Hæstiréttur íslands

Mál nr. 218/2005


Lykilorð

  • Skilorðsrof
  • Upptaka
  • Ávana- og fíkniefni
  • Vopnalagabrot


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. mars 2006.

Nr. 218/2005.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Árna Geir Norðdahl Eyþórssyni

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Upptaka. Vopnalagabrot. Skilorðsrof.

Á var sakfelldur fyrir að hafa lagt á ráðin um kaup og innflutning á tilteknu magni af hassi og kókaíni. Að því gættu meðal annars að kókaínið var fremur veikt var refsing hans talin hæfilega ákveðin tvö ár og sex mánuðir. Þá var fallist á kröfu um upptöku 191.400 króna, sem Á hafði greitt til sendanda kókaínsins erlendis sama dag og hann var handtekinn, en lögreglan náði að stöðva sendinguna áður en móttakandi vitjaði hennar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. maí 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og að 191.400 krónur, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerðar upptækar.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.

Í málinu er ákærða meðal annars gefið að sök að hafa lagt á ráðin við ótilgreindan mann um kaup á fíkniefnum og innflutning þeirra til Íslands í ágóðaskyni, eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Efnin, sem um var að ræða voru hass og kókaín, og hafði ákærði þegar selt mestan hluta hassins þegar hann var handtekinn. Ber ákærði einkum fyrir sig að hann hafi ekki átt von á að fá sent annað efni  en hass og honum ekki orðið ljóst að um kókaín væri að ræða fyrr en hann kannaði innihald sendingarinnar nokkru eftir að hann tók við henni. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða af öllum ákæruatriðum og vísun til refsiákvæða.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir sakaferli ákærða og að hann hafi með þeim brotum, sem hann er nú sakfelldur fyrir, rofið skilorð dóms frá 12. desember 2002. Að gættum þeim atriðum, sem þar greinir, og að kókaínið sem um ræðir var samkvæmt efnagreiningu Lyfjafræðistofnunar frekar veikt, er refsing ákærða hæfilega ákveðin tvö ár og sex mánuðir. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald, sem hann sætti frá 13. til 19. nóvember 2004.

Samkvæmt ákæru greiddi ákærði 200.000 krónur hjá Western Union í Reykjavík til sendanda kókaínsins erlendis sama dag og hann var handtekinn. Lögreglan náði að stöðva sendinguna áður en móttakandi vitjaði hennar og fengust greiddar til baka frá Western Union 191.400 krónur, sem lögregla lagði hald á. Krefst ákæruvaldið þess að féð verði gert upptækt. Salan á fíkniefnunum var ólögmæt og skiptir ekki máli þótt féð sé greiðsla til annars manns í slíkum viðskiptum en ekki ákærða sjálfs. Er uppfyllt skilyrði 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni til að fallast á kröfu ákæruvalds um upptöku fjárins. Verður krafan samkvæmt því tekin til greina.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku efna verður staðfest.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Árni Geir Norðdahl Eyþórsson, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði, en gæsluvarðhaldsvist hans frá 13. til 19. nóvember 2004 kemur til frádráttar refsingunni.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku efna skal vera óraskað.

Ákærði skal sæta upptöku á 191.400 krónum í ríkissjóð.

Ákærði greiði sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, 716.554 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 585.150 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2005.

          Mál þetta var höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 20. desember 2004 á hendur Árna Geir Norðdahl Eyþórssyni kt. [...], Dalhúsum 21, Reykjavík og X, fæddri 16. desember 1977 í Oldehove í Hollandi,

          „fyrir eftirtalin fíkniefnalagabrot og Árni Geir einnig fyrir vopnalagabrot á árinu 2004:

I. Árni Geir:

1. Í ágúst í Danmörku lagt á ráðin við ótilgreindan mann um kaup á fíkniefnum og innflutningi þeirra hingað til lands í ágóðaskyni, greitt manninum fyrir fram kr. 200.000 í þessu sambandi og átt síðan í símasamskiptum við hann varðandi tímasetningar á fíkniefnasendingum, móttöku á fíkniefnum, greiðslur fyrir efnin og samskipti við vitorðsmenn, sem fluttu efnin inn til landsins, svo sem nánar greinir í liðum I/1.1 og  1.2

          1.1 Miðvikudaginn 3. nóvember við Kirkjustræti 2, Reykjvík, samkvæmt framangreindum ráðagerðum móttekið 832 g af hassi frá erlendum manni, sem hafði daginn áður flutt hassið hingað til lands frá Danmörku, greitt þessum manni kr 400.000  fyrir efnið og selt meginhluta efnisins ótilgreindu fólki á kr 1.200 hvert gramm og átt eftir 212,81 g af efninu 12. sama mánaðar er lögregla gerði húsleit á heimili ákærða.

          1.2 Föstudaginn 12. nóvember samkvæmt framangreindum ráðagerðum móttekið 235,77 gaf kókaíni frá meðákærðu [X] á hótel Leifi Eiríkssyni við Skólavörðustíg 45, Reykjavík, en lögregla handtók ákærða skömmu síðar á bifreiðastæði við Hallgrímskirkju og hafði hann þá kókaínið í sínum vörslum, en ákærði hafði áður sama dag greitt kr. 200.000 hjá Western Union, Aðalstræti 2, Reykjavík, til sendanda kókaínsins erlendis.

2. Síðar sama dag á heimili sínu haft í vörslum sínum 0,66 g af marihuana og átt afsagaða haglabyssu af óþekktri tegund án tilskilins leyfis og eigi geymt vopnið í læstri hirslu, en lögreglan fann fíkniefnin og vopnið við framangreinda húsleit á heimili ákærða.

II. [X]:

          Föstudaginn 12. nóvember samkvæmt framangreindum ráðagerðum og gegn greiðslu flutt hingað til lands frá Hollandi 235,77 g af kókaíni falið innvortis og síðar um daginn afhent meðákærða Árna Geir efnið, sbr. lið I/1.2.

          Teljast brot beggja ákærðu varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985 og lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002 og auglýsingu nr. 232, 2001, og brot ákærða Árna Geirs telst einnig varða við 1. mgr. 12. gr og 1. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 23.gr., sbr. 1. mgr. 36 gr., vopnalaga nr. 16, 1998 og 2. mgr. 33. gr., sbr. 59. gr., reglugerðar um skotvopn, skotfæri o.fl. nr. 787, 1998.

          Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og jafnframt að 212,81 g af hassi, 235, 77g af kókaíni og 0,66 g af marihuana, sem lögregla lagði hald á, verði gert upptækt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001. Þá er þess krafist að ákærði Árni Geir sæti upptöku æa kr. 191.400, sem lögreglan lagði hald á, skv. heimild í 7. mgr. 5 gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001, sbr. lið I/1.2.“

 

          Þáttur X var klofinn frá málinu og fékk þáttur hennar númerið S- 21/2005 en dómur gekk í því máli 6. janúar sl.

          Ákærði hefur neitað sök að hluta að því er varðar 1. tölulið 1. kafla ákærunnar en játað sök samkvæmt 2. tölulið ákærunnar. Hann krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist sem hann sætti 13.-19. nóvember 2004 dragist frá refsivist að báðum dögum meðtöldum. Upptökukröfu á peningum er hafnað. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna samkvæmt tímaskýrslu.

          Samkvæmt upplýsingaskýrslum er upphaf þessa máls hjá lögreglu rakið til rannsóknar annars fíkniefnamáls í byrjun ársins 2004. Í júlí sl. hefði hafist símhlustun hjá útlendum manni í dönsku símanúmeri sem talinn var standa að innflutningi á fíkniefnum í samstarfi við nokkra Íslendinga. Einn þeirra hefði verið ákærði sem rætt hefði ítrekað við útlenda manninn, ýmist úr tíkallasíma eða gsm síma með símanúmerinu 696 9942 og hefðu þessar upplýsingar leitt til þess að sérstök rannsókn var hafin á samskiptum ákærða við útlendinginn.

          Frá síðastliðnu sumri fram á haust ræddi ákærði oft við útlendan mann í síma  en ákærði hefur nefnt manninn Tony. Í símtölum þessum var rætt um skipulag og framkvæmd fíkniefnainnflutnings til Íslands og var rætt um ýmsar tegundir fíkniefna, þ. á m. kókaín. Ákærði greiddi Tony 200.000 krónur og þeir hittust í Kaupmannahöfn í byrjun ágúst sl. Í byrjun nóvember hringdi Tony í ákærða og tjáði honum að burðardýr væri komið til landsins með hass og hitti ákærði burðardýrið 3. nóvember sem afhenti ákærða poka með hassi sem vóg 832 g. Ákærði greiddi manninum 400.000 krónur fyrir sendinguna 6. nóvember. Við húsleit hjá ákærða eftir handtöku hans 12. nóvember sl. gerði lögregla hassið upptækt. 

          Þann 12. nóvember sendi ákærði 191.400 krónur með Western Union og var móttakandi tilgreindur Y. Sama dag kl. 17:39 hringdi Tony í ákærða og spurði hann hvort hann hefði sent peninga og tilkynnti honum síðan að eftir klukkustund gæti hann náð í efnin því burðardýrið væri komið til landsins og ákærði ætti að hafa með sér 20, 30 eða 40 þúsund krónur. Í símtalinu talaði Tony um coke og coca cola. Í símtali kl. 19:10 ræða þeir ákærði og Tony um að ákærði ætti að fara í herbergi 208 á Hótel Leifi Eiríkssyni. Á hótelinu hitti ákærði X. Þaðan hringdi ákærði í Tony kl. 19:31 og ræddu þeir saman auk þess sem X talaði við Tony. Síðan afhenti X ákærða 235,77 g af kókaíni pakkað inn í plastumbúðir og ákærði lét hana hafa peninga fyrir hótelkostnaði. Lögregla handtók ákærða kl. 19:40 þar sem hann sat í bifreið sinni við Hallgrímskirkju.

           Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum.

          Ákærði kvaðst snemma síðasta sumar hafa frétt af manni sem væri hér á landi að leita að einhverjum til að taka við fíkniefnum. Það hefði orðið úr að ákærði hefði komist í samband við mann að nafni Tony og hefðu þeir sammælst um að koma fíkniefnum til landsins. Ákærði hefði greitt Tony 200.000 krónur snemma sumars en ekki í ágúst eins og ranglega sé haft eftir honum í lögregluskýrslu. Hefðu þessir fjármunir átt að vera greiðsla fyrir fíkniefni sem ákærði átti að taka á móti. Hefðu ákærði og Tony aðallega rætt um hass en einnig um kókaín og reyndar allar tegundir fíkniefna. Ákærði kvaðst hafa hitt Tony í Kaupmannahöfn um verslunarmannahelgina 2004 en þangað hefði ákærði farið í sumarfrí. Hefði hann verið farinn að halda að Tony hefði haft af honum fé því ekkert hefði gerst í innflutningsmálum. Ákærði kvaðst þó aldrei hafa vitað hvernig standa átti að innflutningnum enda hefði Tony talað óljóst um það. Hefði ákærði oft reynt að hafa samband við Tony en það gengið upp og ofan. Ákærði kvaðst hafa notað símanúmerin 847 2270 og 696 9942 á þessu tímabili.

            Ákærði kvað Tony hafa hringt í sig í byrjun nóvember og sagt mann vera kominn til landsins með hass og ætti ákærði að hitta hann en ákærði kveðst ekki hafa vitað af þessu fyrr en Tony hringdi. Hefði orðið úr að ákærði hitti manninn sem hefði afhent honum poka með hassi. Ákærði kvaðst hvorki hafa vitað hvaða efni væru væntanleg né í hversu miklu magni en þó hefði Tony sagt að hugsanlega væri um að ræða hass. Ákærði kvaðst hafa vigtað hassið, sem pakkað hefði verið í margar litlar og ílangar kúlur í þykkum sellófanumbúðum, og hefði sendingin vegið 832 g. Pakkningarnar hefðu verið miklar og greinilegt að efnið hefði verið flutt innvortis en ákærði hefði ekki vigtað pakkningarnar sérstaklega. Að lokinni vigtun hefði ákærði hringt í Tony og tilkynnt honum um magnið. Lögreglan hefði gert hassið upptækt nema þann hluta þess sem ákærði seldi til afmarkaðs hóps á 1.200 krónur. Aðspurður kannaðist ákærði við að hafa skrifað tilteknar færslur í minnisbók sína um „gaur” og „money” en „gaur” þýddi hass og „money” þýddi það sem hann vonaðist til að fá fyrir það. Ákærði kvaðst hafa hitt manninn, sem kom með hassið, og greitt honum 400.000 krónur fyrir efnið. Ákærði kvaðst hafa fjármagnað hasskaupin með vinnulaunum sínum en þó gæti verið að lítill hluti greiðslunnar hefði verið söluandvirði hassins. Ákærði kvaðst ekki hafa aðstoðað burðardýrið við að skipta peningum en hins vegar hefði hann vísað honum á banka í miðbænum.

          Ákærði kannaðist við að hafa haft í vörslum sínum 0,66 g af marihuana og vopn þau sem tilgreind eru í ákæru.

          Fyrir dóminum kannaðist ákærði við að hafa rætt við Tony í síma þann 12. nóvember kl. 15:28 um sendingu á 200.000 krónum til Tony og hefði ákærði sent peningana frá Western Union. Hefði átt að vera um að ræða greiðslu fyrir hass en ekki kókaín. Ákærði kvað Tony hafa farið fram á þessa greiðslu vegna nýrrar sendingar af hassi. Aðspurður kvað ákærði að sér hefði ekki dottið í hug að um væri að ræða kókaínsendingu því áður hefði borist hasssending.

          Aðspurður um símtal 12. nóvember kl. 17:39 kvaðst ákærði kannast við að hafa þá talað við Tony og hefði Tony spurt hvort ákærði hefði sent peningana og síðan sagt honum að einhver væri kominn. Ákærði hefði orðið hissa því hann vissi ekki af því fyrr en Tony hefði sagt sér að hann fengi fíkniefni eftir klukkutíma. Aðspurður kvaðst ákærði hugsanlega hafa vitað að Tony væri að tala um kókaín þegar hann nefndi „coke” í símtalinu en hann hefði ekki verið viss. Sérstaklega aðspurður kvaðst ákærði þó allt eins hafa getað átt von á því að Tony ætti þarna við kókaín en miðað við þá fjárhæð sem ákærði hefði innt af hendi hefði hann talið að það nægði eingöngu fyrir hassi.

          Aðspurður um símtal 12. nóvember kl. 19:10:30 kannaðist ákærði við að hafa talað við Tony sem hefði sagt honum að fara á Hótel Leifs Eiríkssonar og hefði hann greinilega átt að hitta burðardýr þar. Þá kannaðist ákærði við að hafa talað við Tony í símtali sama dag kl. 19:31:12 og minnti hann að Tony hefði sagt honum að hringja í sig þegar hann væri kominn á hótelið. Ákærði kvaðst hafa barið að dyrum hjá X og hún boðið honum inn og spurt ákærða hvort hann hefði komið með peninga fyrir herberginu. Hefði ákærði látið hana hafa 30.000 krónur fyrir hótelherberginu samkvæmt fyrirmælum Tony. Síðan hefði X afhent ákærða pakka í innkaupapoka sem ákærði kvaðst hafa stungið inn á sig án þess að skoða hann nánar. Hann hefði ekki haft hugmynd um að um kókaín væri að ræða enda hefði fjárhæðin sem hann greiddi ekki gefið vísbendingu um að svo væri. Ákærði kvaðst fyrst hafa áttað sig á hvers kyns var þegar pakkinn var settur á borð eftir að lögregla tók við honum því þá hefði brest upp á pakkann og skinið í hvítt innihald. Ákærði kvaðst hafa haldið að hann hefði greitt að fullu fyrir hassið og ætti ekki að greiða meira fyrir efnin.  Ákærði kvaðst gera kröfu um að fá símgreiðsluna frá Western Union til baka enda hefði hann fjármagnað hana með vinnulaunum sínum.

          Aðspurður um símtal 22. júlí 2004 kl. 18:47:40 kannaðist ákærði hafa þá talað við Tony. Kvað hann tal þeirra um „good stuff” vísa til þess að efnið ætti að vera gott en „whole new deal” vísaði til orðróms sem þá gekk um að stór sending af fíkniefnum væri á leiðinni til landsins en ekkert hefði hins vegar orðið af þeim innflutningi. Tengdist þetta orðfæri ekki því að ákærði hefði breytt um stefnu og ætlaði að fá annað efni en áður hefði verið um rætt. Ákærði kvað gangverð á kókaíni vera 15.000 krónur að lágmarki fyrir grammið.                         

          Vitnið X kvað vin mannsins síns, sem kallaður væri Emma, hafa fengið hana til að flytja fíkniefni til Íslands og hefði hann afhent henni fíkniefnin. Hefði Emma sagt henni að móttakandi efnanna væri hvítur og að hann hefði átt viðskipti við hann áður. Emma hefði hvorki sagt vitninu nafn mannsins né sýnt henni mynd af honum en sagt að hann myndi hringja í manninn þegar hann væri kominn til vitnisins. Ákærði hefði barið að dyrum hjá vitninu og sagst vera kominn til að sækja fíkniefnin og hefði vitnið boðið honum inn. Ákærði hefði ekki nafngreint manninn sem hefði sent hann en sagst ætla að hringja út. Hefðu þau vitnið og Emma talað stuttlega saman í síma ákærða en Emma hefði þá spurt hvort vitnið væri búin að afhenda pakkann og hún játað því. Vitnið kvað ákærða hafa litið örstutt á sendinguna en stungið henni svo í vasann. Hefði hann líklega séð að efnið var hvítt að lit því það var vafið í plast við afhendinguna en var ekki í plastpoka. Vitnið kvaðst ekki hafa sagt ákærða að um kókaín væri að ræða en hins vegar hefði sést í gegnum umbúðirnar að um hvítt efni var að ræða.

          Vitnið kvað ákærða hafa látið sig hafa peninga fyrir hótelkostnaði en hún hefði átt að fá meira fé frá ákærða síðar, skipta þeim í evrur og fara með þá til Emma og taldi líklegt að um hefði verið að ræða 20.000 evrur eins og komi fram í lögregluskýrslu. Vitnið var með flugmiða sem gilti í eina viku.

          Sólberg Bjarnason, lögreglumaður, gaf skýrslu sem vitni fyrir dóminum. Kvað hann stórt mál hafa verið í gangi hjá fíkniefnadeild og hefði verið fenginn hlerunarúrskurður á útlendan mann og við hlustun hafi meðal annars komið í ljós að sá maður og ákærði væru að ráðleggja fíkniefnainnflutning. Ekki hafi verið upplýst hver útlendingurinn er en hins vegar telji lögregla að hann sé búsettur á einhverju Norðurlandanna.

          Vitnið sagði orðin „gaur” og „reykur” vera slanguryrði yfir hass en „coke” eða „coca cola” vera slanguryrði yfir kókaín. Vitnið kvað hassið, sem lagt var hald á á heimili ákærða 12. nóvember sl., hafa verið pakkað í þunna, glæra filmu sem væri óveruleg að þyngd. Vitnið kvaðst ekki hafa komið að haldlagningu kókaínsins þennan sama dag en hann hefði séð umbúðirnar utan um það og hefði verið hægt að sjá að efnið í pakkningunni var hvítt að lit. Vitnið kvað jafnan vera bókað sérstaklega í lögregluskýrslum ef lögregla upplýsti grunaða um það hvers kyns fíkniefni væri um að ræða. Lögregla hefði heyrt á símtölum ákærða og Tony að efnið hefði átt að vera kókaín. Vitnið kvað símanúmerin sem hleruð voru í tengslum við þetta mál hafa verið frá Norðurlöndunum og Afríku.

Niðurstaða.

          Ákærði hefur að mestu leyti játað sök í málinu. Hann hefur kannast við að hafa á árinu 2004 átt samskipti við mann að nafni Tony  og lagt á ráðin um fíkniefnainnflutning með honum. Þá kannast ákærði við að hafa móttekið fíkniefnasendingarnar sem greint er frá í ákæruliðum I.1.1 og I.1.2. Hins vegar hefur hann talið sig hafa móttekið minna magn af hassi en tilgreint er í ákærulið I.1.1 og kveðst ekki hafa átt von á kókaíni eins og lýst er í ákærulið I.1.2. Verður hér á eftir fjallað um hvern ákærulið fyrir sig.  

Ákæruliður I.1.1.

          Ákærði byggir á því að magn hassins sem hann móttók umrætt sinn hafi vegið minna en 832 g þar sem hann hefði vigtað efnið í miklum umbúðum. Fram er komið að hassið var ekki vegið án umbúðanna þegar ákærði móttók það en með hliðsjón af framburði vitnisins Sólbergs um að hassið hefði verið pakkað í þunna, glæra filmu sem væri óveruleg að þyngd verður að miða við að ekki muni miklu á raunverulegri þyngd hassins með eða án umbúða. Ákærði hefur játað að hafa móttekið hassið, mælt það án þess að taka af því umbúðirnar og tilkynnt Tony að efnið væri 832 g. Ákærði skeytti ekki um að taka umbúðirnar utan af efninu til að mæla það sérstaklega og verður því að telja að hann hafi látið sér í léttu rúmi liggja hvert var nákvæmt magn fíkniefnanna sem hann móttók og seldi að hluta. Verður því að telja að ákærði beri fulla refsiábyrgð á því hassmagni sem hann lagði á ráðin um að flytja til landsins og móttók umrætt sinn. Ákærði er því sakfelldur fyrir það brot sem honum er gefið að sök í þessum lið ákæru og er brot hans þar rétt heimfært til refsiákvæða.

Ákæruliður I.1.2.

          Ákærði játar að hafa móttekið tilgreint magn af kókaíni en kveðst ekki hafa vitað að um kókaín var að ræða enda hafi hann ekki kannað hvað var í pakkanum sem hann móttók. Hann hafi átt von á hassi í ljósi fyrri hasssendingar og þeirra fjármuna sem hann innti af hendi sem greiðslu.

          Eins og rakið er hér að framan var í símtölum þeirra ákærða og mannsins, sem ákærði nefnir Tony, á síðasta ári lagt á ráðin um innflutning ýmissa fíkniefna, þ. á m. kókaíns. Í gögnum málsins kemur fram að í símtali þeirra ákærða og Tony kl. 17:39 þann 12. nóvember sl. talar Tony um „coke” og „coca cola” og hefur ákærði fyrir dóminum staðfest að hafa átt þetta símtal við Tony og jafnframt að hann hafi „hugsanlega” vitað að Tony ætti með þessum orðum við kókaín. Að framanrituðu virtu þykir hafið yfir vafa að ákærði mátti gera sér grein fyrir því að fíkniefnasending var á leiðinni og var í síðasta lagi um það bil tveimur klukkustundum áður en hann móttók efnið ljóst að um kókaínsendingu var að ræða. Þá kemur fram í rannsóknargögnum að í samtali ákærða og Tony 24. júlí 2004 ræddi ákærði um að sig vantaði bæði hass og kókaín. Fram kom hjá vitnunum X og Sólbergi að augljóst hefði verið að í umræddri pakkningu væri hvítt efni. Að þessu virtu verður að telja að ákærði hafi gert sér grein fyrir því að um kókaínsendingu væri að ræða eða að minnsta kosti ekki skeytt um það hvort um kókaín var að ræða eða ekki enda hefur hann sjálfur borið að hann hafi ekki kannað efnið sérstaklega þegar hann móttók það. Ákærði verður því sakfelldur fyrir brot það sem honum er gefið að sök í þessum lið ákærunnar og er það rétt heimfært til refsiákvæða.

Ákæruliður 2.

          Ákærði hefur játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök í þessum ákærulið. Skýlaus játning hans er í samræmi við gögn málsins og er þannig sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið. Brot ákærða eru rétt færð til refsiákvæða. Verður ákærði sakfelldur eins og krafist er.        

          Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði tvisvar gengist undir sátt vegna umferðarlagabrota, á árunum 1995 og 2001. Þann 11. júní 2001 hlaut ákærði 9 mánaða fangelsisdóm fyrir vörslur fíkniefna, þar af voru 6 mánuðir skilorðsbundnir í tvö ár. Þann 12. desember 2002 var ákærði dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás en þar af voru 15 mánuðir skilorðsbundnir í 3 ár en fíkniefnadómurinn frá 11. júní 2001 var þá tekinn upp og ákærða dæmd refsing í einu lagi. Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið skilorð dómsins frá 12. desember 2002. Verður skilorðsbundinn hluti þess dóms því tekinn upp samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákærða nú gerð refsing í einu lagi í samræmi við ákvæði 77. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að um talsvert magn fíkniefna var að ræða sem ætlað var til sölu í hagnaðarskyni. Þegar allt framanritað er virt telst refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár en ekki eru efni til að skilorðsbinda refsivistina. Til frádráttar refsingunni skal koma 7 daga gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 13.-19. nóvember 2004, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.

          Ákærði hefur mótmælt kröfu ákæruvaldsins um upptöku á 191.400 krónum sem lögregla lagði hald á. Í málinu hafa hvorki verið færðar sönnur á að umrædd fjárhæð sé andvirði sölu fíkniefna né hefur verið nægilega í ljós leitt að ákærði hafi haft ávinning af fíkniefnasölu sem samsvari þeirri fjárhæð. Verður því talið að skilyrðum upptöku samkvæmt 7. mgr 5. gr. laga nr. 65/1974 sé ekki fullnægt og verður ákærði því sýknaður af þessari kröfu ákæruvaldsins.

          Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 eru gerð upptæk 212,81 g af hassi, 235,77 g af kókaíni og 0,66 g af marihuana sem lögregla lagði hald á.

          Loks ber ákærða að greiða allan sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun og réttargæsluþóknun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl.,  sem ákvarðast í einu lagi 220.000 krónur.

          Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Daði Kristjánsson, fulltrúi lögreglustjóra.

          Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

          Ákærði, Árni Geir Norðdahl Eyþórsson, sæti fangelsi í 3 ár.

          Ákærði er sýkn af upptökukröfu á 191.400 krónum.           

          Upptæk eru gerð 212,81 g af hassi, 235,77 g af kókaíni og 0,66 g af marihuana.

        Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun og réttargæsluþóknun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., 220.000 krónur.