Hæstiréttur íslands

Mál nr. 531/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Endurupptaka
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Þriðjudaginn 3

 

Þriðjudaginn 3. desember 2002.

Nr. 531/2002.

Þórhildur Jónasdóttir

(Jón Einar Jakobsson hdl.)

gegn

Gunnlaugi Jónassyni

(Svala Thorlacius hrl.)

 

Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Endurupptaka. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Héraðsdómari hafnaði kröfu Þ um að tekin yrði upp á ný dómsmeðferð á kröfu G um að dánarbú L og J yrði tekið til opinberra skipta. Heimild skorti til kæra ákvörðunina til Hæstaréttar. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. nóvember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. desember sl. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að tekin yrði upp á ný dómsmeðferð, sem lokið var með úrskurði 10. júní sama árs, á kröfu varnaraðila um að dánarbú Lilju Gunnlaugsdóttur og Jónasar Sigurðssonar yrði tekið til opinberra skipta. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Hún krefst þess „að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að kveða upp úrskurð um ágreining aðila ... en að öðrum kosti verði heimiluð endurupptaka málsins“. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að ákvörðun héraðsdómara verði staðfest og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Samkvæmt upphafsorðum 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 sæta kæru til Hæstaréttar úrskurðir og ákvarðanir héraðsdómara, sem ganga eða teknar eru eftir ákvæðum laganna, en þó ekki úrskurðir eða ákvarðanir, sem myndu ekki sæta kæru ef um væri að ræða einkamál, sem rekið væri eftir almennum reglum. Í 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er kæruheimildum í almennum einkamálum settar þær skorður að eingöngu má skjóta með kæru til Hæstaréttar úrskurðum héraðsdómara, sem kveðnir eru upp um nánar tilgreind atriði. Með þessu er girt fyrir að ákvörðun, sem héraðsdómari tekur um atriði varðandi rekstur almenns einkamáls, geti sætt kæru til Hæstaréttar. Með því að fyrrgreind 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 takmarkar heimildir til að kæra úrskurði eða ákvarðanir héraðsdómara, sem þau lög taka til, á þann hátt að sömu reglur gildi á því sviði eins og á vettvangi almennra einkamála, brestur heimild til að skjóta hinni kærðu ákvörðun til Hæstaréttar. Verður máli þessu því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2002

Dánarbú Lilju Gunnlaugsdóttur og Jónasar Sigurðssonar var tekið til opinberra skipta með úrskurði héraðsdóms 10. júní 2002. Þann 14. júní 2002 var af hálfu sýslumannsins í Reykjavík yfirfarin og samþykkt erfðafjárskýrsla varðandi dánarbúið en beiðni um leyfi til einkaskipta hafði verið móttekin hjá sýslumanni 18. mars 2002.

Með bréfi, sem móttekið var í héraðsdómi 2. október 2002, fór Þórhildur Jónasdóttir, einn af erfingjum dánarbúsins, þess á leit að málið yrði endurupptekið, en formleg beiðni um endurupptöku barst héraðsdómi 21. október 2002. Þar segir m.a. að Þórhildur hafi fyrst fengið vitneskju um úrskurð héraðsdóms 26. júní 2002 við móttöku á bréfi skiptastjóra búsins, Steinunnar Guðbjartsdóttur hdl.

Samkvæmt 137. gr. laga nr. 91/1991 varð Þórhildur að biðja um endurupptöku innan mánaðar frá því að henni var kunnugt um úrskurð héraðsdóms, þ.e. í síðasta lagi 26. júlí 2002. Verður því að hafna beiðni hennar um endurupptöku málsins.

ÁLYKTUNARORÐ:

Hafnað er beiðni Þorhildar Jónasdóttur um endurupptöku á málinu D-30/2002: Beiðni Gunnlaugs Jónassonar um opinber skipti á dánarbúi Lilju Gunnlaugsdóttur og Jónasar Sigurðssonar.