eru þær, að þau verði alfarið sýknuð af öllum kröfum stefnanda í málinu og að stefnanda verði gert að greiða þessum stefndu, hverju um sig, málskostnað að skaðlausu, að viðbættum virðisaukaskatti.

Af hálfu stefnda, Sævars Helgasonar, hefur ekki verið sótt þing.

II.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir kröfu sína á skuldabréfi, upphaflega að fjárhæð kr. 879.750, útgefnu í Kópavogi hinn 19.10.98 af stefnda, Bílapartasölu Garðabæjar sf., til Eignarhalds­félagsins Jöfurs hf. og tryggðu með sjálfskuldarábyrgð stefnda, Sævars.  Skuldabréfið hafi upphaflega átt að greiðast með 48 afborgunum á 1 mánaðar fresti, í fyrsta skipti hinn 01.11.98 og bera 12,5% ársvexti.  Skuldabréfið hafi verið gjaldfellt samkvæmt ákvæðum þess vegna vanskila frá 01. gjalddaga þess hinn 01.11.98, þá að eftirstöðvum kr. 879.750, auk samingsvaxta kr. 3.959 eða samtals kr. 883.709.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga, og sé mál þetta rekið samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991.  Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti eru studdar við reglur III. kafla laga nr. 25/1987 og krafa um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.  Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði er reist á lögum nr. 50/1988.

Málsástæður stefndu, Ragnars Duerke Hansen, Sæunnar Ernu Sævarsdóttur og Más Gunnþórssonar:

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því, að þeir hafi verið eigendur Bílapartasölu Garðabæjar sf. og hafi einir haft heimild til að skuldbinda félagið.  Samkvæmt skuldabréfinu sé það hins vegar stefndi, Sævar Örn Helgason, sem gefi út skuldabréfið í nafni sameignarfélagsins, án þess að hafa til þess heimild meðstefndu.  Þar fyrir utan sé þessi skuld samkvæmt skuldabréfinu alls óviðkomandi stefndu, en eftir því sem þeir hafa komizt að, sé þessi skuld þannig til komin, að stefndi, Sævar, hafi verið að kaupa bifreið af stefnanda.  Stefnanda hafi verið um þetta fullkunnugt, enda hafi verið gengið frá útgáfu skuldabréfsins í starfsstöð stefnanda.  Stefndu séu samkvæmt þessu í engri skuld við stefnanda, og beri því að sýkna þá af öllum kröfum hans í málinu.

Stefndu vísa til þess, að á milli þeirra og stefnanda séu engin þau lögskipti, að því er tekur til kröfu stefnanda, sem leiða hafi átt til þess, að þeim beri að greiða kröfuna. Tilvísun stefnanda í almennar reglur kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjár­­skuld­bindinga eigi ekki við í tilviki stefndu.

Krafan um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. l. nr. 91/1991, og krafan um virðisauka­skatt á málskostnað er reist á 1. nr. 50/1988, en stefndu séu ekki virðisaukaskattskyldir.

III.

Forsendur og niðurstaða:

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar stefndi, Már Gunnþórsson, og vitnið, Ludvig Hraundal.

Stefndi, Már, skýrði svo frá, að hann hefði verið meðeigandi að Bílapartasölu Garðabæjar sf., sem hefði nú verið lögð niður.  Hann kvaðst ekki hafa komið að daglegum rekstri hennar, en þó hafi ekki átt að taka ákvarðanir um kaup, nema hann væri með í ráðum.  Meðstefndi, Ragnar Hansen, hafi frekar séð um reksturinn á fyrirtækinu.  Hann kvað meðstefnda, Sævar, hafa komið fram fyrir hönd fyrirtækisins í viðskiptum við Jöfur, en Sævar hafi unnið hjá félaginu og séð um daglega afgreiðslu. Aðspurður, hvort stefndu hefðu aldrei gert athugasemdir við bílakaup Sævars, svaraði stefndi því til, að Sævar væri bróður konu hans, svo það hefði verið dálítið viðkvæmt mál að fara að kæra hann.  Sævar hafi haft heimildir til innkaupa, en það hafi ekki verið fyrir stórar fjárhæðir, flestir bílanna hafi verið keyptir fyrir 10 til 25 þúsund krónur, en hann treysti sér ekki til að segja til um, við hvaða fjárhæð heimild Sævars takmarkaðist.  Hann kvað Sævar hafa haft heimild til að skrifa út tékka af tékkhefti, en ekki til að kaupa og setja fyrirtækið í stórar skuldbindingar.  Aðspurður um hversu stórar skuldbindingar Sævar hafi mátt sjá um, svaraði stefndi, að það takmarkaðist bara við það, “sem manni finnst bara af normal skynsemi að séu stórar skuldbindingar”.  Stefndi kvaðst telja, að Sævar hefði örugglega ekki haft heimild félagsins til að skuldbinda það með þeim hætti, sem fram komi í umdeildu skuldabréfi.  Sævar hafi með því keypt Econoline bifreið af Jöfri, sem hafi verið fyrir hann persónulega, en stefndi kvaðst ekki hafa verið þar nærri.  Kvaðst hann halda, að Sævar hefði selt bifreiðina aftur, en hann hafi ekki reynt að grennslast fyrir um það.  Hann hafi ekki vitað um þessi viðskipti Sævars, en kvaðst telja, að bifreiðin hafi verið skráð á Sævar.  Hann kvaðst ekki treysta sér til að segja til um, hver hefði tekið ákvörðun um að kaupa bíl þann, sem tilgreindur er á dskj. nr. 7.

Vitnið, Ludvig Hraundal, kvaðst hafa verið sölumaður hjá Jöfri, og hefði Sævar komið þangað til að kaupa bíla.  Á tímabili hafi hann komið þangað oft og keypt bíla fyrir Bílapartasölu Garðabæjar, þótt það hefðu kannski ekki verið keyptir mjög margir bílar.  Hann kvaðst hafa gert ráð fyrir, að Sævar hefði umboð frá Bílapartasölunni, en kvaðst ekki hafa kannað það sérstaklega, en hann hefði aldrei fengið athugasemdir frá Bílapartasölunni.  Hann kvað hafa verið algengast, að Sævar greiddi bílana með skuldabréfi, en kvaðst ekki geta sagt til um, hvort þessi fjárhæð á umdeildu skuldabréfi hefði verið afbrigðileg miðað við önnur skuldabréf, þar sem hann myndi ekki eftir fjárhæðum annarra bréfa.  Hann kvaðst muna eftir Econoline bifreiðinni.  Sævar hafi keypt bílinn, og afsalið taldi hann næsta öruggt að hefði verið á Bílapartasöluna, en Sævar hafi síðan sett bílinn beint á nafn þriðja aðila.

Samkvæmt framangreindum framburði stefnda, Más, hafði meðstefndi, Sævar, heimild til að koma fram fyrir hönd fyrirtækis stefndu í viðskiptum þess við Jöfur, og er algerlega óupplýst, hvort það umboð var takmarkað við einhverjar fjárhæðir.  Kom þessi stefndi ekkert nálægt daglegum rekstri fyrirtækisins, en mun hafa tekið þátt í ákvarðanatöku um bifreiðakaup.  Hann gat þó ekki gefið neinar upplýsingar um viðskipti fyrirtækisins við Jöfur, sem varpað geti ljósi á mál þetta.  Meðstefndi, Ragnar Duerke Hansen, sem sá um rekstur fyrirtækisins, mætti ekki fyrir dóminn til skýrslugjafar, þrátt fyrir að það hafi verið boðað af hálfu stefndu.  Verða stefndu að bera hallann af því, að svo miklu leyti sem framburður hans kann að hafa skipt máli fyrir niðurstöðu í máli þessu.  Verður því að líta svo á, þar sem annað er ósannað, að stefndi, Sævar, hafi komið fram gagnvart stefnanda með ótakmarkað umboð stefndu til að undirrita skuldabréf vegna viðskipta fyrirtækjanna, þrátt fyrir að hann hafi ekki haft prókúruumboð fyrir fyrirtækið.  Það liggur ekki fyrir, að nokkru sinni hafi verið gerðar athugasemdir við umboð hans gagnvart Jöfri, eða greiðsluskyldu hafnað vegna útgefinna skuldabréfa í nafni fyrirtækisins, undirrituðum af stefnda, Sævari.  Málið er höfðað samkvæmt 17. kafla l. nr. 91/1991, og koma lögskiptin að baki skuldabréfinu því ekki til álita sem varnarástæður í máli þessu.  Ber því þegar af þessum sökum að taka kröfur stefnanda til greina að öllu leyti á hendur stefndu, Ragnari, Sæunni og Má, en ekki er ágreiningur um fjárhæð dómkröfu eða vaxtakröfu.

Kröfur stefnanda á hendur stefnda, Sævari, byggja á nafnritun hans á skuldabréfið sem sjálfskuldarábyrgðaraðila.  Þessi stefndi hefur hvorki sótt né látið sækja þing, og er honum þó löglega stefnt.  Með því að dómkröfur stefnanda á hendur honum eru í samræmi við framlögð skjöl, verða kröfur hans teknar til greina að öllu leyti.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma alla stefndu til að greiða stefnanda in solidum málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 180.000.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, Ragnar Duerke Hansen, Sæunn Erna Sævarsdóttir, Már Gunn­þórs­son og Sævar Örn Helgason, greiði in solidum stefnanda, Eignarhaldsfélaginu Jöfri ehf., kr. 883.709, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 25/1987, frá 01.11.98 til greiðsludags og kr. 180.000 í málskostnað.