Hæstiréttur íslands

Mál nr. 457/2012


Lykilorð

  • Riftun
  • Gjöf
  • Endurgreiðslukrafa


                                     

Fimmtudaginn 7. febrúar 2013.

Nr. 457/2012.

Þrotabú Baugs Group hf.

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

Skarphéðni Berg Steinarssyni

(Þórður Bogason hrl.)

Riftun. Gjöf. Endurgreiðslukrafa.

Þrotabú B hf. krafðist riftunar á tveimur greiðslum B hf. til S á grundvelli samnings þeirra á milli um kaup B hf. á hlutafé S í BE ehf., auk endurgreiðslu á því sem greitt hafði verið. Byggði þrotabúið kröfu sína á því að greiðslurnar væru riftanlegar á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom m.a. fram að samkvæmt matsgerð, sem ekki hefði verið hnekkt, hefði allt eigið fé BE ehf. verið uppurið og eignarhlutur S í félaginu verðlaus þegar hann hefði verið seldur. Var það því mat Hæstaréttar að um örlætisgerning í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 hefði verið að ræða. Var riftunarkrafa þrotabús B hf. tekin til greina og S gert að endurgreiða þá fjárhæð sem hann fékk greidda á grundvelli samningsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. júní 2012. Hann krefst þess að rift verði tveimur greiðslum Baugs Group hf. samkvæmt samningi félagsins 1. september 2008 við stefnda um hlutafjárkaup í BGE Eignarhaldsfélagi ehf., annars vegar að fjárhæð 60.000.000 krónur, sem innt var af hendi 3. september 2008, og hins vegar að fjárhæð 44.575.957 krónur, sem innt var af hendi 27. október sama ár. Áfrýjandi krefst þess einnig að stefnda verði gert að greiða sér 104.575.957 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. október 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

            Stefndi var á árinu 2002 ráðinn til Baugs Group hf. og var hann einn af framkvæmdastjórum félagsins. Jafnframt átti stefndi sæti í stjórnum fjölda dótturfyrirtækja þess. Eftir að stefndi hóf störf hjá félaginu keypti hann hluti í því og í BGE Eignarhaldsfélagi ehf., en það félag var í eigu tiltekinna starfsmanna Baugs Group hf. Var tilgangur félagsins að fjárfesta í hlutabréfum í Baugi Group hf., meðal annars í því skyni að selja þau áfram til starfsmanna síðargreinda félagsins. Um þessi hlutabréfakaup var gerður samningur 5. desember 2003 milli stefnda, BGE Eignarhaldsfélags ehf. og Baugs Group hf., en þar var að finna nánari ákvæði um viðskiptin, þar á meðal um kaupskyldu Baugs Group hf. á hlutabréfum stefnda og um söluskyldu hans við tilteknar aðstæður.

Stefndi gegndi starfi sínu sem framkvæmdastjóri hjá Baugi Group hf. þar til hann var 8. júní 2007 ráðinn forstjóri Fasteignafélagsins Stoða hf., síðar Landic Property hf. Af því tilefni gerðu stefndi og Baugur Group hf. starfslokasamning 15. sama mánaðar og voru starfslokin miðuð við þann dag. Í samningnum var tekið fram að aðilar hafi náð samkomulagi um uppgjör „vegna kaupa á hlutafé“ og vegna „kaupréttar á hlutabréfum í Baugi Group hf. og hlutafjáreign í BGE Eignarhaldsfélagi ehf.“ Fólst þetta í því að stefndi seldi hlutafé sitt í Baugi Group hf. og fékk greitt fyrir það með hlutafé í Fasteignafélaginu Stoðum hf. Einnig var að finna svohljóðandi ákvæði í samningnum: „Verið er að vinna í uppgjöri vegna hlutar Skarphéðins í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. og eru aðilar ásáttir um að uppgjör vegna þessa fari fram eigi síðar en 15. september 2007.“ Þá var tekið fram að við þetta uppgjör kæmi til frádráttar andvirði bifreiðar, sem stefndi fékk frá Baugi Group hf., að fjárhæð 9.554.850 krónur.

Hinn 11. mars 2008 fór stefndi þess á leit að gert yrði upp við hann vegna hlutafjáreignarinnar í BGE Eignarhaldsfélagi ehf., en um þetta leyti þurfti stefndi að standa skil á vaxtagreiðslu vegna láns sem hann mun hafa tekið til hlutabréfakaupa. Af þessu tilefni var innt af hendi greiðsla í þágu stefnda að fjárhæð 205.000 evrur.

Með samningi 1. september 2008 keypti Baugur Group hf. af stefnda allt hlutafé hans í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. Um var að ræða hlutafé að nafnvirði 93.750 krónur en það nam 16,83% af hlutafé í félaginu. Tekið var fram í samningnum að kaupandi öðlaðist við undirritun samningsins öll réttindi er fylgdu því hlutafé sem keypt var. Kaupverð hlutafjárins var 135.730.807 krónur og var það miðað við áætlað eigið fé félagsins 30. júní 2007, en það var talið nema 806.481.326 krónum. Af kaupverðinu átti að greiða 60.000.000 krónur við undirritun samningsins en 44.575.957 krónur 2. nóvember 2008. Að öðru leyti hafði kaupverðið verið greitt með andvirði fyrrgreindrar bifreiðar og greiðslu að fjárhæð 205.000 evrur, en fram kemur á fylgiskjali með samningnum að sú greiðsla hafi verið að jafnvirði 21.600.000 króna.

Greiðslan að fjárhæð 60.000.000 krónur, sem inna átti af hendi við undirritun samningsins, var lögð inn á reikning stefnda 3. september 2008. Greiðandi var BGE Eignarhaldsfélag ehf. en fram kemur í gögnum úr bókhaldi þess félags og Baugs Group hf. að sama dag hafi fyrrgreinda félagið fengið þá fjárhæð að láni frá því síðarnefnda. Síðari greiðslan að fjárhæð 44.575.957 krónur var innt af hendi til stefnda 27. október 2008, en ekki liggur fyrir hvaðan hún kom. Þó kemur fram í sömu gögnum úr bókhaldi félaganna að sama fjárhæð hafi þann dag verið tekin að láni af BGE Eignarhaldsfélagi ehf. frá Baugi Group hf.

II

Baugur Group hf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2009, en frestdagur við skiptin var 4. febrúar sama ár. Innköllun var birt fyrra sinni í Lögbirtingablaði 19. mars 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 19. ágúst það ár.

Með bréfi áfrýjanda 23. september 2009 var stefnda tilkynnt að þrotabúið teldi að greiðslur samtals að fjárhæð 104.575.957 krónur samkvæmt samningi 1. september 2008 um kaup á hlutafé í BGE Eignarhaldsfélagi ehf., sem inntar voru af hendi til hans skömmu fyrir gjaldþrotaskiptin, væru riftanleg ráðstöfun eftir reglum XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var þess jafnframt krafist að fjárhæðin yrði endurgreidd. Þessu erindi svaraði stefndi með bréfi 1. október 2009 þar sem kröfunni var hafnað.

Hinn 20. janúar 2010 höfðaði áfrýjandi mál á hendur stefnda til riftunar á þeim ráðstöfunum sem fólust í umræddum samningi og til endurheimtu á þeim greiðslum sem inntar voru af hendi til stefnda. Þingsókn í málinu féll niður af hálfu áfrýjanda 6. september sama ár og var málið fellt niður með úrskurði 14. sama mánaðar. Í kjölfarið höfðaði áfrýjandi þetta mál 14. október 2010. Stefndi krafðist þess að málinu yrði vísað frá héraðsdómi en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 29. mars 2011. Stefndi hefur ekki leitað endurskoðunar á þeim úrskurði.

III

Undir rekstri málsins í héraði fór áfrýjandi þess á leit með beiðni 26. október 2010 að dómkvaddur yrði sérfróður maður til að meta virði hlutafjár stefnda í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. miðað við 1. september 2008 þegar stefndi og Baugur Group hf. gerðu með sér samning um kaup og sölu þess. Var Kristján Markús Bragason, viðskiptafræðingur og ráðgjafi hjá PwC ehf., dómkvaddur til starfans og skilaði hann matsgerð 26. september 2011.

Í matsgerðinni kom fram að í árslok 2007 hafi eignir félagsins verið annars vegar hlutafé í Baugi Group hf. að bókfærðu virði rétt tæpir 1,9 milljarður króna og hins vegar lánveitingar til hluthafa rúmir 3,4 milljarðar króna, en aðrar eignir hafi verið óverulegar. Þá hafi skuldir numið liðlega 4,4 milljörðum króna og eigið fé verið tæpar 892 milljónir króna. Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar sagði að miðað við þróun í rekstri Baugs Group hf. á árinu 2008, þar sem fjármálamarkaðir hafi verið mjög erfiðir og fjármögnunarmarkaðir innanlands nær lokaðir, teldi matsmaður annað útilokað en að eigið fé Baugs Group hf. hafi rýrnað verulega frá desember 2007 fram í september 2008 sem matið miðaðist við. Þessi rýrnun hafi verið svo veruleg að hún ein hafi dugað til að eyða eigin fé BGE Eignarhaldsfélags ehf. Einnig kom fram í matsgerðinni að stærstu skuldunautar félagsins hafi verið tveir nafngreindir starfsmenn Baugs Group hf., en kröfur á hendur þeim hafi samtals numið um 1.868 milljónum króna. Taldi matsmaður öldungis ljóst að þessi tveir menn hafi í september 2008 ekki haft bolmagn til að greiða þessar skuldir þegar virði hlutabréfa í Baugi Group hf. á móti skuldum hafði hið minnsta rýrnað verulega. Að öllu þessu virtu taldi matsmaður einsýnt að eigið fé BGE Eignarhaldsfélags ehf. hafi verið algerlega uppurið 1. september 2008 og því hafi eignarhlutur stefnda í félaginu á þeim tíma verið einskis virði. 

Með úrskurði 26. maí 2010 var bú BGE Eignarhaldsfélags ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Áfrýjandi lýsti kröfu í búið, samtals 1.200.019.331 krónu, og var tekið fram í kröfulýsingunni að um væri að ræða lán sem veitt hefði verið í þeim tilgangi að að kaupa hlutbréf í Baugi Group hf. með veði í bréfunum. Þar á meðal mun vera lán sem veitt var til að kaupa á hlutafé stefnda í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu áfrýjanda að fallið yrði frá kröfu á hendur þrotabúi BGE Eignarhaldsfélags ehf. vegna þess láns ef krafa sú sem sótt er í málinu fengist greidd úr hendi stefnda.

IV

Áfrýjandi reisir kröfu sína um riftun meðal annars á því að greiðslur samtals að fjárhæð 104.575.957 krónur samkvæmt samningnum 1. september 2008 um kaup á hlutafé í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. hafi verið örlætisgerningur og því falið í sér gjöf til handa stefnda í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Krefst áfrýjandi þess á grundvelli 1. mgr. 142. gr. sömu laga að stefnda verði gert að endurgreiða sér þá fjárhæð.

Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Þetta ákvæði hefur verið skýrt þannig að undir það falli hver sú ráðstöfun, sem rýrir eignir þrotamanns og leiðir til eignaaukningar hjá þeim er nýtur góðs af henni, enda búi gjafatilgangur að baki ráðstöfuninni og hún falli ekki undir 3. mgr. sömu greinar sem tekur til venjulegra tækifærisgjafa og svipaðra ráðstafana af smærra tagi. Undir örlætisgerninga í þessum skilningi geta fallið gagnkvæmir samningar eins og kaupsamningur ef umtalsverður munur er á greiðslu þrotamanns og því gagngjaldi sem hann hefur fengið í staðinn.

Þegar stefndi lét af störfum sem framkvæmdastjóri hjá Baugi Group hf. í júní 2007 var gerður við hann starfslokasamningur 15. sama mánaðar. Samkvæmt þeim samningi var gert ráð fyrir að stefndi seldi hlutafé sitt í BGE Eignarhaldsfélagi ehf., en tekið var fram í samningnum að verið væri að „vinna í uppgjöri“ vegna hlutar stefnda í félaginu og voru aðilar ásáttir um að uppgjör vegna þessa færi fram eigi síðar en 15. september sama ár. Þetta uppgjör fór hins vegar ekki fram fyrr en með samningnum 1. september 2008, en samkvæmt honum keypti Baugur Group hf. allt hlutafé stefnda í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. Verður það tímamark lagt til grundvallar um hvenær viðskiptin fóru fram enda komust þau ekki endanlega á fyrr en samið hafði verið um það gagngjald sem greiða átti fyrir hlutaféð. Í því tilliti skiptir engu þótt aðilar hafi kosið að miða kaupverðið við áætlað eigið fé félagsins á öðru og fyrra tímamarki.

Áfrýjandi hefur hagað kröfugerð sinni þannig að hann krefst riftunar og endurgreiðslu á því sem greitt var á grundvelli samningsins 1. september 2008 eftir að hann var gerður. Með sölunni á hlut sínum í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. fékk stefndi þær greiðslur, samtals að fjárhæð 104.575.957 krónur, en þeir fjármunir komu frá Baugi Group hf., sem var samkvæmt samningnum við stefnda kaupandi hlutarins. Gildir þá einu þótt greiðslurnar hafi runnið gegnum reikning BGE Eignarhaldsfélags ehf. til stefnda. Að gættri fyrrgreindri málflutningsyfirlýsingu áfrýjanda skiptir heldur ekki máli þótt hann hafi lýst kröfu í bú BGE Eignarhaldsfélags ehf. vegna lána sem veitt höfðu verið því félagi samkvæmt bókhaldi Baugs Group hf. Gat þetta ekki girt fyrir að áfrýjandi hefði uppi kröfu á hendur stefnda um endurgreiðslu vegna riftunar ráðstafana á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991.

Samkvæmt matsgerð sem áfrýjandi hefur aflað var allt eigið fé BGE Eignarhaldsfélags ehf. uppurið og eignarhlutur stefnda í félaginu verðlaus þegar hann seldi hlutinn 1. september 2008. Stefndi hefur ekki hnekkt þessu mati með yfirmati eða á annan hátt. Telst því sannað að sú ráðstöfun sem fólst í greiðslu peninga frá Baugi Group hf. til stefnda hafi verið örlætisgerningur í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt þessu verður riftunarkrafa áfrýjanda tekin til greina. Með skírskotun til 1. mgr. 142. gr. sömu laga verður stefnda þar af leiðandi gert að endurgreiða þá fjárhæð sem hann fékk á grundvelli samningsins um sölu á hlut sínum í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. Engin efni eru til að fallast á kröfu stefnda um að endurgreiðslukrafan á hendur honum verði lækkuð.

Áfrýjandi krefst dráttarvaxta frá 23. október 2009 til greiðsludags. Að því gættu að fyrra mál af sama tilefni féll niður vegna útivistar áfrýjanda þykir rétt að dráttarvextir verði reiknaðir frá 14. október 2010 þegar málið var höfðað, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Eftir þessum málsúrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Rift er greiðslum Baugs Group hf. samkvæmt samningi 1. september 2008 við stefnda, Skarphéðin Berg Steinarsson, um kaup á hlutafé í BGE Eignarhaldsfélagi ehf., annars vegar að fjárhæð 60.000.000 krónur, sem innt var af hendi 3. september 2008 og hins vegar að fjárhæð 44.575.957 krónur, sem innt var af hendi 27. október sama ár.

Stefndi greiði áfrýjanda, þrotabúi Baugs Group hf., 104.575.957 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. október 2010 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 2.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2012.

Mál þetta, sem var dómtekið 23. mars sl., er höfðað 14. október 2010.

Stefnandi er þrotabú Baugs Group hf., Efstaleiti 5, Reykjavík.

Stefndi er Skarphéðinn Berg Steinarsson, Melhaga 1, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að rift verði með dómi greiðslum Baugs Group hf. á grundvelli samnings milli félagsins og stefnda um hlutafjárkaup í BGE Eignarhaldsfélagi ehf., dags. 1. september 2008, að fjárhæð 60.000.000 króna sem innt var af hendi til stefnda 3. september 2008 og greiðslu að fjárhæð 44.575.957 krónur sem innt var af hendi til stefnda 27. október 2008. Þess er einnig krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 104.575.957 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. september 2009 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

Stefndi krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en með úrskurði upp kveðnum 29. mars 2011 var frávísunarkröfunni hafnað. Dómkröfur stefnda nú eru þær aðallega að stefndi verði alfarið sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og vaxtakrafa verði felld niður eða lækkuð verulega. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

I

Stefndi var ráðinn framkvæmdastjóri Baugs Group hf. á árinu 2002. Samhliða því starfi sat hann í stjórn dótturfyrirtækja félagsins. Þann 8. júní 2007 tók stefndi við starfi forstjóra Fasteignafélagsins Stoða hf., síðar Landic Property hf., en 15. júní 2007 var gerður starfslokasamningur milli stefnda og Baugs Group hf.

Samkvæmt 3. gr. starfslokasamningsins keypti stefndi bifreið sem hann hafði haft til umráða hjá Baugi Group hf., á bókfærðu verði, 9.554.850 krónur. Í 1. mgr. 7. gr. samningsins kemur fram að stefndi og Baugur Group hf. hafi náð samkomulagi um uppgjör vegna hlutafjáreignar stefnda í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. Í 4. mgr. 7. gr. samningsins segir: „Verið er að vinna í uppgjöri vegna hlutar Skarphéðins í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. og eru aðilar ásáttir um að uppgjör vegna þessa fari fram eigi síðar en 15. september 2007. Við það uppgjör verður dregið frá kaupverð bíls Skarphéðins, þ.e.a.s. kr. 9.554.850, sbr. 3. gr. þessa samnings.“

Þann 1. september 2008 undirrituðu stefndi og Stefán Hilmarsson, fyrir hönd Baugs Group hf., samning um hlutafjárkaup í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. Þar kom fram að kaupverð hins selda hlutar stefnda í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. skyldi nema 135.730.807 krónum og miðast við áætlað eigið fé félagsins 30. júní 2007. Var um að ræða 16,83% hlutafjár í félaginu. Fyrir uppgjörið höfðu verið greiddar 31.154.850 krónur, en að öðru leyti skyldi kaupverðið greitt þannig að 60.000.000 króna greiddust við undirritun samningsins og 44.575.957 krónur áttu að greiðast 2. nóvember 2008. Síðarnefnda greiðslan var hins vegar innt af hendi 27. október 2008.

Baugur Group hf. var úrskurðað gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2009. Frestdagur við skiptin var 4. febrúar 2009. Innköllun birtist fyrra sinni í Lögbirtingablaðinu 19. mars 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 19. ágúst 2009.

Stefnandi taldi framangreindar greiðslur vera riftanlegar. Af þeim sökum sendi lögmaður stefnanda stefnda bréf 23. september 2009 þar sem lýst var yfir riftun á framangreindum greiðslum, samtals að fjárhæð 104.575.957 krónur, og var skorað á stefnda að greiða þá fjárhæð til þrotabúsins innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins, ella yrði höfðað dómsmál til riftunar og greiðslu bóta. Þegar stefndi varð ekki við þeirri kröfu þingfesti stefnandi mál á hendur honum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 26. janúar 2010 til riftunar á framangreindum greiðslum Baugs Group hf. og endurgreiðslu þeirra. Stefndi tók til varna í málinu og krafðist aðallega frávísunar en til vara sýknu af kröfum stefnanda. Stefndi féll síðar frá kröfu sinni um frávísun. Undir rekstri málsins óskaði stefnandi dómkvaðningar matsmanns til að meta virði 16,83% hlutafjár stefnda í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. 1. september 2008 er Baugur Group hf. keypti það af stefnda á 135.730.807 krónur. Í þinghaldi 6. september 2010, er til stóð að dómkveðja matsmann, féll þingsókn niður af hálfu stefnanda. Var málið þá fellt niður að kröfu stefnda og stefnanda gert að greiða honum málskostnað. Málinu hefur því verið stefnt fyrir dóm í annað sinn.

Í þinghaldi í máli þessu 14. júní 2011 var dómkvaddur matsmaður að beiðni stefnanda til að meta virði hlutafjár stefnda í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. þann 1. september 2008. Var Kristján Markús Bragason viðskiptafræðingur dómkvaddur til starfans og er matsgerð hans dagsett 26. september 2011.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur stefndi, Erlendur Gíslason hæstaréttarlögmaður, annar af tveimur skiptastjórum stefnanda, Kristján Markús Bragason matsmaður, Kristín Jóhannesdóttir, Stefán Hilmar Hilmarsson og Rúnar Sigurpálsson.

II

Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að framangreindum greiðslum verði rift á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með tilliti til þess að uppgjör á BGE Eignarhaldsfélagi ehf. hafi ekki farið fram fyrr en rúmu ári eftir að samningur aðila hafi kveðið á um, telji stefnandi að um örlætisgerning hafi verið að ræða.

Með hugtakinu gjafagerningi í ákvæði 131. gr. laga nr. 21/1991 sé átt við hvers konar örlætisgerninga. Orðið „gjöf“ hafi verið skýrt rúmt, nánast með formlegum hætti. Í fræðikenningum hafi verið gengið út frá því að gjafahugtak 131. gr. hafi að geyma þrjú meginskilyrði. Í fyrsta lagi verði gjöfin að hafa rýrt eignir skuldarans, sem til skipta hefðu komið milli kröfuhafa í þrotabúinu. Enginn vafi leiki á að þessu skilyrði sé fullnægt í því máli sem hér sé til umfjöllunar. Í öðru lagi verði gjöfin að leiða til eignaaukningar hjá móttakanda hennar. Stefnandi telji einsýnt að stefndi hafi haft hag af hinum umdeildu greiðslum, enda hafi þær verið samtals að fjárhæð 104.575.957 krónur. Í þriðja og síðasta lagi verði tilgangur gerningsins að vera gjöf. Í þessu felist að þrotamaður hafi ætlað sér að umbuna (auðga) stefnda með því að skerða eignir sínar. Að mati stefnanda sé augljóst að Baugur Group hf. hafi ætlað að efna samninginn þegar við hafi blasað slæm fjárhagsstaða félagsins, og þar með umbuna stefnda með skerðingu á eigin eignum. Sú ráðstöfun hafi augljóslega farið gegn meginreglunni um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti.

Verði ekki fallist á riftun greiðslnanna á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 sé krafist riftunar á grundvelli 133. gr. laganna. Beri að líta til þess að stefndi hafi setið í ýmsum stjórnum fyrir hönd Baugs Group hf., verið prókúruhafi félagsins og forstjóri Stoða hf. Af þeim sökum hljóti stefndi að teljast til nákominna í skilningi 3. gr. laganna á grundvelli hagsmunatengsla við félagið. Þótt stefndi hafi látið af störfum hjá Baugi Group hf. og hafið störf hjá Stoðum hf., beri að horfa til þess að um nátengd félög hafi verið að ræða. Því komi riftunarregla 133. gr. um laun eða annað endurgjald til nákominna einnig til álita um riftun greiðslna sem hafi farið fram eftir uppgjör BGE Eignarhaldsfélags ehf., sem hafi verið nátengt starfslokasamningi sem gerður hafi verið 15. júní 2007.

Ákvæði 133. gr. laga nr. 21/1991 kveði á um að krefjast megi riftunar á greiðslu frá þrotamanni til nákominna á launum, öðru endurgjaldi fyrir vinnu eða eftirlaunum ef greiðslan hafi bersýnilega verið hærri en sanngjarnt hafi verið miðað við vinnuna, tekjur af rekstrinum eða önnur atvik. Ákvæðið eigi einnig við um greiðslu sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag, nema leitt sé í ljós að þrotamaður hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna. Telja verði að starfslokasamningur stefnda við Baug Group hf. falli undir annað endurgjald fyrir vinnu í skilningi ákvæðisins. Hugtökin laun og annað endurgjald fyrir vinnu hafi verið túlkuð rúmt, bæði í dómaframkvæmd og fræðum.

Ekki verði talið að Baugur Group hf. hafi verið gjaldfær á því tímamarki er framangreindar greiðslur hafi verið inntar af hendi, þótt félagið kunni ef til vill að hafa verið gjaldfært 15. júní 2007 er starfslokasamningurinn sjálfur hafi verið gerður. Fjárhagsstaða félagsins við hið síðara tímamark skipti ekki máli, heldur eingöngu staðan við það tímamark er greiðslurnar hafi verið inntar af hendi. Stefnandi telji að mikið ósamræmi hafi verið á milli umræddra greiðslna og tekna og umfangs atvinnurekstrarins á þeim tíma er þær hafi verið inntar af hendi, enda þá farið að halla alvarlega undan fæti í rekstri Baugs Group hf. Telja verði að greiðslurnar vegna BGE Eignarhaldsfélags ehf. hafi verið bersýnilega hærri en sanngjarnt hafi verið miðað við vinnu stefnda og tekjur af atvinnurekstrinum á þeim tíma þegar samningurinn um sölu félagsins hafi verið gerður.

Verði ekki fallist á riftun á grundvelli 131. eða 133. gr. laga nr. 21/1991 sé krafist riftunar á grundvelli 134. gr. laganna. Síðastnefnda ákvæðið taki meðal annars til þess að krefjast megi riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt hafi verið fyrr en eðlilegt hafi verið. Í þessu tilviki sé átt við greiðslur sem fari fram fyrir gjalddaga. Ljóst sé a.m.k. að greiðsla Baugs Group hf. til stefnda að fjárhæð 44.575.957 krónur hafi verið greidd nokkrum dögum fyrir gjalddaga. Líklega hafi slæm fjárhagsleg staða félagsins ráðið þar mestu um.

Áhersla skuli lögð á það skilyrði 134. gr. að mögulegt sé að rifta ef greiðslan hafi skert greiðslugetu þrotamannsins verulega. Ákvæðinu sé ætlað að taka til riftunar á greiðslu skulda sem hafi farið fram með öðrum hætti eða við aðrar aðstæður en gert hafi verið ráð fyrir upphaflega. Í tilviki stefnda hafi aðstæður augljóslega verið verri þegar greiðslur hafi farið fram en gert hafi verið ráð fyrir í starfslokasamningi, dags. 15. júní 2007.

Ekki sé mögulegt að álykta af íslenskri dómaframkvæmd hve háar greiðslur þurfi að vera til þess að teljast hafa skert greiðslugetu skuldara verulega, en unnt sé að hafa til hliðsjónar afstöðu norrænna fræðimanna í þessum efnum. Norskir og sænskir fræðimenn hafi látið í ljós þá skoðun að fjárhæð greiðslu þurfi að vera 10% eða meira af þeim eignum skuldara sem til ráðstöfunar séu, svo ákvæðið geti átt við. Hið tiltekna hlutfall eigi að miðast við eignir sem til ráðstöfunar séu, þegar greiðsla fari fram. Að öðru leyti fari matið almennt fram með hliðsjón af öllum aðstæðum þegar greiðslan hafi átt sér stað.

Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður sé þess krafist að umræddum greiðslum til stefnda verði rift á grundvelli hinnar almennu riftunarreglu 141. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að rifta ráðstöfun án þess að gerð sé krafa um að hún þurfi að hafa farið fram innan tiltekins tíma fyrir frestdag og geri ákvæðið ekki kröfu um hvers kyns ráðstöfunin þurfi að vera.

Stefnandi telji að umræddar greiðslur hafi verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og meðal annars leitt til þess að eignir Baugs Group hf. verði ekki til fullnustu kröfuhöfum. Ljóst sé því að greiðslurnar hafi orðið öðrum kröfuhöfum til tjóns. Þar sem greiðslan hafi farið fram svo löngu síðar en hún hafi átt að fara fram, sé hún ótilhlýðileg í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991. Í ljósi hinna nánu tengsla stefnda við Baug Group hf. á þeim tíma er greiðslurnar hafi farið fram, megi ætla að hann hafi vitað af slæmri fjárhagsstöðu félagsins, eða a.m.k. mátt vita um hana og ógjaldfærni félagsins. Hafi þetta leitt til þess að greiðslan hafi verið ótilhlýðileg. Ákvæði 141. gr. laga nr. 21/1991 innihaldi nokkur skilyrði:

Í fyrsta lagi að ráðstöfun sé á ótilhlýðilegan hátt kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Við mat á því hvort ráðstöfun teljist ótilhlýðileg eða ekki sé fyrst og fremst litið til þess hvort ráðstöfun víki hlutlægt séð verulega frá því sem almennt gerist og teljist venjulegt. Varðandi það hvort háttsemi teljist ótilhlýðileg eða ekki hafi oft verið litið til þess hvort viðkomandi háttsemi samræmist fyrri háttsemi skuldarans eða háttsemi skuldara í svipaðri stöðu. Ef ráðstöfun feli í sér brot á jafnræði kröfuhafa hafi háttsemi almennt verið talin ótilhlýðileg. Þá sé greiðsla eldri skulda án tengsla við endurskipulagningu á fjárhag skuldara almennt ótilhlýðileg. Þeim mun lengra sem liðið sé frá gjalddaga skuldar, þeim mun meiri líkur séu á að hún sé ótilhlýðileg. Ljóst sé að greiðslur til stefnda hafi ekkert haft að gera með endurskipulagningu á fjárhag Baugs Group hf. auk þess sem um hafi verið að ræða skuld sem gerð hafi verið upp löngu síðar en áætlað hafi verið í upphafi. Þá beri að nefna að greiðslur sem beri keim af því að verið sé að mismuna kröfuhöfum, til dæmis vegna tengsla þeirra við kröfuhafann séu ótilhlýðilegar.

Í öðru lagi að ráðstöfunin leiði til þess að eignir þrotamanns verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns. Ef ráðstöfun feli í sér tilfærslu fjármuna frá þrotamanni til viðsemjanda, án þess að sambærileg verðmæti skili sér til baka, teljist hún yfirleitt leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns. Hafi þessu skilyrði verið fullnægt í tilviki stefnda og Baugs Group hf.

Í þriðja lagi að þrotamaður hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar. Varðandi þetta skilyrði vísist til fyrri umfjöllunar um ógjaldfærni Baugs Group hf.

Í fjórða lagi að sá sem hag hafði af ráðstöfun, hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamanns og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Það nægi ef sá, sem ráðstöfunar hafi notið, hafi mátt vita um ógjaldfærni og ótilhlýðileika. Það sé því ekki skilyrði að hann hafi vitað um þessi atriði. Hér beri að nefna að stefndi sé nákominn í skilningi laga nr. 21/1991 og af þeim sökum séu auknar líkur á að hann hafi vitað um slæma fjárhagsstöðu Baugs Group hf. er hann hafi veitt greiðslunum viðtöku. Hrunið í september/október 2008 hafi hlotið að valda því að fjárfestingafélög sem háð séu fjármögnun bankanna hafi einnig lent í erfiðleikum. Sem fyrrverandi framkvæmdastjóri á fasteignasviði Baugs Group hf. hafi stefnda hlotið að vera þetta erfiða fjárhagsástand ljóst.

Fjárkrafa stefnanda vegna málsástæðna á grundvelli 131.-134. gr. laga nr. 21/1991 byggist á 1. mgr. 142. gr. laganna. Stefnandi telji ljóst að stefndi hafi haft hag af hinum umdeildu greiðslum, sem hafi numið 104.575.957 krónum. Sú fjárhæð svari einnig til þess tjóns, sem þrotabúið hafi orðið fyrir vegna ráðstöfunarinnar, þar sem samsvarandi eign sé ekki til reiðu í búinu til fullnustu kröfuhöfum. Ljóst sé að þar sem um peningagreiðslu hafi verið að ræða skipti notkun peninganna engu um kröfu þrotabúsins.

Varðandi málsástæðu á grundvelli 141. gr. sé vísað til 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi krefjist því skaðabóta að fjárhæð 104.575.957 krónur, enda telji stefnandi ljóst að stefndi hafi verið grandsamur um riftanleika umræddra greiðslna, sbr. fyrri umfjöllun.

Stefnandi vísi til riftunarreglna laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Nánar tiltekið styðjist kröfur stefnanda við 131., 133., 134. og 141. gr. laganna. Þá styðjist endurgreiðslukröfur hans við 142. gr. sömu laga. Krafa um dráttarvexti styðjist við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðjist við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991.

III

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Varðandi riftun á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipi o.fl. bendir stefndi á að gjafahugtak gjaldþrotaréttarins taki meðal annars til þeirra gagnkvæmu samninga þar sem verulegur munur sé á því sem skuldari láti af hendi og því endurgjaldi sem hann fái í staðinn. Líkt og fram komi í stefnu hafi gjafahugtak 131. gr. að geyma þrjú meginskilyrði, þ.e.a.s. að gjöfin rýri eignir skuldarans, að hún leiði til eignaaukningar hjá móttakanda hennar og að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að skilyrðin séu fyrir hendi og geti ekki varpað henni á stefnda.

Með starfslokasamningi frá 15. júní 2007 hafi Baugur Group hf. og stefndi náð samkomulagi um uppgjör vegna kaupa á hlutafjáreign í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. Enginn ágreiningur hafi verið um forsendur uppgjörsins. Það hafi hvorki leitt til eignaaukningar hjá stefnda né stefnanda, enda hafi verið um gagnkvæm viðskipti að ræða. Frestun á uppgjörinu megi eingöngu rekja til stefnanda, en hann hafi viljað bíða eftir ársuppgjöri BGE Eignarhaldsfélags ehf. fyrir árið 2007, sem hafi ekki legið fyrir fyrr en í ágúst 2008. Viðskipti aðila hafi þegar verið ráðin 15. júní 2007. Frá því tímamarki hafi stefndi átt kröfu á Baug Group hf., sem hafi numið verðmæti hlutar hans í eigin fé BGE Eignarhaldsfélags ehf. á miðju ári 2007. Stefnandi viðurkenni þennan skilning stefnda í stefnu og í bréfi lögmanns stefnanda til stefnda þar sem fram komi að tilgangurinn með gerningnum hafi verið að efna samninginn frá 2007. Hvorugur aðili hafi hagnast á viðskiptunum og hvorugur rýrt eignir sínar, þar sem Baugur Group hf. skyldi einungis greiða stefnda fjárhæð sem svaraði verðmæti bréfanna.

Fyrsta greiðsla Baugs Group hf. upp í kaup hans á eignarhlut stefnda hafi verið bifreiðin PE-990 sem afhent hafi verið stefnda til eignar 15. júlí 2007. Eftir tölvuskeyti stefnda til Baugs Group hf. þar sem ítrekuð hafi verið nauðsyn þess að uppgjör vegna kaupa á eignarhlut í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. færi fram, hafi Baugur Group hf. greitt stefnda 205.000 evrur. Í innanhúss tölvupósti Baugs Group hf. frá 12. mars 2008 komi fram viðurkenning félagsins á því að uppgjör við stefnda eigi eftir að fara fram vegna eignarhluta hans í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. Í framangreindum tölvupóstsamskiptum komi fram loforð Baugs Group hf. til stefnda um að klára umrætt uppgjör sem fyrst, enda hafi hann talið sér það skylt samkvæmt starfslokasamningi sínum við stefnda. Stefnandi hafi loks komið með uppgjör vegna kaupa sinna á eignarhlut stefnda í BGE Eignarhaldsfélagi ehf., eftir að ársuppgjör BGE Eignarhaldsfélags ehf. fyrir árið 2007 hafi legið fyrir, eða 1. september 2008.

Stefndi hafi fengið greiðslu 60.000.000 króna við undirritun samkomulagsins 1. september 2008. Síðustu greiðslu Baugs Group hf. til stefnda hafi átt að inna af hendi 2. nóvember 2008, en það hafi verið sunnudagur. Vísað sé til umfjöllunar að framan um aðdraganda greiðslunnar mánudaginn 27. október 2008. Stefndi telji að Baugur Group hf. hafi einfaldlega viljað klára að gera upp við hann áður en stjórnarformaður Landic Property hf., sem jafnframt var stjórnarformaður Baugs Group hf., hafi farið þess á leit við stefnda að hann segði upp störfum sem forstjóri Landic Property hf. sunnudaginn 2. nóvember 2008. Þótt stefndi hafi á þessum tíma ekki verið tengdur Baugi Group hf. verði ekki fram hjá því litið að stjórnarformaður Baugs Group hf. kunni að hafa talið Baugi Group hf. fyrir bestu, af siðferðilegum ástæðum, að þurfa ekki að ræða mál er hafi varðað Baug Group hf. um leið og hún hafi verið knúin til að ganga frá starfslokum stefnda hjá Landic Property hf. Fullyrðingum í stefnu um að slæm fjárhagsstaða Baugs Group hf. hafi ráðið því að greitt hafi verið 27. október 2008 sé hafnað sem röngum og ósönnuðum. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir þessum staðhæfingum sínum. Engum gögnum hafi verið teflt fram sem styðji fullyrðingar hans.

Af framangreindu sé ljóst að enginn gjafatilgangur hafi vakað fyrir Baugi Group hf. er hann hafi greitt stefnda þær greiðslur sem krafist sé riftunar á, heldur hafi hann talið sér það skylt samkvæmt samningi aðila og sér fyrir bestu af siðferðilegum ástæðum. Ljóst sé að greiðslur til stefnda séu smáræði af mánaðarlegri veltu Baugs Group hf. og í samhengi við heildarkröfur á hendur þrotabúinu. Fyrir liggi að Baugur Group hf. hafi greitt fjölmörgum lánardrottnum sínum og birgjum reikninga fyrir vinnu og þjónustu á sama tíma og greiðslur til stefnda hafi farið fram. Af hvaða ástæðum stefnandi telji að rifta beri greiðslum til hans en ekki annarra sem hafi fengið greiðslur á sama tíma sé með öllu óskiljanlegt. Samkvæmt öllu framangreindu séu skilyrði 131. gr. laga nr. 21/1991 ekki uppfyllt.

Riftunarregla 133. laga nr. 21/1991 geri þá kröfu að um greiðslu til nákominna sé að ræða. Riftunarreglur gjaldþrotalaga verði að skýra eftir þeim aðstæðum, sem fyrir hafi legið, þegar umdeild greiðsla hafi verið innt af hendi. Nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 séu tvö félög eða stofnanir, ef annað þeirra eða maður nákominn öðru þeirra eigi verulegan hlut í hinu eða þau eru í „sambærilegum tengslum“ og annars sé fjallað um í ákvæðinu, þ.e.a.s. sifja- eða hagsmunatengslum. Orðin „sambærileg tengsl“ verði einkum skýrð svo, að þar sé átt við verulegan eignarhlut. Ekki sé unnt að leggja rýmri skilning í hugtakið miðað við efni 3. gr. sem og forsögu ákvæðisins.

Hinn 8. júní 2007 hafi stefndi hætt störfum hjá Baugi Group hf. þegar hann hafi ráðist til starfa sem forstjóri Fasteignafélagsins Stoða hf., seinna Landic Property hf. Það félag hafi verið í meirihluta eigu annarra en Baugs Group hf. og hafi hvorki þá né síðar talist dótturfélag Baugs Group hf. Eftir starfslok stefnda hafi hann engin afskipti haft af stjórn eða málefnum Baugs Group hf. og öllum starfsskyldum hans fyrir félagið hafi lokið á þeim tímapunkti, sbr. 4., 5. og sérstaklega 8. og 9. gr. starfslokasamningsins, en þar hafi stefndi undirgengist eins árs bann við því að fara í samkeppni við Baug Group hf. Með engu móti sé unnt að halda fram að stefndi hafi verið nákominn félaginu í merkingu laga nr. 21/1991 eftir það tímamark og sé staðhæfingum stefnanda þar að lútandi mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Í 133. gr. laga nr. 21/1991 sé sérstaklega tiltekið, að krefjast megi riftunar á greiðslum á launum, öðru endurgjaldi fyrir vinnu eða eftirlaunum. Af orðalagi og forsögu ákvæðisins leiði að um einhvers konar endurgjald fyrir vinnu verði að vera að ræða. Stefndi hafi verið eigandi hlutafjár í BGE Eignarhaldsfélagi ehf., sem síðan hafi átt hlutafé í Baugi Group hf. Þegar stefndi hafi lokið störfum fyrir Baug Group hf., hafi aðilar orðið ásáttir um að réttast væri að slíta hagsmunatengslum milli stefnda og félagsins, þannig að stefnandi hafi keypt alla hluti stefnda í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. og Baugi Group hf. Endurgjald það sem stefnandi hafi greitt stefnda fyrir framangreint hlutfé verði ekki túlkað sem laun eða endurgjald fyrir vinnuframlag, enda hafi stefndi ekkert vinnuframlag innt af hendi sem rekja megi til þeirra greiðslna. Hér sé einfaldlega um eign hans að ræða sem hann hafi selt og afsalað til Baugs Group hf. í hlutabréfaviðskiptum þeirra á milli. Krafa stefnda á hendur félaginu hafi því verið almenn fjárkrafa en ekki launakrafa í skilningi reglna gjaldþrotaréttar.

Vert sé að benda á að í þeim tilvikum sem riftun á greiðslum launa komi til álita verði aðeins rift að því leyti sem greiðslan hafi verið hærri en sanngjarnt hafi verið. Beri sá sem krefjist riftunar á grundvelli 133. gr. laga nr. 21/1991 alla sönnunarbyrði þar um, en stefnandi hafi enga tilraun gert til að leiða í ljós slíkan mismun. Þegar af þessari ástæðu séu engin skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins og tilvísun stefnanda í það marklaus. Stefndi teljist hvorki nákominn stefnanda, né teljist greiðslur þær sem krafist sé riftunar á laun, endurgjald fyrir vinnuframlag eða eftirlaun.

Riftunarregla 134. gr. laga nr. 21/1991 heimili riftun greiðslna sem inntar hafi verið af hendi fyrir það tímamark sem telja verði venjulegt, án tillits til fjárhagsvandræða skuldara, miðað við forsendur og efni samnings aðila, aðstæður þeirra og venjur þeirra í milli. Í þessu tilfelli hafi lausnardagur kröfunnar þegar verið kominn og skuldara í sjálfsvald sett að efna kröfuna þegar hann hafi kosið svo. Líta verði til þess að Baugur Group hf. hafði dregið í á annað ár uppgjör við stefnda vegna starfslokasamnings þar sem hann hafi viljað bíða eftir að ársreikningur BGE Eignarhaldsfélags ehf. lægi fyrir áður en uppgjör færi fram.

Það hafi hvorki verið velvild né gjafatilgangur sem hafi ráðið því að síðasti hluti lögmætrar kröfu stefnda hafi verið greiddur fjórum dögum fyrir gjalddaga. Með tilliti til framangreindra aðstæðna aðila verði ekki talið óeðlilegt að greiðsla til stefnda hafi verið innt af hendi örfáum dögum fyrir gjalddaga. Hún sé með öðrum orðum venjuleg eftir atvikum. Útilokað sé að leggja mat á hvað teljist óvenjulegt, fyrr en greiðslan sé skoðuð í samhengi við önnur atriði, er lúti að fjárhagsstöðu skuldarans í víðara samhengi. Einnig þurfi að líta til fjárhæðar kröfunnar samanborið við aðrar kröfur. Það sé einungis í tilvikum þar sem greiðslur séu háar, metnar í þessu samhengi, sem riftun komi til álita. Stefnandi hafi ekki fært sönnur fyrir því að greiðslur til stefnda séu háar í þessu samhengi. Hann hafi reyndar ekki gert tilraun til að setja greiðslurnar í nokkurt samhengi, til dæmis hver sé breyting á fjárhagslegri stöðu Baugs Group hf. milli mánudagsins 27. október annars vegar og hins vegar föstudagsins 31. október 2008. Þannig hafi stefnandi ekki sýnt fram á að þetta frávik skipti stefnanda nokkru máli. Stefnandi hafi ekki lagt fram upplýsingar um þær greiðslur sem greiddar hafi verið út úr félaginu, hvorki á árinu 2007 né síðar. Eignir stefnanda hafi numið hundruðum milljarða og því ljóst að greiðslur stefnanda til stefnda hafi verið óverulegur hluti sjóðstreymis fyrirtækisins. Með vísan til framangreinds sé þessari málsástæðu stefnanda mótmælt sem rangri og ósannaðri.

Í stefnu komi réttilega fram að ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 sé ætlað að taka til riftunar á greiðslu skulda sem hafi farið fram með öðrum hætti eða við aðrar aðstæður en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Sá háttur á greiðslu sem fari í bága við 134. gr. séu einkum tilvik þar sem slæm fjárhagsstaða skuldara valdi því að greiðsla fari fram með öðrum hætti en hún hefði gert, ef fjárhag hans hefði ekki verið svo illa komið. Ljóst sé að með greiðslu stefnanda til stefnda, 3. september og 27. október 2008, hafi stefndi verið að efna réttilega þær skyldur sem hann hafði tekist á hendur með samningi aðila 15. júní 2007. Það sé því ljóst að greiðslan hafi farið fram á þann hátt sem upphaflega hafi verið gert ráð fyrir og að fjárhagsstaða skuldarans hafi engin áhrif haft þar á. Málsástæðum stefnanda, um beitingu ákvæðisins á þeim grundvelli að í tilviki stefnda hafi augljóslega verið verri aðstæður fyrir hendi þegar greiðslur hafi farið fram en gert hafi verið ráð fyrir í starfslokasamningi aðila, sé mótmælt sem vanreifuðum, ósönnuðum og óskiljanlegum.

Riftunarregla 141. gr. laga nr. 21/1991 hafi að geyma þrjú grundvallarskilyrði; að um ótilhlýðilega ráðstöfun sé að ræða, að þrotamaður hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og að sá sem hag hafi haft af ráðstöfuninni hafi verið grandsamur. Reglan hafi ótvíræð tengsl við endurgreiðslureglu 3. mgr. 142. gr. laganna og marki ákvæðið því grundvöll skaðabótakröfu. Skilyrðið um ótilhlýðileika lúti að forsendum þess, að háttsemi teljist skaðabótaskyld. Því beri, í samræmi við meginreglur um skilyrði til skaðabóta, að nota svipaðar viðmiðanir og við mat á því hvort háttsemi sé saknæm. Megi því draga þá ályktun að sé ráðstöfun venjuleg þá sé hún tilhlýðileg. Hafi því verið talið að greiðsla skulda með peningum, sem eigi sér stað á gjalddaga sé yfirleitt ekki ótilhlýðileg. Líkt og áður hafi komið fram hafi aðilar samið um kaup Baugs Group hf. á hlutum stefnda í BGE Eignarhaldsfélagi ehf. 15. júní 2007. Hafi um leið verið samið um að uppgjör skyldi fara fram fyrir 15. september sama ár. Félagið hafi óskaði eftir því að uppgjör færi ekki fram fyrr en ársuppgjör BGE Eignarhaldsfélags ehf. vegna ársins 2007, lægi fyrir. Það hafi verið í ágúst 2008. Í beinu framhaldi af því hafi aðilar orðið ásáttir um uppgjör og greiðsludreifingu þess. Fyrri greiðslan hafi verið greidd við undirritun, en sú síðari fjórum dögum fyrir gjalddaga, af ástæðum sem áður hafi verið raktar og séu fjárhag Baugs Group hf. óviðkomandi. Ljóst sé því að um venjulega ráðstöfun hafi verið að ræða og geti hún því ekki talist ótilhlýðileg.

Annað skilyrði 141. gr. sé að þrotamaður hafi verið ógjaldfær er ráðstöfunin hafi átt sér stað eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar. Það sé stefnandi sem hafi sönnunarbyrði fyrir því að skuldarinn hafi verið ógjaldfær á því tímamarki þegar ráðstöfun hafi farið fram eða orðið það vegna hennar. Stefnandi hafi með gagnaframlagningu sinni lagt ríka áherslu á að mála sem dekksta mynd af fjárhagsstöðu Baugs Group hf. Þannig leggi stefnandi til dæmis fram sundurlaust yfirlit yfir kröfur Baugs Group hf. í vanskilum sem félaginu hafi orðið skylt að greiða, að því er virðist á tímabilinu 1. febrúar 2008 til 19. febrúar 2009. Þetta skjal virðist vera heimatilbúið, sé óstaðfest og hafi ekkert sönnunargildi fyrir dómi og sé því mótmælt í heild sinni. Ekki séu hins vegar lagðar fram neinar upplýsingar um þær greiðslur sem greiddar hafi verið út úr félaginu, hvorki á árinu 2007 né síðar. Engar upplýsingar liggi fyrir um lausafé stefnanda á þessum tíma eða eignir. Þau gögn sem stefnandi leggi fram gefi því í besta falli ófullnægjandi mynd af stöðu stefnanda á þeim tíma sem greiðslurnar hafi farið fram. Greiðslur vegna uppgjörs til stefnda séu smávægilegar miðað við veltu og skuldastöðu Baugs Group hf. á þessum tíma. Nær hálft ár hafi liðið frá því Baugur Group hf. hafi greitt stefnda þær greiðslur og þar til hann hafi verið úrskurðaður gjaldþrota. Á því tímabili sé ljóst að Baugur Group hf. hafi greitt starfsmönnum sínum laun, birgjum fyrir vörur, afborganir lána o.s.frv. og hafi haldið rekstri sínum áfram í óbreyttri mynd. Fullyrðingar stefnanda um ógreiðslufærni hans á því tímamarki þegar greiðslurnar hafi farið fram séu því með öllu ósannaðar.

Að lokum sé það gert að skilyrði í 141. gr. laga nr. 21/1991 að sá sem ráðstöfunar hafi notið hafi vitað, eða mátt vita, annars vegar um ógjaldfærni þrotamanns og hins vegar um þær aðstæður sem hafi leitt til þess að ráðstöfun hafi verið ótilhlýðileg. Sönnunarbyrði um grandsemi í þessu sambandi hvíli á stefnanda. Líkt og fram hafi komið hafi stefndi hætt störfum hjá Baugi Group hf. þegar hann hafi ráðist til starfa sem forstjóri Fasteignafélagsins Stoða hf., síðar Landic Property hf. Það félag hafi verið í meiri hluta eigu annarra en Baugs Group hf. og hafi hvorki þá né síðar talist dótturfélag þess. Eftir starfslok stefnda hafi hann engin afskipti haft af stjórn eða málefnum Baugs Group hf. og öllum starfsskyldum hans fyrir félagið hafi lokið. Stefndi hafi því engan aðgang haft að upplýsingum um fjárhagsstöðu félagsins og hafi enga vitneskju haft um ógjaldfærni þrotamannsins á því tímamarki, hafi hann verið ógjaldfær. Málsástæðum stefnanda um annað sé mótmælt sem ósönnuðum og röngum.

Varakrafa um verulega lækkun dómkrafna stefnanda byggist á sömu málsástæðum og raktar hafi verið. Stefndi sé einstaklingur en stefnandi, á þeim tíma sem greiðslurnar hafi farið fram, stórfyrirtæki á alþjóðavísu. Ekki sé með neinu móti unnt að krefjast þess af stefnda að hann hafi í lok október 2008 getað metið hvaða áhrif alþjóðleg fjármálakreppa og efnahagskreppa á Íslandi hefði á Baug Group hf., þótt raunin hafi orðið sú að félagið hafi orðið gjaldþrota 13. mars 2009. Benda megi á að þeim bresku eignum Baugs Group hf. sem þrotabú Landsbanka Íslands hafi tekið yfir í febrúar 2009, en sú ákvörðun hafi átt drjúgan þátt í gjaldþroti Baugs Group hf., sé ætlað að standa undir drjúgum hluta svonefndra Icesave-skuldbindinga Íslendinga og teljist mjög arðgefandi og góðar eignir. Þá sé á það bent að samkvæmt fundargerð skiptafundar telji skiptastjórar stefnanda fullvíst að greiðslur fáist upp í almennar kröfur, sem verði að telja frekar fátítt við gjaldþrotaskipti. Þar af leiðandi megi telja ljóst að staða stefnanda hafi verið mun betri en flestra annarra félaga sem verði gjaldþrota.

Dráttarvaxtakrafa stefnanda styðjist ekki við lög og sé henni hafnað. Meðal annars geti upphafsdagur dráttarvaxta í fyrsta lagi talist við höfðun dómsmáls, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þar sem mál þetta hafi verið höfðað öðru sinni með stefnu birtri 14. október 2010 verði í fyrsta lagi miðað við þá tímasetningu. Stefndi verði ekki látinn gjalda þess að málið hafi verið fellt niður vegna athafna stefnanda sjálfs. Stefndi krefjist þess að kröfum stefnanda um dráttarvexti verði hafnað.

Stefndi krefjist málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti, sbr. 129. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að viðbættum virðisaukaskatti þar sem stefndi sé einstaklingur. Stefndi vísi, auk þeirra laga sem þegar hafi verið fjallað um, sérstaklega til meginreglna kröfuréttar um skaðabótaábyrgð og skilyrði riftunar, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, einkum 72. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en stefndi styðji málskostnaðarkröfu sína við XXI. kafla þeirra laga, sbr. og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

Stefnandi krefst í máli þessu riftunar á tveimur greiðslum Baugs Group hf. til stefnda á grundvelli samnings milli félagsins og stefnda um hlutafjárkaup í BGE Eignarhaldsfélagi ehf., annars vegar að fjárhæð 60.000.000 króna sem innt var af hendi til stefnda 3. september 2008 og hins vegar að fjárhæð 44.575.957 krónur sem innt var af hendi 27. október 2008.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda. Í þinghaldi í málinu 4. október 2011 lagði stefndi fram bókun þar sem meðal annars kemur fram að greiðslan til stefnda að fjárhæð 60.000.000 króna hafi ekki verið greidd af Baugi Group hf. heldur BGE Eignarhaldsfélagi ehf. Stefnandi hafi ekki verið greiðandi og sé því ekki réttur aðili að málinu. Stefndi byggi, auk þeirra málsástæðna sem þegar hafi komið fram, á aðildarskorti og sé því krafist sýknu á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Lagði stefndi fram útprentun yfir millifærslu af bankareikningi stefnda sem sýnir að BGE Eignarhaldsfélag ehf. lagði þann 3. september 2008 fjárhæðina 60.000.000 króna inn á bankareikning stefnda.

Stefnandi mótmælir því að ný málsástæða um aðildarskort komist að í málinu, auk þess sem hann mótmælir henni sem rangri. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 skulu málsástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Stefnandi lagði ekki fram í málinu gögn um greiðslur Baugs Group hf. til stefnda. Stefndi aflaði hins vegar upplýsinga um millifærslur á reikning sinn. Hafði hann ekki tilefni til að hafa framangreinda málsástæðu uppi fyrr en þá.

Í þinghaldi 15. desember 2011 voru lögð fram frekari gögn vegna millifærslna þeirra fjárhæða sem um ræðir í málinu. Samkvæmt þeim gögnum lagði Baugur Group hf. fjárhæðirnar 60.000.000 króna inn á reikning BGE Eignarhaldsfélags ehf. 3. september 2008 og 44.575.957 krónur 27. október sama ár. Í bókhaldi félagsins er þetta skráð sem lán til BGE Eignarhaldsfélags ehf. Þessa sömu daga lagði BGE Eignarhaldsfélag ehf. framangreindar fjárhæðir inn á reikning stefnda. Fyrir dómi skýrði Stefán Hilmar Hilmarsson, fyrrverandi fjármálastjóri Baugs Group hf., svo frá að þetta skýrðist af því að BGE Eignarhaldsfélag ehf. hefði verið með forkaupsrétt að þessum bréfum. Það félag hafi því verið eiginlegur kaupandi hlutabréfanna af stefnda og hafi greitt honum fyrir þau. Þá bar Rúnar Sigurpálsson, sem var forstöðumaður á fjármálsviði hjá Baugi Group hf. og færði bókhald fyrir BGE Eignarhaldsfélag ehf., á sama veg og lýsti því að BGE Eignarhaldsfélag ehf. hafi verið kaupandi bréfanna. Félagið hefði greitt fyrir bréfin og orðið eigandi þeirra.

Ljóst er að greiðslur þær sem stefnandi krefst riftunar á komu ekki til stefnda frá Baugi Group hf. heldur BGE Eignarhaldsfélagi ehf., en Baugur Group hf. lagði inn á reikning þess félags. Bar stefnanda því að beina kröfum sínum að BGE Eignarhaldsfélagi ehf. Svo virðist sem það hafi verið gert, en í framburði annars skiptastjóra stefnanda, Erlends Gíslasonar hæstaréttarlögmanns, fyrir dóminum kom fram að stefnandi hefði lýst kröfum í þrotabú BGE Eignarhaldsfélags ehf. Hann gat ekki svarað því hvort um nákvæmlega þessar fjárhæðir væri að ræða, en nánar aðspurður kvaðst hann telja að ítrustu kröfum hefði verið lýst. Þá svaraði hann því að honum væri kunnugt um að þrotabú BGE Eignarhaldsfélags ehf. hefði samið við nokkra aðila um uppgjör krafna, en gat ekki upplýst um hvort svo væri um stefnanda. Ljóst er að ef stefnandi hefur lýst kröfum vegna framangreindra tveggja greiðslna í þrotabú BGE Eignarhaldsfélags ehf. er stefnandi að krefja tvo aðila um sömu greiðslu. Í ljósi framangreinds þykir verða að sýkna stefnda af kröfum stefnanda með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi verður, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 2.000.000 króna.

Barbara Björnsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Skarphéðinn Berg Steinarsson, er sýkn af kröfum stefnanda, þrotabús Baugs Group hf.

Stefnandi greiði stefnda 2.000.000 króna í málskostnað.