Hæstiréttur íslands
Mál nr. 312/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 30. ágúst 2005. |
|
Nr. 312/2005. |
Sveinbjörg Kristmundsdóttir(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Helga Ívarssyni (Kristín Edwald hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur.
S lenti í umferðarslysi í júní 2003 og slasaðist. Í málinu var ekki deilt um bótaskyldu SA og H, en ágreiningur aðila laut að útreikningi bóta og hvort greiðslur frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum ættu að koma þar til frádráttar. S neitaði að upplýsa um rétt sinn til bóta frá almannatryggingum eða lífeyrissjóðum og hafði ekki heimilað stefndu að afla þeirra upplýsinga fyrir sína hönd. Á þeim tíma er S lenti í slysinu hafði skaðabótalögum nr. 50/1993 verið breytt með lögum nr. 37/1999, þar sem m.a. var gert ráð fyrir að til frádráttar bótum kæmu greiðslur af félagslegum toga, sem kæmu í hlut tjónþola vegna örorkunnar. S byggði bætur sínar á skaðabótalögum og gerði í málinu kröfu á hendur stefndu til greiðslu tiltekinnar fjárhæðar. Bar henni því að upplýsa um öll þau atriði sem gátu haft áhrif á útreikning bótanna. Með því að leggja ekki fram umbeðin gögn var krafa S það óljós og málatilbúnaður hennar svo óskýr að samræmdist ekki meginreglu laga um meðferð einkamála um skýran og glöggan málatilbúnað. Var málinu vísað frá dómi ex officio.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júlí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2005, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sveinbjörg Kristmundsdóttir, greiði varnaraðilum, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Helga Ívarssyni, samtals 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2005.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 26. maí sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Sveinbjörgu Kristmundsdóttur, á hendur Sjóvá- Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, og Helga Ívarssyni, Hólum, 801 Selfossi, og einnig til réttargæslu Tryggingastofnun ríkisins, Laugavegi 116, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda voru þær, að stefndu yrðu in solidum dæmd til þess að greiða stefnanda 23.044.830 krónur, ásamt 4,5% vöxtum frá 1. júní 2003 til 13. október 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar, að skaðlausu, úr hendi stefndu.
Dómkröfur stefndu voru þær aðallega, að þau yrðu sýknuð af kröfum stefnanda, en til vara að,
Réttargæslustefndi gerði engar kröfur í málinu, enda engar kröfur gerðar á hendur honum.
II
Málavextir eru þeir, að stefnandi slasaðist í umferðarslysi hinn 1. júní 2003, en stefndi, Helgi Ívarsson, ók á miklum hraða á bifreið sem stefnandi var farþegi í. Varð stefnandi fyrir varanlegum áverka af völdum slyssins.
Að kröfu stefnanda voru dómkvaddir matsmenn, til að meta örorku stefnanda. Í matsgerð þeirra Grétars Guðmundssonar taugalæknis og Páls Sigurðssonar lagaprófessors, sem dagsett er hinn 10. október 2004, er komist að þeirri niðurstöðu að tímabundið atvinnutjón stefnanda, samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga, sé 10 mánuðir, Stöðugleikapunktur var ákveðinn 1. maí 2004. Þjáningabætur, á grundvelli 3. gr. skaðabótalaga, miðuðust við tímabilið 1. júní 2003 til 1. maí 2004, án rúmlegu. Varanlegur miski stefnanda, á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga, var metinn 30% og varanleg örorka, á grundvelli 5. gr. skaðabótalaga, 50%.
Hinn 13. október 2004 krafði stefnandi hið stefnda tryggingafélag um bætur á grundvelli matgerðarinnar, að fjárhæð 14.171.511 krónur. Með bréfi, dagsettu 8. nóvember 2004, tilkynnti hið stefnda félag stefnanda, að það myndi, á grundvelli þeirra upplýsinga sem lægju fyrir, einungis greiða stefnanda 3.477.982 krónur.
Með bréfi, dagsettu 9. nóvember 2004, mótmælti stefnandi fjárhæð greiðslunnar, en móttók hana með fyrirvara.
III
Stefnandi byggir kröfur sína á 88. gr. umferðarlaga, sbr. 90. gr. sömu laga, sbr. og 91. gr. og 97. gr. umferðarlaga. Byggir stefnandi á því, að bifreiðin JN 134, sem ekið hafi á stefnanda hafi verið tryggð hjá hinu stefnda félagi. Vegna stórkostlegs gáleysis ökumanns þeirrar bifreiðar hafi stefnandi orðið fyrir tjóni sem stefndu beri ábyrgð á.
Á grundvelli framlagðrar matsgerðar og samkvæmt 1.-7. gr. skaðabótalaga eigi stefnandi rétt á eftirgreindum bótum vegna þeirra áverka sem hún hlaut í slysinu hinn 1. júní 2003:
1. Miskabætur 5.645.500 x 30% kr. 1.693.650
2. Bætur fyrir varanlega örorku, utan heimilis:
1.693.000 x 10,083 x 50% kr. 8.535.260
3. Bætur fyrir varanlega örorku v. heimilisstarfa
1.693.000 x 10,083 x 50% kr. 8.535.260
4. Þjáningabætur án rúmlegu 990 x 334 kr. 330.660
5. Annað fjártjón kr. 50.000
6. Tímabundið örorkutjón í 10 mánuði kr. 1.400.000
7. Bætur fyrir breytingu á stöðu og högum kr. 500.000
8. Bætur samkvæmt 26. grein skaðabótalaga kr. 2.000.000
Samtals skaðabætur: 23.044.830
Fjárhæð bótanna rökstyður stefnandi með eftirgreindum hætti í stefnu:
1. Bætur fyrir miska séu grundvallaðar á matsgerðinni og 4. grein skaðabótalaga.
2. Bætur fyrir varanlega örorku séu miðaðar við lágmarkslaun og niðurstöður matsgerðar.
3. Bætur fyrir skerðingu á getu til að vinna heimilisstörf séu byggðar á 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Vísar stefnandi til þess að vinnu við heimili beri að meta á jafnréttisgrundvelli og að enda þótt stefnandi hefði áfram unnið úti, ef hún hefði ekki orðið fyrir slysinu, hefði vinna hennar við heimilisstörf einnig verið veruleg, þar sem hún hafi börn á framfæri. Byggi stefnandi á því, að hún sé einstæð móðir, sem bæði hefði þurft að vinna utan heimilis sem og heimilisstörf. Hún hafi ekki getað deilt þeirri vinnu með manni sínum. Byggir stefnandi á að miðað við stærð heimilis hennar, þ.e. barnafjölda og það að hún sé einstæð, beri henni samsvarandi laun fyrir heimilisstörf og utan heimilis og geti miðað við lágmarkslaun í þessu tilfelli.
4. Þjáningabætur séu byggðar á 3. gr. skaðabótalaga.
5. Annað fjártjón byggi stefnandi á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi margsinnis, vegna þessa máls, orðið að fara til lækna og kaupa lyf til að vinna bug á þeim sársauka sem hrjái hana eftir slysið og til að auka vinnugetu sína eftir slysið. Það gefi því auga leið að stefnandi hafi haft mikinn kostnað vegna slyssins, sem verði að meta að álitum.
6. Bætur vegna tímabundinnar örorku séu byggðar á 2. gr. skaðabótalaga og niðurstöðu dómkvaddra matsmanna og lágmarkslaunaviðmiðum skaðabótalaga.
7. Bætur fyrir breytingu á stöðu og högum byggir stefnandi á 1. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1993 og vísar til þeirra sjónarmiða sem fram komi í hæstaréttardómi í málinu nr. 188/2004.
8. Stefnandi byggir þennan kröfulið sinn á því, að stefndi, Helgi Ívarsson, hafi ekið á a.m.k. 80 km hraða á klukkustund aftan á bifreið þá sem stefnandi hafi verið í, þar sem hún hafi verið stöðvuð á Suðurlandsvegi á móts við vegamótin að Hafravatni. Byggir stefnandi á því, að stefndi, Helgi, hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, þ.e. brotið gróflega gegn varúðarreglu umferðarlaga, s.s. 3. mgr. 14. gr. og 25. gr. þeirra laga. Stefnandi eigi því kröfu á hendur þeim stefnda á grundvelli meðal annars 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga, en a.ö.l. byggir stefnandi þennan kröfulið sinn á 26. gr. skaðabótalaga.
Stefnandi byggir kröfu sína á því, að hið stefnda félag hafi ekki haft nokkurn rétt til að draga frá ofangreindum bótum áætlaðar framtíðarbætur stefnanda frá Tryggingastofnun ríkisins, eins og hið stefnda félag hafi gert. Byggir stefnandi í fyrsta lagi á því, að það sé grundvallarregla í skaðabótarétti, að tjónvaldur eða sá sem sóttur er til að greiða bætur, verði að sanna hlutrænar ábyrgðarleysisástæður, s.s. samþykki eða neyðarvörn og enn fremur ósakhæfi, og eigin sök og aðrar aðstæður sem kunni að leysa varnaraðila undan bótaskyldu að einhverju eða öllu leyti. Stefnandi byggir á því að engin slík sönnun hafi verið fram færð því til grundvallar að lækka beri umkrafðar bætur, samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga og leysa eigi hið stefnda félag þannig undan bótaskyldu. Ekki liggi fyrir mat Tryggingastofnunar ríkisins, um að stefnandi hafi verið metin 75% öryrki vegna slyssins og hvernig það mat hafi farið fram eða að hún eigi von á bótum frá Tryggingastofnun ríkisins í framtíðinni eða úr lífeyrissjóði.
Einnig byggir stefnandi á því, að 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og hún hafi verið túlkuð af stefnda, brjóti í bága við meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar, þar sem gild rök þurfi að ligga til þess að svo afdrifaríkar breytingar á bótarétti tjónþola verði við afgreiðslu stefnda á bótakröfu stefnanda. Einnig að sú mismunun, sem leitt hafi af 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og þetta ákvæði sé túlkað af stefnda, gangi mun lengra en löggjafarvaldið hafi nokkurn tíma haft í huga, þar sem bótaskylda félags sé nánast ekki fyrir hendi miðað við tjón stefnanda.
Stefnandi bendir og á, að þó svo hún eigi e.t.v. rétt á bótum frá Tryggingastofnun ríkisins, þá hafi hún ekki sótt eftir bótum þaðan. Þá séu bætur úr almannatryggingakerfinu, almennar bætur, sem allir eigi rétt á, búi þeir við ákveðna skerðingu á lífsgæðum og heilsu, sem falli undir ákvæði laga nr. 117/1993. Byggir stefnandi á því, að hún eigi ekki rétt á slysabótum samkvæmt III. kafla laganna heldur geti hún í mesta lagi átt rétt á örorkubótum samkvæmt 12. gr. laganna, og yrði þá ekki hægt, samkvæmt þeim staðli sem metið er eftir, að meta sérstaklega örorku stefnanda vegna slyssins, heldur heilsufar stefnanda almennt.
Stefnandi byggir einnig á að mat samkvæmt 12. gr. almannatryggingalaga sé mat á almennri skerðingu á svokallaðri lífsfærni og að við slíkt mat komi ekki endilega til skoðunar þeir áverkar sem stefnandi hafi orðið fyrir í slysinu þann 1. júní 2003, heldur einnig aðrir þættir almennrar heilsu stefnanda. Þannig yrði 75% örorka samkvæmt almannatryggingalögum aldrei eingöngu vegna slyssins hinn 1. júní 2003. Aðeins af þeirri ástæðu geti væntanlegar bætur úr almannatryggingakerfinu aldrei verið hæfar til að lækka umkrafðar bætur stefnanda samkvæmt skaðabótalögum, þar sem þær yrðu aldrei með fullri vissu vegna þeirra áverka sem stefnandi fékk í ofangreindu slysi, en hið stefnda félag hafi sönnunarbyrðina fyrir því.
Stefnandi byggir og á því, verði hún talin eiga rétt til örorkulífeyris samkvæmt 12. gr. almannatryggingalaga, vegna þeirra áverka sem hún fékk við umrætt slys, að hún verði, samkvæmt staðli reglugerðar nr. 379/1999, metin til ákveðinnar örorku, sem einungis gildi til ákveðins tíma, oftast til eins og hálfs árs, samkvæmt venju og samanber ákvæði 2. mgr. 48. gr. laga nr. 117/1993. Að þeim tíma liðnum sé metið á nýjan leik og bætur ákvarðaðar samkvæmt því. Þannig séu bætur samkvæmt almannatryggingakerfinu aðeins tímabundnar og séu háðar því á hverjum tíma, hvað bótaþegi eða maki hafi háar tekjur vegna vinnu sinnar, eins og fram komi með margvíslegum hætti í almannatryggingalögunum, svo sem 17. gr. þeirra. Bætur úr almannatryggingakerfinu sé því ekki hægt að bera saman við bætur ákvarðaðar samkvæmt skaðabótalögunum, þar sem miðað sé við eingreiðslu, og ástand tjónþola þegar metið sé. Áætlaðar bætur stefnanda frá Tryggingastofnun séu samkvæmt eðli máls og meginreglum laga ekki hæfar til að mæta bótum stefnanda, samkvæmt skaðabótalögum til lækkunar á skaðabótakröfu stefnanda, fyrir utan það að engin sönnun liggi fyrir um þessar bætur til stefnanda frá Tryggingastofnun. Bætur samkvæmt skaðabótalögum séu eingreiðslubætur, sem ákveða beri þegar tjónþoli krefst þess og svokölluðum stöðugleikapunkti sé náð. Þessu sé þveröfugt farið með bætur úr almannatryggingakerfinu. Skýrt sé tekið fram í greinargerð með lögum nr. 50/1993, að bótauppgjör vegna líkamstjóna eigi að ganga hratt fyrir sig og greiða eigi bætur í eitt skipti fyrir öll. Samkvæmt því sé útilokað að skerða bætur stefnanda, sem hún eigi rétt á samkvæmt þeim áverkum sem hún fékk í slysinu hinn 1. júní 2003, með þeim hætti sem hið stefnda félag geri. Stefnandi sé metin 50% varanlegur öryrki samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga, en af því leiði að hún sé talin hafa 50% varanlega vinnugetu. Því sé alls ekki loku fyrir það skotið að hún geti í framtíðinni unnið sér inn það miklar tekjur, að bætur hennar úr almannatryggingakerfinu myndu skerðast eða falla niður að verulegu leyti.
Stefnandi byggir og á því, að í 4. mgr. 5. greinar sé kveðið á um greiddar bætur og verðmæti greiddra bóta. Samkvæmt orðanna hljóðanna megi því ekki miða við væntanlegar ógreiddar bætur. Einungis verði byggt á ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með þeirri breytingu sem gerð hafi verið með lögum nr. 37/1999.
Stefnandi telur og að ólíðandi sé, að tryggingafélögum sé gert mögulegt að byggja á svo óskýrri lagaheimild eða staðli, sem falin sé í 6. gr. laga nr. 50/1993, með síðari breytingum. Engin sönnun liggi fyrir um að sá stuðull eða tafla, sem felist í 6. gr. skaðabótalaga taki mið af að stór hluti bóta stefnanda eigi að greiða úr almannatryggingakerfinu. Stefnandi bendir á að ef bætur yrðu reiknaðar út samkvæmt skaðabótalögunum eins og þeim var breytt með lögum nr. 42/1996, fengi stefnandi ekki verulega lægri bætur, en hún geri nú kröfu til auk þess sem hún hefði þá átt rétt á fullum bótum úr almannatryggingakerfinu, án þess að þær bætur kæmu til frádráttar bótum frá stefndu.
Stefnandi byggir og á að samkvæmt lögum nr. 117/1993 sé hvergi gert ráð fyrir að almannatryggingar bæti tjón af völdum bifreiða. Stefndi geri hins vegar ráð fyrir að yfir 75% þeirra bóta, sem stefnandi eigi rétt á komi frá almannatryggingum.
Stefnandi byggir og á því, að samkvæmt umferðarlögum sé tryggingafélögum falið að greiða bætur vegna tjóns sem hlýst af notkun skráningarskylds ökutækis. Hinu stefnda félagi sé því ekki stætt að neita að greiða bætur, með þeim hætti sem hið stefnda félag hafi gert.
Stefnandi byggir á því að 1. málsliður 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 4. gr. laga nr. 37/1999, verði að víkja fyrir dómkröfu stefnanda og neitun hins stefnda félags á að greiða réttmætar bætur til stefnanda sé ólögmæt eignaskerðing og brjóti gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar, m.a vegna þess að óvissa sé um hugsanlegar bætur til handa stefnanda úr almannatryggingakerfinu, og einnig vegna þess að ekki sé um almenna eignaskerðingu að ræða og skerðingin sé ekki í þágu almannahagsmuna, þar sem greiðslubyrði hins stefnda félags sé velt yfir á ríkiskassann. Þá sé lagagreinin komin til vegna mistaka og án gildra raka og verndi ekki rétta hagsmuni.
Einnig byggir stefnandi á því að 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga brjóti í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, m.a. af þeim sökum að þeir sem slasist minna en stefnandi gerði í umræddu umferðarslysi, standi betur að vígi og fái mun hærri bætur.
Stefnandi kveðst og byggja á því, að íslenskir ríkisborgarar, sem slasist í umferðarslysum hér á landi njóti ekki sama bótaréttar og erlendir ríkisborgarar, samkvæmt túlkun hins stefnda félags á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Stefndi byggir og á að Ísland hafi undirgengist fjölmarga alþjóðasamninga, þar sem mannréttindi, eins og mál þetta fjalli um, séu tryggð með ýmsum hætti. Bætur vegna umferðarslysa séu mun lægri hér en í öðrum aðildarríkjum á evrópska efnahagssvæðinu, sem sé í andstöðu við samning Íslands um Evrópska efnahagssvæðið. Því beri að líta á dómkröfu stefnanda með sérstakri sanngirni og ríkri réttlætiskennd í samræmi við grundvallarviðhorf í skaðabótarétti.
Þá telur stefnandi að Hæstaréttardómar þeir sem stefndi vísi til séu ekki fordæmisgefandi í máli þessu þar sem í þeim sé verið að fjalla um vinnuslys en ekki umferðarslys, og vinnuslys tengist frekar bótakerfi almannatrygginga.
Stefnandi kveðst og byggja dómkröfur sínar á því, að hið stefnda félag hafi í árslok árið 2003 fært í bótasjóð sinn 40.000.000 krónur vegna slyss stefnanda hinn 1. júní 2003 og bótafjárhæðin hafi ekki enn verið færð aftur til félagsins, þrátt fyrir að hið stefnda félag beini stefnanda til Tryggingastofnunar ríkisins með 75% þeirrar bótakröfu sem stefnandi eigi rétt á frá hinu stefnda félagi, samkvæmt umferðarlögum. Félaginu beri því að greiða stefnanda bætur í samræmi við þann hluta af álögðum iðgjöldum félagsins vegna ábyrgðartrygginga bifreiða árið 2003, sem félagið færði í bótasjóð sinn vegna slyssins með þessum hætti. Að öðrum kosti hafi hið stefnda félag hagnast á ólögmætan hátt á umferðaróhappi sem stefnandi lenti í. Félaginu beri því að upplýsa stefnanda um þá fjárhæð sem félagið hafi fært í bótasjóð sinn vegna slyssins, áður en það hafni umkröfðum bótum. Einnig beri félaginu að upplýsa á hvaða grunni félagið ákvarðaði iðgjöld, sem í gildi voru fyrir ábyrgðartryggingar bifreiða árið 2003 hjá félaginu.
Byggir stefnandi á, að þegar horft sé til ofnagreindra staðhæfinga og þess að tryggingafélög á Íslandi starfi ekki fyrir opnum tjöldum varðandi iðgjaldaákvarðanir og færslur í bótasjóði félagsins verði að skýra þær málsástæður sem stefnandi byggi á með rýmkandi lögskýringu og málsástæður stefnda beri að skýra þröngt.
Um lagarök vísar stefnandi til skaðabótalaga 72. gr. stjórnarskrár og alþjóðasáttmála sem Ísland hafi undirgengist sem og mannréttindasáttmála og samningsins um evrópska efnahagssvæðið.
IV
Stefndu byggja sýknukröfu sína á því, að með greiðslu stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf. til stefnanda hafi stefnandi fengið allt það tjón bætt sem hún eigi rétt til á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra reglna skaðabótaréttarins vegna umferðarslyssins sem hún meiddist í hinn 1. júní 2003, a.m.k. að teknu tilliti til fyrirliggjandi upplýsinga á uppgjörsdegi. Verði ekki á það fallist að sýkna beri vegna ofangreinds, krefjast stefndu sýknu að svo stöddu, enda sé stefnda ómögulegt að greiða fullnaðarbætur fyrr en stefnandi hafi lagt fram upplýsingar um greiðslur og réttindi sem draga beri frá skaðabótagreiðslu samkvæmt skaðabótalögum.
Stefndu hafa og mótmælt einstökum kröfuliðum stefnanda með eftirgreindum hætti:
Bætur fyrir varanlegan miska, sbr. 4. gr. skaðabótalaga. Stefndu kveða stefnanda hafa verið greiddar bætur fyrir varanlegan miska í samræmi við kröfugerð hennar í málinu.
Bætur fyrir varanlega örorku, sbr. 5.-7. gr. skaðabótalaga. Stefndu mótmæla því að bætur fyrir varanlega örorku stefnanda verði reiknaðar með þeim hætti sem stefnandi geri, annars vegar fyrir vinnu utan heimilis og hins vegar vegna vinnu á heimili. Engin lagastoð sé fyrir þess háttar reikningi, enda hafi stefnandi nýtt 80-100% vinnugetu sinnar í störf fyrir Félagsþjónustuna í Reykjavík þegar slysið varð. Hefðbundin störf hennar við að halda heimili utan vinnutíma valdi því ekki að slíkt komi inn í ákvörðun viðmiðunarlauna sem liggi til grundvallar útreikningi á varanlegri örorku. Verði því að miða árslaun stefnanda við einföld viðmið, sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga enda hafi meðaltekjur hennar síðustu þrjú almanaksárin fyrir slysið verið lægri en þar komi fram. Þá mótmæla stefndu stuðli þeim sem stefnandi notar við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku, sbr. 6. gr. skaðabótalaga, en hann hafi á stöðugleikapunkti verið 9,895 en ekki 10,083. Stefndu mótmæla einnig launaviðmiði stefnanda, sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sem rangt uppreiknuðu. Samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 4. mars 2004 í máli nr. E-363/2003 skuli það viðmið uppreiknað til stöðugleikapunkts, þ.e. til 1. maí 2004, en þá hafi lánskjaravísitala verið 4581 stig. Samkvæmt því skuli launaviðmið vera: 1.200.000 x (4581/3282) = 1.674.954- 1.675.000 krónur. Hafi stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., lagt ofangreint viðmið til grundvallar þegar stefnanda hafi verið greiddar skaðabætur.
Loks krefjast stefndu þess að til frádráttar bótum vegna varanlegrar örorku komi greiðslur sem stefnandi eigi rétt á að fá frá þriðja manni á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Skoruðu stefndu á stefnanda að veita upplýsingar um þær greiðslur. Vegna ósamvinnuþýðni stefnanda við að veita upplýsingar um rétt hennar í þessu efni hafi stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. ekki átt annan kost en þann að áætla þennan frádrátt og hafi miðað í því sambandi við 7.000.000 króna, sem hann telji nokkuð nærri lagi.
Stefndu byggja á því, að þau hafi haft fullan rétt til að draga frá bótum vegna varanlegrar örorku áætlað eingreiðsluverðmæti þeirra félagslegu bóta, sem stefnandi eigi rétt á að fá frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum til framtíðar, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og það ákvæði hafi verið skýrt í réttarframkvæmd, sbr. m.a. Hrd. 18. september 2003 í málinu nr. 520/2002 og Hrd. frá 27. nóvember 2003 í málinu nr. 233/2003. Í báðum þessum dómum sé því jafnframt hafnað að ákvæði þetta færi gegn 65. gr. og/eða 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Stefndu benda á að skorað hafi verið á stefnanda að upplýsa um rétt sinn hjá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum til að unnt hefði verið að reikna eingreiðsluverðmæti greiðslna frá þessum aðilum en við því hafi stefnandi ekki orðið. Stefndu telja sig í engri aðstöðu til að meta þennan ætlaða rétt stefnanda, enda sé það Tryggingastofnun ríkisins sem meti hvort einstaklingur uppfylli skilyrði þess að fá greiðslur á grundvelli almannatryggingalaga, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar og reglugerð nr. 379/199, um örorkumat. Þetta mat geti því aðeins farið fram að einstaklingur sýni samstarfsvilja og gangi að fúsum og frjálsum vilja undir matið. Sönnunarbyrðin hvíli því á stefnanda að þessu leyti á grundvelli almennra sönnunarreglna. Hið sama gildi um ætlaðan rétt stefnanda til greiðslna úr lífeyrissjóðum til framtíðar. Það hvíli á stefnanda að upplýsa um þann rétt á grundvelli sömu sjónarmiða.
Þjáningabætur, sbr. 3. gr. skaðabótalaga.
Stefnanda hafi verið greiddar þjáningabætur fyrir 344 daga, og sé tjón hennar vegna þjáninga, með því að fullu bætt.
Annað fjártjón, sbr. 1. gr. skaðabótalaga. Stefndu byggja á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, sem falli undir hugtakið „annað fjártjón” í skilningi 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga.
Tímabundið atvinnutjón, sbr. 2. gr. skaðabótalaga.
Stefndu byggja á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna tímabundinnar fjarveru hennar frá vinnu, sbr. 2. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á tekjutap hennar á umræddu tímabili vegna fjarverunnar. Þannig hafi stefnandi ekki lagt fram gögn um þau laun sem hún hafi fengið greidd frá vinnuveitanda sínum á fjarverutímabilinu, eða aðrar greiðslur sem hún kunni að hafa fengið á tímabilinu frá þriðja manni og koma eigi til frádráttar greiddum bótum, sbr. 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga. Skoruðu stefndu á stefnanda að leggja fram þessar upplýsingar.
Bætur fyrir röskun á stöðu og högum.
Stefndu byggja á því að ekki séu uppfyllt skilyrði þess að greiddar skuli bætur til stefnanda vegna „röskunar á stöðu og högum”, eins og það hafi verið nefnt í skaðabótarétti. Samkvæmt réttarframkvæmd eigi slíkt nær eingöngu við þegar um sé að ræða röskun á framvindu náms vegna slyss. Aðstæður stefnanda hafi ekki verið með þeim hætti.
Bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga.
Stefndu byggja á því, að ekki séu uppfyllt skilyrði 26. gr. skaðabótalaga um að dæmdar verði miskabætur á grundvelli þeirrar greinar til viðbótar miskabótum samkvæmt 3. og 4. gr. skaðabótalaga. Stefndu mótmæla því að tjón stefnanda verði rakið til stórfellds gáleysis stefnda, Helga. Stefndi, sem verið hafi á löglegum hraða þegar slysið varð, hafi átt erfitt með að sjá bifreið stefnanda, sem verið hafi kyrrstæð á veginum þegar slysið hafi orðið, fyrr en of seint, enda hafi bifreið, sem ekið hafi á undan honum, skyndilega verið sveigt fram hjá bifreið stefnanda. Stefndi, Helgi, hafi því hvorki brotið gegn 14. gr. né 25. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, a.m.k. ekki gróflega. Hér geti í mesta lagi verið um að ræða einfalt gáleysi af stefnda hálfu. Af þessum sökum séu skilyrði 26. gr. skaðabótalaga til greiðslu miskabóta ekki uppfyllt.
Stefndu benda og á að frádráttur á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga skuli fara fram óháð því hvort stefnandi hafi sótt um eða muni sækja um þær bætur sem hún eigi rétt á að fá frá Tryggingastofnun og eða lífeyrissjóðum. Stefndu byggja á að dómstólar hafi túlkað ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga með þeim hætti að ekki eigi aðeins að miða við að til frádráttar komi greiðslur sem hafi verið greiddar stefnanda á stöðugleikapunkti heldur skuli einnig draga frá skaðabótum áætlað eingreiðsluverðmæti ógreiddra framtíðargreiðslna.
Stefndu benda og á að umrædd ákvæði skaðabótalaga hafi verið sett með stjórnskipulegum hætti með það í huga að fjárhagsskaði tjónþola yrði fullbættur og standist ákvæðin 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Stefndu benda og á að í 6. gr. skaðabótalaga sé að finna margfeldisstuðul sem reiknaður hafi verið af tryggingastærðfræðingi á grundvelli ákveðinna forsendna með það að markmiði að dæmdar bætur endurspegli hið raunverulega tjón tjónþola. Eðli máls samkvæmt hafi breyting á skaðabótalög bitnað misjafnlega á tjónþolum, en frádráttur á grundvelli 4. mgr. 5. gr. verði ekki af þeim sökum óheimill.
Stefndu mótmæla því einnig, að stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., hafi með ólögmætum hætti hafnað lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt bótakafla umferðarlaga, en bæturnar skulu ákvarðast á grundvelli skaðabótalaga, en ekki með öðrum aðferðum.
Einnig mótmæla stefndu því að frádráttur eingreiðsluverðmætis framtíðarbóta frá Tryggingastofnun sem og lífeyrissjóðum frá skaðabótum á grundvelli skaðabótalaga brjóti í bága við 65. gr. eða 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá mótmæla stefndu því sem röngu að íslenskir ríkisborgarar njóti ekki sama bótaréttar og erlendir ríkisborgarar eða að slíkt megi lesa út úr ákvæðum umferðarlaga.
Þá telja stefndu að tilvísun stefnanda til mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu og samnings Íslands um hið Evrópska efnahagssvæði og reglugerða og tilskiana Evrópusambandsins, málinu algerlega óviðkomandi.
Þá hafna stefndu því, að færsla hins stefnda félags í bótasjóð félagsins málinu algerlega óviðkomandi og geti stefnandi ekki krafist þeirrar fjárhæðar á grundvelli almennra reglna um ólögmæta auðgun. Af þeim sökum verði stefndu ekki við áskorun um að upplýsa um þá fjárhæð sem færð var í bótasjóðinn vegna slyssins eða hve mikið sjóðurinn hafi vaxið frá gildistöku skaðabótalaga. Af sömu sökum telja stefndu ekki þörf á að upplýsa um hvernig iðgjöld félagsins vegna bifreiðatrygginga voru ákvörðuð árin 2002 og 2003.
Stefndu telja að útreikning skaðbóta til handa stefnanda vegna líkamstjóns hennar skuli fara fram á grundvelli skaðabótalaga en ekki öðrum grundvelli.
Stefndu mótmæla því sérstaklega að vextir skuli leggjast á bætur stefnanda fyrir varanlega örorku fyrr en stöðugleikapunkti var náð, sbr. 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga, en stöðugleikapunktur hafi verið ákveðinn hinn 1. maí 2004. Einnig mótmæla þau því sérstaklega að dráttarvextir reiknist frá fyrra tímamarki en dómsuppsögudegi, þar sem ástæða þess að fullnaðargreiðsla hafi ekki farið fram verði alfarið rakin til háttsemi stefnanda sjálfs.
Varakröfu sína byggja stefndu á sömu sjónarmiðum og aðalkröfu.
Um lagarök vísa stefndu til skaðabótalaga nr. 50/1993, laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, reglugerðar nr. 379/1999, um örorkumat.
Kröfu um vexti byggja stefndu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggja stefndu á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Eins og að framan hefur verið lýst lenti stefnandi í umferðarslysi hinn 1. júní 2003 og slasaðist hún það alvarlega að hún hlaut örorku af, sem metin hefur verið til örorkustigs af dómkvöddum matsmönnum.
Í málinu er ekki deilt um bótaskyldu stefndu, en ágreiningur aðila lýtur að útreikningi bóta og hvort greiðslur frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum eigi að koma þar til frádráttar. Hefur stefnandi neitað að upplýsa um rétt sinn til bóta frá almannatryggingum eða lífeyrissjóðum og ekki heimilað stefndu að afla þeirra upplýsinga fyrir sína hönd. Hefur stefnandi lýst því yfir að hún hafi ekki og muni ekki sækjast eftir greiðslum vegna slyssins hvorki úr almannatryggingakerfinu eða lífeyrissjóðum.
Á þeim tíma er stefnandi varð fyrir slysinu hafði skaðabótalögum nr. 50/1993 verið breytt með lögum nr. 37/1999, þar sem m.a. er gert ráð fyrir að til frádráttar bótum komi greiðslur af félagslegum toga, sem komi í hlut tjónþola vegna örorkunnar. Hefur Hæstiréttur í dómum sínum skýrt það svo, að bætur frá almannatryggingum, sem tjónþolar eigi rétt til, komi til frádráttar bótagreiðslum og þær skuli reiknast til eingreiðsluverðmætis á viðmiðunartímapunkti.
Kröfu sína um bætur byggir stefnandi á skaðabótalögum og gerir í máli þessu kröfu á hendur stefndu til greiðslu tiltekinnar fjárhæðar. Ber henni því að upplýsa um öll þau atriði sem áhrif geta haft á útreikning bótanna og hún getur sannanlega upplýst um, til þess að dómur verði lagður á það hvort henni beri sú fjárhæð, sem hún krefur stefndu um. Með því að leggja ekki fram umbeðin gögn er krafa stefnanda það óljós og málatilbúnaður hennar svo óskýr að samræmist ekki meginreglu einkamálalaga nr. 91/1991, um skýran og glöggan málatilbúnað. Verður við svo búið ekki unnt að leggja efnisdóm á málið. Ber því með vísan til e-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, að vísa málinu frá dómi ex officio.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt, eins og mál þetta er vaxið, að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.
Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem dagsett er 29. nóvember 2004. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þykir, með hliðsjón af niðurstöðu málsins, hæfilega ákveðinn 236.500 krónur, þar af málflutningsþóknun lögmanns stefnanda 200.000 krónur og útlagður kostnaður 36.500 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 236.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar af málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Steingríms Þormóðssonar hrl., 200.000 krónur.