Hæstiréttur íslands
Mál nr. 677/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 17. október 2014 |
|
Nr. 677/2014 |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stæði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. október 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. október 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. október 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á það með héraðsdómi að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um brot sem getur varðað fangelsisrefsingu eftir 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt því og þar sem uppfyllt eru skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir gæsluvarðhaldi varnaraðila og einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 16. október 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. október nk., kl. 16:00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kærði hefur mótmælt kröfu lögreglustjóra.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi undanfarið haft til rannsóknar mál er varði innflutning fíkniefna. Við rannsókn málsins hafi komið í ljós að sakborningur að nafni Y hafi farið til Danmerkur 30. september sl., þaðan til Hollands og svo til Svíþjóðar. Y hafi 3. október sl. verið handtekinn rétt fyrir kl. 20:00 að íslenskum tíma á hóteli í Svíþjóð. Hann hafi verið með ferðatösku meðferðis en í töskunni hafi verið talsvert magn fíkniefna. Vísar lögreglustjóri nánar um magn og tegund efnanna til meðfylgjandi upplýsingaskýrslu lögreglu. Y sæti nú gæsluvarðhaldi í Svíþjóð. Unnið sé að rannsókn málsins í samvinnu við sænsk lögregluyfirvöld.
Þá vísar lögreglustjóri til þess að fyrirliggjandi gögn sýni að Y hafi verið í símasamskiptum við sakborningana Z og Þ er hann var staddur í Svíþjóð 3. október sl. Hinn 4. október hafi Z hringt í síma Þ, sem þá hafi verið stödd í Stokkhólmi, og upplýst hana um að ekki yrði af fíkniefnainnflutningnum, þar sem ekki næðist lengur í Y. Af símtalinu megi ráða að Þ hafi átt að flytja fíkniefni til landsins. Þ hafi verið handtekin við komuna til landsins að kvöldi sunnudagsins 5. október sl. og í kjölfarið hafi hún verið úrskurðuð í gæsluvarðhald.
Hinn 6. október sl. hafi Z verið handtekinn, grunaður um aðild að málinu. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi hann viðurkennt aðild sína að málinu. Hlutverk Z hafi verið að finna burðardýr til að koma með um fjögur kíló af amfetamíni til landsins og hafi hann fengið Þ til verksins. Þá hafi Z einnig borið að hann hefði fengið reiðufé og símkort frá manni að nafni X, sem hann hafi síðan afhent Þ. Hlutverk Z í framhaldinu hafi síðan verið að leiðbeina Þ um hvar hún ætti að sækja efnin í Svíþjóð. Jafnframt hafi hann átt að sækja fíkniefnin til Þ þegar hún væri komin til landsins og koma þeim til X. Z hafi upplýst lögreglu um að símanúmer X væri vistað í síma hans. Við skoðun á síma Z hafi komið í ljós að símanúmer nefnds X væri [...].
Þann 9. október sl., hafi X, verið handtekinn, grunaður um að vera einn af fleirum sem skipulögðu og fjármögnuðu hinn meinta fíkniefnainnflutning. Við handtökuna hafi hann verið með farsíma með símanúmerinu [...]. Hafi hann þann 10. október sl. verið úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag.
Við skoðun á síma X megi sjá að fyrrgreindur Y hafi sent honum sms-skeyti 3. október sl. með upplýsingum um bankareikning sinn og kennitölu. Við skoðun á bankagögnum Y megi síðan sjá millifærslu X inn á reikning Y.
Kærði X hafi við skýrslutöku hjá lögreglu neitað allri aðild að málinu. Kærði hafi ekkert viljað kannast við fíkniefnainnflutninginn og enn fremur sagst lítið sem ekkert þekkja Y og Z. Nánar aðspurður um málsatvik kveðst hann ekki hafa gott minni vegna neyslu fíkniefna.
Þá hafi lögreglan staðfestar upplýsingar um að meðkærði Æ hafi þann 26. september sl. keypt símanúmerin sem Y og Þ hafi verið með þegar þau voru handtekin. Æ sé nú staddur erlendis.
Í skýrslutöku þann 13. október hafi meðkærði Z greint frá því að hann hafi einnig verið í sambandi við ofangreindan Æ í tengslum við fíkniefnainnflutninginn. Kvað hann Æ hafa beðið sig um að útvegað burðardýr til að flytja fíkniefnin til landsins. Jafnframt hafi Z greint frá því að hann hafi hitt Æ og X þann 26. september fyrir utan [...] er hann hafi fengið peninga og símakort sem hann átti að afhenda Þ. Kvað Z að Æ hafi sagt honum að hann ætti að vera í sambandi við kærða X vegna fíkniefnainnflutningsins.
Í gær hafi lögreglan lagt hald á tölvu Y. Við skoðun á henni megi sjá ítarleg og opinská samskipti Y við X og Æ í tengslum við fíkniefnainnflutninginn, sjá nánar meðfylgjandi upplýsingaskýrslu lögreglu. Hafi lögreglan ekki enn haft tækifæri til að bera þessi gögn undir kærða X. Á morgun muni íslenskir rannsóknarlögreglumenn fara til Svíþjóðar og yfirheyra Y, m.a. um tölvusamskipti hans við Æ og X og þátt þeirra í hinu meinta broti.
Kærði X sé nú undir rökstuddum grun um að hafa skipulagt, ásamt fleiri mönnum, og fjármagnað ofangreint fíkniefnamisferli. Rannsóknin málsins sé hvergi nærri lokið. Lögregla telji ljóst að fleiri aðilar tengist þessu máli og þurfi að hafa uppi á þeim og taka af þeim skýrslur. Að mati lögreglu megi ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að ræða við samverkamenn sína og hafa áhrif á framburð þeirra eða koma undan munum. Rannsókn málsins, sem nú sé unnin í samvinnu við sænsk lögregluyfirvöld, sé á viðkvæmu stigi og því afar brýnt að krafa lögreglustjóra verði tekin til greina.
Sakarefnið varði við 173. gr. a. alm. hgl. en brot gegn því ákvæði varði allt að 12 ára fangelsi. Það sé því nauðsynlegt með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins að öðru leyti að kærða verði með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 24. október nk. kl. 16.00 og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Með vísan alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu getur varðað allt að tólf ára fangelsi.
Kærði hefur neitað allri aðild að málinu. Gögn málsins, sérstaklega haldlögð tölvugögn frá því í gær, tengja kærða sterklega við hið meinta brot sem og aðra samverkamenn. Ljóst er af því sem að framan er rakið, sem og rannsóknargögnum lögreglu, að rannsókn málsins, sem teygir anga sína erlendis, er í fullum gangi og hvergi nærri lokið. Lögregla telji ljóst að fleiri tengist þessu máli og þurfi að hafa upp á þeim en ekki hafi tekist að hafa upp á öllum meintum samverkamönnum eða að bera nefnd tölvugögn undir neinn af meintum samverkamönnum. Að þessu gættu, sem og öðru framangreindu, verður að fallast á það með lögreglustjóra að gangi kærði laus megi ætla að hann kunni að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru því uppfyllt í málinu. Þá er fallist á að uppfyllt séu skilyrði til að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur skv. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.
Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. október nk., kl. 16:00.
Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldvist hans stendur.