Hæstiréttur íslands
Mál nr. 693/2008
Lykilorð
- Landamerki
|
|
Fimmtudaginn 8. október 2009. |
|
Nr. 693/2008. |
Theódóra Guðnadóttir(Jón Höskuldsson hrl.) gegn íslenska ríkinu og (Björn Jóhannesson hrl.) Unnsteini Hjálmari Ólafssyni(enginn) |
Landamerki.
T krafðist gagnvart Í viðurkenningar á landamerkjum milli jarðanna H og R, en gagnvart U krafðist hún staðfestingar héraðsdóms um landamerki milli jarðar hans G og jarðarinnar H. U lýsti því yfir í héraði að hann samþykkti kröfu T og lét málið ekki til sín taka fyrir Hæstarétti. T studdi kröfu sína um ákvörðun landamerkja milli jarðanna H og R að því er varðaði land neðan fjallsbrúnar fyrst og fremst við að samkomulag hefði orðið um breytingu á landamerkjum jarðanna í tengslum við að landnám ríkisins hefði skipulagt byggðahverfi á R og lagt í framkvæmdir á hinum nýju merkjum. Talið var að ekki lægi annað fyrir en að við gerð landamerkjaskráa jarðanna 1884 hefði verið gætt ákvæða landamerkjalaga nr. 5/1882. Samræmi væri milli landamerkjaskránna að því er snerti merki á þessu svæði og að hefði T ekki tekist sönnun um að gerðar hefðu verið breytingar á þeim merkjum sem þar er lýst. Ofan fjallsbrúnar reisti T kröfu sína meðal annars á gjafabréfi frá 17. öld. Talið var að landamerkjaskrár jarðanna væru fyllilega samrýmanlegar að því er þetta svæði varðaði og gengju þær framar gjafabréfinu, sem væri eldra. Í var því sýknað af kröfu T.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2008. Gagnvart stefnda íslenska ríkinu krefst hún þess að viðurkennt verði að landamerki Höllustaða og Reykhóla séu úr hnitasettum punkti við botn Grundarvogs um nánar tilgreinda punkta þar til komið er móts við svokallaða Stórulaug, en frá svonefndum Merkjasteini við rætur Reykjanesfjalls fari merkin síðan um Hvítuskriðu á fjallsbrún eftir hnitasettum punktum allt til merkja Hlíðar í Þorskafirði, þannig að Heyárdalur austan við Heyá teljist til lands Höllustaða. Gagnvart stefnda Unnsteini Hjálmari Ólafssyni krefst áfrýjandi staðfestingar héraðsdóms um landamerki milli jarðar hans, Grundar, og Höllustaða. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni var veitt í héraði.
Stefndi íslenska ríkið krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi Unnsteinn Hjálmar Ólafsson hefur ekki látið málið til sín taka.
Dómarar í málinu gengu á vettvang 24. september 2009.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Dæma verður áfrýjanda til að greiða stefnda íslenska ríkinu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Theódóra Guðnadóttir, greiði stefnda íslenska ríkinu 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, en að öðru leyti fellur hann niður.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 23. október 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. september sl., höfðaði stefnandi, Theódóra Guðnadóttir, hinn 12. nóvember 2007, gegn stefndu, íslenska ríkinu og Unnsteini Hjálmari Ólafssyni, Grund, Reykhólahreppi.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
1. Að dæmt verði að landamerki milli jarðanna Höllustaða annars vegar og aðliggjandi jarða, Reykhóla og Grundar, hins vegar séu svo sem hér segir:
-á milli Höllustaða og Reykhóla neðan þjóðvegar: Úr hnitapunkti 26 í Grundarvogi (349898.8, 553119.0) þaðan í hnitapunkt 15 (349913.8, 553117.1) þaðan í hnitapunkt 14 (350189.1, 553337.0) þaðan í hnitapunkt 19 (350201.2, 553365.9) þaðan í hnitapunkt 20 (350259.8, 553605.2) þaðan í hnitapunkt 23 (350312.7, 553820.0) og þaðan í hnitapunkt 24 (350447.1, 554372.5).
-á milli Höllustaða og Grundar: Úr hnitapunkti 25, í skurði fyrir ofan þjóðveg (350449.4, 554392.4) og þaðan í hnitapunkt 13, Merkjasteinn (350566.0, 554833.1).
-á milli Höllustaða og Reykhóla ofan þjóðvegar og uppi á Heyárdal: Úr hnitapunkti 13, Merkjasteinn (350566.0, 554833.1) þaðan í hnitapunkt 12, Hvítaskriða (350624.2, 555189.5) þaðan í hnitapunkt 83 (350732.5, 555413.9) þaðan í hnitapunkt 82 ( 350746.1, 555558.5) þaðan í hnitapunkt 81 (350899.7, 555625.5) þaðan í hnitapunkt 80 (350887.0, 555715.3) þaðan í hnitapunkt 79 (350887.0, 555783.1) þaðan í hnitapunkt 78 (351036.7, 555886.0) þaðan í hnitapunkt 77 (351096.6, 555905.6) þaðan í hnitapunkt 76 (351146.7, 555954.0) þaðan í hnitapunkt 75 (351393.2, 555994.7) þaðan í hnitapunkt 74 (351419.6, 556024.7) þaðan í hnitapunkt 73 (351532.3, 556115.8) þaðan í hnitapunkt 72 (351651.5, 556103.1) þaðan í hnitapunkt 71 (351775.0, 556305.0) þaðan í hnitapunkt 70 (351745.2, 556377.5) þaðan í hnitapunkt 69 (351931.3, 556743.9) þaðan í hnitapunkt 68 (351907.4, 556764.7) þaðan í hnitapunkt 67 (351935.5, 556803.9) þaðan í hnitapunkt 66 (351900.3, 556830.3) þaðan í hnitapunkt 65 (351928.0, 556861.0) þaðan í hnitapunkt 64 (351907.4, 556894.0) þaðan í hnitapunkt 63 (352006.0, 557095.6) þaðan í hnitapunkt 62 (351979.6, 557327.0) þaðan í hnitapunkt 61 (351979.6, 557429.0) þaðan í hnitapunkt 60 (352001.6, 557624.3) þaðan í hnitapunkt 59 (352016.7, 557693.4) þaðan í hnitapunkt 58 (351982.8, 557667.6) þaðan í hnitapunkt 57 (352077.0, 557748.6) þaðan í hnitapunkt 56 (352081.7, 557793.4) þaðan í hnitapunkt 55 (352138.8, 557832.3) þaðan í hnitapunkt 54 (352184.8, 557844.9) þaðan í hnitapunkt 53 (352226.1, 557891.3) þaðan í hnitapunkt 52 (352148.2, 558000.6) þaðan í hnitapunkt 51 (352256.9, 558173.3) þaðan í hnitapunkt 50 (352226.7, 558229.2) þaðan í hnitapunkt 49 (352243.7, 558260.6) þaðan í hnitapunkt 48 (352278.9, 558255.5) þaðan í hnitapunkt 47 (352314.0, 558286.9) þaðan í hnitapunkt 46 (352383.7, 558420.9) þaðan í hnitapunkt 45 (352525.6, 558285.1) þaðan í hnitapunkt 44 (352563.3, 558390.6) þaðan í hnitapunkt 43 (352638.0, 558525.6) þaðan í hnitapunkt 42 (352666.3, 558659.3) þaðan í hnitapunkt 41 (352587.2, 558837.6) þaðan í hnitapunkt 40 (352678.2, 558989.6) þaðan í hnitapunkt 39 (352569.6, 558998.4) þaðan í hnitapunkt 38 (352554.5, 559056.8) þaðan í hnitapunkt 37 (352602.2, 559129.0) þaðan í hnitapunkt 36 (352429.6, 559281.6) þaðan í hnitapunkt 35 (352607.3, 559497.8) þaðan í hnitapunkt 34 (352568.4, 559544.9) þaðan í hnitapunkt 33 (352563.8, 559592.6) þaðan í hnitapunkt 32 (352576.7, 559631.4) þaðan í hnitapunkt 31 (352739.7, 559741.1) þaðan í hnitapunkt 30 (352771.0, 559829.0) þaðan í hnitapunkt 29 (352626.8, 559915.3) þaðan í hnitapunkt 28 (352599.1, 560046.4) þaðan í hnitapunkt 27 (352597.8, 560121.1) þaðan í hnitapunkt 1 (352494.8, 560287.9) þaðan í hnitapunkt 16 (352172.3, 560156.3) þaðan í hnitapunkt 17 (352020.7, 560044.0) og þaðan í hnitapunkt 18 (351843.8, 559779.3).
Þá krefst stefnandi þess jafnframt að stefndu verði dæmd in solidum til þess að greiða henni málskostnað.
Dómkröfur stefnda íslenska ríkisins eru þær að íslenska ríkið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda í málinu. Jafnframt er þess krafist af hálfu ríkisins að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
Af hálfu stefnda Unnsteins Hjálmars Ólafssonar eru engar dómkröfur gerðar í málinu. Meðal skjala málsins er vottuð skrifleg yfirlýsing hans þess efnis að hann samþykki landamerkjalínu þá milli jarðanna Grundar og Höllustaða sem fram kemur í kröfugerð stefnanda.
I.
A.
Með afsali skiptaráðanda í Gullbringu- og Kjósarsýslu 13. maí 1939 eignaðist Ríkissjóður Íslands jörðina Reykhóla. Var afsalið gefið út á grundvelli samþykktar í dánar- og félagsbúi Bjarna Þórðarsonar og Þóreyjar Pálsdóttur frá Reykhólum. Var Nýbýlastjórn ríkisins, síðar Landnám ríkisins, falin umráð Reykhóla með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 10. febrúar 1950. Landnám ríkisins hafði með málefni jarðarinnar að gera allt þar til landbúnaðarráðherra færði þau undir ráðuneyti sitt 16. apríl 1974.
Á árunum 1950 til 1965 var unnið að skipulagi nýbýlahverfis í landi Reykhóla neðan þjóðvegar nr. 607 (Reykhólasveitarvegar) á vegum Landnáms ríkisins. Í tengslum við þá vinnu var gerður uppdráttur sá sem stefnandi vísar ítrekað til í málatilbúnaði sínum, svo sem rakið verður í kafla II. Uppdrátt þennan vann Sigurður Sigvaldason byggingarverkfræðingur. Á vegum Landnámsins var á árunum 1950 til 1960 jafnframt grafinn skurður og girt girðing og fylgir kröfulína stefnanda í málinu að mestu legu þeirra mannvirkja.
Með samningi 25. júlí 1975 keypti Samúel Björnsson, eiginmaður stefnanda, jörðina Höllustaði með „... þeim landamerkjum, sem segir í Gjafabréfi Jóns Magnússonar, dagsettu að Reykhólum 3. janúar 1687, upplesið fyrir rétti á manntalsþingi að Berufirði í Reykhólahreppi 15. maí 1695 og aftur 27. apríl 1769.“ eins og segir í kaupsamningnum.
Í febrúar 1976 ritaði Samúel Björnsson stefnda íslenska ríkinu bréf og krafðist „... leiðréttingar á landamerkjum Höllustaða og Reykhóla“. Í bréfi hans sagði meðal annars svo:
Pálmi Einarsson landnámsstjóri úrskurðaði að merkin ættu að vera bein lína til sjávar, frá þjóðvegi, eða öllu heldur frá fjalli til sjávar. En Þorsteinn (Þórarinsson) tók á girðinguna beygju niðrundir sjó, til að geta náð skák af Höllustaðalandi og þetta vil ég fá lagað ásamt landamerkjum á fjalli.
Svo virðist sem stefnda íslenska ríkið hafi ekki brugðist við tilvitnuðu bréfi Samúels Björnssonar. Varð það til þess að Samúel ritaði stefnda íslenska ríkinu að nýju 20. júní 1976. Lýsti hann í því bréfi vonbrigðum sínum með að ekki hefði verið við hann rætt af hálfu stefnda í tilefni af erindi hans. Í bréfinu áréttaði Samúel kröfur sínar meðal annars með eftirfarandi hætti:
Einnig krefst ég að girðingin niður við sjó milli Reykhóla og Höllustaða verði færð í beina línu eins og landamerkjabréf, er ég hef undir höndum hljóðar uppá. Einnig samþykkti Pálmi Einarsson að svo skyldi vera í sinni landnámsstjóratíð ...
Upplýst er að stefnda íslenska ríkið varð ekki við kröfu Samúels Björnssonar um „leiðréttingu“ á landamerkjum Höllustaða og Reykhóla“. Þá liggur einnig fyrir að nefndur Pálmi Einarsson er ekki lengur til frásagnar um fyrrgreind atvik þar sem hann lést árið 1985.
Eftir andlát Samúels Björnssonar varð stefnandi þinglýstur eigandi Höllustaða á grundvelli leyfis henni til handa til setu í óskiptu búi, en leyfisbréf var út gefið af sýslumanni 2. september 1985, sbr. þinglýsingarvottorð sýslumannsins á Patreksfirði frá 7. nóvember 2007.
Árið 2001 óskaði leiguliði Reykhóla, Tómas Sigurgeirsson, eftir því við sýslumanninn á Patreksfirði að æðarvarp í landi Reykhóla yrði friðlýst. Varð erindi Tómasar til þess að stefnandi ritaði sýslumanni bréf 18. apríl 2001 og mótmælti fyrirhugaðri auglýsingu um friðlýsinguna þar sem í erindi Tómasar kæmi fram röng lýsing á landamerkjum Reykhóla og Höllustaða.
Með bréfi 8. ágúst 2001 óskaði stefnandi eftir því við landbúnaðarráðherra að landamerki milli Höllustaða og Reykhóla yrðu staðfest með undirritun ráðherra á yfirlýsingu, sem bréfi stefnanda fylgdi, „... þannig að unnt sé að þinglýsa réttum landamerkjum jarðanna og eyða hugsanlegri óvissu sem augljóslega getur skapast ef ekki yrði formlega gengið frá landamerkjum milli jarðanna.“ Í nefndri yfirlýsingu var landamerkjum jarðanna svo lýst að milli þeirra réði landamerkjaskurður og girðing sú sem girt hafi verið af Landnámi ríkisins um 1950, en skurðurinn og girðingin lægju í beina stefnu frá Hvítuskriðu og Merkjasteini í hlíðinni fyrir ofan þjóðveg og til sjávar í innanverðan Grundarvog og þaðan eftir miðjum voginum fram í þrætusker. Fyrir liggur að ráðherra varð ekki við þessari ósk stefnanda, en henni var mótmælt af hálfu ábúanda Reykhóla, fyrrnefndum Tómasi, með bréfi 22. ágúst 2001.
Hinn 16. júlí 2003 óskaði stefnandi eftir aðkomu sýslumannsins á Patreksfirði að ágreiningi um landamerki Höllustaða og Reykhóla. Leiddu afskipti sýslumanns ekki til niðurstöðu og heldur ekki síðari viðræður aðila. Höfðaði stefnandi því mál þetta.
B.
Íslenska ríkið seldi stefnda Unnsteini Hjálmari jörðina Grund í Reykhólahreppi með kaupsamningi og afsali 12. apríl 2006. Í því skjali er meðal annars að finna eftirfarandi ákvæði:
Um landamerki jarðarinnar vísast til afstöðumyndar Landgræðslu ríkisins, dags. janúar 2006, en þar kemur fram að stærð jarðarinnar sé 50 ha. Kaupanda er kunnugt um að deilt hefur verið um merki við Höllustaði.
Við þingfestingu máls þessa var lögð fram svohljóðandi yfirlýsing, dagsett 13. nóvember 2007:
Ég undirritaður eigandi jarðarinnar Grundar í Reykhólahreppi, Unnsteinn Hjálmar Ólafsson kt. 230157-4569 hef kynnt mér kröfur eiganda Höllustaða um að landamerki milli Grundar og Höllustaða verði ákveðin með dómi, sbr. stefnu á hendur eigendum Grundar og Reykhóla, dags. 9. nóvember 2007. Liggja landamerki Grundar og Höllustaða, eins og krafist er, milli tveggja punkta á loftmynd Loftmynda ehf. sem merktir eru nr. 25 og 13. Ég er samþykkur þessari landamerkjalínu eins og hún er dregin á loftmynda (sic), enda samræmist hún sömu línu á uppdrætti frá Umsjá hf. sem fylgdi kaupsamningi/afsali fyrir Grund þegar ég keypti jörðina af landbúnaðarráðherra í apríl 2006.
Í samræmi við efni yfirlýsingar sinnar kaus stefndi Unnsteinn Hjálmar að taka ekki til varna í málinu.
II.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að ef litið sé til heimilda um landamerki jarða þeirra sem um er deilt séu full rök fyrir dómkröfu hans á hendur stefndu. Eigendur Höllustaða og Reykhóla hafi gert með sér samkomulag um að breyta legu landamerkja jarðanna neðan þjóðvegar nr. 607. Krafa stefnanda um ákvörðun landamerkja milli jarðanna sé studd gögnum frá Landnámi ríkisins og gróðurkortadeild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, nú Náttúrufræðistofnun Íslands, auk eldri heimilda á borð við landamerkjabréf og gjafabréf Jóns Magnússonar frá 3. janúar 1687.
Í gjafabréfi Jóns Magnússonar frá 1687 segir stefnandi koma fram að gefandi ráðstafi til dóttur sinnar, Ragnheiðar, og Jarþrúðar dóttur hennar, jörðinni Höllustöðum, 12 hundruð að fornu mati, með þeim landamerkjum „innfrá í Stórulaugina, þaðan sjónhending og upp í fjall, og ofan í sjó sem áin ræður, hálfan Heyárdalinn allan á móti Skerðingsstöðum með hverjum hér téðum landamerkjum ...“
Samkvæmt landamerkjalýsingu fyrir Höllustaði frá 18. febrúar 1884 sé merkjum Höllustaða og Reykhóla lýst þannig til norðurs frá Grundarvogi: „... og svo upp þaðan í Krókalæk og eftir honum upp í börðin og þaðan bein sjónhending upp mýrarnar upp Stórulaugina og það sjónhending óskekta norðverstur að Heyá og ofan eftir henni sem að ofan segir ...“ Undir landamerkjalýsinguna riti Jón Jónsson, sem þá hafi búið á Grund, er verið hafi hjáleiga frá Reykhólum. Segir stefnandi frá því greint að Bjarni Þórðarson, eigandi og umboðsmaður Reykhólajarðarinnar, hafi verið samþykkur merkjalýsingunni, sem sögð sé hafa verið lesin á manntalsþingi að Berufirði 19. maí 1885 og færð í landamerkjabók Barðastrandarsýslu. Eigandi Höllustaða á þessum tíma hafi verið Þorgeir Þorgeirsson, en hann skrifi ekki undir landamerkjalýsinguna.
Stefnandi vísar til þess að í landamerkjalýsingu fyrir Reykhóla frá 16. febrúar 1884 segi eftirfarandi um landamerki milli Reykhóla og Höllustaða: „Fyrst bein sjónhending í stóru laugina fyrir innan Höllustaði og það beint áfram uppí fjallshlíðina að ferðamannagötu, þaðan beina sjónhending í Rastarhryggsgjá og út nefndir gjá óskerta sjónhending yfir Bjargsfjallshornið að Heyá og fram eftir henni ...“ Og enn fremur: „... bein sjónhending millum Sveinsskers og Högnaskers og þaðan eftir því sem djúp ræður millum Högnaskers og Nóneyjar uppi fyrst áminnstan Grundarvog ...“ Fyrir Reykhóla riti undir landamerkjalýsingu þessa Bjarni Þórðarson, sem búið hafi á Reykhólum 1869 til 1899, en enginn fyrir Höllustaði. Kveður stefnandi liggja fyrir að landamerkjalýsingar Höllustaða og Reykhóla hafi ekki verið samþykktar af eiganda Höllustaða. Ennfremur sé ljóst að eigandi Reykhóla hafi ekki áritað lýsingu Höllustaða sem höfð virðist vera eftir Jóni Jónssyni. Bindandi landamerkjalýsing sé þannig ekki til fyrir jörð stefnanda þó svo fyrir liggi að stuðst hafi verið að mestu við tilvitnaðar landamerkjalýsingar frá 1884 um landamerkin. Það eigi þó hvorki við um Heyárdal, sem nytjaður hafi verið frá Höllustöðum, né land jarðanna neðan þjóðvegar þar sem ný merki hafi verið samþykkt eftir 1950.
Á það er bent af hálfu stefnanda að 23. desember 1943 hafi verið staðfest í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu byggingarbréf Jóns Kr. Ólafssonar fyrir útskiptri landspildu, 50,46 ha spildu fyrir nýbýlið Grund, úr landi Reykhólatorfunnar. Vesturmörk spildunnar séu tilgreind landamerki Höllustaða sem ráði að vegi út Grundarhlíð. Landamerki Höllustaða og Grundar séu ágreiningslaus, sbr. framlagða yfirlýsingu stefnda Unnsteins frá 13. nóvember 2007.
Stefnandi segir Landnám ríkisins hafa látið vinna skipulag byggðahverfis á Reykhólum og sýni framlagður uppdráttur, gerður af Sigurði Sigvaldasyni byggingarverkfræðingi, hvernig nýting hafi verið fyrirhuguð á því landi Reykhóla sem liggi að landamerkjum Höllustaða, neðan þjóðvegar nr. 607. Uppdrátturinn beri með sér að hann hafi verið gerður eftir mælingum á árunum 1951 og 1956 og endurskoðaður eftir loftmynd í desember 1965 af nefndum Sigurði. Krafa stefnanda um landamerki Höllustaða og Reykhóla neðan þjóðvegar nr. 607 byggi meðal annars á uppdrætti þessum, en á honum séu færð inn breytt landamerki jarðanna samkvæmt samkomulagi sem þáverandi eigendur Höllustaða og Pálmi Einarsson landnámsstjóri hafi gert með sér í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu byggðahverfis á Reykhólum. Þáverandi leiguliða Reykhóla hafi verið kunnugt um breytingu landamerkjanna og hann verið henni samþykkur. Segir stefnandi til heimildir um sérstaka vettvangsgöngu til samkomulags og ákvörðunar um hin breyttu landamerki. Þátttakendur í henni hafi verið fyrrnefndur Pálmi Einarsson, Tómas Sigurgeirsson, þáverandi leiguliði á Reykhólum, Magnús Þorgeirsson og Samúel Björnsson, ábúandi Höllustaða og síðar eigandi jarðarinnar. Í beinu framhaldi af vettvangsgöngunni og handsöluðu samkomulagi um hin breyttu landamerki hafi Landnám ríkisins grafið skurð þann sem sjá megi á fyrrgreindum uppdrætti. Einnig hafi verið sett upp girðing á merkjunum og standi sú girðing enn, en verk það hafi unnið fyrir Landnám ríkisins Þorsteinn Þórarinsson, stjúpsonur áðurnefnds Tómasar Sigurgeirssonar. Nefndan skurð og girðinguna kveður stefnandi liggja beina stefnu frá Hvítuskriðu og Merkjasteini og til sjávar.
Fyrir ofan þjóðveg nr. 607 segir stefnandi landamerkin liggja í beinni línu frá skurðenda neðan vegar og upp í Merkjastein. Á móti Grund liggi merkin um tvo óumdeilda hnitapunkta, nr. 25 og 13, svo sem áður sé rakið. Frá hnitapunkti 25 séu merkin bein lína í hnitapunkt 12, Hvítuskriðu, og þaðan upp á bjargbrún. Uppi á Heyárdal eigi Höllustaðir hálfan dalinn á móti Skerðingsstöðum, sbr. gjafabréf Jóns Magnússonar frá 1687. Þar liggi merkjalína á móti landi Reykhóla á þeim stað fram dalinn sem vötnum halli, allt að Austurgili, hnitapunkti 36, og að utan í Rjúpnafell og þaðan þvert yfir Steinboga, hnitapunktur 18. Í landi Höllustaða á Heyárdal séu rústir af gömlu seli, Höllustaðaseli, sem til séu um ýmsar heimildir. Síðast hafi verið heyjað í selinu 1918, en þá hafi búið á Höllustöðum Jóhann Jónsson sem haft hafi í seli á Heyárdal.
Stefnandi vísar til þess að hann hafi (sic) ásamt Samúel Björnssyni keypt Höllustaði með samningi 25. júlí 1975. Seljendur hafi verið systkinin Magnús Þorgeirsson og Ingibjörg Þorgeirsdóttir. Í kaupsamningnum sé til þess vísað að jörðin sé seld með þeim landamerkjum sem frá greini í gjafabréfi Jóns Magnússonar frá 1687. Á þeim tíma hafi landamerki Höllustaða og Reykhóla neðan þjóðvegar nr. 607 verið ágreiningslaus og hafi Samúel og stefnandi (sic) keypt jörðina með hinum breyttu landamerkjum.
Í framlagðri örnefnaskrá segir stefnandi vitnað til gjafabréfs Jóns Magnússonar um landamerki Höllustaða og frá því réttilega greint að Höllustaðir eigi hálfan Heyárdal á móti Skerðingsstöðum. Þar komi einnig fram að svonefnd Þvottalaug, sem sé 200-300 m innan við Höllustaðabæinn, og Hvítaskriða í fjallinu séu á landamerkjum Höllustaða og Reykhóla. Síðan segi svo orðrétt í örnefnaskránni: „Girðing liggur u.þ.b. í Hvítuskriðu nú og niður í vog, en sjónhending réð áður.“ Þá segi ennfremur í örnefnaskránni að örnefnið Rastarhryggur í landi Höllustaða sé upp af Heljarurð og Rastarhryggsgjá uppi í fjallsbrúninni. Einnig sé tekið fram að Hvítaskriða sé innar í hlíðinni.
Stefnandi kveður loftmyndir sem hann hafi aflað frá Náttúrufræðistofnun vera með innfærðum landamerkjum Höllustaða og Reykhóla. Gögn þessi hafi verið unnin um 1972 vegna gróðurkortagerðar á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Landamerkjalínan milli Höllustaða og Reykhóla sé á loftmyndunum dregin þar sem vötnum hallar á Heyárdal. Fyrir liggi staðfesting Guðmundar Guðjónssonar, verkefnisstjóra gróðurkortagerðar, þess efnis að um sé að ræða frumgögn sem unnin hafi verið á staðnum á fyrrgreindum tíma samkvæmt landamerkjabréfum og upplýsingum jarðeigenda. Séu landamerki jarðanna tilgreind á myndum þessum á sama hátt og í kröfugerð stefnanda í máli þessu.
Hvað varðar kröfu um málskostnað bendir stefnandi sérstaklega á að hann sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi gagnaðila sinna.
Til stuðnings dómkröfum sínum vísar stefnandi til landamerkjalaga nr. 5/1882 og 41/1919 með síðari breytingum, svo og til almennra reglna íslensks réttar um gildi landamerkjabréfa og túlkun þeirra. Ennfremur vísar stefnandi til almennra reglna samningaréttarins.
III.
Stefnda íslenska ríkið kveðst reisa kröfu sína um sýknu á því að fyrir hendi séu bindandi þinglýstar landamerkjalýsingar vegna landamerkja Reykhóla og Höllustaða sem ekki séu í samræmi við dómkröfur stefnanda í málinu. Landamerki jarðanna ráðist af landamerkjabréfi fyrir Reykhóla frá 16. febrúar 1884, sem lesið hafi verið á manntalsþingi 20. maí 1886, og af landamerkjabréfi fyrir Höllustaði frá 18. febrúar sama ár, er lesið hafi verið upp á manntalsþingi í Berufirði 19. maí 1885. Með vísan til þessa sé þeim málatilbúnaði stefnanda alfarið mótmælt að ekki séu fyrir hendi bindandi landamerkjalýsingar fyrir jarðirnar. Landamerki þeirra ráðist af tilvitnuðum landamerkjabréfum sem þinglýst hafi verið með lögformlegum hætti að fengnu samþykki eigenda nærliggjandi jarða.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að landamerkjabréf Höllustaða og Reykhóla uppfylli öll skilyrði eldri landamerkjalaga nr. 5/1882. Ranglega sé fullyrt í stefnu að Jón Jónsson, sem skrifað hafi undir bæði landamerkjabréfin, hafi verið ábúandi á Grund, er verið hafi hjáleiga frá Reykhólum. Hið rétta sé að Jón hafi verið ábúandi á Skerðingsstöðum á tímabilinu frá 1859 til 1887, sbr. framlagt ábúendatal fyrir jörðina og frumrit landamerkjabréfa Höllustaða og Reykhóla, en í báðum bréfunum sé Jón titlaður umboðsmaður og ábúandi Skerðingsstaða. Þá haldi stefnandi því einnig ranglega fram að eigandi Reykhóla hafi ekki áritað landamerkjabréf Höllustaða og að lýsing landamerkja jarðanna sé höfð eftir Jóni Jónssyni frá Skerðingsstöðum. Frumrit landamerkjabréfs Höllustaða beri glögglega með sér að lýsing landamerkjanna sé höfð eftir Bjarna Þórðarsyni sem eiganda og umboðsmanni jarðarinnar. Þá sé bréfið jafnframt áritað af eigendum og umboðsmönnum nærliggjandi jarða, þeim Jóni Jónssyni á Skerðingsstöðum og Bjarna Þórðarsyni á Reykhólum.
Stefnda segir því ennfremur ranglega haldið fram í stefnu að Þorgeir Þorgeirsson hafi verið eigandi Höllustaða er landamerkjabréf jarðarinnar var gefið út 1884. Eigandi jarðarinnar hafi á þeim tíma verið Bjarni Þórðarson, bóndi á Reykhólum, svo sem sjá megi af landamerkjabréfi Höllustaða sem hann hafi áritað sem eigandi jarðarinnar. Ábúandi á Höllustöðum á tímabilinu frá 1871 til 1894 hafi hins vegar verið Jóhann Jónsson og hafi tengdasonur Jóhanns, Þorgeir Þorgeirsson, tekið við búi eftir hann vorið 1895, sbr. ábúendatal Höllustaða í ritinu „Skyggir skuld fyrir sjón“. Þá sé einnig ljóst að títtnefndur Jóhann hafi ekki búið á Höllustöðum 1918, svo sem haldið sé fram í stefnu, enda hafi hann andast 1894.
Stefnda íslenska ríkið telur ljóst að landamerkjalýsing Höllustaða í landamerkjabréfi jarðarinnar frá 18. febrúar 1884 sé höfð eftir Bjarna Þórðarsyni, eiganda jarðarinnar. Engin rök standi til þess að Jón Jónsson á Skerðingsstöðum hafi samið lýsinguna. Sýslumaður hefði ekki heimilað útgáfu og áritun slíkrar landamerkjalýsingar eða látið lesa slíka lýsingu upp á manntalsþingi. Einungis eigandi eða umráðamaður jarðar hafi verið til þess bær að gefa út landamerkjalýsingu, sbr. 3. og 4. gr. landamerkjalaga nr. 5/1882, þar sem sú skylda hafi verið lögð á landeiganda að fá alla eigendur nærliggjandi jarða til að árita merkjalýsinguna um samþykki sitt og að því fengnu skyldi landeigandi afhenda sýslumanni merkjalýsinguna til þinglesturs. Landamerkjabréf Reykhóla uppfylli með sama hætti og landamerkjabréf Höllustaða öll skilyrði laga nr. 5/1882, en landamerkjalýsingin sé höfð eftir Bjarna Þórðarsyni, eiganda Reykhóla, og samþykkt af eigendum nærliggjandi jarða.
Að sögn stefnanda er með öllu ósannað að samkomulag hafi tekist um breytt merki jarðanna frá þeim lýsingum er fram komi í áðurgreindum landamerkjabréfum. Uppdráttur sá er Sigurður Sigvaldason hafi gert varðandi skipulag byggðahverfisins á Reykhólum hafi eingöngu snúið að fyrirhugaðri landnýtingu á svæðinu. Hann hafi ekki á nokkurn hátt verið ákvörðun um ný landamerki og með honum hafi engin breyting verið gerð á merkjum Reykhóla gagnvart nærliggjandi jörðum frá því sem ákveðið hafi verið í þinglýstum landamerkjabréfum. Engin gögn styðji málatilbúnað stefnanda í þá veru. Uppdrátturinn feli því enga sönnun í sér um legu landamerkja, enda um skipulagsuppdrátt að ræða sem hvorki hafi verið áritaður af landeigendum né skipulagsyfirvöldum. Þá hafi uppdrátturinn heldur ekki verið færður í landamerkjabækur eða honum þinglýst á viðkomandi jarðir.
Stefnda íslenska ríkið vísar til þess að samkvæmt lögum nr. 20/1952 hafi landnámsstjóri verið framkvæmdastjóri Nýbýlastjórnar ríkisins. Ljóst sé að munnlegur samningur hans um einhliða breytingu á legu landamerkja milli jarðanna Reykhóla og Höllustaða hefði verið mjög óvenjuleg ráðstöfun og jafnframt heimildarlaus þar sem lagaheimild þurfi til að láta af hendi fasteign ríkisins, sbr. 40. gr. stjórnarskrárinnar. Slíkt afsal hefði því verið ógildanlegt. Bendir stefnda einnig á í þessu sambandi að samkvæmt bréfi landbúnaðarráðuneytisins til landnámsstjóra frá 16. apríl 1974 komi fram að umráð Landnáms ríkisins yfir Reykhólum hafi verið takmörkuð við framkvæmdir til stofnunar nýrra býla, sbr. einnig bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til Nýbýlastjórnar ríkisins frá 10. febrúar 1950. Bendir stefnda jafnframt á að hvorki hafi verið færð fram sjónarmið í þá veru að um makaskipti á landi hafi verið að ræða né heldur að endurgjald hafi komið fyrir landið.
Stefnda segir í sjálfu sér ekki ósennilegt að ætla að landnámsstjóri hafi haft samráð við eigendur Höllustaða og ábúandann á Reykhólum um legu skurða og girðingarframkvæmdir nálægt landamerkjum jarðanna. Bendir stefnda á að tilgangur með skurðgreftri sé að ræsa fram votlendi. Rök hnígi til þess að umræddur skurður hafi verið grafinn þar sem skurðstæði var hvað best, þ.e. þar sem landið hentaði best til framræslu og var án sýnilegra hafta eða fyrirstaðna.
Þá ítrekar stefnda að það kannist ekki við að hinu umþrætta landi neðan þjóðvegar nr. 607 hafi verið ráðstafað til Höllustaða svo sem stefnandi haldi fram og segir stefnda sér ókunnugt um þá fullyrðingu stefnanda að breytt landamerki hafi verið handsöluð að aflokinni vettvangsgöngu eða munnlegt samkomulag verið gert, en allir þeir sem stefnandi telji að þátt hafi í henni tekið séu fallnir frá. Í þessu sambandi vísar stefnda og til vættis Hjartar Þórarinssonar, stjúpsonar ábúanda Reykhóla er meint samkomulag á að hafa verið gert, þar sem fram komi að umþrætt girðing hafi verið færð til að ósk Magnúsar Þorgeirssonar á Höllustöðum í þeim tilgangi að skjólsælt svæði og beit fengist fyrir kýrnar frá Höllustöðum. Á ósk Magnúsar hafi verið fallist án skriflegs samþykkis og án afsals á landi. Þá lýsi Hjörtur engjaheyskap á Reykhólum sumarið 1952 í bréfi frá 10. maí 2002 á svæði út undir Krókalæk, en Hjörtur telji vafalaust að slátturinn hafi farið fram í landi Reykhóla. Að lokum vísar stefnda til yfirlýsingar núverandi ábúa Reykhóla í bréfi 22. ágúst 2001 þess efnis að girðingin neðan skurðarins sé ekki landamerkjagirðing. Hann hafi heldur aldrei heyrt af hinu meinta samkomulagi um breytt landamerki.
Stefnda íslenska ríkið segir ljóst að samræmi sé að öllu leyti milli landamerkjabréfa Höllustaða og Reykhóla frá 16. og 18. febrúar 1884 um merkin frá Grundarvogi og upp að Stórulaug, innan við Höllustaði. Landamerkjabréfin feli í sér lýsingu á merkjanlegum kennileitum. Krókalækur liðist niður að Grundarvogi og börðin séu lágir ásar sem komi í veg fyrir að sjá megi botn Grundarvogar ofan frá Stórulaug. Þegar gengið sé með Krókalæknum skyggi börðin á útsýni til bæja, en um leið og þeim sleppi sjáist Stóralaug í sjónhendingu. Bein sjónlína sé hins vegar ekki milli innri hluta Grundarvogs og Stórulaugarinnar og af því leiði að ef miða ætti við beina línu milli þessara staða hefði orðið að setja niður merkjasteina eða hlaða vörður á milli þeirra til að skýra merkin, sbr. ákvæði 2. gr. landamerkjalaga nr. 5/1882 en samsvarandi reglur sé að finna í landamerkjalögum nr. 41/1919. Bein landamerkjalína milli Stórulaugar og Grundarvogs uppfylli ekki skilyrði landamerkjalaga.
Í kröfugerð sinni segir stefnda stefnanda líta framhjá landamerkjabréfum Höllustaða og öðrum heimildum sem hnígi til gagnstæðrar niðurstöðu um landamerki jarðarinnar. Heldur stefnda því fram að gjafabréf Jóns Magnússonar frá 1687, er kröfugerð stefnanda byggi á, hafi takmarkað gildi sem staðfesting þess að dalurinn hafi verið gefinn með Höllustöðum á sínum tíma. Yngri heimildir um eignarafnot Heyárdals gangi hins vegar framar eldri heimildum. Þá bendir stefnda á að Höllustaðir og Reykhólar hafi að öllum líkindum oft verið í eigu eins og sama aðilans sem kunni þá að hafa lagt dalinn, eða afnot hans, til þeirrar jarðar sem hann kaus. Þannig segi t.d. í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 að báðar jarðirnar séu í eigu barna Gísla Jónssonar. Þá liggi fyrir að við gerð landamerkjalýsinga jarðanna í febrúar 1884 hafi báðar jarðirnar verið í eigu Bjarna Þórðarsonar. Ennfremur verði að hafa í huga að Reykhólar hafi verið stórbýli og eitt helsta höfðingjasetur landsins um aldir. Fram komi í jarðaskrá frá 1861 að samkvæmt fornri hundraðatölu hafi Reykhólar með hjáleigum verið 120 hundraða jörð en Höllustaðir 12 hundraða. Í ljósi þessa sé ekki ósennilegt að Heyárdalur, sem sé gott sauðland og hafi verið nytjaður til slægna, hafi tilheyrt stórbýlinu að Reykhólum um lengri eða skemmri tíma.
Ofan Stórulaugar kveður stefnda einnig vera samhljóm í landamerkjalýsingum um landamerki jarðanna, þ.e. frá Stórulaug og að Heyá, en eftir að Heyá kemur eigi Reykhólar land á móti Skerðingsstöðum. Af landamerkjalýsingunum sé ljóst að hálfur Heyárdalurinn, austan Heyárinnar, tilheyri jörðinni Reykhólum. Merkjalínan liggi eftir Heyá að neðri Skiptatjörn, þaðan í hæstu nónborg, í Rjúpnafell og þaðan fyrir austan Ísavatn. Segir stefnda því ljóst að samkvæmt fyrirliggjandi þinglýstum landamerkjabréfum Höllustaða og Reykhóla sé landamerkjalína sú sem stefnandi leggi til grundvallar í dómkröfum sínum röng og ekki í nokkru samræmi við fyrirliggjandi skjöl og heimildir.
Af hálfu stefnda er því hafnað að samkomulag hafi tekist um breytt merki jarðanna frá lýsingum í þinglýstum landamerkjabréfum. Bendir stefnda á að kennileitunum Merkjasteini og Hvítuskriðu sé ekki lýst í landamerkjabréfum jarðanna þó svo hægleg megi greina þau í námunda við landamerkin. Hvítaskriða komi hins vegar fyrir í örnefnaskrá frá árinu 1978 fyrir Höllustaði en Merkjasteinn sé aftur á móti ekki þekkt kennileiti og hann sé ekki að finna í örnefnaskrá Höllustaða.
Þá bendir stefnda á að lýsing sú sem fram komi í landamerkjabréfi Reykhóla varðandi merkin í Heyárdal hafi verið staðfest af Jóni Jónssyni, ábúanda Skerðingsstaða, sbr. frumrit landamerkjabréfs Reykhóla, en Heyárdalur, vestan Heyár, tilheyri Skerðingsstöðum, á móti Reykhólum. Ennfremur verði ekki fram hjá því litið að eigendur Hlíðar í Þorskafirði og Reykhóla hafi gert með sér landamerkjasátt 3. ágúst 1885 um landamerki jarðanna í svokölluðum Heyárdalsbotni. Önnur sátt hafi verið gerð milli eigenda sömu jarða 21. júlí 1900 þar sem kveðið hafi verið á um skiptingu Mjóadals milli jarðanna, en sá dalur sé vestan við ofanverðan Heyárdal. Umræddar sættir milli jarðanna hefðu ekki tekist ef vefengt hefði verið að eigandi Reykhóla væri bær til að standa að þeim. Þá sé ennfremur ljóst samkvæmt þinglýstu landamerkjabréfi Skerðingsstaða, sem samþykkt hafi verið af Bjarna Þórðarsyni sem umboðsmanni og eiganda Reykhóla og Höllustaða, að Skerðingsstaðir eigi Heyárdalinn hálfan á móti Reykhólum, ekki Höllustöðum, og ráði Heyá merkjum milli jarðanna.
Í áreiðardómi Orms Sturlusonar lögmanns frá 1571 kveður stefnda segja um landamerki Reykhóla að þau ráðist meðal annars af garði sem gangi upp eftir hlíðinni frá ysta læknum sem „upp sprettur“ og sé vísað til merkjasteina sem lagðir hafi verið í sjónhendingu ofan úr gjánni sem gangi í fjallið. Samkvæmt dómnum tilheyri hálfur Heyárdalur Reykhólum. Segir stefnda enn í dag mega glögglega sjá hlaðinn grjótgarð sem liggi eftir hluta landamerkjalínunnar milli Stórulaugar og Heyár.
Stefnda segir stefnanda engin rök hafa fært fram fyrir því að Heyárdalur hafi verið nytjaður frá Höllustöðum. En jafnvel þó svo það væri rétti víki það ekki til hliðar þinglýstum heimildum í landamerkjabréfum jarðanna um eignarhald dalsins. Bendir stefnda á að meint afnot Höllustaða af Heyárdal kunni því allt eins að hafa verið gegn gjaldi eða á grunni forns ítaks, en ekkert hafi hins vegar verið fært fram því til staðfestu. Bendir stefnda í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar Íslands frá 1927, sbr. 546, í máli sem eigendur Höllustaða höfðuðu gegn eigendum Reykhóla.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnda til eldri landamerkjalaga nr. 5/1882 svo og núgildandi nr. 41/1919. Jafnframt vísar stefnda til laga nr. 58/1941 um landnám ríkisins, sbr. síðar lög nr. 20/1952 um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum. Ennfremur vísar stefnda til 33. gr. jarðalaga nr. 81/2004 og til 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Að lokum vísar stefnda til meginreglna þinglýsingarlaga um réttaráhrif þinglýsingar svo og til meginreglna samningalaga um skuldbindingargildi samninga og efndir loforða.
IV.
Í málinu liggur frammi ljósrit gjafabréfs Jóns Magnússonar frá 3. janúar 1687. Þar segir meðal annars svo:
Það gjöri ég Jón Magnússon augljóst öllum mönnum með þessu opna brjefi og eigin handskrift í þeirra dánumanna viðurvist er hjér til votta kallast, að ég tilsegi, Ragnheiði dóttur minni eptirskrifaðar jarðir eptir minn dag, með hjér innfærðum og ánefndum landamerkjum. ...
3. Höllustaðir 12 // bæði sín og sinnar dóttur Jarþrúðar vegna, með þeim landamerkjum innfrá í stórulaugina, þaðan sjónhending og upp í fjall, og ofan í sjó sem áin ræður, hálfann Heyárdal allann á móts við Skerðingsstaði með hverjum hjér téðum landamerkjum að ég og mínir forfeður hafa Miðhús og Skerðingsstaði haldið og minn sæli sálugi Föðurfaðir Ari Magnússon mjér tilsagði, enn Höllustaði af mjér keyptir verið og án löglegra mótmæla í vor þriggja feðga tilhaldið.
Þá liggja og fyrir í málinu staðfest ljósrit úr landamerkjabók Barðastrandarsýslu varðandi jarðirnar Höllustaði og Reykhóla. Í landamerkjaskrá fyrir Höllustaði frá 18. febrúar 1884, sem lesin var á manntalsþingi að Berufirði 19. maí 1885, segir eftirfarandi um landamerki jarðarinnar:
Fyrst eftir því sem Heyá ræður frá fjallshlíðinni ofan eptir hennar gamla farveg ofan í Heyárvog og út voginn miðjan og það óskekta sjónhending að þeirri merkjalínu sem um er getið í landamerkjaskrá fyrir Reykhólum af 16. febrúar 1884 og eptir áminnstri merkjalínu millum Reykhóla og hér nefndra Höllustaða inn eptir mitt á millum Sveinsskers og Högnaskers og þaðan eptir því sem djúp ræður uppí Grundarvog og svo upp þaðan í Krókalæk og eptir honum upp á börðin og þaðan bein sjónhending upp mýrarnar uppí stórulaugina og það óskekkta sjónhending áfram að ferðamannagötu og þaðan í Rastarhryggsgjá og úr nefndri gjá óskekkta sjónhending norðvestur að Heyá og ofan eptir henni sem áður segir ...
Um landamerki Reykhóla segir meðal annars svo í landamerkjaskrá fyrir jörðina frá 16. febrúar 1884, sem lesin var á manntalsþingi að Berufirði 20. maí 1886:
Fyrst bein sjónhending úr utanverðum Grundarvogi uppeptir Krókalæk, upp mýrarnar bein sjónhending í stóru laugina fyrir innan Höllustaði og það beint áfram uppí fjallshlíðina að ferðamannagötu, þaðan beina sjónhending í Rastarhryggsgjá og úr nefndri gjá óskekkta sjónhending yfir Bjargfjallshornið að Heyá og framm eptir henni, framm að skiptitjörn þeirri neðri og frá neðsta horni tjarnarinnar beina sjónhendingu í hæðstu nónborg og af henni hæðstri beina sjónhendingu í hællinn á Rjúpnafelli og þaðan beina sjónhendingu fyrir austan Ísavatn í dra..... á innri Þúfnarjóðurslæk, sem rennur millum Hyrningsstaða og Þúfnarjóðurs og það beint áfram á Berufjörð miðjann ...
V.
Undir rekstri málsins gekk dómari á vettvang ásamt lögmönnum stefnanda og stefnda íslenska ríkisins. Einnig voru þá á vettvangi vitnin Tómas Sigurgeirsson, ábúandi Reykhóla, og Björn Samúelsson, sonur stefnanda. Við vettvangsgönguna kom í ljós að enginn ágreiningur er milli aðila hvað varðar kennileiti og staðsetningu þeirra að öðru leyti en því að eilítill meiningarmunur er um staðsetningu barða þeirra sem nefnd eru í landamerkjalýsingum Höllustaða og Reykhóla. Svo sem mál þetta liggur fyrir dómnum hefur það atriði hins vegar enga þýðingu við úrlausn málsins.
Við munnlegan málflutning var af hálfu stefnanda meðal annars vísað til hefðar kröfum hans til stuðnings. Sætti þessi málsástæða stefnanda andmælum stefnda íslenska ríkisins sem of seint fram komin.
Hygðist stefnandi byggja kröfur sínar í málinu að einhverju leyti á hefð þá bar honum að setja fram þá málsástæðu í stefnu, sbr. 1. málslið 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, enda verður ekki með nokkru móti talið að tilefni til að koma fram með málsástæðuna hafi fyrst gefist eftir höfðun málsins. Verður því ekki á málsástæðunni byggt gegn framkomnum andmælum stefnda íslenska ríkisins.
Skv. 3. gr. landamerkjalaga nr. 5/1882 var eiganda eða umráðamanni hverrar jarðar skylt að skrásetja nákvæma lýsingu á landamerkjum jarðar sinnar, eins og hann vissi þau réttust. Þá bar honum að sýna merkjalýsinguna hverjum þeim er land átti til móts við hann, sem og eigendum lands þess, er hann taldi jörð sína eiga ítak í, og skyldu þeir rita á lýsinguna samþykki sitt, hver fyrir sína jörð, nema þeir álitu lýsingu hans eigi rétta. Í 4. gr. laganna var síðan kveðið á um það að er landeigandi hefði fengið alla, er hann ætti að sýna merkjalýsingu sína eftir 3. gr., til að rita samþykki sitt á hana, skyldi hann fá hana sýslumanni í hendur til þinglesturs á næsta manntalsþingi.
Fyrir liggur samkvæmt því sem rakið er í kafla IV að fyrir jarðirnar Höllustaði og Reykhóla voru gerðar landamerkjalýsingar í febrúar 1884. Af framlögðu ljósriti af landamerkjaskrá fyrir jörðina Höllustaði, staðfestu af embætti sýslumannsins á Patreksfirði, má skýrlega ráða að undir skrána hafi ritað fyrir hönd Höllustaða, sem eigandi og umboðsmaður jarðarinnar, Bjarni Þórðarson. Sá hinn sami Bjarni hafi ritað undir landamerkjaskrána fyrir hönd Reykhóla, sem eigandi og umboðsmaður þeirrar jarðar. Þá hafi að endingu ritað undir landamerkjaskrána Jón Jónsson, sem umboðsmaður og ábúandi Skæringsstaða, sbr. hér einnig framlagt ábúendatal fyrir þá jörð. Var landamerkjaskráin lesin á manntalsþingi að Berufirði 19. maí 1885 og allt framangreint fært inn í landamerkjabók Barðastrandarsýslu.
Landamerkjaskrá Reykhóla var lesin á manntalsþingi að Berufirði 20. maí 1886 og færð inn í landamerkjabók Barðastrandarsýslu. Af framlögðu ljósriti af landamerkjaskrá fyrir Reykhóla, staðfestu af embætti sýslumannsins á Patreksfirði, má skýrlega ráða að undir skrána hafi ritað fyrir hönd Reykhóla, sem eigandi og ábúandi jarðarinnar, Bjarni Þórðarson. Jafnframt hafi ritað undir landamerkjaskrána áðurnefndur Jón Jónsson, sem umboðsmaður og ábúandi Skæringsstaða. Enginn skrifar sérstaklega undir skrána sem eigandi/ábúandi og umboðsmaður Höllustaða. Verður hér hins vegar til þess að líta sem áður var rakið um nafnritun Bjarna Þórðarsonar á landamerkjaskrá Höllustaða, sem eigandi og umboðsmaður jarðarinnar. Hér þykir einnig mega líta til þess að Bjarni ritaði undir landamerkjaskrá Skerðingsstaða 21. mars 1884, sem eigandi og umboðsmaður Reykhóla og Höllustaða. Þá verður að lokum ekki fram hjá því horft að af staðfestu ljósriti af yfirliti þinglýstra skjala á Höllustaði, sbr. bréf sýslumannsins á Patreksfirði frá 4. júní 2008, má ráða að rúmum tveimur mánuðum eftir gerð landamerkjalýsingar fyrir Höllustaði hafi verið þinglýst afsali Bjarna Þórðarsonar á fjórum hundruðum af jörðinni til Kristínar Bjarnadóttur. Samkvæmt öllu þessu þykir verða að leggja til grundvallar að títtnefndur Bjarni hafi haft heimild til að rita undir umræddar landamerkjaskrár fyrir hönd Höllustaða er þær voru gerðar í febrúar árið 1884, en ósönnuð þykir með öllu sú fullyrðing stefnanda í stefnu, sem sett er fram án tilvísunar til sönnunargagna, að Þorgeir Þorgeirsson hafi þá verið eigandi jarðarinnar. Þvert á móti má ráða af fyrrgreindu staðfestu ljósriti af yfirliti þinglýstra skjala á Höllustaði að Þorgeir hafi eignast átta hundruð jarðarinnar, 2/3 hluta hennar, talsvert síðar, eða árið 1898. Samrýmist framlagt ábúendatal fyrir Höllustaði þessu, en samkvæmt því tók Þorgeir ekki við búi á jörðinni fyrr en árið 1895.
Samkvæmt framansögðu liggur ekkert annað fyrir en að við gerð landamerkjaskráa þeirra sem reifaðar eru í kafla IV hafi verið gætt áðurrakinna ákvæða 3. og 4. gr. landamerkjalaga nr. 5/1882. Þá eru landamerkjalýsingar jarðanna fyllilega samrýmanlegar. Stefnandi ber því sönnunarbyrðina fyrir því að um landamerki jarðanna fari ekki svo sem í landamerkjaskránum greinir, enda ganga skrárnar gerðar samkvæmt ákvæðum landamerkjalaga framar gjafabréfi Jóns Magnússonar, sem ritað var nærri tvöhundruð árum áður. Þegar af þessari niðurstöðu leiðir, sbr. málatilbúnað stefnanda sem rakinn er í kafla II, að stefnda íslenska ríkið verður sýknað af þeim kröfum stefnanda er taka til landsvæðisins ofan fjallsbrúnar.
Stefnandi byggir á því í málinu að landamerkjum Höllustaða og Reykhóla hafi verið breytt með munnlegu samkomulagi þáverandi eigenda Höllustaða og Pálma Einarssonar landnámsstjóra, sem gert hafi verið í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu byggðahverfis á Reykhólum. Segir stefnandi til heimildir um sérstaka vettvangsgöngu til samkomulags og ákvörðunar um hin breyttu landamerki sem tekið hafi þátt í Pálmi Einarsson landnámsstjóri, Tómas Sigurgeirsson, þáverandi leiguliði á Reykhólum, Magnús Þorgeirsson, annar eigenda Höllustaða, og Samúel Björnsson, eiginmaður stefnanda, þá ábúandi á Höllustöðum en síðar eigandi jarðarinnar.
Allir þeir menn sem stefnandi nefnir að tekið hafi þátt í meintri vettvangsgöngu til samkomulags og ákvörðunar um breytt landamerki jarðanna eru nú látnir. Þá liggja engin skrifleg gögn fyrir í málinu um afstöðu þeirra tveggja fyrstgreindu til umræddrar fullyrðingar stefnanda. Hins vegar liggur afstaða Samúels fyrir en í bréfi hans frá 15. febrúar 1976 er að finna fullyrðingu um að landnámsstjóri hafi „úrskurðað“ að landamerki jarðanna ættu að vera bein lína frá fjalli til sjávar. Er því ljóst, andstætt því sem haldið er fram í stefnu, að er Samúel keypti Höllustaði árið 1975 var uppi ágreiningur um landamerki jarðanna, sbr. áðurnefnt bréf Samúels til stefnda íslenska ríkisins sem og annað bréf hans til stefnda 20. júní 1976.
Í málinu liggur fyrir skipulagsuppdráttur sem unninn var af Sigurði Sigvaldasyni byggingarverkfræðingi. Fyrir dómi bar Sigurður að hann hefði farið að Reykhólum sumarið 1951, þá námsmaður, sem aðstoðarmaður Ásgeirs H. Karlssonar við mælingar. Með í ferðinni hafi verið landnámsstjóri, Pálmi Einarsson. Kvað Sigurður þá Ásgeir hafa samkvæmt fyrirmælum Pálma sett út hinn umdeilda skurð „... sem ég áleit að hafi verið, og staðfesti, landamerkjaskurður milli Höllustaða og Reykhóla.“ ... „Hann gat ekki verið neitt annað, hann er á milli þessara tveggja jarða.“ Við vinnuna hefðu þeir notað gamalt kort, útgefið af búnaðarfélaginu. Framlagðan uppdrátt sinn sagði Sigurður sýna byggðahverfið á Reykhólum og hann verið hugsaður sem skipulagskort.
Ljóst þykir samkvæmt framburði Sigurðar Sigvaldasonar, Finns Kristjánssonar, eiganda Skerðingsstaða, og Jónasar M. Samúelssonar, sonar Samúels Björnssonar, að árið 1950 eða 1951 hafi verið tekin ákvörðun um að grafa hinn umdeilda framræsluskurð. Bendir margt til þess að að ákvörðun um legu skurðarins hafi komið aðilar þeir sem stefnandi heldur fram samkvæmt áðursögðu að tekið hafi þátt í vettvangsgöngu um 1950. Við mat á því hvort stefnanda hafi tekist sönnun þess að gert hafi verið munnlegt samkomulag um breytingu á landamerkjum Höllustaða og Reykhóla, til samræmis við legu skurðarins og girðingar þeirrar sem við tekur er honum sleppir, verður hins vegar ekki fram hjá því litið að Sigurður Sigvaldason var sjálfur ekki vitni að slíku samkomulagi. Þá verður ekki séð að gerð samkomulags um breytt landamerki jarðar í eigu ríkisins hafi verið á forræði landnámsstjóra svo sem hlutverk hans var skilgreint í 3. gr. laga nr. 20/1952. Jafnframt hefur engin haldbær skýring komið fram í málinu af hverju stefnda íslenska ríkið hefði átt að afhenda eiganda Höllustaða hið umþrætta land neðan fjalls án endurgjalds. Ennfremur verður ekki framhjá því litið að breyting merkja með þeim hætti sem stefnandi heldur fram hefði gengið í berhögg við ákvæði landamerkjalaga nr. 41/1919, sbr. 4. gr., sbr. 1. til 3. gr. laganna. Að öllu þessu athuguðu, sem og því sem áður var rakið varðandi þátttakendur í hinni meintu vettvangsgöngu, þykir stefnanda ekki hafa tekist nægjanlega að sanna að landamerkjum Höllustaða og Reykhóla hafi verið breytt með samkomulagi aðila um 1950. Geta gögn er frá gróðurkortagerð Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins stafa, sem gerð voru mörgum árum eftir að meint samkomulag á að hafa verið gert, engu breytt um þessa niðurstöðu. Samkvæmt því, sem og fyrrgreindri niðurstöðu dómsins hvað varðar tilvísun stefnanda til hefðar, er það álit dómsins að þarflaust sé að fjalla sérstaklega um það sem fram hefur komið í málinu, bæði í skriflegum gögnum og framburðum vitna, um nýtingu hins umþrætta lands neðan fjalls eftir 1950.
Samkvæmt öllu framansögðu verður stefnda íslenska ríkið sýknað af kröfum stefnanda í málinu.
Á grundvelli yfirlýsingar stefnda Unnsteins Hjálmars frá 13. nóvember 2007, en yfirlýsingin er reifuð í kafla I. B. hér að framan, verður fallist á kröfu stefnanda um landamerki jarðanna Grundar og Höllustaða, svo sem nánar er rakið í dómsorði. Í ljósi yfirlýsingarinnar og þess að hún var gefin út fyrir þingfestingu málsins eru hins vegar engin efni til að fallast á kröfu stefnanda um málskostnað úr hendi stefnda Unnsteins Hjálmars.
Ljóst er að nokkrum misskilningi hafa valdið við rekstur máls þessa annars vegar gallað endurrit embættis sýslumannsins á Patreksfirði frá 1976 úr landamerkjabók Barðastrandarsýslu varðandi landamerki jarðarinnar Höllustaða og hins vegar ljósrit gallaðrar uppskriftar fyrir jörðina Reykhóla, er stefnandi lagði fram við þingfestingu málsins og ber með sér að stafa frá sama embætti. Að því virtu, sem og atvikum málsins öllum, þykir rétt á grundvelli 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að málskostnaður falli niður milli stefnanda og stefnda íslenska ríkisins.
Stefnanda var veitt gjafsókn til reksturs máls þessa með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 10. mars 2008. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Jóns Höskuldssonar hrl., er hæfilega þykir ákveðin svo sem í dómsorði greinir.
Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda íslenska ríkið skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Theódóru Guðnadóttur, í máli þessu.
Landamerki milli jarðanna Höllustaða og Grundar eru sem hér segir: Úr hnitapunkti 25, í skurði fyrir ofan þjóðveg (350449.4, 554392.4) og þaðan í hnitapunkt 13, Merkjastein (350566.0, 554833.1).
Stefndi Unnsteinn Hjálmar Ólafsson er sýkn af málskostnaðarkröfu stefnanda. Málskostnaður fellur niður milli stefnanda og stefnda íslenska ríkisins.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Jóns Höskuldssonar hrl., 1.324.680 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.