Hæstiréttur íslands
Mál nr. 756/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. nóvember 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 6. desember 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. nóvember 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 6. desember 2016, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að kærði hafi verið handtekinn kl. 16:26 í gær, grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og án gildra ökuréttinda. Auk þess hafi fundist meint amfetamín í bifreiðinni. Í farangursrými bifreiðarinnar hafi fundist meint þýfi, tvær fartölvur, fimm sjaldtölvur, Canon myndavél, iPhone S, iPad og fartölvutaska. X kvað félaga sinn hafa skilið þetta eftir í bifreiðinni. Í bifreiðinni hafi fundist þrjár svartar spjaldtölvur (Apple iPad). Ein hafi verið merkt [...] og þegar hún hafi verið opnuð mátti sjá netfangið [...] á skjánum. Þegar önnur spjaldtölvan hafi verið opnuð mátti sjá sama netfang á skjánum. Ekki hafi tekist að opna þriðju svörtu spjaldtölvuna. Í máli lögreglu nr. 007-2016-64721 hafi verið tilkynnt um þjófnað úr [...]. Þá hafi verið tilkynnt um þjófnað á þremur fartölvum og fjórum iPads og einni EOS myndavél. Í bifreiðinni hafi fundist ein af umræddum fartölvum og iPadarnir. Þeir séu ýmist merktir skólanum eða hægt að sjá það þegar tölvunar séu opnaðar. Í bifreiðinni hafi einnig fundist iPhone S. Hann reyndist vera í eigu A. Haft var samband við hann og sagði hann að símanum hafi verið stolið úr [...] síðastliðinn fimmtudag um kl. 21 (mál lögreglu nr. 007-2016-64713). Við skýrslutöku hjá lögreglu í dag kvaðst kærði eiga amfetamínið, en var tvísaga varðandi akstur bifreiðarinnar. Varðandi þýfið kvaðst kærði ekki hafa verið á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma, en hafi komið í bæinn daginn eftir. Hann hafi farið að bílnum þar sem hann sé heimilislaus, þar kom drengur sem hann hafði einu sinni áður hitt í partýi og hafi sá boðið honum 20.000 krónur fyrir að geyma munina í bílnum, sem hann hafi gert. Kvaðst hann halda að drengurinn héti B, en gat ekki gefið frekari lýsingar á honum eða upplýsingar. Frá 3. september sl. er kærði grunaður um eftirfarandi brot:
Mál 007-2016-28714
Kærði var ákærður 30. ágúst sl. fyrir líkamsárás í [...] með því að hafa fimmtudaginn 12. maí 2016, rétt við [...], skallað C, kt. [...], í andlitið með þeim afleiðingum að C hlaut nefbeinsbrot, yfirborðsáverka og mar í andlit og sár á nef. Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er búið að þingfesta málið og er aðalmeðferð fyrirhuguð.
Mál 007-2016-51886
Fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 3. september 2016 á lögreglustöðinni við Hverfisgötu 113 í Reykjavík, haft í vörslum sínum 0,44 g af amfetamíni, sem datt úr vasa kærða. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst kærði ekki muna eftir að hafa verið með fíkniefni á sér.
Mál 007-2016-61149
Þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 7. september 2016 í verslun [...], stolið matvöru og sælgæti, samtals að verðmæti 1.793 krónur. Kærði neitar sök í málinu. Lögreglumenn þekkja kærða af myndbandsupptökum úr versluninni og kærandi kveðst þekkja kærða vegna fyrri mála hans.
Mál 007-2016-61142
Þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 7. september 2016 í verslun [...], stolið úlpu og bíllyklum úr vörumóttöku verslunarinnar, samtals að verðmæti 149.557 krónur. Kærði neitar sök í málinu. Lögreglumenn þekkja kærða af myndbandsupptökum úr versluninni og kærandi kveðst þekkja kærða vegna fyrri mála hans.
Mál 007-2016-55355
Þjófnað, með því að hafa föstudaginn 16. september 2016 í D, [...], stolið skólatösku ásamt skólabókum og skriffærum, að óþekktu verðmæti. Seinna um daginn hafi fundist hlutir úr töskunni fyrir utan [...]. Þá hafi verið búið að setja í pennaveski glósur frá E og passamynd úr annarri tösku sem rótað hafði verið í. Tölva E fannst hjá kærða og var komið til skila. Í [...] hafi fundist mappa, stílabók og pennaveski. Við skýrslutöku í dag neitaði kærði að hafa stolið umræddum munum en kvaðst hafa tekið tölvu E, sem fannst í máli 007-2016-54643.
Mál 007-2016-54643
Þjófnað, með því að hafa föstudaginn 16. september í Reykjavík stolið Camo jakka að söluandvirði 9.200 krónur úr versluninni F við [...]. Kærði hefur neitað sök í málinu. G starfsmaður verslunarinnar kvaðst hafa elt kærða þar til lögregla handtók hann og hafi hann ekki séð hann henda neinu frá sér. H starfsmaður verslunarinnar, kvaðst hafa sérð kærða máta nokkra jakka. Hún hafi farið og rætt við samstarfsfélaga sinn og þá hafi kærði rokið út úr búðinni og samstarfsfélagi hennar á eftir honum. Við handtöku hafi kærði meðal annars verið með fartölvu meðferðis merkta E. Hafi tölvan verið afhent henni í framhaldinu.
Mál 007-2016-54721
Þjófnað, með því að hafa föstudaginn 16. september í Reykjavík stolið seðlaveski, farsíma og bíllyklum I úr starfsmannaaðstöðu verslunarinnar J við [...]. Náðist þjófnaðurinn á myndabandsupptöku í versluninni. Þekktu lögreglumenn geranda sem kærða. Kærði var handtekinn síðar um kvöldið (mál lögreglu 007-2016-54751) og fundust á honum bíllyklar og sími sem líklega eru í eigu I. Þá fannst greiðslukort I á samferðarmanni kærða.
Mál 007-2016-54751
Þjófnað, með því að hafa föstudaginn 16. september í Reykjavík stolið svartri ZO-ON úlpu úr starfsmannaaðstöðu verslunarinnar K, við [...], sem innihélt meðal annars greiðslukort í eigu L.
Mál 007-2016-54751
Fjársvik, með því að hafa föstudaginn 16. september í Reykjavík, í kjölfar þess að hafa stolið úlpu sem innihélt greiðslukort í eigu L í heimildarleysi og blekkingarskyni notað umrætt greiðslukort til að greiða fyrir vörur og þjónustu á veitinga- og skemmtistaðnum M, [...], með þeim afleiðingum að 9.000 krónur voru skuldfærðar af greiðslukorti L. L kvaðst hafa tekið eftir því að búið var að nota greiðslukort hennar á M. Hún hafi farið þangað og rætt við starfsfólk. Einn barþjónn mundi eftir geranda og sagði hann hafa talað um að fara á [...]. L hafi þá farið þangað og séð kærða fyrir utan í úlpunni sinni, en hún mundi eftir að hafa séð hann í verslun K fyrr um daginn þar sem hún vinnur. Lögregla hafi komið á vettvang, elt aðilann á [...] þar sem hann var handtekinn og hún hafi í kjölfarið fengið úlpuna sína afhenta.
Mál 007-2016-54751
Fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 16. september í Reykjavík haft í vörslum sínum 0,96 g af maríjúana og 5 stk. af MDMA töflum sem lögregla hafi fundið við leit á kærða í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í kjölfar handtöku hans.
Mál 007-2016-54932
Sunnudaginn 18. september í Reykjavík ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 410 ng/ml af amfetamíni, 360 ng/ml af kókaíni og auk þeirra fannst tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi) og án þess að nota öryggisbelti um Sogaveg uns lögregla stöðvaði aksturinn.
Mál 007-2016-55752
Þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 21. september 2016 í verslun N, [...] stolið sjampói, ís og gosflösku, samtals að verðmæti 1.999 krónur. Hafi lögreglumenn fengið að sjá myndir úr myndabandsupptökukerfi og þekktu geranda sem kærða. Kærði hefur neitað sök í málinu.
Kærði á þó nokkurn sakarferil að baki þrátt fyrir ungan aldur. Hann var dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára 11. mars 2015 fyrir rán. Þann 14. október 2015 var hann dæmdur í níu mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára fyrir hegningar-, umferðar- og fíkniefnalagabrot. Þann 18. mars 2016 var kærði dæmdur í 10 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára fyrir brot á vopna-, áfengis-, fíkniefna- og umferðarlögum. Þann 16. ágúst 2016 var kærði dæmdur í 18 mánaða fangelsi, þar af voru 15 mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára, fyrir brot á almennum hegningarlögum. Hafi 10 mánaða skilorðsdómurinn frá 18. mars 2016 þá verið dæmdur upp.
Með vísan til brotaferils kærða sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Brýnt sé fyrir lögreglu að kærði sæti gæsluvarðhaldi uns málum hans er lokið hjá lögreglu og eftir atvikum fyrir héraðsdómi. Þá sé það mat lögreglustjóra að kærði muni hljóta óskilorðbundna refsingu fái hann dóm fyrir þau mál sem nú séu til rannsóknar og til meðferðar fyrir dómstólum. Fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi framið fjölda hegningarlagabrota og þar með rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum höfðu verið sett með skilorðsbundnum dómi í skilningi c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Sakarefni málanna séu talin varða við 1. mgr. 218. gr., 244. gr., en til vara 1. mgr. 254. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk laga um ávana- og fíkniefni og umferðarlaga, en brot gegn ákvæðunum geta varðað fangelsi allt að sex árum ef sök sannast.
Niðurstaða:
Svo sem að framan er rakið er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið fjölmörg hegningarlagabrot, brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Kærði á að baki allnokkurn sakarferil og nú leikur rökstuddur grunur á því að kærði hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum voru sett með dómi Héraðsdóms Reykjaness 16. ágúst 2016. Með þeim dómi var 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2016 dæmt upp og kærða gert að sæta 18 mánaða fangelsi fyrir ýmis hegningarlagabrot, en frestað var fullnustu 15 mánaða af refsingunni, sem bundið var almennu skilorði 57. gr. almennra hegningarlaga. Fyrir liggur að ákæra var gefin út 30. ágúst 2016 á hendur kærða fyrir líkamsárás, sem framin var 12. maí 2016 og er talin varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Aðalmeðferð í því máli, málinu nr. S- 298/2016, mun fara fram 20. janúar 2017. Líkamsárásin getur ekki falið í sér rof á skilorði sem kærða var sett með dóminum frá 16. ágúst 2016, en gera má ráð fyrir að kærða verði gerður hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga, verði hann sakfelldur.
Í greinargerð lögreglustjóra í máli þessu eru rakin ætluð brot kærða frá 3. september 2016 og til þess er kærði var handtekinn 7. nóvember síðastliðinn grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og án gildra ökuréttinda. Þau brot kærða eru 11 talsins og eru talin varða við 244. gr., en til vara við 1. mgr. 254. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk umferðarlaga og laga um ávana- og fíkniefni. Við brotum þessum liggur fangelsisrefsing sannist sök og verður kærði þá talinn hafa rofið skilorð sem honum var sett með nefndum dómi 16. ágúst 2016. Enn fremur er það mat dómsins að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Eru því uppfyllt skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ber því að fallast á kröfu lögreglustjórans um að kærði sæti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 6. desember 2016 eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Eins og öllum atvikum er háttað þykja hvorki vera efni til þess að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma en krafist er, né að beita öðrum og vægari úrræðum.
Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 6. desember 2016, kl. 16:00.