Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-111

Ice Lagoon ehf. (Jón Þór Ólason lögmaður)
gegn
Sveitarfélaginu Hornafirði (Jón Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Eignarréttur
  • Sameign
  • Stjórnvald
  • Stjórnsýsla
  • Skaðabætur
  • Viðurkenningarkrafa
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 21. júlí 2022 leitar Ice Lagoon ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 24. júní sama ár í máli nr. 452/2020: Sveitarfélagið Hornafjörður gegn Ice Lagoon ehf. og gagnsök á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta á hendur gagnaðila og krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna ætlaðs tjóns hans við rekstur ferðaþjónustu við austurbakka Jökulsárslóns í landi jarðarinnar Fells vegna ákvarðana gagnaðila 20. maí 2010, 27. janúar og 15. ágúst 2014 og 10. mars 2015 um að synja honum um stöðuleyfi og vegna ólögmætra aðgerða gagnaðila sem leiddi af þeim. Kjarni ágreinings aðila lýtur að því hvort gagnaðili hafi með saknæmum og ólögmætum hætti bakað sér bótaskyldu vegna framangreindra ákvarðana.

4. Með dómi Landsréttar 1. apríl 2022 var hluta af kröfum leyfisbeiðanda vísað frá héraðsdómi en gagnaðili að öðru leyti sýknaður. Leyfisbeiðandi kærði til Hæstaréttar ákvæði dómsins um frávísun og gekk dómur um þann þátt málsins 1. júní 2022 í máli nr. 26/2022. Með dóminum voru felld úr gildi ákvæði dóms Landsréttar um frávísun á kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu gagnaðila vegna ætlaðs tjóns í rekstri sóknaraðila vegna ákvörðunar varnaraðila 20. maí 2010 og sá þáttur málsins lagður fyrir Landsrétt til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Leyfisbeiðandi óskaði einnig eftir leyfi til að áfrýja umræddum dómi Landsréttar um sýknu af kröfum hans en þeirri beiðni hafnaði Hæstiréttur með ákvörðun 2. júní 2022 í máli nr. 2022-65.

5. Með fyrrgreindum dómi Landsréttar 24. júní 2022 var komist að þeirri niðurstöðu að krafa leyfisbeiðanda um viðurkenningu á bótaskyldu gagnaðila vegna ákvörðunar 20. maí 2010 hefði verið fallin niður vegna fyrningar þegar mál þetta var höfðað. Var gagnaðili sýknaður af þeirri kröfu og þeim hluta kröfunnar sem tók til ætlaðrar ólögmætra aðgerða gagnaðila sem byggst hafi á ákvörðuninni. Þá var gagnaðili með vísan til 1. og 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 166. gr. sömu laga, einnig sýknaður af þeim hluta viðurkenningarkröfu leyfisbeiðanda sem varðaði skaðabótaskyldu gagnaðila vegna ólögmætra aðgerða sem byggt hefði á ákvörðunum gagnaðila 27. janúar og 15. ágúst 2014 og 10. mars 2015.

6. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um meðal annars túlkun á skilyrði um saknæmi og bótaskyldu opinberra aðila. Jafnframt hafi úrslit málsins um fyrningu fordæmisgildi, meðal annars um túlkun 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Þá telur hann að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína í ljósi þess að um verulega fjárhagslega hagsmuni sé að ræða auk þess sem ákvarðanir gagnaðila hafi brotið gegn ákvæðum stjórnarskrár. Enn fremur reisir hann beiðni sína á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að niðurstaða réttarins gangi gegn viðurkenndum meginreglum skaðabóta-, kröfu-, stjórnsýslu- og samkeppnisréttar. Loks sé niðurstaða réttarins um fyrningu bersýnilega röng.

7. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.