Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-81
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fjármálafyrirtæki
- Skuldabréf
- Neytendalán
- Vextir
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 21. febrúar 2019 leitar Kristján Vídalín Óskarsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 25. janúar sama ár í málinu nr. 503/2018: Kristján Vídalín Óskarsson gegn Íslandsbanka hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Íslandsbanki hf. leggst gegn beiðninni.
Ágreiningur aðila lýtur að uppgjöri láns á grundvelli skuldabréfs í erlendum gjaldmiðlum sem leyfisbeiðandi gaf út til Glitnis banka hf. á árinu 2006 en komst í eigu gagnaðila 2008. Eftir ósk leyfisbeiðanda mun gagnaðili á árinu 2011 hafa endurútreiknað skuld samkvæmt bréfinu í samræmi við ákvæði X til bráðabirgða við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og leyfisbeiðandi í framhaldi af því gefið út nýtt skuldabréf til gagnaðila til að greiða upp það eldra. Í héraði og fyrir Landsrétti krafðist leyfisbeiðandi þess að viðurkennt yrði að eftirstöðvar skuldar sinnar samkvæmt eldra skuldabréfinu hafi við uppgreiðslu hennar með réttu numið aðallega 6.761.592 krónum og til vara 8.970.348 krónum, en ekki 15.317.295 krónum eins og gagnaðili hafi komist að niðurstöðu um í endurútreikningi sínum. Reisti leyfisbeiðandi aðalkröfuna á því að víkja ætti ákvæðum skuldabréfsins um vexti til hliðar á grundvelli laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga þar sem gagnaðili hafi við endurútreikning lánsins vanrækt skyldu samkvæmt þágildandi lögum nr. 121/1994 um neytendalán til að gera greiðsluáætlun og reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar. Varakrafan var byggð á því að í skuldabréfinu hafi á ólögmætan hátt verið kveðið á um gengistryggingu láns í íslenskum krónum og hafi borið að taka mið af því við endurútreikning lánsins. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu að því er varðar aðalkröfuna en vísaði á hinn bóginn varakröfunni frá héraðsdómi.
Leyfisbeiðandi unir frávísun Landsréttar á varakröfu sinni en leitar áfrýjunarleyfis vegna aðalkröfunnar. Vísar hann til þess að úrslit um hana hafi verulegt almennt gildi á sviði neytendaréttar þar sem ekki hafi reynt á sambærilegt ágreiningsefni fyrir Hæstarétti. Þá varði málið mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína og sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi og efni til.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit um aðalkröfu leyfisbeiðanda hafi verulegt almennt gildi í ljósi dómsúrlausna sem áður hafa gengið né að hún varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.