Hæstiréttur íslands

Mál nr. 467/2013


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Verksamningur


                                              

Fimmtudaginn 5. desember 2013.

Nr. 467/2013.

Flugskóli Helga Jónssonar ehf.

(Valgeir Kristinsson hrl.)

gegn

Island Aviation ehf.

(Eiríkur Gunnsteinsson hrl.)

Skuldamál. Verksamningur.

I ehf. krafði F ehf. um greiðslu á reikningum vegna vinnu fyrrnefnda félagsins við eftirlit og viðhald á flugvélum í eigu F ehf. Talið var að þar sem ekki hafði verið samið um endurgjald fyrir umrædda vinnu færi um lögskipti aðila eftir þeirri meginreglu kröfuréttar, sem m.a. kæmi fram í 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, að greiða skyldi það verð sem krafist væri nema telja mætti það ósanngjarnt. Þar sem F ehf. hafði ekki tekist að sanna að fyrrnefndir reikningar væru óhæfilegir var félaginu gert að greiða I ehf. umkrafða fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2013. Hann krefst lækkunar á kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi tók stefndi að sér verk fyrir áfrýjanda sem laut að eftirliti og viðhaldi á flugvélum hans, en verkið var unnið á grundvelli verkáætlunar stefnda. Fyrir liggur að suma þætti verksins þurfti að vinna á verkstæði sem hafði tiltekin réttindi, en stefndi staðhæfir að sú vinna hafi annars vegar verið unnin á sínum vegum á verkstæði Flugfélagsins Ernis ehf., sem fullnægi þeim kröfum, og hins vegar erlendis á viðurkenndum verkstæðum. Áfrýjandi reisir varnir sínar á því að sá sem vann verkið á vegum stefnda hafi ekki haft tilskilin réttindi og jafnframt andmælir hann fjárhæð síðustu tveggja reikninga stefnda sem voru útgefnir 15. mars 2012 samtals að fjárhæð 1.954.672 krónur.

Samkvæmt gögnum málsins var þeirri málsástæðu áfrýjanda að sá starfsmaður stefnda, sem verkið vann, hefði ekki tilskilin réttindi til að taka að sér alla þætti verksins fyrst hreyft við munnlegan flutning málsins í héraði. Verður fallist á það með héraðsdómi að sú málsástæða hafi komið fram of seint og kemst hún því ekki að í málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 2. mgr. 163. sömu laga kemst heldur ekki að málsástæða áfrýjanda um aðildarskort stefnda til að krefjast verklauna fyrir þá vinnu sem fór fram hjá Flugfélaginu Ernir ehf., en þeirri málsástæðu var fyrst teflt fram við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti.

Þegar áfrýjandi fól stefnda umrætt verk var ekki samið um endurgjaldið og því fer um lögskipti aðila eftir þeirri meginreglu kröfuréttar, sem meðal annars kemur fram í 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, að greiða skuli það verð sem krafist er nema telja megi það ósanngjarnt. Samkvæmt því og með vísan til forsendna héraðsdóms er ósannað að fyrrgreindir reikningar stefnda séu óhæfilegir. Þá verður ekki fallist á með áfrýjanda að hann hafi glatað rétti til að fá dæmdan málskostnað eftir 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 í máli þar sem tekið var til varna þótt ekki hafi verið send út innheimtuviðvörun eftir 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Eftir þessum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Flugskóli Helga Jónssonar ehf., greiði stefnda, Island Aviation ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2013.

                Mál þetta, sem var dómtekið 15. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Island Aviation ehf. Bauganesi 28 í Reykjavík á hendur Flugskóla Helga Jónssonar ehf. með stefnu birtri 18. október 2012.

                Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 2.882.988 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 928.316 kr. frá 13. september 2011 til 15. mars 2012, af 2.882.998 kr. frá 15. mars til greiðsludags, að frádregnum 194.638 kr. þann 2. október 2012 og 187.200 kr. þann 2. janúar sl. Þá krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi viðurkennir hluta af kröfu stefnanda en krefst að öðru leyti sýknu og greiðslu málskostnaðar út hendi stefnanda.

                Atvik máls og ágreiningsefni

                Deila aðila snýst um greiðslu reikninga vegna vinnu stefnanda við eftirlit og viðhald flugvéla í eigu stefnda. Er um að ræða eftirfarandi fimm reikninga samtals að fjárhæð 2.882.988 kr. sem er stefnufjárhæð málsins: Reikningur nr. 69, dags. 13. september 2011 að fjárhæð 194.638 kr. reikningur nr. 70, dags. 13. september 2011 að fjárhæð 546.478 kr. reikningur nr. 73, dags. 13 september 2012 að fjárhæð 187.200,00 kr. , reikningur nr. 83, dags. 15 mars 2012 að fjárhæð 102.472 kr.  og reikningur nr. 84, dags. 15. mars 2012 að fjárhæð 852.200 kr..

                Stefnandi sendi stefnda innheimtubréf þann 26. september 2012 og greiddi stefndi í kjölfar þess 194.638 kr. Hefur stefnandi tekið tillit til þeirra innborgunar við útreikning kröfunnar. Að öðru leyti hefur stefndi ekki brugðist við innheimtubréfinu og er mál þetta því höfðað til innheimtu kröfunnar.

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi vísar til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar til stuðnings kröfu sinni. Hann leggur fram þá reikninga sem krafan byggir á sem sundurliðast nánar eins og greinir í atvikalýsingu.

Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við 130. gr. laga og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991.

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi mótmælir ekki greiðsluskyldu sinni á reikningum nr. 69 og 73, samtals að fjárhæð 381.838 kr. sem hann hefur þegar greitt. Þá mótmælir stefndi því ekki að stefnandi hafi unnið vinnu sem liggur að baki reikningum hans en telur umkrafða fjárhæð allt of háa og ekki í samræmi við umfang vinnunnar.

                Þá hafi stefnandi ekki sent stefnda innheimtuviðvörun í samræmi við innheimtulög nr. 95/2008. Því eigi stefnandi ekki rétt á innheimtu- eða málskostnaði með vísan til 11. gr. sbr. 7. gr. laganna.

                Um lagarök víar stefndi, auk ofangreindra laga, til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar og ákvæða laga nr. 91/1991, varðandi málskostnað.

                Niðurstaða

                Mál þetta varðar innheimtu stefnanda á reikningum vegna vinnu við eftirlit og við hald flugvéla í eigu stefnda. Ekki virðist vera ágreiningur um að stefnandi vann þá vinnu sem rukkað er fyrir en stefndi telur umkrafið endurgjald allt of hátt miðað við umfang vinnunnar.

                Fyrir dómi gaf skýrslu Arnar Rúnar Árnason, tæknistjóri stefnda, sem staðfesti verkbeiðnir fyrir hönd stefnanda vegna allra reikninga. Hann staðfesti fyrir dómi að umdeildir reikningar væru allir vegna vinnu sem hann hafi óskað eftir að stefandi ynni. Það hafi ýmist verið gert á með formlegum verkbeiðnum eða með munnlegum fyrirmælum sem gefin voru í fullu samráði við eigendur stefnda. Þá gaf Jytte Marcher Jónsson forsvarsmaður stefnda skýrslu fyrir dómi. Af framburði hennar verður ekki annað ráðið en hún hafi móttekið umdeilda reikninga án þess að gera athugasemdir við fjárhæð þeirra. Þá er því ekki mótmælt af hennar hálfu að óskað hafi verið eftir þjónustu stefnanda og staðfesti hún jafnframt að vitnið Arnar Rúnar hefði séð um samskipti við stefnanda þegar kom að viðhaldi og viðgerðum flugvéla. Þá er í gögnum málsins ekki að finna athugsemdir stefnda við fjárhæð reikninganna eða nokkurn rökstuðning fyrir því af hverju hann telji þá of háa eða hver rétt fjárhæð ætti að vera. Þá hefur ekki verið aflað matsgerðar í málinu. Í gögnum málsins eru tölvupóstar milli aðila þar sem stefnandi gerir forsvarsmanni stefnda ítrekað grein fyrir stöðu skulda samkvæmt framangreindum reikningum. Ekki er að sjá á þeim samskiptum að athugasemdir hafi verið gerðar við efni reikninga eða fjárhæð þeirra. Í skeyti sem forsvarsmaður stefnda sendi frá 17. febrúar 2012 er því borið við að fá verkefni hafi verið vegna veðurs en greiðslu lofað um leið og viðskipti stefnda glæðist.

                Byggja verður niðurstöðu máls þessa á því að stefndi hafi óskað eftir þeirri þjónustu sem stefnandi lét í té og krefst greiðslu fyrir í þessu máli. Aðilar sömdu ekki um verð fyrir þessa þjónustu fyrirfram. Í gögnum málsins má hins vegar sjá að stefnandi hefur sent stefnda áætlanir um kostnað þjónustu sinnar sem fara nærri þeim fjárhæðum sem reikningar eru gerði fyrir. Engin gögn liggja fyrir í málinu að stefndi hafi mótmælt fjárhæð reikninganna fyrr en eftir málshöfðun þessa. Þá hafa engin gögn verið lögð fram sem renna stoðum undir þá staðhæfingu stefnda að fjárhæð þeirra sé ósanngjörn miða við umfang verksins. Þá er heldur ekki gerður reki að því af hálfu stefnda að sýna fram á hvert eðlilegt endurgjald væri fyrir vinnu stefnanda. Með hliðsjón af þessu telst ósönnuð sú staðhæfing stefnda að að reikningarnir séu ósanngjarnt háir. Verður sýkna því ekki byggð á þeirri málsástæðu.

                Við aðalmeðferð málsins hélt stefndi uppi þeim vörunum að sér bæri ekki að greiða umdeilda kröfu þar sem stefnandi hefði ekki haft starfsréttindi til að vinna öll þau verk sem hann tók að sér og krefur nú greiðslu fyrir. Í því efni vísar stefndi til gangna sem stefnandi lagði fram fyrir dómi, eftir áskorun stefnda, varðandi starfréttindi hans og fyrirtækis hans. Hér er um að ræða málsástæðu sem ekki er hreift í greinargerð, gögnum eða bókunum málsins og var fyrst sett fram við aðalmeðferð þess. Málsástæða þessi er því of seint fram komin og verður gegn mótmælum stefnda ekki tekin til frekari skoðunar.

                Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki talið að stefndi hafi komið með varnir í málinu sem hafi áhrif á rétt stefnanda til greiðslu samkvæmt framlögðum reikningum. Verður krafa stefnanda því að fullu tekin til greina að frádregnum þeim tveimur greiðslum sem aðilar eru sammála um að stefndi hafi greitt, þ.e. 194.638. kr. þann 2. október 2012 og 187.200 kr. þann 2. janúar 2013.

                Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefndi greiða stefnanda málskostnað vegna reksturs málsins fyrir dómi. Ákvæði innheimtulaga nr. 95/2008, hafa ekki áhrif á rétt aðila dómsmáls til að fá tildæmdan málskostnað á grundvelli ákvæði laga nr. 91/1991, svo sem stefndi heldur fram í greinargerð. Þá verður ekki annað séð en stefnda hafi verið send innheimtuviðvörun í samræmi við ákvæði þeirra laga. Stefndi verður því dæmdur til greiðslu málskostnaðar til stefnanda, sem telst hæfilega ákveðinn 280.000 kr.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir kvað upp þennan dóm.

D ó m s o r ð :

                Stefndi, flugskóli Helga Jónssonar ehf., skal greiða stefnanda, Island Aviation ehf., 2.882.988 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 928.316 kr. frá 13. september 2011 til 15. mars 2012, af 2.882.998 kr. frá 15. mars 2012 til greiðsludags, að frádregnum 194.638 kr. þann 2. október 2012 og 187.200 kr. þann 2. janúar sl.

Þá skal stefndi greiða stefnanda 280.000 kr. í málskostnað.