Hæstiréttur íslands

Mál nr. 308/1999


Lykilorð

  • Bifhjól
  • Skaðabætur
  • Ábyrgð


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. desember 1999.

Nr. 308/1999.

Jón Hólm Stefánsson

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

gegn

Vegagerð ríkisins

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Bifhjól. Skaðabætur. Ábyrgð Vegagerðar ríkisins.

J varð fyrir slysi er hann ók á bifhjóli suður Vesturlandsveg yfir brúna yfir Laxá í Kjós. J, sem var einn til frásagnar um tildrög slyssins, taldi höfuðorsök þess hafa verið lélegt ástand brúargólfsins, en bæði hafi verið gat á því og naglar staðið upp úr.  Talið var, að það hefði staðið J næst að hlutast sem allra fyrst til um viðeigandi athugun á aðstæðum og nauðsynlegar mælingar, en ekki var við uppdrætti að styðjast í málinu, sem sýndu til dæmis staðsetningu og stærð gatsins á gólfinu. Ljósmyndir, sem kunningjar J tóku af brúargólfinu, þóttu ekki gefa óyggjandi upplýsingar um ofangreind atriði. J hefði ekki tilkynnt V um atvikið fyrr en allöngu síðar og væri því ekki um það að ræða að sérstök rannsókn hefði getað farið fram í kjölfar þess af hálfu V. Ágreiningslaust væri, að yfirborð vegar og brúar hefði verið rakt þegar óhappið varð og hefðu aðstæður því kallað á sérstaka varúð. Þegar gögn og atvik málsins voru virt var ekki talið, að J hefði tekist að sanna stórkostlegt gáleysi starfsmanna V eða að hann hefði ekki getað afstýrt slysi þótt hann hefði sýnt eðlilega varkárni, sbr. 2. mgr. 50. gr. vegalaga nr. 45/1994. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna V af kröfum J.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. ágúst 1999 og krefst hann þess aðallega að stefndu verði gert að greiða sér 390.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. nóvember 1997 til greiðsludags auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess, verði héraðsdómur staðfestur, að málskostnaður verði felldur niður.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum áfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að bótakrafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður þá látinn niður falla.

Af hálfu áfrýjanda hefur verið lagt fyrir Hæstarétt nýtt skjal, bréf lögmanns hans til lögreglustjórans í Reykjavík 22. október 1997, þar sem þess var óskað að lögreglan staðreyndi og staðfesti þá lýsingu á gólfi brúarinnar yfir Laxá í Kjós, sem áfrýjandi hafði gefið í lögregluskýrslu 3. október sama ár.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram nýtur einungis við frásagnar áfrýjanda um óhapp það, er hann varð fyrir á brúnni yfir Laxá í Kjós 27. september 1997. Fór ekki fram sérstök vettvangsrannsókn í beinu framhaldi þess og er ekki við uppdrætti eða mælingar að styðjast í málinu, til dæmis um staðsetningu og stærð gats á brúargólfi, er áfrýjandi telur vera höfuðorsök óhappsins. Ekki liggur heldur fyrir með greinilegum hætti hver var stærð hjólbarða bifhjóls áfrýjanda greint sinn, en það gat skipt máli. Stóð það áfrýjanda næst að hlutast sem allra fyrst til um viðeigandi athugun á aðstæðum og nauðsynlegar mælingar. Ljósmyndir þær, sem kunningjar hans tóku af brúargólfinu, gefa ekki óyggjandi upplýsingar um ofangreind atriði. Voru þær auk þess teknar rúmum sólarhring eftir atburðinn, en líta ber til þess að mikil umferð var um brúna. Áfrýjandi tilkynnti stefndu ekki um atvik þetta fyrr en alllöngu síðar og er því ekki um það að ræða að sérstök rannsókn hefði getað farið fram í kjölfar þess af hennar hálfu. Ekkert hefur fram komið, sem gefur tilefni til að vefengja frásagnir starfsmanna stefndu um eftirlit með brúnni og ósannað er að stefndu hafi borist tilkynningar, áður en óhappið varð, um skemmdir á henni.

Eins og fram kemur í héraðsdómi eru aðstæður á og við umrædda brú aðgæsluverðar. Áfrýjandi kom að brúnni að norðan, en kröpp beygja er þar á veginum skömmu áður en ekið er inn á hana. Einnig er þarna varað við sleipu yfirborði með sérstöku varúðarskilti. Í skýrslu, sem áfrýjandi gaf hjá lögreglu 3. október 1997, kvaðst hann hafa hægt verulega á ferð sinni er hann kom að brúnni, en taldi að hann hefði verið á milli 50 og 60 km hraða er hann ók yfir hana. Ágreiningslaust er að yfirborð vegar og brúar var rakt þegar óhappið varð en rignt hafði fyrr um daginn. Er því ljóst að aðstæður kölluðu á sérstaka varúð.

Samkvæmt 2. mgr. 50. gr. vegalaga nr. 45/1994 er stefnda ekki ábyrg fyrir tjóni, sem hljótast kann af slysum á þjóðvegum nema um sé að ræða stórkostlegt gáleysi starfsmanna hennar og sannað sé að slysi hefði ekki orðið afstýrt þótt ökumaður hefði sýnt eðlilega varkárni. Þegar gögn og atvik málsins eru virt verður ekki talið að áfrýjanda hafi tekist að sanna að skilyrði þessa ákvæðis séu uppfyllt. Er því fallist á niðurstöðu héraðsdóms um sýknu stefndu af kröfum hans og verður dómurinn staðfestur.

Eftir atvikum þykir mega fella niður málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. mars sl., er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 30. september 1998 af Jóni Hólm Stefánssyni, Rjúpufelli 23, Reykjavík gegn Vegagerð ríkisins, Borgartúni 5-7, Reykjavík.

 

Dómkröfur

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 390.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá l. nóvember 1997 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður að mati réttarins, og til vara að skaðabótakrafa stefnanda verði lækkuð verulega og málskostnaður látinn niður falla.

 

Málavextir

Málsatvik eru þau að hinn 27. september 1997 lenti stefnandi í slysi er hann var á leið á bifhjóli um Vesturlandsveg til Reykjavíkur.  Slysið átti sér stað er hann ók yfir brúna á Laxá í Kjós. Kveðst stefnandi hafa ekið bifhjólinu á hægri ferð inn á brúna en skyndilega kveður hann bifhjólið eins og hafa kippst undan sér og hann hafi þegar í stað fallið af hjólinu.  Hjólið hafi kastast til og runnið eftir brúargólfinu.  Hafi bifhjólið skemmst stórlega og nærri ónýst við byltuna.  Stefnandi kveðst ekki hafa slasast og kveður það aðeins því að þakka að hann hafi verið á rólegri ferð í umrætt sinn.  Þó hafi leðurklæðnaður sem hann íklæddist eyðilagst og rifnað af brúargólfinu.

Stefnandi kveðst hafa kannað af hvaða ástæðum slysið varð og séð strax að gat var á brúargólfinu sem hjólið hafði farið um.  Þá hafi allt gólfið verið í afar lélegu ástandi en slit hafi verið á brúargólfsendum og naglar víða staðið upp úr gólfi. Hafði það valdið eyð­ileggingu á fatnaði.

Stefnandi fór á vettvang eftir að hafa látið fjarlægja bifhjólið og kunningjar hans tóku ljósmyndir af brúargólfi daginn eftir.

Stefnandi kveðst við slysið hafa orðið fyrir tjóni.  Bifhjólið hafi skemmst en það hafi verið húftryggt að hluta hjá Tryggingamiðstöðinni hf. sem keypt hafi bifhjólið í því ástandi sem það var í.  Hann kveðst einnig hafa orðið fyrir fatatjóni o.fl.  Nemi tjón hans 390.000 krónum og er ekki ágreiningur um þá fjárhæð í málinu.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi hafi valdið sér tjóni með því að vanrækja eðlilegt viðhald á brúargólfi Laxár í Kjós, en hinn 27. september 1997 hafi gólfið verið orðið hættulegt og vávænt umferð bifhjóla og hjólreiðamanna.  Stefnandi telur ljóst að ástand brúargólfsins hafi verið mjög slæmt en bæði hafi verið gat á brúargólfi og naglar víða komið upp úr timburgólfinu.  Slíkt eigi sér ekki skyndilega stað heldur sé um að ræða slit og vanhöld á viðhaldi sem verði til á allnokkrum tíma. Stefnandi telur að umrædd brú þurfi sérstaka aðgæslu og eftirlit Vegagerðarinnar einkum vegna þess að brúin sé orðin gömul, brúargólfið sé úr timbri og aðeins sé ein akrein um brúna.  Þá sé þekkt að brúin er á "þjóðvegi númer 1" og umferð sé með því mesta sem gerist hérlendis.  Af þeim ástæðum sé eftirlitsskylda og viðhaldsþörf sérlega brýn.

Stefnandi telur að tjón hans sé bótaskylt en starfsmenn Vegagerðarinnar hafi sýnt af sér slíkt gáleysi að bótaskyldu varði.  Gera megi þá lágmarkskröfu að vegfarendum stafi ekki beinlínis hætta af sjálfri brúnni með því einu að fara um brúna.  Vegfarendur um brúna séu bæði vélknúin ökutæki, bílar og bifhjól, hjólreiðamenn svo og gangandi vegfarendur, en umrædd brú sé eini mögulegi kosturinn til að fara yfir Laxá í Kjós eftir "þjóðvegi númer 1 ".

Stefnandi bendir á að ákvæði 2. mgr. 50. gr. l. nr. 45/1994 leysi Vegagerðina ekki undan bótaskyldu og verði ekki skýrð svo að Vegagerðin beri ekki, á grundvelli þeirrar greinar, ábyrgð á tjóni sem hlýst af slysum á þjóðvegum.  Hugtakið stórkostlegt gáleysi verði teljast eiga við ef vegfarendum stafar tjón af þjóðvegi sem sé illa viðhaldið svo sem hér eigi við.  Lúti túlkun ákvæðisins mati dómara með hliðsjón af öllum aðstæðum hverju sinni en verði ekki skýrt eftir orðanna hljóðan á þá leið að tjónþoli verði beinlínis að sanna "stórkostlegt gáleysi" starfsmanna stefnda.

Það að annar starfsmaður Vegagerðar ríkisins hafi sagst fara um brúna hinn 25. september 1997 og ekkert séð athugavert við yfirborðið upplýsi einungis að eftirlitinu hafi verið stórlega ábótavant en ljóst sé, að brúin verði eigi götótt og alsett nöglum vegna slits á tveimur dögum, en umrætt slys hafi orðið hinn 27. september 1997.

Stefnandi reisir kröfur sínar á almennum reglum skaðabótaréttarins og bendir á að Vegagerð ríkisins beri húsbóndaábyrgð á starfsmönnum sínum og jafnframt að Vegagerð ríkisins hafi lagalega skyldu til viðhalds og gerðar á vegum og einkaleyfi til slíks hérlendis.   Þá vísar stefndi til varúðarreglna umferðarlaga, en upplýst sé að stefnandi hafi gætt varúðar í umrætt sinn og verði slysið eigi rakið til þess að ökumaður hafi eigi sýnt eðlilega varkárni.   Ef svo hefði ekki verið, sé ljóst að stefnandi hefði sjálfur beðið líkamstjón í umrætt sinn.

Þá vísar stefnandi til l. nr. 91/1991, 130. gr. 1. mgr., sbr. 129. gr., varðandi málskostnað og l. nr. 50/1988 varðandi virðisaukaskatt, en stefnandi sé eigi virðisaukaskattskyldur.  Stefnandi vísar til l. nr. 25/1987 einkum III. kafla varðandi vexti.

Varðandi aðild vísar stefnandi til 16. gr. l. nr 9l/1991 en Vegagerð ríkisins er sjálfstæð stofnun að lögum skv. l. nr. 45/1994.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi byggir á því að ekki sé til að dreifa neinum gögnum um málsatvik, aðeins frásögn stefnanda sjálfs.  Lögregla hafi ekki verið kvödd á vettvang þannig að engin vettvangsrannsókn liggi fyrir sem varpað geti ljósi á tildrög meints óhapps og mögulegar orsakir.  Ekki komi fram hvar á brúnni stefnandi féll né afstaða meints gats á brúargólfinu á brúnni.

Stefnandi heldur því fram að brúargólfið á brúnni yfir Laxá í Kjós, þar sem hann kveðst hafa fallið af bifhjóli sínu, hafi verið í slæmu ástandi.  Að mati stefnda verði ekki ráðið af frásögn stefnanda eða gögnum málsins að orsakatengsl séu á milli ástands brúarinnar og meints óhapps.  Að öllu virtu virðist líklegri orsök að hjólið hafi runnið til á hálu brúargólfinu, en fram komi af hálfu stefnanda að bleyta hafi verið á yfirborði vegarins.  Miðað við frásögn stefnanda sé líklegra að meginorsök óhappsins hafi verið sú að hann hafi ekki hagað akstri í samræmi við aðstæður, a.m.k. hafi hann ekki ekið þannig að hann hefði fulla stjórn á bifhjólinu, og því ekki sýnt eðlilega varkárni.

Þegar ekið sé inn á Laxárbrú úr norðri í áttina að Reykjavík verði fyrir kröpp beygja áður en ekið er inn á brúna.  Varað sé við beygjunni og hálku á brúargólfinu, með viðvörunarmerkjunum A01.11, "Hættuleg beygja til hægri", og A27.11, "Sleipur vegur". Þessar aðstæður krefjist gætilegs aksturs, t.d. verði að telja mjög óvarlegt að aka þungu bifhjóli á 50 - 60 km hraða á klst. við þessar aðstæður, eins og stefnandi kveðst hafa gert.   Hugsanlegt sé að stefnandi hafi ekki náð að rétta hjólið nægilega vel af í tæka tíð áður en hann keyrði inn á brúna með áðurnefndum afleiðingum.  Sennileg meðverkandi orsök meints óhapps sé að stefnandi hafi ekki verið nægilega vanur akstri bifhjólsins, en aðeins hafi liðið um fjórir mánuðir frá því að hjólið var skráð og þar til stefnandi kveðst hafa lent í óhappinu.  Auk þess kunni að vera að ástand vélhjólsins hafi verið meðverkandi þáttur, t.d. slitnir hjólbarðar.

 Af hálfu stefnda er á því byggt, að ekki liggi fyrir í gögnum málsins neinar vísbendingar um að umrædd brú á Laxá í Kjós hafi verið hættuleg umferð þegar stefnandi átti þar leið um.   Stefnda hafi ekki borist tilkynning um að brúin væri hættuleg, en þess megi geta að mikil umferð ökutækja hafi verið um brúna.  Starfsmenn stefnda hafi haldið uppi tíðu og reglulegu eftirliti með ástandi brúargólfsins, þ.á.m. hafi starfsmaður stefnda, Hilmar Eggertsson flokksstjóri, farið vikulega um brúna og aðgætt ástand hennar og hafi framkvæmt viðgerðir ef þörf krafði.  Verkstjórar stefnda í viðkomandi umdæmi hafi einnig farið þar reglulega um til eftirlits auk þess sem starfsmaður stefnda, Haukar Karlsson brúarsmiður, hafi átt tíðar ferðir um brúna á þessum tíma vegna starfs síns og hafi lagfært brúargólfið ef þörf krafði.  Nauðsynlegt viðhald hafi því verið framkvæmt eftir því sem þörf krafði en stærri viðhaldsaðgerðir á brúargólfinu hafi farið fram í júlí árið 1995 og í apríl árið 1997.  Því sé alfarið hafnað að starfsmenn stefnda hafi vanrækt eftirlit með brúnni og nauðsynlegt viðhald brúargólfsins, hvað þá að þeir hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.

Af hálfu stefnda er byggt á ákvæðum 50. gr. vegalaga nr. 45/1994 og almennum reglum skaðabótaréttar.  Í 1. mgr. 50. greinar vegalaga segi að Vegagerðinni sé skylt að láta gera við eða merkja skemmdir á þjóðvegum sem hættulegar séu umferð.  Í 2. mgr. greinarinnar sé kveðið á um skilyrði þess að Vegagerðin verði gerð skaðabótaábyrg vegna slysa á þjóðvegum.  Sanna verði að slys megi rekja til stórkostlegs gáleysis starfsmanna Vega­gerðarinnar og að slysi hefði ekki verið afstýrt þótt ökumaður hefði sýnt eðlilega varkárni.   Stefnandi verði að sýna fram á að öll skilyrði skaðabótaábyrgðar séu fyrir hendi, svo sem orsaka­tengsl og vávæni.  Auk þess beri stefnanda að sanna tjón sitt.

 

Niðurstaða

Eins og fram er komið er stefnandi einn til frásagnar um tildrög slyssins.  Engir sjónarvottar voru að slysinu og lögregla var ekki kölluð til þannig að engin vettvangsrannsókn liggur fyrir eða rannsókn á tildrögum og orsökum slyssins.

 Upplýst er að brúin yfir Laxá í Kjós er gömul og slitin og yfirborð hennar ójafnt.  Samkvæmt framburði Guðmundar Vignis Þórðarsonar, verkstjóra hjá stefnda, er haft vikulegt eftirlit með brúnni og lagfært það sem viðgerðar þarfnast.  Hilmar Eggertsson, flokksstjóri hjá stefnda bar að hann hefði farið yfir brúna 25. september 1997, eða tveimur dögum áður en stefnandi fór þar um, og hefði þá ekki verið gat á gólfi brúarinnar.  Ósannað er að nokkrar tilkynningar hafi borist stefnda um að skemmdir væru á brúnni.

Stefnandi heldur því fram að gat hafi verið í brúargólfinu, nær þar sem farið er inn á brúnna þegar ekið er til suðurs.  Hafi bifhjólið lent í gatinu og við það hafi hann misst stjórn á því.  Í skýrslu er stefnandi gaf hjá lögreglunni í Reykjavíkur segir hann að bleyta hafi verið á veginum er hann fór þarna um en rignt hafi fyrr um daginn.

Ekki þykir sannað í máli þessu að umrætt gat hafi verið í brúargólfinu er stefnandi fór þar um en með hliðsjón af framburði Finnboga Karssonar, starfsmanns hjá Króki, dráttarbílum, er sótti bílinn í Kjós, þykir  það sennilegt.  Hins vegar þykir stefnandi ekki hafa fært sönnur á það að umrætt gat hafi verið orsök þess að slysið varð.  Eins og áður greinir hafði rignt og yfirborð brúarinnar var blautt.  Er því ekki unnt að útiloka að bifhjólið hafi runnið til á blautu brúargólfinu og stefnandi misst stjórn á því af þeim sökum.  Þá er ekkert upplýst um ökuhraða stefnanda eða hvort hann hafi sýnt næga aðgæslu miðað við aðstæður er hann ók úr krappri beygju inn á brúnna, en eins og áður er fram komið voru engir sjónarvottar að slysinu og engin vettvangsrannsókn liggur fyrir eða rannsókn á orsökum slyssins.

Þegar framanritað er virt þykir stefnanda ekki hafa tekist að sýna fram á að slys það sem hann lenti í verði rakið til ástands brúarinnar og ber því, þegar af þeim sökum, að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af máli þessu.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

 

Stefndi, Vegagerð ríkisins, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Jóns Hólms Stefánssonar.

Málskostnaður fellur niður.