Hæstiréttur íslands

Mál nr. 37/2001


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Tilraun
  • Hegningarauki


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. maí 2001.

Nr. 37/2001.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Tómasi Waagfjörð

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Þjófnaður. Tilraun. Hegningarauki.

T var ákærður fyrir að hafa í þrígang brotist inn í atvinnuhúsnæði og stolið þaðan verðmætum og jafnframt fyrir að hafa gert tilraun til innbrots og þjófnaðar. Gekkst T við brotum sínum og var til þess horft við ákvörðun refsingar. Var jafnframt höfð hliðsjón af því að T hafði framið brotin í félagi við annan mann.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. janúar 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Ákærði unir ákvæðum héraðsdóms um upptöku og skaðabætur. Hann játaði hreinskilnislega þau brot, sem fjallað er um í B. kafla ákæru og hér eru til meðferðar. Þykir því við ákvörðun refsingar hans rétt að hafa hliðsjón af 9. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar verður jafnframt litið til þess að ákærði framdi brot sín í félagi við annan mann, sbr. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Tómas Waagfjörð, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. desember 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 17. nóvember sl. er höfðað með ákæruskjali sýslumannsins á Akureyri útgefnu 3. október 2000 á hendur Tómasi Waagfjörð, kt. 090776-2909, Suðurhlíð 35, Reykjavík og Birgi Þór Birgissyni, kt. 210971-4839, Rjúpufelli 29, Reykjavík;

„..fyrir eftirtalin hegningar- og fíkniefnabrot:

A.

Nytjastuldur.

Með því að hafa föstudagskvöldið 21. júlí 2000, tekið í heimildarleysi bifreiðina KR-021 frá Skemmuvegi 34, Kópavogi og ekið henni til Akureyrar og um götur í bænum og nágrenni, uns lögreglan handtók ákærða Tómas í bifreiðinni, mánudagskvöldið 24. júlí 2000, við Frostagötu 3 á Akureyri og ákærða Birgi Þór skömmu síðar.

B.

Þjófnaður.

I.

Með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 11. júní 2000, brotist inn í húsnæði Lagnaþjónustunnar ehf. að Gagnheiði 53 á Selfossi og stolið þaðan fjórum haglabyssum af gerðinni Winchester nr. L-713014, Winchester nr. 316545, Remington nr. M399482-V með sjónauka og Browning nr. 245185, GPS staðsetningartæki, tveimur talstöðvum, GSM síma af gerðinni Nokia 5110, 20 hnífum merktir MORA, veiðigalla, felutjaldi og gæsaveiðifatnaði.

II.

Með því að hafa, þessa sömu nótt brotist inn í húsnæði Vélsmiðju og bílaverkstæði KA Hlíðarvegi 2, Hvolsvelli og stolið þaðan stórum skiptilykli, rafmagnsborvél með hleðslutæki og felgujárni.

III.

Með því að hafa laugardagskvöldið 22. júlí 2000, brotist inn í bifreiðaskoðun Frumherja h.f. að Frostagötu 3 A á Akureyri og stolið um það bil 30.000 krónum í peningum, myndavél af gerðinni Kodak digital science DC 210 ásamt meðfylgjandi tösku og skjalatösku með óútfylltum skoðunarvottorðum, skoðunarmiðum ofl.

IV.

Með því að hafa, mánudagskvöldið 24. júlí 2000 í þjófnaðarskyni gert tilraun til að brjótast aftur inn í bifreiðaskoðun Frumherja hf. að Frostagötu 3 A á Akureyri, en komið var að ákærðu á vettvangi og lögreglan handtók ákærða Tómas þar skömmu síðar.

C.

Fíkniefnabrot.

Gegn ákærða Birgi Þór, fyrir að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 24. maí 2000, haft í vörslum sínum 94,75 grömm af marihuana í bifreiðinni MD-607, þegar lögreglan í Reykjanesbæ hafði afskipti af ákærða á Njarðargötu á móts við verslunina Hagkaup í Njarðvík.

Brot ákærðu skv. A kafla ákærunnar telst varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og brot þeirra skv. B kafla teljast varða við 244. gr. sömu laga, nema IV tl. sem varðar við 244. gr., sbr. 20. gr. laganna.

Brot ákærða Birgis Þórs skv. C lið ákærunnar telst varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75, 1982, sbr. lög nr. 13, 1985 og 2. gr. sbr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Með vísan til 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16, 1998, er þess krafist að eftirtalin vopn, sem lögreglan á Akureyri lagði hald á hjá ákærðu við rannsókn þessara mála, verði gerð upptæk til ríkissjóðs:

1. Hnífur af gerðinni Waverex, með 30 cm. löngu blaði.

2. Kylfa úr timbri, 42 cm. að lengd og 344 gr. að þyngd.

         3. Kylfa með gaddakúlu, 36 cm á lengd og 533 gr. að þyngd en gaddakúlan er                

             255. gr. að þyngd.

Einnig er með vísun til 5. mgr. og 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16, 1986, er gerð krafa um að upptæk verði gerð hjá ákærða Birgi Þór 94,75 grömm af fíkniefninu marihuana, sem lögreglan lagði hald á og tilgreint er í efnaskrá nr. 034-2000-11.

Í málinu gerir Jón Hjalti Ásmundsson f.h. Frumherja h.f., kt. 470297-2719, Hesthálsi 6-8, Reykjavík, bótakröfu á hendur ákærðu að fjárhæð kr. 70.000-.“

Af hálfu skipaðs verjanda ákærðu, Hilmar Ingimundarsonar hæstaréttarlög-manns, voru eftirfarandi dómkröfur gerðar:

1.Að ákærði Birgir Þór verði sýknaður af sakarefni A og C kafla ákæruskjals, en að öðru leyti verði honum ekki gerð sérstök refsing í málinu.  Til vara er þess krafist að refsing ákærða Birgis Þórs verði hegningarauki við dóm frá 15. júní og 3. nóvember sl.

2.Að ákærði Tómas Waagfjörð verði  sýknaður af sakarefni A kafla ákæruskjals, en hljóti að öðru leyti vægustu refsingu sem að lög leyfa.

3.Að bótakröfu Jóns Hjalta Ásmundssonar f.h. Frumherja h.f. verði vísað frá dómi.

4.Að kröfu ákæruvalds um upptöku á hníf og tveimur kylfum verði hafnað.

5.Að allur málskostnaður verið greiddur úr ríkissjóði þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun.

I

Málavextir.

A kafli ákæruskjals.

Samkvæmt rannsóknargögnum kærði skráður eigandi bifreiðarinnar KR-021 Guðmundur Níels Erlingsson þann 21. júlí sl. til lögreglunnar í Kópavogi nytjatöku hennar frá athafnasvæði Bónstöðvar Kópavogs að Skemmuvegi 34 þar í bæ, en bifreiðin er af gerðinni Dodge Shadow árgerð 1989.  Við eftirgrennslan lögreglu var upplýst að bifreiðin hafði verið í umsjá Mána Andersen og voru strax uppi grunsemdir um að starfsmenn fyrirtækis hans, ákærðu Tómas Waagfjörð og Birgir Þór ættu hlut að máli.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á Akureyri var ákærði Tómas Waagfjörð handtekinn í bifreiðinni KR-021 mánudagskvöldið 24. júlí sl., en bifreiðin var þá kyrrstæð á bifreiðastæði við Frostagötu 1 B þar í bæ.  Við handtöku er bókað samkvæmt lögregluskýrslu að hann hefði haft orð á því að hann hefði bifreiðina að láni frá umráðmanni hennar.  Við leit í bifreiðinni fundu lögreglumenn m.a. mikinn fjölda verkfæra en einnig hníf með 30 cm. löngu blaði, timburkylfu og timburkylfu með gaddakúlu líkt og lýst er í ákæruskjali.  Þá um nóttina gaf sig fram á lögreglustöðinni á Akureyri ákærði Birgir Þór og var hann líkt og meðákærði Tómas vistaður í fangageymslum vegna grunsemda um þjófnaðarbrot í húsnæði Frumherja h.f. að Frostagötu 3 A sbr. III. og IV. tl. B kafla ákæruskjals.

Fyrir liggur í málinu að lögreglan í Kópavogi tilkynnti skráðum eiganda bifreiðarinnar þann 31. júlí sl. að bifreiðin KR-021 væri í vörslum lögreglunnar á Akureyri en  þann 4. ágúst sl. voru skráningarspjöld klippt af bifreiðinni þar sem hún hafði ekki verið færð til aðalskoðunar.

Við meðferð málsins hafa ákærðu neitað sakargiftum.

Ákærði Tómas kvaðst við meðferð málsins hafa verið starfsmaður Mána Andersen, umráðamanns bifreiðarinnar KR-021 og staðhæfði að hann hefði við starfa sinn haft umráð yfir bifreiðinni vegna ýmiskonar snúninga.  Vísaði ákærði til þess að nefndur vinnuveitandi hans væri frændi skráðs eiganda bifreiðarinnar.  Fyrir dómi staðhæfði ákærði Tómas að hann hefði engin laun fengið vegna starfa sinna, og bar að bifreiðin KR-021 hefði átt að vera ígildi vinnulauna.  Vegna þessa kvaðst ákærði án sérstaks samráð við umráðamann bifreiðarinnar, Mána Andersen, hafa ekið bifreiðinni til Akureyrar ásamt meðákærða Birgi Þór föstudaginn 21. júlí sl. 

Ákærði Birgir Þór bar við meðferð málsins á sama veg og meðákærði um umráð þeirra félaga yfir bifreiðinni KR-021 og vísaði hann m.a. til þess að þeir hefðu fyrst fengið bifreiðina til umráða 26. júní sl., þann sama dag og hann lenti í árekstri á bifreiðinni í Reykjavík.

Við aðalmeðferð málsins var af hálfu ákæruvalds fallið frá að kalla fyrir dóminn sem vitni skráðan eiganda bifreiðarinnar Guðmund Níels og nefndan vinnuveitanda ákærðu Mána Andersen. 

Að ofangreindu virtu þykir verða að leggja til grundvallar framburð ákærðu, Tómasar og Birgis Þórs, að þeir hafi haft umráð bifreiðarinnar KR-021 í júní og júlímánuði sl.   Þá hefir frásögn þeirra um starfskjör og að þeir hefðu fengið bifreiðina uppí ógreidd vinnulaun ekki verið hnekkt.  Að þessu virtu þykir ákæruvaldið ekki hafa sannað sök ákærðu og ber því að sýkna þá af þeirri háttsemi sem lýst er í A kafla ákæruskjals.

B kafli ákæruskjals.

Ákærðu, Tómas og Birgir Þór, hafa fyrir dómi skýlaust viðurkennt að hafa brotist inn í húnæði Lagnaþjónustunnar ehf. að Gangheiði 53 á Selfossi og Vélsmiðju og bílaverkstæði KA, Hlíðarvegi 2 A, á Hvolsvelli aðfaranótt 11. júní sl. sl.  Þá hafa ákærðu einnig skýlaust viðurkennt að hafa brotist inn í bifreiðaskoðun Frumherja hf. að Frostagötu 3 A Akureyri 22. júlí sl. og að hafa í þjófnaðarskyni gert tilraun til að brjótast inn í sama fyrirtæki 24. júlí sl.  Við meðferð málsins viðurkenndu ákærðu og að hafa tekið það þýfi sem lýst er í 1. - 3. tl. ákæruskjals að því frátöldu að ákærði Birgi Þór staðhæfði að peningar samkvæmt 3. lið hefði verið kr. 22.000.  Að peningafjárhæðinni frátaldri var þýfinu að megninu til komið til skila til eiganda við lögreglurannsókn málsins.  Að þessu virtu þykir háttsemi ákærðu nægjanlega sönnuð og varðar brot þeirra við tilgreind lagaákvæði í ákæruskjali.

C kafli ákæruskjals.

Samkvæmt rannsóknargögnum hafði lögreglan í Keflavík afskipti af akstri ákærða Birgis Þórs á Njarðargötu aðfaranótt 24. maí sl., en fylgdist í framhaldi af því með akstri hans á bifreiðinni MD-607 um götur bæjarins og þ.á.m. er hann staðnæmdist við Keflavíkurhöfn.  Er ákærði hóf akstur að nýju um götur bæjarins stöðvaði lögreglan akstur hans vegna ætlaðs fíkniefnamisferlis var hann í framhaldi af því handtekinn ásamt farþegum sínum þeim Tómasi Waagfjörð og Tómasi Helga Jónssyni.   Voru þeir allir færðir í fangageymslur lögreglu. 

Samkvæmt rannsóknarskýrslu var með samþykki ákærða, Birgis Þórs, gerð leit í bifreiðinni MD-607 umrædda nótt og segir um það í lögregluskýrslu;

„Tveir pokar með ætluðu marihuana voru á gólfi undir mottu við ökumannssætið.  Við vigtun reyndist efnið í pokunum vigtast samtals 94 grömm.  Við frumprófun reyndist efnið vera marihuana.“

Við skýrslugjöf hjá lögreglu að morgni 24. maí sl. viðurkenndi ákærði Birgir Þór að hann væri eigandi nefndra fíkniefna.  Þá staðhæfði ákærði og að hann hefði verið umráðamaður og ökumaður bifreiðarinnar MD-607 umrædda nótt. 

Fyrir dómi hefur ákærði Birgir Þór afturkallað framburð sinn hjá lögreglu með svofelldum orðum;

„Þetta fannst í bílnum sem ég var að keyra, nema það var Tómas Helgi Jónsson, hann átti þetta og ég eiginlega tók þetta á mig fyrir hann.  Á sínum tíma þegar að ég gaf skýrslu hjá lögreglunni um að ég ætti þetta.“

Nánar aðspurður fyrir dómi staðhæfði ákærði, Birgir Þór að hann hefði játað kæruefnið hjá lögreglu þar sem eigandi fíkniefnanna, nefndur Tómas Helgi, hefði boðið honum greiðslu fyrir að taka sökina á sig.  Ákærði staðhæfði að Tómas Helgi hefði ekki staðið við það fyrirheit þegar að til kom.  Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa haft vitneskjum um að Tómas Helgi hefði verið með fíkniefni í bifreiðinni í umræddri ökuferð og kvaðst að auki sjálfur hafa notað hluta af efninu til eigin nota.

Við skýrslutöku hjá lögreglu hinn 24. maí sl. neituðu Tómas Waagfjörð og Tómas Helgi allri vitneskju um að fíkniefni hefðu verið í bifreiðinni MD-607 og staðfesti Tómas Waagfjörð þá frásögn fyrir dómi.

Við aðalmeðferð málsins bar Tómas Helgi að hann hefði fyrst veitt því eftirtekt að ákærði Birgir Þór var að meðhöndla fíkniefni er hann stöðvaði akstur bifreiðarinnar MD-607 við Keflavíkurhöfn aðfaranótt 24. maí sl. og þá séð hvar hann kom efninu fyrir undir gólfmottu við bensíngjöfina.   Hann andmælti og alfarið framburði ákærða fyrir dómi og vísaði til þess að ákærði bæri til hans hefndarhug vegna samskipta þeirra út af öðru sakamáli.

Að áliti dómsins er afturköllun ákærða Birgis Þórs á játningu hans við skýrslutöku hjá lögreglu þann 24. maí sl. ótrúverðug.  Afturköllunin hefur og ekki stuðning í framburði farþega hans þ.á.m. Tómasar Waagfjörð.  Þá er til þess að líta að við leit lögreglu í bifreiðinni MD-607 fundust fíkniefnin undir gólfmottu við ökumannssæti, en upplýst er að ákærði var umráðamaður og ökumaður bifreiðarinnar MD-607 í umrætt sinn.  Að þessu virtu þykir eigi varhugavert að telja sannað, þrátt fyrir neitun ákærða Birgis Þórs, að hann hafi haft með höndum vörslur umræddra fíkniefna.  Með háttsemi sinni hefur ákærði gerst sekur um brot gegn þeim laga- og reglugerðarákvæðum sem tilgreind eru í ákæruskjali.

II

Samkvæmt vottorði sakaskrá ríkisins hefur ákærði Tómas Waagfjörð níu sinnum hlotið sektarrefsingar með sátt, viðurlagaákvörðunum og dómum frá árinu 1993,  vegna eignarspjalla, áfengis- og tollalagabrota, umferðarlagabrota, nytjastuldar, tékkalagabrota og brota gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf.  Að auki var hann í júnímánuði 1997 dæmdur til 7 mánaða fangelsisvistar fyrir líkamsárás, húsbrot og þjófnað.   Loks var hann þann 15. júní sl. dæmdur í 12 mánaða fangelsi, en þar af voru 9 mánuðir skilorðsbundnir til tveggja ára, fyrir alvarlegt auðgunar- og ofbeldisbrot sbr. 252. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, en verknaðinn framdi hann í september árið 1999.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar hefur ákærði gerst sekur um þrjú þjófnaðarinnbrot auk innbrotstilraunar á tímabilinu 11. júní til 24. júlí sl.  Ákveða ber refsingu ákærða með hliðsjón af  og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.  Þá þykir rétt að taka upp sbr. 60. gr. sömu laga, og dæma með skilorðshluta dóms ákærða frá 15. júní sl.  Þykir refsing ákærða með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og sakarferli hæfilega ákveðin 12 mánaða fangelsi, sem ekki þykir fært að skilorðsbinda. 

Ákærði, Birgir Þór Birgisson, hefur samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins og upplýsingum dómsins margsinnis hlotið refsidóma og á hann að baki yfir 10 ára brotaferil, aðallega vegna þjófnaða en einnig vegna skjalafals, nytjatöku, umferðarlagabrota og brota gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf. 

Á þessu ári hefur ákærði hlotið þrjá refsidóma.  Þann 15. júní sl. var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir rán, þjófnaðarbrot og tollalagabrot en brotin framdi hann í júlí og september 1999.  Þann 3. september sl. var hann dæmdur í 8 mánaða fangelsi fyrir þjófnaðarbrot, nytjastuld og stórfelld eignarspjöll og var um hegningarauka að ræða við dóminn frá 15. júní sl.  Brotin framdi ákærði í janúarmánuði sl.  Loks var ákærði þann 28. nóvember sl. dæmdur til 4 mánaða fangelsisvistar fyrir þjófnaðarbrot og þjófnaðartilraunir svo og vegna brota gegn umferðarlögum og ávana- og fíkniefnalöggjöf, en brotin framdi ákærði í apríl, maí og september sl. og var refsingin hegningarauki við fyrri fangelsisrefsingar.  Nefndir dómar voru allir kveðnir upp við Héraðsdóm Reykjaness.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar hefur ákærði gerst sekur um þrjú innbrot auk innbrotstilraunar og brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf.  Brotin framdi ákærði á tímabilinu frá maí til júlí á þessu ári.  Ber því að ákveða refsingu ákærða með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga.  Samkvæmt síðastnefndu lagagreininni ber að dæma ákærða hegningarauka er samsvari þeirri þyngingu refsingar sem kynni að hafa orðið ef dæmt hefði verið um öll brot hans með fyrri málum.  Samkvæmt framansögðu hefur ákærði á síðustu 6 mánuðum hlotið alls 24 mánaða fangelsisrefsingu, en þar af voru 12 mánuðir dæmdir sem hegningarauki í nóvembermánuði sl.  Brot ákærða nú er að hluta til framin fyrir uppkvaðningu dóms sem kveðinn var upp í júnímánuði sl. og að virtum hegningaraukaáhrifum og með hliðsjón af 1. mgr. 23. gr. laga nr. 19, 1991 þykir hann ekki eiga að hljóta frekari fangelsisrefsingu en nefndir dómar á þessu ári hafa kveðið á um, en ákærði er nú í refsiúttekt vegna þeirra. 

Með vísan til 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 19, 1998 og atvika máls er að mati  dómsins réttmæt sú krafa ákæruvalds að upptæk verði gerð til ríkissjóðs vopn sem lögreglan lagði hald á hjá ákærðu við rannsókn málsins og lýst er í ákæruskjali.   Að áliti dómsins eru orð ákærðu fyrir dómi um að vopnin hafi verið skrautmunir haldlaus.  Verður krafa ákæruvalds því tekin til greina.

Með vísan til 5. mgr. og 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. rgj. nr. 16, 1986 verður krafa ákæruvalds um upptöku á fíkniefnum Birgis Þórs 94,75 grömm af marihuana tekin til greina. 

Við lögreglurannsókn málsins hafði Jón Hjalti Ásmundsson f.h. Frumherja h.f. uppi skaðabótakröfu á hendur ákærðu vegna þjófnaðarbrota þeirra sem lýst er í III. og IV. tl. B kafla ákæruskjals.  Bótakrafan er dagsett 26. júlí sl. og sundurliðaðist hún þannig:

1.  Vegna peninga í sjóði sem stolið var            kr. 30.000

2.  Vegna skemmda á gluggaumbúnaði               “    20.000

3.Vegna skemmda á skjalaskáp  “20.000

Heildarkrafakr.70.000

Af hálfu dómsins var bótakrefjanda með bréfi dagsettu 11. október sl. boðið að rökstyðja bótakröfuna frekar, t.d. með greiðslukvittunum.  Við því var ekki orðið. 

Fyrir dómi hafa ákærðu andmælt bótakröfunni sem órökstuddri. 

Með vísan til skýlausrar játningar ákærðu við alla meðferð málsins og athugasemda þykir rétt þrátt fyrir andmæli ákærðu að taka 1. lið bótakröfunnar til greina með fjárhæð kr. 22.000.  Öðrum liðum kröfunnar verður vísað frá dómi sem órökstuddum.

Með vísan til málsúrslita ber að dæma ákærðu til að greiða óskipt sakarkostnað að 4/5 hlutum þ.á.m. málsvarnarlaun skipaðs verjanda Hilmars Ingimundarsonar, hæstaréttarlögmanns, krónur 90.000 en 1/5 hluti greiðist úr ríkissjóði.

Dómsuppkvaðning hefur tafist nokkuð vegna starfsanna dómara.

Dóm þennan kvað upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærða, Birgi Þór Birgissyni er ekki gerð sérstök refsing í máli þessu.

Ákærði, Tómas Waagfjörð, sæti 12 mánaða fangelsi.

Ákærðu Birgir Þór og Tómas sæta upptöku á hnífi að gerðinni Waverex með 30 cm.  löngu blaði, kylfu úr timbri, 42 cm. að lengd og 344 gr. að þyngd og kylfu með gaddakúlu, 36 cm að lengd og samtals 788 gr. að þyngd.

Ákærði Birgir Þór sæti upptöku á 94,75 gr. af fíkniefninu marihuana. 

Ákærðu greiði óskipt skaðabætur til Frumherja h.f. kt. 470297-2719, krónur 22.000.

Ákærðu greiði sakarkostnað að 4/5 hlutum óskipt, þ.á.m. málsvarnarlaun skipaðs verjanda Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns kr. 90.000.  Ríkissjóður greiði 1/5 hluta sakarkostnaðar.