Hæstiréttur íslands
Mál nr. 470/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 29. nóvember 2004. |
|
Nr. 470/2004. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X(Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldsvist.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur. Þá var einnig staðfestur úrskurður héraðsdóms um tilhögun á gæslu X.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. nóvember 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærðir eru tveir úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 9. desember 2004 kl. 16 og staðfest var ákvörðun sóknaraðila um að gæsluvarðhaldið yrði með þeim takmörkunum, sem heimilaðar eru í b., c. og d. liðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Málin voru sameinuð með ákvörðun Hæstaréttar 29. nóvember 2004. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði gæsluvarðhaldsúrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann að vistin í gæsluvarðhaldi verði án þeirra takmarkana sem greinir í b., c. og d. liðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurðir héraðsdóms verði staðfestir.
Með vísan til forsendna hinna kærðu úrskurða verða þeir staðfestir.
Dómsorð:
Hinir kærðu úrskurðir eru staðfestir.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2004.
Lögreglustjórinn í Reykjavík krafðist þess í dag að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X sæti áfram gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 9. desember 2004, klukkan 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík rannsaki ætlað brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 er varði stórfelldan innflutning fíkniefna til landsins. Rannsókn málsins hafi staðið yfir um alllangt skeið og hafi fjöldi manns gefið skýrslu með réttarstöðu sakbornings. Málið sé umfangsmikið og taki til fleiri en einnar fíkniefnasendingar, sem lögregla hafi lagt hald á, og sé aðild grunaða í nokkrum tilvikum einskorðuð við einstaka sendingar. Kærði sé grunaður um að hafa staðið fyrir innflutningi á 7.694 g af amfetamíni, en efnið hafi verið falið í vörusendingu, sem lögreglan hafi lagt hald á í Reykjavík [...]. Þáttur kærða sé talinn vera veigamikill þar sem hann sé grunaður um að hafa staðið að skipulagningu, fjármögnun og kaupum á fíkniefnunum. [...]
[...]
Ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík vinnur að rannsókn ætlaðs brots kærða í félagi við aðra gegn almennum hegningarlögum, sem varðar stórfelldan innflutning fíkniefna til landsins. Samkvæmt því sem fram kemur í málavaxtalýsingu hér að framan, svo og með vísan til rannsóknargagna er rökstuddur grunur fyrir hendi um að kærði hafi átt aðild að þeim innflutningi og þannig gerst sekur um brot sem varðað geti hann fangelsisrefsingu. Á það er fallist að kærði gæti haft áhrif á framburði annarra eða komið undan gögnum sem þýðingu hafi í málinu gangi hann laus. Ekki verður annað séð en að sá dráttur sem orðið hefur á rannsókn málsins stafi af óviðráðanlegum ástæðum, sem nægilega hefur verið gerð grein fyrir, en útlit er fyrir að úr rætist á næstu dögum. Samkvæmt framangreindu verður að telja að fullnægt sé skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um áframhaldandi gæsluvarðhald kærða. Ber því að fallast á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arnar Þór Jónsson settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 9. desember 2004, klukkan 16.00.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2004.
X hefur krafist þess að gæsluvarðhald, sem hann sætir samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur fyrr í dag, verði án takmarkana.
Af hálfu lögreglustjórans í Reykjavík er kröfu kærða mótmælt.
Að lokinni uppsögu ofangreinds gæsluvarðhaldsúrskurðar, var því lýst yfir af hálfu lögreglustjórans í Reykjavík að um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar færi samkvæmt b.-, c.- og d.- liðum 108. gr. laga nr. 19/1991. Jafnframt var því þó lýst yfir að berist beiðni um að kærði óski eftir að hitta foreldra sína eða annan náinn aðstandanda þá verði að öllum líkindum fallist á slíka beiðni að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun ríkisins.
Í máli þessu liggur fyrir að kærði sætir gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Er þeim rannsóknarhagsmunum sem hér er um að ræða nánar lýst í gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms frá því fyrr í dag. Að virtum þessum hagsmunum og atvikum málsins eins og þau liggja fyrir dómara, en jafnframt þó með hliðsjón af framlagðri yfirlýsingu Mariusar Peersen sálfræðings, 25. nóvember 2004, telur dómari að skilyrðum sé, að svo stöddu, fullnægt til að kærði sæti enn um sinn takmörkunum skv. b., c. og d. liðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991. Er þá ekki tekin afstaða til heimsókna einstakra aðila, en kærði hefur látið í ljósi áhuga á að hitta foreldra sína og nákomin skyldmenni.
Arnar Þór Jónsson settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfu kærða, X, um breytt fyrirkomulag gæsluvarðhalds, er hafnað.