Hæstiréttur íslands

Mál nr. 145/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Hæfi


Mánudaginn 7

 

Mánudaginn 7. apríl 2008.

Nr. 145/2008.

Ingólfur Geir Gissurarson og

Valhöll fasteignasala hf.

(Ólafur Haraldsson hrl.)

gegn

Elínu Viðarsdóttur og

Gerd Hammerström

(enginn)

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanna. Hæfi.

Fyrir héraðsdómi kröfðust E og G þess að nafngreindur maður yrði dómkvaddur til að meta ætlaða galla á fasteign, en sami maður hafði áður verið dómkvaddur til sömu matsstarfa og skilað matsgerð. Var fallist á kröfuna með hinum kærða úrskurði. Talið var að ekki væru reistar sérstakar skorður við því í lögum að beðið væri um mat á atriðum sem áður hefðu verið metin og ekki endanlega leidd til lykta fyrir dómi. Þá var talið að umræddur maður yrði ekki talinn vanhæfur til matsstarfa af þeirri ástæðu einni að hann hefði áður verið dómkvaddur til að leggja mat á sama atriði, enda laut matsbeiðni ekki að yfirmati. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 4. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2008, þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um að Helgi S. Gunnarsson yrði dómkvaddur að nýju sem matsmaður til að framkvæma mat á ætluðum göllum á fasteigninni Tröllaborgum 4 í Reykjavík, eignarhlutum 0101 og 0201 og hver kostnaður sé við viðgerðir og endurbætur. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að beiðni um dómkvaðningu matsmanns verði hafnað en til vara að hafnað verði beiðni varnaraðila um að Helgi S. Gunnarsson verði dómkvaddur að nýju til að framkvæma hið umbeðna mat. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Varnaraðilar eiga samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 rétt á að afla í einkamáli þeirra sönnunargagna sem þeir telja málstað sínum til framdráttar. Er að meginreglu hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt umfram það sem leiðir af ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar. Eina áskilnaðinn um form og efni matsbeiðna er að finna í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, sbr. þó 64. gr. sömu laga, en samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu skal í matsbeiðni koma skýrlega fram hvað eigi að meta, hvar það sé sem meta á og hvað aðili hyggst sanna með matinu. Ekki eru reistar sérstakar skorður við því að beðið sé um mat á atriðum sem áður hafa verið metin en hafa ekki endanlega verið leidd til lykta fyrir dómi. Enn síður er fyrir það girt að aflað sé nýrrar matsgerðar til viðbótar eldri matsgerð. Þá þykir 3. mgr. 46. gr. sömu laga ekki standa dómkvaðningu í vegi enda ekki bersýnilegt að matsgerð samkvæmt beiðninni komi ekki til með að skipta máli eða verði tilgangslaus, en varnaraðilar bera áhættuna af notagildi matsgerðar til sönnunar í málinu og kostnað af öflun hennar. 

Með vísan til þess sem að framan greinir eru ekki efni til að hafna því að hin umbeðna dómkvaðning fari fram.

Varakrafa sóknaraðila er byggð á því að Helgi S. Gunnarsson sé vanhæfur til að framkvæma matið. Maður verður ekki talinn vanhæfur til matsstarfa af þeirri ástæðu einni að hann hafi áður verið dómkvaddur til að leggja mat á sama atriðið, enda lýtur matsbeiðnin ekki að yfirmati. Af þessum sökum eru ekki efni til að hafna því að Helgi S. Gunnarsson verði dómkvaddur að nýju til að framkvæma hið umbeðna mat.

 Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 26. febrúar 2008.

I

Með matsbeiðni móttekinni 18. janúar sl. var þess farið á leit fyrir hönd mats­beið­anda, Elínar Viðarsdóttur og Gerd Hammerström, með vísan til 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, að Helgi S. Gunnarsson, verkfræðingur, verði dómkvaddur að nýju til að skoða og meta: Galla á fasteigninni Tröllaborgum 4, Reykjavík, eignarhlutum 0101 og 0201, hver kostnaður sé við viðgerðir/endurbætur.

Matsþolar eru Svanfríður Sigurþórsdóttir, Ingólfur Gissurarson og Valhöll fast­eigna­sala hf.

Við fyrirtöku málsins 8. febrúar sl. var því mótmælt af hálfu matsþola að dóm­kvaðning næði fram að ganga. Málið var tekið til úrskurðar 14. febrúar sl.

II

Matsbeiðendur lýsa málavöxtum þannig að með samningi dags. 21. júní 2004 hafi þeir keypt, af matsþola Svanfríði, íbúð á 2. hæð að Tröllaborgum 4, Reykjavík. Fljót­lega eftir að þeir fengu íbúðina afhenta kom í ljós að hún var haldin leyndum og veru­legum göllum. Mjög hljóðbært var á milli íbúða í húsinu og telja matsbeiðendur að ákvæðum byggingarlaga, byggingarreglugerðar, mengunarvarnarreglugerðar og fleiri opin­berra reglna um hljóðvist hafi ekki verið fylgt við byggingu hússins. Mats­beið­endur leituðu til Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins og rannsakaði Steindór Guðmunds­son verkfræðingur hljóðeinangrun í húsinu. Niðurstaða hans var að ekki væri fullnægt skilyrðum opinberra reglna um hljóðeinangrun. Vegna þessa héldu mats­beiðendur eftir hluta af kaupverði íbúðarinnar. Einbýlishúsinu Tröllaborgum 4, Reykjavík var á árinu 1999 breytt í fjöleignahús með tveimur íbúðum.

III

Matsbeiðendur telja sig eiga rétt á skaðabótum úr hendi matsþola og/eða afslætti af kaupverði íbúðanna. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-3996/2006, frá 10. júlí 2007, voru matsþolar, Svanfríður Sigurþórsdóttir og Ingólfur Gissurarson, dæmd til að greiða matsbeiðendum skaðabætur að fjárhæð kr. 1.263.090. Niðurstaða dómsins byggði meðal annars á matsgerð Helga S. Gunnarssonar, sem dómkvaddur var þann 15. ágúst 2005 af Héraðsdómi Reykjavíkur til að meta ágalla á fasteigninni og kostnað við úrbætur, frá 8. janúar 2006. Er Helgi var dómkvaddur hafi ekki legið fyrir að Ingólfur Gissurarson og Valhöll fasteignasala hf. bæru ábyrgð á tjóni mats­beið­anda. Af þeim sökum hafi Ingólfur og fasteignasalan ekki verið aðilar að mats­málinu og þeim ekki gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna við matið. 

Dómi Héraðsdóms hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Nauðsynlegt sé að dóm­kveðja Helga að nýju þar sem Ingólfur og Valhöll fasteignasala hf. byggi kröfur sínar fyrir Hæstarétti m.a. á því að þeim hafi ekki verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna við framkvæmd matsins. Með dómkvaðningu gefist þeim færi á að koma að athugasemdum við matið og framkvæmd þess.

Með matinu hyggist matsbeiðendur sanna frekar ágalla á eigninni og fjárhæð kostnaðar við úrbætur á þeim.

IV

Matsþoli, Svanfríður Sigurþórsdóttir, mótmælir því að óskað sé mats á atriðum, sem búið sé að meta og að sami matsmaður verði dómkvaddur aftur. Hann sé ekki hæfur og alls ekki heppilegur til verksins þar sem hann hafi látið í ljós afstöðu sína í formlegri matsgerð og því sé ástæða til að draga hlutleysi hans í efa.

Matsþolar, Ingólfur Gissurarson og Valhöll fasteignasala hf., byggja á því að öflun nýrrar matsgerðar raski grundvelli málsins fyrir Hæstarétti. Matsþolar hafi áfrýjað málinu til Hæstaréttar m.a. á þeim grundvelli að þeir hafi ekki verið aðilar að fyrra matsmálinu og því geti niðurstöður matsgerðarinnar ekki verið lagðar til grund­vallar kröfum á hendur þeim í dómsmáli. Varnir þeirra í héraði hafi einnig verið reistar á þessari málsástæðu. Síðbúnar tilraunir matsbeiðanda til að bæta úr ann­mörk­um að baki kröfugerð sinni raski með verulegum hætti grundvelli þess máls sem nú sé rekið fyrir Hæstarétti Íslands. 

Þá mótmæla matsþolar því að sami maður verði dómkvaddur til að skila af sér mats­gerð um sömu atriði og hann hefur áður metið og tekið afstöðu til. Matsþolar telji mats­manninn engan vegin hlutlausan eða heppilegan til þess að leggja mat á þau atriði sem tilgreind séu matsbeiðni. Matsmaðurinn hafi áður tekið afstöðu til allra mats­spurn­inga á grundvelli gagna og sjónarmiða matsbeiðenda.

IV

   Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefur aðili for­ræði á því hverra gagna hann aflar til stuðnings kröfum sínum fyrir dómi. Engar sér­stakar hömlur eru í lögum nr. 91/1991 við að dómkvaddur verði maður til að meta atriði, sem matsgerðar hefur þegar verið aflað um, enda verði ekki talið að matsgerð samkvæmt beiðninni skipti ekki máli eða sé tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga 91/1991.

   Fyrir liggur að matsbeiðendur leita nú matsgerðar um sömu atriði og metin voru með matsgerðinni 8. janúar 2006. Hins vegar eru matsþolar nú fleiri því auk Svanfríðar Sigurþórsdóttur, sem var ein matsþoli við matið, eru matsþolar þeir Ingólfur Gissurarson og Valhöll fasteignasala hf.

Kveðast matbeiðendur með matinu ætla að sanna frekar ágalla á eigninni og fjár­hæð kostnaðar við úrbætur á þeim. Ekki verður fullyrt nú að bersýnilegt sé að slík mats­gerð, þar sem hinir nýju matsþolar fá tækifæri til að gæta hagsmuna sinna við matið, skipti ekki máli eða sé tilgangslaus til sönnunar. Kemur matsgerðin til skoðunar við efnismeðferð í Hæstaréttarmálinu og hvort hún kemst að.

   Samkvæmt 2. mgr. 61. gr. laga 19/1991 dómkveður dómari þann til matsstarfans sem aðilar koma sér saman um nema sérstakar aðstæður mæli gegn því. Annars velur dóm­ari matsmann eftir að hafa gert aðilum grein fyrir fyrirætlan sinni um val á manni. Það er þannig á forræði dómara að ákveða hverja hann dómkveður til matsstarfa.

   Um hæfi dómkvaddra matsmanna er fjallað í 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, en þar segir að, þann einn megi dómkveðja til að framkvæma mat sem er orðinn 20 ára að aldri, er að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um það atriði sem á að meta og hefur nauð­synlega kunnáttu til að leysa starfann af hendi eða annars þá kunnáttu sem bestrar er kostur. Það veldur því ekki vanhæfi matsmanns að hann hafi áður metið það sem meta skal.

   Að öllu framanröktu virtu þykja ekki efni til annars en að fallast á kröfu mats­beið­anda um að Helgi S. Gunnarsson verkfræðingur verði dómkvaddur að nýju til að fram­kvæma hið umbeðna mat.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Fallist er á kröfu matsbeiðanda, Elínar Viðarsdóttur og Gerd Hammerström, um að Helgi S. Gunnarsson verkfræðingur verði dómkvaddur að nýju til að framkvæma hið umbeðna mat.