Hæstiréttur íslands

Mál nr. 123/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald


Föstudaginn 15

 

Föstudaginn 15. mars 2002.

Nr. 123/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhaldsvist.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu gæsluvarðhaldsfanga um að honum yrði heimilað að fá heimsóknir, lesa dagblöð og fylgjast með útvarpi og sjónvarpi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. mars 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2002, þar sem hafnað var kröfum varnaraðila um nánar tiltekin atriði varðandi tilhögun gæsluvarðhaldsvistar hans. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að honum verði í gæsluvarðhaldinu heimilað að fá heimsóknir, lesa dagblöð og fylgjast með útvarpi og sjónvarpi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2002.

Skipaður verjandi X gæsluvarðhaldsfanga, gerir þær kröfur fyrir hans hönd, á grundvelli 75. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 91/1991, að aflétt verði takmörkunum á gæslu samkvæmt c-, d- og e-liðum 1. mgr. 108. gr. laganna.

Kröfunni er mótmælt af hálfu lögreglustjórans í Reykjavík, sem fer með rannsókn málsins.

Málavextir eru þeir að kærði, X, var handtekinn mánudaginn 18. febrúar síðastliðinn vegna gruns um innbrot og manndráp. Við yfirheyrslu þann dag játaði kærði að hafa framið bæði afbrotin. Hann hefur sætt gæsluvarðhaldi frá þeim tíma og verið látinn sæta öllum þeim takmörkunum sem 108. gr. laga nr. 19/1991 heimilar í b-e lið en einungis gerðar undantekningar með sérstöku samþykki lögreglu til að hann fengi að hitta nánustu aðstandendur sína, foreldra og barnsmóður auk þess sem honum hefur verið leyft að taka við pósti frá ættmennum sínum og vinum sem þó hefur verið opnaður og lesinn yfir af lögreglu.

Af hálfu verjandans er því mótmælt að kærði skuli vera látinn sæta nefndum takmörkunum, sérstaklega þeim er lúta að samskiptum við ættingja. Mótmælum hafi verið komið formlega á framfæri við rannsóknara 7. mars sl. en aðeins borist óformlegt svar sem virðist byggt á því að að lögregla tengi þessar takmarkanir á einhvern hátt við framgang yfirheyrslna yfir kærða en enginn efnisleg rök séu til slíkrar tengingar. Ættingjar kærða eigi engan þátt í afbrotum hans né hafi komist í kast við landslög svo vitað sé. Verði ekki séð að nokkur rannsóknarnauðsyn standi til þess að synja kærða um þau grundvallarréttindi sem t.d. c-liður 108. gr. kveði á um sem meginreglu.

Kærði hafi greint frá sínum þætti í máli þessu og því engin rök fyrir því að hann geti á einhvern hátt haft áhrif á rannsóknina, jafnvel þó svo að hann hefði hug á því, með því að hitta þessa tilgreindu ættingja sína.

Sérstaklega er á það bent að einangrun og svipting réttar, t.d. til heimsókna, byggi á undantekningarreglu frá meginreglu um réttindi gæsluvarðhaldsfanga en svo gríðarlega íþyngjandi skerðing persónufrelsis, sem einangrunarvist feli í sér, þurfi að styðjast við alveg sérstaklega haldgóð rök. Eins og sakarefni máls þessa sé háttað og þá sérstaklega í ljósi framburða hans sjálfs, þar sem hann hefur viðurkennt bæði innbrotið og að hafa orðið valdur að dauða Braga Óskarssonar, verða skerðingar á réttindum hans ekki reistar á almennri yfirlýsingu um rannsóknarhagsmuni.

Verjandinn vísar m.a. til 68. stjórnarskrárinnar og  3. gr. laga nr. 62/1994 um lögfestingu Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 3. gr. sáttmálans. Bent er á að tilgangur gæsluvarðhaldsvistar sé  ekki að knýja sakborninga til játninga heldur til verndar rannsóknarhagsmunum. Þeir hagsmunir séu fráleitt í húfi þótt kærði fái heimsóknir sinna nánustu.

Af hálfu rannsóknara er því haldið fram, að ef takmörkunum sem gæsluvarðhaldsfanginn sæti verði aflétt geti það spillt rannsókn málsins í veigamiklum atriðum. Enn séu til staðar rannsóknarhagsmunir sem girði fyrir að takmörkununum verði aflétt. Lögregla telji að kærði hafi enn ekki að fullu greint frá sínum þætti í þeim afbrotum sem hann hafi játað og aðdragandi þeirra sé ekki fullskýrður. Á þessu stigi sé ekki hægt að útiloka að aðrir tengist brotunum.

[...].

Því er haldið fram að lögregla sé ekki búin að útiloka að fleiri tengist brotunum Rannsóknin hafi staðið sleitulaust frá því að hið ætlaða manndráp átti sér stað og verði haldið áfram þar til málið telst að fullu upplýst. Um sé að ræða mjög alvarlegt manndrápsmál og hagsmunir lögreglu og almennings af því að rannsókn málsins verði ekki spillt meiri en hagsmunir kærða af því að þeim takmörkunum sem hann enn sætir í gæsluvarðhaldinu verði aflétt.

Niðurstaða

Kærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald 19. febrúar 2002 og var í framhaldinu ákveðið af hálfu rannsóknara að á gæsluvarðhaldsvistinni yrðu takmarkanir samkvæmt b-, c-, d- og e-liðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991. 

Kærði hefur játað að hafa framið manndráp og innbrot og hefur rannsókn málsins nú staðið yfir í rúmar tvær vikur. Af hálfu lögreglu hefur verið gerð grein fyrir að verið sé að fylgja eftir vísbendingum um að fleiri hafi tekið þátt í umræddum brotum og stendur sú rannsókn enn. Með hliðsjón af þeim röksemdum sem fram hafa komið af hálfu lögreglu um mikilvægi þess að takmörkunum verði ekki aflétt ber að fallast á það með lögreglu að staða rannsóknarinnar sé þannig að varhugavert sé vegna rannsóknarhagsmuna að létt verði strax af gæsluvarðhaldsvist kærða framangreindum takmörkunum, jafnvel þótt fylgst verði með samskiptum kærða.  Þannig gæti hann spillt rannsókninni, t.d. með því að koma skilaboðum til þeirra sem kunna að tengjast brotunum.  Dómurinn telur því að synjun lögreglu á málaleitan verjandans styðjist við gild rök og að staða rannsóknarinnar sé enn á því stigi að þeir hagsmunir að umrætt manndrápsmál upplýsist að fullu gangi framar þeim mikilvægu mannréttindum sem kærði verður að þola skerðingu á meðan á gæsluvarðhaldsvistinni stendur. Ber því að hafna kröfu verjandans.

Sigurður Tómas Magnússonn héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Hafnað er kröfu um að aflétt verði takmörkunum á gæslu gæsluvarðhaldsfangans X samkvæmt c-, d- og e-liðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991.